Hæstiréttur íslands
Mál nr. 673/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. október 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. október 2015, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 13. október 2015 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. október 2015.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, að kærða, X, kt. [...], verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 20. október nk., kl. 16:00. Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Kærði mótmælir kröfu lögreglustjóra og krefst þess aðallega að henni verði hafnað, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
I
Í greinargerð lögreglustjóra segir meðal annars að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi til rannsóknar stórfellt fíkniefnalagabrot er varði innflutning á sterkum fíkniefnum hingað til lands.
Þann 28. september sl. hafi lögreglan lagt hald á mikið magn af sterkum fíkniefnum sem fundust í bifreið sem staðsett var við [..] að [...] í [...] á [..]. Tveir erlendir aðilar hafi verið handteknir inni í húsnæðinu grunaðir um aðild að innflutningi fíkniefnanna hingað til lands. Lögreglan hafi verið með eftirlit með bifreiðinni sem innihélt fíkniefnin í nokkra daga. Við það eftirlit varð lögreglan ítrekað vör við aðra bifreið sem virtist fylgja hinni eftir. Um hafi verið að ræða bílaleigubifreiðar sem meðkærði Y var skráður leigutaki að. Þá hafi lögreglan einnig borið kennsl á kærða X í bifreiðinni. Kærði var handtekinn þennan sama dag ásamt fleirum og var framkvæmd leit á heimili hans og í bifreið sem hann er skráður fyrir. Við leit í bifreið kærða fannst kassi utan af farsíma sem meðkærði Y var með við handtöku. Lögreglan ætlar að þessi sími hafi verið notaður í samskiptum við meinta samverkamenn. Í bifreiðinni fannst einnig A-4 blað sem er í eigu X, en á blaðinu koma fram upplýsingar sem lögreglan telur tengjast flutningi bifreiðarinnar hingað til lands. Við skoðun á tölvu X hafi einnig komið fram gögn og upplýsingar sem lögreglan telji að tengist ofangreindum innflutningi fíkniefna. Sjá nánar meðfylgjandi gögn.
Kærði hefur neitað sök. Varðandi framburð kærða er nánar vísað í framburðarskýrslur sem liggja fyrir hjá dómnum. Ljóst er að framburðum kærða og meðkærðu ber ekki saman. Þá er ekki samræmi á milli framburðar kærða og þeirra vitna sem lögreglan hefur nú þegar náð tali af.
Kærði hefur sætt gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar málsins frá 29. september sl., sbr. úrskurður Héraðsdóms Reykjaness nr. R-[...]/2015. Sá úrskurður var staðfestur með dómi Hæstaréttar nr.[...]/2015.
Í ljósi ofangreinds og þeirra gagna sem lögreglan hefur aflað er kærði undir rökstuddum grun um aðild að innflutningi á miklu magni af sterkum fíkniefnum hingað til lands. Rannsókn lögreglu hefur leitt til þess að lagt hefur verið hald á fjölda af tölvum, símum og gögnum sem unnið er í að fara í gegnum. Þá ber framburður kærðu í málinu ekki saman og ljóst að fleiri aðilar kunna að tengjast málinu sem lögreglan hefur ekki haft upp á. Ljóst er að fíkniefnin voru ætluð til sölu og dreifingar hér á landi og telur lögreglan að fleiri aðilar kunni að tengjast málinu. Lögreglan vinnur að rannsókn málsins og er talin brýn nauðsyn á því að kærði sæti gæsluvarðhaldi á þessu stigi máls þar sem ljóst er að ef kærði gengur laus þá getur hann sett sig í samband við meinta samverkamenn sem ganga lausir eða þeir sett sig í samband við hann. Þá getur kærði einnig komið undan gögnum með sönnunargildi sem lögreglan hefur ekki lagt hald á nú þegar. Þykir þannig brýnt að vernda rannsóknarhagmuni á þessu stigi málsins.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og til að sæta einangrun samkvæmt b. lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga, er þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún er sett fram.
II
Með vísan til alls framanritaðs, svo og gagna málsins, er fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við.
Málið er umfangsmikið og enn á byrjunarstigum en í fullum gangi samkvæmt gögnum málsins. Ætla verður lögreglu nokkuð svigrúm til rannsóknarinnar, meðal annars til þess að kanna möguleg tengsl kærða við vitorðsmenn, bæði hér á landi og erlendis. Gangi kærði laus má ætla að hann muni torvelda rannsókn málsins með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni. Samkvæmt þessu telst skilyrðum a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála fullnægt til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Er krafa lögreglustjóra því tekin til greina eins og hún er sett fram og nánar greinir í úrskurðarorði.
Með vísan til framangreinds er jafnframt fallist á kröfu um að kærða verði gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldsvist hans stendur, sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Úrskurð þennan kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 13. október nk., kl. 16:00.
Kærða er gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.