Hæstiréttur íslands
Mál nr. 428/2012
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
|
|
Fimmtudaginn 18.
október 2012. |
|
Nr. 428/2012. |
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari) gegn X (Páll Arnór Pálsson hrl. Bjarni Lárusson hdl.) |
Kynferðisbrot. Börn.
X
var sakfelldur fyrir kynferðislega áreitni gegn fjögurra ára gamalli telpu sem
hann gætti, sem heimfærð var undir 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr.
19/1940, og brot gegn 4. mgr. 210. gr. sömu laga fyrir vörslur tæplega 3000
ljósmynda á fartölvu er sýndu börn á kynferðislegan og klámfengin hátt. Var
refsing X ákveðin fangelsi í sex mánuði, skilorðsbundið að hluta, auk þess sem
fartölva hans var gerð upptæk.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál
þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Árni Kolbeinsson,
Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari
skaut málinu til Hæstaréttar 5. júní 2012. Hann krefst þess að ákærði verði
sakfelldur samkvæmt ákæru, en refsing hans þyngd.
Ákærði
krefst staðfestingar héraðsdóms.
Með
vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Allan
áfrýjunarkostnað málsins skal greiða úr ríkissjóði, þar með talin
málsvarnarlaun verjanda ákærða, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti
eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur
skal vera óraskaður.
Allur
áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun
skipaðs verjanda ákærða, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500
krónur.
Dómur Héraðsdóms
Suðurlands mánudaginn 14. maí 2012.
Mál þetta, sem þingfest var þann
6. mars 2012, og tekið var til dóms að lokinni aðalmeðferð þann 17. apríl sl.,
er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 6. febrúar 2012, á hendur
ákærða, X, kennitala [...], til heimilis að [...],[...];
„fyrir
kynferðisbrot framin á árinu 2010 sem hér greinir:
I.
Með
því að hafa mánudaginn 1. nóvember 2010, að [...],[...], þar sem ákærði var að
gæta A, kennitala [...], þá 4 ára, klætt telpuna úr buxum, sokkabuxum og
nærbuxum og nuddað kynfæri hennar þar til telpan bað hann um að hætta.
Telst
þetta varða við 1. mgr. 201. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr.
19/1940.
II.
Haft
í vörslu sinni á heimili sínu að [...],[...] 3092 ljósmyndir á Toshiba fartölvu sem sýna börn á kynferðislegan og
klámfenginn hátt en tölvan var haldlögð á heimili ákærða þann 4. nóvember 2010.
Telst
þetta varða við 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga.
Þess
er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls
sakarkostnaðar. Einnig til að sæta upptöku samkvæmt 1. tl.
1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga [sic] Toshiba fartölvu.“
Við þingfestingu málsins þann 6.
mars sl., var ákærða skipaður verjandi og málinu frestað til 20. mars sl. Þann
dag kom ákærði fyrir dóm og játaði skýlaust þá háttsemi sem honum er gefin að
sök í öðrum tölulið ákæru og samþykkti upptökukröfu í ákæru. Ákærði neitaði sök
í fyrsta tölulið ákæru og hafnaði því að hafa nuddað kynfæri telpunnar eins og
lýst er í ákæru. Nánar aðspurður viðurkenndi ákærði að hafa klætt telpuna úr
buxum, sokkabuxum og nærbuxum og að hafa snert kynfæri hennar í 3-5 sekúndur og
síðan klætt hana aftur í fötin.
Ákærði krefst sýknu af fyrri
tölulið ákæru en til vara að sú háttsemi sem hann kunni að verða sakfelldur
fyrir gagnvart telpunni verði eingöngu heimfærð undir 2. mgr. 202. gr. almennra
hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði krefst vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá
krefst verjandi ákærða málsvarnarlauna sér til handa og að þau verði greidd úr
ríkissjóði.
Málsatvik
Um hádegi þann 4. nóvember 2010 barst lögreglunni á Selfossi bréf frá
félagsráðgjafa hjá Fjölskyldumiðstöð Árborgar þar sem óskað var eftir
lögreglurannsókn vegna gruns um að telpan [...], fædd 21. janúar 2006, hefði
orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu ákærða. Í frumskýrslu lögreglu
kemur fram að ætlað brot hafi átt sér stað mánudaginn 1. nóvember 2010 meðan
ákærði gætti telpunnar, sem er systurdóttir hans, á heimili hennar að [...] á [...].
Þá kemur fram í frumskýrslu lögreglu að þann 4. nóvember 2010 hafi lögregla
lagt hald á tvær fartölvur og tvo flakkara í eigu ákærða á heimili hans á [...].
Síðdegis
þann 9. nóvember 2010 skoðaði Arnar Þór Guðmundsson, yfirlæknir, telpuna á
Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Í vottorði hans, dagsettu 8. desember 2010, er
haft eftir móður telpunnar að hún hafi sofið ágætlega undanfarnar nætur, ekki
talað um það sem gerðist og hegðað sér á allan hátt eðlilega síðastliðna viku.
Fram kemur að við skoðun hafi telpan ekki verið feimin. Hún hafi verið glaðleg
og eðlileg og leikið sér. Sérstaklega hafi verið skoðað húðsvæði í kringum anus, perinealt og yfir ytri labia og symphysu og hafi enga
áverka verið að sjá, en innri genitalia hafi ekki
verið skoðuð.
Greinargerð Þóru Sigfríðar
Einarsdóttur, sálfræðings í Barnahúsi, er dagsett 6. janúar 2011. Þar kemur
fram að brotaþoli hafi sótt þrjú viðtöl í Barnahúsi á tímabilinu 24. nóvember
2009 [sic]
til 6. janúar 2011. Í viðtölunum hafi verið lögð áhersla á fræðslu auk þess að
skapa öruggt umhverfi til að gefa telpunni tækifæri til að ræða ætlað
kynferðisbrot og tilfinningar tengdar því. Brotaþoli hafi tekið virkan þátt í
fræðslunni en fram kemur að telpan hafi ekki virst gera sér grein fyrir
alvarleika ætlaðs brots. Þegar ákærða hafi borið á góma hafi brotaþoli greint
frá því að hann hafi kitlað hana en hún hafi ekki vera hrædd við hann. Þó hafi
brotaþoli sagt, þegar rætt var um ákærða og viðbrögð við óæskilegri hegðun;
„maður vil það ekki, maður segir ég vil ekki en hann hætti ekki.“ Þá kemur fram
að lögð hefði verið áhersla á að kanna hvort telpan hefði á einhvern hátt verið
kvíðin eða að minningar um atburðinn sæktu á hana. Í greinargerðinni segir að
svo hafi hins vegar ekki virst vera og fram kemur að foreldrar hennar séu því
sammála að ekki sé hægt að merkja hegðunarbreytingar hjá barninu. Í lok
greinargerðar segir að vegna ungs aldurs brotaþola þjóni það ekki hagsmunum
hennar að halda eiginlegri meðferð áfram en áfram verði leitast við að styðja
foreldra hennar í því ferli sem framundan sé.
Í málinu liggur frammi
upplýsingaskýrsla lögreglu um tölvurannsókn. Þar kemur fram að frá
tölvurannsókna- og rafeindadeild LRH hafi borist
niðurstöður vegna tölvurannsóknar á tölvum ákærða og í gögnum málsins sé diskur
með tveimur pdf skjölum með ljósmyndum sem fundist
hafi við rannsóknina. Þar komi fram upplýsingar um myndirnar, s.s. staðsetning,
hvenær þeim hafi verið breytt og hvenær opnaðar síðast. Þá komi einnig fram
hvort skrá hafi verið eytt eða ekki. Síðan segir orðrétt í skýrslunni. „Á fyrra
pdf skjalinu (ljósmyndir 1) má sjá myndir af ungum
stelpum, mjög líklega flestar undir 9 ára aldri. Stelpurnar eru til að byrja
með klæddar létt, sumar eru í baðfötum en allar eru í kynferðislegum stellingum.“
Þá eru tilgreindar sérstaklega nokkrar myndir sem sýna börn sem látin eru
viðhafa ýmsar kynferðislegar athafnir, m.a. munnmök og kynmök við fullorðna
karlmenn. Þá eru myndir sem sýna fáklæddar og naktar telpur látnar viðhafa
kynferðislegar stellingar og í sumum tilvikum eru þær látnar hafa munnmök hvor
við aðra. Á síðara pdf skjali (ljósmyndir 2) megi sjá
börn, flest fáklæddar telpur undir 10 ára aldri, sem eru látnar viðhafa kynferðislegar stellingar. Eins og áður segir
byrja flestar myndaraðirnar á því að börnin eru hálfklædd en eru svo látin
fækka fötum. Oftast er um að ræða tvær telpur sem eru látnar sýna hvor annarri
kynferðisleg atlot. Myndbakgrunnurinn er ýmist, svefnherbergi, baðherbergi,
hótelherbergi eða utandyra.
Framburður brotaþola
fyrir dómi
Í skýrslutöku af brotaþola, telpunni A,
fyrir dómi í Barnahúsi þann 9. nóvember 2010, sem er í hljóð og mynd og
dómurinn hefur skoðað, kom fram hjá brotaþola að enginn hefði komið við
„einkastaði“ hennar. Eftir að brotaþoli greindi frá því að ákærði hafi verið
einn þeirra gesta sem hafi farið í tölvuna á heimili hennar og spili leiki,
sagði telpan að ákærði væri skemmtilegur, þau horfi á teiknimyndir saman og
hann hafi stundum passað hana. Þá greindi brotaþoli frá því að ákærði hefði,
þar sem þau voru inni í stofu, togað í eitthvað og nánar aðspurð sagði telpan
að ákærði hefði togað buxurnar, sokkabuxurnar og síðan nærbuxur hennar niður að
hnjám. Hún hafi beðið hann um að hætta en hann hafi sagt „bara að segja engum
þetta“, en hún hafi sagt foreldrum sínum frá því. Fram kom hjá brotaþola að hún
hefði togað buxurnar upp en ákærði togað þær niður aftur. Aðspurð hvað hafi
gerst á undan sagði brotaþoli að ákærði hafi kitlað hana inn undir peysunni, en
aðeins þar. Ákærði hefði kitlað hana „alveg mikið“, eins og hún orðaði það og
benti telpan á svæði á brjóstkassa þegar hún var spurð hvar ákærði hafi kitlað
hana og merkti staðinn einnig inn á teikningu sem liggur frammi í málinu.
Aðspurð hvort hún hafi meitt sig kvaðst telpan hafa meitt sig á tánum.
Framburður ákærða hjá
lögreglu
Nauðsynlegt þykir að rekja tiltekin
atriði í framburði ákærða hjá lögreglu þann 5. nóvember 2010 varðandi ákærulið
I, en dómurinn hefur kynnt sér upptöku af yfirheyrslunni sem tekin var upp í
hljóð og mynd. Þar kemur fram að ákærði hafi, að beiðni systur hans, dvalið á
heimili hennar og gætt brotaþola og systur hennar í klukkustund meðan faðir
telpnanna fór til læknis. Eftir að hafa lýst því hvernig hann lék við
brotaþola, m.a. með því að hann togaði niður um hana buxur, sokkabuxur og
nærbuxur, sem hún hafi togað jafn harðan upp aftur, kvaðst ákærði hafa tekið
brotaþola upp í „svona bóndatak, svona í kjöltuna svona“, eins og ákærði orðar
það. Ákærði lýsti því að meðan brotaþoli sat í kjöltu hans hafi hann verið „stríða
henni um magann
svona að kitla henni.“ Síðan hafi hann sett hendina ofan á píku hennar, svona þrjár til fimm sekúndur,
en brotaþoli hafi sagt hættu en samt alltaf verið hlæjandi. Þannig hafi þessu
lokið og kvaðst ákærði hafa girt upp nærbuxur brotaþola. Aðspurður hvort hann
hafi hreyft fingurna þegar hann var með hendina á
kynfærum brotaþola sagðist ákærði hafa hreyft hendina
fram og til baka og sýndi ákærði hvernig hann stóð að því með því að leggja hendina ofan á bók.
Framburður ákærða og
vitna fyrir dómi
Eins og áður er rakið játaði ákærði
sök í ákærulið II og samþykkti upptökukröfu í þinghaldi 20. mars sl. Ákærði
neitaði hins vegar sök í ákærulið I. Nánar aðspurður viðurkenndi ákærði að hafa
klætt brotaþola úr buxum, sokkabuxum og nærbuxum og að hafa snert kynfæri
hennar í 3-5 sekúndur og síðan klætt hana aftur í fötin. Ákærði hafnaði því að
hafa nuddað kynfæri brotaþola og að brotaþoli hafi beðið hann um að hætta eins
og lýst er í ákærulið I.
Ákærði gaf skýrslu við upphaf
aðalmeðferðar. Fram kom að umræddan dag hafi hann gætt brotaþola, sem er
systurdóttir hans, að beiðni móður brotaþola. Ákærði kvaðst hafa kitlað
brotaþola og rifið niður um hana buxurnar, einnig nærbuxur til að stríða henni,
en hún togað þær aftur upp og þannig koll af kolli. Aðspurður sagði ákærði að
brotaþoli hafi beðið sig um að hætta en verið hlæjandi og þótt gaman og alltaf
komið aftur. Ákærði lýsti því að eftir að hafa togað nærbuxur brotaþola niður
hafi hann tekið telpuna upp, sett hana í kjöltu sér og kitlað hana á maga og
síðum og síðan káfað eða snert kynfæri hennar í 3-5 sekúndur. Nánar aðspurður
kvaðst ákærði hafa snert miðju kynfæranna örstutt. Ákærði minntist þess ekki að
hafa hreyft fingurna meðan á þessu stóð og neitaði því alfarið að hafa verið að
fróa eða reyna að fróa brotaþola. Telpan hafi hins vegar ekki sagt orð þegar
hann snerti kynfæri hennar. Ákærði kvaðst strax hafa áttað sig á hvað hann var
að gera og klætt brotaþola strax aftur í og beðið telpuna um að segja foreldrum
sínum ekki frá. Ákærði kvaðst hafa verið í áfalli og ekki vitað hvað hann ætti
að gera eftir að hafa misst sig svona, eins og hann orðaði það. Hann hefði gert
sér grein fyrir að hafa snert frænku sína, barn sem honum var falið að passa og
átti að vernda. Stuttu eftir þetta hafi faðir brotaþola komið heim og hann þá
farið aftur heim til sín.
Fram kom hjá ákærða að systir hans,
móðir brotaþola, hafi hringt í sig daginn eftir og greint frá því að telpan
hafi sagt frá því sem gerðist. Fram kom hjá ákærða að hann hafi tekið atburðinn
mjög nærri sér og í kjölfarið liðið mjög illa, m.a. reynt sjálfsmorð þremur
dögum síðar, og verið undir læknishendi. Hann lýsti því að hafa glímt við
þunglyndi og liðið illa í mörg ár. Nú sé hann í starfsendurhæfingu sem hafi
gert honum gott þó hann glími enn við þunglyndi. Ákærði kvaðst eftir þennan
atburð hafa misst allan kynferðislegan áhuga á börnum en sá áhugi hafi verið
til staðar þegar umrætt atvik átti sér stað. Hann greindi frá því að hafa
skoðað barnaklám frá 13 ára aldri og að hafa safnað umræddum myndum frá 13-14
ára aldri allt þar til mál þetta kom upp. Ákærði lýsti því að leit að
barnaklámi á netinu hafi orðið eins og fíkn. Þá kom fram hjá ákærða að hann
hafi eytt myndunum úr tölvunni áður en hann gerði áðurnefnda sjálfsvígstilraun,
þ.e. á fimmtudeginum eftir umræddan atburð, til að verja fjölskyldu sína.
Borin voru undir ákærða tiltekin
atriði í framburði hans hjá lögreglu frá 5. nóvember 2010. Fyrst var borinn
undir ákærða eftirfarandi framburður hjá lögreglu, þ.e. eftir að hann hafði
greint frá því að hafa sett hendina á kynfæri
brotaþola. „Og hún sagði bara hættu, en var samt alltaf hlæjandi, ekki gera
þetta og eitthvað, hún var bara hlæjandi svona já. Héldu að þetta var bara
leikur og vildi bara sleppa og..“
Aðspurður um breyttan framburð hans lagði ákærði áherslu á hvað langt
væri um liðið síðan umrætt atvik átti sér stað og hann muni ekki vel eftir
atvikum. Þó geti verið að framangreind lýsing sé rétt.
Einnig var borinn undir ákærða sá
framburður hans hjá lögreglu að hann hefði hreyft fingurna fram og til baka á
kynfærum brotaþola og að á myndbandi af yfirheyrslunni megi sjá þegar hann
sýnir lögreglu hvernig sú hreyfing hafi verið. Ákærði kvað það geta verið að
hann hafi hreyft fingurna fram og til baka en ítrekaði að hann myndi ekki eftir
um hve mikla hreyfingu hefði verið að ræða. Ákærði tók fram að ekki hafi verið
um að ræða nudd, þetta hafi aðeins verið snerting fram og til baka. Ítrekað
aðspurður neitaði ákærði að hafa verið að fróa brotaþola.
Vitnið B, systir ákærða og móðir brotaþola, lýsti því að brotaþoli hafi,
um leið og vitnið kom heim umræddan dag, sagt sér frá því að ákærði hafi klætt
hana úr buxum og sokkabuxunum. Stuttu síðar hafi hún rætt við telpuna og telpan
þá sagt sér, í sjálfstæðri frásögn, að ákærði hafi klætt sig úr buxum,
sokkabuxum og nærbuxum og kitlað kynfæri
hennar. Vitnið kvaðst hafa spurt telpuna hvort þetta hafi verið vont en hún
hafi þá svarað, hann sagði mér að segja ekki mömmu og pabba frá þessu. Fram kom
hjá vitninu að henni hafi orðið mjög brugðið við þetta, haft samband við
neyðarlínu og fengið samband við starfsmann barnaverndar.
Vitnið
taldi að atburðurinn hafi ekki haft mikil áhrif á telpuna en hún taki það hins
vegar nærri sér að samband milli heimilisins og hluta fjölskyldunnar hafi slitnað
í kjölfarið. Vitnið greindi frá símtali
við ákærða daginn eftir hinn umrædda atburð og að í umræddu símtali hefði
ákærði beðið hana afsökunar.
Vitnið C, faðir brotaþola, gaf skýrslu fyrir
dóm. Fram kom hjá vitninu að brotaþoli hafi aldrei rætt við hann um atburði
umrædds dags. Vitnið taldi að atburðurinn hafi ekki haft áhrif á brotaþola en í
kjölfarið hafi lokast á samskipti milli tiltekinna fjölskyldumeðlima.
Vitnið Þóra Sigfríður Einarsdóttir, sálfræðingur í Barnahúsi, staðfesti greinargerð
sína frá 6. janúar 2011 fyrir dómi en tók fram að viðtölin þrjú sem hún átti
við brotaþola hefðu farið fram á tímabilinu 24. nóvember 2010 til 6. janúar
2011. Fram kom að viðtölin hefðu fyrst og fremst snúist um að fræða telpuna,
meta hvort ætlað brot hafi haft áhrif á hana, en telpan hafi ekki rætt um
atvikið á annan hátt en fram komi í vottorðinu, þ.e. um að ákærði hafi ekki
hætt þegar hún hafi sagt honum að hætta. Aðspurð hvort vitnið hefði merkt að
hið ætlaða brot hafi haft afleiðingar fyrir brotaþola, s.s. kvíða, breytt
hegðunarmynstur og svefnerfiðleika, kvaðst vitnið ekki hafa merkt að svo væri
en það sé algengt þegar svo ung börn eigi í hlut. Aðspurð hvort mögulegt sé að
afleiðingar ætlaðs brots komi fram síðar hjá brotaþola sagði vitnið að það sé
mjög algengt að börn upplifi atvik sem þessi á annan hátt þegar þau eldast og
sérstaklega eftir að þau komast á kynþroskaaldur og þurfi þá á
meðferðarviðtölum að halda. Fram kom hjá vitninu að það kunni að hafa haft
áhrif á framburð brotaþola í skýrslugjöf fyrir dómi stuttu eftir ætlað atvik,
að hún hafði áður sagt móður sinni sem varð nokkuð brugðið frá atvikum.
Vitnið Arnar Þór Guðmundsson, yfirlæknir, staðfesti læknisvottorð sitt frá 8. desember 2010, en
vitnið skoðaði brotaþola 4. nóvember 2010 eins og áður hefur verið gerð grein
fyrir. Vitnið kvað enga sjáanlega áverka hafa verið á telpunni við skoðun.
Þá gaf Brynjar Emilsson,
sálfræðingur, skýrslu fyrir dómi og er framburður hans rakinn síðar.
Niðurstaða
Töluliður I.
Ákærða er gefið að sök að hafa, á
heimili systur sinnar þegar hann gætti systurdóttur sinnar sem þá var 4 ára,
klætt telpuna úr buxum, sokkabuxum og nærbuxum og nuddað kynfæri hennar þar til
telpan bað hann um að hætta. Ákærði játaði sök að hluta í þinghaldi 20. mars
sl., og viðurkenndi að hafa klætt brotaþola úr buxum, sokkabuxum og nærbuxum og
að hafa snert kynfæri hennar í 3-5 sekúndur, en hafnar því að hafa nuddað
kynfæri telpunnar. Við upphaf aðalmeðferðar lýsti ákærði aðdragandanum þannig
að í leik eða stríðni hefði hann kippt niður um brotaþola en hún girt sig
jafnóðum aftur. Þá lýsti ákærði því að hafa, eftir að hafa togað nærbuxur
brotaþola niður, tekið telpuna upp, sett hana í kjöltu sér og kitlað hana á
maga og síðum og síðan káfað á eða snert kynfæri hennar í 3-5 sekúndur, nánar
tiltekið hefði hann snert miðju kynfæra telpunnar örstutt. Þegar borinn var
undir ákærða sá framburður hans hjá lögreglu að stúlkan hefði beðið hann um að
hætta og viljað sleppa lagði ákærði áherslu á hvað langt væri um liðið síðan
umrætt atvik átti sér stað og hann muni ekki vel eftir atvikum, en sagði að þó
gæti verið að lýsing hans á atvikum hjá lögreglu sé rétt. Þegar borinn var
undir ákærða sá framburður hans hjá lögreglu að hann hefði hreyft fingurna fram
og til baka á kynfærum brotaþola kvað ákærði það geta verið að hann hafi hreyft
fingurna fram og til baka en ítrekaði að hann myndi ekki eftir um hve mikla
hreyfingu hefði verið að ræða. Ákærði neitaði því ítrekað að hafa fróað eða
reynt að fróa brotaþola. Þá hafnaði ákærði því alfarið að hafa nuddað kynfæri
telpunnar og ítrekaði að um hefði verið að ræða snertingu.
Brotaþoli greindi frá því fyrir dómi
að ákærði hefði togað niður um hana buxur, sokkabuxur og nærbuxur, þ.e. niður
að hnjám. Hún hefði beðið hann um að hætta en hann hefði sagt „að segja engum
þetta“. Þá greindi brotaþoli frá því að ákærði hefði kitlað hana inn undir peysunni og benti
telpan á svæði á brjóstkassa og merkti staðinn einnig inn á teikningu sem
liggur frammi í málinu. Dómurinn hefur horft á upptöku af skýrslugjöf brotaþola
fyrir dómi, sem tekin var upp í hljóð og mynd, og telur framburð brotaþola
trúverðugan.
Í greinargerð ákærða er á því byggt
að verknaðarlýsing í ákæru sé ekki í samræmi við þá háttsemi sem hann hefur
játað að hafa viðhaft gagnvart brotaþola. Ekki hafi verið um að ræða nudd,
eingöngu snertingu eða káf eða í mesta lagi strokur. Því sé hvorki um að ræða
samræði né önnur kynferðismök og af þeim sökum verði umrædd háttsemi hvorki
felld undir 1. mgr. 201. gr. né 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr.
19/1940. Þá er því hafnað af hálfu ákærða að hann sé tengdur brotaþola
fjölskylduböndum á þann hátt sem tilgreint er í 1.mgr. 201. gr. almennra
hegningarlaga nr. 19/1940 eða að aðstæður hafi að öðru leyti verið með þeim
hætti að litið verði svo á að honum hafi verið trúað fyrir brotaþola til
kennslu eða uppeldis í skilningi umrædds ákvæðis.
Brotaþoli er systurdóttir ákærða og
því eru ekki til staðar þau fjölskyldubönd sem áskilin eru í 1. mgr. 201. gr.
almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í ákæru er tilgreint að ákærði hafi gætt
brotaþola að [...] á [...], heimili brotaþola, umræddan dag. Að mati dómsins
þykir það að gæta barns dagstund ekki
fela í sér trúnað fyrir kennslu eða uppeldis eins og áskilið er í 1. mgr. 201.
gr. áðurnefndra laga og krafist er í ákæru.
Ákærði hefur skýlaust játað að hafa
klætt brotaþola úr buxum, sokkabuxum og nærbuxum og snert eða þuklað á kynfærum
hennar í 3-5 sekúndur. Dómurinn hefur kynnt sér myndband af yfirheyrslu
lögreglu af ákærða þann 5. nóvember 2010, en yfirheyrslan var tekin upp í hljóð
og mynd. Þar kemur fram, eins og áður er rakið, hjá ákærða að hann hafi snert
kynfæri brotaþola í 3-5 sekúndur. Þá sýndi ákærði lögreglu hvernig hann hefði
staðið að því með því að leggja hægri höndina ofan á möppu þannig að
fingurgómar vísifingurs, löngutangar og baugfingur sneru niður. Þar má sjá
ákærða hreyfa framangreinda fingurgóma lítillega fram og aftur og að því er
virðist laust. Með vísan til framangreindrar lýsingar ákærða í yfirheyrslu hjá
lögreglu, sem hann hefur að hluta til staðfest fyrir dómi og framburðar
brotaþola fyrir dómi, hefur ákæruvaldinu að mati dómsins, gegn eindreginni
neitun ákærða, ekki tekist að færa fram lögfulla sönnun þess að ákærði hafi
nuddað kynfæri brotaþola eins og lýst er í ákæru. Að mati dómsins verður á því
byggt að ákærði hafi þuklað eða káfað á kynfærum brotaþola í örstutta stund,
með þeim hætti sem hann sýndi lögreglu við yfirheyrslu þann 5. nóvember 2010 og
lýst er hér að framan og að sú háttsemi teljist önnur kynferðisleg áreitni í
skilningi 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með þeirri
háttsemi sinni braut ákærði gegn áðurnefndu ákvæði almennra hegningarlaga nr.
19/1940.
Töluliður II.
Ákærða er gefið að sök að hafa haft í
vörslu sinni 3092 ljósmyndir á fartölvu sem sýna börn á kynferðislegan og
klámfenginn hátt. Ákærði hefur skýlaust játað sök í síðari lið ákæru. Um er að
ræða ljósmyndir sem lagðar voru fram í dómi á tölvudiski í tveimur skjölum.
Annars vegar skjal merkt ljósmyndir 1 með 1500 ljósmyndum og hins vegar skjal
merkt ljósmyndir 2 með 1592 ljósmyndum. Í skýrslutöku af ákærða hjá lögreglu
þann 3. júní 2011 kemur fram að rannsóknarlögreglumaður tölvurannsóknardeildar
hafi skilgreint myndirnar sem barnaklám. Þrátt fyrir
ábendingu verjanda ákærða í áðurnefndri yfirheyrslu um að hugsanlega væru ekki
allar ljósmyndirnar ólöglegar fór ekki fram frekari rannsókn af hálfu lögreglu.
Við skoðun dómenda kom í ljós að í nokkrum tilvikum komu sömu myndir
fyrir oftar en einu sinni, nokkrar myndir voru óskýrar eða gallaðar og vafi var
um hvort nokkrar myndir sýndu börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt eins og
kveðið er á um í 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og ákæra
byggir á. Að mati dómsins var rannsókn og úrvinnsla lögreglu að þessu leyti
ekki fullnægjandi. Þrátt fyrir þessa ágalla á rannsókn málsins og með vísan til
skýlausrar játningar ákærða verður lagður dómur á þennan þátt málsins enda
skoðuðu dómendur allar 3092 ljósmyndirnar sérstaklega.
Í athugasemdum greinargerðar með
frumvarpi er varð að lögum nr. 126/1996, sem lögfesti núgildandi 4. mgr. 210.
gr. almennra hegningaralaga, sbr. síðari breytingar, segir að með merkingu
hugtakanna kynferðislegan og klámfenginn hátt sé „átt við kynferðislega lýsingu
(ásýnd) sem virkar stuðandi eða er á annan hátt til þess fallin að vera
lítillækkandi eða niðrandi, þar með taldar kynferðislegar lýsingar með notkun
barna, dýra, ofbeldis, þvingunar og kvalalosta.“
Allar myndir í máli þessu eru af
ungum telpum, að því er virðist allt niður í 3-4 ára gamlar. Í flestum tilvikum
er um að ræða myndasyrpur sem sýna í
upphafi telpur í fötum sem þær eru síðan látnar fækka og virðist það þjóna þeim
einum tilgangi að byggja upp kynferðislega örvun þess sem á myndirnar horfir.
Flestar myndasyrpurnar sýna telpurnar í lokin naktar og eru þær látnar viðhafa
kynferðislegar stellingar og/eða athafnir. Klæðnaður telpanna
er í flestum tilvikum annað hvort bað- eða nærföt eða klæðnaður sem hæfir ekki
barnungum telpum og virðist einnig ætlað að þjóna þeim eina tilgangi að byggja
upp kynferðislega örvun þess sem á myndirnar horfir. Að mati dómsins uppfylla
allar myndir í slíkum myndaseríum skilyrði 4. mgr. 210. gr. almennra
hegningarlaga nr. 19/1940. Þá eru nokkrar myndir þar sem ungar telpur hafa
verið látnar taka þátt í kynferðislegum stellingum og athöfnum með fullorðnum
karlmönnum.
Að mati dómsins uppfylla 87 myndir
hins vegar ekki skilyrði 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940,
nánar tiltekið er um eftirtaldar myndir að ræða: Í skjali merktu ljósmyndir 1,
myndir nr.: 225-255, 257-265, 349, 351, 354-355, 438, 707, 725, 732, 735-736,
780, 797-806, 823-828 og 835-848. Í skjali merktu ljósmyndir 2, myndir nr.:
1436-1437, 1460-1462 og 1468. Þá eru sex myndir að mati dómsins óskýrar eða
gallaðar og uppfylla því ekki skilyrði áðurnefnds ákvæðis almennra
hegningarlaga. Um er að ræða myndir í skjali merktu ljósmyndir 1, myndir nr.:
124, 129, 151-153. Loks kom í 81 tilviki sama myndin fyrir tvisvar eða oftar. Í
skjali merktu ljósmyndir 1 er um eftirtaldar myndir að ræða: Nr. 67, 95, 110,
119, 139, 144, 150, 154, 156-157, 166, 176, 182, 192, 204, 211, 213-215,
218-219, 273, 275, 278, 280-281, 284, 286-287, 289, 291, 293, 296-301, 307-308,
310, 313, 323-324, 326-328, 332, 335, 338-339, 346, 359, 381, 383, 386,
613-618, 724, 753, 769 og 794. Í skjali merktu
ljósmyndir 2 eru um eftirtaldar myndir að ræða: Nr. 1-2, 4 og
1581-1592.
Að mati
dómsins sýna 2918 myndir sem fundust í fartölvu ákærða börn á kynferðislegan og
klámfenginn hátt. Með vísan til skýlausrar játningar ákærða og gagna málsins
verður ákærði sakfelldur fyrir vörslur þeirra og er brot hans réttilega
heimfært til refsiákvæðis í öðrum tölulið ákæru.
Sálfræðiskýrsla um
ákærða
Í málinu liggur fyrir sálfræðiskýrsla
Brynjars Emilssonar, sálfræðings, dags. 6. febrúar 2011, en hann lagði mat á
þroska, hvatir, almennt heilbrigðisástand og hugarfar ákærða, þ.m.t. áhættumat.
Skýrslan er samin að beiðni lögreglu með samþykki ákærða. Viðtöl við ákærða
fóru fram 15. og 27. janúar 2011.
Í niðurstöðu skýrslunnar kemur fram um þroska ákærða að
hann sé misþroska þar sem marktækur og talsverður munur hafi mælst milli
verklegs og málfarslegs hluta greindarprófs. Félagslegur skilningur hans sé
ágætur þó hann sé félagslega einangraður og mjög óöruggur í samskiptum við
aðra. Þá kemur fram að dómgreind ákærða sé ekki skert vegna hömlunar á þroska.
Um kynferðislegar hvatir segir að ljóst sé að ákærði hafi kynferðislegan áhuga
á stúlkubörnum og hafi haft í mörg ár. Þá hafi hann kynferðislegar
þráhyggjuhugsanir varðandi barnaklám. Honum sé þó ljóst að kynlíf milli barna
og fullorðinna sé ólöglegt og hann átti sig á því að hann megi ekki eiga
kynferðislegt samband við börn eins og það er orðað í skýrslunni. Því falli
ákærði inní greiningarviðmiðið F65.4, barnagirnd.
Um heilbrigðisástand ákærða segir í
niðurstöðu skýrslunnar að líkamleg heilsa ákærða sé góð og hann taki engin lyf,
en sé þó í dálítilli yfirvigt og hreyfi sig líklega ekki nægilega mikið.
Niðurstaða prófa og geðgreiningar sé F33.2,
endurtekið alvarlegt þunglyndi án geðrofseinkenna og F40.1,
félagsfælni. Um hugarfar gagnvart sakamálinu segir að ákærði hafi ekki reynt að
fegra sig sérstaklega eða blekkja og hafi hann almennt virst heiðarlegur í
samtölum. Hins vegar sé ljóst að hann hafi sýnt mikil streitueinkenni eftir að
málið kom upp. Hann hafi reynt sjálfsvíg og leitað sér aðstoðar. Ákærði hafi
greint frá því að hann sjái eftir því sem hann gerði og átti sig á afleiðingum
þess og ekkert komi fram sem bendi til að svo sé ekki.
Um áhættumat segir að lokum að ákærði
sé metinn í lítilli til miðlungs áhættu fyrir frekari kynferðisbrotum. Ólíklegt
þyki að hann muni leita sérstaklega í að nálgast börn utan heimilis en lítil
til miðlungs hætta sé á að hann muni leita á börn þegar færi gefst. Þó þyki
ólíklegt að hann muni sérstaklega skipuleggja slíkt. Áhætta varðandi notkun
barnakláms virðist hins vegar meiri. Það sem myndi hjálpa ákærða sé aukið
aðhald og eftirlit varðandi tölvunotkun og þá sé sérstök þörf á að brjóta þá
einangrun sem hann lifir nú við.
Brynjar Emilsson, sálfræðingur, staðfesti skýrslu sína fyrir dómi og þá niðurstöðu
vitnisins að ákærði hafi greindist með misþroska en vitnið tók fram ekkert hafi
komið fram sem gæti haft áhrif á sakhæfi ákærða. Vitnið staðfesti að ákærði
hafi kynferðislegar hvatir gagnvart ókynþroska stúlkum og falli því undir
greininguna barnagirnd sem og barnaklámsfíkn. Vitnið kvað ákærða vera
heilsuhraustan en þó hafi hann verið í eilítilli yfirvigt. Ákærði hafi átt við
þunglyndi að stríða til margra ára auk þess að vera félagslega óöruggur, en
engin andfélagsleg einkenni hafi komið fram. Fram kom hjá vitninu að ákærða
hefði liðið illa, bæði vegna hneigðar sinnar til barna og vegna þess sem hefði
gerst. Vitnið kvað ákærða þekkja mun á réttu og röngu og samkvæmt
sálfræðiprófum hafi ákærði verið haldinn sjálfsásökun og sektarkennd. Ákærði
hafi í kjölfar málsins reynt sjálfsvíg en leitað læknisaðstoðar. Fram kom hjá
vitninu að ákærða líði augljóslega illa vegna sinna hneigða og þess sem hann
gerði af sér og það komi skýrt fram á sálfræðiprófum sem fyrir hann voru lögð.
Varðandi áhættu á frekari
kynferðisbrotum staðfesti vitnið það mat sitt að ákærði væri í lítilli til
miðlungs hættu að þessu leyti og gerði grein fyrir hvaða þættir liggja að baki
því mati hans. Vitnið kvaðst ekki þekkja til þess hvort ákærði hafi leitað sér
aðstoðar en hann hafi á þeim tíma sem vitnið ræddi við hann gengið til
geðlæknis. Fram kom hjá vitninu að ákærði þurfi nauðsynlega á aðstoð að halda í
þessum efnum. Vitnið kvað ekki mögulegt að lækna þær hneigðir sem um ræðir.
Þegar vitninu var kynntur sá framburður ákærða að eftir að mál þetta kom upp
hefði hann orðið fráhverfur eða misst áhuga á barnaklámi, kom fram hjá vitninu
að ólíklegt sé að áhuginn minnki þar sem um sé að ræða ákveðna kynhneigð. Hins
vegar geti verið að ákærði sé að vísa til þess að hann sé minna að nota
barnaklám, þ.e. að hann hafi fundið leiðir til að stoppa sig af, en í raun sé
barnagirnd eins og fíkn. Aðspurður um áhrif fangelsisvistar á ákærða með vísan
til geðgreiningar sem lýst er í skýrslunni kom fram hjá vitninu að
fangelsisvist myndi ekki hafa verri áhrif á ákærða en aðra í fangelsum sem líkt
sé ástatt um.
Ákvörðun refsingar
Ákærði, sem er 24 ára gamall, hefur
ekki áður gerst sekur um refsivert brot svo kunnugt sé. Það er ákærða til
refsiþyngingar að brot hans í fyrri tölulið ákæru er trúnaðarbrot sem beindist
að ungri telpu á heimili hennar þar sem hún átti sér griðastað. Með því brást ákærði trúnaðarskyldum sínum gagnvart brotaþola. Þó
svo ráða megi af gögnum málsins og framburði vitna að telpan hafi ekki beðið
tjón af háttsemi ákærða er til þess að líta sem fram kom í framburði
sálfræðings Barnahúss að það sé algengt í tilvikum sem þessum að börn upplifi
atvik sem þessi á annan hátt þegar þau eldast og þurfi þá á meðferðarviðtölum
að halda. Þá er einnig til þess að líta að háttsemi ákærða hefur haft slæm
áhrif á samskipti brotaþola við hluta af nærfjölskyldunni. Þá hefur ákærði
verið fundinn sekur um vörslu 2918 ljósmynda sem sýna ung börn á kynferðislegan
og klámfenginn hátt , sumar hverjar grófar. Ákærða til refsilækkunar er til
þess að líta að ákærði var samvinnuþýður meðan á
rannsókn málsins stóð og játaði strax brot sín. Þá liggur ekki annað fyrir í
máli þessu um brot ákærða samkvæmt fyrri lið ákæru en að um hafi verið að ræða
einstakt atvik sem staðið hafi yfir í stutta stund. Að mati dómsins er
trúverðug lýsing ákærða á viðbrögðum hans strax eftir brotið og lýsing hans á
eftirsjá og sektarkennd, sem fær að hluta til stoð í framburði móður brotaþola
og sálfræðings. Fyrir liggur að dráttur var á rannsókn málsins sem ákærða var
ekki um að kenna. Lögregla óskaði ekki eftir sálfræðiúttekt á ákærða fyrr en 6.
janúar 2011 þrátt fyrir að samþykki ákærða lægi fyrir í skýrslutöku þann 5.
nóvember 2010. Rannsókn lögreglu á ljósmyndum,
sem annar töluliður ákæru tekur til, var um margt ábótavant eins og áður er
rakið. Eftir skýrslutökur af ákærða og föður brotaþola í júní 2011 lá rannsókn
málsins niðri þar til í september 2011 þegar tvö vitni voru yfirheyrð. Ákæra
var síðan ekki gefin út fyrr en tæpum fimm mánuðum síðar. Að öllu þessu virtu
og með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þykir refsing
ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði en fresta skal fullnustu þriggja
mánaða af refsingu þessari og fellur sá hluti hennar niður að liðnum þremur árum
frá dómsuppsögu að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra
hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Með vísan til 1. tl. 1. mgr. 69. gr. a.
almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er gerð upptæk Toshiba
fartölva sem
lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.
Sakarkostnaður
Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga
um meðferð sakamála nr. 88/2008 ber að dæma ákærða til að greiða allan
sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Gríms
Hergeirssonar héraðsdómslögmanns, fyrir vinnu hans að málinu á rannsóknarstigi
og fyrir dómi, sem ákvarðast 464.350 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og
13.320 krónur í ferðakostnað. Ákærða ber einnig að greiða útlagðan sakarkostnað
samkvæmt yfirliti, 241.950 krónur vegna öflunar læknisvottorðs og sálfræðiúttektar.
Kostnaður vegna uppritunar á lögregluyfirheyrslum sem fram kemur á yfirliti
telst ekki til sakarkostnaðar.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti Hulda
Elsa Björgvinsdóttir, saksóknari, málið.
Ragnheiður Thorlacius, Hjörtur O.
Aðalsteinsson og Sigurður G. Gíslason héraðsdómarar kváðu upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í sex mánuði
en fresta skal fullnustu þriggja mánaða af
refsingunni og fellur sá hluti hennar niður að liðnum þremur árum frá
dómsuppsögu að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra
hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Upptæk er gerð til
ríkissjóðs Toshiba fartölva.
Ákærði greiði allan
sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Gríms
Hergeirssonar héraðsdómslögmanns, 464.350 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti,
13.320 krónur í ferðakostnað og 241.950 krónur í útlagðan sakarkostnað.