Hæstiréttur íslands

Mál nr. 147/2010


Lykilorð

  • Lögreglumaður
  • Brot í opinberu starfi
  • Skilorð


Fimmtudaginn 18. nóvember 2010.

Nr. 147/2010.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson saksóknari)

gegn

Garðari Helga Magnússyni

(Herdís Hallmarsdóttir hrl.)

Lögreglumenn. Brot í opinberu starfi. Skilorð.

Lögreglumaðurinn G var sakfelldur fyrir brot gegn 132. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa farið offari við framkvæmd lögreglustarfa og ekki gætt lögmætra aðferða er hann sem stjórnandi lögregluaðgerðar, í miðbæ Reykjavíkur, fyrirskipaði öðrum lögreglumanni að aka með handtekinn mann þaðan út á Granda og skilja hann þar eftir. Héraðsdómur var á hinn bóginn staðfestur með vísan til forsendna um sýknu G af ákæru um brot gegn 217. gr. sbr. 138. gr. sömu laga. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að í 1. mgr. 16. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 sé mælt fyrir um að handtekinn maður sé færður á lögreglustöð eða annan stað þar sem lögregla hefur aðstöðu. Eigi þetta við ef honum sé ekki þegar sleppt. Ákvörðun G um að ekið skyldi með A þá leið sem gert var til að freista þess að róa hann niður svo lögreglumennirnir kæmust sem fyrst til að sinna áfram verkefni á vettvangi lögregluaðgerðar, sem þeir höfðu verið kvaddir til, ætti sér ekki stoð í 15. gr. lögreglulaga og rúmaðist ekki innan almennra heimilda sem lögregla hefur venju samkvæmt til að halda uppi lögum og reglu. Með vísan til atvika málsins var ákvörðun um refsingu G frestað og skyldi hún falla niður að liðnum tveimur árum héldi G almennt skilorð.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 4. mars 2010. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og hann dæmdur til refsingar.

Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms.

Ákæruatriðin í máli þessu eru tvíþætt. Annars vegar tekur ákæra til þess að ákærði hafi farið offari við framkvæmd lögreglustarfa og ekki gætt lögmætra aðferða er hann sem stjórnandi lögregluaðgerðar fyrirskipaði öðrum lögreglumanni að aka með handtekinn mann frá Austurstræti ,,út á Granda í Reykjavík“ þar sem maðurinn var skilinn eftir. Hins vegar að hafa á leiðinni ,,út á Granda“ þrýst hné sínu á háls hins handtekna, þar sem hann lá handjárnaður í tökum lögreglu á maganum á gólfi lögreglubifreiðar með þeim afleiðingum að hann hlaut marbletti aftan á hálsinn.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi var A handtekinn snemma morguns 18. janúar 2009 fyrir utan veitingastaðinn Apótekið á mótum Austurstrætis og Pósthússtrætis í Reykjavík en þar þvældist hann fyrir lögreglumönnum við störf þeirra og jós yfir þá svívirðingum. Handtaka hans studdist við a. lið 1. mgr. 16. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Var A færður í lögreglubifreið og að fyrirmælum ákærða var henni ekið sem leið lá út á Granda og eftir nokkurn akstur þar var hinum handtekna sleppt á Fiskislóð skammt frá versluninni Krónunni sem þar er. Mun hann fljótlega hafa náð í leigubíl og látið aka sér heim.

Í 1. mgr. 16. gr. lögreglulaga er mælt fyrir um að handtekinn maður sé færður á lögreglustöð eða á annan stað þar sem lögregla hefur aðstöðu. Á þetta við ef honum er ekki þegar sleppt. Ákvörðun ákærða um að ekið skyldi með A þá leið sem gert var til að freista þess að róa hann niður svo lögreglumennirnir kæmust sem fyrst til að sinna áfram því verkefni á veitingastaðnum, sem þeir höfðu verið kvaddir til, átti sér ekki stoð í 15. gr. lögreglulaga. Aðgerðin rúmast heldur ekki innan þeirra almennu heimilda sem lögregla hefur samkvæmt venju til þess að halda uppi lögum og reglu. Verður ákærði samkvæmt því sakfelldur fyrir brot gegn 132. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður fallist á niðurstöðu hans um sýknu ákærða af seinna ákæruatriðinu.

Við ákvörðun refsingar ákærða verður litið til þess að hann hefur ekki áður hlotið refsingu og að fyrir honum vakti að fjarlægja mann sem truflað hafði lögreglumenn að skyldustörfum og komast sem fyrst aftur til þess að sinna brýnu löggæsluverkefni. Um þetta vísast til 7. töluliðar 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Einnig verður litið til þess að ekki var sérstök hætta á að hinum handtekna manni yrði meint af og náði hann fljótlega leigubifreið sem ók honum heim, sbr. 2. og 3. tölulið 1. mgr. 70. gr. sömu laga. Verður frestað ákvörðun um refsingu ákærða og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum.

Samkvæmt framansögðu og með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ákærði dæmdur til að greiða þriðjung sakarkostnaðar í héraði og áfrýjunarkostnaðar fyrir Hæstarétti, þar með talið af málsvarnarlaunum verjanda síns sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákvörðun um refsingu ákærða, Garðars Helga Magnússonar, er frestað og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákvæði héraðsdóms um greiðslu þóknunar réttargæslumanns brotaþola úr ríkissjóði er staðfest. Annan sakarkostnað í héraði, sem er þóknun skipaðs verjanda ákærða, Herdísar Hallmarsdóttur hæstaréttarlögmanns, 450.000 krónur, og áfrýjunarkostnað málsins, sem eru 21.646 krónur að viðbættum málsvarnarlaunum sama verjanda, 313.750 krónur, greiði ákærði að þriðjungi, en að öðru leyti skal hann greiddur úr ríkissjóði.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. febrúar 2010.

Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 2. október sl., á hendur ákærða, Garðari Helga Magnússyni, kt. 241175-3839, Rekagranda 6, Reykjavík, „fyrir brot í opinberu starfi og líkamsárás með því að hafa að morgni sunnudagsins 18. janúar 2009 gerst offari við framkvæmd lögreglustarfans og ekki gætt lögmætra aðferða er hann sem stjórnandi lögregluaðgerðar fyrirskipaði öðrum lögreglumanni að aka með handtekinn mann, A, fæddum 1987, frá Austurstræti út á Granda í Reykjavík þar sem A var skilinn eftir, og fyrir að hafa á leiðinni út á Granda þrýst hné sínu á háls A, þar sem hann lá handjárnaður í tökum lögreglu á maganum á gólfi lögreglubifreiðar, með þeim afleiðingum að A hlaut marbletti aftan á hálsinum.

Telst þetta varða við 132. gr. og 217. gr. sbr. 138. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Í málinu er krefst Þóra Björg Jónsdóttir hdl. þess, fyrir hönd A, að ákærði verði dæmdur til þess að greiða honum 700.000 krónur í miskabætur ásamt vöxtum og dráttarvöxtum samkvæmt 8. gr. og 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001, auk málskostnaðar.

Málavextir

Fyrir liggur að sunnudagsmorguninn 18. janúar í fyrra voru lögreglumenn sem voru við eftirlit á bíl í miðbænum kvaddir að veitingastaðnum Apótekinu í Austurstræti vegna þess að þar inni hafði sést til manns munda hníf.  Þar var þá einnig staddur A, fæddur 1987, sem hafði komið út af veitingastaðnum og var drukkinn.  Hóf hann að ausa svívirðingum af kynferðislegum toga yfir lögreglumennina og þegar annan lögreglubíl bar að fór hann að þeim bíl og þvældist þar fyrir lögreglunni.  Var hann þá tekinn og snúinn niður, handjárnaður og settur inn í þann lögreglubílinn sem hafði komið fyrr á vettvang.  Tveir lögreglumenn höfðu A á grúfu á gólfinu aftur í bílnum þannig að annar þeirra hélt fótum hans en hinn, ákærði í máli þessu, hélt búk og höfði.  Var ekið með hann þannig á gólfi lögreglubílsins vestur úr miðbænum og honum sleppt lausum einhvers staðar á Granda, að talið er.  Þegar þetta gerðist mun hafa verið gott veður í Reykjavík, hiti rétt yfir frostmarki og vindhraði rúmir fjórir metrar. 

A kom á lögreglustöðina við Hverfisgötu síðdegis næsta mánudag og kærði yfir því að hann hefði sætt harðræði af hálfu lögreglunnar og verið veittir áverkar, milli klukkan fimm og sex, þennan sunnudagsmorgun.  Kvaðst hann hafa verið „fullur" en ekki ofurölvi þegar þetta gerðist.  Þegar hann hefði verið kominn út af veitingastaðnum og út á gangstétt, hefði hann séð fjóra lögreglumenn standa fyrir framan veitingastaðinn og stóran lögreglubíl á götunni þar hjá.  Hefðu þeir skipað sér að fara á brott, en hann ekki hlýtt því og hreytt einhverju í þá.  Hefðu þá að a.m.k. tveir þeirra ráðist á sig, skellt sér niður á bringuna og handjárnað fyrir aftan bak. Hefði hann engan mótþróa sýnt og spurt þá hvers vegna þeir gerðu þetta, en engin svör fengið.  Svo hafi þeir fært hann í lögreglubílinn og lagt þar á grúfu.  Hefði honum verið haldið þannig niðri á grúfu með því að legið hefði verið á honum og hefði hann fundið fyrir hné á hálsi sínum. Hefðu þeir svo þjarmað að honum, sett trékylfu undir handjárnin og spennt upp, svo að hann fann mikið til.  Hefði hann margsinnis spurt þá hvers vegna hann væri handtekinn, en engin svör fengið.  Kvaðst hann þá hafa beðið þá afsökunar, en þá verið sagt að „það væri of seint". Taldi hann að fyrst hefði verið ekið að Öskjuhlíðinni, en þó væri hann ekki viss.  Þar hefðu þeir stöðvað bílinn, hleypt honum út og losað handjárnin af honum.  Hann hefði þá snúið sér við og að þeim en í þeim svifum hefðu þeir ráðist að honum aftur og handjárnað og sett í lögreglubílinn með sama hætti og áður og þjarmað að honum með sama hætti og áður.  Kvað hann einn þeirra hafa haft sig mest í frammi og skammað sig.  Að lokum hefði verið numið staðar í skeifulaga porti einhvers staðar „úti á Granda", hann færður úr bílnum, handjárnin losuð af honum og hann tuskaður aðeins til.  Lögreglumennirnir hefðu svo horfið á brott.  Hann hefði svo gengið niður í miðbæinn og náð þar í leigubíl.  Hann kvaðst ekki vita ástæðuna fyrir þessari handtöku og kvaðst hann hvorki hafa verið spurður að nafni né beðinn um skilríki.  Hann kvaðst ekki vita hvernig hann fékk áverka sem hann bar, en áleit það hafa verið þegar þjarmað var að honum í bílnum.  Mætti kveður móður sína hafa spurst fyrir um þessa handtöku þennan sunnudag, en fengið þau svör að ekkert hefði verið fært til bókar um þennan atburð hjá lögreglunni.  Kvaðst hann krefjast þess að lögreglumanninum sem í hlut ætti yrði refsað.  Þá áskildi hann sér rétt til þess að koma að bótakröfu í málinu.

Mál þetta sætti nokkurri lögreglurannsókn á vegum ríkissaksóknara-embættisins.  Voru teknar skýrslur af ákærða og vitnum í húsnæði embættisins, Hverfisgötu 6 og í húsnæði lögregluskólans, Krókhálsi 5.  Þá var aflað nokkurra annarra gagna, sem gerð verður grein fyrir, eftir því sem tilefni þykir vera til.

Í málinu er staðfest vottorð Jóns H. H. Sen sérfræðilæknis á slysa- og bráðdeild Landspítala.  Samkvæmt því kom A þangað klukkan 17:44 þennan sama dag og skýrði frá atvikum á sama veg og hjá lögreglu. Í vottorðinu er lýst ýmsum áverkum á honum, en eins og saksókninni er hagað nægir að geta þess að aftan á hálsi hans sáust margir marblettir. 

Þá er í málinu hefti sem titlað er „Lögreglutök – sjálfsvörn“ sem Arnar Jensson tók saman 1994.  Fyrir liggur að hefti þetta er meðal kennsluefnis í Lögregluskóla ríkisins.  Í heftinu eru fjölmargar teikningar af margvíslegum tökum og brögðum til þess að yfirbuga menn og handtaka.  Í inngangi að heftinu segir að kerfi þetta sé danskt að uppruna og hafi verið notað þar í landi um langt árabil með góðum árangri.  Þá segir í formálanum að ekki sé ætlast til þess að tökin séu notuð án tillits til aðstæðna heldur beri að fara eftir aðstæðum og almennum reglum um valdbeitingu og neyðarvörn.  Athygli vekur að í hefti þessu eru sýnd tök sem felast í því að atlaga er gerð að hálsi manns til þess að losa tök hans, sbr. nr. 44, 44b og 45.

Ákærði var yfirheyrður 27. febrúar 2009 og fylgir málinu hljóðupptaka af yfirheyrslunni.  Vararíkissaksóknari stýrði yfirheyrslunni, en jafnframt var verjandi ákærða viðstaddur.  Hann segir atburðinn hafa gerst eftir kl. 5 um morguninn.  Hann segir að kallað hafi verið út að hnífamaður væri á veitingastaðnum og hefðu þeir haldið þangað á lögreglubílnum, þrír lögreglumenn og einnig hefði verið í för með þeim maður sem var í starfskynningu.  Þegar á vettvang kom hefðu þeir lögreglumennirnir ákveðið að  bíða átekta meðan dyraverðir leituðu hnífamannsins.  Á meðan hefði komið þaðan út maður, A, og gengið fast að ákærða.  Hefði hann sagt að ákærði skyldi „totta hann á sér“, að hann ætlaði að berja ákærða og fleira í þessum dúr.  Kvaðst hann hafa leitt þetta hjá sér og einhverjir sem voru þarna hefðu stjakað manninum frá.  Meðan þeir biðu hefði annar lögreglubíll komið á vettvang með tvo sérsveitarmenn en maður þessi hefði gengið að bíl þeirra og tekið í hurðarhúninn og gert sig til að opna dyrnar á honum. Manninum hefði verið stjakað frá en hann haldið áfram að atast í sérsveitarmönnunum.  Annar þeirra, B, hefði þá tekið manninn og snúið hann niður og handjárnað hann.  Kvaðst ákærði hafa aðstoðað með því halda fótum hans enda hefði maðurinn spriklað með fótunum.  Hefðu þeir svo fært manninn inn í lögreglubílinn og lagt á grúfu.  Maðurinn hefði verið hinn óðasti, brotist um, öskrað og sparkað frá sér.  Kvaðst ákærði hafa haldið efri hluta búksins en C hafi haldið fótum mannsins.  Kvaðst ákærði hafa gefið fyrirmæli til bílstjórans að aka út á Granda og hugsað sér að þar yrði manninum sleppt.  Hefðu þeir reynt að róa manninn niður og að lokum tekist það.  Hefðu þeir því numið staðar úti í Örfirisey og ætlað að taka af honum járnin og opnað afturdyrnar til þess að sleppa honum.  Maðurinn hefði þá snúið sér við og virtist ákærða hann gera sig líklegan til þess að sparka í sig.  Hefði maðurinn þá verið tekinn og lagður aftur á gólfið í bílnum á sama hátt.  Þeir hefðu þá ekið áfram stuttan spöl og maðurinn þá sýnt af sér iðrunarmerki og honum þá verið sleppt og vísað til vegar í miðbæinn.  Maðurinn hefði ekki verið illa búinn miðað við veður, verið klæddur í jakka og buxur, og ekki verið ofurölvi. Hefði hann því hefði vel getað bjargað sér.  Ákærði kvaðst ekki hafa litið á þetta sem handtöku heldur það að þeir hefðu verið að fjarlægja mann af vettvangi sem var til vandræða og þeir þurft að járna hann í því skyni.  Í þessu sambandi vakti ákærði athygli á því að hann hefði ekki handjárnað manninn heldur hefði annar lögreglumaður gert það.  Hann sagði ástæðuna fyrir því að ekki var farið með manninn á lögreglustöð og þar fyrir varðstjóra hafa verið þá að það hefði tekið lengri tíma en að fara með hann og sleppa honum.  Hnífamálið hefði hins vegar verið óleyst og þeim því hefði legið á að komast aftur að „Apótekinu“.  Hann sagði að ekki hefðu aðrir lögreglubílar verið tiltækir. Undir ákærða var borið það sem segir í kæru A að hann hefði sett hnéð á háls honum. Verður upptakan ekki skilin öðru vísi en svo að ákærði kannist þar við að hafa sett hnéð á háls manninum. Sagðist hann reyndar hafa byrjað með því að reyna halda höfði hans niðri og svo hafa kropið á baki mannsins með annan fótinn á gólfinu en hinn á baki hans. Maðurinn hefði hins vegar haldið áfram að brjótast um og hann þá skorðað höfuð hans fast við gólfið svo að hann hefði ekki getað hreyft sig.  Þegar nánar var spurt út í þetta var að heyra að annað hné hans hefði þá verið á höfði mannsins en framburður hans var ekki skýr um það hvort hitt hnéð var þá á hálsinum eða á gólfinu.  Hann kvað C hafa verið fyrir aftan sig og líklega haldið fótum mannsins.  Hann kvaðst ekki hafa séð áverka á manninum þegar þeir skildu. 

Önnur skýrsla var tekin af ákærða 28. ágúst sl. við sömu aðstæður og áður er lýst.  Var hann þá spurður nánar út í tökin sem hann hafði á manninum á bílgólfinu.  Sagðist hann þá hafa sett hnéð á bakið á manninum og haldið höfði hans föstu með hinu hnénu.  Jafnframt var lesinn fyrir hann úrdráttur úr framburði hans sem reyndar getur ekki talist vera nákvæmur.  Var honum sagt að framburður hans hefði verið borinn undir Aðalstein Bernharðsson þjálfara í lögregluskólanum í lögreglutökum.  Jafnfram var honum sagt að Aðalsteinn kannaðist ekki við það að hafa kennt lögreglumönnum að setja hnéð í háls þeirra sem þyrfti að halda föstum.  Sagðist hann þá viðurkenna mistök sín að hafa gert slíkt.  Ákærði tók hins vegar fram að það sem mönnum væri kennt í þessum efnum hlyti að miðast við bestu aðstæður en í þessu tilviki hefði maðurinn ekki látið skipast við venjuleg tök.  Þá sagðist hann vilja greina ítarlegar frá tökunum sem maðurinn sætti þarna á gólfinu.  Hann kvaðst hann hafa sett hægra hnéð ofan og aftan á upphandlegg mannsins eða á herðablaðið og þar hefði meginþunginn verið á manninum.  Hinu hnénu hefði hann tyllt á háls eða höfuð mannsins.  Hefði honum verið fyllilega ljóst að háls á manni sé viðkvæmur og hann því gætt þess að láta þunga ekki hvíla á hálsi mannsins.  Þá hefði hann vitað að ekki mætti taka á hálsi manna nema í neyð.  Að því er áverkana á manninum varðaði kvað hann rétt að hafa í huga að aðrir hefðu tekið á honum en hann sjálfur frá upphafi og að maðurinn hefði brotist mjög um.  Loks tekur hann fram að hann hafi ekki getað beitt höndunum við að halda manninum enda hefði hann þurft að halda sér þegar bíllinn hreyfðist í akstrinum.       

Verður nú gerð grein fyrir því sem fram hefur komið í aðalmeðferð málsins. 

Ákærði neitar sök.  Hann segir frá aðdraganda málsins á sama hátt og áður.  Með honum í bílnum hafi verið þeir D og C svo og ungur maður í starfskynningu, E.  A hafi komið þarna út og viðhaft ókvæðisorð að tilefnislausu.  Segist ákærði hafa beðið hann um að fara og leitt framkomu mannsins hjá sér.  Hann hafi svo hvarflað frá eða verið fjarlægður.  Hann hafi svo séð annan lögreglubíl koma með sérsveitarmönnum og hafi maður þessi gengið að honum og tekið í hurðarhúna á honum eins og til að opna hann.  Lögreglumennirnir hafi þá stigið út og sagt manninum að hafa sig á brott.  Hann hafi hinsvegar ekki sinnt því heldur haldið áfram að atast í þeim.  Hafi B að lokum tekið manninn, snúið hann niður og járnað hann.  Kveðst ákærði þá hafa hlaupið til og aðstoðað hann ásamt C og kveðst hafa haldið fótum mannsins.  Þegar B sneri manninn niður hafi hann tekið um háls mannsins og efri búk að því er honum virtist.  Minnir hann að B og maðurinn hafi staðið andspænis hvor öðrum og B með einhverjum hætti snúið honum þannig að hann stóð nokkurn veginn fyrir aftan hann, greip hann svo og sneri niður.  Hann segir þetta tak, svokallaður „hálfur Nelson“ ekki vera kennt lögreglumönnum en vera talsvert mikið notað, þar sem skólatökin dugi oft ekki.  Maðurinn hafi verið borinn inn í bíl og verið lagður þar á gólfið en maðurinn hafi látið illa og barist hart um.  Hann kveðst hafa spurt B hvað ætti að gera við manninn og hann sagt að þeir skyldu fara „burt með hann“.  Hafi hann sagt D að aka bílnum, þar sem þeir C hafi átt nóg með manninn, og út á Granda og þar yrði manninum sleppt.  Hafi manninum verið haldið á gólfinu alla leiðina.  Hafi C haldið manninum í fótlás en hann sjálfur haldið efri hluta líkamans föstum.  Aftur í bílnum með þeim hafi verið E, maður sem hafi verið í starfskynningu.  Ákærði kveðst hann hafa sett hægri fótinn ofan á bak mannsins en þegar það dugði ekki til hafi hann sett hægri „hönd“ (af samhenginu má ætla að þetta sé mismæli fyrir fót) inn í vinstri handarkrika mannsins og setið þannig „í því holrými sem myndaðist við búk og hönd“, en maðurinn hafi verið járnaður á höndum.  Maðurinn hafi haldið áfram að sparka og láta illum látum og kveðst ákærði þá hafa sett vinstri sköflung ofan á höfuð mannsins þannig að vinstri vangi nam við gólfið.  Hafi hann orðið að fara svona að til þess að hafa grip fyrir hendurnar og halda jafnvægi í bílnum sem var á ferð.  Sé það ekki rétt sem fram hafi komið að hann hafi sett hnéð í háls manninum.  Ákærða er bent á að hann hafi, í skýrslum sínum í lögreglurannsókninni, sagst hafa sett fótinn á háls manninum.  Segist hann ekki hafa viðurkennt að hafa sett hnéð í háls manninum heldur hafi verið klifað á því af hálfu ákæruvaldsins.  Hann segir að þröngt sé aftur í lögreglubílnum og erfitt að athafna sig, sérstaklega þegar þar er maður að brjótast um.  Hann segir aðspurður manninn ekki hafa kvartað yfir andnauð eða því að hafa sortnað fyrir augum.  Hafi hann enda öskrað og æpt allan tímann.  Hann kveðst ekki hafa séð áverka á manninum þegar honum var sleppt.

Ákærði segir að manninum hafi verið haldið með þessum hætti alla leið út á Granda þar til hann hafði róast.  Kveðst hann hafa alla þessa leið sagt við hann að vera rólegur og hætta að streitast á móti en maðurinn ausið yfir þá skömmum.  Þegar komið var að geymunum úti í Örfirisey hafi þeir ætlað að sleppa manninum en þegar hann hafi ætlað að losa járnin af manninum hafi hann snúið sér snöggt við þegar hann var kominn hálfur út úr bílnum með fæturna í jörðina.  Kveðst ákærði þá hafa óttast að hann myndi sparka í sig og maðurinn þá settur inn aftur og haldið áfram á sama hátt.  Maðurinn hafi svo beðist afsökunar og móðurinn virst fara af honum þegar ekið hafði verið stuttan spöl.  Hafi þeir þá losað hann úr járnunum og sleppt honum á Fiskislóð, skammt frá „Krónunni“.  Kveðst ákærði hafa sagt honum í hvaða átt miðbærinn væri en veður hafi verið gott og maðurinn ekki verið illa búinn.  Ákærði segist hafa ákveðið að aka með manninn úr miðbænum til þess að hafa frið fyrir honum meðan verið væri að vinna að verkefninu á skemmtistaðnum umrædda og talið sér vera þetta heimilt vegna 15. gr. lögreglulaga og gera þetta í samræmi við fyrirmæli B lögreglumanns, sem hafi verið yfirmaður á vettvangi.  Þá sé þess að gæta að fyrir manninn hafi þetta verið betra en að vera settur í fangaklefa og svo sæta kæru.  Það hefði auk þess getað valdið þeim lögreglumönnunum mun meiri töfum frá því að sinna starfi sínu við skemmtistaðinn en þeim hafi legið á að komast þangað aftur.  Hann segir það tíðkast að taka menn sem séu til vandræða og flytja þá á brott í lögreglubíl til þess að forða vandræðum.

A hefur skýrt frá því að hann hafi verið að koma út af skemmtistaðnum og staðið í anddyrinu og talað í símann.  Kvaðst hann þá hafa séð lögreglumenn þar fyrir utan.  Hafi þeir sagt að hann skyldi koma sér á brott.  Kveðst hann hafa hreytt einhverju í þá og gengið af stað.  Þá hafi tveir lögreglumenn komið á eftir honum og hann þá sagt eitthvað ljótt við þá en verið handtekinn, handjárnaður og settur inn í bíl.  Aðspurður segir hann að ekki hafi verið tekið á hálsi honum við þetta.  Hafi hann ekki gert annað af sér nema að segja þeim að sjúga typpið það sem eftir væri.  Hann hafi verið undir áhrifum áfengis en ekki verið ofurölvi og muni hann vel atvikin.  Hafi verið ekið með hann en ekki á lögreglustöðina eins og hann hafði búist við.  Kveðst hann ekki hafa streist á móti, hvorki við handtökuna né þann tíma sem hann var í bílnum.  Hafi verið sett „kylfa milli handjárnanna“ og handleggirnir á honum spenntir upp.  Þá hafi verið sett hné í háls honum aftanverðan og á höfuðið og fundið fyrir því að þetta væri hné.  Hafi hann verið skorðaður með þessum hætti allan þann tíma sem hann var í bílnum.  Á leiðinni hafi hann sagst iðrast framkomu sinnar en þá verið sagt að það væri of seint. Hann hafi hvorki getað hreyft legg né lið inni í bílnum og ekki reynt það.  Bíllinn hafi svo numið staðar og þá hafi hann verið dreginn hálfur út úr bílnum og handjárnin losuð.  Kveðst hann þá hafa snúið sér snögglega við.  Hafi lögreglumennirnir virst túlka það sem mótspyrnu af hans hálfu og sett hann í járn aftur og inn í bílinn.  Hafi honum verið haldið á sama hátt og fyrr þar til numið var staðar aftur, sem hafi verið á Granda.  Þar hafi hann verið settur út.  Hann segist hafa verið klæddur í jakka en veður hafi verið frekar kalt.  Hann segist hafa gengið í átt að miðbænum og náð í leigubíl.  Hann segist hafa verið allur marinn eftir þetta og segist ekki lengur bera neitt traust til lögreglunnar.  Hafi hann óttast mjög um sjálfan sig meðan á ferðinni stóð, enda verið svarað þegar hann spurði, að ekki stæði til að fara með hann á lögreglustöðina. 

B lögreglumaður hefur skýrt frá því að hann hafi komið akandi að skemmtistaðnum Apótekinu í umrætt sin ásamt F, félaga sínum.  Þegar hann hafi verið að leggja bílnum hafi komið maður að þeim og á bílgluggann sem vitnið skrúfaði þá niður.  Hafi maðurinn byrjað með ýfingar og spurt hvort þeir ættu vantalað við hann og hvort þeir ætluðu að eiga við hann.  Þegar hann svo hafi ætlað að stíga út úr bílnum hafi maðurinn staðið fyrir hurðinni og kveðst hann þá hafa stjakað honum frá og í burtu til þess að geta náð tali af dyravörðunum.  Hafi maðurinn elt þá en þegar þeir höfðu ýtt honum frá hafi hann farið að bíl þeirra og reynt að komast inn í hann og hrist hann til.  Þá hafi hann farið að angra annað fólk sem þarna var hjá.  Hafi maðurinn fengið mörg tilmæli um að haga sér vel og að lokum hafi fólk þetta komið að máli við þá lögreglumennina og sagt að annað hvort tækju þeir manninn eða það myndi berja hann.  Maðurinn hafi virst vera verulega ölvaður.  Þá hafi hann látið dynja á þeim svívirðingar af kynferðislegum toga.  Kveðst hann þá hafa tekið manninn tökum, í hönd hans og öxl, að hann minnir, snúið hann niður og lagt hann á magann og sett í handjárn.  Ekki muni hann eftir því að hafa tekið um háls manninum þegar hann gerði þetta og lögreglumönnum sé ekki kennt að „fara í hálsinn“ á mönnum.  Hann tekur þó fram að í átökum við fullvaxna menn reynist lögreglutökin sem kennd séu ekki mjög áhrifarík.  Maðurinn hafi samt haldið áfram að láta svívirðingar dynja á þeim og brjótast um.  Hafi þeir ákærði og C tekið við honum og hann verið settur í bílinn.  Hafi ekki annað legið fyrir en að fjarlægja manninn svo að þeir hefðu vinnufrið og slagsmálum auk þess afstýrt.  Þurfi lögreglan að gera þetta í miðbænum um hverja helgi, að aka mönnum úr miðbænum til þess að róa þá.  Hafi yfirmenn lögreglunnar ekki gert athugasemdir við þessa framkvæmd, svo hann viti til.  Hann segir að nú sé verið að innleiða ný lögreglutök hér á landi, enda séu þau tök sem kennd eru nú í lögregluskólanum ekki fullnægjandi þegar um er að ræða fullvaxta mann sem streitist á móti.  Hafi menn því stundum þurft að viðhafa tilbrigði við þau. Sé enda slíkt heimilt í neyð en þó verði menn ætíð að gæta hófs í þessum efnum.

F lögreglumaður hefur skýrt frá því að þegar þeir B renndu að skemmtistaðnum hafi verið þar fyrir ungur maður í annarlegu ástandi sem hafi komið að bílhurðinni hjá B.  Ungi maðurinn hafi ekki látið þá í friði og verið með skæting við þá.  Hafi maðurinn virst vera fleirum til ama en þeim þarna á staðnum því að ung stúlka hafi komið og sagst myndu berja hann tækju þeir hann ekki.  Hafi B þá spurt hvort ekki væri rétt að fjarlægja manninn svo þeir hefðu vinnufrið og kveðst vitnið hafa samþykkt að það yrði gert.  Hafi maðurinn svo verið handtekinn og lagður niður og járnaður.  Hann segist ekki hafa fylgst sérstaklega með því hvernig maðurinn var tekinn og settur í bílinn.  Að því búnu hafi hann verið borinn inn í lögreglubílinn sem þarna var fyrir þegar þeir B komu á vettvang.  Hafi mennirnir á þeim bíl ætlað að koma fljótlega til baka þegar þeir væru lausir við manninn.  Reynt hafi verið að fá enn annan lögreglubíl til þess að taka manninn svo að þeir sem fyrir voru gætu verið áfram til taks en það hafi ekki tekist.  Þeir hafi svo farið með manninn en komið aftur skömmu síðar að hann minnir.  Sé sá háttur oft hafður á að menn séu fjarlægðir í járnum en svo sleppt þegar þeir hafi róast og hafi þetta gefist vel.  Hann segir þau tök sem kennd hafi verið í lögregluskólanum ekki duga í öllum tilvikum og þurfi því stundum að beita meira afli en tökin geri ráð fyrir.  Geti ýmislegt haft áhrif í þeim efnum, svo sem hversu sterkur maðurinn sé sem þurfi að yfirbuga, hversu sterkur lögreglumaðurinn sé, hversu vel þjálfaður.  Hann segir það oft koma fyrir að fjarlægja þurfi ölvaða menn í miðbænum eins og gert hafi verið í þetta sinn, þ.e. að handtaka þá og fjarlægja og loks að sleppa þeim einhvern spöl frá.  Einnig séu menn færðir á lögreglustöðina til skráningar þar og fyrir varðstjóra.  Lögreglumenn álíti slíkt hins vegar vera meira íþyngjandi fyrir viðkomandi en að sleppa honum áður en til þess komi.  Leggi handteknir menn oft að lögreglumönnum að þeim verði sleppt við slíka meðferð og skráningu.

E var með ákærða, C og D, lögreglumönnum, í starfskynningu í umrætt sinn.  Hann segir að maður hafi verið að koma út af skemmtistaðnum, talandi í farsíma.  Hafi hann virst vera æstur og uppsigað dyraverðina og lögreglumennina og ýtt við einum þeirra og auk þess verið með skæting.  Hafi maðurinn, sem var klæddur í gallabuxur og jakka, verið beðinn um að fara og það ítrekað nokkrum sinnum.  Þarna hafi svo komið annar lögreglubíll með tveimur lögreglumönnum.  Hafi þessi maður farið að þeim bíl og tekið í hurðarhúnana og ekki látið segjast og verið með svívirðingar, þótt hann væri enn beðinn um að fara á brott að viðlagðri handtöku.  Að endingu hafi maðurinn verið handtekinn og settur í járn og svo inn í bílinn.  Ekki hafi hann séð hvaða tökum maðurinn var beittur við handtökuna og beri hann auk þess ekki sérstakt skynbragð á slíkt.  Hafi verið ekið af stað með manninn sem hafi verið mjög æstur og sparkað frá sér og reynt að sparka í þá þrjá sem voru afturí með honum.  Hafi lögreglumennirnir ekki haft önnur úrræði en að halda manninum niðri.  Hafi annar þeirra haldið fótum mannsins, sem legið hafi á grúfu, en hinn haldið efri búk hans og öxlum niðri.  Kveðst hann hafa setið fyrir aftan lögreglumennina í bílnum og þannig séð á bak þeirra þar sem þeir krupu hjá manninum.  Hafi hann ekki séð vel hvernig tökum manninum var haldið í og ekki séð hvort hné var sett í háls manninum.  Eftir að hafa ekið nokkurn spöl, þegar maðurinn virtist hafa róast hafi verið numið staðar til þess að sleppa honum.  Hafi hann þá farið að sparka út í loftið og hann þá settur aftur inn í bílinn.  Eftir einhvern frekari akstur hafi maðurinn róast og sagt sjá eftir því hvernig hann hefði komið fram.  Hafi hann þá verið leystur úr járnunum og settur úr bílnum á Granda eða Fiskislóð.  Hann kveður lögreglumennina hafa haft á orði að þeir færu aftur að skemmtistaðnum eftir þetta.           

D lögreglumaður hefur skýrt frá því að hann hafi hitt kærandann fyrir utan skemmtistaðinn umrædda.  Hafi maðurinn verið að koma út af staðnum og farið að ýfast við ákærða.  Hafi manninum verið stjakað frá en í þann mund hafi sérsveitarmenn komið aðvífandi í bíl.  Maðurinn hafi gengið að bílnum og farið að eiga við hann.  Kveðst hann svo hafa séð útundan sér að maðurinn var handtekinn, settur í götuna og járnaður.  Hann hafi svo verið settur í lögreglubílinn og hafi þeir átt fullt í fangi með manninn sem hafi barist um.  Hafi maðurinn verið lagður á grúfu en hann verið með svívirðingar í garð þeirra lögreglumannanna.  D segist hafa ekið bílnum og ekki séð hvernig tökum manninum var haldið í en ákærði hafi haldið honum ofanverðum en C haldið fótum hans þegar hann tók við bíllyklunum og lokaði afturhurðinni.  Hann kveðst hafa spurt ákærða hvort ætti að aka á lögreglustöðina en hann sagt að það ætti ekki að gera, enda væri hnífamálið á Apótekinu enn óleyst.  Var ekið út á Granda með manninn og honum sleppt þar hjá Krónunni þegar hann hafði róast.  Hann segir það tíðkast hjá lögreglu að mönnum sé ekið úr miðbæjarþvögunni til þess að losna við þá og kveðst gera fastlega ráð fyrir því að þetta sé á vitorði yfirmanna lögreglunnar.  Hann segir þá hafa haldið að Apótekinu eftir að búið var að sleppa manninum.   Hann segir að nú sé verið að taka upp ný lögreglutök sem séu mun áhrifaríkari en þau sem nú séu kennd í lögregluskólanum.  Núverandi tök séu ófullnægjandi þegar miklum mótþróa sé að mæta.

C lögreglumaður hefur komið fyrir dóm og skýrt frá því að þegar þeir komu að skemmtistaðnum hafi þeir rekist á mann þar sem hafi hrópað að þeim illyrðum og verið ógnandi í framkomu.  Virtist hann vera í annarlegu ástandi.  Hafi þeir beðið manninn um að fara á brott en hann ekki sinnt því.  Hafi hann einnig gert sig líklegan að opna bíl sérsveitarmannanna sem komið höfðu á vettvang.  Hafi þeim þá verið nóg boðið og maðurinn hafi verið handtekinn.  Hafi hann verið settur í götuna, handjárnaður og settur inn í lögreglubílinn og hafi hann sýnt mikinn mótþróa.  Kveðst hann hafa hjálpað við að koma honum þar inn.  Hafi manninum verið haldið þar niðri en maðurinn barist um og verið með illyrði.  Kveðst hann hafa haldið fótum mannsins en ákærði haldið efri hluta líkamans með því að setja sköflunginn eða hnéð á bak hans og höfuð.  Ekki muni hann nákvæmlega eftir þessum tökum ákærða en hann muni þó að ekkert óeðlilegt hafi verið við þess tök og ákærði hafi ekki verið að „pína manninn“ eða neitt slíkt.  Hafi verið ákveðið að aka manninum úr miðbænum og sleppa honum þegar hann hefði róast.  Hafi hann átt þátt í því að gera slíkt áður og séu vandræðamenn fluttir hingað og þangað og sleppt í hæfilegri fjarlægð frá miðbænum um hverja helgi að hann heldur.  Hljóti öllum yfirmönnum að vera kunnugt um þessa venju og engar athugasemdir hafi verið gerðar við hana.  Eftir að hafa ekið um stund hafi átt að sleppa manninum en þegar til átti að taka og hann virst hafa róast, hafi hann reynt að sparka frá sér aftur og þá verið hætt við að sleppa honum.  Hafi verið ekið aðeins lengra og maðurinn róast og beðist afsökunar.  Þá hafi honum verið sleppt.  Hann segir að nú sé verið að innleiða ný lögreglutök.   

Aðalsteinn Bernharðsson lögreglufulltrúi og yfirþjálfari við lögregluskólann hefur komið fyrir dóm.  Hann segir að þau tök sem kennd hafi verið í lögregluskólanum séu í sjálfu sér áfram í gildi þótt nú hafi verið ákveðið að kenna mönnum fleiri tök.  Hann segir að þótt kennd séu tiltekin tök geti komið upp þær aðstæður að þær útheimti önnur tök en þau sem kennd séu.   Fram kemur hjá honum að kennt sé í lögregluskólanum að menn eigi að reyna að „fara ekki í háls á fólki“, hvort sem sé með höndum eða fótum.  Þar á móti sé kennt að menn eigi að setja fót í öxl eða á herðablað til þess að halda manni niðri.  Vitað sé þó að í miklum átökum geti hné farið að hálsi eða í háls.  Þá sé kennt að erfiðum mönnum megi halda með því að halda höfði manna niðri með hendinni meðfram til þess að hindra það að þeir slái höfðinu við og skaði sig.  Aðspurður segir Aðalsteinn að kennt sé að við erfiðar aðstæður, svo sem í þrengslum í lögreglubíl og þegar baldinn maður eigi í hlut, sé það kennt að aðstæður skipti tvímælalaust máli um þau tök sem beita eigi.  Þá bendir hann á að lítið þurfi að bera út af til þess að hné renni af öxl eða herðablaði á háls manns.  Aðspurður segir hann einnig að þegar bíllinn sé á hreyfingu og lögreglumaðurinn þurfi að halda sér með höndunum geti svo farið að neyðarástand skapist sem bregðast þurfi við og menn þurfi þá að meta hvernig það skuli gera.  Loks staðfestir hann það sem fram er komið hjá öðrum lögreglumönnum að nú sé verið að taka upp kennslu í nýjum lögreglutökum sem séu við bót við það kerfi sem kennt hafi verið til þessa.  Sé verið að æfa lögreglumenn sem eigi að vera þjálfarar annarra lögreglumanna.  Hafi ákærði verið einn þeirra sem valinn hafi verið til þessa. 

Jón H. H. Sen læknir hefur komið fyrir dóm og staðfest vottorð sitt.  Hann segir um marblettina aftan á hálsi A að þeir geti samsvarað því að maður hafi sett hné sitt á háls honum.  Þetta séu yfirborðsáverkar og geti ekki talist hættulegir.  Hefðu áverkar af þessu tagi verið framan á hálsi eða hliðlægt á hálsi væru þeir hættulegri, einkum framanvert á hálsinum vegna öndunarvegarins.  Almennt talað megi segja að það sé hættulegt að setja hné á hálsinn aftanverðan enda sé ekki auðvelt að stýra svo miklu afli og áverkarnir beri það með sér að þrýst hafi verið mjög fast aftan á hálsinn.          

Niðurstaða

A.

Ákærði er í fyrsta lagi saksóttur fyrir það að hafa orðið offari í lögreglustarfa sínum og ekki gætt lögmætra aðferða þegar hann fyrirskipaði öðrum lögreglumanni að aka með A, sem handtekinn hafði verið, út á Granda og skilja hann þar eftir.  Ekki er í ákærunni vísað til ákvæða í lögreglulögum eða öðrum reglum sem þetta er talið brjóta í bága við.  Í meðferð málsins fyrir dómi hefur hins vegar komið fram að málatilbúnaður ákæruvaldsins er byggður á því að þar sem maðurinn hafði verið handtekinn hefði borið, vegna 1. mgr. 16. gr. lögreglulaga, að færa hann á lögreglustöð eða annan stað þar sem lögregla hefur aðstöðu, en ekki að aka með hann á annan stað og sleppa honum þar.  Ekki virðist hins vegar byggt á því að velferð mannsins hafi verið stefnt í hættu með því að hann var „skilinn eftir“ á þessum tiltekna stað, þótt ákæruvaldið hafi lagt fram óstaðfestar upplýsingar um veður og götuuppdrátt. 

Í 15. gr. lögreglulaga nr. 90,1996 er að finna heimildir lögreglu til aðgerða í þágu almannafriðar, allsherjarreglu o.fl.  Er lögreglunni heimilt samkvæmt 1. mgr. að hafa afskipti af borgurunum til að halda uppi almannafriði og allsherjarreglu eða koma í veg fyrir yfirvofandi röskun og til þess að gæta öryggis einstaklinga eða almennings eða til að afstýra afbrotum eða stöðva þau.  Í 2. mgr. segir ennfremur að í því skyni megi lögregla m.a. taka í sínar hendur umferðarstjórn, banna dvöl á ákveðnum svæðum, svo sem með því að girða af eða hindra umferð um þau, taka í sínar vörslur hættulega muni, vísa á brott eða fjarlægja fólk, fyrirskipa stöðvun eða breytingu á aðgerðum eða starfsemi, fara inn á svæði í einkaeign og fyrirskipa brottflutning fólks af þeim.  Í athugasemdum við þessa grein í lagafrumvarpinu segir svo:  Greinin er nýmæli. Þar er mælt fyrir um rétt lögreglu til þess að hafa afskipti af borgurunum við nánar tilgreindar aðstæður og með hvaða hætti. Tilgangur ákvæðisins er að treysta lagalegan grundvöll þessa réttar lögreglu. Hliðstætt ákvæði er ekki að finna í gildandi lögreglulögum. Talið hefur verið að heimildir lögreglu í þeim tilfellum sem getið er í greininni rúmist innan þess sem kallað hefur verið allsherjarumboð (á dönsku generalfuldmagt) lögreglu. Með því er átt við þá óskráðu reglu að lögreglan hafi almenna venjumyndaða heimild innan vissra marka til að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til þess að halda uppi lögum og reglu í landinu. Það er mat nefndarinnar sem samið hefur þetta frumvarp að rétt sé að lögfesta þessar heimildir lögreglu. Byggist sú afstaða á svonefndri lögmætisreglu (á dönsku legalitetsprincip), þ.e. þeirri reglu að hið opinbera, lögreglan sem aðrir, þurfi að hafa heimild í lögum til afskipta af borgurunum gegn vilja þeirra.

Lagagreinin er þannig upp byggð að í 1. mgr. eru tilgreindar aðstæður sem taldar eru réttlæta afskipti lögreglu af þegnunum. Í 2. mgr. eru síðan taldar upp aðgerðir sem lögreglu er heimilt að grípa til við þessar aðstæður. Sú upptalning er ekki tæmandi. Allar þær aðstæður og heimildir, sem nefndar eru í 1. og 2. mgr., hafa fram til þessa verið taldar rúmast innan allsherjarumboðsins. Í reynd er því lagt til að núverandi framkvæmd verði lögfest. Hér er því hvorki ætlunin að þrengja né rýmka þetta umboð lögreglu heldur miðar ákvæðið fyrst og fremst að því að tiltaka aðstæður og aðgerðir sem eru algengastar og taka þar með af allan vafa um lögmæti afskipta lögreglu.

Það er ljóst að erfitt er að setja sundurliðaðar og nákvæmar reglur sem kveða á um öll tilvik sem lögreglan kann að standa andspænis og þær aðgerðir sem hún kann að þurfa að grípa til. Þess vegna er 2. mgr. orðuð á almennan hátt þannig að litið verði á hana sem leiðbeinandi um hin ýmsu úrræði sem lögreglan getur gripið til en ekki sem tæmandi talningu á þeim.“

Fyrir liggur í málinu að lögreglumennirnir sem kallaðir voru að skemmtistaðnum Apótekinu í það sinn sem um ræðir voru þar í brýnum erindum, eins og fram er komið.  Vitnin í málinu bera það einum rómi að A hafi þvælst ölóður fyrir lögreglumönnunum þar fyrir utan og hindrað störf þeirra.  Fram er komið í málinu að um helgar þurfi lögreglan oft að neyta þess úrræðis að flytja vandræðamenn úr miðbænum í Reykjavík og sleppa þeim á öðrum stað eftir stuttan akstur til þess að afstýra frekari vandræðum.  Hlýtur það óhjákvæmilega að hafa það í för með sér að viðkomandi er sviptur frelsi sínu um stund, m.ö.o. handtekinn, sbr. orðalagið „fjarlægja fólk“ í 2. mgr. 15. gr. lögreglulaga.  Dómurinn álítur slíkar aðgerðir rúmast innan þeirra heimilda sem lögregla hefur samkvæmt 1. og 2. mgr. 15. gr. lögreglulaga.  Verður 1. mgr. 16. gr. sömu laga heldur ekki skilin svo að hún takmarki þessar heimildir lögreglunnar, enda eru lögreglu í því lagaákvæði beinlínis veittar ríkari heimildir en felast í 15. gr. laganna og með þeim skilyrðum sem tiltekin eru í stafliðum a-e.  Orðin „færa á lögreglustöð eða annan stað“ í 1. mgr. 15. gr. verður þannig að skilja í samhengi við þennan tilgang 1. mgr. 16. gr., enda hlýtur að leiða af honum að manni skuli haldið föngnum um einhverja hríð.

Samkvæmt því sem hér er rakið ber að sýkna ákærða af því sakaratriði að hann hafi orðið offari í lögreglustarfa sínum og ekki gætt lögmætra aðferða þegar hann fyrirskipaði að ekið skyldi með A, sem handtekinn hafði verið, út á Granda og skildi manninn þar eftir.

B.

Ákærði er í öðru lagi saksóttur fyrir líkamsárás og að hafa orðið offari í lögreglustarfa sínum og ekki gætt lögmætrar aðferðar þegar hann þrýsti hné sínu á háls A þar sem hann lá handjárnaður á gólfi lögreglubílsins svo að hann fékk marbletti af því aftan á hálsinn. 

Á hljóðupptöku sem gerð var af því þegar ákærði gaf fyrri skýrsluna í lögreglurannsókninni má heyra að hann kannaðist við að hafa sett hné ofan á hálsinn á A þar sem hann lá á grúfu á gólfinu aftur í lögreglubílnum.  Í upptöku af síðari skýrslunni heyrist hann segja að hann hafi tyllt hnénu á höfuð eða háls manninum.  Fyrir dómi hefur hann hins vegar neitað því að hafa gert þetta.  A hefur borið það að hann hafi fundið fyrir því að ákærði setti hnéð á hálsinn og vottorð og vætti Jóns H. H. Sen læknis styður þann framburð eindregið.  Þá er ekkert komið fram í málinu sem bendir til þess að marblettirnir aftan á hálsinum séu til komnir af öðru.  Er því sannað að ákærði hafi sett hnéð ofan á háls manninum, þar sem hann lá á grúfu á bílgólfinu, svo að hann marðist undan því.  Fram er komið hjá ákærða og einnig vitnunum C og E að A hafi brotist um og sparkað frá sér í ökuferðinni og telst þetta einnig vera sannað í málinu.  Þá hefur ákærði sagt að hann hafi þurft að halda sér með höndunum vegna hreyfingar bílsins og því þurft að nota fæturna til þess að halda manninum föstum.  Dóminum þykir þessi viðbára ákærða vera sennileg og verður byggt á henni í málinu.  Loks kemur fram í skýrslum manna í málinu að þröngt er aftur í lögreglubílnum og erfitt að athafna sig þar.  Enda þótt ekki séu myndir eða mælingar í málinu sem styðja þetta þykir mega byggja á skýrslunum að þessu leyti og slá því föstu að þannig hafi háttað til í lögreglubílnum margnefnda. 

Að sögn læknisins, Jóns H. H. Sen, voru marblettirnir aftan á hálsi mannsins yfirborðsáverkar og því ekki hættulegir, þótt þeir hafi borið með sér að þrýst hafi verið mjög fast aftan á hálsinn.  Áverkar af þessu tagi framan á hálsi hefðu hins vegar verið hættulegri vegna öndunarvegarins.  Annars segir hann það almennt hættulegt að setja hné á háls á manni, enda sé ekki auðvelt að stýra svo miklu afli.  Ákæruvaldið hefur lagt fram í málinu kennsluhefti sem notað er í lögregluskóla ríkisins og þar sem sýnd eru og skýrð brögð og tök lögreglu í átökum við menn.  Er að skilja að ákæruvaldið telji að þar séu sýnd þau tök og brögð ein sem lögreglumönnum sé heimilt að beita í átökum og því hafi ákærði með því að setja hné aftan á háls A farið út fyrir það sem heimilt sé í því efni.  Kennari lögregluskólans í lögreglutökum, Aðalsteinn Bernharðsson, hefur greint frá því að mönnum sé þar kennt að reyna að forðast það „að fara í hálsinn“ á mönnum.  Þó er á honum að skilja að aðstæður og atvik geti verið með þeim hætti að menn kunni að þurfa að beita öðrum brögðum en þeim sem kennd sú og að við aðstæður eins og í lögreglubílnum geti svo farið að hné lögreglumanns renni af baki og herðablaði yfir á háls manni. 

Dómurinn getur ekki fallist á það sjónarmið ákæruvaldsins að lögreglumönnum sé óheimilt að beita öðrum brögðum eða tökum en þeim sem sýnd eru í umræddu kennsluhefti.  Yrðu lögreglunni með því settar óviðunandi skorður og auk þess er það í mótsögn við það sem segir í sjálfum inngangi heftisins.  Þá verður heldur ekki litið svo á að fortakslaust óheimilt sé að beina afli að hálsi manna, enda myndi það tálma lögreglunni óhæfilega í erfiðum aðstæðum.  Í þessu sambandi er á það að líta að í kennsluheftinu margnefnda er það beinlínis sýnt hvernig afli er beint að framanverðum hálsi manns, og það þótt ekki sé um neyðarástand að ræða.     

Þegar það haft er í huga að í þrengslunum í lögreglubílnum átti ákærði fullt í fangi með það að hemja óðan mann, sem braust um og sparkaði frá sér, svo og það að hann þurfti jafnframt sjálfur að halda sér vegna ferðarinnar á bílnum, ennfremur það að þetta tak ákærða hafði ekki í för með sér hættulegan áverka og loks það að ekki verður útilokað að maðurinn hafi að einhverju leyti valdið áverkanum sjálfur með umbrotum sínum, telst það vera ósannað að ákærði hafi beitt hnénu af svo miklu afli að hann teljist, við þessar kringumstæður, ekki hafa gætt lögmætrar aðferðar við það að halda manninum.  Ber því að sýkna hann af þessu ákæruatriði.

Bótakröfu A er vísað frá dómi.

Ákæran í máli þessu er ekki eins glögg og æskilegt hefði verið, en sókn og vörn hefur þó ekki orðið áfátt í því.  Ákærði var ákærður fyrir brot í opinberu starfi, sem hann gegnir enn, og þótti því rétt að fjalla um efni málsins án frekari tafar sem hlotist hefði af því að ákærunni hefði verið vísað frá dómi. 

Sakarkostnaður

Dæma ber að málsvarnarlaun verjanda ákærða, Herdísar Hallmarsdóttur hrl., 450.000 krónur og þóknun til réttargæslumanns bótakrefjanda, Þóru Bjargar Jónsdóttur hdl., 150.000 krónur, hvort tveggja að meðtöldum virðisaukaskatti, skuli greiðast úr ríkissjóði.

Ekki er kunnugt um annan kostnað af máli þessu.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Garðar Helgi Magnússon, er sýkn af ákæru í máli þessu.

Málsvarnarlaun verjanda ákærða, Herdísar Hallmarsdóttur hrl., 450.000 krónur og þóknun til réttargæslumanns bótakrefjanda, Þóru Bjargar Jónsdóttur hdl., 150.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.