Hæstiréttur íslands

Mál nr. 117/2012

A (Kristján Stefánsson hrl.)
gegn
Múlakaffi ehf. (Valgeir Pálsson hrl.)

Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón


Skaðabætur. Líkamstjón.

A höfðaði mál til viðurkenningar á bótaskyldu MK ehf. vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir er hann sem starfsmaður B ehf. var að bera vörur inn í starfstöð MK ehf., féll þar í stiga og brotnaði illa á hægri ökkla. Í Hæstarétti var ekki talið að slysið yrði rakið til umbúnaðar stigans og þá hefði ekki verið í ljós leitt að bleyta hafi verið í tröppum hans. Ekki lægi annað fyrir en að slysið hafi orðið fyrir óhapp þegar A varð fótaskortur í stiganum. Ekki var talið hafa þýðingu við úrlausn málsins þótt farist hafi fyrir að tilkynna V um slysið. Var staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu MK ehf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. febrúar 2012. Hann krefst þess að viðurkennt verði að stefndi beri skaðabótaábyrgð á líkamstjóni sem áfrýjandi varð fyrir við slys á starfstöð stefnda að […] í […] 19. mars 2008. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að sök verði skipt.

Áfrýjandi hefur stefnt Tryggingamiðstöðinni hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.

I

Málavextir eru þeir að áfrýjandi starfaði hjá B ehf. við að keyra út framleiðsluvörur til viðskiptavina. Hinn 19. mars 2008 ók áfrýjandi vörum til stefnda að […] í […]. Þegar áfrýjandi var að bera vörurnar inn í starfstöð stefnda þurfti hann að fara um stiga niður á jarðhæð þar sem koma átti vörunum fyrir í kæligeymslu. Féll áfrýjandi í stiganum en við það brotnaði hann illa á hægri ökkla.

Stiginn þar sem áfrýjandi féll er nokkrar tröppur og liggur milli hæða um gang sem mun vera um 1,2 metrar að breidd. Meðfram stiganum næst veggjunum voru skábrautir en hvor þeirra mun hafa verið um 30 cm að breidd. Í aðilaskýrslu áfrýjanda fyrir dómi greindi áfrýjandi frá því að hann hefði verið á leið niður stigann með kassa þegar hann féll í efstu tröppum stigans. Taldi áfrýjandi sig sennilega hafa runnið í bleytu.

Áfrýjandi reisir kröfur sínar á hendur stefnda á því að hann beri ábyrgð á umbúnaði stigans sem hafi verið með því móti að þeim sem áttu leið um hann hafi verið hætta búin. Stefndi var með ábyrgðartryggingu hjá réttargæslustefnda.

II

Vinnueftirliti ríkisins var ekki tilkynnt um slysið innan sólahrings í samræmi við 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Í málinu liggur fyrir sú lýsing á stiganum sem hér hefur verið rakin. Verður ekki séð að rannsókn vinnueftirlitsins í kjölfar tilkynningar allt að sólahring eftir slysið hefði leitt í ljós hvort bleyta var á tröppum stigans þegar áfrýjandi féll. Því hefur ekki þýðingu við úrlausn málsins þótt farist hafi fyrir að tilkynna vinnueftirlitinu um slysið.

Áfrýjandi hefur sjálfur lýst því að hann hafi fallið í efstu þrepum stigans eftir að hafa gengið inn þröngan gang haldandi á kassa. Að því gættu verður lagt til grundvallar að áfrýjandi hafi ekki fallið við að stíga út fyrir tröppurnar og á þær skábrautir sem voru næst veggjum til beggja handa. Slysið verður því ekki rakið til þess umbúnaðar stigans. Þá hefur ekki verið leitt í ljós að bleyta hafi verið í tröppum stigans sem áfrýjandi telur líklega hafa valdið því að hann féll. Samkvæmt þessu liggur ekki annað fyrir en að slysið hafi orðið fyrir óhapp þegar áfrýjanda varð fótaskortur í stiganum. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.

Rétt þykir að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. nóvember 2011.

Mál þetta, sem var dómtekið 14. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af A, […], […] á hendur Múlakaffi ehf., […], […], og til réttargæslu Tryggingamiðstöðinni hf, Síðumúla 24, Reykjavík, með stefnu birtri  20. júní 2011.

Stefnandi krefst þess          að viðurkennt verði að stefndi beri skaðabótaábyrgð á líkamstjóni er hann varð fyrir á starfsstöð stefnda að […], hinn 19. mars 2008. Þá er krafist málskostnaðar stefnanda að skaðlausu.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu.

Til vara er þess krafist að ábyrgð stefnda verði einungis dæmd að hluta, þannig að stefnandi beri tjón sitt að verulegu leyti sjálfur vegna eigin sakar.

Engar kröfur eru gerðar af hálfu réttargæslu stefnda, enda engum kröfum beint að honum.

Málavextir

Stefnandi vann hjá B hf. við útkeyrslu á vörum fyrirtækisins. Hinn 19. mars 2008 afhenti stefnandi vörur frá B á starfsstöð stefnda að […]. Stefnandi kveðst hafa verið beðinn að afhenda vörunar í kæligeymslu fyrirtækisins á neðri palli og þurfti því að fara niður fjórar til fimm tröppur. Fyrir liggur að stefnandi datt í tröppunum og slasaðist, en ekki liggur nákvæmlega fyrir hvernig það atvikaðist. Slysið var ekki tilkynnt Vinnueftirlitinu.

Með bréfi, dags. 14. janúar 2011, hafi réttargæslustefndi hafnað bótaskyldu í máli þessu. Stefnanda sé því nauðugur sá kostur einn að höfða mál þetta.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir kröfu sína á almennri skaðabótaábyrgð stefnda. Umbúnaður stigans hafi verið þannig að hætta væri búinn vegfarendum. Þá uppfylli stiginn ekki ákvæði byggingarsamþykktar fyrir Reykjavík sem var í gildi þegar húsið var reist, þar sem breidd hans hafi ekki verið nægjanleg. Öryggi stigans væri því ekki nægjanlegt og auðveldlega hefði mátt koma í veg fyrir slys sem þetta ef fyrr hefði verið ráðist í breytingar á honum, líkt og gert hafi verið síðar. Stefndi beri að tryggja öruggt starfsumhverfi skv. lögum nr. 46/1980.

Stefndi hefur atvinnu af veitingarekstri. Mikilvægur liður í veitingarekstri sé móttaka aðfanga. Þessi aðföng eru borin um starfssvæði stefnda og því sé mikill umgangur utanaðkomandi starfsmanna um vinnusvæði stefnda. Stefndi beri því engu minni skyldur gagnvart þeim starfsmönnum en sínum eigin. Þá beri stefnda skylda til að tilkynna Vinnueftirlitinu um öll slys án ástæðulausrar tafar og eigi síðar en innan sólarhrings þar sem líkur geti verið á að starfsmaður hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu tjóni. Þetta geti stefnda ekki hafa dulist.

Lög nr. 46/1980 leggja þessar skyldur sameiginlega á atvinnurekendur sem eiga aðild að starfsemi á sama vinnustað, sbr. 17. gr. Þegar dráttur verði á tilkynningu leiði það til þess að Vinnueftirlitið framkvæmi ekki vettvangskönnun, enda ljóst að aðstæður á slysstað hafi þá breyst. Atvinnurekendum sé óheimilt að breyta aðstæðum á slysstað, sbr. 2. mgr. 81. gr. laganna.

Vettvangskönnun hefði mögulega getað leitt í ljós hverjar aðstæður voru þegar slys varð, þ.e. hvort gólf hafi verið blaut eða hvort lýsing hafi verið nægjanleg. Augljóslega hafi þessi sönnun farið forgörðum og verði stefndi að bera hallann af því. Þá hafi aðstæðum verið breytt enn frekar með því að umbúnaður stigans var fjarlægður og öruggari lausn verið fundin fyrir vöruflutning um ganginn. Stefndi geti ekki fært neitt fyrir dóminn sem hafi viðlíkt sönnunargildi og skýrsla Vinnueftirlitsins hefði haft. Af öllu þessu virtu verði stefndi að bera hallann fyrir dómi.

Hjá skipulags- og byggingarsviði Reykjavíkurborgar liggi engar upplýsingar um það að stefndi hafi aflað sér tilskilinna leyfa fyrir þeim umbúnaði sem á stiganum hafi verið. Áverkar stefnanda hafi verið alvarlegir og glímir hann enn við heilsufarslegar afleiðingar þeirra.

Stefnandi reisir kröfur sínar á ákvæðum laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993 og ákvæðum laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004. Krafa um málskostnað er reist á ákvæðum einkamálalaga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt á lögum nr. 50/1988.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir kröfu sínar í fyrsta lagi á því að slysið sé ekki á hans ábyrgð. Hann tekur í fyrsta lagi fram að tröppurnar hafi verið löglegar og eðlilega úr garði gerðar og stefnandi hafi ekki lagt fram nein sönnunargögn sem styðji þær fullyrðingar hans að umbúnaður trappanna hafi ekki staðist lög og reglur. Þá sé ekkert sem bendi til þess að vegfarendum hafi staðið meiri hætta af umræddum tröppum en gengur og gerist þegar tröppur í atvinnuhúsnæði séu annars vegar.

Fyrir liggi teikningar af húsnæðinu frá árinu 2004, staðfestar af byggingarfulltrúanum í Reykjavík, sem sýni tröppurnar og skábrautir með fram þeim. Umræddur umbúnaður geti ekki talist brjóta gegn ákvæðum byggingarsamþykktar fyrir Reykjavík frá 1945 af tveimur ástæðum.

Fyrst tekur stefndi fram að umræddar tröppur fullnægi ákvæðum samþykktarinnar þar sem áskilin breidd á tröppunum sem stefnandi féll í sé fullnægjandi, þ.e. yfir 110 cm. Engar forsendur séu til að túlka samþykktina með þeim hætti sem stefnandi gerir þegar hann telur samþykktina kveða á um lágmarksbil gönguleiðar, við þær aðstæður þegar rennur eru áfastar tröppunum til að auðvelda vöruflutninga. Slík túlkun eigi sér ekki stoð í samþykktinni og gangi ekki upp, enda fælist í henni sú krafa að allur búnaður til vöruflutninga, t.d. kerrur, vagnar og trillur, þyrftu að hafa yfir 110 cm hjólhaf.

Í annan stað bendir stefndi á að reglur samþykktarinnar séu fyrst og fremst hugsaðar fyrir íbúðarhúsnæði og í henni sé beinlínis gert ráð fyrir frávikum frá reglum hennar er varðar stiga í húsnæði sem sé ekki íbúðarhúsnæði, sbr. t.d. 5. mgr. 29. gr. og 32. gr., sbr. dskj. nr. 5.

Ásamt því að fullnægja öllum kröfum laga og reglna um umbúnað bendir stefndi á að um alþekktan umbúnað sé að ræða sem hafi þann tilgang að auðvelda vöruflutninga um tröppur. Þetta megi stefnanda, sem er sendibílstjóri að atvinnu, vera kunnugt. Slíkur umbúnaður sé ekki leyfisskyldur, eins og stefnandi haldi fram, auk þess sem hann hafi verið í húsnæði stefnda svo áratugum skipti án þess að af honum hafi hlotist slys. Telja verði umbúnaðinn í alla staði eðlilegan og jafnvel nærtækara að ætla að óforsvaranlegt væri að hafa ekki slíkan búnað við sambærilegar aðstæður heldur en að telja slíkan búnað ámælisverðan, eins og stefnandi gerir.

Í öðru lagi byggir  stefndi á því að með öllu sé ósannað að orsakir slyssins sé að finna í umbúnaði umræddra trappa. Í tölvupósti lögmanns stefnanda til réttargæslustefnda, dags. 19. júlí 2010, komi fram að stefndi hafi, þegar hann féll, verið með byrðar í fanginu sem hafi verið 20 kg að þyngd og 80 x 60 cm að stærð. Í tölvupósti lögmannsins frá 24. júní 2010 komi fram að stefnandi hafi verið með hendur fullar vörum og því séð illa fram fyrir sig. Að mati stefnda sé slysið fyrst og fremst að rekja til þess að stefnandi færðist of mikið í fang og hafi ekki séð fram fyrir sig því hann hafi verið með of stórar og þungar byrðar í fanginu. Sé þá jafnframt vísað til þess að stefnandi kveðst ekki áður hafa farið umrædda leið.

Í þriðja lagi telur stefndi að sjónarmið um öfuga sönnunarbyrði eigi ekki við í málinu. Slys stefnanda hafi ekki verið tilkynnt Vinnueftirlitinu af stefnda. Sú staðreynd hafi hins vegar enga þýðingu við úrlausn þessa máls þar sem málsatvik og aðstæður séu óumdeildar. Af þeim sökum sé enginn halli af sönnunarskorti til staðar til að leggja á stefnda.

Stefndi mótmælir því ekki að gönguleið milli rennanna í tröppunum hafi verið 60 cm, eins og stefnandi byggir á, heldur sé því mótmælt að sú staðreynd eigi að leiða til skaðabótaábyrgðar hans vegna slyssins.

Í fjórða lagi bendir stefndi á að umbúnaði trappanna hafi verið breytt tæpum tveimur árum eftir slysið og af ástæðum sem hafi verið því algerlega óviðkomandi. Ástæða breytinganna hafi verið sú að nýr inngangur hafi verið gerður í húsnæðið til vörumóttöku og ekki lengur þörf á rennum í umræddum tröppum. Þessar umbætur á húsnæðinu hafi enga þýðingu við mat á skaðabótaskyldu stefnda.

Telji virðulegur dómur slys stefnanda að rekja til saknæmrar háttsemi stefnda, Múlakaffis, starfsmanna hans eða aðstæðna sem virtar verði honum til sakar, krefst stefndi þess að stefnandi verði látinn bera tjón sitt að verulegu leyti sjálfur vegna eigin sakar.

Um þetta vísist til umfjöllunar og málsástæðna í aðalkröfu stefnda, en stefndi byggir sérstaklega á eftirfarandi: Stefnandi sé sendibílstjóri að atvinnu og hluti af venjulegum starfsskyldum hans sé að afhenda vörur í fyrirtækjum. Honum beri því að ganga úr skugga um aðstæður áður en hann haldi af stað með vörurnar niður tröppurnar, t.d. með tilliti til þess hvort eðlilegt væri að nota þann umbúnað sem ætlað sé að auðvelda umferð með byrðar, þ.e. brautirnar. Slíkar brautir, eða tilvist þeirra við sambærilegar aðstæður, geti ekki talist framandi fyrir atvinnubílstjóra. Í stað þess hafi hann lagt af stað með umtalsverðar byrðar sem virðast auk þess hafa byrgt honum sýn. Þessi aðferð sé á ábyrgð stefnanda sjálfs, enda hafi stefndi ekki verkstjórnarvald yfir honum við þessar aðstæður.

Um lagarök er vísað til almennu skaðabótareglunnar og laga nr. 46/1980. Um málskostnaðarkröfu er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991.

Niðurstaða

Ágreiningslaust er að stefnandi slasaðist er hann datt í stiga á vinnustað stefnda hinn 19. mars 2008. Ekki liggur fyrir hvernig slysið átti sér stað. Í tölvupósti lögmanns stefnanda frá 24. júní 2010 segir að stefnandi hafi fallið í tröppunum þar sem hann var að bera aðföng niður í vörugeymslu stefnda. Hann hafi verið með hendur fullar af vörum og séð illa fram fyrir sig. Í tölvupósti lögmanns stefnanda frá 19. júlí 2010 kemur fram að stefnandi hafi verið með einn kassa í höndunum sem hafi verið ca 20 kg að þyngd og ca 80x60 cm að stærð. Þá segir að í tölvupóstinum: „[A] sneri sig og féll í tröppunum sem voru blautar.“ Í matsgerð C bæklunarlæknis segir að stefnandi hafi misstigið sig illa og hlotið brot á ytri ökklahnútu. Í málavaxtakafla stefnu er byggt á því að stefnandi hafi runnið í stiganum og fallið niður tröppurnar. Síðan segir að stefnandi telji að hann hafi jafnvel runnið í bleytu. Í aðilaskýrslu sinni fyrir dómi kveður stefnandi að tröppurnar hafi veri blautar og hann runnið til. Í vitnaframburði D matreiðslumeistara kvaðst hann hafa staðið fyrir neðan tröppurnar og orðið vitni að slysinu. Vitnið telur að stefnandi hafi haldið á of miklum þunga, meiri en hann réði við. Við það hafi hann fallið, eins og mætti sagði þá „vöðluðust undan honum lappirnar“. Vitnið telur að venja hafi verið að skila vörunum niður í kæli-/frystigeymslur sem voru fyrir neðan þessar tröppur. Þetta hafi verið venjubundin leið hjá stefnanda þegar hann kom með vörur. Aðspurður kveður vitnið, að á tröppunum hafi verið sérstakt efni (með sandkornum í) sem gerði það að verkum að fólk rynni síður á þeim. Af gögnum málsins verður ekki fyllilega ráðið hvernig stefnandi telur að slysið hafi átt sér stað, en um það er ekki fjallað í kaflanum um málsástæður stefnanda. Stefnandi byggir aftur á móti á ætluðum ófullnægjandi umbúnaði stigans og því að stefndi tilkynnti ekki Vinnueftirliti ríkisins um slysið.

Samkvæmt gögnum málsins var stiginn fjórar til fimm tröppur. Breidd hans milli veggja var 120 cm og náði hann veggja á milli. Við hvorn vegg var 30 cm skábraut (renna) og voru tröppurnar á milli 60 cm. Ekkert liggur fyrir um að frágangur á stiga þessum hafi verið ólögmætur. Tilvitnun til byggingasamþykktar Reykjavíkurborgar, sem gildir reyndar um íbúðarhúsnæði, styður það ekki. Hafnað er þeirri túlkun stefnanda að tröppurnar á milli skábrautanna hafi átt að vera 110 cm. Hefði verið pláss er augljóst að slíkar skábrautir kæmu ekki að gagni. Ósannað er að þær breytingar sem gerðar voru á húsnæði stefnda sé að rekja til óhappsins.

Fyrir liggur að slysið var ekki tilkynnt Vinnueftirlitinu fyrr en með tilkynningu dags. 2. apríl 2008 og var það þá gert af hálfu B ehf. Í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, er kveðið á um að atvinnurekandi skuli án ástæðulausrar tafar tilkynna Vinnueftirliti ríkisins öll slys sem leiða til þess að starfsmaður deyr eða verður óvinnufær í einn eða fleiri daga, auk þess dags sem slysið varð. Slys þar sem líkur eru á að starfsmaður hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni skal tilkynna Vinnueftirlitinu eigi síðar en innan sólarhrings.

Stefnandi hefur í málatilbúnaði sínum verið óskýr um ástæður þess að óhappið varð og í stefnunni liggur það ekki skýrlega fyrir hvernig hann telur það hafa átt sér stað. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að tröppurnar hafi verið óvenjulegar, ekki fullnægt skilyrðum byggingarreglugerðar Reykjavíkur eða þannig úr garði gerðar að af þeim hafi stafað sérstök hætta, sem stefnda hefði borið að koma í veg fyrir. Eins og öll atvik málsins liggja fyrir eru ekki efni til að meta stefnda í óhag, að slysið var ekki strax tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins. Því er stefndi sýknaður af kröfum stefnanda.

Hvor málsaðila skal bera sinn kostnað af málinu, sbr. 3. mgr. 130. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Stefndi, Múlakaffi ehf., er sýknaður af kröfum stefnanda, A.

Málskostnaður fellur niður.