Hæstiréttur íslands
Mál nr. 336/2004
Lykilorð
- Virðisaukaskattur
- Staðgreiðsla opinberra gjalda
- Refsiábyrgð
|
|
Fimmtudaginn 3. febrúar 2005. |
|
Nr. 336/2004. |
Ákæruvaldið(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari) gegn Þór Ostensen (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Virðisaukaskattur. Staðgreiðsla opinberra gjalda. Refsiábyrgð.
Þ var ákærður fyrir að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti sem innheimtur hafði verið í nafni P ehf. og staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna félagsins. Hélt Þ því fram að hann bæri ekki ábyrgð á þessum greiðslum þar sem hann hefði ekki verið framkvæmdastjóri félagsins. Með vísan til ýmissa gagna sem lágu fyrir í málinu sem Þ hafði undirritað í nafni félagsins og skuldbundið það auk framburða vitna þótti sannað að Þ hefði verið framkvæmdastjóri félagsins ásamt meðákærðu í héraði. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu og refsingu Þ og honum gert að sæta fangelsi í 4 mánuði og til greiðslu 5.100.000 króna í sekt.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 12. júlí 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að héraðsdómur verði staðfestur.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfu ákæruvalds en til vara að refsing verði milduð.
Fyrir Hæstarétti kom fram af hálfu ákæruvalds að Pandíon ehf. hafi greitt álag að fjárhæð samtals 96.475 krónur, sem koma ætti til frádráttar sektarfjárhæð, sbr. dóm Hæstaréttar 2. október 2003 í máli nr. 27/2003.
Í 2. mgr. 18. gr. samþykkta 29. febrúar 2000 og 30. ágúst 2001 fyrir Pandíon ehf., sem undirritaðar eru af ákærða og meðákærðu í héraði, segir að framkvæmdastjóri hafi með höndum stjórn á daglegum rekstri félagsins og komi fram fyrir hönd þess í öllum málum sem varða daglegan rekstur. Hann skuli einnig sjá um reikningshald og ráðningu starfsliðs.
Eins og fram kemur í héraðsdómi ritaði ákærði undir yfirlýsingu til tollstjórans í Reykjavík 11. júní 2001, sem felur í sér loforð um greiðslu og viðurkenningu skuldar félagsins á eftirstöðvum ýmissa gjalda þess, meðal annars staðgreiðslu launagreiðanda og virðisaukaskatts. Í upphafi yfirlýsingarinnar er tekið fram í sérstökum reit að ákærði sé fyrirsvarsmaður félagsins. Meðal málsgagna er ennfremur skýrsla Vinnueftirlits ríkisins 25. júní 2002 um úttekt á húsnæði félagsins í samræmi við ákvæði laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Í henni kemur fram að ákærði sé ábyrgðarmaður félagsins við úttektina og ritaði hann undir skýrsluna sem „atvinnurekandi“. Einnig er fram komið að ákærði ritaði undir umsókn félagsins 6. desember 2000 til Reykjavíkurborgar um endurnýjun á leyfi til áfengisveitinga og lengri opnunartíma. Er tekið fram í umsókninni að hann sé stjórnandi félagsins samkvæmt 5. mgr. 13. gr. áfengislaga nr. 75/1998. Þá viðurkenndi hann við rannsókn málsins hjá skattrannsóknarstjóra, lögreglu svo og fyrir dómi að hann hafi séð um að ráða fólk til starfa við fyrirtækið. Er einnig bókað eftir honum í skýrslu hans hjá skattrannsóknarstjóra 31. janúar 2003 að hann annist daglegan rekstur skattaðilans og hafi verið titlaður sem framkvæmdastjóri. Staðfesti hann fyrir dómi að rétt væri eftir honum haft í skýrslunni. Kom fram af hans hálfu við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti að starf hans á þeim tíma, sem ákæra tekur til hvað hann varðar, hafi ekki tekið breytingum.
Að öllu framangreindu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Þór Ostensen, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. maí 2004.
Ár 2004, mánudaginn 10. maí, er á dómþingi, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni, héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 332/2004: Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson) gegn A (Þórir Örn Árnason hdl.) og Þór Ostensen (Hilmar Ingimundarson hrl.) sem tekið var til dóms hinn 30. apríl sl. að lokinni aðalmeðferð.
Málið er höfðað með ákæru Ríkislögreglustjórans, dagsettri 20. febrúar sl. á hendur ákærðu, A, [ ] og Þór Ostensen, kt. [ ], Berjarima 6, Reykjavík,
”I. Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt.
1. Á hendur ákærðu báðum.
Ákærðu A og Þór er gefið að sök sem framkvæmdastjórum og A sem stjórnarmanni einkahlutafélagsins Pandíon ehf., kt. 620598-2839, sem úrskurðað var gjaldþrota 28. apríl 2003, að hafa brotið gegn lögum um virðisaukaskatt með því að hafa eigi, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið Tollstjóranum í Reykjavík skil á virðisaukaskatti sem innheimtur hafði verið í nafni einkahlutafélagsins á árunum 2001 og 2002 samtals að fjárhæð kr. 1.160.176 og sundurliðast sem hér greinir:
Uppgjörstímabil:
Árið 2001
Mars - apríl kr. 298.231
September - október kr. 355.310
Nóvember - desember kr. 272.421 kr. 925.962
Árið 2002
Janúar - febrúar kr. 22.544
Mars - apríl kr. 211.670 kr. 234.214
Samtals: kr. 1.160.176
2. Á hendur ákærðu A.
Ákærðu A sem framkvæmdastjóra og stjórnarmanni Pandíon ehf., er gefið að sök að hafa brotið gegn lögum um virðisaukaskatt með því að hafa eigi, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið Tollstjóranum í Reykjavík skil á virðisaukaskatti sem innheimtur hafði verið í nafni einkahlutafélagsins á árinu 2002 samtals að fjárhæð kr. 733.286 og sundurliðast sem hér greinir:
Uppgjörstímabil:
Árið 2002
Maí - júní kr. 439.947
Júlí - ágúst kr. 293.339 kr. 733.286
Samtals: kr. 733.286
Telst þetta varða við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50, 1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.
II. Fyrir brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.
1. Á hendur ákærðu báðum.
Fyrir brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda með því að hafa sem framkvæmdastjórar og ákærða A sem stjórnarmaður vantalið afdregna staðgreiðslu opinberra gjalda af launum starfsmanna Pandíon ehf. á öllum skilagreinum staðgreiðslu vegna greiðslutímabilanna frá mars 2001 til og með apríl 2002 sem skilað var inn og hafa látið undir höfuð leggjast að standa skil á skilagrein vegna mars 2002 og hafa eigi, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið Tollstjóranum í Reykjavík skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna Pandíon ehf. á árunum 2001 og 2002 samtals að fjárhæð kr. 3.895.895 og sundurliðast sem hér segir:
Greiðslutímabil:
Vanskil afdreginnar staðgreiðslu samkvæmt skilagreinum staðgreiðslu.
Árið 2001
Mars kr. 115.216
Apríl kr. 84.143
Maí kr. 80.230
Júní kr. 65.057
Júlí kr. 122.093
Ágúst kr. 51.672
September kr. 74.780
Október kr. 120.397
Nóvember kr. 109.110
Desember kr. 200.900 kr. 1.023.598
Árið 2002
Janúar kr. 204.383
Febrúar kr. 83.570
Mars kr. 150.300
Apríl kr. 206.062 kr. 644.315
Vantalið á skilagreinum staðgreiðslu og vangreitt.
Árið 2001
Mars kr. 30.720
Apríl kr. 37.578
Maí kr. 43.555
Júní kr. 111.120
Júlí kr. 105.432
Ágúst kr. 200.495
September kr. 121.095
Október kr. 189.972
Nóvember kr. 73.983
Desember kr. 101.036 kr. 1.014.986
Árið 2002
Janúar kr. 127.959
Febrúar kr. 211.686
Mars kr. 273.761
Apríl kr. 316.675
Maí kr. 282.915 kr. 1.212.996
Samtals: kr. 3.895.895
2. Á hendur ákærðu A.
Með því að hafa sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Pandíon ehf. látið undir höfuð leggjast að standa Tollstjóranum í Reykjavík skil, í samræmi við það sem lög áskilja, á skilagrein staðgreiðslu opinberra gjalda og afdreginni staðgreiðslu af launum starfsmanns Pandíon ehf. í júní 2002 að fjárhæð kr. 110.119 svo sem hér segir:
Greiðslutímabil:
Árið 2002
Júní kr. 110.119 kr. 110.119
Samtals: kr. 110.119
Telst þetta varða við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45, 1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar fyrir framangreind brot.”
Málavextir
Einkahlutafélagið Pandíon rak skemmtistaðinn “Club Vegas”, Laugavegi 45 hér í borg. Hinn 31. júlí sl. ritaði skattrannsóknastjóri ríkisins Ríkislögreglustjóra bréf og kærði fyrisvarsmenn félagsins fyrir brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45,1987 og lögum um virðisaukaskatt nr. 50,1988, svo og gegn reglugerðum sem á lögunum byggja. Í bréfinu segir að tilefni skattrannsóknar í málinu hafi verið tilkynning ríkisskattstjóra, 8. ágúst 2002, til skattrannsóknarstjóra um vanskil Pandíons ehf. á afdreginni staðgreiðslu. Þá segir að rannsóknin hafi byrjað 5. desember 2002 og henni lokið með gerð skýrslu sem fylgdi kærubréfinu til Ríkislögreglustjóra. Segir ennfremur í bréfinu að rannsóknin hafi leitt það í ljós að fyrirsvarsmenn félagsins hafi vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á staðgreiðsluskilagreinum fyrir hönd þess vegna greiðslutímabilanna mars, apríl, maí, júní, júlí, ágúst, september, október, nóvember og desember, tekjuárið 2001, svo og janúar, febrúar, mars, apríl, maí og júní, tekjuárið 2002. Þá hafi þeir ekki staðið á lögmæltum tíma skil á staðgreiðsluskilagreinum vegna greiðslutímabilanna október, nóvember og desember, tekjuárið 2001, og janúar, febrúar og mars, tekjuárið 2002. Þá hafi komið í ljós að ekki hafi heldur að fullu verið skil á þeirri staðgreiðslu opinberra gjalda launþega vegna greiðslutímabilanna mars, apríl, maí, júní, júlí, ágúst, september, október, nóvember og desember, tekjuárið 2001, og janúar, febrúar, mars, apríl, maí og júní, tekjuárið 2002. Í skýrslu hjá skattrannsóknarstjóra hafi þeim borið saman um að A hefði ákveðið að gera ekki skil á staðgreiðslufénu á lögmæltum tíma. Þá hefði A sagst hafa tekið þá ákvörðun og féð hefði farið í að borga laun starfsmanna. Þór hefði sagt að fé þetta hefði farið inn í bankakerfið gegnum Visa og Euro og svo í rekstur félagsins. Rannsóknin hefði leitt í ljós að fé þetta hafi numið 1.400.714 krónum fyrir árið 2001 og 1.967.430 krónum fyrir árið 2002, samtals 3.368.144 krónum. Auk þessa hafi komið í ljós við skattrannsóknina að fyrirsvarsmenn félagsins hafi ekki staðið á lögmæltum tíma skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörstímabilanna mars-apríl og september-október, tekjuárið 2001 og janúar-febrúar, mars-apríl, maí-júní og júlí-ágúst, tekjuárið 2002. Þá hafi komið í ljós að vanrækt hafi verið að standa að fullu skil á þeim innheimta virðisaukaskatti sem borið hafi að gera vegna uppgjörstímabilanna mars-apríl, september-október og nóvember-desember, tekjuárið 2001 og janúar-febrúar, mars-apríl, maí-júní og júlí-ágúst, tekjuárið 2002. Í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins hafi kærðu borði saman um það að A hefði ákveðið að standa ekki skil á skýrslunum og innheimtufé þessu. Hafi hún sagt að féð hefði farið í laun og rekstur félagsins en Þór sagt að það hefði farið inn í bankakerfið gegnum Visa og Euro og svo í rekstur skattaðilans. Rannsóknin hafi leitt í ljós að fé þetta hafi numið 925.962 krónum fyrir árið 2001 og 947.210 krónum fyrir árið 2002, samtals 1.873.172 krónum.
Skýrsla skattrannsóknarstjóra er ítarleg og í hana eru tekin upp fjölmörg gögn, auk þeirra sem nefnd voru og aflað var við rannsóknina, svo sem skilagreinar vegna launagreiðslna, virðisaukaskattsskýrslur, gögn úr launabókhaldi félagsins, gögn frá hlutafélagaskrá o.fl. Þá eru í skýrslunni margs konar yfirlit varðandi kæruefnið sem útbúin hafa verið vegna rannsóknarinnar.
Fram er komið í málinu að ákærðu hafi verið í sambúð frá því í apríl 1998 þar til í febrúar eða mars 2001 og aftur frá því í ágúst 2002 þar til í júlí 2003. Þau munu ekki hafa verið skráð í sambúð og ekki talið fram til skatts saman. Ákærða, A, keypti Pandíon ehf. 29. febrúar 2000 af dánarbúi. Í tilkynningu vegna aðalfundar í félaginu þann sama dag segir að á fundi þessum hafi ákærðu verið kjörin í stjórn, A sem formaður stjórnar en Þór varamaður í stjórn. Þór handritaði breytingu í vélritaðan texta tilkynningarinnar þar sem segir að firmað riti “stjórnarmaður” en áður hafði verið vélritað “meirihluti stjórnar.” Þá kemur þar fram að A eigi allt hlutaféð. Ennfremur segir þar í niðurlagi tilkynningarinnar að A verði framkvæmdastjóri félagsins og hafi “jafnframt prókúru fyrir félagið.” Aftan við þessa setningu er bætt við með hönd Þórs: “ásamt Þór Ostensen...” Í málinu liggja frammi tvennar samþykktir félagsins, dagsettar 29. febrúar 2000 og 30. ágúst 2001. Rita ákærðu bæði undir þær. Voru þær afhentar hlutafélagaskrá samdægurs auk tilkynningar um breytt heimilisfang félagsins sem ákærðu undirrituðu bæði. Þá er að geta tveggja skjala, dagsettra 30. júní 2002. Í tilkynningu til hlutafélagaskrár um breytingu á stjórn félagsins, sem A og Á undirrita fyrir hönd stjórnar, segir að Þór Ostensen hafi gengið úr stjórninni og í hans stað komið Á. Í tilkyningu til hlutafélagaskrár um breytta framkvæmdastjórn, sem A ritar undir, segir að samkvæmt tilkynningu til hlutafélagaskrár 29. febrúar, sem áður er getið, “voru framkvæmdastjóri (sic) einkahlutafélagsins” ákærðu, A og Þór. Þá segir þar að á stjórnarfundi þann sama dag hafi verið ákveðið “að skipta um framkvæmdastjóra” og framkvæmdastjóri með prókúru sé A. Auk þessa ber að geta skjals sem lagt var fram undir rekstri málsins en það er yfirlýsing sem ákærði Þór undirritar 11. júní 2001 og felur í sér greiðsluloforð gjaldanda, Pandíons ehf., til tollstjórans í Reykjavík. Þar kemur fram að heildarskuld félagsins hafi verið 324.573 krónur en gegn greiðslu 60% af skuldinni og loforði um greiðslu eftirstöðvanna á tilteknum gjalddögum hafi því verið frestað að stöðva atvinnureksturinn. Ákærði ritar undir viðurkenningu á skuldinni og samþykki skilmálanna, svo og þann skilning að nýr fyrningarfrestur hefjist við undirritunina. Þá er þess að geta þess að í skýrslu ákærða, Þórs, hjá skattrannsóknarstjóra sem fyrr er nefnd er haft eftir ákærða að hann hafi séð um daglegan rekstur félagsins, mannaráðningar og verið titlaður sem framkvæmdastjóri. Loks er þess að geta að í yfirheyrslu hjá rannsóknarlögreglu ríkisins 23. september 2003 var m.a. borin undir ákærða, Þór, tilkynningin til hlutafélagaskrár 29. febrúar 2000 þar sem fram komi að hann hafi verið “varamaður í stjórn og framkvæmdastjóri og prókúruhafi ásamt” meðákærðu. Er haft eftir honum að skjölin væru rétt.
Ríkislögreglustjóri hóf rannsókn í málinu, bæði með því að taka skýrslur af ákærðu og afla margvíslegra gagna, skilagreina, virðisaukaskýrslna, yfirlita af ýmsu
tagi.
Verður nú gerð grein fyrir því sem fram hefur komið í aðalmeðferð málsins.
Ákærða, A, segist ekki hafa verið framkvæmdastjóri félagsins nema frá þeim tíma að hún sagði meðákærða upp störfum. Að minnsta kosti hafi hún ekki litið á sig sem framkvæmdastjóra fyrr en eftir það, þótt hún hafi verið skráð sem slíkur hjá hlutafélagaskránni frá 29. febrúar 2000. Hún segir að þegar fyrirtækið var keypt hafi Þór sagt að hann mætti hvergi koma fram vegna þess að hann væri gjaldþrota og eignalaus. Hann hafi sagt að hann væri að “gæta eigin hagsmuna” með því að handskrifa inn á tilkynninguna 29. febrúar 2000. Þau hafi átt fyrirtækið saman og Þór verið framkvæmdastjóri og séð um daglegan rekstur en hún verið “innan gæsalappa fjármálastjóri.” Hafi hún að mestu átt að sjá um fjármál en þó hafi hún ekki gert það. Hún kveðst hafa verið stjórnarmaður allan þann tíma sem málið tekur til. Hún segir starf sitt hafa verið fólgið í því að færa bókhaldið, reikna út laun, útbúa skilagreinarnar og launaseðla vegna erlendra starfsmanna, sem um ræðir, og senda þær inn og útvega fé til þess að greiða starfsmönnum laun. Við þetta hafi hún unnið á skrifstofu félagsins fyrir ofan skemmtistaðinn Vegas. Hún kveður fjárhæðirnar í virðisaukaskattsskýrslunum sem um ræðir í málinu vera í samræmi við bókhald félagsins. Þór Ostensen hafi séð um að greiða laun enda hafi hann alfarið séð um daglegan rekstur félagsins en hún hafi sent inn virðisaukaskattsskýrslurnar ógreiddar í pósti. Hún segist hafa verið á eftir með það enda haft fyrir heimili að sjá og unnið fullt starf annars staðar. Hún segist hafa vitað að skatturinn væri í vanskilum en þó hafi verið reynt að greiða inn á skuldina jafnt og þétt. Félagið hafi hins vegar átt í erfiðleikum vegna þess að einhver var að stela úr sjóði þess. Meðákærði hafi sagt að fjárskorturinn væri hennar mál þar sem hún væri fjármálastjóri fyrirtækisins. Ákærða segir um það sem haft er eftir henni í skýrslu hjá skattrannsóknarstjóra að hún hafi tekið ákvörðun um að ekki var staðið skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslufé að hún dragi það til baka, enda taki enginn ákvörðun um slíkt. Fé hafi einfaldlega skort, eftir því sem á henni er að skilja. Að því er varðar tilkynninguna 29. febrúar 2000 segir hún að hana beri að skilja þannig að meðákærði hafi bæði verið prókúruhafi og framkvæmdastjóri. Hún kveður meðákærða hafa haft prókúru á alla reikninga félagsins. Hann hafi ýmist gefið út tékka í eigin nafni eða nafni hennar. Hún kveðst ekki kunna skýringu á því hvers vegna hann hafi gefið út tékka í eigin nafni úr því að hann hafði prókúruumboð fyrir félagið.
Ákærði, Þór Ostensen, kveðst ekki hafa verið skráður framkvæmdastjóri en hann hafi verið skráður prókúruhafi frá ársbyrjun 2000 til 1. júlí 2002. Hann kveður áritun sína á tilkynninguna 29. febrúar 2000 hafa verið gerða vegna þess að óskað hafi verið eftir því að hann “tæki virkari þátt...með þessari undirskrift og í raun og veru fyrst og fremst til þess að geta haft prókúru”. Þetta hafi því verið tilkynning um prókúruumboðið en ekki að hann væri framkvæmdastjóri. Hann hafi haft með “almenna umsjón í fyrirtækinu” að gera. Hann hafi ekki komið nálægt eiginlegum rekstri félagsins. Hafi “almenn umsjón” hans verið fólgin í því að fá fólk til starfa, vera í sambandi við viðskiptavini erlendis sem útvegað hafi dansara. Þá hafi hann séð um samskiptin við lögregluyfirvöld, vinnumálastofnun og útlendingaeftirlit vegna margvíslegra leyfa sem afla þurfti. Hann hafi tekið á móti fólki í viðtöl vegna dagvinnu hjá fyrirtækinu, viðhald og umhirðu eigna. Hann hafi ekki ráðið starfsmenn einn og hafi ráðningar verið bornar undir framkvæmdastjórann. Meðákærða hafi unnið með honum seinni part dags og á kvöldin. Hún hafi einnig séð um bókhald og fyllt út skýrslur en jafnframt verið í fullu starfi annars staðar. Ákærði kveðst ekki hafa átt í fyrirtækinu. Hann kveðst hafa verið varamaður í stjórn félagsins eins og fram komi í tilkynningunni 29. febrúar 2000. Hann hafi þó ekki setið neina stjórnarfundi og þetta hafi verið formsatriði eitt. Hann kveðst ekki hafa verið gjaldþrota á þeim tíma sem máli skiptir en hann hafi verið lýstur gjaldþrota um 1990. Hann kveðst hafa undirritað samþyktir félagsins 29. febrúar 2000 og 30. ágúst 2001 og tilkynningu um breytt heimilisfang til hlutafélagaskrár vegna þess að hann hafi álitið að hann ætti að undirrita þær sem prókúruhafi. Hafi vanþekkingu hans verið um að kenna. Hann segist ekki hafa vitað hvernig stóð með skattskilin hjá fyrirtækinu á þeim tíma sem um ræðir. Hafi þau A ekki rætt þessi málefni í upphafi en þegar á leið hafi hann farið að spyrja út í ákveðin atriði og hún svarað að honum kæmu þau ekki við og ekkert sagt honum. Hann hafi heldur aldrei séð um að greiða neitt sem viðkom opinberum gjöldum. Hann geti því ekki tjáð sig neitt um réttmæti talnanna í ákærunni. Hafi hann greitt eitthvað fyrir félagið hafi það verið gert að ósk A og í umboði hennar. Hann segist ekki geta fullyrt hvort hann hafði prókúruumboð á bankareikninga félagsins en hann hafi ritað nafn meðákærðu undir tékkana sem bendi til þess að hann hafi ekki haft það. Hann segist iðulega hafa pantað aðföng til félagsins, aðallega áfengi og rekstrarvörur en svo hafi verið fenginn annar maður til að sinna þessu. Hann kveðst þó hafa áfram haft yfirumsjón með þessum kaupum. Hann segir, vegna þess sem haft er eftir honum í skýrslu hjá skattrannsóknarstjóra, að hann hafi verið titlaður sem slíkur en hann hafi ekki verið það í raun. Á þessu hafi verið munur í sínu tilviki. Hann hafi verið andlit fyrirtækisins út á við og annast samskipti við fréttamenn þar sem meðákærða vildi ekki koma fram opinberlega fyrir fyrirtækið. Það sem haft er eftir honum í skýrslunni hjá rannsóknarlögreglu kveðst hann ekki geta skýrt á annan hátt en hann hafi þegar gert.
B hefur skýrt frá því að hann hafi starfað í skemmtistaðnum “Vegas” frá því um mánaðarmótin mars-apríl 2000 til haustsins 2002. Hann kveður Þór hafa verið framkvæmdastjóra fyrirtækisins og hafa séð um allan daglegan rekstur. Hafi staðið framkvæmdastjóri á nafnspjöldum hans. Hann hafi greitt útgjöld fyrirtækisins með tékkum á reikning fyrirtækisins og með greiðslukorti þess. Hann kveðst ekki vita hvort Þór hafi haft með að gera skattskilin fyrir fyrirtækið. A og Þór hafi átt fyrirtækið og hún séð um bókhald og launaútreikning og launagreiðslur. Hún hafi þó ekki komið á staðinn daglega. Hann kveður peninga hafa horfið úr fyrirtækinu og starfsmönnum verið kennt um.
P kveðst hafa starfað í skemmtistaðnum frá því í febrúar-mars 2000 til júní 2002. Hann hafi bæði unnið á daginn og á kvöldin, fyrst við dyravörslu og síðar sem vaktstjóri. Bjarni hafi verið starfsmannastjóri og yfirmaður vitnisins en svo hafi hann heyrt undir Þór og A. Þór hafi verið framkvæmdastjóri og rekið fyrirtækið að því er vitnið álítur. A hafi unnið við bókhald. Þegar þurft hafi að ræða um rekstur staðarins hafi ýmist verið rætt við þau tvö en þó oftast við Þór einan. Segist hann hafa álitið meðan hann starfaði þarna að ákærðu ættu saman fyrirtækið. Segist hann hafa fengið laun sín greidd ýmist hjá Þór eða A og ýmist með ávísun eða inn á reikning. Ávísanir hafi oftast verið undirritaðar af A en eins gæti Þór hafa gert það með eigin nafni. Hann viti ekki hvort Þór hafi haft með skattskil félagsins að gera. Hann segir að þegar spurt hafi verið um framkvæmdastjóra staðarins hafi starfsmenn átt að vísa á Þór.
Niðurstaða
Tölur um vanskil á staðgreiðslufé og virðisaukaskatti og um vantalningu staðgreiðslufjár og staðhæfingar um vanskil á skilagreinum vegna þeirra í ákærunni hafa ekki verið vefengdar. Ákæran er rækilega studd rannsóknargögnum sem aflað var hjá embættum skattrannsóknarstjóra og ríkislögreglustjóra og dómarinn hefur yfirfarið. Eru ekki efni til þess að efast um að rétt sé farið með þessi atriði í ákærunni. Þó liggur það fyrir að greitt hefur verið inn á skattskuldina eftir gjalddaga.
Ákærða, A, var skráður framkvæmdastjóri og stjórnarmaður félagsins allan þann tíma sem um ræðir og jafnframt eigandi þess. Þá liggur það einnig fyrir að hún sá um bókhald félagsins og sá um að gera virðisaukaskattsskýrslur og launaútreikninga. Ber hún þannig refsiábyrgð á því að ekki var staðið skil á virðisaukaskattinum sem greinir í ákærunni, vantalið á skilagreinum staðgreiðslufé af launum starfsmannanna, ekki gert skil fjárins og ekki gert skilagreinar þær sem tilgreindar eru. Hefur hún gerst sek um stórfellt brot gegn þeim lagaákvæðum sem tilfærð eru í ákærunni.
Ákærði, Þór, kannast við að hafa séð um daglegan rekstur fyrirtækisins og komið fram fyrir þess hönd gagnvart opinberum aðilum, eins greint hefur verið. Hann
neitar því þó að hafa verið framkvæmdastjóri félagsins og segist einungis hafa verið með prókúru fyrir það. Áritun hans á tilkynninguna til hlutafélagaskrár, 29. febrúar 2000, er ekki ótvíræð um það hvort hann sé þar tilgreindur framkvæmdastjóri eða einungis prókúruhafi. Aftur á móti bendir það, að hann breytti texta tilkynningarinnar, til þess að hann hafi verið annað og meira en prókúruhafi og varamaður í stjórn félagsins. Hann hefur gengist við því að hafa verið titlaður framkvæmdastjóri en segir það hins vegar aðeins hafa verið að nafninu til. Í skýrslum sínum hjá skattrannsóknarstjóra og ríkislögreglustjóra kannaðist hann við að hafa verið framkvæmdastjóri og gerði hann þá engan slíkan fyrirvara. Er skýring hans á þessu nú ekki trúverðug. Meðákærðu segir hann hafa verið framkvæmdastjóra með sér á þeim tíma sem greinir í ákæru og tilkynning hennar 30. júní til hlutafélagaskrár er samtímaheimild um það að hún hafi þá litið á hann sem framkvæmdastjóra. Ákærði ritaði undir tilkynningu til hlutafélagaskrár um breytt heimilisfang félagsins og undir samþykktir þess. Skýring hans á því nú getur ekki talist trúverðug. Þá verður að líta til þess að hann taldi sig bæran til þess að gefa tollstjóraembættinu greiðsluloforð vegna skattskuldarinnar, eins og vikið var að, og binda félagið frekar í sambandi við það. Loks er þess að geta að tveir starfsmenn félagsins hafa borið að hann hafi í raun verið framkvæmdastjóri og starfað sem slíkur. Þykir allt þetta veita ótvíræðar sönnur fyrir því að ákærði hafi verið framkvæmdastjóri Pandíons ehf. ásamt meðákærðu, þann tíma sem tiltekinn er í ákærunni, og beri refsiábyrgð á sama hátt og hún. Hefur hann gerst sekur um stórfellt brot gegn þeim lagaákvæðum sem tilfærð eru í ákærunni.
Refsing og sakarkostnaður
Ákærða, A, hefur ekki áður gerst sek um refsilagabrot. Þykir refsing hennar hæfilega ákveðin fangelsi í 4 mánuði. Rétt þykir að fresta framkvæmd refsivistarinnar og ákveða að hún falli niður að liðnum 2 árum frá dómsbirtingu, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Þá ber að gera ákærðu sekt vegna brotsins sem ákveðst 7.000.000 króna. Greiðist sektin ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu sæti ákærða fangelsi í 6 mánuði.
Ákærði, Þór, hefur tvisvar verið dæmdur í sekt fyrir brot gegn 210. gr. almennra hegningarlaga, 1997 og 1998. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 4 mánuði. Rétt þykir að fresta framkvæmd refsivistarinnar og ákveða að hún falli niður að liðnum 2 árum frá dómsbirtingu, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Þá ber að gera ákærða sekt vegna brotsins sem ákveðst 5.100.000 krónur. Greiðist sektin ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu sæti ákærði fangelsi í 5 mánuði.
Dæma ber ákærðu, hvort um sig, til þess að greiða verjanda sínum 150.000 krónur í málsvarnarlaun, Þóri Erni Árnasyni hdl. og Hilmari Ingimundarsyni hrl. Annan sakarkostnað bera að dæma ákærðu til þess að greiða óskipt.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærða, A, sæti fangelsi í 4 mánuði. Frestað er framkvæmd refsivistarinnar og fellur hún niður að liðnum 2 árum frá dómsbirtingu, haldi ákærða almennt skilorð. Ákærða greiði 7.000.000 króna í sekt en sæti fangelsi í 6 mánuði, greiðist sektin ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu.
Ákærði, Þór Ostensen, sæti fangelsi í 4 mánuði. Frestað er framkvæmd refsivistarinnar og fellur hún niður að liðnum 2 árum frá dómsbirtingu, haldi ákærði almennt skilorð. Ákærði greiði 5.100.000 krónur í sekt en sæti fangelsi í 5 mánuði, greiðist sektin ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu.
Ákærðu greiði, hvort um sig, verjanda sínum 150.000 krónur í málsvarnarlaun, Þóri Erni Árnasyni hdl. og Hilmari Ingimundarsyni hrl. Annan sakarkostnað greiði ákærðu óskipt.