Hæstiréttur íslands

Mál nr. 688/2012


Lykilorð

  • Ölvunarakstur


                                              

Fimmtudaginn 17. október 2013.

Nr. 688/2012.

Ákæruvaldið

(Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari)

gegn

Grétari Magnússyni

(Brynjar Níelsson hrl.)

Ölvunarakstur.

G var sakfelldur fyrir ölvunarakstur og akstur bifreiðar sviptur ökuréttindum í tvö skipti, auk þess að hafa í öðru tilvikinu ekið gegn rauðu ljósi. Með vísan til sakarferils G var refsing hans ákveðin fangelsi í fjóra mánuði og svipting ökuréttar ævilangt áréttuð.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 14. nóvember 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er krafist staðfestingar héraðsdóms.

Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins.

Í málinu er ákærða meðal annars gefið að sök að hafa tvívegis ekið sviptur ökuréttindum og undir áhrifum áfengis svo sem nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi, í fyrra skiptið með akstri bifreiðarinnar MA 518 hinn 27. september 2010 og hið seinna sinni með akstri bifreiðarinnar SY 659 hinn 3. desember sama ár. Sýknukrafa ákærða er á því reist að ósannað sé að hann hafi verið ökumaður bifreiða þessara umrædd skipti.

Hinn 27. september 2010 var ökumaður bifreiðarinnar MA 518 handtekinn og færður á lögreglustöðina á Akranesi til yfirheyrslu þar sem hann gaf upp kennitölu ákærða. Var í framhaldinu flett upp í ökutækjaskrá og brotamannaskrá eftir þeirri kennitölu sem ökumaður gaf upp og töldu lögreglumenn ljóst við athugun á sextán ára gamalli mynd af ákærða í brotamannaskránni að hann væri ökumaður bifreiðarinnar. Ökumaður skrifaði síðan undir skýrslu lögreglunnar og ber sú undirskrift með sér að vera rituð sömu hendi og undirskrift ákærða 14. desember 2010 á fyrirkall til að mæta við þingfestingu málsins í héraði, undirskrift hans 3. desember sama ár um móttöku tilkynningar frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og á skráningareyðublað vegna töku öndunarsýnis sem fylgdi tilkynningunni. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða vegna þessa ákæruatriðis. 

Um seinna ákæruatriðið er þess að geta sem fyrr segir að fram er komið í málinu að ákærði skrifaði 3. desember 2010 undir tilkynningu frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og á skráningareyðublað vegna töku öndunarsýnis sem fylgdi tilkynningunni með sömu rithönd og kemur fram á undirskrift hans 14. desember 2010 um fyrirkall til að mæta við þingfestingu málsins. Þá taldi einn lögreglumanna sem handtók ákærða umrætt sinn sig hafa þekkt hann vegna fyrri afskipta af honum. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður einnig staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða vegna þessa ákæruatriðis.

Með hliðsjón af sakarferli ákærða verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms um refsingu ákærða staðfest.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Samkvæmt yfirliti ákæruvaldsins nemur sakarkostnaður fyrir Hæstarétti 14.025 krónum. Ákærða verður gert að greiða þann kostnað auk málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns eins og þau verða ákveðin í dómsorði að meðtöldum virðisaukaskatti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Grétar Magnússon, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 265.025 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar, hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 21. febrúar 2012.

Mál þetta höfðaði lögreglustjórinn á Akranesi með ákærum 2. nóvember 2010 og 12. maí 2011 á hendur ákærða, Grétari Magnússyni, kt. [...], Blikahólum 2 á Akranesi. Málið var dómtekið 17. febrúar 2012.

Í ákæruskjali 2. nóvember 2010 er ákærðu gefið að sök„ umferðarlagabrot á Akranesi, með því að hafa, mánudaginn 27. september 2010, ekið bifreiðinni MA-518 sviptur ökuréttindum og undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 2,3 0/00), vestur Akrafjallsveg uns lögreglan stöðvaði aksturinn í nágrenni við Þaravelli.

Brot ákærða þykir varða við 1. mgr. sbr. 3. mgr. 45. gr., 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997, sbr. 186. gr. laga nr. 82/1998 og 3. gr. laga nr. 24/2007.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. og 102. gr. nefndra umferðarlaga sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993, 8. gr. laga nr. 84/2004 og 18. gr. laga nr. 66/2006.“

Í ákæruskjali 12. maí 2011 er ákærða gefið að sök „umferðarlagabrot í Reykjavík, með því að hafa, föstudaginn 3. desember 2010, ekið bifreiðinni SY-659 sviptur ökuréttindum og undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 1,1 mg/l), út af bifreiðastæðinu við verslunina „Fiskikónginn“ inn á Sogaveg, norður Grensásveg og vestur Miklubraut, og ekið yfir gatnamót Miklubrautar og Háaleitisbrautar gegnt rauðu ljósi, uns lögreglan stöðvaði aksturinn rétt austan megin við gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar.

Brot ákærða þykir varða við 1. mgr. 5. gr., 1. mgr. sbr. 3. mgr. 45. gr., 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997, sbr. 186. gr. laga nr. 82/1998 og 3. gr. laga nr. 24/2007.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. og 102. gr. nefndra umferðarlaga sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993, 8. gr. laga nr. 84/2004 og 18. gr. laga nr. 66/2006.“

Ákærði krefst þess í báðum tilvikum að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð.

I.

Mánudaginn 27. september 2010 barst lögreglunni á Akranesi tilkynning um að hugsanlega væri ölvaður ökumaður í Hvalfjarðargöngum á leið norður. Segir í skýrslu lögreglu að lögreglumenn hafi mætt bifreiðinni MA-514 er ekið hafi verið vestur Akrafjallsveg. Aksturslag hafi verið einkennilegt og hafi þeir gefið ökumanni merki um að stöðva bifreiðina. Ökumaður sem hafi verið ákærði hafi verið beðinn um að blása í SD2 áfengismæli og hafi niðurstaða mælingar verið 1,80 ppm. Ákærði hafi verið handtekinn grunaður um ölvun við akstur. Hafi hann verið fluttur á lögreglustöð þar sem blóðsýni hafi verið tekið frá honum. Á lögreglustöð hafi komið í ljós að ákærði væri sviptur ökuréttindum ævilangt og að bifreið sú er hann ók hafi verið ótryggð. Var ákærða að svo búnu sleppt. Við yfirheyrslu hjá lögreglu kvaðst ákærði hafa verið við drykkju nóttina áður og fengið sér afréttara um morguninn en hann var handtekinn kl. 12.10 hinn 27. september 2010. Hann kvaðst hafa hafið drykkju að morgni dagsins áður, drukkið allan daginn og fengið sér afréttara morguninn eftir eins og áður segir. Ekki kvaðst hann vita hversu mikið hann hefði drukkið. Hann sagðist hafa verið að koma frá Reykjavík og ekið Vesturlandsveg um Hvalfjarðargöng. Hann kvaðst ekki hafa fundið til áfengisáhrifa við aksturinn. Niðurstaða alkóhólákvörðunar í blóði ákærða var sú að í blóði hans hafi mælst 2,30 0/00 í umrætt sinn. Samkvæmt ökuferilsskrá ákærða var hann sviptur ökuréttindum ævilangt er atvik málsins urðu.

Ákærði neitaði sök við þingfestingu málsins en kom ekki fyrir dóm við aðalmeðferð málsins.

Vitnið A lögregluvarðstjóri skýrði frá því í skýrslu sinni fyrir dómi að umrætt sinn hefði lögregla fengið tilkynningu um að aksturslag ökumanns á bifreið væri undarlegt. Fór hún ásamt vitninu B á vettvang og mættu þau bifreið sem ekið var mjög hægt. Stöðvuðu þau ökumann og var hann handtekinn, grunaður um að aka undir áfengisáhrifum. Á lögreglustöð kom í ljós að ökumaður var ákærði en vitnið bar mynd úr safni lögreglu saman við ökumann. Vitnið B lögreglumaður bar fyrir dómi að tilkynnt hefði verið um hugsanlegan ölvunarakstur. Lögreglumennirnir hefðu mætt gamalli Mercedes Benz bifreið og hefði aksturslag ökumanns verið einkennilegt. Bifreiðin hefði verið stöðvuð og ökumaður reynst undir áfengisáhrifum. Þau hefðu staðreynt nafn hans með því að bera saman við myndir úr skrá yfir brotamenn.

Sannað er með framburði lögreglumanna að ákærði var ökumaður bifreiðarinnar MA-514 umrætt sinn. Samkvæmt því sem að framan hefur verið rakið þykir sannað, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, að ákærði hafi sviptur ökurétti ekið í umrætt sinn undir áhrifum áfengis. Verður brot ákærða talið varða við 1., sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987.

II.

Hinn þriðja desember 2010 voru lögreglumenn staddir á Bústaðavegi í Reykjavík við Háaleitisbraut þegar tilkynnt var um hugsanlega ölvaðan ökumann á bifreiðinni SY-659 sem væri á bifreiðastæði við Fiskikónginn á Sogavegi.

Lögreglumenn voru komnir á Sogaveg þegar þeir  sáu hvar bifreiðinni SY-659 var ekið frá bifreiðastæðinu við Fiskikónginn og ekið inn á Sogaveg. Hafi henni síðan verið ekið norður Grensásveg og síðan vestur Miklubraut á vinstri akrein og yfir gatnamót Miklubrautar og Háaleitisbrautar gegnt rauðu ljósi. Lögreglumenn kveiktu á viðvörunarljósum lögreglubifreiðar og stöðvaði ökumaður ekki bifreið þá er hann ók fyrr en skammt austan við gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Lögreglumaður hafi gefið sig á tal við ökumann sem hafi reynst valtur á fæti, verið þvoglumæltur og óhreinlegur í máli og mátt hafi finna áfengisþef frá vitum hans. Var hann handtekinn kl. 15.37 vegna gruns um ölvun við akstur. Hafi hann ekki viljað tjá sig um sakarefnin. Hann hafi verið fluttur á lögreglustöðina að Hverfisgötu og blásið þar í EVIDENZER og endanleg niðurstaða um magn alkóhóls í blóði hafi verið 1,11 mg/l. Í ljós hafi komið að hann væri sviptur ökurétti ævilangt. Lögregla hafi sannreynt hver hann væri með því að fletta upp í brotamannakerfi Lögreglukerfisins og bera saman við mynd af ákærða þar.

Ákærði neitaði sök við þingfestingu málsins en kom ekki fyrir dóm við aðalmeðferð málsins.

Vitnið C lögreglumaður skýrði frá því að tilkynning hefði borist um að hugsanlega væri ölvaður ökumaður á ferð rétt við Fiskikónginn við Sogaveg. Hafi hann ásamt vitninu D lögreglumanni farið á vettvang og séð bifreiðinni SY-659 ekið frá Fiskikónginum inn á Sogaveg. Fylgdu þeir bifreiðinni eftir en henni hafi verið ekið norður Grensásveg og vestur Miklubraut og yfir gatnamót Miklubrautar og Háaleitisbrautar gegnt rauðu ljósi uns ökumaður stöðvaði bifreið sína austan við gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar að boði lögreglu. Hafi vitnið séð ölvunareinkenni á ökumanni og hafi hann verið handtekinn og færður á lögreglustöð. Lögregla kannaði eignarhald á bifreið þeirri sem ökumaður ók og gengu úr skugga um hver ökumaður væri með því að bera kennsl á hann eftir myndum í brotamannaskrá.

Vitnið D lögreglumaður lýsti atvikum með sama hætti í skýrslu sinni fyrir dómi. Fram kom hjá vitninu að hann bar kennsl á ákærða sem ökumann vegna þess að hann þekkti hann vegna starfa sinna.

Þá kom vitnið E, eigandi bifreiðarinnar SY-659 fyrir dóminn og kvað ákærða hafa stolið bifreiðinni umrætt sinn en þeir hefðu verið hjá vinafólki beggja í Keflavík. Vitnið hafi verið sofandi er bifreiðin var tekin.

Sannað er með framburði lögreglumanna að ákærði var ökumaður bifreiðarinnar SY-659 umrætt sinn. Þá rennur framburður vitnisins E stoðum undir að ákærði hafi verið ökumaður bifreiðarinnar umrætt sinn. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið þykir sannað, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, að ákærði hafi sviptur ökurétti ekið í umrætt sinn undir áhrifum áfengis og gegnt rauðu ljósi. Verður brot ákærða talið varða við 1. mgr. 5. gr., 1. mgr. sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987 eins og greinir í ákæru.

III.

Ákærði hefur unnið sér til refsingar samkvæmt 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987.

Ákærði, sem er á fimmtugasta aldursári hefur frá árinu 1979  hlotið fjölmarga dóma og gengist undir viðurlög fyrir dómi og hjá lögreglu fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Ákærði hlaut síðast dóm fyrir ölvunarakstur 13. febrúar 2008 en þá var honum gerð fangelsisrefsing í 2 mánuði og ævilöng svipting ökuréttar áréttuð.

Ákærði er nú sakfelldur fyrir ölvunarakstur og akstur sviptur ökurétti í tvö skipti, fyrir hefur hann þrisvar verið sakfelldur fyrir ölvunarakstur og tvisvar fyrir akstur sviptur ökurétti. Að virtum þessum sakaferli þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fjögurra mánaða fangelsi.

Ákærði hefur verið sviptur ökurétti ævilangt frá 11. september 1998 Með vísan til 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga ber að árétta þá sviptingu.

Loks verður ákærði samkvæmt 1. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála dæmdur til greiðslu sakarkostnaðar samkvæmt yfirliti lögreglu um sakarkostnað og ákvörðun dómsins um málsvarnarlaun verjanda, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Allan V. Magnússon, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Grétar Magnússon, sæti fangelsi í fjóra mánuði.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.

Ákærði greiði 229.855 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar, hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.