Print

Mál nr. 117/2006

Lykilorð
  • Riftun
  • Vinnusamningur

Fimmtudaginn 5

 

Fimmtudaginn 5. október 2006.

Nr. 117/2006.

Jón Örn Pálsson

(Jónas Haraldsson hrl.)

gegn

Þorbirni Fiskanesi hf.

(Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.)

 

Vinnusamningur. Riftun.

Ekki var talið að Þ hefði farið  út fyrir stjórnunarheimildir sínar gagnvart J, sem starfsmanni, þegar honum voru kynntar fyrirhugaðar breytingar á starfsumhverfi og starfsskyldum hans. Taldist J því ekki hafa mátt að líta á þetta sem fyrirvaralausa riftun starfssamnings og var kröfu hans um bætur hafnað. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. febrúar 2006. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.528.422 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 14. október 2004 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og atvikum máls þessa er háttað verður ekki fallist á það með áfrýjanda að þær fyrirhuguðu breytingar á starfsumhverfi og starfsskyldum, sem honum voru kynntar, geti talist svo verulegar að með þeim hafi stefndi farið út fyrir stjórnunarheimildir sínar. Með þessari athugasemd, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Jón Örn Pálsson, greiði stefnda, Þorbirni Fiskanesi hf., 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 2. desember 2005.

             Mál þetta, sem dómtekið var 4. f.m., er höfðað 7. febrúar 2005 af Jóni Erni Pálssyni, Hamrabyggð 20 í Hafnarfirði, á hendur Þorbirni Fiskanesi hf., Hafnargötu 12 í Grindavík.

             Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 1.528.422 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og af 308.051 krónu frá 14. október 2004 til 21. s.m., en af 407.602 krónum frá þeim degi til 28. s.m., en af 507.153 krónum frá þeim degi til 4. nóvember sama árs, en af 606.704 krónum frá þeim degi til 11. s.m., en af 706.255 krónum frá þeim degi til 18. s.m., en af 805.806 krónum frá þeim degi til 25. s.m., en af 905.357 krónum frá þeim degi til 2. desember sama árs, en af 1.035.741 krónu frá þeim degi til 9. s.m., en af 1.135.292 krónum frá þeim degi til 16. s.m., en af 1.234.843 krónum frá þeim degi til 23. s.m., en af 1.334.394 krónum frá þeim degi til 30. s.m., en af 1.433.945 krónum frá þeim degi til 6. janúar 2005, en af 1.411.888 krónum frá þeim degi til 13. s.m., en af 1.511.439 krónum frá þeim degi til 20. s.m., en af 1.610.990 krónum frá þeim degi til 27. s.m., en af 1.710.541 krónu frá þeim degi til 3. febrúar sama árs, en af 1.528.422 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Að auki er krafist málskostnaðar.

             Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.

I.

Helstu málsatvik eru þau að stefnandi, sem er vélvirki að mennt, hóf störf á vélaverkstæði Fiskaness hf. í Grindavík á árinu 1997. Ekki var gerður við hann skriflegur ráðningarsamningur. Þann 1. júlí 2000 sameinuðust Fiskanes hf., Þorbjörn hf. í Grindavík og Valdimar hf. í Vogum í stefnda. Varð stefnandi starfsmaður hins sameinaða félags. Eftir sameininguna starfaði stefnandi áfram á sínum fyrri vinnustað, en stefndi rak upp frá því tvö vélaverkstæði í Grindavík. Þann 1. ágúst 2004 slasaðist stefnandi á fæti og var frá vinnu í rúma tvo mánuði. Að sögn stefnanda var honum tjáð þá er hann mætti að nýju til vinnu 4. október 2004 að ákveðið hefði verið að hann ætti framvegis að vinna á því vélaverkstæði stefnda sem áður var í eigu Þorbjarnar hf. Stefnandi heldur því fram að með þessu hafi átt að gera honum að vinna að verkum sem ekki geti talist sambærileg þeim sem hann hafði fram að því sinnt. Þá hafi honum jafnframt verið tjáð að taka ætti af honum bifreið sem hann hafði haft til umráða hjá stefnda, svo og farsíma. Í áformuðum breytingum fólst einnig að mati stefnanda talsverð kjaraskerðing því staðið hafi til að fella niður greiðslu til hans fyrir fasta yfirvinnu. Að sögn stefnanda mótmælti hann framangreindri ákvörðun stefnda. Þegar ljóst hafi orðið að henni yrði ekki breytt hafi hann tekið þá ákvörðun þennan sama dag að yfirgefa vinnustað sinn, enda hafi honum verið algerlega óskylt að sætta sig við ákvörðun stefnda um breytt starfssvið og ráðningarkjör hans. Hefur stefnandi ekki mætt til vinnu hjá stefnda eftir það. Lítur hann svo á að stefndi hafi með fyrirvaralausum aðgerðum sínum 4. október 2004 slitið ráðningu hans með ólögmætum hætti. Í málinu krefur hann stefnda um laun í uppsagnarfresti 4. október 2004 til 1. febrúar 2005 ásamt orlofi, orlofsuppbót, desemberuppbót og tapaðar lífeyrisgreiðslur, samtals að fjárhæð 1.755.390 krónur. Þá telur stefnandi sig eiga rétt til miskabóta úr hendi stefnda með vísan til þess hvernig staðið hafi verið starfslokum hans hjá félaginu. Nemur sú krafa hans 200.000 krónum. Til frádráttar framangreindum kröfum stefnanda koma tekjur að fjárhæð 426.968 krónur sem hann aflað sér frá 20. desember 2004 til 1. febrúar 2005. Stefndi hefur alfarið hafnað kröfum stefnanda. Er á því byggt af hans hálfu að með því að yfirgefa vinnustað sinn 4. október 2004 og mæta ekki til vinnu eftir það hafi stefnandi rift ráðningu sinni og þar með fyrirgert rétti til launa í uppsagnarfresti. 

II.

Að sögn stefnanda var hann ráðinn til Fiskaness hf. til að hafa yfirumsjón með fiskivélum fyrirtækisins, það er frystivélum, flökunarvélum og baadervélum. Svo sem fram er komið var ekki gerður við hann skriflegur ráðningarsamningur. Á vélaverkstæði félagsins starfaði auk stefnanda Jórmundur Kristinsson. Kveðst stefnandi hafa haft yfirumsjón með störfum Jórmundar á verkstæðinu. Jórmundur lét af störfum á árinu 2002 sökum aldurs. Eftir það starfaði stefnandi einn á Fiskanesverkstæðinu allt þar til hann lét af störfum hjá stefnda í október 2004. Eftir að framangreind sameining átti sér stað kveðst stefnandi hafa sinnt sömu störfum og hann hafði áður með höndum. Á Þorbjarnarverkstæðinu hafi öðrum sérhæfðum verkum verið sinnt, aðallega járnavinnu og umsjón og viðhaldi á skipakosti stefnda, bifreiðum, lyfturum og fleiru. Þar hefðu 6-7 starfsmenn starfað að jafnaði frá sameiningunni 1. júlí 2000.

Málsatvikum hinn 4. október 2004 lýsir stefnandi svo í stefnu að þegar hann kom til vinnu þann dag hafi honum verið tjáð af Jóni Gíslasyni, starfsmanni stefnda, að Magnús Óskar Ólafsson hefði tekið við stöðu hans á Fiskanesverkstæðinu og að stefnandi ætti framvegis að starfa á Þorbjarnarverkstæðinu við þau störf sem þar eru unnin, þar á meðal við almenna járnavinnu og viðgerðir á bifreiðum og lyfturum fyrirtækisins. Þá hafi stefnanda jafnframt verið tjáð að samhliða breyttu starfssviði og flutningi hans á nýja starfsstöð ætti að taka af honum bifreið og farsíma sem hann hafði haft til afnota hjá fyrirtækinu. Hafi afnotamissir bifreiðarinnar komið stefnanda sérstaklega illa þar sem hann er búsettur í Hafnarfirði. Samhliða framanröktum breytingum hafi átt að skerða launakjör stefnanda verulega með því að fella niður til hans greiðslu fyrir fasta yfirvinnu sem innt hafi verið af hendi til hans fyrir eftirlit með frystivélum um helgar. Um hafi verið að ræða 24-30 yfirvinnutíma á mánuði. Hafi stefnanda verið tjáð að nýr starfsmaður myndi framvegis sinna þessu eftirliti. Stefnandi hafi harðlega mótmælt þessari ákvörðun stefnda. Þau mótmæli hans hafi hins vegar ekki borið árangur. Þegar honum hafi verið orðið það fullljóst að hann myndi ekki hverfa til fyrri starfa hjá stefnda hafi hann tekið þá ákvörðun að yfirgefa vinnustað sinn, enda líti hann svo á að honum sé algjörlega óskylt að sætta sig við ákvörðun stefnda um breytt starfssvið og ráðningarkjör.

Með bréfi lögmanns stefnanda 3. nóvember 2004 var stefndi krafinn um greiðslu launa í þriggja mánaða uppsagnarfresti auk annarra greiðslna og með vísan til þess að stefndi hafi með fyrirvaralausum aðgerðum sínum gagnvart stefnanda þann 4. október 2004 slitið ráðningu stefnanda með ólögmætum hætti. Með svarbréfi stefnda 23. nóvember 2004 hafi kröfum stefnanda verið hafnað. Því sé nauðsynlegt að höfða mál þetta.

Stefnandi byggir á því í máli þessu að líta verði á einhliða og stórfelldar breytingar stefnda á starfssviði hans, starfsstöð og ráðningarkjörum sem fyrirvaralausa brottvikningu úr starfi. Hafi þessar breytingar stefnda, einkum í ljósi menntunar stefnanda og starfsreynslu hans, ekki verið honum samboðnar. Hafi stefndi með framanröktum breytingum raskað svo mjög stöðu hans hjá fyrirtækinu að stefnanda hafi verið heimilt að líta á breytingarnar sem fyrirvaralausa riftun á ráðningarsamningi aðila.

Stefnandi hafi verið ráðinn til starfa á vélaverkstæði Fiskaness hf. á árinu 1997 og sinnt þar sömu störfum á sjö ára starfstíma hans, fyrst hjá Fiskanesi hf. og síðar hjá stefnda. Um hafi verið að ræða fastmótuð og sérhæfð verkefni. Við umrædda sameiningu 1. júlí 2000 hafi hvorki verið gerður nýr ráðningarsamningur við stefnanda né nokkrar breytingar á störfum hans. Upphaflegur ráðningarsamningur hafi því gilt áfram og nú í lögskiptum stefnanda og stefnda. Hafi stefnda verið óheimilt að breyta ákvæðum samningsins um starfssvið, starfsstöð og ráðningarkjör stefnanda, nema að undangenginni uppsögn samningsins. Ofangreindu til stuðnings vísar stefnandi einnig til 2. gr. laga nr. 77/1993 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, sbr. sambærileg ákvæði í 1. og 2. mgr. 3. gr. núgildandi laga um sama efni. Í 2. gr. laga nr. 77/1993, sem verið hafi í gildi við sameininguna, hafi verið mælt fyrir um það að nýr eigandi takist á hendur réttindi og skyldur fyrri eiganda samkvæmt ráðningarsamningi og skuli virða þau launakjör og starfsskilyrði sem samþykkt hafa verið í almennum kjarasamningi með sömu skilmálum og giltu fyrir fyrri eiganda þar til samningi verður sagt upp eða hann rennur út eða þar til annar kjarasamningur öðlast gildi eða kemur til framkvæmda.

Í bréfi stefnda 23. nóvember 2004 sé viðurkennt að til hafi staðið að „leggja fyrir stefnanda ný verkefni“ eins og það er orðað, en þá hafi legið fyrir að annar aðili væri tekinn við störfum stefnanda. Þetta sé þó ekki útlistað frekar í bréfinu. Mótmælir stefnandi því sérstaklega sem röngu að hann hafi verið „almennur starfsmaður á vélaverkstæði“, en þessu haldi stefndi fram í bréfinu. Horfa verði til þess að stefnandi er sérfræðimenntaður og hafi gegnt fastmótuðum og sérhæfðum störfum hjá stefnda í á áttunda ár þegar stefndi hafi upp á sitt eindæmi ákveðið að færa hann til í starfi og breyta ráðningarkjörum hans. Verði að horfa til þessa við mat á því hvort stefnanda hafi verið skylt að hverfa til almennra starfa á nýrri starfsstöð, Þorbjarnarverkstæðinu. Hugsanlega hefði verið heimilt að gera óbreyttum, ómenntuðum og almennum starfsmanni á verkstæði að hverfa til hvaða starfa sem er á nýrri starfsstöð innan sama fyrirtækis. Sömu sjónarmið geti hins vegar ekki gilt um stefnanda, sérfróðan og sérmenntaðan starfsmann, sem ráðinn hafi verið til fastmótaðra og sérfræðilegra starfa hjá stefnda.

Verði talið að vafa sé bundið til hvaða starfa stefnandi var ráðinn á sínum tíma byggir stefnandi á því að stefndi verði að bera allan halla af því. Sé það í samræmi við almennar skýringarreglur í samninga- og vinnurétti að láta vinnuveitanda bera halla af því að hafa ekki gengið frá skriflegum ráðningarsamningi og/eða starfslýsingu við starfsmann. Hafi það staðið stefnda nær, einkum í ljósi stöðu aðila við samningsgerðina, að ganga frá slíkum samningi. Ótækt sé að láta stefnanda bera halla af slíkri vanrækslu. Er í þessu sambandi vísað til kjarasamningsbundinnar skyldu stefnda til að gera skriflegan ráðningarsamning við stefnanda og þess hversu fráleitt það sé ef stefndi gæti nýtt sér þessa vanrækslu sína til þess að losna undan því að virða ráðningarkjör stefnanda. Einnig er vísað til tilskipunar ráðsins (EBE) nr. 91/533/EBE um skyldu vinnuveitanda til að skýra launþegum frá samningsskilmálum eða ráðningarfyrirkomulagi, sbr. einnig samkomulag VSÍ/VMS og ASÍ frá 10. apríl 1996 um skyldu vinnuveitanda til að ganga frá skriflegum ráðningarsamningum eða skriflegri staðfestingu ráðningar við starfsmenn, einkum 1. mgr. 1. gr. og 2. og 3. tl. 1. mgr. 2. gr. samkomulagsins.

Stefnandi telur, í ljósi þess sem hér hefur verið rakið, að jafna verði stórfelldum breytingum á starfssviði, starfsstöð og ráðningarkjörum stefnanda til fyrirvaralausrar brottvikningar úr starfi sem stefnanda beri bætur fyrir úr hendi stefnda, enda sé ekki heimilt að ráðast í breytingar af þessu tagi án samþykkis launþega nema til komi undanfarandi uppsögn. Krafist er meðallauna í uppsagnarfresti tímabilið 4. október 2004 til 1. febrúar 2005, enda miðist uppsagnarfrestur stefnandi við mánaðamótin október-nóvember 2004. Við útreikning meðallauna hafi verið tekið mið af meðaltalsmánaðarlaunum stefnanda hjá stefnda tímabilið september 2003 til júlí 2004, alls 308 dagar, en þau hafi samtals numið 3.719.025 krónum, eða kr. 12.075 krónum á dag. Laun á uppsagnarfresti nemi því 1.449.000 krónum (12.075 x 120). Þá er krafist orlofs (11.11%) að fjárhæð 160.984 krónur, hlutdeildar í orlofs- og desemberuppbót á uppsagnarfresti, samtals að fjárhæð 19.133 krónur, ógreiddrar en gjaldfallinnar orlofs- og desemberuppbótar, samtals að fjárhæð 39.333 krónur, og greiðslu vegna tapaðra lífeyrisgreiðslna (6%) að fjárhæð 86.940 krónur. Í heild nemur krafa stefnanda samkvæmt framansögðu 1.755.390 krónum (1.449.000 + 160.984 + 19.133 + 39.333 + 86.940). Auk þess krefst stefnandi miskabóta úr hendi stefnda að fjárhæð 200.000 krónur. Er sú krafa byggð á því að stefndi hafi komið fram við stefnanda með meiðandi og niðurlægjandi hætti. Vísast í þessu sambandi til b. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Til frádráttar kröfum samkvæmt framansögðu komi laun stefnanda meðan á uppsagnarfresti stóð, en þau nemi 426.968 krónum.

III.

Stefndi mótmælir alfarið málsatvikalýsingu stefnanda í stefnu. Hann segir málsatvik vera með eftirfarandi hætti. Stefnandi hafi verið ráðinn sem almennur starfsmaður á vélaverkstæði Fiskaness hf. sem sameinaðist Þorbirni hf. og Valdimar hf. undir merkjum stefnda. Frá sameiningu þessara félaga, í stefnda, hafi aðeins verið rekið eitt viðhaldsverkstæði með þrjár aðalstarfsstöðvar, eina í Vogum á Vatnsleysuströnd og tvær í Grindavík. Stefnandi hafi ekki haft mannaforráð hjá stefnda heldur lotið stjórn Jóns Gíslasonar, verkstjóra vélaverkstæðis stefnda, en aðrir starfsmenn á vélaverkstæði hefðu hvorki gegnt stjórnunarstöðu né haft mannaforráð. Stefnandi hafi haft með höndum ýmis verkefni á vélaverkstæðinu sem tengdust meðal annars viðhaldi og eftirliti með tilteknum Baader-vélum í fiskvinnslu stefnda. Því fari fjarri að það hafi verið hans eina starfsskylda. Hafi honum borið að ganga til allra starfa sem féllu undir verksvið vélaverkstæðis með þeim hætti sem verkstjóri ákvað hverju sinni. Það sé því ekki rétt sem haldið er fram í stefnu að stefnandi hafi haft boðvald yfir þeim sem á Baader-vélunum unnu. Þeir aðilar hefðu lotið boðvaldi verkstjóra í viðkomandi fiskvinnsluhúsi. Baader-vélar séu víða í notkun hjá stefnda og starfsmenn vélaverkstæðis sinni hinum ýmsu störfum við viðhald og eftirlit með þeim. Því sé það ekki rétt að stefnandi hafi komið nærri viðhaldi á öllum þessum vélum eða verið einhver „yfirmaður“ Baader-véla. Þegar stefnandi mætti til vinnu mánudaginn 4. október 2004 hafi yfirmaður hans, Jón Gíslason, upplýst hann um áform fyrirtækisins um að breyta verkefnum hans þannig að starfssvið hans yrði að sinna verkefnum á vélaverkstæðinu sem og fiskvinnslu- og frystivélum frystiskipa fyrirtækisins og öðru viðhaldi sem þar félli til. Aldrei hafi verið rætt um að verkefni hans yrðu bifreiða- og lyftaraviðgerðir sérstaklega. Þá hafi hvorki verið rætt um að tekin yrði af honum bifreið sem hann hafði afnot af til að komast til og frá vinnu né að tekin yrði frá honum farsími sem hann hafði frá fyrirtækinu. Þegar stefnandi hafi spurt um ástæður þessara breytinga hafi hann verið minntur á að undanfarið ár hefði hann ítrekað verið fjarverandi og oft horfið úr vinnu fyrirvaralaust. Fyrri áminningar hér að lútandi hafi stefnandi haft að engu. Hafi honum því verið sagt upp starfi hjá stefnda með bréfi 31. mars 2004 og tilkynnt að síðasti starfsdagur hans hjá stefnda yrði 30. júní 2004. Þegar stefnanda var afhent uppsagnarbréfið hafi honum verið gerð grein fyrir því hvers vegna bréfið væri ritað og honum sagt að ef hann sýndi breytta hegðun kæmi til greina að draga uppsögnina til baka. Stefnandi hafi í kjölfar þess bætt framkomu sína að nokkru leyti en þó engan veginn nægjanlega. Hann hafi mætt til vinnu í júlí og verið í vinnu allt þar til hann meiddist á fæti  við vinnu heima hjá sér. Eftir að stefnandi kom aftur til starfa eftir veikindaforföll hafi verkstjóri hans haft í hyggju að leggja fyrir hann ný verkefni innan vélaverkstæðis, enda hafði þá annar aðili sinnt þeim verkum sem stefnandi hafði áður með höndum. Hafi stefnandi áfram átt að sinna almennum viðhalds- og viðgerðarstörfum hjá stefnda, meðal annars með fiskvinnsluvélum, en leggja átti meiri áherslu á að hann væri á sjálfu vélaverkstæðinu þar sem verkstjóri gæti fylgst betur með störfum hans og viðveru. Þegar þessi áform fyrirtækisins voru rædd við stefnanda og ofangreind saga hans rakin fyrir honum hafi hann brugðist ókvæða við og horfið af vinnustaðnum. Á þessum tíma hafi ekki verið búið að taka ákvörðun um að breyta verkefnum stefnanda heldur hafi honum einungis verið tilkynnt að þessar breytingar stæðu til og óskað eftir að þær yrðu ræddar. Stefnandi hafi rokið á dyr áður en fyrirhugaðar breytingar höfðu verið ræddar frekar og án þess að til umræðu hafi komið hvernig færi með kaup og kjör eða aðgang hans að tækjum stefnda, svo sem bíl og síma, en ekki hafi staðið til að hrófla við ráðningarkjörum stefnanda. Stefnandi hafi komið seinna sama dag á skrifstofu stefnda og þá enn verið æstur. Við það tækifæri hafi honum bent á að hann gæti vart hætt vinnu hjá fyrirtækinu fyrirvaralaust og að skynsamlegt væri að ræða málið reiðilaust og komast að sameiginlegri niðurstöðu. Hafi honum verið tjáð að ekki væri forsvaranlegt að menn rykju á dyr þegar verið væri að fela þeim verkefni og eðlilegra væri að stefnandi setti fram athugasemdir og ræddi málin æsingslaust. Stefnandi hafi þá látið í ljós þá skoðun sína að hann sætti sig ekki við breytingar á starfi sínu. Því hafi verið svarað til að skynsamlegast væri að ræða um störf hans og starfsskyldur er honum væri runnin reiðin. Stefnandi hafi horfið á braut í kjölfar þessa og ekki mætt til vinnu hjá stefnda síðan. Það hafi því verið mat stefnda að stefnandi hefði fyrirvaralaust hætt störfum er honum voru kynntar þær fyrirhuguðu breytingar á verkefnum sem biðu hans er hann kom til starfa aftur eftir veikindaforföll. Er stefnandi rauk á dyr og mætti ekki aftur til vinnu hafi réttur hans til launa fallið niður. Kröfubréf lögmanns stefnanda 3. nóvember 2004 hafi því komið stefnda verulega á óvart. Því bréfi hafi lögmaður stefnda svarað 23. sama mánaðar þar sem öllum kröfum stefnanda hafi verið hafnað. 

Stefndi byggir á því að stefnandi hafi með því að rjúka á dyr þann 4. október 2004 og mæta ekki aftur til vinnu brotið gegn skyldum sínum sem starfsmaður stefnda.  Sökum þeirrar háttsemi stefnanda hafi stefnda verið rétt að líta svo á að hann hafi sjálfur rift ráðningu sinni og þar með fyrirgert rétti til launa í uppsagnarfresti.

Stefndi mótmælir því sem haldið er fram í stefnu að stefnandi hafi haft mannaforráð. Stefnandi hafi verið almennur starfsmaður á vélaverkstæði stefnda og hafi honum því verið rétt að sinna þeim verkefnum sem yfirmenn fólu honum. Þetta megi meðal annars ráða af skipuriti stefnda félag. Samkvæmt því hafi Jón Gíslason verið eini yfirmaðurinn á vélaverkstæði stefnda. Það verði að segjast að í því fælist mjög mikil takmörkun á stjórnunarrétti stefnanda samkvæmt vinnurétti ef ekki mætti fela almennum starfsmanni önnur verkefni á vélaverkstæðinu en þau sem hann hefði sinnt. Með því að stefnandi réði sig sem almenn starfsmann hjá stefnda hafi honum borið að beygja sig undir þetta stjórnunarvald stefnda. Þannig byggir stefndi á því að þó svo að stefnanda hafi verið falið að annast viðhald og eftirlit með tilteknum Baadervélum þýði það ekki að hann hafi haft boðvald gagnvart þeim sem á vélunum unnu og þannig verið í stöðu yfirmanns. 

Stefndi byggir á því að það upphlaup stefnanda 4. október 2004, sem að framan er lýst, hafi verið algerlega tilefnislaust. Verkefni þau sem staðið hafi til að fela honum hafi verið í samræmi við reynslu og menntun stefnanda. Er því mótmælt að starfskjör hans hefðu skerst með nokkru móti við þessa breytingu. Ástæðan fyrir þessum fyrirhuguðu breytingum á verkefnum hafi fyrst og fremst verið sú að yfirmaður verkstæðisins vildi hafa auga með stefnanda sem áður hafði verið sagt upp störfum vegna starfshátta og viðveru. Stefnanda hafi einfaldlega ekki verið treyst til þess að vera með slíkt frjálsræði sem hann hafði þegar hann sá um Baadervélarnar, svo sem ráða megi af uppsögn hans 31. mars 2004.

Þá sé það rangt að í verkefnum þeim sem stefndi hugðist fela stefnanda hafi falist  „bifvélavirkjastörf“. Þvert á móti hafi verið um að ræða almenn störf sem til falla á vélaverkstæði stefnda, þar með talið viðgerð á lyfturum o.fl. eftir því sem nauðsyn þykir til hverju sinni. Þá sé sérstaklega mótmælt fullyrðingum stefnanda í stefnu um að hann njóti sem sérfræðimenntaður maður einhverra frekari réttinda en aðrir almennir starfsmenn.         

Þá mótmælir stefndi því að þau verkefni sem til stóð að fela stefnanda hafi ekki verið honum samboðin. Ekki verði séð að það að annast viðgerð á Baadervélum sé eitthvað fínna en önnur störf á vélaverkstæði, til dæmis það að gera við lyftara. Þá hafi því ekki verið haldið fram að stefnandi sé með sérstaka menntun í Baadervélum, heldur sé því einungis haldið fram að hann sé „vélvirki að mennt og atvinnu“ og hafi hafið störf sem slíkur á  vélaverkstæði Fiskaness árið 1997. 

Stefndi mótmælir sérstaklega tilvísun til laga nr. 77/1993, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti á fyrirtækjum, sbr. sambærileg ákvæði í í  lögum nr. 72/2002 um sama efni. Þeim lögum sé ætlað að verja starfsmenn fyrir uppsögnum við aðilaskipti eða samruna fyrirtækja. Fyrir liggi í málinu að Þorbjörn hf. og Fiskaness hf. sameinuðust á árinu 2000 eða fjórum árum fyrir fyrirhugaða breytingu á verkefnum stefnanda. Því sé ekki sjáanlegt með hvaða hætti þessi lagatilvísun stefnanda komi málinu við.  Þannig liggi jafnframt fyrir að þótt stefnandi hafi haft stöðu yfirmanns hjá Fiskanesi hf. fyrir sameiningu félaganna sé alveg ljóst að hann hafi með því að halda áfram að starfa fyrir stefnda undanfarin 4 ár, eftir sameiningu félaganna, og undir stjórn Jóns Gíslasonar beygt sig undir breytingar á starfssviði sínu. Þannig skipti jafnframt hugleiðingar stefnanda um breytingar á starfsstöð engu máli, enda sé ekki sjáanlegt að vinnuveitanda sé ekki heimilt að færa starfsmann milli starfsstöðva, sér í lagi þegar stutt er á milli starfsstöðva, en þær séu báðar á hafnarsvæðinu í Grindavík. 

Stefndi mótmælir miskabótakröfu stefnanda. Stefnandi hafi ekki fært nokkur rök fyrir kröfu sinni, eða reynt að sýna fram á að stefndi hafi komið fram gagnvart honum með „meiðandi eða niðurlægjandi hætti“. Telur stefndi kröfu stefnanda um miskabætur vanreifaða og órökstudda og hafnar henni algjörlega.

Verði fallist á kröfur stefnanda að hluta eða í heild mótmælir stefndi upphafstíma dráttarvaxta. Fyrir liggi að stefnandi hafi fyrst krafið stefnda um laun í uppsagnarfresti þann 4. nóvember 2004. Með vísan í III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 ætti því fyrsti mögulegi upphafstími dráttarvaxta að vera 4. desember sama árs. 

IV.

             Stefnandi hóf störf hjá Fiskanesi hf. í Grindavík árið 1997 og starfaði sem vélvirki á vélaverkstæði félagsins. Við samruna þess, Valdimars hf. og Þorbjarnar hf. í stefnda 1. júlí 2000 varð stefnandi starfsmaður stefnda. Tókst stefndi þá á hendur réttindi og skyldur fyrri vinnuveitanda gagnvart stefnanda, sbr. 1. mgr. 2. gr. þágildandi laga nr. 77/1993 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Fyrir samrunann hafði Þorbjörn hf. rekið vélaverkstæði í Grindavík. Eftir hann hafa bæði þessi verkstæði verið rekin af stefnda og eftir því sem best verður séð undir verkstjórn eins manns, Jóns Björnssonar, en hann var áður starfsmaður Þorbjarnar hf. Mun viðhaldsvinnu sem lýtur að skipakosti stefnda hafa verið sinnt af því verkstæði sem Þorbjörn hf. rak áður, en þjónusta við fiskvinnsluhús stefnda hefur eftir því sem næst verður komist meira verið í höndum þess verkstæðis sem Fiskanes hf. rak fyrir samruna félaganna og stefnandi starfaði á. Bæði munu þau hafa sinnt almennri viðhaldsvinnu að öðru leyti. 

Þá er stefnandi kom til starfa hjá stefnda 4. október 2004 að loknu veikindaleyfi var honum í öllu falli tjáð að hugmyndir væru uppi um að hann myndi framvegis sinna verkum á annarri starfsstöð stefnda en verið hafði vinnustaður hans fram að því og um sjö ára skeið. Samhliða þessu myndu eiga sér stað ákveðnar breytingar á starfssviði hans hjá stefnda. Stefnandi heldur því fram að búið hafi verið að ákveða þetta og að auki hafi legið fyrir ákvörðun um að skerða starfskjör hans frá því sem verið hafði og svo sem áður er lýst. Af hálfu stefnda er því alfarið mótmælt að búið hafi verið að taka ákvörðun um þessar breytingar þá er stefnandi mætti til vinnu að nýju hinn tilgreinda dag. Þá er því alfarið hafnað að til hafi staðið að skerða starfskjör hans. Einvörðungu hafi verið rætt um þann möguleika að stefnandi færi til starfa á Þorbjarnarverkstæðinu og þá breytingu á starfssviði hans sem sú ráðstöfun myndi hafa í för með sér. Stefnandi hafi sjálfur kosið að rjúka á dyr áður en búið var að ræða þessi mál til hlítar og ekki mætt til vinnu eftir það. 

             Jórmundur Kristinsson var samstarfsmaður stefnanda fram til ársins 2002, en þá lét hann af starfi hjá stefnda fyrir aldurs sakir. Í vitnisburði hans við aðalmeðferð málsins kom fram að í samtali sem hann hafi átt við Jón Gíslason, verkstjóra á vélaverkstæði stefnda, hafi Jón haft orð á því að það hafi verið ætlunin að taka bifreið, sem stefnandi hafi haft til umráða í starfi sínu hjá stefnda, af honum. Jón hefur mótmælt því að hann hafi látið þessi orð falla og svo sem fram er komið er því alfarið mótmælt af hálfu stefnda að þetta hafi staðið til, hvað þá að búið hafi verið að taka um þetta ákvörðun. Ekki kom til þess að á það reyndi hvort tekin hefði verið ákvörðun um breytt starfskjör stefnanda. Að mati dómsins hefur ekki með öðrum hætti verið rennt viðhlítandi stoðum undir staðhæfingu stefnanda um að ákvörðun þar að lútandi hafi legið fyrir þá er hann hætti störfum hjá stefnanda 4. október 2004, en af hans hálfu var svo sem fram er komið litið á boðaðar breytingar á starfi hans og starfskjörum þann dag sem fyrirvaralausa uppsögn. Fær vitnisburður Jórmundar Kristinssonar engu breytt varðandi þetta. Getur því ekki komið til þess að réttur stefnanda til launa eftir að hann hætti störfum hjá stefnda verði reistur á því að starfskjör hans hafi verið skert.

             Fram er komið með aðilaskýrslu framkvæmdastjóra stefnda, Gunnars Tómassonar, og vitnisburði Jóns Gíslasonar verkstjóra, að hugmyndir um að flytja stefnanda á milli starfsstöðva hafi átt rót sína að rekja til slælegrar mætingar hans. Stefnandi hafi verið eini starfsmaður stefnda á Fiskanesverkstæðinu eftir að Jórmundur hætti þar störfum. Með flutningi á Þorbjarnarverkstæðið hefði verið hægt að hafa betra eftirlit með störfum stefnanda og veita honum þarft aðhald. Þá er fram komið og í reynd óumdeilt samkvæmt framansögðu að nokkur breyting hafi samhliða þessu verið fyrirhuguð á starfssviði stefnanda. Hann hafi allt þar til hann fór í veikindaleyfi sumarið 2004 aðallega séð um að keyra frystivélar í frystihúsum stefnda og sinnt viðhaldi á fiskvinnsluvélum innan veggja þeirra, þar með töldum svokölluðum Baadervélum. Ætlunin hafi verið sú að frá og með 4. október 2004 myndi stefnandi sinna viðhaldsverkum á  nýrri starfsstöð, svo sem viðgerðum á bifreiðum og lyfturum, og öðrum verkum sem það verkstæði hafði fram að þessu haft með höndum og fólust í þjónustu við skipakost félagsins frekar en fiskvinnsluhús þess. Andstætt því sem stefnandi hefur staðhæft er að mati dómsins ekkert fram komið í málinu sem virt verður á þann veg að starfsskilyrði hans á nýrri starfsstöð eða þau verk sem í öllu falli voru uppi hugmyndir um að hann ætti að sinna frá og með 4. október 2004 hafi verið honum ósamboðin í ljósi starfsreynslu hans eða menntunar sem vélvirkja. Þarf því ekki að taka afstöðu til þess hvort ákvörðun hér að lútandi hafi þá í reynd legið fyrir. Önnur atvik geta ekki heldur leitt til þeirrar niðurstöðu að stefnanda hafi verið óskylt að hlíta ákvörðun um framangreindar breytingar á starfsstöð og starfssviði. Er í því sambandi sérstaklega til þess að líta að enda þótt fram sé komið að stefnandi hafi eftir að rekstur stefnda hófst og fram til ársins 2002 haft umsjón með verkum eina samstarfsmanns síns á Fiskanesverkstæðinu telst hann ekki hafa haft með höndum verkstjórn hjá stefnda. Verður við það að miða, hvað sem stöðu stefnanda hjá Fiskanesi hf. líður, að hann hafi unað við launakjör og starfsskilyrði hjá hinum nýja vinnuveitanda og að stoð fyrir dómkröfum hans í málinu verði ekki sótt í 1. mgr. 2. gr. þágildandi laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, sbr. nú  1. og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 72/2002 um sama efni.

             Með vísan til þess sem að framan er rakið er ekki unnt að fallast á það með stefnanda að fyrir hendi hafi verið aðstaða sem jafna megi til þess að honum hafi fyrirvaralaust verið vikið úr starfi. Verður að líta svo á að stefnandi hafi sjálfur slitið ráðningu sinni með því að mæta ekki til vinnu eftir 4. október 2004. Honum ber því ekki réttur til launa eftir það. Þar með eru ekki heldur efni til að gera stefnda að greiða stefnanda miskabætur.   

Samkvæmt framansögðu er stefndi sýknaður af kröfum stefnanda, en rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

             Stefndi, Þorbjörn Fiskanes hf., á að vera sýkn af kröfu stefnanda, Jóns Arnar Pálssonar.

             Málskostnaður fellur niður.