Hæstiréttur íslands
Mál nr. 157/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. mars 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. mars 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta farbanni meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 30. maí 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í b. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að farbanninu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með héraðsdómi [...]. september 2016 var varnaraðili dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Málinu hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar og er á dagskrá réttarins [...]. maí 2017. Er samkvæmt þessu fullnægt skilyrðum 1. og 2. mgr. 100. gr., sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til að varnaraðili sæti áframhaldandi farbanni. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. mars 2017.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess að X, [...] ríkisborgari fæddur [...], verði gert að sæta áfram farbanni á meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 30. maí 2017, kl. 16:00.
Krafa er reist á b. lið 1. mgr. 95. gr., sbr. 3. mgr. 97. gr. og 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Varnaraðili mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað, en til vara að farbanni verði markaður skemmri tími.
Í greinargerð segir að með ákæru héraðssaksóknara, útgefinni 5. apríl sl., hafi dómfellda verið gefið að sök stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa á árinu 2015 staðið saman ásamt meðákærðu að innflutningi á 19.448,96 g af amfetamíni og 2.597,44 g af kókaíni frá [...] til Íslands ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni, eins og nánar greinir í ákæruskjali sem varðar allt að 12 ára fangelsi. Við aðalmeðferð málsins hafi dómfelldi neitað sök, en dómur í málinu hafi verið kveðinn upp [...]. september sl. í máli nr. S-[...]/2016 þar sem dómfelldi hafi verið dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir brot sitt. Ríkissaksóknari hefur áfrýjað þætti dómfellda til Hæstaréttar til þyngingar refsingar.
Dómfelldi hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 29. september 2015 til 22. desember sama ár, en þar sem gæsluvarðhald hafði þá varað í 12 vikur án þess að mál hefði verið höfðað á hendur honum hafi lögregla talið, í samræmi við 4. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, að ekki væri unnt að úrskurða dómfellda áfram í gæsluvarðhald.
Dómfelldi hafi frá 22. desember sl. sætt farbanni til dagsins í dag á grundvelli b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála, síðast með úrskurði héraðsdóms Reykjaness í málinu nr. R-[...]/2017. Hæstiréttur hafi í fimm skipti staðfest úrskurði Héraðsdóms Reykjaness um áframhaldandi farbann dómfellda, sbr. dóma Hæstaréttar nr. 57/2016, 127/2016, 216/2016, 257/2016 og 481/2016.
Með vísan til alvarleika þeirra brota sem dómfelldi hefur nú verið sakfelldur fyrir í fyrrgreindum dómi Héraðsdóms Reykjaness og með vísan til þess að hinn dómfelldi er erlendur ríkisborgari sem hefur engin sérstök tengsl við landið sé það mat ríkissaksóknara að þeir hagsmunir að tryggja nærveru dómfellda vegna fullnustu refsingar krefjist þess að dómfelldi sæti áfram farbanni á meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti eða eftir atvikum þar til endanlegur dómur gengur. Að mati ákæruvaldsins sé ljóst að dómur í Hæstarétti muni ekki liggja fyrir eftir fjórar vikur og lög setji ekki skorður við því að dómfelldir menn séu úrskurðaðir eða dæmdir í farbann í lengri tíma en fjórar vikur í senn við þessar aðstæður, sbr. 1. mgr. 97. gr. laga um meðferð sakamála. Við þessar aðstæður hafi tíðkast að fara fram á farbann eða gæsluvarðhald í 12 vikur í senn eða þar til dómur Hæstaréttar gengur og sé í því samhengi vísað til dóms Hæstaréttar nr. 123/2015.
Dómfelldi hefur sætt farbanni til dagsins í dag á grundvelli grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008. Dómur gekk í máli varnaraðila þann 21. september sl. í Héraðsdómi Reykjaness, í máli nr. S-[...]/2016, þar sem hann var dæmdur til að sæta fangelsi í fimm ár. Mál dómfellda er komið á dagskrá Hæstaréttar þann [...]. maí 2017.
Með vísan til framangreinds og 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008, er fallist á kröfu ríkissaksóknara um áframhaldandi farbann, eins og í úrskurðarorði greinir. Ekki er talið með vísan til framangreinds, að hægt sé að marka farbanninu skemmri tíma en krafist er.
Úrskurð þennan kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Varnaraðila, X, er bönnuð för frá Íslandi á meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti Íslands, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 30. maí 2017, kl. 16:00.