Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-105

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Ý (Andrés Már Magnússon lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Líkamsárás
  • Frelsissvipting
  • Hótanir
  • Hlutdeild
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Karl Axelsson, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 31. júlí 2023 leitar Ý leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 23. júní sama ár í máli nr. 458/2022: Ákæruvaldið gegn Ý og Z. Leyfisbeiðanda var birtur dómurinn 5. júlí 2023. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Leyfisbeiðandi var ákærð fyrir hlutdeild í frelsissviptingu, líkamsárás og hótunum. Í ákæru kom fram að brot hennar teldust varða við 1., sbr. 2. mgr. 226. gr., 2. mgr. 218. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, allt sbr. 1. mgr. 22. gr. sömu laga.

4. Með dómi héraðsdóms var leyfisbeiðandi sakfelld fyrir hlutdeild í frelsissviptingu samkvæmt 1., sbr. 2. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga en sýknuð af hlutdeild í líkamsárás og hótunum. Með dómi Landsréttar var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda staðfest. Var leyfisbeiðanda þar gert að sæta fangelsi í 12 mánuði en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Í dómi Landsréttar kom fram að fallist væri á þá niðurstöðu héraðsdóms að sönnun lægi fyrir um að leyfisbeiðandi hefði með liðsinni í orði eða verki, fortölum, hvatningum eða á annan hátt átt þátt í frelsissviptingu brotaþola, sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga. Vísaði Landsréttur til skýrs og trúverðugs framburðar brotaþola, hótana leyfisbeiðanda í garð hans sem hún hafði gengist við, framburða meðákærðu hjá lögreglu og ótrúverðugs framburðar leyfisbeiðanda sem samræmdist ekki gögnum málsins.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða málsins hafi verulega almenna þýðingu við skýringu á hlutdeildarbrotum, þá sérstaklega lægri mörkum slíkra brota sem og hlutdeildarbrota af athafnaleysi. Niðurstaðan kunni jafnframt að hafa almenna þýðingu um lægri mörk ásetnings. Þá varði málið skýrleika ákæruskjala. Leyfisbeiðandi byggir einnig á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, einkum þar sem hún hafi verið sakfelld fyrir aðra háttsemi en hún var ákærð fyrir en hún hafi verið sakfelld fyrir vitneskju um atvik eða að hafa verið hlynnt atburðarás, sem hvorki jafngildi skipulagningu brots eða hvatningu til þess. Telur leyfisbeiðandi jafnframt að sú háttsemi uppfylli ekki skilyrði hlutdeildar enda felist hvorki í því athöfn né athafnaleysi heldur aðeins huglæg afstaða til verknaðar annars manns. Þá verði sakfelling hennar ekki byggð á framburði meðákærðu hjá lögreglu.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.