Hæstiréttur íslands
Mál nr. 440/2016
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Skaðabætur
- Sératkvæði
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 26. maí 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega ómerkingar héraðsdóms, til vara að hann verði sýknaður, en að því frágengnu að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð.
A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 1.200.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Krafa ákærða um ómerkingu hins áfrýjaða dóms er reist á því að héraðsdómara hafi frá öndverðu mátt vera ljóst að niðurstaða um sök ákærða myndi ráðast af mati á sönnunargildi munnlegra skýrslna hans og brotaþola sem gefnar yrðu fyrir dómi. Héraðsdómara hafi ekki verið nauðsyn á að kveðja til sérfróða meðdómsmenn eftir að niðurstaða yfirmatsmanna lá fyrir, enda ekki deilt um slíkar staðreyndir að þeirra væri þörf. Af þeirri ástæðu og þar sem ákærði neiti sök hafi dómstjóri átt að ákveða að þrír héraðsdómarar skipuðu dóm í málinu, sbr. ákvæði 4. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þar sem ekki hafi verið farið eftir þeim ákvæðum beri að ómerkja hinn áfrýjaða dóm.
Eins og atvikum málsins háttar má fallast á með ákærða að héraðsdómara hafi frá upphafi mátt vera ljóst að niðurstaða málsins myndi ráðast af sönnunargildi munnlegra skýrslna ákærða og brotaþola fyrir dómi. Að því er jafnframt að gæta að í málinu voru tvær matsgerðir, þar sem afstaða var tekin til þess hvort sú nuddaðferð sem ákærði beitti umrætt sinn væri það sem nefnt var í gögnum málsins „viðurkennd aðferð í nuddfræðum“ en um það var ágreiningur. Við þessar aðstæður var þeirra kosta völ að dómstjóri tæki ákvörðun um að þrír héraðsdómarar skipuðu dóm, sbr. 4. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008, eða að kvaddir yrðu til tveir meðdómsmenn með sérkunnáttu, sbr. 3. mgr. lagagreinarinnar. Samkvæmt þessu og með hliðsjón af því að 4. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 veitir heimild en kveður ekki á um skyldu eru ekki efni til að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til nýrrar meðferðar. Er þá einnig litið til þess, að þegar lögð var fram í málinu yfirmatsgerð skýrði héraðsdómari frá því að hann hafi kvatt löggiltan sjúkranuddara og endurhæfingarlækni til setu í dóminum, og voru af hálfu ákærða engar athugasemdir gerðar af því tilefni.
Ákærði reisir kröfu sína um ómerkingu í annan stað á því að niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi hafi verið röng svo einhverju skipti um úrslit málsins. Atvikum er um það sem einhverju skiptir rétt lýst í hinum áfrýjaða dómi að því frátöldu að ákærða og brotaþola ber saman um að hún hafi legið á maganum á nuddbekk ákærða þegar hann fór þess á leit við hana að hún afklæddist nærhaldi sínu.
Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi er í meginatriðum samræmi í frásögn ákærða og brotaþola fyrir dómi um rás atburða allt frá því er hún kom inn á nuddstofuna, lagðist á magann á nuddbekk og ákærði tók að nudda bakhluta líkama hennar. Hins vegar greinir þau á um atvikin eftir að brotaþoli sneri sér við á bekknum og ákærði hóf að nudda framhluta líkamans. Héraðsdómur mat framburð brotaþola trúverðugan en framburð ákærða á hinn bóginn ótrúverðugan um tiltekin atriði málsins.
Við skýrslutöku hjá lögreglu skýrði ákærði svo frá að hönd hans hefði runnið til og „lítill partur af einum puttanum fer inn í klofið á henni“ eins og hann komst að orði og að hann „hefði getað misst alla puttana þarna.“ Síðar við skýrslugjöfina fórust ákærða svo orð að „hluti af þessum fingri fór inn í prívat ... partinn á henni“ og hafi hann „aldrei þrætt fyrir það.“ Þegar ákærði var nánar aðspurður við sömu skýrslutöku hvort hann viðurkenndi að hafa snert og sett fingur inn í leggöng brotaþola svaraði ákærði því játandi, en kvað það hafa gerst óvart. Hann bætti því síðan við að hann héldi að hann væri „nokkuð heppinn að hendin fór bara ekki öll inn“. Frásögn ákærða um framangreind atriði var við skýrslugjöf fyrir dómi nokkuð á annan veg. Þar kvaðst hann halda að hann hafi ekki runnið til en hann „hafi bara ekki ... séð þetta nægilega vel, þannig að smávegis af nöglinni snerti sköpin á henni.“ Þegar ákærði var í framhaldinu beðinn um að lýsa því hversu langt fingur hans hefði farið inn í leggöng brotaþola sagði hann að það hefði verið „bara smávegis af nöglinni ... bara sko utanverðu, en samt sko á skinninu fyrir utan“. Hann hafi „aldrei farið ... inn í leggöngin á henni ... það var voðalega lítið af puttanum sem snerti þetta svæði.“ Ákærði hefur ekki gefið trúverðugar skýringar á því misræmi sem að þessu leyti var í frásögn hans við skýrslutöku hjá lögreglu og fyrir dómi. Samkvæmt þessu og að virtum þeim atriðum sem rakin eru í hinum áfrýjaða dómi verður ekki vefengd niðurstaða hans um sakfellingu ákærða, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008, sem verður þannig staðfest.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um heimfærslu háttsemi ákærða til refsiákvæðis, refsingu hans, sakarkostnað og einkaréttarkröfu.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Sverrir Hjaltason, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 988.798 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 744.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Einars Gauts Steingrímssonar hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur.
Sératkvæði
Ólafs Barkar Þorvaldssonar
I
Í máli þessu er ákærða gefið að sök að hafa á nuddstofu sem hann starfrækti haft önnur kynferðismök en samræði við brotaþola með því að beita hana ofbeldi eða ólögmætri nauðung. Er í ákærunni tiltekið að ákærði, sem hafi starfað sem nuddari í 22 ár, hafi látið brotaþola, sem var í nuddi hjá honum vegna vandamála í mjóbaki, afklæðast nærbuxum, káfað á kynfærum hennar þar sem hún lá nakin á nuddbekk og sett fingur í leggöng brotaþola, henni að óvörum.
Er háttsemi ákærða heimfærð til 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara við 199. og 209. gr. sömu laga.
Ég er samþykkur atkvæði meirihluta dómenda um að engin haldbær rök séu fyrir því að málinu skuli vísað heim í hérað til nýrrar meðferðar sökum skipunar héraðsdóms.
II
Í héraðsdómi var tiltekið að brotaþoli hafi við skýrslugjöf sína fyrir dómi kveðið fastar að orði um málsatvik en hún gerði hjá lögreglu. Lýsti hún því fyrir dómi að ákærði hefði nokkrum sinnum komið við skapabarma hennar og sníp og strokið brjóst hennar með annarri hönd á sama tíma. Eftir að hafa reynt að örva snípinn hefði hann stungið fingri hálfa leið inn í leggöng hennar. Er misræmi í framburði hennar skýrt með því að brotaþoli hafi verið í miklu uppnámi við skýrslugjöf fyrir dómi og framburður hennar þar metinn trúverðugur.
Í héraðsdómi var jafnframt tiltekið að ákærði hefði ekki skýrt frá atvikum á sama hátt við meðferð málsins hjá lögreglu og fyrir dómi. Er í því sambandi í fyrsta lagi nefnt að ákærði sé vanur nuddari og því ljóst mikilvægi þess að hafa fullt samráð við brotaþola þegar nuddað væri nálægt kynfærasvæði og að skjólstæðingurinn væri upplýstur um hvert skref, sem og tilgang með því. Þrátt fyrir þetta hefði ákærði lýst því fyrir dóminum að hann hefði helst ekki viljað nudda brotaþola þar sem hún hefði verið erfiður skjólstæðingur. Engu að síður hefði ákærði ákveðið, undir lok meðferðar og án þess að leita samþykkis, að þrýsta á vöðva við spangarsvæði brotaþola, enda þótt hann hefði nánast ekkert þekkt hana og hún verið í sínum fyrsta meðferðartíma hjá honum. Þá hefði ákærði farið þess á leit við brotaþola að hún afklæddist nærbuxum en hefði lak yfir hluta líkamans. Hafi þetta gert enn ríkari kröfur um að ákærði sýndi mikla aðgát og tillitssemi við nuddið. Sé framburður ákærða um þessa háttsemi sína með talsverðum ótrúverðugleikablæ. Þá hefði verið misræmi í framburði ákærða hjá lögreglu og fyrir dómi um ástæður þess að fingur hans snerti sköp brotaþola. Hjá lögreglu hefði hann sagst hafa runnið til í kremi og af þeim ástæðum snert sköpin. Fyrir dómi hefði hann á hinn bóginn borið að hann hefði ekkert krem notað á þetta svæði og það ekki verið ástæða þess að fingur hans kom við sköp brotaþola. Þá var tilgreint í héraðsdómi að líta yrði til þess að nudd á eða við spangarsvæði væri á sérstaklega viðkvæmu svæði líkamans. Væru nánast engar líkur á að nuddara yrðu á þau mistök að snerta sköp skjólstæðings við meðhöndlun þessa svæðis. Loks var til þess vísað að brotaþoli hefði verið í uppnámi eftir nuddið og greinst með áfallastreituröskun í kjölfarið.
III
Eins og málið liggur fyrir verður að taka ítarlega upp framburð ákærða hjá lögreglu er lýtur að framangreindu misræmi í frásögn hans um ástæður þess að fingur hans snerti sköp brotaþola. Um þetta sagði ákærði í frjálsri frásögn við skýrslugjöf hjá lögreglu: „Nú síðan sko það er nú allt í lagi sko þú veist sem að gerir þetta stundum sko erfitt að það er náttúrulega krem á öllu og þetta er sleipt nú ég hélt að ég gæti farið annan sko frá ... „different angel“ sko þú veist niður, ég lyfti ekki upp af því hún er út svona og ég hélt að ef ég mundi færa mig þá renn ég og lítill partur af einum puttanum fer inn í klofið á henni, ég fraus algerlega, ég vissi ekkert hvað ég átti að gera ég var alveg gjörsamlega búinn en hugsaðu þér ég hefði getað misst alla puttana þarna, það er það agalegasta en engu að síður ég held áfram klára hana og síðan bara hérna dreg ég allt lakið yfir hana og ég vanalega klára allt nudd með því að nudda háls og hár og andlit bara svona nokkurs konar afslökun. Nú ég er að reyna að tala við hana og eitthvað og hún er bara svona uhm, já ég gleymdi einu hún sagði „ekki gera þetta“ þegar ég gerði þú veist þegar puttinn fór inn sko hún gæti hafa sagt eitthvað annað en ég bara man það ekki ég var algerlega bara þú veist búmm þetta hefur heldur aldrei komið fyrir áður.“
Ákærði tók fram við sömu skýrslutöku að vanalega væri hann „í miklu betra sambandi við viðkomandi“ en hann „rann til og hluti af, af þessum fingri fór inn í prívat part, prívat partinn á henni og hún sagði „æ nó ég vil þetta ekki“. Þá var ákærði spurður hvort hann meinti leggöng þegar hann talaði um prívat partinn og sagði hann „já“, en þegar hann var spurður hvort hann hefði farið inn í leggöng þá komst hann svo að orði: „Já það svona já.“ Nánar aðspurður um hvort það væri rétt skilið að fingurinn hefði runnið til vegna þess að það hafi verið mikið krem þá svaraði ákærði ekki játandi heldur sagði: „Sko það er hlutinn en það er líka að sko meginfeillinn á þessu var ... undirbúningsvinnan af minni hálfu“. Bætti hann við að hann hefði getað staðið öðruvísi að í þessu tilviki. Ítrekað spurður um hvort brotaþoli hefði verið „öll í kremi“ er hann var að „nudda í kringum kynfærasvæðið“ þá svaraði ákærði engu um það, heldur sagði: „Sko, mér varð á að, að, ég hef alltaf fram, framkvæmt þetta með því að lyfta fætinum upp og svo út til hliðar, hún, hún lá svona á bekknum ég var að nudda hana og ég hélt að ef ég mundi nudd sko lyfta skipta um anga þá mundi ég komast inn á sama stað en það, það bara gerði það ekki.“ Reyndi ákærði í framhaldinu að útskýra aðferð þá sem hann beitti umrætt sinn með þeim afleiðingum sem að framan greinir, en minntist ekkert á krem í því sambandi. Enn aðspurður um hvort hann hafi „rennt hendinni í klof hennar snert sníp hennar og stungið putta í leggöngin á henni“, þá svaraði ákærði með spurningu: „Það er, er það ekki þetta sem að þegar ég var að ýta þá fór, þá fór hluti af, af puttanum inn?“ Sagði þá lögreglumaðurinn: „Þú telur það að þetta sé?“ Sagði ákærði þá: „Já það, það er sko það er ekkert ég hef aldrei þrætt fyrir það.“ Ítrekað aðspurður um ætluð mistök þá sagði ákærði: „Af því að ég var sko, sko ástæðan fyrir því er sú að ég er alltaf að líta á hana og hún er að slaka á þetta er mjög sárt og ég er eingöngu að gera þetta til þess að halda henni rólegri áður en ég fer inn, þetta er mjög sárt, ég hélt að ég gæti nálgast þetta með því að bara fara með hendina og beint niður í stað í staðinn fyrir að lyfta hendinni á henni upp lyfta henni út og fara beint inn, það, það, það fór ég sko þar ég fór ég illa að ráði mínu og svo er þetta náttúrulega svo er ég náttúrulega búinn að setja krem á sko allan skrokkinn þannig að það gerir það náttúrulega ennþá, ennþá hættulegra.“ Loks kom fram hjá ákærða að hann hefði oft nuddað konur í samræmi við þessa aðferð sem hann hefði lært í erlendis. Margítrekaði hann að hafa orðið mjög brugðið við að svo fór sem fór, auk þess sem hann hafi ekki hugað nægilega að því að vara brotaþola við að hann myndi nudda kringum kynfærasvæði.
Þá er nauðsynlegt að tíunda nokkur atriði úr framburði ákærða við aðalmeðferð fyrir dómi, en þar tiltók hann sérstaklega að langt væri liðið frá atvikum og því erfitt að lýsa þeim í nægilega vel. Kvaðst hann hafa nuddað „stóra lærvöðvann svo fer ég í innralærið og svo ætlaði ég að, að athuga hvort að þú veist, það er einn, einn vöðvi þarna í grindarbotni myndi geta sko hugsanlega verið í slæmu ástandi. Og það er þá þegar að, þegar að þetta óhapp skeður. Að ég einhverra hluta vegna, ég held ég hafi nú ekki runnið til, ég held ég hafi bara ekki, ekki séð þetta nægilega vel, þannig að smávegis af nöglinni snerti sköpin á henni.“ Nánar aðspurður um „hversu langt fingurinn fór inn í leggöngin“ svaraði ákærði: „Hann var bara, það var bara smávegis af nöglinni. Það var svo lítið að það er mest, ég held að bara, þegar að ég fer að hugsa um þetta, ætli það hafi ekki verið bara sko utanverðu, en samt sko á skinninu fyrir utan, ég hafi aldrei farið inn, inní, inní leggöngin á henni. Ég, ég er sko, ég er ekki sko, alveg viss um þetta. Ég, ég, jú, það er kannski, en það var voðalega lítið af puttanum sem snerti þetta svæði.“ Um krem á því svæði sem um ræðir komst ákærði svo að orði: „Ja, sko ég í, ég, ég get ekki sko, það er ekkert krem þarna á þessu svæði því að ég hef ekkert með að, að, að setja krem innan á næst við prívatið á henni. En, ég var ekki nægilega sko, að, að hugsa um það kannski, hvernig í hvaða aðstöðu hún var. En ég hélt bara að þetta myndi bara bjargast. Þannig, þannig var það nú.“ Ítrekaði hann síðar sérstaklega aðspurður að hann hefði ekki borið krem „inná hennar svæði. Þannig að ég rann ekki til í neinu.“
Eins og áður greinir vísar héraðsdómur til þess að misræmi hafi verið í frásögn ákærða hjá lögreglu og fyrir dómi um hvort hann hafi borið krem nærri kynfærasvæði brotaþola og hvort ástæða þess að fingur hans snerti sköp hennar hafi verið sú að hann hafi runnið til í kremi. Frásögn ákærða er ruglingsleg um flest. Gildir raunar hið sama um lýsingu hans á öðru en sakaratriðum. Því verður að líta á skýrslu ákærða hjá lögreglu í samhengi við ruglingslegan frásagnarmáta hans, en hann mun hafa búið lengi erlendis. Af því sem að framan er rakið úr skýrslu ákærða hjá lögreglu verður þó ekki með öruggum hætti ráðið að hann hafi lýst því þar að hafa borið krem á umrætt svæði. Frekar virðist sem hann vilji segja að brotaþoli hafi verið þakin kremi á öðrum svæðum líkamans. Verður ekki fallist á með héraðsdómi að af misræmi í lýsingum ákærða um notkun krems megi draga sérstaka ályktun um sekt hans.
Eins og áður segir játaði ákærði strax við skýrslugjöf hjá lögreglu að hafa rekið fingur í sköp brotaþola. Við skýrslugjöf fyrir dómi dró hann nokkuð úr um hvert nákvæmlega hann telji að fingur sinn hafi farið. Er á þetta atriði bent í atkvæði meirihluta dómenda Hæstaréttar.
Samkvæmt því sem að framan er rakið og öðru í framburði ákærða verður ekki talið að hann sé kjarnyrtur eða nákvæmur í lýsingum sínum á atvikum. Þó gerði hann fyrirvara sem laut að því hversu langur tími leið frá atvikum þar til hann gaf skýrslu fyrir dómi. Svo dæmi sé tekið komst ákærði vissulega svo að orði hjá lögreglu að hann hefði verið „bara nokkuð heppinn að hendin fór bara ekki öll inn“. Á hinn bóginn má hafa í huga að þessi orð viðhafði ákærði í samhengi við eftirfarandi orð: „sko þú veist ég, ég bara er, er búinn að, að, á sko og líða bara verulega illa út af því að, að þetta kom fyrir eins og ég segi sko ég átti mér var sagt að þau ætluðu að hafa samband við mig annað hvort ... kona hans eða hún og ég er búinn að hringja í hana og hún svaraði ekki þannig að þetta, allt þetta kemur mér verulega á óvart.“
Héraðsdómur vísaði ekki til misræmis eða óljósrar frásagnar um þau atriði sem greinir í atkvæði meirihluta dómenda Hæstaréttar við rökstuðning við mat sitt á trúverðugleika framburðar ákærða þar fyrir dómi. Verður því ekki hér fyrir dómi byggt á þessu við mat á sekt ákærða, sbr. 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
IV
Þegar hugað er að framangreindum rökum, sem héraðsdómur tilgreindi að leiða skyldi til þess að framburður ákærða teldist ótrúverðugur, verður einnig að hafa í huga aðdraganda þess að brotaþoli fór til meðferðar hjá ákærða. Brotaþoli bar um að hún hefði verið á byrjendanámskeiði í svokölluðu [...] og tognað verulega í mjóbaki við lyftingar í hnébeygju. Hamlaði það henni verulega við einföld atriði eins og að hjóla og hefði hún einungis getað farið í léttar æfingar einu sinni til tvisvar í viku. Hefði hún átt við þessa erfiðleika að stríða í eitt ár. Hafði hún fengið upplýsingar frá vinum sínum og fólki sem stundaði íþróttina að ákærði væri „mikill svona íþróttanuddari og ... nuddaði harkalega og vel“ og hversu einstaklega góður hann væri við að ráða bót á erfiðum íþróttameiðslum. Munu sameiginlegt vinafólk ákærða og brotaþola hafa ráðlagt henni að fara til ákærða í nudd þar sem hann væri með sérstakar aðferðir sem reynst hefðu afar vel. Í skýrslugjöf annars þeirra fyrir dómi kom fram að ákærði hefði, nokkrum dögum áður en brotaþoli fór í nuddið, sagt sér frá aðferð sem hann hefði lært erlendis, þar sem nuddað væri nálægt leggöngum með mögnuðum árangri. Ákærði bar einnig í þessa veru. Sagði hann brotaþola hafa hringt til sín vegna mikilla og þrálátra vandræða í mjóbaki, en látið fylgja með að hún væri „[...] manneskja“ og komst hann svo að orði að „[...] manneskjur eru ekki svona viðkvæmar fyrir, fyrir líkamspörtum.“ Vegna þessa hafi hann ákveðið að nota þá sérstöku en lítt þekktu aðferð sem hann hefði lært og notað í sex ár er fælist meðal annars í nudda „innanvert mjaðmabeinið mjög nálægt prívat part á konum“.
Þá er nægilega fram komið í málinu að ákærði var nokkuð eftirsóttur hjá vissum hópi íþróttamanna sökum sérstakra og óvenjulegra aðferða sinna við nudd. Til að mynda kom fram hjá vitni, sem mun hafa annast þjálfun íþróttamanna í [...], að ákærði nuddaði með góðum árangri lið sem hann þjálfaði áður en það fór á heimsmeistaramót í greininni. Að sínu áliti hefðu sérstakar aðferðir ákærða hentað íþróttamönnum mjög vel. Hann hafi nuddað mjög fast, ýtt harkalega á ýmsa punkta og eftir atvikum nuddað nára og ýtt nálægt kynfærum, en nudd á þeim stöðum væri mikilvægt fyrir þá sem væru keppnismenn í íþróttinni. Báru hann og tveir aðrir afreksmenn í íþróttinni einnig um aðferðir ákærða. Töluðu tveir þeirra um að nuddað hefði verið nálægt kynfærum, að fengnu samþykki þeirra.
Meðal gagna málsins eru ýmis skírteini sem bera með sér kunnáttu ákærða í nuddfræðum, þar með þeirri tegund sem hér er til skoðunar. Þá liggja fyrir í málinu undir- og yfirmat dómkvaddra manna. Er matsfundi og helstu niðurstöðum yfirmatsgerðar lýst í héraðsdómi og samanburði aðferðar ákærða við aðferðir sjúkranuddara á Íslandi. Fram er komið að enginn matsmanna sagðist hafa þekkt þá nuddaðferð sem ákærði beitti áður en þeir hófu matsstörf sín. Komust yfirmatsmenn að því að aðferð ákærða væri óvenjuleg en bæði þekkt og viðurkennd sums staðar erlendis. Gæti hún komið að notum vegna verkja eins og brotaþoli átti við að stríða.
Eins og fram kemur í héraðsdómi staðfestu yfirmatsmenn í skýrslugjöf þar að sú aðferð sem ákærði segðist beita gæti í ákveðnum tilvikum gagnast skjólstæðingum. Kom fram hjá þeim að sjúkranuddarar myndu ekki nudda á þeim stað sem ákærði gerði þar sem hann væri svo nálægt kynfærum. Jafnframt þyrfti að byggja upp traust milli sjúkranuddara og skjólstæðings áður en farið yrði svo nærri kynfærum og það yrði ekki gert í fyrsta nuddtíma. Þá þyrfti að upplýsa skjólstæðing vel um hvert þrep í nuddinu og hver væri tilgangurinn í hverju og einu. Loks var tiltekið að einn matsmanna hefði nuddað karlalandslið í handknattleik í tæp 30 ár, oft nærri nára en fingur hefði aldrei runnið til og snert kynfæri.
Til viðbótar þessu er rétt að nefna að einn yfirmatsmanna varð hissa er hann frétti af þessari nuddaðferð, en lét fylgja að hún þekktist í Bandaríkjum Norður Ameríku, þar sem brotaþoli mun búa og væri notuð hjá fólki er stundaði [...], en þar ríktu „öðruvísi viðhorf“ til svona atriða. Var hann lítt hrifin af aðferðinni sem hann kvaðst ekki myndu beita. Taldi hann þó að aðferðin gæti gagnast, en byði hættunni heim um að svona „mistök“ ættu sér stað. Nokkrir sentimetrar væru milli kynfæra og endaþarms, oft væri mikil olía og þetta væri „voðalega hættulegt“ og kannski væri betra að hafa lækni viðstaddan auk þess sem máli skipti hvort skjólstæðingur samþykkti þessa aðferð. Ákærði væri „búinn að læra þetta, þó að það hlýtur ekki að ske, það átti ekki að ske. Þá var bara hitti er skeð, voru mistök.“ Annar yfirmatsmaður kvað einnig að aðferð þessi hefði verið matsmönnum óþekkt en eftir könnun þá hefði það verið niðurstaða þeirra „að í ákveðnum tilfellum gæti þetta alveg virkað fínt.“ Nefndi hún jafnframt að matsmenn væru sjúkranuddarar en ekki „almennir nuddarar“, en þetta væru „svolítið tveir heimar.“ Ítarleg kynning yrði þó að fara fram fyrir skjólstæðingi áður en þessari aðferð yrði beitt við sjúkranudd. Nánar aðspurð um hvað hún ætti við er hún sagði að verið væri að fara inn í manneskju þá svaraði hún: „Þegar að þú ert náttúrulega farinn að nudda svona, komin hjá grindarbotni. Þetta er náttúrulega aðferð þar sem þú ert komin ofboðslega nálægt kynfærum.“ Venjan væri að nuddað væri beint á húð þegar íþróttamenn ættu í hlut er vildu kraftmikið nudd og skjótan árangur og kæmi það fyrir að íþróttamenn væru beðnir um að fara úr nærbuxum ef nuddaðir væru til dæmis rassvöðvar. Komst vitnið svo að orði: „Nú erum við að tala um íþróttafólk, ég vil taka það fram. Vegna þess að þú talar öðruvísi við ... íþróttafólk ... þú myndir bara spyrja eiginlega strax hvort að það væri sama, eða, já, færi úr af því að þú ætlaðir að gera þetta. Það er allt önnur tilfinning hvort ... þú ert að nudda í gegn um eins og íþróttabuxur svona þunnar, spandex eða what ever þessar buxur sem þau æfa í. Það er allt önnur tilfinning.“ Það gengi hraðar og komst vitnið svo að orði að hún myndi ekki „vilja hafa fólk í buxum á meðan ég væri að þessu.“ Tiltók vitnið að íþróttafólk væri oft ekki að biðja um „heildrænt nudd“ heldur meðferð á ákveðnum svæðum og þá meðal annars nærri kynfærum. Þá hefði hún einungis einu sinni lent í því að íþróttamaður hefði gert athugasemdir við að nuddað yrði beint á húð en ekki gegnum lak. Aðspurð um aukna hættu við að rekast í kynfæri þegar nuddað væri nærri þeim, með tilliti til þess ákæruatriðis að reka fingur í sköp, sagði vitnið: „Jú, jú, að sjálfsögðu, því nær sem þú ferð, auðvitað þá er alltaf hætta á ferðum. Ég, en nú ætla ég að taka skýrt fram, skilur þú, að ég er búin að starfa með íþróttamönnum síðan 1988 og ég hef ekkert lent í þessu sko. ... en auðvitað getur alveg orðið slys í þessu eins og öllu öðru, sér í lagi ef þú ert að taka efst í lærvöðva eða nára ... að þá ert þú með hana liggjandi og hún setur út fótinn og þú ert að nudda upp, auðvitað getur það gerst, þá á ekki að gerast, það getur gerst.“ Þriðji yfirmatsmaðurinn lýsti því einnig að hann hafi ekki þekkt til þessarar aðferðarfræði og ekki vita að sjúkranuddarar væru að meðhöndla spangarsvæði. Kom fram hjá honum að sjúkranuddari væri lögverndað starfsheiti, en svo væri ekki um nuddara almennt. Vitnið kvaðst hafa verið einn af frumkvöðlum þess að byrjað var að stunda [...] hér á landi. Ekkert væri athugavert við að meðhöndla nárasvæði með nuddi og nudd á spangarsvæði gæti gagnast sumum. Hann myndi sjálfur aldrei nudda það svæði líkamans vegna nálægðar þess við kynfæri. Sagði hann, líkt og annar yfirmatsmanna, að sjúkranuddarar færu ekki undir lak með fingur og úr sjónlínu, þó árangursríkara væri að nudda beint á húð. Þá kom fram hjá vitninu að aðferðarfræði væri mismunandi eftir löndum.
V
Ekki verður vefengd framangreind ályktun héraðsdóms að aðstæður umrætt sinn hafi gert ríkar kröfur til ákærða um að sýna „mikla aðgát og tillitssemi við nuddið.“ Hefur ákærði raunar viðurkennt að hann hefði getað staðið betur að málum í því tilliti að kynna brotaþola hvað í vændum væri.
Líta verður til aðdraganda þess að brotaþoli fór til ákærða, en af framburði ákærða og vitna virðist sem hann hafi talið brotaþola vera svokallaða [...] manneskju, sem hefði ekki fengið bót á langvarandi og þrálátum meiðslum. Þó er ljóst að brotaþoli var óviðbúin þeim aðferðum sem ákærði beitti. Breytir þá ekki þótt hún hafi borið um að ákærði hefði látið vita um að hann myndi nudda nærri mjög viðkvæmu svæði og að hún fór óbeðin úr öllu nema nærbuxum við upphaf nuddtímans. Á hinn bóginn verður af því sem fram er komið í málinu að miða við að brotaþoli hafi verið í afar stórum, eða hálfsíðum, einhvers konar íþróttanærbuxum úr stífu efni og verður ekki vefengdur framburður ákærða að íþróttafólk væri oft í svona buxum og þær væru farnar að særa olnboga hans við nudd. Hafi hann því beðið brotaþola, líkt og aðra íþróttamenn sem eins var ástatt um, að fara úr buxunum og ef miðað verður við framburð brotaþola þá gerði hún það án athugasemda þó henni hafi ekki verið vel við það. Þá kom fram hjá vitnum, meðal annars yfirmatsmönnum, að nokkuð tíðkist að íþróttamenn væru ekki í nærbuxum við nudd. Þótt ástæður séu fram komnar um hvers vegna ákærði bað brotaþola um að fara úr buxunum þá mátti hún þó ekki búast við því sem á eftir fór.
Eins og greinir héraðsdómi dró ákærði við skýrslugjöf þar nokkuð úr alvarleika háttsemi sinnar miðað við lýsingu sína hjá lögreglu. Brotaþoli bætti á hinn bóginn við. Eins og áður segir játaði ákærði þegar við fyrstu skýrslugjöf hjá lögreglu að hafa rekið fingur í sköp brotaþola. Við skýrslugjöf fyrir dómi dró hann nokkuð úr um hvert nákvæmlega hann teldi að fingur sinn hafi farið. Gerði hann jafnframt þann fyrirvara að um tvö ár væru liðin frá atvikum. Er á þessi atriði bent í atkvæði meirihluta dómenda Hæstaréttar.
Að mínu mati er í rökstuðningi héraðsdóms og meirihluta dómenda Hæstaréttar ekki tekið nægilega tillit til þess við athugun á misræmi í framburði ákærða hversu ruglingslegur framburðurinn var í smáu sem stóru. Breytir þá engu hvort ákærði var að skýra frá öðru en sakargiftum. Verður þannig, af því sem að framan er rakið úr skýrslugjöf ákærða, ekki með öruggum hætti ráðið hvað hann var í raun að meina er hann lýsti notkun krems við skýrslugjöf hjá lögreglu. Annað dæmi er þegar hann komst svo að orði að hann hefði verið „bara nokkuð heppinn að hendin fór ekki bara öll inn“. Má líta til þess að ákærði komst svona að orði í samhengi við eftirfarandi orð: „sko þú veist ég, ég bara er, er búinn að, að, á sko og líða bara verulega illa út af því að, að þetta kom fyrir eins og ég segi sko ég átti mér var sagt að þau ætluðu að hafa samband við mig annað hvort [...] kona hans eða hún og ég er búinn að hringja í hana og hún svaraði ekki þannig að þetta, allt þetta kemur mér verulega á óvart.“
Það sem mestu skiptir þó um þetta er að ekki verður horft fram hjá því að héraðsdómur vísaði ekki til misræmis eða óljósrar frásagnar ákærða um þau atriði sem greinir í atkvæði meirihluta dómenda Hæstaréttar við rökstuðning á mati sínu á trúverðugleika framburðar ákærða þar fyrir dómi. Verður því ekki hér fyrir dómi byggt á þessu við mat á sekt ákærða, sbr. 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008.
Þá verður að miða við að um er að ræða viðurkennda nuddaðferð sem ákærði notaði umrætt sinn. Hafði ákærði lært hana og stundað um nokkurra ára skeið, einkum erlendis og við meðhöndlun íþróttamanna. Skiptir í því samhengi ekki öllu þótt þessi aðferð teljist nánast óþekkt á Íslandi og hún ekki notuð meðal nuddara sem bera starfsheitið sjúkranuddarar. Þá kom fram hjá yfirmatsmönnum að þessi aðferð byði heim hættunni á því að komið yrði við kynfæri þess sem nuddaður væri. Að virtum niðurstöðum yfirmatsmanna og framburði þeirra um hættu á að illa gæti farið við aðferð þessa, var nauðsynlegt fyrir héraðsdóm að lýsa frekar og útskýra við mat á trúverðugleika framburðar ákærða af hverju það væru nánast engar líkur á að nuddara yrðu á þau mistök að snerta sköp við nudd nálægt kynfærasvæði.
Hér að framan hefur verið farið yfir atriði sem falla að skilyrðum 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 og leiða eiga til þess að vísa beri málinu heim í hérað til nýrrar meðferðar. Meirihluti dómenda telur á hinn bóginn að staðfesta beri héraðsdóm um sekt ákærða. Að virtum ákvæðum 2. mgr. 209. gr. laganna greiði ég atkvæði um efni máls. Þegar höfð eru í huga framangreind atriði, en einkum það að ákærði og brotaþoli geta ein borið um hvað gerðist umrætt sinn, verður ákærði að njóta vafans í mati á þeirri huglægu afstöðu sem bjó að baki þeirri háttsemi hans að reka fingur í sköp brotaþola. Ber því að sýkna ákærða af ákæru fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga sökum skorts á ásetningi.
Kemur þá til athugunar varakrafa ákæruvalds um heimfærslu háttsemi ákærða til 199. og 209. gr. almennra hegningarlaga. Eins og að framan er rakið voru aðstæður þær sem um ræðir afar sérstakar og brotaþoli illa í stakk búin til að koma í veg fyrir það sem varð. Þannig er fram komið að ákærði beitti lítt eða óþekktum og mjög óvenjulegum aðferðum umrætt sinn. Gerði hann það án kynningar eða nægilegrar viðvörunar og kom brotaþola verulega á óvart með aðferðum sínum við nuddið. Þótt ekki sé sannað að ákærði hafi með ásetningi rekið fingur í sköp brotaþola þá er önnur háttsemi hans við nuddið með þeim hætti að hann lét sér í léttu rúmi liggja hvort hún fól í sér kynferðislega áreitni og særði blygðunarsemi brotaþola. Ber því að sakfella ákærða fyrir brot gegn síðastgreindum tveimur ákvæðum almennra hegningarlaga og dæma hann 9 mánaða fangelsisrefsingar sem binda á almennu skilorði til tveggja ára.
Þá tel ég rétt að fallast á niðurstöðu meirihluta dómenda um bætur til handa brotaþola.
Loks ber, með vísan til 2. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008, að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar í héraði en fella áfrýjunarkostnað málsins á ríkissjóð.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. maí 2016.
I
Málið, sem dómtekið var 11. apríl síðastliðinn, er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 23. júlí 2012 gegn Sverri Hjaltasyni, kennitala [...], með lögheimili í Bandaríkjunum, fyrir nauðgun með því að hafa fimmtudaginn 28. júní 2012, á nuddstofu sem ákærði starfrækti að Suðurlandsbraut 6, Reykjavík, haft önnur kynferðismök en samræði við A með því að beita hana ofbeldi eða ólögmætri nauðung. Ákærði, sem hefur starfað sem nuddari í 22 ár, lét A, sem var í nuddi hjá honum vegna vandamála í mjóbaki, afklæðast nærbuxum, káfaði á kynfærum A þar sem hún lá nakin á nuddbekk og setti fingur inn í leggöng hennar, henni að óvöru.
Er þetta talið varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en til vara við 199. gr. og 209. gr. sömu laga.
Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Brotaþoli krefst miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 1.200.000 krónur auk vaxta, skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. júní 2012 til 13. ágúst 2012 en með dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags auk greiðslu málskostnaðar vegna réttargæslu.
Ákærði neitar sök og krefst sýknu. Krefst hann þess að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði. Ákærði krefst þess að skaðabótakröfunni verði vísað frá dómi, en til vara að bætur verði lækkaðar.
Mál þetta var upphaflega dæmt í héraðsdómi 28. september 2012 og ákærði sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr. laga nr. 19/1940. Með dómi Hæstaréttar 24. apríl 2013 var dómur héraðsdóms ómerktur og málinu vísað heim í hérað á ný til löglegrar meðferðar á þeim grundvelli að ástæða hefði verið til að verða við þeirri kröfu ákærða fyrir héraðsdómi að aflað yrði mats sérfróðra matsmanna við málsmeðferðina varðandi það hvort aðferðir þær sem ákærði beitti við nuddið væru viðurkenndar, en þannig hefði meðal annars mátt leiða í ljós hvort efni hafi verið til að nudda brotaþola á þeim stöðum og á þann hátt sem ákærði lýsti. Eftir heimvísun dómkvaddi héraðsdómur tvo sérfróða matsmenn til að leggja mat á þessi atriði og skiluðu matsmenn niðurstöðu sinni 27. nóvember 2013. Ákærði óskaði í framhaldi eftir því að dómkvaddir yrðu yfirmatsmenn til að leggja mat á sömu atriði. Við meðferð beiðni um yfirmat komu fram athugasemdir frá yfirmatsmönnum sem leiddu til þess að ákærði óskaði eftir því að yfirmatsmenn myndu víkja sæti í málinu. Með dómi Hæstaréttar 25. ágúst 2014 var orðið við kröfu ákærða um að yfirmatsmenn myndu víkja sæti og aðrir kvaddir til starfans. Í framhaldi krafðist ákærði þess að dómsformaður viki sæti í málinu. Með dómi Hæstaréttar 24. september 2014 féllst Hæstiréttur á að dómsformaður væri vanhæfur í málinu. Sá dómsformaður sem nú fer með málið fékk það til meðferðar 27. september 2014. Með úrskurði héraðsdóms 3. október 2014 var fallist á kröfu ákærða um að hinir sérfróðu meðdómsmenn í málinu vikju sæti í málinu. Í þinghaldi 29. október 2014 voru á ný dómkvaddir yfirmatsmenn til að framkvæma yfirmat. Ákærði hefur verið búsettur í Bandaríkjunum. Vegna veikinda ákærða náðu yfirmatsmenn ekki að ljúka yfirmatsgerð fyrr en 15. desember 2015. Í framhaldi var aðalmeðferð málsins ákveðin 7. apríl 2016.
Mánudaginn 2. júlí 2012 mætti brotaþoli á lögreglustöð og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot. Greindi hún frá því að hún hafi farið í nudd til ákærða fimmtudaginn 28. júní 2012, en hann hafi verið með nuddaðstöðu í skrifstofuherbergi að Suðurlandsbraut 6 í Reykjavík. Hafi brotaþoli tjáð ákærða að hún glímdi við vandamál í mjóbaki. Í fyrstu hafi allt verið eðlilegt í nuddinu. Það hafi verið sársaukafullt, eins og það ætti að vera. Brotaþoli hafi vitað að ákærði væri nuddari sem byggi í útlöndum, en starfaði sem íþróttanuddari hér á landi á sumrin. Hún hafi farið úr öllu nema nærbuxum og í fyrstu legið á maganum. Eftir að hún snéri sér yfir á bakið hafi nuddið breyst. Hafi ákærði nuddað og fært til brjóst hennar en hann hafi sagt að þetta stór brjóst þyrfti að nudda. Á þessum tímapunkti hafi ákærði beðið brotaþola um að fara úr nærbuxum. Eftir það hafi hann fært sig neðar á líkama hennar. Hafi hann meðal annars nuddað yfir lífbeinið og verið óþægilega nálægt kynfærasvæðinu. Hann hafi rennt hönd um klof brotaþola þannig að höndin hafi snert skapabarma hennar. Síðan hafi hann sett fingur inn í leggöng brotaþola. Hún hafi sagt ákærða að hætta þessu. Þrátt fyrir það hafi hún klárað nuddtímann en ákærði hafi einungis nuddað höfuð hennar eftir þetta. Brotaþoli hafi verið sem frosin og ekki vitað hvað hún ætti að gera. Því hafi hún klárað tímann. Hafi ákærði sagt að þennan tíma fengi hún ókeypis og ætti hún að hringja í hann ef hana verkjaði aftur. Kvaðst brotaþoli hafa leitað til vinkonu sinnar og því næst farið á neyðarmóttökuna á Landspítalanum. Henni liðið mjög illa vegna þessa atburðar.
Ákærði var handtekinn daginn eftir, eða þriðjudaginn 3. júlí 2012, og færður til skýrslutöku hjá lögreglu. Með úrskurði héraðsdóms 3. júlí 2012 var ákærði úrskurðaður í farbann allt til þriðjudagsins 24. júlí 2012. Farbannið var síðan framlengt með úrskurðum héraðsdóms, alls fjórum sinnum, þ.e. þann 21. ágúst, 18. september, 16. október og loks 26. október 2012. Með síðasta úrskurðinum, var ákærða gert að setja tryggingu fyrir því að hann myndi mæta til afplánunar kæmi til þess að hann yrði dæmdur til fangelsisrefsingar vegna málsins.
Á meðal gagna málsins er skýrsla um réttarlæknisfræðilega skoðun á brotaþola. Samkvæmt skýrslunni mætti brotaþoli á neyðarmóttöku fimmtudaginn 28. júní 2012 kl. 18.30. Í frásögn sjúklings í skýrslunni er skráð eftir brotaþola að ákærði sé íþróttanuddari að mennt og starfi í Bandaríkjunum en á sumrin starfi hann á Íslandi. Brotaþoli hafi heyrt vel af ákærða látið og ákveðið að fara til hans þar sem hún hafi tognað í baki. Hún hafi átt tíma mánudaginn áður en frestað honum til 28. júní vegna sólbruna. Ákærði hafi sagt henni að hún mætti fara úr öllu sem hún vildi fara úr. Hún hafi farið úr öllu nema nærbuxum og lagst á magann áður en ákærði kom inn. Hann hafi byrjað að nudda hana og hún spurt hann út í eymslin sem hrjáðu hana og hvað hann héldi að væri að. Hafi ákærði sagt að hann þyrfti að fara mjög nærri viðkvæmu svæði. Hann hafi nuddað hana og allt verið eðlilegt. Hann hafi nuddað lærin og spurt hana hvort hún væri til í að fara úr nærbuxunum því þær væru mjög þröngar. Hún hafi sagt það vera í lagi og ákærði snúið sér undan á meðan. Í framhaldi hafi ákærði nuddað lærin mjög ofarlega innanvert og nærri kynfærum. Svo hafi hann nuddað á henni axlirnar og að því búnu beðið hana um að snúa sér við og á bakið. Hafi hún sett yfir sig teppið og ákærði spurt hana hvort hún væri feimin og hvort hann mætti nudda vöðvana í kringum brjóstin. Hann hafi náð í krem og sagt að hann þyrfti að nudda í kringum þessi stóru brjóst. Síðan hafi hann nuddað magann alla leið að lífbeini og framhaldi nuddað framanverða fótleggi. Henni hafi fundist undarlegt að ákærði hafi nokkrum sinnum strokið yfir lífbein hennar og þegar hann hafi strokið læri hennar með annarri hendi og verið með hina höndina á svæðinu í kringum brjóst hennar hafi henni liðið illa. Þegar hann hafi snert sníp hennar og stungið fingri inn í leggöng hennar hafi henni brugðið og ýtt í ákærða og sagt honum að gera þetta ekki. Ákærði hafi samstundis hætt og sagt fyrirgefðu, alla vega þrisvar sinnum. Hann hafi byrjað að nudda aftur og þá axlir hennar og höfuð. Hann hafi breitt yfir hana teppi og að því búnu reynt að tala við hana og halda uppi samræðum.
Að nuddinu loknu hafi ákærði farið út úr herberginu og sagt að hann kæmi aftur þegar brotaþoli væri búinn að klæða sig. Brotaþoli hafi klætt sig í flýti og fundið gleraugun sín. Ákærði hafi komið inn aftur og sagt að brotaþoli þyrfti ekki að greiða fyrir tímann þar sem það íþróttafélag sem hún væri meðlimur í ætti í miklum viðskiptum við hann. Hann hafi kallað á eftir brotaþola að hún skyldi hringja í hann ef hún fengi meiri verki. Brotaþoli hafi farið út í bíl í sjokki og farið að gráta. Hún hafi hringt í sambýlismann sinn og farið til hans í vinnuna. Hann hafi komið út í bíl til hennar og séð hana grátandi. Hún hafi eftir þetta hringt í vinkonu sína, sem væri sálfræðingur og þær farið saman á neyðarmóttökuna. Í niðurlagi skýrslunnar er fært að frásögn brotaþola hafi verið trúverðug. Í þeim hluta skýrslu neyðarmóttöku þar sem skráð er um ástand við skoðun er merkt við að brotaþoli hafi við komuna verið í losti og fengið grátköst. Hún hafi verið með skjálfta, hroll og vöðvaspennu. Þá hafi hún verið með ógleði og magaverki. Í niðurstöðu læknis er skráð að brotaþoli hafi verið í sjokki við komuna og í mikilli vanlíðan. Hún hafi verið mjög eirðarlaus og með mikinn málþrýsting.
Sálfræðingur ritaði 17. ágúst 2012 vottorð vegna brotaþola. Fram kemur að brotaþoli hafi mætt í 4 viðtöl hjá sálfræðingnum á tímabilinu 5. til 31. júlí 2012. Í viðtölunum hafi farið fram endurtekið greiningarmat á afleiðingum hins ætlaða kynferðisbrots. Í niðurstöðu kemur fram að veittur hafi verið sálrænn stuðningur og áfallamiðuð hugræn atferlismeðferð við áfallastreituröskun og öðrum afleiðingum hins ætlaða brots. Sálræn einkenni brotaþola í kjölfar áfallsins samsvari einkennum sem þekkt séu hjá fólki sem hafi upplifað alvarleg áföll eins og líkamsárás, nauðgun, stórslys eða hamfarir. Niðurstöður sjálfsmatsmælikvarða samsvari vel frásögnum hennar í viðtölum. Hafi hún ávallt virst hreinskilin, trúverðug og sjálfri sér samkvæm. Allt viðmót brotaþola hafi frá upphafi bent til þess að hún hafi upplifað ógn, ótta, hjálparleysi, svik og niðurlægingu í kjölfar atburðarins. Hafi brotaþoli sýnt jákvæð viðbrögð við þeirri meðferðarvinnu er í gangi væri. Meðferðarárangur væri hægfara en hún væri að ná aðeins betri stjórn á daglegu lífi. Einkenni kvíða og depurðar hafi minnkað en einkenni áfallastreitu yllu henni enn mikilli vanlíðan og verulegri truflun hvað varðaði framtíðarplön. Væri hún enn að glíma við svefntruflanir og einbeitingarerfiðleika. Hún hafi ekki getað haldið áfram með nám sem hún hafi verið í. Væri ljóst að atburðurinn hefði haft mikil neikvæð áhrif á brotaþola. Ekki væri hægt að segja til um langtímaáhrif þar sem einungis tæpir 2 mánuðir væru liðnir frá atburðinum. Tíminn yrði að leiða það í ljós hvernig brotaþola gengi að vinna úr langtímaáhrifum áfallastreituröskunar.
Í niðurstöðu matsgerðar undirmatsmanna 27. nóvember 2013, tveggja löggiltra sjúkranuddara, sem að kröfu ákærða voru dómkvaddir til að meta hvort aðferðir sem ákærði beitti við nuddið væru viðurkenndar, kemur fram að matsfundur hafi verið haldinn þar sem saman hafi verið komin sækjandi, réttargæslumaður brotaþola, ákærði og verjandi hans. Matsgerð væri miðuð við þá frásögn ákærða að hann hafi verð að losa vöðvafestur í nára og beitt til þess aðferð sem kölluð væri ,,Startle reflex“ eða ,,Pelvic floor techniques“. Ákærði hafi útskýrt aðferðina nánar á matsfundi. Þar hafi komið fram að aðferðin væri framkvæmd þannig að þrýst væri með fingri á ,,trigger“ punkt í vöðva á spangarsvæðinu og skjólstæðingur beðinn um að spenna á móti. Var það niðurstaða matsmanna að ,,Startle reflex“ aðferðin eða ,,Pelvic floor technique“ væru ekki viðurkenndar aðferðir í nuddfræðum. Meðferð á ,,pelvic floor“ vöðvum þekktist en væri ekki framkvæmd af nuddurum heldur sérfræðingum sem hefðu til þess sérstakt leyfi.
Í niðurstöðu matsgerðar yfirmatsmanna frá 15. desember 2015, þriggja löggiltra sjúkranuddara, sem dómkvaddir voru til að framkvæma yfirmat í málinu, kemur fram að eftir margar tilraunir hafi tekist að halda yfirmatsfund 9. desember 2015, en fundinn hafi setið sækjandi, réttargæslumaður brotaþola og verjandi ákærða. Ákærði hafi tekið þátt í fundinum í gegnum fjarfundarbúnað frá Bandaríkjunum þar sem hann hafi verið staddur. Með ákærða á þeim fundi hafi verið Stuart White sérfræðingur í ,,Startle reflex“ meðferð. Sú aðferð er ákærði lýsi að hann beiti kallist ,,Startle reflex“ eða ,,Pelvic floor technique“. Þekkist sú aðferð ekki sem meðferð hjá löggiltum sjúkranuddurum á Íslandi. Yfirmatsmenn hafi ekki heyrt af aðferðinni áður en þeir hafi verið fengnir til starfans. Ekki hafi fundist mikið af gögnum um þessar aðferðir við gagnaleit. Stewart White hafi hins vegar lýst aðferðarfræðinni. Geti yfirmatsmenn eftir þá yfirferð fallist á að aðferðin geti gagnast skjólstæðingum í ákveðnum tilfellum. Sjúkranuddarar á Íslandi meðhöndli almennt ekki kynfærasvæði skjólstæðinga. Það sé starfsregla sjúkranuddara að taka sjúkrasögu skjólstæðinga sinna við upphaf meðferðar og upplýsa um fyrirhugaða meðferð. Ávallt skuli leita upplýsts samþykkis áður en meðferð sé hafin og sé mikilvægt að skjólstæðingur átti sig á öllum helstu þáttum meðferðarinnar. Ákærði virðist hafa skoðað líkamsstöðu brotaþola áður en meðferð hófst. Hann hafi verið upplýstur um að brotaþoli væri til hans kominn vegna verkja í mjóbaki, en virðist þó ekki hafa tekið greinargóða sjúkrasögu. Virðist ljóst að ákærði hafi fengið samþykki fyrir því að afhjúpa brjóst brotaþola og fengið samþykki fyrir meðhöndlun viðkvæms svæðis efst í rassskoru brotaþola. Það samræmist ekki starfsreglum sjúkranuddara að afhjúpa geirvörtur í meðferð en ekkert athugavert sé við það að nudda brjóstvöðva eða vöðvafestur efst í rassskoru. Tekið skuli fram að sjúkranuddarar fari aldrei undir lak eða handklæði í meðferð sinni, en ekkert athugavert sé að meðhöndla líkamshluta í gegnum lak eða fatnað. Það sé vel þekkt í nuddi að nudduð séu innanverð læri og nári. Þá sé mjög eðlilegt að sá fótleggur sem meðhöndlaður er sé beygður við hné og snúinn út við mjöðm svo auðveldara sé að meðhöndla svæðið. Aftur á móti þekkist meðhöndlun spangarsvæðis ekki hjá íslenskum sjúkranuddurum. Í ákveðnum tilfellum geti verið betra að meðhöndla vandamál skjólstæðinga séu þeir án nærfata. Þessi beri þó að gæta að færð séu rök fyrir því að skjólstæðingur þurfi að fara úr nærfötum og sé skjólstæðingi ávallt gefið val. Matsmenn telji ekkert athugavert við að rassvöðvar, nári, læri og mjaðmasvæði sé meðhöndlað þegar um verk í mjóbaki sé að ræða. Verulegur munur sé á regluverki nuddara annars vegar og sjúkranuddara hins vegar. Sjúkranudd sé lögverndað starfsheiti og hafi embætti landlæknis og velferðarráðuneytið eftirlit með starfseminni. Matsmenn viti ekki til þess að neitt formlegt eftirlit sé haft með starfsemi íslenskra nuddara og þeim aðferðum sem þeir beiti. Nuddstofur þurfi þó að standast kröfur heilbrigðiseftirlits.
Eins og áður greinir gaf ákærði skýrslu hjá lögreglu 3. júlí 2012. Þá gaf hann skýrslu við aðalmeðferð málsins fyrir dómi. Ákærði kvaðst hafa flutt til Bandaríkjanna fyrir mörgum árum síðan. Þar hafi hann lært íþróttanudd. Á námsárunum hafi hann kynnst B og C, sem einnig hafi verið úti í námi á þeim tíma. Hafi þróast með þeim góður vinskapur. B og C hafi flutt aftur til Íslands, en ákærði dvalið áfram úti, þar sem hann væri búsettur í dag og ætti fjölskyldu. Ákærði kvaðst hafa tekið mörg námskeið í nuddi í Bandaríkjunum. Þar hafi hann m.a. lært svokallaða ,,Startle reflex“ eða ,,Pelvic floor technique“, sem gagngert væri ætluð vegna verkja í mjóbaki. Væru punktar í grindarbotni sem þeir sem notuðu þessa aðferð lærðu að þrýsta á. Þessi aðferð væri ætluð vegna grindarbotnsmeðferðar, t.d. vegna bakverkja. Ákærði kvaðst vera fyrrum lyftingamaður. Væri hann handsterkur, en margir íþróttamenn væru að sækjast eftir nuddi þar sem nuddað væri djúpt. Ákærði kvaðst sennilega hafa hitt brotaþola fyrst heima hjá vinafólki sínu B og C um ári áður en hún hafi komið í nudd til hans í júní 2012. Hvað varðaði aðdraganda þess að hún hafi farið í nudd til hans 2012 bar ákærði að brotaþoli hafi hringt til hans og greint frá því að hún væri í [...] æfingum. Hún væri með mjóbaksvandamál sem hún þyrfti að fá meðhöndluð. Hún hafi fengið tíma hjá ákærða vegna þessa en afpantað hann og fengið annan tíma 28. júní. Þann dag hafi brotaþoli komið á nuddstofu ákærða að Suðurlandsbraut 6 í fylgd B. Ákærði og B hafi spjallað stuttlega saman. Í upphafi hafi ákærði beðið brotaþola að benda á hvar hana verkjaði og hafi hún bent á allt neðra svæði baksins. Brotaþoli hafi klætt sig úr og lagst á magann á nuddbekkinn í nærbuxum einum fata. Reynsla ákærða væri sú að íþróttamenn væru almennt ekki feimnir þegar kæmi að nuddi og þar sem brotaþoli hafi verið að æfa [...] hafi hann ekki talið hana feimna. Hann hafi byrjað að nudda bakið allt frá buxnastreng og upp á efri hluta baksins. Hann hafi reynt að átta sig á því hver gæti verið orsök vanda hennar. Ákærði hafi veitt því athygli þegar hún hafi komið á stofuna til hans að hún hafi verið með kryppu á bakinu og því séð ákveðin einkenni sem leitt hafi hann áfram. Er hann hafi nuddað hana hafi hann áttað sig á því að hún væri ,,illa þjálfuð“.
Á meðan ákærði hafi nuddað brotaþola hafi hún verið með lak yfir efri hluta líkamans. Hann hafi verið kominn með sár á innanverða olnboga, en hann hafi notað þá talsvert við nuddið. Nærbuxur brotaþola hafi verið úr stífu efni, sem sært hafi olnbogana. Hann hafi beðið brotaþola um að fara úr nærbuxunum til að hann gæti hlíft olnbogunum. Brotaþoli hafi samþykkt það og farið úr nærbuxunum. Ákærði hafi haldið áfram að nudda og meðal annars nuddað á milli rófubeins og mjaðmabeins. Eins hafi hann nuddað aftanverð læri og kálfa. Brotaþoli hafi verið með sár í rassskorunni og hafi hann ekki viljað snerta það. Allan þennan tíma hafi brotaþoli verið með upphrópanir um ýmis persónuleg málefni sín. Eins hafi hún kvartað undan því að ákærði meiddi hana og hafi hann ekki talið sig geta gert meira fyrir hana. En þar sem hún hafi komið til hans fyrir ráðleggingar vina hans hafi fundið til ábyrgðar. Ákærði hafi áður unnið með C í grindarlosi, sem hún hafi glímt við og aðstoðað fleiri konur með samskonar vanda. Hann hafi sagt brotaþola að snúa sér við og hafi brotaþoli verið undir laki. Hafi ákærða fundist að hann yrði að gera meira fyrir brotaþola áður en hann léti hana frá sér.
Ákærði kvaðst hafa spurt brotaþola hvort hún væri feimin. Hún hafi neitað því. Í framhaldi hafi hann spurt hvort það væri í lagi að taka lakið ofan af brjóstum hennar. Hann hafi farið þess á leit til að komast betur að henni. Hann hafi farið inn á milli rifja á brotaþola og því næst tekið fyrir magavöðvana, en þeir festist neðarlega eða nærri lífbeini. Því næst hafi hann tekið við að vinna með hægri mjöðm hennar og lærvöðvann. Hafi hann beygt hægri fót um hné og sveigt fótinn út og unnið með innra lærið. Í grindarbotni væri vöðvi sem ákærði hafi ákveðið að kanna stöðuna á. Hafi það verið í tengslum við ,,Startle reflex“ eða ,,Pelvic floor technique“. Kynfæri brotaþola hafi verið hulin lakinu. Ákærði kvaðst ekki hafa útskýrt sérstaklega fyrir henni hvað hann væri að gera þó svo hann hafi verið að vinna nálægt kynfærasvæði hennar. Hafi hann þrýst á punkt í vöðva. Hann hafi almennt notað sérstakt krem sem hann hafi haft meðferðis til að nudda viðskiptavini. Hann hafi hins vegar ekki notað krem á svæðið nærri kynfærunum. Svo illa hafi viljað til að hann hafi fyrir slysni snert sköp brotaþola með nögl. Um mistök hafi verið að ræða en hann hafi ekki runnið til í kremi þar sem hann hafi ekki notað það á svæðinu. Er ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu vegna málsins 3. júlí 2012 greindi hann hins vegar frá því að hann hafi verið að prufa nýja aðferð við nuddið en þá hafi höndin á honum runnið til vegna þess að húðin var sleip undan kremi og hafi lítill partur af einum fingri farið inn í leggöng brotaþola. Fyrir dómi lýsti ákærði því að brotaþoli hafi sagt honum að gera þetta ekki. Hafi hann verið sleginn vegna þessa og myndi ekki hvort hann hafi afsakað sig við hana. Það gæti þó vel verið að hann hafi gert það. Hafi hann eftir þetta nuddað háls brotaþola og andlit, en tíminn hafi næstum verið búinn. Tími hennar hafi síðan klárast og næsti viðskiptavinur verið kominn.
Brotaþoli hafi farið í föt og ákærði spurt hana hvort hún væri til í að taka hnébeygju fyrir sig til þess að hann gæti séð stöðu hennar. Brotaþoli hafi ekki viljað fara í hnébeygju en viljað fara í ,,planka“. Eftir það hafi hún farið. Hann hafi kallað á eftir henni og beðið hana um að láta sig vita hvernig henni liði eftir nuddið. Því næst hafi hann tekið til við að nudda næsta skjólstæðing. Brotaþoli hafi ekki greitt fyrir nuddið þar sem hún hafi útvegað ákærða viðskiptavini úr [...] æfingunum, auk þess sem óhappatilvikið með fingurinn hafi orðið til þess að ákærði hafi ákveðið að brotaþoli myndi ekki greiða fyrir tímann.
Svo sem fyrr greinir gaf brotaþoli skýrslu hjá lögreglu 2. júlí 2012. Þá gaf brotaþoli skýrslu við aðalmeðferð málsins fyrir dómi. Brotaþoli kvaðst hafa verið með vandamál í mjóbaki, en hún hafi stundað [...] æfingar. Hún hafi verið að gera hnébeygjur með stöng og fundið eitthvað gerast í mjóbakinu. Þetta hafi verið sumarið 2011. Brotaþoli kvaðst hafa þekkt til ákærða í gegnum vinafólk sitt, B og C. Hafi B og C látið vel af nuddi ákærða og haft á orði að hann væri góður fyrir íþróttafólk. Af þeim ástæðum hafi hún leitað eftir því að komast í nudd hjá ákærða. Hún hafi þurft að fresta bókuðum tíma hjá ákærða og fengið nýjan tíma fimmtudaginn 28. júní 2012. Umræddan dag hafi hún farið að Suðurlandsbraut þar sem ákærði hafi verið að nudda. Hún hafi hins vegar ekki fundið húsið. B hafi verið í nágrenninu og aðstoðað hana við að finna nuddstofu ákærða. Brotaþoli kvaðst hafa farið inn í nuddaðstöðuna og klætt sig úr. Er ákærði hafi komið inn hafi hann spurt hvað væri málið. Hún hafi tjáð honum að hún væri að glíma við vanda í mjóbaki sem hún teldi að tengdist æfingum. Hafi ákærði beðið hana um að fara úr buxum. Hafi brotaþola ekki þótt það neitt mál. Ákærði hafi horft á mjóbak hennar, væntanlega til að skoða stöðu hennar og látið hana snúa sér við. Í framhaldi hafi hann sagt við hana að hún skyldi fara úr því sem hún vildi og hafi hún farið úr hlýrabol og íþróttatoppi sem hún hafi verið í. Síðan hafi hún lagst á magann á nuddbekkinn. Lak hafi verið á bekknum sem brotaþoli hafi sett yfir sig. Ákærði hafi komið inn og brotaþoli látið hann fá gleraugu sín. Ákærði hafi byrjað nuddið og nuddað bak, rasssvæðið, læri og kálfa. Um hafi verið að ræða eins konar íþróttanudd, sem hafi verið fremur harkalegt. Ákærði hafi síðan beðið hana um að fara úr nærbuxum því þær væru fyrir honum, en brotaþoli kvaðst hafa verið í eins konar boxer nærbuxum. Hún hafi samþykkt það þó hún hefði aldrei gert slíkt áður í nuddtíma. Á meðan hún klæddi sig úr hafi ákærði ekki farið út úr klefanum heldur snúið sér undan. Hann hafi spurt brotaþola hvort hann mætti koma við hana efst í rassskorunni og hafi hún leyft það. Ákærði hafi síðan beðið hana um að snúa sér yfir á bakið. Hún hafi verið með lak yfir sér allri. Ákærði hafi farið að nudda hendur hennar og síðan spurt hana hvort hún væri feimin og hvort hann mætti nudda brjóst hennar. Hafi hann sagt að það þyrfti að nudda þessi stóru brjóst og hún gefið leyfi fyrir því. Hann hafi þá farið að nudda brjóstin og á stöðum þar sem engar vöðvafestur væru. Hafi verið meira um ,,dútl“ að ræða og nuddið ekkert sárt. Næst hafi ákærði nuddað maga hennar. Lakið hafi þá verið yfir kynfærum og fótum hennar. Ákærði hafi staðið fyrir aftan höfuð hennar og nuddað magann álútur yfir brjóstum hennar. Aðstaðan hafi verið óþægileg. Hann hafi teygt sig lengra og alla leið niður efst á lífbeinið. Ákærði hafi spurt hvort þetta væri vont. Brotaþoli hafi ekki viljað þetta. Ákærði hafi fært sig til hliðar við hana og tekið til við að nudda læri, maga og lífbein á víxl. Henni hafi liðið illa og fundist hún ekki geta opnað augun. Hún hafi vonast til að þessu færi að ljúka en fundist hún ekkert geta gert. Hún hafi ekki viljað reita ákærða til reiði og áfram hafi hann haldið með sama hætti og nuddað lífbein og læri og endað uppi á mjaðmarbeini. Hann hafi síðan komið við barm kynfæra hennar. Sennilega hafi hægri fótur hennar verið beygður um hné og kynfæri hennar sennilega verið óhulin. Henni hafi fundist sem hún væri frosin og hún ekki getað opnað augun. Ákærði hafi ekkert sagt. Hann hafi endurtekið tvisvar til þrisvar sinnum snertinguna við barm kynfæra og einnig snert sníp hennar og hafi henni fundist sem ákærði væri að örva snípinn. Síðan hafi hann stungið fingri hálfa leið inn í leggöngin. Hún hafi hugsað með sér hvort einhver væri frammi. Hafi hún snert fót ákærða og sagt honum að hætta þessu. Ákærði hafi þá tekið fingur út úr kynfærum brotaþola. Hafi hann beðist afsökunar nokkrum sinnum og sagt að hún væri nú miklu slakari. Hún hafi verið reið.
Ákærði hafi eftir þetta nuddað höfuð hennar og axlir. Hafi hann ekki virst ætla að hætta og talað allan tímann. Brotaþoli hafi ekki svarað honum og hugsað með sér að hún þyrfti að komast út. Hún heyrt að einhver var kominn frammi og hafi það sennilega verið næsti viðskiptavinur ákærða. Ákærði hafi sagt að hann vildi ræða við hana eftir nuddið. Hann hafi farið út og hún klætt sig á meðan. Ákærði hafi komið aftur inn áður en hún var búin að finna gleraugu sín. Hann hafi viljað að hún gerði einhverjar æfingar, eins og til dæmis hnébeygjur. Það hafi hún ekki viljað en farið í ,,planka“ í staðinn, en hún hafi þurft að gera einhverja æfingu sem reyndi á bakið. Brotaþoli hafi síðan farið fram og gengið út ganginn. Ákærði hafi kallað á eftir henni og sagt henni að hringja ef bakið væri að valda henni vandræðum. Hún hafi ekki greitt neitt fyrir tímann en ákærði hafi sagt að hún hefði útvegað honum svo marga viðskiptavini úr [...] æfingum að hún þyrfti ekkert að greiða. Eftir það hafi hún farið út úr húsinu.
Hún hafi ekkert vitað hvað hún ætti að gera. Henni hafi liðið mjög illa og fengið grátköst. Hún hafi farið í vinnuna til kærasta síns. Eins hafi hún hitt C vinkonu sína og í framhaldi farið á neyðarmóttökuna. Málið hafi haft mikil áhrif á hana. Meðal annars hafi slitnað upp úr sambúð við sambúðaraðila eftir þetta, hún hafi átt mjög erfitt. Oft hafi hún endurlifað atburðinn og verið óvinnufær vegna þessa. Hún hafi þurft aðstoð sálfræðinga vegna þessa. Um hafi verið að ræða sálfræðing sem neyðarmóttakan hafi útvegað og síðan hafi hún verið hjá öðrum sálfræðingi eftir það. Í dag væri hún hjá sálfræðingi, en það tengdist meira því að fyrrum sambýlismaður hennar hafi fallið frá. Þau hafi hætt saman eftir atburðinn, en tekið saman aftur síðar og ættu saman dóttur. Eftir atburðinn hafi staða hennar um tíma verið svo slæm að hún hafi ekki getað verið með dóttur sinni.
B kvaðst hafa búið í Bandaríkjunum fyrir löngu síðan og þá kynnst ákærða sem búi í Bandaríkjunum. Með þeim hafi þróast vináttusamband. Hafi B, ásamt fjölskyldu sinni, flutt aftur heim til Íslands árið 2005. Brotaþoli hafi tengst fjölskyldunni, en hún hafi aðstoðað við pössun barna þeirra hjóna. Í júní 2012 hafi brotaþoli pantað nudd hjá ákærða, sem hafi verið á Íslandi þetta sumarið og starfað sem nuddari. B hafi verið í næsta nágrenni við nuddstofuna er brotaþoli hafi verið á leið í nuddið. Hafi brotaþoli ekki fundið staðinn og leitað aðstoðar B. B hafi orðið samferða henni á nuddstofuna og notað tækifærið til að kasta kveðju á ákærða. Síðar þennan sama dag hafi B frétt að eitthvað hefði gerst í þessum nuddtíma. Þær upplýsingar hafi B fengið frá eiginkonu sinni. Kvaðst B hafa heyrt í ákærða um svipað leyti og spurt hann hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis. Ákærði hafi ekkert gefið út á það. B og C hafi verið í samskiptum við brotaþola næstu daga. Hafi hún verið í uppnámi, pirruð og uppstökk. Reyndar hafi verið einhverjir sambúðarerfiðleikar í gangi hjá henni og sambýlismanni hennar á þessum tíma.
C kvað ákærða vera fjölskylduvin. Hún hafi kynnst honum þegar hún og fjölskylda hennar hafi búið í Bandaríkjunum fyrir mörgum árum síðan. Hún hafi flutt heim ásamt fjölskyldu sinni. Eftir að þau fluttu heim hafi brotaþoli aðstoðað fjölskylduna við barnapössun. Í júní 2012 hafi brotaþoli farið í nudd til ákærða. Hún hafi verið með verk í mjóbaki. Kvaðst C hafa ráðlagt henni að leita til ákærða, en hún hafi haft góða reynslu af honum sem nuddara þar sem hún hafi leitað til hans vegna grindargliðnunar er hún hafi glímt við. Hafi ákærði nuddað fast og unnið með mjaðmir og spjaldhrygg. Hann hafi aldrei nuddað C á kynfærasvæðinu og alltaf verið í nærbuxum við nuddið. Umræddan dag hafi brotaþoli hringt rétt fyrir kl. 13.00 og verið að koma úr nuddinu frá ákærða. Hún hafi verið æst og í uppnámi. Hafi hún greint frá því að ákærði hafi stungið fingri inn í leggöng sín. C kvaðst vera sálfræðimenntuð. Hún hafi verið með skjólstæðing og af þeim sökum átt erfitt með að tala við hana á þessum tíma. Að loknu viðtalinu við skjólstæðing sinn hafi hún hringt í brotaþola og í framhaldi farið heim til hennar. Brotaþoli hafi viljað leita á neyðarmóttöku vegna atviksins og hafi þær farið þangað. Brotaþoli verið í mikilli geðshræringu og talað mikið á meðan beðið hafi verið eftir viðtali við fagaðila á neyðarmóttöku. Hún hafi sveiflast mikið. Þegar röðin kom að þeim hafi brotaþola verið sagt að koma síðar þennan sama dag. Þær hafi farið og fengið sér að borða og síðan farið í bíó. Að því loknu hafi þær farið aftur á neyðarmóttökuna þar sem brotaþoli hafi verið skoðuð. Hafi hún sagt að hún ætlaði að kæra ákærða fyrir brot gegn sér.
Eftir að hafa farið á neyðarmóttökuna hafi C ekið brotaþola heim til sín. Þær hafi verið í sambandi næstu daga. Brotaþoli hafi ekki lýst atvikum mikið fyrir C að öðru leyti en því að ákærði hefði sett fingur inn í leggöng hennar. Næstu daga á eftir hafi C verið í reglulegu sambandi við brotaþola en líðan brotaþola hafi verið sveiflukennd og hún hafi átt erfitt með svefn. Er frá leið hafi líðan hennar orðið betri og hún að mestu jafnað sig á atvikinu. Brotaþoli hafi þó ekki viljað fara í nudd eftir þetta. Hún hafi síðar slitið sambandi við kærasta sinn. Þau hafi tekið saman aftur síðar en hann fallið frá. Þetta hafi verið brotaþola áfall og hún átt erfitt vegna þess. Er C gaf skýrslu hjá lögreglu greindi hún einnig frá því að brotaþoli hafi sagt sér að ákærði hafi nuddað á henni brjóstin, lífbeinið, snípinn, auk þess að hafa sett fingur í leggöng. Er þetta var borið undir C kvað hún þennan framburð sinn hjá lögreglu réttan.
Er mál þetta var í rannsókn hjá lögreglu var tekin skýrsla af þáverandi sambýlismanni brotaþola. Sambýlismaðurinn féll frá áður en mál þetta kom til aðalmeðferðar. Hjá lögreglu greindi hann frá því að hann hafi verið á vinnustað sínum fimmtudaginn 28. júní 2012. Um hádegisbil hafi brotaþoli komið og hann farið út í bíl til hennar. Hún hafi verið hágrátandi og átt í erfiðleikum með að segja hvað hafi komið fyrir. Eftir að hafa grátið í nokkrar mínútur hafi brotaþoli greint frá því að nuddari hafi verið vondur við hana og farið með fingur inn í brotaþola. Er sambýlismaðurinn hafi áttað sig á alvarleika málsins hafi hann tekið frí í vinnunni það sem eftir lifði dags. Er hann hafi komið aftur út í bíl hafi brotaþoli verið að ræða símleiðis við C. Eftir það símtal hafi sambýlismaðurinn og brotaþoli ekið frá vinnustað hans en brotaþoli hafi ekki getað ákveðið sig hvert halda skyldi. Þau hafi ekið um áður en þau hafi farið heim til sín og rætt um hvort leggja skyldi fram kæru. Að lokum hafi brotaþoli farið með C á neyðarmóttöku. Brotaþoli hafi verið í miklu uppnámi eftir þennan atburð og ekki hugsað rökrétt, sveiflast mikið tilfinningalega og stutt verið í táraflóð og grátur. Hafi hún í fyrstu ekki getað verið ein né getað einbeitt sér að því námi sem hún hafi verið í við [...]. Svefninn hafi truflast verulega og hún oft verið þreytt. Sambýlismaðurinn kvaðst sjálfur hafa verið í áfalli eftir þetta.
Fyrir dóminn komu þrjú vitni, sem öll kváðust hafa æft [...] af mikilli alvöru. Lýstu þau því öll að þau hefðu verið í nuddi hjá ákærða. Ákærði hafi verið þekktur fyrir að nudda íþróttafólk með góðum árangri, en hann hafi nuddað fast og þekkt vel þau svæði líkamans sem skiptu máli varðandi nudd. Ákærði hefði nuddað nárasvæði íþróttamanna sem væri nærri kynfærasvæðinu. Er ákærði væri að nudda nára og nálægt kynfærum leitaði hann eftir samþykki fyrir því og útskýrði hvað hann væri að gera.
Fyrir dóminn kom vitni sem sótti næsta tíma í nuddi hjá ákærða á eftir brotaþola þann 28. júní 2012. Kvaðst vitnið hafa beðið fyrir utan nuddstofuna þar til kæmi að því. Kona hafi komið úr nuddi hjá ákærða. Hafi ákærði kallað á eftir konunni og spurt hana hvenær hún kæmi aftur. Konan hafi svarað ákærða. Hafi vitnið ekkert óeðlilegt séð í fasi konunnar.
Yfirmatsmenn staðfestu yfirmatsgerð sína fyrir dóminum og greindu frá einstökum þáttum í matsferlinu. Þeir greindu m.a. frá því að sú aðferð sem ákærði segðist beita gæti í ákveðnum tilvikum gagnast skjólstæðingum. Sá staður er ákærði nuddaði í þeim tilvikum væri hins vegar svo nærri kynfærum að sjúkranuddarar myndu ekki nudda þar. Byggja þyrfti upp traust á milli sjúkranuddara og skjólstæðings áður en slík svæði væru nudduð. Það væri ekki gert í fyrsta nuddtíma. Þá þyrfti að upplýsa skjólstæðing vel um hvert þrep í nuddinu og hver væri tilgangurinn með hverju og einu. Einn matsmanna kvaðst hafa nuddað karlalandslið í handknattleik í tæp 30 ár. Oft hafi verið nuddað í nára. Á þeim ferli hafi hönd eða fingur aldrei runnið til og snert kynfæri.
Sálfræðingur á neyðarmóttöku staðfesti sálfræðilegt vottorð sitt vegna brotaþola frá 17. ágúst 2012. Greindi sálfræðingurinn frá því að brotaþoli hafi komið í frekari viðtöl hjá sálfræðingnum í hugrænni meðferð eftir að vottorðið var gefið út. Hafi þær hist síðast í ágúst 2013. Í lok meðferðarinnar hafi brotaþoli verið kominn á þann stað að uppfylla ekki lengur greiningarviðmið fyrir áfallastreituröskun.
Læknir á neyðarmóttöku staðfesti skýrslu um réttarlæknisfræðilega skoðun á brotaþola. Kvað hún brotaþola hafa verið í miklu uppnámi og sjokki og hafa talað hratt. Hún hafi verið trúverðug í lýsingu sinni af atvikum. Hafi læknirinn tekið niður frásögn hennar og fært hana inn í skýrsluna.
Niðurstaða:
Ákærða er gefið að sök kynferðisbrot gagnvart brotaþola, með því að hafa fimmtudaginn 28. júní 2012 á nuddstofu að Suðurlandsbraut í Reykjavík, káfað á kynfærum brotaþola og sett fingur í leggöng hennar, henni að óvöru.
Ákærði neitar sök. Kveðst hann hafa nuddað brotaþola umrætt sinn og beitt sérstakri nuddaðferð sem gagnast hafi skjólstæðingum við verkjum í mjóbaki. Er ákærði hafi þrýst á vöðva á hægri fæti nærri spangarsvæðinu hafi hönd hans runnið til og nögl fingurs komið við skapabarma brotaþola og nöglin stungist örlítið inn.
Brotaþoli kveður ákærða hafa brotið gegn sér umrætt sinn. Hafi hann ítrekað komið við kynfæri hennar, skapabarma og sníp. Þá hafi hann stungið hálfum fingri inn í leggöng hennar. Hafi brotaþoli verið sem frosin allan þennan tíma og liðið mjög illa.
Dómkvaddir yfirmatsmenn hafa lýst því að aðferð sú sem ákærði beitti með því að þrýsta á vöðva nærri spangarsvæðinu væri til, þó svo hún væri ekki notuð hér á landi af sjúkranuddurum. Hafi yfirmatsmenn fyrst heyrt af þessari nuddaðferð þegar þeir hafi unnið yfirmatið. Gæti slíkt nudd gagnast skjólstæðingum við ákveðnar aðstæður. Hins vegar þyrfti að fara mjög varlega þegar nuddað væri svo nærri kynfærasvæði og yrði að gera það í nánu samráði við skjólstæðing.
Niðurstaða þessa máls ræðst að stærstum hluta af trúverðugleika framburða ákærða og brotaþola. Að mati dómsins er framburður ákærða ótrúverðugur um tiltekin atriði málsins. Ákærði hefur að eigin sögn nuddað skjólstæðinga í mörg ár. Honum var því ljóst mikilvægi þess að þegar nuddað væri nærri kynfærasvæði væri það gert í fullu samráði við skjólstæðing og væri skjólstæðingurinn upplýstur um hvert skref, sem og tilgang með því. Þrátt fyrir þetta lýsti ákærði fyrir dóminum að hann hafi helst ekki viljað nudda brotaþola þar sem hún hafi verið erfiður skjólstæðingur. Engu að síður ákvað ákærði, undir lok meðferðarinnar og án þess að leita eftir samþykki brotaþola, að þrýsta á vöðva við spangarsvæðið brotaþola. Það gerði ákærði án þess að þekkja brotaþola svo til neitt, en brotaþoli var að koma í sinn fyrsta tíma til ákærða. Var brotaþoli á þessum tíma án nærfata og einungis með lak yfir hluta líkamans. Ákærði fór þess á leit við brotaþola að hún afklæddist nærfatnaði við nuddið. Gerði það enn ríkari kröfur til þess að ákærði sýndi mikla aðgát og tillitssemi við nuddið. Er framburður ákærða um þessa háttsemi sína og aðstæður haldinn talsverðum ótrúverðugleikablæ. Þá er misræmi í framburði ákærða hjá lögreglu og fyrir dómi um ástæður þess að fingur hans snerti sköp brotaþola. Hjá lögreglu bar ákærði að hann hafi runnið í kremi og af þeim ástæðum snert sköp brotaþola. Fyrir dómi kvaðst ákærði ekkert krem hafa notað á þetta svæði og hafi það ekki verið ástæða þess að fingur hans kom við sköp brotaþola. Loks er til þess að líta að nudd á eða við spangarsvæði er á sérstaklega viðkvæmu svæði líkamans. Eru nánast engar líkur á því að nuddara verði á þau mistök að snerta sköp skjólstæðings við meðhöndlun þessa svæðis. Öll þau atriði er hér að ofan greinir gera framburð ákærða ótrúverðugan um mikilvæg atriði málsins.
Brotaþoli hefur á hinn bóginn verið trúverðug í frásögn sinni. Samræmi er í frásögn hennar af atvikum við skýrslugjöf hjá lögreglu, í skýrslu hjá neyðarmóttöku og síðan hér fyrir dóminum. Brotaþoli var í miklu uppnámi við skýrslugjöfina fyrir dóminum og einsýnt að atburðurinn ristir enn djúpt þó svo hart nær fjögur ár séu liðin síðan atvik voru. Ástand brotaþola við skýrslugjöfina skýrir vafalaust að hún kvað ívið fastar að orði um atvik í frásögn sinni fyrir dóminum en áður. Gerir það framburð brotaþola ekki ótrúverðugan.
Vitni sem hittu brotaþola þennan dag lýsa því öll að brotaþoli hafi verið í miklu uppnámi og í sjokki. Hafi hún grátið mikið. Um þetta bera vitnin C og fyrrum sambýlismaður ákærðu, en unnt er að styðjast við framburð hans um þetta atriði með hliðsjón af 3. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008. Eins styður framburður læknis á neyðarmóttöku þetta en í skýrslu hans er fært að brotaþoli hafi verið í losti og fengið grátköst. Hún hafi verið með skjálfta, hroll og vöðvaspennu. Þá hafi hún verið með ógleði og magaverki. Loks er til þess að líta að sálfræðingur sem hitti brotaþola í framhaldi af þessu greindi hana með áfallastreituröskun, sem rekja mætti til þessa atburðar. Allt þetta þykir styðja það að brotaþoli hafi upplifað atburð sem hafi haft gríðarlega mikil áhrif á hana. Atburð sem hafi verið annars eðlis en ákærði hefur lýst.
Eins og áður var rakið er framburður ákærða ótrúverðugur um mikilvæg atriði málsins. Með hliðsjón af því og framburðum vitna um ástand brotaþola þennan dag verður trúverðugur framburður brotaþola lagður til grundvallar niðurstöðu og talið sannað að ákærði hafi káfað á kynfærum hennar og sett fingur í leggöng hennar. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og á háttsemi hans undir 1. mgr. 194. gr. laga nr. 19/1940.
Ákærði er fæddur í desember 1956. Hann hefur ekki áður sætt refsingu svo kunnugt sé. Ákærði misnotaði freklega aðstöðu sína er hann nuddaði brotaþola. Mátti brotaþoli treysta því að hún fengi faglega meðferð hjá honum við meini sínu. Með hliðsjón af því verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í 2 ár. Mál þetta hefur dregist nokkuð í meðförum. Verður það að hluta til rakið til ákærða, sem sökum veikinda gat ekki tekið þátt í fundi yfirmatsmanna, þegar þeir unnu að yfirmati í málinu. Í ljósi þessa og með hliðsjón af sakarefni málsins er ekki unnt að skilorðsbinda refsinguna að neinu leyti.
Samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og með hliðsjón af þeim gögnum sem liggja fyrir um afleiðingar brotsins fyrir andlega hagi brotaþola eru miskabætur henni til handa hæfilega ákveðnar 900.000 krónur ásamt vöxtum eins og í dómsorði greinir. Ákærða var birt bótakrafan 24. júlí 2012 og miðast upphafstími dráttarvaxta við þann dag er liðnir voru 30 dagar frá þeim degi.
Loks verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað, málsvarnarlaun verjanda, þóknun verjenda á rannsóknarstigi og þóknun réttargæslumanns brotaþola að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn ásamt meðdómsmönnunum Ólöfu H. Bjarnadóttur endurhæfingarlækni og Styrmi Sigurðssyni löggiltum sjúkranuddara.
Mál þetta flutti af hálfu ákæruvalds Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari.
D Ó M S O R Ð :
Ákærði, Sverrir Hjaltason, sæti fangelsi í 2 ár.
Ákærði greiði A 900.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 28. júní 2012 til 24. ágúst sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 5.240.386 krónur í sakarkostnað, þar með talið málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 2.588.190 krónur, þóknun verjenda á rannsóknarstigi, Brynjólfs Eyvindarsonar héraðsdómslögmanns, 61.380 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Gunnhildar Pétursdóttur héraðsdómslögmanns, 604.655 krónur.