Hæstiréttur íslands
Mál nr. 365/2015
Lykilorð
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Bifreið
- Uppgjör
- Fyrirvari
- Matsgerð
- Fyrning
- Gjafsókn
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. maí 2015. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 3.546.000 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 8. apríl 2010 til 10. febrúar 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Rétt er að málsaðilar beri hvor sinn málskostnað fyrir Hæstarétti.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 600.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. mars 2015.
Mál þetta, sem var dómtekið 16. febrúar sl., var höfðað 3. apríl 2014.
Stefnandi er A, […].
Stefndi er Vörður tryggingar hf., Borgartúni 25 í Reykjavík.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefnda verði gert að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 3.546.000 krónur með 4,5% vöxtum frá 8. apríl 2010 til 10. febrúar 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. febrúar 2014 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar, auk virðisaukaskatts, líkt og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.
I
Stefnandi lenti í umferðarslysi 11. janúar 2007. Hann ók eftir Reykjanesbraut þegar [bifreið] var skyndilega ekið í veg fyrir hann. Stefnandi leitaði í kjölfarið á [heilbrigðisstofnun], vegna eymsla í baki, hálsi og öxlum. Stefnandi kveðst í framhaldinu hafa glímt við margvísleg einkenni, svo sem óþægindi í hálsi og mjóbaki, sem leiði út í hægri hlið líkamans og upp í höfuð. Verkirnir valdi honum mikilli streitu sem skerði lífsgæði hans.
Málsaðilar óskuðu í sameiningu mats samkvæmt skaðabótalögum á líkamstjóni stefnanda vegna umferðarslyssins og voru B læknir, sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum, og C hæstaréttarlögmaður fengnir til verksins. Samkvæmt niðurstöðu þeirra, dags. 25. febrúar 2008, var varanlegur miski stefnanda 2 stig og varanleg örorka 0%. Í kjölfarið greiddi stefndi stefnanda bætur í samræmi við framangreinda niðurstöðu. Við bótauppgjörið, sem fór fram 17. apríl 2009, gerði stefnandi fyrirvara við „mat á varanlegri örorku og varanlegum miska“.
Þann 1. júlí 2013 óskaði stefnandi eftir því við Héraðsdóm Reykjavíkur að dómkvaddir yrðu tveir matsmenn til að meta að nýju afleiðingar umferðarslyssins og voru D hæstaréttarlögmaður og E bæklunarskurðlæknir dómkvaddir til verksins 18. október 2013. Er matsgerð þeirra dagsett 14. desember 2014. Var það niðurstaða matsmanna að varanlegur miski væri 5 stig og varanleg örorka 5% vegna slyssins. Stefnandi krafði stefnda um frekari bætur vegna umferðarslyssins á grundvelli niðurstöðu dómkvaddra matsmanna með bréfi, dags. 10. janúar 2014. Stefndi hafnaði kröfunni með bréfi, dags. 10. febrúar 2014.
Við aðalmeðferð málsins gaf E læknir skýrslu.
II
Stefnandi kveður ágreining aðila lúta að því hvort bótakrafa stefnanda sé fyrnd samkvæmt fjögurra ára reglu 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Samkvæmt ákvæðinu fyrnist allar bótakröfur samkvæmt XIII. kafla laganna, bæði á hendur þeim sem beri ábyrgð og vátryggingafélagi, svo og endurkröfur vátryggingafélags, á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Kröfur þessar fyrnist þó í síðasta lagi á tíu árum frá tjónsatburði. Stefnandi byggi á því að kröfur hans séu ekki fyrndar.
Málsóknin sé reist á 89., 90., 91. og 95. gr., sbr. 97. gr., umferðarlaga nr. 50/1987. Bifreiðin […], sem ekið hafi verið á bifreið stefnanda með saknæmum og ólögmætum hætti, hafi verið tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda. Bifreiðin hafi verið í eigu F ehf., en félagið hafi verið úrskurðað gjaldþrota 7. febrúar 2008. Stefndi hafi viðurkennt bótaskyldu sína vegna árekstursins 11. janúar 2007 og greitt stefnanda bætur vegna hans, sem hann hafi tekið við með fyrirvara.
Í læknisvottorði G, heila- og taugaskurðlæknis, dags. 30. apríl 2013, komi fram að við læknisskoðun 6. mars 2013 séu einkenni frá mjóbaki verri, samanborið við skoðun í örorkumati 2008. Læknirinn telji að afleiðingar slyssins séu meiri en árið 2008. Þá sé ekki raunhæft að stefnandi geti vænst frekari bata . Með framangreindu vottorði G læknis hafi stefnandi fyrst fengið vitneskju um að ástand hans væri verra en samkvæmt fyrri matsgerð og myndi ekki breytast til batnaðar. Þá fyrst hafi stefnandi átt þess kost að leita fullnustu kröfu um frekari bætur. Krafa hans hafi því ekki verið fyrnd samkvæmt 99. gr. umferðarlaga þegar mál þetta hafi verið höfðað 20. mars 2014.
Í matsgerð dómkvaddra matsmanna, D hæstaréttarlögmanns og E bæklunarskurðlæknis, komi fram að stefnandi hafi verið til meðferðar hjá H, löggiltum sjúkraþjálfara, frá 2. ágúst 2007 til 26. október 2009, en skráð hafi verið yfir 100 meðferðarskipti. Þá komi fram að hafa verið í huga að þegar stefnandi hafi lent í slysinu hafi hann æft og keppt í […] í mörg ár. Hann hafi því tímabundið verið betur í stakk búinn en almennt gerist til að takast á við afleiðingar slyssins. Þegar frá líði geti afleiðingar áverka eins og þessa farið að koma fram af meiri þunga og valda meiri óþægindum en í fyrstu.
Í þessu felist staðfesting dómkvaddra matsmanna á því að afleiðingar slyssins hafi ekki komið fram fyrr en löngu síðar, vegna líkamlegs ástands stefnanda. Ekkert í málinu hnekki framangreindri niðurstöðu um að síðari breytingar hafi valdið því að frekari afleiðingar yrðu af líkamstjóni stefnanda.
Stefnandi hafi tekið við bótum á grundvelli örorkumats frá 25. febrúar 2008 með skýrum fyrirvara, þar sem hann hafi áskilið sér rétt til frekari bóta vegna varanlegra afleiðinga vegna breytinga á heilsufari sínu. Það sé ljóst að breytingar hafi orðið á heilsufari stefnanda á árunum þar á eftir sem hafi valdið því að stefnandi öðlaðist frekari skaðabótarétt á hendur stefndu. Tjónið hafi ekki verið að fullu sannreynt fyrr en á árinu 2013 með vottorði G, heila- og taugaskurðlæknis, og síðar með mati dómkvaddra matsmanna, dags. 14. desember 2013. Krafan hafi því ekki verið fyrnd þegar málið hafi verið höfðað.
Krafa stefnanda sé reiknuð í samræmi við skaðabótalög nr. 50/1993 og niðurstöður dómkvaddra matsmanna. Samkvæmt matsgerð sé varanlegur miski stefnanda, skv. 4. gr. skaðabótalaga, vegna afleiðinga slyssins 3 stig. Krafan sé því 3% x 10.094.000 krónur =302.820 krónur.
Dómkvaddir matsmenn hafi metið varanlega örorku stefnanda, skv. 5.-7. gr. skaðabótalaga, vegna afleiðinga slyssins 5%. Stöðugleikapunktur sé 11. apríl 2007. Þá hafi stefnandi verið 32 ára og 129 daga gamall. Margfeldisstuðull skv. 6. gr. skaðabótalaga sé því 129/365 af mismuninum á margföldunarstuðli 32 ára manns og 33 ára manns. Stuðullinn sé því 12,29 (12,367 – 12,150 = 0,217 x 129/365 = 0,077. 12,367 – 0,077 = 12,29).
Laun stefnanda síðustu þrjú árin fyrir slysið hafi verið:
|
Ár |
Tekjur kr. |
Vísitala ársins |
Vísitala á stöðugleikatímapunkti |
Samtals kr. |
|
2004 |
3.517.508 |
250,3 |
314,6 |
4.421.127 |
|
2005 |
4.237.472 |
267,2 |
314,6 |
4.989.179 |
|
2006 |
5.142.007 |
292,7 |
314,6 |
5.526.735 |
Meðallaun stefnanda skv. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga séu 5.277.755 krónur, að meðtöldu 6% framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs. Vegna þessa þáttar sé því krafist 5.277.755 x 12,29 x 5% = 3.243.180 krónur.
Krafa stefnanda sé því samtals:
Bætur vegna varanlegs miska kr. 302.820,-
Bætur vegna varanlegrar örorku kr. 3.243.180,-
Samtals kr. 3.546.000,-
Vaxtakrafa stefnanda sé byggð á 16. gr. skaðabótalaga, auk laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafist sé dráttarvaxta frá 10. febrúar 2014, samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga nr. 38/2001, þegar mánuður hafi verið liðinn frá því að stefnandi hafi krafið stefnda bréflega um greiðslu skaðabóta. Þá hafi öll gögn, sem stefndi þurfti til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta, legið fyrir.
Krafa stefnanda um skaðabætur sé byggð á ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993. Um aðild stefnda sé vísað til 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga og 97. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Málskostnaðarkrafa byggist á 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafist sé málskostnaðar líkt og málið væri ekki gjafsóknarmál. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og því sé nauðsynlegt að taka tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar. Um varnarþing vísist til 33. gr. laga um meðferð einkamála.
III
Stefndi kveður óumdeilt að slys stefnanda hafi verið bótaskylt á grundvelli 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Bótaskyldan hafi verið hlutræn enda ekkert fram komið um að slysið mætti rekja til bilunar í búnaði bifreiðarinnar eða ógætni ökumannsins. Stefndi telji hins vegar að allt tjón stefnanda vegna slyssins sé að fullu bætt.
Sýknukrafa stefnda byggist á því að krafa stefnanda sé fyrnd samkvæmt 99. gr. umferðarlaga. Samkvæmt ákvæðinu fyrnist bótakrafa á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs sem kröfuhafi fær vitneskju um kröfu sína og á þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Ákvæðið taki til allra bótakrafna sem eigi undir XIII. kafla sömu laga, þ.e. fébóta og vátryggingar, bæði á hendur þeim, sem beri ábyrgð og vátryggingarfélagi, svo og endurkröfur vátryggingarfélags.
Við mat á því hvenær tjónþoli megi gera sér grein fyrir kröfu sinni og geti fyrst leitað fullnustu hennar beri að beita hlutlægum mælikvarða. Samkvæmt dómvenju skuli við mat á upphafi fyrningarfrests fyrst og fremst líta til þess hvenær fyrst hafi verið tímabært að meta afleiðingar slyssins að mati matsmanna. Stefndi telji að stefnandi hafi fyrst átt þess kost að leita fullnustu kröfu sinnar þegar matsgerð B og C frá 25. febrúar 2008 hafi legið fyrir. Í málinu liggi fyrir tvær matsgerðir, annars vegar áðurnefnd framangreind matsgerð frá 25. febrúar 2008, og hins vegar mat dómkvaddra matsmanna frá 14. desember 2013. Matsgerðunum beri saman um það að heilsufar stefnanda hafi verið orðið stöðugt 11. apríl 2007, þ.e. batahvörfum hafi verið náð samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Dómkvaddir matsmenn telji þannig engin ný einkenni hafa komið fram hjá stefnanda frá því fyrra mat hafi verið framkvæmt, enda sé stöðugleikapunktur sá sami. Stefndi byggi þar af leiðandi á því að stefnandi hafi fengið vitneskju um kröfu sína og átt þess fyrst kost að leita fullnustu hennar 25. febrúar 2008 þegar matsgerð B og C hafi legið fyrir. Fyrningarfrestur kröfunnar hafi þannig í síðasta lagi byrjað að líða við lok ársins 2008, í samræmi við 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, og þannig lokið fjórum árum síðar, í árslok 2012. Krafa stefnanda hafi því verið fyrnd þegar málið hafi verið höfðað með birtingu stefnu á hendur stefnda 3. apríl 2014.
Því sé sérstaklega mótmælt að stefnanda sé tækt að byggja á því að honum hafi ekki verið kunnugt um ástand sitt fyrr en með læknisvottorði G dags. 30. apríl 2013. Það vottorð marki ekki upphaf fyrningarfrests samkvæmt 99. gr. umferðarlaga. Í læknisvottorðinu komi fram að ástand stefnanda sé á þeim tíma með þeim hætti að hann eigi […] frá fyrra sambandi, búi einn í leiguhúsnæði og sé fráskilinn. Stefnandi sofi 4-5 tíma en vakni vegna verkja frá mjóbaki og hægra fæti. Hann sé alltaf slæmur á morgnana þegar hann vakni og fari á fætur. Á kvöldin sé hann andlega og líkamlega þreyttur. Hann taki […] íbúfen og […] paratabs töflur daglega. Jafnframt kemur fram að honum finnist ástand sitt hafa verið óbreytt í fjögur ár. Í matsgerð dómkvaddra matsmanna komi aftur á móti fram að stefnandi sé […]. Hann lýsi einkennum sínum m.a. svo að hann sofi ekki nema 6-7 tíma á nóttu, en taki engin lyf vegna verkjanna þar sem hann sé á móti öllum lyfjum. Af framangreindu sé ljóst að mikið ósamræmi sé milli upplýsinga í læknisvottorði, dags. 30. apríl 2013, og matsgerðar dómkvaddra matsmanna, en matsfundur hafi farið fram 25. nóvember 2013. Stefndi telji að af þessum sökum verði ekki á nokkurn hátt byggt á vottorði G læknis í málinu. Þó sé vert að halda til haga yfirlýsingu stefnanda sem fram komi í vottorðinu um að ástand hans hafi verið óbreytt í fjögur ár þegar skoðunin hafi farið fram. Sú yfirlýsing stefnanda styðji enn frekar þá staðreynd að krafa stefnanda sé fyrnd.
Matsgerð dómkvaddra matsmanna hafi ekki meira sönnunargildi en matsgerð sú sem aðilar hafi komið sér saman um að æskja í janúar 2008 og stefndi byggði uppgjör sitt við stefnanda á. Samkvæmt matsgerð dómkvaddra matsmanna hafi engin ný einkenni komið fram hjá stefnanda frá því fyrra mat hafi verið framkvæmt. Báðar matsgerðirnar tilgreini tognun í baki sem afleiðingar slyssins. Í matsgerð B og C frá 25. febrúar 2008 sé fjallað um skoðun á matsfundi en þar segi: „Við frambeygju í baki vantaði tæplega 5 cm á að fingurgómar næðu að gólfi. Engin óþægindi komu fram við þessa hreyfingu eða við hliðarheyfingar og snúningshreyfingu. Hins vegar komu fram óþægindi neðst í mjóbaki við að sveigja hrygginn afturábak. Óveruleg og óviss eymsli fundust í mjóbaki neðst en ekki yfir spjaldhrygg eða spjaldliðum.“ Í matsgerð dómkvaddra matsmanna segi m.a. um skoðun á matsfundi: „Við skoðun á brjóstbaki eru hreyfingar eðlilegar og ekki áberandi eymsli yfir vöðvum eða hryggjartindum. Við skoðun á mjóbaki er sveigja mjóbaks eðlileg. Þegar hann beygir sig fram með beina ganglimi nær hann fingrum nánast að gólfi. Rétta er stirð og hann á erfitt með réttu. Hann hallar eðlilega um mjóbak. Eymsli eru yfir hliðlægum vöðvum á lendhryggjar svæði, nokkuð jafnt beggja vegna. Ekki eymsli yfir hryggjartindum. Eymsli eru yfir rassvöðvafestum á mjaðmarkamb.“ Ekki sé gott að átta sig á því í hverju hækkun á miskastigi í matsgerð dómkvaddra matsmanna liggi. Helst verði að líta svo á að dómkvaddir matsmenn telji mjóbakseinkennin meiri en fyrri matsmenn hafi talið. Engin umfjöllun sé um það í matsgerðinni að einkenni hafi versnað frá því að fyrra mat hafi farið fram. Þannig fjalli báðar matsgerðirnar um mat á sömu áverkum og einkennum.
Stefnandi beri áhættuna af sönnunargildi matsgerðar dómkvaddra matsmanna sem hann hafi óskað eftir. Hann hafi ekki leitað mats á því hvort breytingar hefðu orðið á varanlegum afleiðingum slyssins frá fyrra mati og ef svo væri hvort um væri að ræða ófyrirsjáanlega breytingu og þá í hverju sú breyting væri fólgin og hverju næmi í stigum talið, eins og gert sé ráð fyrir í 11. gr. skaðabótalaga. Engar nýjar upplýsingar hafi legið fyrir um ástand stefnanda þegar nýtt mat hafi farið fram. Stefnandi verði að bera hallann af því. Virðist munur milli matsgerða í raun fela í sér meiningarmun matsmanna án þess að breytingar á líkamlegu ástandi stefnanda gefi tilefni til þess. Í ljósi framangreinds telji stefndi að seinni matsgerð hnekki ekki þeirri fyrri.
Fyrir liggi að stefnandi hafi lagt stund á áreynsluíþróttir nánast frá slysdegi, en hann hafi lent í fyrsta sæti á […] árin 2007, 2008 og 2009. Mikla þjálfun og áreynslu þurfi til að komast í það form sem stefnandi hafi verið í þegar hann hafi sigraði á þessum mótum. Af upplýsingum um keppni í […] megi sjá að þar reyni á […]. Í karlaflokki […]. Ætla verði að æfingar sem þessar geti haft mikil áhrif á líkamann og oft og tíðum til hins verra. Lítið sem ekkert sé fjallað um áhrif þessa í matsgerð dómkvaddra matsmanna.
Stefndi byggi einnig á því að stefnandi hafi ekki fært sönnur á að hann eigi rétt til endurskoðunar á bótauppgjöri vegna umferðarslyssins. Hann geti ekki reist kröfu sína um endurskoðun á skaðabótauppgjöri á þeim fyrirvara sem gerður hafi verið við bótauppgjörið. Stefndi hafi gert upp við stefnanda bætur á grundvelli matsgerðar frá 2008. Þáverandi lögmaður stefnanda hafi ritað undir kvittunina fyrir hans hönd og gert almennan fyrirvara við mat á varanlegri örorku og varanlegum miska. Engin gögn liggi fyrir um hvernig skýra eigi þennan fyrirvara. Hann verði ekki skýrður svo að stefnandi hafi áskilið sér rétt til endurupptöku bótaákvörðunar vegna þess að matið sem stefndi byggi á kunni að vera rangt. Allt að einu virðist mat dómkvaddra matsmanna, sem aflað hafi verið eftir uppgjör skaðabóta, fela í sér endurskoðun á fyrra mati og lúta einvörðungu að því að þeir séu annarrar skoðunar um matsefni en upphaflegir matsmenn. Nýrra matið fjalli ekki um síðar fram komnar breytingar á metnum einkennum stefnanda eða mat á einkennum sem síðar hafi komið fram þar sem slíku sé ekki til að dreifa. Stefnanda sé því ekki unnt að byggja endurupptökukröfu sína á nefndum fyrirvara stefnanda við bótauppgjör 17. apríl 2009.
Auk þeirra lagaraka er þegar hafi verið vísað til sé vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála varðandi kröfu um málskostnað. Krafist sé álags á málskostnað er nemi virðisaukaskatti. Stefndi reki ekki virðisaukaskattskylda starfsemi og beri því nauðsyn til að fá dæmt álag er þeim skatti nemi úr hendi stefnanda.
IV
Stefnandi lenti í umferðarslysi þann 11. janúar 2007, er bifreið var ekið í veg fyrir bifreið hans. Stefndi viðurkenndi bótaskyldu sína og greiddi stefnanda bætur í samræmi við niðurstöðu örorkumats B læknis og C hæstaréttarlögmanns. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort krafa stefnanda sé fyrnd, sbr. 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, og gildi fyrirvara sem gerður var við uppgjör milli aðila. Óumdeilt er að krafa stefnanda lýtur ekki að endurupptöku samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Ágreiningslaust er að krafa stefnanda fyrnist á fjórum árum, en ágreiningur er um upphaf fyrningarfrestsins. Samkvæmt 99. gr. umferðarlaga fyrnast kröfur, samkvæmt XIII. kafla laganna, á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs er kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar, þó aldrei síðar en tíu árum frá tjónsatburði.
Eins og að framan greinir hefur stefnandi tvisvar sinnum gengist undir mat á varanlegum miska og varanlegri örorku vegna slyssins í janúar 2007. Aðilar komu sér saman um að leita örorkumats þeirra B læknis og C hæstaréttarlögmanns. Í matsgerð þeirra frá 25. febrúar 2008 var varanlegur miski stefnanda metinn 2 stig og varanleg örorka 0%. Í niðurstöðu dómkvaddra matsmanna, D hæstaréttarlögmanns og E bæklunarskurðlæknis, frá 14. desember 2013, er hins vegar talið að varanlegur miski stefnanda sé 5 stig og varanleg örorka 5% vegna slyssins.
Stefnandi leitaði til heilsugæslu strax eftir slysið. Árið á eftir leitaði hann nokkrum sinnum til heilsugæslu og var einnig skoðaður af bæklunarskurðlækni. Þá leitaði hann til sjúkraþjálfara í ágúst 2007 og sótti yfir 100 tíma hjá honum frá þeim tíma fram til ársins 2009. Í gögnum málsins kemur fram að stefnandi hafi stundað […] og keppt í […] fyrir slysið og í um tvö ár eftir það.
Stefnandi leitaði til G, heila- og taugaskurðlæknis, 6. mars 2013, og ritaði læknirinn vottorð að beiðni lögmanns hans, dags. 30. apríl 2013. Stefnandi byggir á því að hann hafi fyrst með framangreindu vottorði fengið vitneskju um að ástand hans væri verra en greindi í matsgerð frá árinu 2008 og myndi ekki breytast til batnaðar. Hann hafi því ekki átt þess kost að leita fullnustu kröfu um frekari bætur fyrr en á árinu 2013 og krafa hans sé því ekki fyrnd.
Við mat á því hvenær fyrningarfrestur hafi byrjað að líða verður að líta til fyrirliggjandi matsgerða og læknisvottorðs G. Í matsgerð B og C frá árinu 2008 er stöðugleikapunktur talinn vera þremur mánuðum eftir slysdag, eða 7. apríl 2007, en þá hafi ekki verið frekari breytinga að vænta á heilsufari tjónþola. Er það niðurstaða þeirra að stefnandi hafi hlotið mjóbakstognun. Í matsgerðinni kemur fram að stefnandi hafi alla tíð stundað íþróttir og m.a. keppt bæði í […] og […]. Hann hafi þurft að sleppa a.m.k. tveimur [mótum] veturinn 2007, en í samráði við sjúkraþjálfara ákveðið að hefja aftur æfingar fyrir [mót] í nóvember 2007. Hann hafi tekið þátt í mótinu og sigrað. Stefnandi telji að æfingarnar geri sér gott og hjálpi mikið til við bata af bakóþægindum. Hann búist þó við því að draga úr […] þar sem þær fari illa í bakið. Í samantekt og áliti matsmanna kemur fram að stefnandi hafi dregið mjög úr æfingum við […] vegna óþæginda sem þeim fylgi. Matsmenn telja að líkamlegt ástand stefnanda hafi verið ákaflega gott fyrir slysið og þau vægu tognunareinkenni er rekja megi til slyssins ekki vera þess eðlis að þau muni draga úr starfsgetu eða skerða tekjuöflunarhæfi hans með öðrum hætti.
Í framangreindu læknisvottorði G greinir að einkenni frá mjóbaki séu verri borið saman við skoðun í örorkumati 2008. Hann telur afleiðingar slyssins vera tognanir í hálsi, brjóstbaki og mjóbaki. Varðandi framtíðarhorfur svarar hann því til að nú, að liðnum sex árum og umfangsmikilli meðferð, sé ekki raunhæft að vænta bata. Þá telur hann afleiðingarnar meiri en í örorkumatinu frá 2008 þar sem mjóbakstognunin sé lágt metin og ekki séu metnar afleiðingar tognunar í brjósthrygg. Þá kemur fram í vottorðinu að stefnandi hafi stundað fjölþætta sjúkraþjálfun og verið til meðferðar hjá osteopata, en í heildina finnist honum ástandið hafa verið óbreytt síðustu fjögur ár.
Í matsgerð E og D frá árinu 2013 er heilsufar stefnanda talið hafa verið orðið stöðugt þremur mánuðum eftir slysið, eins og talið var í fyrra mati. Segir í matsgerðinni að það sé læknisfræðilegt mat á því hvenær talið verði að óverulegra breytinga hafi verið að vænta á heilsufari viðkomandi eftir slys. Fram kemur að stefnandi hafi stundað […] á slystíma og keppt í […] mörg ár fyrir slysið og tvö ár eftir það. Hann hafi hins vegar gefist upp á að æfa og keppa í […] vegna bakverkja. Í dag hafi hann nokkur einkenni frá baki, rassvöðvasvæði hægra megin og frá hægri ganglim. Þá kemur fram að þegar stefnandi hafi lent í slysinu hafi hann vegna góðs líkamlegs ástands verið tímabundið betur í stakk búinn en almennt gerist til að takast á við afleiðingar slyssins. Þegar frá líði geti afleiðingar áverka, eins og hann hafi sannanlega orðið fyrir, farið að koma fram af meiri þunga og valda meiri óþægindum en í fyrstu hafi verið raunin. Einkenni þau sem stefnandi hafi í dag komi heim og saman við þann áverka er hann hafi hlotið í slysinu 2007 og þar sem ekki liggi fyrir aðrar skýringar á þeim telji matsmenn ekki forsendur til annars en að álykta svo að orsakasamband sé þar fyrir hendi. Matsmaðurinn E skýrði frá því fyrir dóminum að um væri að ræða að afleiðingar slyssins hefðu komið betur fram með tímanum, en við matið árið 2008 hefðu þær ekki verið komnar fram af fullum þunga. Hann staðfesti að matsmenn teldu stöðugleikapunkt vera 11. apríl 2007, en taldi að hugsanlega hefði mátt setja hann síðar þar sem afleiðingarnar hafi ekki verið að fullu komnar fram á þeim tíma.
Eins og hér hefur verið rakið er stöðugleikapunktur talinn vera 11. apríl 2007 í báðum matsgerðum, en þá hafi ekki verið að vænta frekari bata og heilsufar stefnanda orðið stöðugt. Framangreindu mati hefur ekki verið hnekkt. Af síðari matsgerðinni er ekki að sjá að um sé að ræða ný einkenni hjá stefnanda, heldur það að einkennin hafi ekki verið komin að fullu fram við fyrri matsgerð árið 2008. Í fyrri matsgerðinni er, eins og lýst hefur verið hér að framan, litið til þess að stefnandi hafi stundað íþróttir og verið í mjög góðu líkamlegu ásigkomulagi við slysið. Þá kemur fram að hann hafi haldið áfram að æfa […] og […], en reikni með að draga úr þeim og hafi raunar þegar gert það að miklu leyti. Verður því ekki annað séð en að matsmenn hafi litið til góðs líkamlegs ástands stefnanda og þess að breyting gæti orðið þar á. Ljóst er að verkir vegna meiðsla, svo sem þeirra er stefnandi hlaut, geta minnkað og aukist í einhverjum mæli og verður að líta svo á að tekið sé tillit til þess við matið, svo sem matsmönnum ber að gera. Verður því að líta svo á að síðari matsgerðin sé í raun endurmat á sömu afleiðingum umferðarslyssins og metnar voru í fyrri matsgerðinni, en ekki sé um að ræða síðari breytingar sem valdið geti því að nýr fyrningarfrestur hefjist.
Af framangreindu leiðir að miða verður við að stefnandi hafi fengið vitneskju um kröfu sína og átt þess fyrst kost að leita fullnustu hennar 25. febrúar 2008 þegar matsgerð B og C lá fyrir. Fyrningarfrestur kröfunnar byrjaði því að líða við lok þess árs og var fjögurra ára fyrningarfrestur runninn út þegar málið var höfðað 3. apríl 2014. Krafa stefnanda er því fallin niður fyrir fyrningu og verður stefndi því sýknaður af kröfu hans.
Með hliðsjón af atvikum málsins og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.
Stefnandi hefur gjafsókn í máli þessu samkvæmt bréfi innanríkisráðuneytisins 24. júní 2013. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ. á m. málflutningsþóknun lögmanns hans, Tómasar Hrafns Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 1.050.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Vörður tryggingar hf., er sýkn af kröfu stefnanda, A.
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ. á m. þóknun lögmanns hans, 1.050.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.