Hæstiréttur íslands

Mál nr. 600/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann


Föstudaginn 16

 

Föstudaginn 16. nóvember 2007.

Nr. 600/2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason, saksóknari)

gegn

X

(Jónas Þór Guðmundsson hdl.)

 

Kærumál. Farbann.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta farbanni samkvæmt b. lið 1. mgr. 103. gr. og 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. nóvember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember 2007, þar sem varnaraðila var áfram bönnuð för frá Íslandi uns dómur gengur í máli hennar, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 20. desember kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að farbanninu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Ákæra á hendur varnaraðila var gefin út 13. nóvember 2007 þar sem henni eru gefin að sök þjófnaðarbrot í félagi við aðra. Með vísan til þess er fallist á með sóknaraðila að uppfyllt séu skilyrði 110. gr., sbr. b. lið 1. mgr. 103. gr., laga nr. 19/1991 fyrir farbanni varnaraðila og verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómsorð:

       Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

                               Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember 2007.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt fram kröfu um að úrskurðað verði að X, kt. [...], verði bönnuð för frá Íslandi á meðan mál hans eru fyrir dómi, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 20. desember nk., kl. 16.

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi haft til rannsóknar rúmlega tuttugu þjófnaðarmál úr verslunum, þar sem í öllum tilvikum hafi verið um að ræða að stolið hafði verið á opnunartíma verslananna með kerfisbundnum hætti dýrum smávarningi. Um síðustu mánaðamót vöknuðu grunsemdir um að hópur fólks, frá Litháen, sem hér dvelur, stæði að þjófnuðunum. Gerð hafi verið húsleit í íbúð á 3. hæð í Y, Reykjavík, 2. október sl. Í íbúðinni héldu til nokkrir Litháar, þar á meðal ákærða. Við húsleitina hafi verið lagt hald á mikið magn af munum, svo sem fatnað, snyrtivöru og ýmsan tæknibúnað. Í kjölfarið hafi ákærða verið úrskurðuð í farbann fimmtudaginn 4. október sl. til dagsins í dag.

Í dag höfðaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu opinbert mál á hendur ákærðu, ásamt fimm öðrum litháískum ríkisborgurum.  Í ákæruskjali sé ákærðu gefið að sök að hafa framið í félagi tvö þjófnaðarbrot.

Þá hafi lögreglan enn til rannsóknar þrjú mál þar sem ákærða sé sterklega grunað um aðild.  Rannsókn þeirra mála er vel á veg komin og má ætla að unnt verði að ljúka rannsókn þeirra á allra næstu dögum.

Við rannsókn mála ákærðu kom í ljós að hún hefur takmörkuð tengsl við landið.  Það sé því mat lögreglustjóra að nauðsynlegt sé að tryggja nærveru hennar hér á landi til að hún geti ekki komið sér undan málsmeðferð fyrir dómi.  

Í ljósi framangreinds, hjálagðra gagna og þeirra sjónarmiða sem fram koma í b-lið 1. mgr. 103. gr. og 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sé þess farið á leit að fallist verði á framkomna kröfu.

Því hefur verið slegið föstu með dómi Hæstaréttar Íslands frá 5. nóvember sl. að skilyrði hafi verið fyrir því að félagar kærðu, sem nú hafa verið ákærðir í félagi við kærðu fyrir fjölmörg auðgunarbrot, sættu farbanni á grundvelli 110. gr., sbr. b-lið 1.mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Kærða var einnig úrskurðaður í farbann á sínum tíma, en kærði ekki úrskurðinn til Hæstaréttar. Fulltrúi lögreglustjóra hefur lagt fyrir dóminn afrit af ákæru frá því í dag þar sem varnaraðili er ákærð fyrir brot er hafa verið grundvöllur að farbanni yfir henni.  Verður því talið að lögregla hafi hraðað svo sem kostur er meðferð mála varnaraðila. Ætti að vera unnt að ljúka málum varnaraðila fyrir 20. desember nk. Verður því fallist á beiðni lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að kærði sæti farbanni svo sem greinir í úrskurðarorði.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kærðu, X, kt. [...], er bönnuð för frá Íslandi á meðan mál hennar eru fyrir dómi, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 20. desember nk., kl. 16.00.