Hæstiréttur íslands

Mál nr. 159/2003


Lykilorð

  • Samningur
  • Skuldaskil
  • Bókhald


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. desember 2003.

Nr. 159/2003.

Gísli Örn Lárusson

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

gegn

Allrahanda ehf.

(Sveinn Skúlason hrl.)

og gagnsök

 

Samningur. Skuldaskil. Bókhald.

AÍ og G tóku að sér, f.h. óstofnaðs félags, að taka við nánar tilgreindum skuldbindingum E. Rekstur hins nýja félags, AF, varð mjög skammlífur og reis ágreiningur um uppgjör á skuldbindingum þess milli hluthafanna. Gerðu AÍ og G samkomulag um uppgjör sín á milli og síðar viðbótarsamkomulag þar sem kveðið var á um að AÍ skyldi gefa út og afhenda G tvö skuldabréf samtals að fjárhæð 4.530.000 kr. Jafnframt var umsamið, að kæmu í ljós skekkjur við færslu bókhalds skyldu greiðslur samkvæmt samkomulaginu endurskoðaðar. AÍ lét eftir þetta færa bókhaldið eftir þeim upplýsingum sem aðgengilegar voru og höfðaði í framhaldi af því mál á hendur G til endurheimtu 4.400.397 kr., sem AÍ taldi sig hafa ofgreitt. A tók síðar við aðild málsins af AÍ. Fór svo að kröfur A voru teknar til greina að fullu, enda hafði G ekki tekist að sanna að þær skyldu sæta lækkun.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Aðaláfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 18. mars 2003. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu málsins 30. apríl 2003 og áfrýjaði hann á ný 2. maí sama árs með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur veri ómerktur og málinu vísað til héraðsdóms að nýju til löglegrar dómsmeðferðar og að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 16. júlí 2003. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 4.400.397 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 13. júní 1997 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann staðfestingar héraðsdóms. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I.

Aðaláfrýjandi reisir ómerkingarkröfu sína á því að bókhaldi Arctic-ferðaþjónustunnar hf. hafi ekki verið endanlega lokið fyrr en með gerð ársreiknings og áritun endurskoðanda. Þessi gögn hafi ekki verið lögð fram fyrr en við aðalmeðferð málsins í héraði. Þar sem málatilbúnaður gagnáfrýjanda byggist aðallega á fyrirvara í samkomulagi aðila er laut að nýjum upplýsingum úr bókhaldi hlutafélagsins telur hann að gögnin séu of seint fram komin og málið ekki dómhæft. Í þinghaldi 4. desember 2002 var bókað að ársreikningurinn hafi verið lagður fram með samþykki þáverandi lögmanns aðaláfrýjanda. Er ekkert bókað um að lögmaðurinn hafi gert athugasemdir af þessu tilefni. Verður ómerkingarkröfu aðaláfrýjanda hafnað þegar af þessari ástæðu. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti féll aðaláfrýjandi frá öðrum ástæðum, sem aðalkrafa hans var studd við.

II.

Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi stóðu Allrahanda/Ísferðir ehf. og aðaláfrýjandi saman að því með samningi 23. ágúst 1995, fyrir hönd óstofnaðs félags, að taka við flugi á tilteknum flugleiðum, sem Emerald Air Ltd. hafði áður annast. Jafnframt tóku þeir yfir nánar tilgreindar skuldbindingar flugfélagsins. Með samkomulagi 29. sama mánaðar skuldbundu þeir sig, sem væntanlegir hluthafar í Arctic-ferðaþjónustunni hf., til að ábyrgjast að jöfnu fjárskuldbindingar og fjárframlög vegna félagsins og skyldi hvor þeirra, sem ábyrgðist eða greiddi meira en helming þeirra, eiga endurkröfu á hinn sem því næmi. Aðaláfrýjandi var framkvæmdastjóri hlutafélagsins en rekstur þess varð mjög skammlífur. Var bókhald þess í molum og reis ágreiningur um uppgjör á skuldbindingum þess milli hluthafanna. Gerðu þeir samkomulag um uppgjör sín á milli 18. febrúar 1997 og síðan viðbótarsamkomulag um sama efni 12. júní sama árs. Samkvæmt viðbótarsamkomulaginu skyldu Allrahanda/Ísferðir ehf. gefa út og afhenda aðaláfrýjanda tvö skuldabréf samtals að fjárhæð 4.530.000 krónur. Voru skuldabréfin gefin út 13. júní 1997. Bæði í samkomulaginu 18. febrúar 1997 og í viðbótarsamkomulaginu 12. júní sama árs voru ákvæði þess efnis að kæmu í ljós skekkjur við færslu bókhalds skyldi samkomulagið endurskoðað. Var þetta orðað svo í viðbótarsamkomulaginu að kæmi í ljós við færslu bókhalds hlutafélagsins eða við endurskoðun þess að útreikningar aðaláfrýjanda væru rangir þannig að hann hefði greitt minna vegna félagsins en uppgjörið miðaðist við skyldi hann endurgreiða það Allrahanda/Ísferðum ehf. Síðastnefnda félagið lét eftir það færa bókhald hlutafélagsins eftir þeim upplýsingum, sem aðgengilegar voru. Reyndist niðurstaða þess að aðaláfrýjandi hafði greitt minna vegna hlutafélagsins en við var miðað í viðbótarsamkomulaginu 12. júní 1997. Höfðuðu Allrahanda/Ísferðir ehf. mál þetta til endurheimtu þess, sem félagið taldi sig hafa ofgreitt. Þann 1. mars 2002 samdi gagnáfrýjandi um að taka við aðild málsins af Allrahanda/Ísferðum ehf. Bú síðarnefnda félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta 20. desember 2002.

III.

Aðaláfrýjandi heldur því fram að í samkomulaginu 18. febrúar 1997 og viðbótarsamkomulaginu 12. júní sama árs hafi falist að Allrahanda/Ísferðir ehf. hafi samþykkt að taka til greina við uppgjör aðila útgjöld, sem aðaláfrýjandi teldi sig hafa haft, enda þótt þau tilheyrðu ekki með réttu bókhaldi Arctic-ferðaþjónustunnar hf. Þá heldur hann fram að í þessum gerningum hafi falist að Allrahanda/Ísferðir ehf. geti einungis krafist leiðréttinga vegna atriða sem séu ný í þeim skilningi að upplýsingar hafi ekki legið fyrir um þau áður en samkomulagið 18. febrúar 1997 og síðan viðbótarsamkomulagið 12. júní sama árs voru gerð. Á þetta verður ekki fallist. Verður framangreint orðalag viðbótarsamkomulagsins ekki skilið á annan hátt en þann að réttilega fært bókhald Arctic-ferðaþjónustunnar hf. skuli ráða fjárhæð hugsanlegrar endurgreiðslu aðaláfrýjanda.

Aðaláfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt ljósrit af yfirlitum vegna tveggja greiðslukorta sinna frá þeim tíma er rekstur Arctic-ferðaþjónustunnar hf. stóð. Krefst hann lækkunar á kröfu gagnáfrýjanda á grundvelli upplýsinga er þar komi fram. Af þessum yfirlitum verður ekki ráðið að aðaláfrýjandi hafi með greiðslukortunum innt af hendi útgjöld í þágu Arctic-ferðaþjónustunnar hf. umfram það sem þegar sýnist hafa verið fært í bókhaldi félagsins. Stendur það aðaláfrýjanda næst að tryggja sönnur fyrir því að þessi útgjöld hans sem önnur varði rekstur félagsins.

Þá telur aðaláfrýjandi að hann hafi sjálfur lagt 1.530.000 krónur inn á reikning sinn í Landsbanda Íslands 12. september 1995, en í bókhaldi Arctic-ferðaþjónustunnar hf. sé þetta ranglega talin greiðsla frá Independent Aviation Group Ltd. (IAG), en það félag mun hafa haft milligöngu um að útvega leiguflugvélar til starfsemi hlutafélagsins. Í framlögðum bókhaldsgögnum er að finna ljósrit af greiðsluseðli vegna umrædds innleggs á reikning aðaláfrýjanda. Kemur þar fram í skýringum að innleggið sé vegna IAG. Telja verður að aðaláfrýjandi verði að sýna fram á það að innlegg inn á reikning, sem hann meðal annars notaði við rekstur félagsins og samkvæmt fylgiskjölum tengist viðskiptamanni þess, stafi ekki frá þeim viðskiptamanni. Það hefur honum ekki tekist og getur yfirlit, sem hann hefur lagt fram í Hæstarétti og kveður vera úr viðskiptamannabókhaldi IAG, ekki ráðið úrslitum við það mat.

Samkvæmt kröfu gagnáfrýjanda var gert fjárnám eftir héraðsdómi í eign aðaláfrýjanda 30. janúar 2003. Gagnáfrýjandi gerði þá ekki fyrirvara um gagnáfrýjun af sinni hálfu. Hefur hann því fyrirgert áfrýjunarrétti sínum til heimtu vaxta fyrir lengra tímabil en héraðsdómur dæmdi.

Með framangreindum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Aðaláfrýjanda verður gert að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Aðaláfrýjandi, Gísli Örn Lárusson, greiði gagnáfrýjanda, Allrahanda ehf., 350.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2002.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 4. desember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Allrahanda/Ísferðum ehf, kt. 500489-1119, Hyrjarhöfða 2, Reykjavík, með stefnu birtri 28. desember 2000 á hendur Gísla Erni Lárussyni, kt. 050348-4238, Hagamel 8, Reykjavík.  Undir rekstri málsins yfirtók Allrahanda ehf. aðild stefnanda í málinu.

 

         Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð kr. 4.400.397, með vanskilaársvöxtum samkvæmt 10. gr. laga nr. 25/1987 með síðari breytingum frá 13.06.1997 til greiðsludags.  Þess er jafnframt krafizt, að vanskilavextir leggist við höfuðstól skuldarinnar á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 13.06.1998, en síðan árlega þann dag, sbr. 12. gr. síðastgreindra laga.  Þá er krafizt málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi stefnanda að skaðlausu að mati dómsins.

 

         Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda, og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að mati dómsins.  Til vara er þess krafizt, að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

 

II.

Málavextir:

Með samkomulagi, dags. 23. ágúst 1995, milli aðila máls þessa annars vegar og forsvarsmanna Emerald Air (NI) Ltd. hins vegar, tóku hinir fyrrnefndu á sig, fyrir hönd óstofnaðs hlutafélags, allar skuldbindingar Emerald Air gagnvart ferðaskrifstofum á Íslandi vegna ferða, er seldar höfðu verið á flugleiðunum Keflavík­London-Keflavík og Keflavík-Belfast-Keflavík.  Átti hið nýja félag að taka við flugi á framangreindum flugleiðum frá 25. ágúst 1995.  Sama dag stofnuðu aðilar máls þessa hlutafélagið Arctic-ferðaþjónustuna hf. (Arctic Air Tours Ltd.) og tóku við framangreindum flugrekstri.  Hlutafé félagsins var kr. 5.000.000, og var eignaraðild þannig háttað, að hvor aðila um sig átti 50% hlutafjár.

         Hluthafarnir gerðu með sér samkomulag, dags 29. ágúst 1995, um að ábyrgð þeirra skyldi vera jöfn, þannig að legði annar hluthafinn meira fé til félagsins en hinn, ætti hann endurkröfu á hendur hinum hluthafanum að 50% þeirrar fjárhæðar, er hann þyrfti að greiða.

         Stefndi kveður hafa verið ljóst í upphafi, að öll fjárframlög kæmu frá honum, þ.m.t. hlutaféð.  Þess vegna hafi stefnandi afhent honum víxil, að fjárhæð kr. 4.500.000, til tryggingar endurgreiðslu.  Hafi víxillinn verið samþykktur af stefnanda, en útgefinn af Sigurdóri Sigurðssyni og framseldur af honum og Sigríði Kristjánsdóttur, eiginkonu Þóris Garðarssonar, en Þórir og Sigurdór séu stjórnendur stefnanda.  Þau Sigurdór og Sigríður voru, ásamt stefnda, í stjórn Arctic-ferða­þjónustunnar hf.

         Rekstur Arctic-ferðaþjónustunnar hf. varð skammlífur, og kveður stefnandi flugreksturinn hafa staðið í rúman mánuð, og hafi orðið verulegt tap á honum, sem að mestu leyti hafði verið fjármagnaður af stefnda, bæði með beinum fjárframlögum og með lántöku í formi yfirdráttar á tékkareikningum í Búnaðarbanka Íslands og Landsbanka Íslands.  Í fyrstu hafi hans eigin bankareikningur verið notaður fyrir allt fjárstreymi félagsins.

         Er flugrekstri félagsins var lokið innheimti stefndi víxilinn, sem afhentur hafði verið, og krafðist fjárnáms í eignum stefnanda á grundvelli hans.  Í kjölfarið sendi lögmaður stefnanda Ásgeiri Ragnarssyni hdl., lögmanni stefnda, símbréf, dags. 2. júní 1996, ásamt hreyfingalistum úr bókhaldi Arctic-ferðaþjónustunnar hf., þar sem segir m.a., að samkvæmt bókhaldi félagsins skuldi stefndi stefnanda kr. 147.771.                Stefndi kveðst strax hafa gert athugasemdir við færslu bókhaldsins.  Hafi hann samþykkt allar færslur á hreyfingalistanum viðkomandi stefnanda, nema kostnað við tölvukaup hjá Tæknivali, að fjárhæð kr. 532.923, kostnað við för 15 manna á vegum stefnanda með Flugleiðum, alls að fjárhæð kr. 475.568, og jafnframt hafi hann óskað skýringa á greiðslu til Arnar Ottesen, að fjárhæð kr. 79.879.  Hafi hann viðurkennt kostnað stefnanda, að fjárhæð kr. 2.378.237.  Þá hafi hann haft ýmsar athugasemdir varðandi bókhaldsfærslur, er hann sjálfan varðaði.  Samkvæmt hreyfingalistunum hafi hann átt að hafa lagt út kr. 3.171.192,04.  Hann hafi krafizt skýringa á greiðslu að fjárhæð kr. 575.000, er hann hafi átt að hafa fengið, og jafnframt hafi hann talið, að vantaði á hreyfingalistana 8 greiðslur, er hann hafði innt af hendi, samtals að fjárhæð kr. 2.142.232, en auk þess hafi hann talið sig hafa greitt eða vera ábyrgan fyrir greiðslum samtals að fjárhæð kr. 5.440.094.

         Stefndi kveður stefnanda strax hafa viðurkennt, að úttekt hjá Tæknivali hf., að fjárhæð kr. 532.923, væri ekki vegna Arctic-ferðaþjónustunnar hf., heldur vegna eigin úttektar hans, og hafi framlag þeirra til félagsins því lækkað í kr. 2.933.811.

         Samkomulag tókst með aðilum þann 18. febrúar 1997 um uppgjör.  Samkvæmt því skyldi stefnandi greiða stefnda kr. 4.300.000 með tveimur skuldabréfum til 5 ára, sem áttu að vera tryggð með veði í fasteignunum Þverholti 9, Mosfellsbæ, og Eldshöfða 17, Reykjavík, auk þess sem Sigurdór Sigurðsson, Þórir Garðarsson og Sigríður Kristjánsdóttir áttu að bera sjálfskuldarábyrgð á skuldinni.  Fyrsti gjalddagi skuldabréfanna átti að vera 15. maí 1997.

         Í samkomulaginu kemur fram, að til grundvallar því séu fyrirliggjandi upplýsingar tilheyrandi bókhaldi Arctic-ferðaþjónustunnar hf.  Voru aðilar sammála um, að kæmu í ljós skekkjur svo einhverju næmi, skyldi endurskoða samkomulagið með tilliti til þeirra upplýsinga.  Þá voru aðilar sammála um, að þeir skyldu skipta með sér þóknun til Björgvins Þorsteinssonar hrl. vegna aðstoðar hans og málflutnings.  Stefndi kveður aðila enn fremur hafa verið sammála um ýmsa liði, sem ekki voru inni í bókhaldsfærslum félagsins, svo sem úttektir á Visakort stefnda, sem hafi verið notað til greiðslu hótelkostnaðar á Bretlandi, og ýmsan annan kostnað, er til hafði fallið.

         Stefnendur stóðu ekki við framangreint samkomulag og gáfu ekki út skuldabréfin.  Kveður stefnandi, að mjög takmarkaðar upplýsingar og gögn hafi legið fyrir við gerð samkomulagsins um uppgjörið, þar sem bókhald félagsins hafi verið ófært, og fylgiskjöl hafi skort.  Hafi því við uppgjörið fyrst og fremst verið byggt á yfirlitum frá stefnda, er hann hafði sent lögmönnum sínum í tilefni af þrýstingi frá honum um endurgreiðslu þess fjár, er stefndi hélt fram, að hann hefði lagt út eða tekið á sig umfram stefnanda.  Í trausti þess, að upplýsingar stefnda væru réttar, hafi stefnandi samþykkt það samkomulag, sem til sé vitnað frá 18. febrúar 1997, sbr. og 12. maí 1997.  Áður hafi lögmaður stefnda, Björgvin Þorsteinsson hrl., ritað lögmanni stefnanda bréf, dags. 9. febrúar 1996, þar sem þrýst hafi verið á stefnanda að ganga frá uppgjöri við stefnda.

         Viðbótarsamkomulag var gert, og er það dags. 12. maí 1997, en aðilar eru sammála um, að það eigi að vera 12. júní 1997.  Samkvæmt því lofaði stefnandi að gefa út og afhenda stefnda skuldabréf, að fjárhæð kr. 4.530.000.  Kveður stefndi fjárhæðina hafa verið hækkaða vegna kostnaðar stefnda af innheimtu hjá stefnanda.  Í þessu samkomulagi var ákvæði samsvarandi því, sem áður hafði verið, um að kæmi í ljós við færslu bókhalds og/eða endurskoðun þess, að útreikningar stefnda væru rangir, bæri honum að endurgreiða stefnanda.  Stefnandi gaf út þau skuldabréf, sem samið var um.

         Stefndi kveðst hafa heimilað stefnanda að gefa út nýtt skuldabréf með veði í Þverholti 9, Mosfellsbæ, á árinu 1999 og breyta þannig upphaflegum greiðsluskilmálum skuldarinnar.

         Arctic-ferðaskrifstofan er skráð með skammstöfuninni hf. hjá hlutafélagaskrá, en í skjölum málsins er ýmist talað um Arctic-ferðaskrifstofuna hf. eða ehf.  Liggja ekki fyrir gögn um að félaginu hafi verið breytt í einkahlutafélag og verður því fjallað um félagið hér eins og það er skráð upphaflega.

               

III.

Málsástæður stefnanda:

Stefnandi byggir á því, að hann hafi tekið að sér að sjá um að láta færa bókhaldið, og hafi það verk hafizt fljótlega, eftir að samkomulagið var gert.  Starfsmaður á skrifstofu stefnanda, Guðbjartur Jónsson, hafi síðan hafizt handa við úrvinnslu bókhalds Arctic ferðaþjónustunnar hf., m.a. með öflun fylgiskjala.  Þá hafi fljótlega vaknað grunur um, að bókhaldið gæfi aðra mynd af viðskiptastöðunni en stefndi hafði haldið fram, sbr. bréf stefnanda, dags. 9. desember 1997.  Endurskoðun Gunnars Hjaltalín ehf. hafi síðan unnið yfirlit um færslur bókhaldsins, en samkvæmt niðurstöðu hins löggilta endurskoðanda sé viðskipta­staða félagsins allt önnur en stefndi hafi lýst í bréfum sínum og á fundum með aðilum, er gengið var til áður tilvitnaðra samninga.  Sé niðurstaða endurskoðandans sú, að greiðslur stefnda umfram stefnanda hafi numið kr. 259.366, en ekki kr. 4.458.581, eins og stefndi hafi fullyrt og lagt hafi verið til grundvallar.

         Stefnandi telji því, í samræmi við samkomulag aðila frá 29. ágúst 1995 um upphafleg markmið aðila um ábyrgðir, svo og með vísan til síðari samninga aðila um uppgjör, að stefnandi eigi rétt á endurgreiðslu ofgreidds framlags.  Endurkrafa stefnanda með tilliti til niðurstöðu endurskoðandans, þ.e. mismunurinn á helmingi af kr. 259.366 ­(kr. 129.683), sem stefnda hafi borið að endurgreiða stefnanda, og kr. 4.530.000 sé því kr. 4.400.317, sem sé jafnvirði höfuðstólsfjárhæðar endurkröfunnar, en jafnframt sé í málinu gerð krafa um vanskilavexti og málskostnað.

         Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 7. nóvember 2000, hafi stefnda verið tilkynnt um endurkröfu stefnanda og skorað á stefnda að greiða eða að semja um endur­greiðsluna.  Stefndi hafi ekki svarað bréfi þessu, og því sé talið nauðsynlegt að höfða mál þetta til að fá aðfararhæfan dóm fyrir endurkröfunni.

         Stefnandi kveður málið rekið samkvæmt 1. nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Hann vísar til samninga aðila, svo og til reglna samninga- og kröfuréttar um greiðsluskyldu skuldara.  Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður hann við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 og kröfur um málskostnað við 130. gr. 1. nr. 91 /1991 um meðferð einkamála.

 

Málsástæður stefnda:

Stefndi kveður enga kröfu hafa borizt frá stefnanda á hendur stefnda, fyrr en hann fékk bréf frá lögmanni stefnanda, dags. 7. nóvember 2000.  Hann hafi fyrst séð bókhaldsfærslur þær, sem fylgja með dskj. nr. 16 við þingfestingu þessa máls.  Sé þar nánast alfarið byggt á þeim bókhaldsfærslum, sem fyrir lágu í júní 1996.

         Þær breytingar, sem gerðar hafi verið á bókhaldfærslunum, séu á bókhaldslykli 8030, og séu þær, að leiðréttar séu tvær færslur, önnur að fjárhæð kr. 244.035 og hin að fjárhæð kr. 88.162.  Engar skýringar fylgi og ekki séu lögð fram þau fylgiskjöl, sem varði þessar færslur.  Á bókhaldslykli 8050 sé að sama skapi um að ræða leiðréttingu tveggja færslna, og sé önnur að fjárhæð kr. 532.923 og hin að fjárhæð kr. 76.599.  Engin fylgiskjöl séu heldur lögð fram vegna þessara færslna, en fyrri leiðréttingin hafi þegar verið gerð, þegar frá samkomulagi aðila var gengið á árinu 1997.  Á bókhaldslykli 7030 hafi verið leiðréttar tvær færslur í samræmi við bréf stefnda frá 16, september 1996, önnur að fjárhæð kr. 400.000 og hin að fjárhæð kr. 909.932, og jafnframt séu 6 aðrar nýjar færslur, og þ.á m. haldi endurskoðandinn því fram, að IAG hafi greitt inn á reikning stefnda kr. 1.530.000 þann 12. september 1995. IAG hafi aldrei greitt inn á reikning þennan, heldur hafi stefndi staðið í því vikulega að greiða til IAG, sem séð hafi Arctic-ferðaþjónustunni hf. fyrir flugvélum.  Þessi innborgun hafi verið stefnanda kunn árið 1996, en innborgunin hafi komið frá stefnda sjálfum.  Engin fylgiskjöl séu lögð fram til sönnunar færslum þessum.

         Að öðru leyti en að framan greini hafi ekki verið gerðar breytingar á bókhaldsfærslunum.  Í bréfi Eymundar Sveins Eiríkssonar, dags. 17. apríl 2000, segi, að greiðslur stefnda umfram greiðslur stefnanda hafi verið kr. 259.366.  Telji hann stefnda til inneignar kr. 854.963 á ávísanareikningi Emerald Air nr. 47183 (eigi að vera 47133).  Hann virðist jafnframt telja, að Búnaðarbanki Íslands og Landsbanki Íslands hafi ekki tekið vexti og kostnað af yfirdráttarlánum.  Þá hafi í engu verið tekið tillit til þess, sem fram komi í bréfi stefnda, dags. 16. september 1996, og hafi verið utan bókhalds Arctic-ferðaþjónustunnar hf., sem þá lá fyrir, en aðilar hafi verið sammála um að leggja þær tölur til grundvallar uppgjöri sínu.

         Útreikningum þeim, sem fram koma á dskj. nr. 16, er alfarið mótmælt, enda var ekki að neinu leyti haft samráð við stefnda við vinnu þessa, og virðist hún vera alfarið út í hött og að engu hafandi.

         Sýknukröfu sína byggir stefndi á því, að uppgjör það, sem fram fór á árinu 1997, hafi verið rétt, eða a.m.k. hafi ekki hallað á stefnanda í því uppgjöri.  Öll þau gögn, sem stefnandi byggi nú á, hafi legið fyrir þegar þann 2. júní 1996, sbr. dskj. nr. 20 og 21. Einungis smávægilegar leiðréttingar hafi verið gerðar frá þessum tíma, og eigi þær breytingar ekki að leiða til þess, að samkomulag aðila sé tekið til endurskoðunar, og eigi ekki að leiða til endurkröfu stefnanda á hendur stefnda.  Séu engar forsendur til þess, og beri því að sýkna stefnda.  Þá hafi stefnandi sýnt af sé mikið tómlæti með því að koma ekki kröfum sínum á framfæri fyrr en liðið sé á fjórða ár frá því, að endanlegt uppgjör fór fram.  Tómlæti stefnanda verði sérstaklega að skoða í ljósi þess, að stefnandi hafi haft undir höndum öll bókhaldsgögn, sem á sé byggt.  Hafi hann með tómlæti sínu fyrirgert rétti sínum, hafi hann einhver verið.  Þá séu færslur þær, sem stefnandi byggi kröfur sínar á, beinlínis rangar, eins og áður sé getið.  Virðist sem stefnandi vilji nú ekki sætta sig við áður gert samkomulag, t.d. vegna úttekta af Visa­reikningi stefnda í þágu Arctic-ferðaþjónustunnar hf., svo og vegna annarra greiðslna eða ábyrgða, er hann var í, og ekki hafi farið í gegnum bókhald félagsins.  Stefndi telji, að stefnandi geti ekki fengið þessum atriðum hnekkt, þar sem þau hafi verið umsamin árið 1997.  Það hafi einungis verið, ef fram kæmi við færslu bókhaldsins, að útreikningar stefnda væru rangir, að stefnandi hafi getað krafizt endurgreiðslu.  Ekkert slíkt hafi komið fram, þar sem allar breytingar, sem gerðar hafi verið á bókhaldsfærslum, hafi annaðhvort legið fyrir, þegar samkomulag var gert með aðilum, eða séu beinlínis rangar.  Beri því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

         Krafizt sé ríflegs málskostnaðar úr hendi stefnanda, þar sem málshöfðun hans sé tilefnislaus.  Vísist því til stuðnings til 130. og 131. gr. laga nr. 91/1991.

 

IV.

Forsendur og niðurstaða:

Fyrir dóminum gáfu skýrslu Þórir Garðarsson, fyrirsvarsmaður og markaðsstjóri stefnanda, Sigurdór Sigurðsson, framkvæmdastjóri stefnanda, Jóhann Skaphéðinsson, starfsmaður á endurskoðunarskrifstofu, Guðbjartur Jónsson, framkvæmdastjóri og Björgvin Þorsteinsson hæstaréttarlögmaður.

         Með samkomulagi, dags. 18. febrúar 1997, skuldbatt stefnandi sig til að greiða stefnda þar tilgreinda fjárhæð.  Í samkomulaginu segir, að grundvöllur þess hafi verið fyrirliggjandi upplýsingar tilheyrandi bókhaldi Arctic-ferðaþjónustunnar hf., og lýsa aðilar sig sammála því, að komi í ljós skekkjur, svo einhverju nemi, muni þeir endurskoða samkomulagið með tilliti til þeirra upplýsinga. 

         Með viðbótarsamkomulagi, dags. 12. maí 1997, hækkar sú fjárhæð, sem stefndu lofa að greiða, lítillega, en jafnframt er þar eftirfarandi fyrirvari: 

 

       “Komi í ljós við færslu bókhalds Arctic ferðaþjónustunnar ehf. og/eða endurskoðun þess, að útreikningar Gísla Arnar séu rangir, þannig að Gísli hafi greitt minna en uppgjör er miðað við og hann heldur fram, þá endurgreiðir hann að teknu tilliti til þess.”

 

         Undir samkomulagið rita Sigurdór Sigurðsson f.h. stefnanda og stefndi, Gísli Örn Lárusson.  Ljóst er, að við undirritun þessa viðbótarsamkomulags var bókhald Arctic-ferðaþjónustunnar hf. enn ófært og byggðust greiðslur stefnanda á útreikningum stefnda, Gísla Arnar.  Samkvæmt framburði fyrirsvarsmanna stefnanda fyrir dómi töldu þeir sig ekki hafa átt annarra kosta völ en að gera þetta samkomulag, þar sem Gísli Örn hefði verið með fjárnám í fasteign hjá stefnanda vegna innheimtu víxils, sem stefnandi hefði afhent honum á sínum tíma.  Hefðu þeir afhent Gísla Erni tvo víxla, annan til tryggingar til þess að útvega bankaábyrgð fyrir ferðaskipuleggjendaleyfi og hinn til tryggingar fyrir yfirdrætti á bankareikningi félagsins.  Gísli Örn hefði hins vegar notað annan þessara víxla heimildarlaust til að innheimta meinta skuld stefnanda við stefnda, sem byggðist á uppgjöri, sem hann sjálfur stillti upp.  Var eitt af samningsatriðum í viðbótarsamkomulaginu, að fjárnámi Gísla Arnar í þar tilgreindum eignum yrði fellt niður, sem og mál, sem í gangi voru hjá hjá sýslumanninum í Reykjavík og fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í tengslum við það.  Kváðu þeir það hafa verið í verkahring Gísla Arnar að sjá til þess, að bókhaldið yrði fært, en bókhaldsgögn voru í vörzlum stefnanda, en einnig muni Gísli Örn hafa talið sig hafa bókhaldsgögn í sínum vörzlum, sem voru m.a. forsenda útreiknings hans og þar með greiðslu­skuld­bindingar stefnanda samkvæmt nefndum samkomulögum.  Báru þeir jafnframt, að Gísli Örn hefði aldrei orðið við áskorunum um að afhenda þau gögn. 

         Stefnandi heldur því fram í stefnu, að starfsmaður stefnanda, Guðbjartur Jónsson hefði í kjölfar þess, að samkomulagið var gert, hafizt handa við að færa bókhaldið, og hefði fljótlega vaknað grunur um, að viðskiptastaðan væri önnur en Gísli Örn hefði haldið fram.   Ársreikningur Arctic Air ehf. 1995 er dags. 25. nóvember 2002.  Í áritun endurskoðanda, Gunnars Hjaltalín, segir svo:

 

       “Við höfum aðstoðað við gerð ársreiknings fyrir fyrirtækið Arctic Air ehf. vegna ársins 1995.  Ársreikningurinn hefur að geyma rekstrarreikning, efnahagsreikning, skýringar og sundurliðanir.

Við höfum skipulagt og hagað vinnu okkar í samræmi við viðurkenndar aðferðir við gerð óendurskoðaðra ársreikninga með það að markmiði að aðstoða Arctic Air ehf. við að leggja fram ársreikning sem er í samræmi við lög og góða reikningsskilavenju.  Ársreikningurinn er byggður á bókhaldi félagsins og öðrum upplýsingum.

Við höfum ekki endurskoðað ársreikninginn og þar af leiðandi ekki sannreynt grundvöll hans.”

 

         Samkvæmt bréfi frá endurskoðun Gunnars Hjaltalín, sem undirritað er af Eymundi Sveini Einarssyni löggiltum endurskoðanda, var greiðsla Gísla Arnar umfram greiðslu stefnanda kr. 259.366, og eru dómkröfur stefnanda byggðar á þeirri niðurstöðu. 

         Það liggur fyrir, að bókhaldið hafði enn ekki verið fært, þegar viðbótarsamkomulag aðila var gert, og byggðist niðurstaða þess á útreikningum Gísla Arnar, sem stefnandi hafði ekki gögn til að yfirfara og sannreyna á þeim tíma.  Af þeim sökum var umdeildur fyrirvari settur í samkomulagið.  Engin gögn hafa verið lögð fram í máli þessu af hálfu stefnda til að styðja útreikninga hans.  Yfirlýsingar Björgvins Þorsteinssonar hrl. um framlag Gísla Arnar til fyrirtækisins eru óstaðfestar, en lögmaðurinn bar fyrir dómi, að hann gæti ekki svarað fyrir það með nokkurri vissu, hvað það væri, sem stefndi hefði greitt í þágu félagsins, eða hversu mikið af því fjármagni hann hefði fengið til baka. 

         Stefndi gerir m.a. athugasemdir við óútskýrðar leiðréttingar á bókhaldsfærslum í bókhaldslyklum 8030, 8050 og 7030.  Vitnið Guðbjartur Jónsson kvaðst ekki minnast þessara leiðréttinga sérstaklega, en taldi, að ástæða þess hefði getað verið sú, að það hefði vantað svo mikið að skjölum, þegar hann tók við bókhaldinu, að þetta hefði getað verið hluti af leiðréttingum vegna þess.  Hann hafi gengið fullkomlega frá hreyfingalistunum í hendurnar á Gunnari Hjaltalín.   Þegar hann tók við, hafi verið búið að reyna að mestu leyti að útvega upplýsingar frá öðrum en Gísla Erni, en mikið af fylgiskjölum hefði enn vantað, sem og upplýsingar frá Gísla Erni, sem hefði verið búinn að kurla saman einkareikningi sínum og reikningi félagsins, og hefði verið erfitt að finna út, hvað var hvað.          

         Stefndi gerir einnig athugasemdir við meinta greiðslu IAG inn á reikning stefnda þann 12. september 1995, kr. 1.530.000, og kveður hana aldrei hafa verið greidda.

         Í framlögðum bókhaldsgögnum á dskj. nr. 31 er að finna ljósrit af greiðsluseðli, þar sem umrædd fjárhæð er greidd umræddan dag inn á reikning stefnda.  Greiðandi er tilgreindur IAG.

         Með hliðsjón af skjölum málsins, sem og framburði aðila og vitna, sem ekki hefur verið hrakinn, þykir í ljós leitt, að stefnandi hafi gengið til umdeilds samkomulags í trausti þess, að reyndust óstaðfestar upplýsingar Gísla Arna rangar, myndu greiðslur þeirra til Gísla Arnar verða leiðréttar, svo sem skýrt er kveðið á um í viðbótarsamkomulaginu.  Gísli Örn hefur hvorki lagt fram gögn þau, sem útreikningar hans við gerð samkomulagsins voru byggðir á, staðreynt útreikninga sína með vætti vitna eða á annan hátt, né komið fyrir dóminn til að skýra frá sjónarmiðum sínum og eftir atvikum að mótmæla framburði fyrirsvarsmanna stefnanda.  Útreikningar Guðbjarts Jónssonar hafa ekki verið hraktir eða gerðir ósennilegir, og þykir mega leggja þá til grundvallar.

         Það má fallast á, að stefnandi hafi sýnt nokkuð tómlæti með því að hafa ekki uppi kröfur fyrr en raunin varð, en dómurinn fellst ekki á, að hann hafi með því fyrirgert rétti sínum til endurkröfu samkvæmt samkomulagi aðila og er þá litið til þess, að stefnandi gerði ítrekaðar tilraunir til að afla gagna frá Gísla Erni, sem var lítið eða ekkert sinnt.  Hins vegar þykir rétt, með hliðsjón af því, að bókhaldi félagsins var ekki endanlega lokið með gerð ársreiknings og áritun endurskoðanda og það lagt fyrir dóminn fyrr en við aðalmeðferð í máli þessu, að dráttarvextir dæmist frá dómsuppsögudegi.  Þá dæmast vextir samkvæmt III. kafla l. nr. 38/2001, en ekki samkvæmt eldri lögum, svo sem gert er í kröfugerð stefnanda.  Að öðru leyti verða kröfur stefnanda teknar til greina að fullu.

         Eftir atvikum þykir rétt, að stefndi greiði stefnanda kr. 600.000 í málskostnað.

         Dóminn kváðu upp Sigríður Ólafsdóttur héraðsdómari, Stefán Svavarsson viðskiptafræðingur og löggiltur endurskoðandi og Stefán Franklín löggiltur endurskoðandi.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Gísli Örn Lárusson, greiði stefnanda, Allrahanda ehf., kr. 4.400.397, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla l. nr. 38/2001 frá dómsuppsögudegi, 18. desember 2002, til greiðsludags og kr. 600.000 í málskostnað.