Hæstiréttur íslands
Mál nr. 346/2005
Lykilorð
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Vinnuslys
|
|
Fimmtudaginn 9. febrúar 2006. |
|
Nr. 346/2005. |
Magnús Sigurðsson(Kristinn Hallgrímsson hrl.) gegn Stólpa ehf. (Kristín Edwald hrl.) |
Skaðabætur. Líkamstjón. Vinnuslys.
M varð fyrir líkamstjóni í vinnuslysi árið 2001, er hann var sem sjálfstæður verktaki að setja upp loftplötur í félagi við starfsmann S. M reisti kröfur sínar á því að S bæri bótaábyrgð á tjóni hans samkvæmt sakarreglunni og reglunni um húsbóndaábyrgð, en orsök tjónsatburðarins mætti rekja til saknæmrar háttsemi starfsmanns S. Þótti M því ekki hafa sýnt fram á að slysið yrði rakið til yfirsjónar eða vanrækslu sem S bar ábyrgð á og var hann því sýknaður af kröfum M.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. ágúst 2005. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 8.084.487 krónur með 4,5% ársvöxtum af 3.074.966 krónum frá 5. nóvember 2001 til 5. ágúst 2003 og af 8.084.487 krónum frá þeim degi til 19. september 2004, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
Sjóvá-Almennum tryggingum hf. hefur verið stefnt til réttargæslu. Réttargæslustefndi gerir ekki kröfur fyrir Hæstarétti.
Tilkynning áfrýjanda til Tryggingastofnunar ríkisins um slys það sem ágreiningur aðila lýtur að er dagsett 21. ágúst 2002 en ekki daginn eftir slysið eins og missagt er í héraðsdómi. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða hans að áfrýjandi hafi ekki sýnt fram á að tjón hans verði rakið til gáleysis starfsmanns stefnda. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur um annað en málskostnað.
Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní 2005.
I
Mál þetta var höfðað 6. október 2004 og dómtekið 23. maí 2005.
Stefnandi er Magnús Sigurðsson, kt. 251259-2249, Laufengi 150, Reykjavík, en stefndi er Stólpi ehf., kt. 560776-0399, Klettagörðum 7, Reykjavík. Sjóvá-Almennum tryggingum hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 5, Reykjavík, er stefnt til réttargæslu.
Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 8.084.487 krónur ásamt 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 3.074.966 krónum frá 5. nóvember 2001 til 5. ágúst 2003 en af 8.084.487 krónum frá þeim degi til 19. september 2004 og frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.
Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi dæmdur til greiðslu málskostnaðar. Til vara krefst hann þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður verði í því tilviki felldur niður.
Ekki eru gerðar kröfur á hendur réttargæslustefnda og gerir réttargæslustefndi ekki kröfur í málinu.
II
Stefnandi varð fyrir líkamstjóni er hann lenti í vinnuslysi þann 5. nóvember 2001. Slysið varð með þeim hætti að stefnandi, sem var sjálfstæður verktaki, var í félagi við starfsmann stefnda, Radovan Loncar, að setja upp loftplötur að Klukkurima 3, Reykjavík. Verkið var unnið af vinnupalli og báru þeir loftplöturnar á milli sín, komu þeim fyrir í sérstökum nótum þar sem hver plata gekk inn í aðra og var svo fest endanlega með heftibyssu. Nefndar loftplötur voru 2,5 m á lengd, 60 cm á breidd og um það bil 20 kg að þyngd.
Þegar umrætt slys varð höfðu þeir félagar komið plötu fyrir í nótinni. Radovan stóð bak við stefnanda og hélt í sinn enda plötunnar og stefnandi beygði sig niður eftir heftibyssunni. Í þann mund er stefnandi beygði sig niður eftir heftibyssunni rann platan úr nótinni og féll á öxl stefnanda.
Ber aðilum ekki saman um hver hafi verið ástæða þess að platan féll niður. Í stefnu er því haldið fram að Radovan hafi rekið sig í plötuna og/eða misst hana á öxl stefnanda. Þá kemur einnig fram í stefnu að Radovan hafi slegið í plötuna með fyrrgreindum afleiðingum. Lýsing stefnda á óhappinu er á þá lund að þegar stefnandi hafi beygt sig niður eftir heftibyssunni og Radovan hafi haldið undir hinn enda plötunnar hafi endi loftplötunnar skyndilega fallið úr nótinni og á öxl stefnanda. Við það hafi stefnandi misst jafnvægið og gripið í vinnupallinn til að varna falli.
Vegna líkamstjóns stefnanda fór hann fram á afstöðu réttargæslustefnda til bótaskyldu úr ábyrgðartryggingu stefnda. Réttargæslustefndi svaraði því með bréfi, 6. mars 2003, að hann teldi ekki nægjanlega sýnt fram á að orsök slyssins yrði rakin til atvika sem stefndi bæri skaðabótaábyrgð á. Stefnandi leitaði því til lögmanns, sem ritaði réttargæslustefnda bréf og fór fram á endurskoðun á afstöðu hans til bótaskyldu stefnda. Réttargæslustefndi féllst ekki á það en óskaði eftir því að teknar yrðu lögregluskýrslur af stefnanda og Radovan. Var tekin lögregluskýrsla af stefnanda 29. júlí 2003 og af Radovan 1. september 2003. Með bréfi 17. september 2003 óskaði lögmaður stefnanda að nýju eftir afstöðu réttargæslustefnda og 27. október 2003 óskaði réttargæslustefndi eftir því að tjónanefnd vátryggingarfélaganna fjallaði um málið og gæfi álit sitt á greiðsluskyldu félagsins. Í niðurstöðu sinni í nóvember 2003 komst tjónanefndin að þeirri niðurstöðu að ekki væri talið fullsannað að slysið yrði rakið til saknæmrar háttsemi starfsmanns stefnda eða annarra atvika eða aðstæðna sem hann bæri ábyrgð á. Stefnandi var ekki sammála þessari afstöðu réttargæslustefnda og með bréfi 24. nóvember 2003 skaut stefnandi málinu til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum sem komst að þeirri niðurstöðu 20. janúar 2004 að greiðsluskylda úr ábyrgðartryggingu stefnda væri ekki fyrir hendi.
Stefnandi og réttargæslustefndi óskuðu eftir mati Guðmundar Björnssonar læknis og Birgis G. Magnússonar hdl. á afleiðingum slyssins á heilsu stefnanda og er matsgerð þeirra dagsett 19. ágúst 2004. Niðurstaða matsgerðarinnar er eftirfarandi:
1. Telja matsmenn að tímabært hafi verið að leggja mat á varanlegt heilsutjón stefnanda vegna afleiðinga vinnuslyssins þann 4. nóvember 2001.
2. Er það mat matsmanna að tímabundið atvinnutjón teljist vera 100% frá slysdegi 4. nóvember 2001 til 4. desember 2001, frá 9. júlí 2002 til 30. nóvember 2002 og frá 5. maí 2003 til 5. júlí 2003.
3. Þá telja matsmenn þjáningartíma vera frá 4. nóvember 2001 til 4. desember 2001, frá 1. júlí 2002 til 30. nóvember 2002 og frá 5. maí 2003 til 5. ágúst 2003 án rúmlegu.
4. Stöðugleikapunkt telja matsmenn vera 5. ágúst 2003.
5. Varanlegan miska stefnanda telja matsmenn hæfilega metinn 12%.
6. Varanlega örorku stefnanda telja matsmenn vera 15%.
7. Hefðbundna læknisfræðilega örorku telja matsmenn vera 12%.
Í málinu er ekki ágreiningur um örorku stefnanda heldur deila aðilar fyrst og fremst um skaðabótaskyldu stefnda. Ef stefndi telst skaðabótaskyldur á tjóni stefnanda er ágreiningur um hvort stefnandi eigi rétt til bóta vegna tímabundins atvinnutjóns og um viðmiðunartekjur við útreikning bóta.
III
Dómkrafa stefnanda byggir á því að stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni því sem stefnandi varð fyrir er hann lenti í umræddu slysi. Beri stefndi ótvíræða bótaábyrgð á vinnuslysi stefnanda samkvæmt almennu skaðabótareglunni og reglunni um húsbóndaábyrgð. Orsök tjónsatburðar megi án efa rekja til saknæmrar háttsemi starfsmanns stefnda, Radovan Loncar. Samkvæmt gögnum málsins sé ljóst að slysið hefði ekki orðið ef ekki hefði komið til saknæm háttsemi Radovans. Verði stefndi því að greiða stefnanda skaðabætur í samræmi við ákvæði skaðabótalaga nr. 50/1993.
Stefnandi mótmælir þeirri afstöðu réttargæslustefnda að ekki sé sýnt fram á að slysið verði rakið til atviks sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á. Að mati stefnanda sé ljóst að slysið verði rakið til þess að samstarfsmaður stefnanda hafi rekist í plötuna og/eða misst hana. Í yfirlýsingu Radovans dagsettri 28. mars 2003 segi orðrétt, „Þegar við vorum u.þ.b. hálfnaðir við verkið tókum við saman upp eina plötuna (og þá var heftibyssan Magnúsar megin) og tylltum í eina nótina. Snéri Magnús baki í mig og varð mér þá það á að slá í plötuna mín megin, á meðan hann var að teygja sig eftir byssunni, og losnaði þá platan úr nótinni og féll á öxl og höfuð Magnúsar.”
Í lýsingu stefnanda í lögregluskýrslu 29. júlí 2003 komi fram að platan hafi losnað við það að Radovan hafi slegið í hana. Auk lýsingar stefnanda á slysinu og yfirlýsingar Radovans liggi fyrir að miðað við þann hátt sem hafður var á við umrætt verk sé útilokað að platan hafi dottið af sjálfu sér. Verkið sé unnið þannig að tveir starfsmenn hjálpist að við að festa plötuna upp. Annar beygi sig niður eftir heftibyssunni á meðan hinn haldi plötunni uppi. Þetta sé gert með þessum hætti því heftibyssan sé fyrirferðarmikil og það verði að leggja hana til hliðar þegar plötunni sé komið fyrir í nótinni. Yfirlýsing Magnúsar Guðfinnssonar smiðs lýsi vel hvernig verkið sé unnið. Þar að auki segi stefndi sjálfur í tilkynningu um slys til réttargæslustefnda, að samstarfsmaður stefnanda hefði misst plötuna á stefnanda þegar hann hafi verið að laga plötuna eitthvað til.
Kröfu sína að fjárhæð 8.084.487 krónur sundurliðar stefnandi þannig:
A. Tímabundið atvinnutjón. kr. 2.122.316
Samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga skuli ákveða bætur fyrir atvinnutjón fyrir tímann frá því að tjón varð þangað til tjónþoli geti hafið vinnu að nýju eða þar til heilsufar hans sé orðið stöðugt. Samkvæmt matsgerð Guðmundar Björnssonar læknis og Birgis Magnússonar hdl. teljist tímabundið atvinnutjón vera 100% frá slysdegi þann 4. nóvember 2001 til 4. desember 2001, frá 9. júlí 2002 til 30. nóvember 2002, og frá 5. maí 2003 til 5. júlí 2003. Þetta séu 7,833 mánuðir. Tímabundið atvinnutjón nemi því 2.439.416 krónum (7,833 x 311.428). Mánaðarlaunin séu miðuð við meðallaun iðnaðarmanna sem hafi verið 293.800 krónur á stöðugleikatímapunkti. Við launin sé bætt 6% mótframlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Upphæðin sé því 311.428 krónur. Frá heildarupphæðinni dragist svo sjúkradagpeningar sem stefnandi hafi fengið á árunum 2002-2003 samtals að fjárhæð 317.100 krónur.
B. Þjáningabætur. kr. 272.250
Samkvæmt fyrrgreindri matsgerð hafi stefnandi verið veikur í skilningi 3. gr. skaðabótalaga í 275 daga vegna afleiðinga slyssins. Samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga, sbr. 15. gr., hafi þjáningabætur vegna hvers dags sem stefnandi var veikur án þess að vera rúmliggjandi, numið 990 krónum á dag miðað við lánskjaravísitölu í október 2004. Krafan vegna þessa þáttar nemi því 275 x 990 = 272.250 krónum.
C. Varanlegur miski 12%. kr. 680.400
Varanlegur miski stefnanda af völdum slyssins sé metinn 12%. Fjárhæðin sé fundin út samkvæmt 4. gr., sbr. 15. gr. skaðabótalaga, þ.e. 12% x 5.670.000 krónur = 680.400 krónur samkvæmt lánskjaravísitölu í október 2004.
D. Varanleg örorka 15% kr. 5.009.521
Varanleg örorka stefnanda vegna slyssins sé metin 15%. Árið 1999 hafi stefnandi haft 1.928.892 krónur í heildartekjur, árið 2000 hafi hann haft 1.949.358 krónur í heildartekjur og árið 2001 hafi hann haft 1.320.000 krónur í heildartekjur. Þar sem stefnandi sé bakari að mennt og hafi unnið lengi sem húsasmiður verði að meta árslaun stefnanda sérstaklega, sbr. 2. mgr. 7. gr., enda gefi tekjur þrjú ár fyrir slys ekki eðlilega mynd af líklegum framtíðartekjum stefnanda. Sé því rétt að miða við meðallaun iðnaðarmanna á stöðugleikatímapunkti þann 5. ágúst 2003. Meðallaun iðnaðarmanna á þeim tímapunkti hafi verið 293.800 krónur sem geri 3.525.600 krónur í árslaun. Við þá upphæð sé bætt 6% mótframlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð og séu árslaunin þá 3.737.136 krónur. Stefnandi hafi verið var 43 ára og 223 daga gamall á stöðugleikatímapunkti, 5. ágúst 2003. Margföldunarstuðull 6. gr. skaðabótalaga sé því 9,668. Krafa vegna varanlegrar örorku nemi því; 15% x 3.737.136 x 9.668 = 5.419.595 krónum. Frá kröfunni dragist 410.074 krónur sem sé innborgun Tryggingastofnunar ríkisins og nemi krafan því 5.009.521 krónum.
Auk framangreinds krefjist stefnandi greiðslu 4,5% vaxta samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga fyrir þjáningar, varanlegan miska og tímabundið atvinnutjón frá því að tjón varð, þann 5. nóvember 2001, til 19. september 2004. Bætur fyrir varanlega örorku beri 4,5% vexti frá upphafsdegi metinnar örorku, þann 5. ágúst 2003, til 19. september 2004. Frá 19. september 2004 til greiðsludags sé krafist dráttarvaxta samkvæmt lögum nr. 38/2001, en þann 19. september 2004 hafi verið mánuður liðinn frá því að niðurstaða matsgerðarinnar lá fyrir.
Um lagarök fyrir kröfum sínum að öðru leyti en að framan er rakið vísar stefnandi til meginreglna íslensks skaðabótaréttar svo og almennu sakarreglunnar. Þá vísar stefnandi til meginreglna um húsbóndaábyrgð vinnuveitanda vegna skaðaverka sem rekja megi til ásetnings eða gáleysis starfsmanna hans. Um aðild réttargæslustefnda, Sjóvá-Almennra trygginga hf., vísist meðal annars til 21. gr. laga nr. 91/1991. Varðandi málskostnað sé vísað til ákvæða 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 og um virðisaukaskatt til laga nr. 50/1988. Um varnarþing vísist til 33. gr. laga um meðferð einkamála.
IV
Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að ósannað sé að tjón stefnanda verði rakið til atvika sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á. Í öðru lagi byggi hann sýknukröfu sína á því að ósannað sé að starfsmaður stefnanda hafi sýnt af sér saknæmt gáleysi er óhappið varð og í þriðja lagi á því að stefnandi verði að bera tjón sitt að fullu sjálfur vegna eigin sakar.
Stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir orsök og umfangi tjóns síns og hafi honum ekki tekist að sanna að tjónið verði rakið til saknæmrar háttsemi starfsmanns stefnda eða annarra atvika sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á að lögum.
Eina vitnið að umdeildum atburði hafi verið Radovan, starfsmaður stefnda. Í framburði hans fyrir lögreglu komi fram að hann muni vel eftir slysinu. Hann hafi hins vegar ekki áttað sig vel á því hvað hafi gerst, en þegar stefnandi hafi beygt sig niður hafi platan losnað úr falsinu og skollið niður á öxl stefnanda. Þessi lýsing vitnisins á atvikum málsins gefi alls ekki til kynna að starfsmaðurinn hafi átt sök á tjóni stefnanda. Þá mótmæli stefndi sönnunargildi svokallaðrar “frásagnar” Radovans á dómskjali nr. 8 að því leyti sem hún fari í bága við skýrslu hans fyrir lögreglu. Eðli máls samkvæmt sé sönnunargildi lögregluskýrslu ríkara en annarra frásagna meðal annars vegna þess að rangur framburður fyrir lögreglu sé refsiverður að lögum. Þá sé lýsing vitnisins á atvikum málsins í lögregluskýrslunni í samræmi við það sem fram komi í símtölum þess við lögfræðing hjá réttargæslustefnda og framkvæmdastjóra stefnda áður en umrædd frásögn á dómskjali nr. 8 hafi verið samin. Loks liggi fyrir að umrædd frásögn hafi verið samin af lögmanni stefnanda og undirrituð af vitninu á skrifstofu lögmannsins.
Þá sé mótmælt sönnunargildi yfirlýsingar Magnúsar Guðfinnssonar 12. september 2003 á dómskjali nr. 13 þar sem hann hafi ekki verið vitni að umræddu óhappi. Eftir standi þá aðeins lýsingar stefnanda sjálfs á atvikum málsins. Hafi aðilaskýrslur fyrir dómi almennt lítið sem ekkert sönnunargildi og í þessu máli hafi stefnandi ríka hagsmuni af því að sýna fram á að óhappið verði rakið til atvika sem stefndi beri ábyrgð á. Það dragi enn frekar úr sönnunargildi skýrslna stefnanda að honum hafi verið ómögulegt að sjá til athafna Radovans er óhappið varð þar sem stefnandi hafi snúið baki í hann.
Í fyrstu lýsingu stefnanda á atvikum málsins segi svo í tilkynningu hans 21. ágúst 2002, til Tryggingastofnunar ríkisins, „Var að vinna við að setja loftplötur upp, ásamt öðrum aðila. Missir takið á plötunni og fær slink á öxlina.“ Þessi lýsing stefnanda á tildrögum slyssins bendi eindregið til þess að hann hafi einfaldlega sjálfur misst takið á plötunni og þannig fengið slink á öxlina. Af lýsingunni verði alls ekki ráðið að óhappið megi rekja til saknæmrar háttsemi starfsmanns stefnda.
Vegna tilvísunar stefnanda til tilkynningar stefnda 22. janúar 2003 til réttargæslustefnda tekur stefndi fram að þar hafi aðeins verið stuðst við lýsingar stefnanda sjálfs. Lýsingar starfsmanns stefnda, Radovan, á atvikum málsins hafi þá ekki legið fyrir.
Samkvæmt öllu framansögðu sé ósannað að tjón stefnanda hafi orðið vegna saknæmrar háttsemi starfsmanns stefnda eða annarra atvika sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á að lögum.
Telji héraðsdómur sannað að starfsmaður stefnda hafi „slegið létt“ í plötuna, eins og stefnandi haldi fram í skýrslu sinni fyrir lögreglu, um leið og stefnandi hafi beygt sig niður, geti sú háttsemi ein út af fyrir sig ekki talist svo sérstök og óvenjuleg að um saknæmt gáleysi sé að ræða. Í því sambandi skuli bent á að ósannað sé að starfsmaðurinn hafi vitað eða mátt vita að stefnandi héldi ekki undir sinn enda plötunnar og hafi af þeim sökum átt að sýna sérstaka aðgát. Venjulegum forsvaranlegum vinnubrögðum hafi verið beitt við framkvæmd verksins og því einfaldlega um óhappatilvik að ræða sem stefndi beri ekki ábyrgð á að lögum.
Telji héraðsdómur sannað að ekki hafi verið um óhappatilviljun að ræða, byggi stefndi á því að stefnandi verði sjálfur að bera fulla ábyrgð á tjóni sínu vegna eigin sakar. Hafi stefnandi haft talsverða reynslu af smíðavinnu og því vitað eða mátt vita af þeim hættum sem starfinu fylgdu. Verði að telja að stefnandi hafi ekki gætt fyllsta öryggis við vinnuna, s.s. með því að stýfa plötuna meðan hún var ekki fest eða gera starfsmanni stefnda nægilega ljóst að hann héldi ekki við plötuna.
Kröfu sína um verulega lækkun bóta byggir stefndi meðal annars á eigin sök stefnanda, sbr. það sem að framan er rakið.
Stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að hann hafi orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni. Hann hafi ekki lagt fram gögn til stuðnings þessum lið kröfu sinnar eða sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni á nefndum tímabilum. Rétt sé að taka hér fram að bætur vegna tímabundins atvinnutjóns miðist eðli máls samkvæmt við raunverulegt tjón tjónþola, enda eigi hann ekki að hagnast á tjónsatburði.
Telji dómurinn sannað að stefnandi hafi orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni, byggi stefndi á því að taka verði mið af tekjum stefnanda samkvæmt skattframtölum á nefndum tímabilum að frádregnum greiðslum samkvæmt 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaga. sé því mótmælt að skilyrði séu til að hafa hér hliðsjón af 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og miða við meðaltekjur iðnaðarmanna, eins og stefnandi byggi á.
Beri að ákvarða árslaun stefnanda á grundvelli meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum. Þar sem slys stefnanda hafi orðið 5. nóvember 2001 beri að miða við meðaltekjur hans almanaksárin 19982000 við ákvörðun árslauna samkvæmt nefndu ákvæði. Í skattframtali stefnanda 1999 komi fram að tekjur hans árið 1998 hafi verið 2.142.031 króna. Þá komi fram í skattframtali stefnanda 2000 að tekjur hans árið 1999 hafi verið 1.928.892 krónur og í skattframtali stefnanda 2001 komi fram að tekjur hans árið 2000 hafi verið 1.949.358 krónur. Að teknu tilliti til vísitölubreytinga og framlags í lífeyrissjóð nemi meðalárslaun stefnanda á nefndu tímabili 2.811.682 krónum. Krafa stefnanda vegna varanlegrar örorku í heild samkvæmt 5.-7. gr. skaðabótalaga nemi þá 4.077.501 krónu (2.811.682 x 15% x 9,668) eða 3.667.427 krónur að frádreginni innborgun frá Tryggingastofnun ríkisins.
Stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að skilyrði séu til að beita undantekningarreglu 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og að ákvarða beri árslaun stefnanda í samræmi við meðaltekjur iðnaðarmanna. Hafi stefnanda ekki tekist sú sönnun. Í fyrsta lagi sé 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga undantekning frá meginreglu 1. mgr. 7. gr. laganna og beri því að skýra ákvæðið þröngt.
Í öðru lagi skuli 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga aðeins beitt þegar meta þurfi árslaun tjónþola sérstaklega vegna óvenjulegra aðstæðna, til dæmis ef breytingar hafi orðið á tekjum og atvinnuhögum, og ætla megi að annar mælikvarði en heildarvinnutekjur á næstliðnum árum fyrir slysdag sé réttari á líklegar framtíðartekjur. Af gögnum málsins verði alls ekki ráðið að slíkar breytingar hafi átt sér stað hjá stefnanda eða aðstæður hans verið óvenjulegar að öðru leyti. Sé stefnandi menntaður bakari sem hafi haft langa starfsreynslu sem smiður og á nefndu tímabili hafi hann bæði starfað sem bakari og smiður. Ganga verði út frá að í launum stefnanda á tímabilinu hafi verið tekið fullt tillit til menntunar hans og reynslu.
Í þriðja lagi skuli bent á að með lögum nr. 37/1999 um breyting á skaðabótalögum nr. 50/1993 hafi verið gerð sú breyting að miða við meðaltekjur síðustu þriggja almanaksára í stað þess að miða við meðaltekjur síðasta jafnlengdarárs. Almennt megi gera ráð fyrir að sveiflur í tekjum jafnist út á svo löngu tímabili og þannig gefi meðaltekjur á þessu þriggja ára tímabili rétta mynd af líklegum framtíðartekjum tjónþola. Samkvæmt framansögðu hafi stefnanda ekki tekist að sanna að annar mælikvarði en sá sem 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga mæli fyrir um sé réttari á líklegar framtíðartekjur hans.
Þá mótmælir stefndi upphafstíma dráttarvaxta frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.
V
Eins og rakið hefur verið er óumdeilt að tjón stefnanda verður rakið til þess að loftplata féll á öxl hans og er ekki deilt um örorku stefnanda. Snýst ágreiningur aðila fyrst og fremst um það hvort stefndi beri ábyrgð á tjóni stefnanda og ef stefndi telst bótaskyldur er deilt um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns og viðmiðunartekjur við útreikning bóta. Byggir stefnandi kröfur sínar á hendur stefnda á almennu skaðabótareglunni og reglunni um húsbóndaábyrgð þar sem orsök tjónatburðar verði rakin til saknæmrar hegðunar starfsmanns stefnda, Radovan Loncar. Stefnandi vann umrætt verk sem sjálfstæður verktaki.
Þegar umræddur tjónsatburður varð voru stefnandi og Radovan einir á staðnum og engir aðrir til frásagnar um hvað gerðist. Stefnandi hefur lagt fram yfirlýsingu Magnúsar Guðfinnssonar, sem lýsir því yfir að þekki vel til aðstæðna á vinnustað sem þeim sem stefnandi var að vinna á er slysið varð og að hann telji yfirgnæfandi líkur á að mannleg mistök samstarfsmanns stefnanda hafi valdið því að platan datt á hann. Þar sem umræddur Magnús var ekki á staðnum þegar slysið varð er yfirlýsing hans ekki til þess fallin að varpa neinu ljósi á umdeildan atburð og hefur því ekkert sönnunargildi um það sem ágreiningur aðila snýst um.
Óumdeilt er að þegar slysið varð sneri stefnandi baki í Radovan og sá því ekki sjálfur hvað olli því að platan féll ofan á hann.
Í tilkynningu stefnanda til Tryggingastofnunar ríkisins daginn eftir slysið er tildrögum og orsökum slyssins lýst þannig af stefnanda að hann hafi verið að vinna við að setja upp loftplötur ásamt öðrum aðila og svo segir orðrétt: „Missir takið á plötunni og fær slink á öxlina.” Samkvæmt þessu orðalagi var það sá sem missti plötuna sem fékk slink á öxlina. Fyrir dómi bar stefnandi að þarna vanti orðið „hann” fyrir framan missir, og þar sé átt við Radovan. Samkvæmt því var það Radovan sem missti takið á plötunni og fékk slink á öxlina. Ekki verður séð að þessi breyting á orðalagi tilkynningarinnar skýri atvikið neitt frekar.
Lýsing stefnda í óundirritaðri tilkynningu um slysið til réttargæslustefnda 22. janúar 2003 var á þá leið að platan hafi fallið á stefnanda þegar starfsmaður stefnda sem var að vinna með stefnanda umrætt sinn hefði ætlað að laga plötuna eitthvað til. Hafi stefnandi verið óviðbúinn þegar platan féll ofan á hann og hafi hann gripið í handrið á pallinum og hrasað og þannig fengið slink á öxlina. Þessa lýsingu kvaðst fyrirsvarsmaður stefnda hafa haft eftir stefnanda og Radovan.
Samkvæmt óundirritaðri skýrslu stefnanda dagsettri 1. mars 2003 lýsir hann hinu umdeilda atviki á þann veg að Radovan hafi orðið það á að slá í plötuna sín megin og við það hafi hún hrokkið út úr nótinni stefnanda megin og hafi kanturinn á plötunni fallið á hægri öxl stefnanda og hluti hennar á höfði hans þannig að hann hafi misst jafnvægið en náð að grípa í uppistöður vinnupallsins og þannig forðað sér frá því að falla niður.
Í skýrslu sinni hjá lögreglu 29. júlí 2003 kvað stefnandi að þegar hann og Radovan hafi verið búnir að ganga frá umræddri plötu hafi hann spurt Radovan hvort hún sæti rétt og hafi hann sagt svo vera. Þegar stefnandi beygði sig eftir heftibyssunni hafi Radovan séð einhverja misfellu og slegið létt í plötuna til að láta hana ganga betur saman. Við það að slá í plötuna hefði platan losnað úr nótinni, snúist í höndunum á Radovan og hann við það misst plötuna sem stakkst niður og hafnaði í hægri öxlinni á stefnanda.
Í stefnu er ýmist talað um að Radovan hafi rekið sig í plötuna og/eða misst hana á öxl stefnanda eða að Radovan hefði slegið í hana. Fyrir dómi kom fram hjá stefnanda að hann gerði ráð fyrir að Radovan hafi slegið í plötuna sín megin vegna þess að hann hafi séð einhverja misfellu.
Af því sem nú hefur verið rakið er framburður stefnanda nokkuð á reiki í skjölum málsins og skýrist það væntanlega af því að stefnandi sá ekki sjálfur hvað gerðist.
Framburður Radovans, eina vitnisins í málinu, í skjölum málsins er sama merki brenndur og framburður stefnanda. Það misræmi skýrist hins vegar með því að Radovan er fæddur í fyrrum Júgóslavíu og talar og skilur íslensku illa. Kom það berlega í ljós við aðalmeðferð málsins þar sem hann hafði túlk sér til aðstoðar.
Yfirlýsing Radovans dagsett 28. mars 2003 á dómskjali nr. 8 var samin af stefnanda sjálfum og kom fram að eiginkona Radovans hafi túlkað efni hennar fyrir Radovan. Í þeirri skýrslu kemur fram að Radovan hafi orðið það á að slá í plötuna sín megin þegar stefnandi beygði sig eftir heftibyssunni. Við það hafi platan losnað úr nótinni og fallið á öxl og höfuð stefnanda. Við það hafi stefnandi misst jafnvægið og gripið um uppistöður vinnupallsins til að forða því að hann dytti niður. Við þetta hafi hann fengið slink á öxlina.
Í skýrslu sinni hjá lögreglu 1. september 2003 kvaðst Radovan ekki átta sig vel á hvað hafi gerst en er stefnandi hafi beygt sig niður hefði platan losnað úr falsinu og skollið niður á öxlina á stefnanda. Ekki verður séð að túlkur hafi verið viðstaddur skýrslutökuna.
Radovan gaf skýrslu fyrir dómi og eins og áður er rakið var túlkur viðstaddur aðalmeðferðina og túlkaði fyrir Radovan á móðurmáli hans. Fyrst kvað hann aðspurður að lýsing hans í yfirlýsingunni á dómskjali nr. 8 væri rétt. Síðar dró hann það til baka að hann hefði slegið í plötuna, hann hafi bara haldið í hana. Það væri rangt sem komi fram í umræddri yfirlýsingu um að hann hafi slegið í plötuna. Var framangreind breyting á lýsingu vitnisins trúverðug þar sem greinilegt var að hann hefði ekki að fullu skilið textann sem hann undirritaði. Þá er þess að geta að fyrir lögreglu bar hann að hann áttaði sig ekki á því hvað hafi gerst, en platan hefði losnað úr falsinu og fallið á stefnanda. Við mat á sönnunargildi framburðar Radovans verður að líta til þess að framburður hjá lögreglu og fyrir dómi hefur meira vægi sem sönnunargagn en yfirlýsing, útbúin af stefnanda á íslensku, sem Radovan skilur illa.
Eins og nú hefur verið rakið eru gögn málsins misvísandi um hvað gerðist umrætt sinn. Verður við mat á sönnunargildi framburðar stefnanda að líta til þeirra hagsmuna sem stefnandi hefur af því að sýna fram á að slysið verði rakið til saknæmrar háttsemi starfsmanns stefnda auk þess sem sú staðreynd að hann sá ekki hvað gerðist dregur úr sönnunargildi framburðar hans.
Um skyldu atvinnurekanda til að tilkynna slys á starfsmönnum sínum til Vinnueftirlits ríkisins er fjallað í 79. gr. laga nr. 46/1980. Fyrir liggur að Vinnueftirlitinu var ekki tilkynnt um slysið en óumdeilt er að stefnandi var við vinnu sína umrætt sinn sjálfstæður verktaki og var stefndi því ekki atvinnurekandi hans í skilningi ofangreinds ákvæðis. Þá eru atvik málsins þannig að ekki verður séð að rannsókn Vinnueftirlitsins hefði verið til þess fallin að varpa skýrari ljósi á atburðinn. Eru því ekki efni til þess að meta stefnda það í óhag að ekki hafi verið kallað á Vinnueftirlitið.
Eins og fram er komið er vitnið, Radovan, einn til frásagnar um það hvað gerðist. Framburður annarra um atburðinn í skjölum málsins eru því aðeins getgátur. Með vísan til þess sem fram kom hjá Radovan fyrir dómi missti hann plötuna og er allsendis ósannað að hann hafi slegið í plötuna. Hefur stefnandi því ekki lagt fram haldbær gögn um hver hafi verið orsök þess að platan féll ofan á öxl stefnanda með þeim afleiðingum að hann slasaðist og verður hann að bera hallann af þeim sönnunarskorti.
Framangreind lýsing Radovans á því að hann hafi misst plötuna gefur ekki tilefni til að álykta að Radovan hafi sýnt af sér saknæmt atferli heldur þykir einsýnt að um óhappatilvik hafi verið að ræða sem hvorugur aðili málsins beri ábyrgð á. Þykir stefnandi því ekki hafa sýnt fram á að slysið verði rakið til yfirsjónar eða vanrækslu sem stefndi bar ábyrgð á og verður stefndi því sýknaður af kröfum stefnanda.
Í ljósi þeirrar niðurstöðu verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur.
Af hálfu stefnanda flutti málið Grímur Sigurðarson hdl. en af hálfu stefnda flutti málið Kristín Edwald hrl.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Stólpi ehf., er sýknaður af öllum kröfum stefnanda, Magnúsar Sigurðssonar.
Stefnandi greiði stefnda 200.000 krónur í málskostnað.