Hæstiréttur íslands

Mál nr. 130/2011


Lykilorð

  • Fjármögnunarfyrirtæki
  • Afleiðusamningur
  • Skuldajöfnuður


                                     

Fimmtudaginn 19. janúar 2012.

Nr. 130/2011.

 

Óskar Veturliði Sigurðsson

(Ólafur Eiríksson hrl.

Sigurður Snædal Júlíusson hdl.)

gegn

Landsbankanum hf.

(Ólafur Haraldsson hrl.

Guðmundur Ingvi Sigurðsson hdl.)

 

Fjármögnunarfyrirtæki. Afleiðusamningur. Skuldajöfnuður.

Ó höfðaði mál gegn L hf. og krafðist viðurkenningar á heimild sinni til að skuldajafna kröfu á hendur L hf., sem var til komin vegna gjaldmiðlaskiptasamnings Ó og forvera L hf., við kröfu sem L hf. átti á Ó. Í málinu var um það deilt hvort Ó hefði eignast kröfu sína fyrir 15. ágúst 2008 en þá voru þrír mánuðir til frestdags sbr. skilyrði 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Gjaldmiðlaskiptasamningurinn sem krafa Ó var reist á komst á 18. september 2008 en Ó hélt því fram að meta yrði aðdraganda samningsgerðarinnar þannig að hann teldist hafa eignast kröfu sína fyrir 15. ágúst 2008. Á þetta var ekki fallist. Enda þótt aðilar hefðu gert með sér röð gjaldmiðlaskiptasamninga, þar sem hver samningur hefði tekið við af öðrum, og samningskjör hvers samnings yrðu rakin til þess samnings sem á undan kom, taldi Hæstiréttur að hver samningur hefði verið sjálfstæður að formi og efni. Bent var á að hver samningur hefði haft sjálfsætt númer, skuldbinding hvers samnings ráðist að fullu af texta hans sjálfs án tilvísana til fyrri samninga og að í hverjum samningi hefði falist skuldbinding um að efna hann á gjalddaga á því gengi sem um var samið. Varð við það miðað að Ó hefði eignast kröfu samkvæmt gjaldmiðlaskiptasamningnum við undirritun hans. Af þessum sökum stóð 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 í vegi kröfu Ó um skuldajöfnuð. L hf. var því sýknað af kröfum Ó.

  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. mars 2011. Hann krefst þess að viðurkennd verði heimild sín til að skuldajafna kröfu á hendur Landsbanka Íslands hf. að fjárhæð 7.531.000 krónur á grundvelli nánar tilgreinds gjaldmiðlaskiptasamnings 19. september 2008, með gjalddaga 22. október sama ár, við kröfu stefnda á hendur sér vegna láns 31. ágúst 2007, upphaflega að fjárhæð 680.712 danskar krónur. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms hefur nafni stefnda verið breytt úr NBI hf. og ber hann nú heitið Landsbankinn hf.

I

Áfrýjandi, sem átti í ýmsum viðskiptum við Landsbanka Íslands hf., gerði 31. ágúst 2007 viðskiptasamning við bankann um svonefnda reikningslánalínu. Sama dag samþykkti bankinn beiðni hans um lán að fjárhæð 680.712 danskar krónur og giltu skilmálar fyrrgreinds viðskiptasamnings um það.

Þann 18. september 2008 gerðu Landsbanki Íslands hf. og áfrýjandi gjaldmiðlaskiptasamning, sem bar númerið 2945223. Samkvæmt texta hans skyldi bankinn 19. september 2008 kaupa af áfrýjanda 1.349.000 bandaríkjadali en selja honum sama dag 1.000.000 evrur miðað við svonefnt stundargengi 1,3490000001. Þann 22. október 2008 skyldi bankinn síðan kaupa af áfrýjanda 1.000.000 evrur en selja honum 1.350.000 bandaríkjadali og var í þeim efnum vísað til svonefnds framvirks gengis. sem var hið sama og áðurnefnt stundargengi að viðbættu 0,001 álagi. Áfrýjandi staðfesti þessa samningsskilmála með undirritun sinni. Aðdraganda að samningsgerð þessari má rekja til svonefnds stundarsamnings á gjaldeyri, sem áfrýjandi gerði við bankann 6. september 2007 eins og nánar verður vikið að síðar.

Fjármáleftirlitið vék stjórn Landsbanka Íslands hf. frá störfum 7. október 2008 og setti yfir hann skilanefnd í samræmi við 100. gr. a. laga um fjármálafyrirtæki með áorðnum breytingum. Í framhaldi af því var NBI hf. settur á stofn og kröfuréttindi Landsbanka Íslands hf. flutt til hans eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi.

Áfrýjandi fór á gjalddaga síðastgreinds samnings nr. 2945223 þann 22. október 2008 fram fram á það við stefnda að kröfu samkvæmt honum yrði skuldajafnað við kröfu vegna lánsins í dönskum krónum, sem hann hafði tekið 31. ágúst 2007 og að framan er getið. Landsbanki Íslands hf. lokaði samningi nr. 2945223 þann 30. október 2010 og nam krafa áfrýjanda á hendur bankanum samkvæmt því 7.531.000 krónum, en það er sú fjárhæð sem áfrýjandi krefst að notuð verði til skuldajafnaðar á móti kröfu stefnda á hendur sér. Skilanefnd Landsbanka Íslands hf. hafnaði því 13. febrúar 2008 að skilyrði til skuldajafnaðar væru fyrir hendi.

II

Með lögum nr. 129/2008 voru gerðar breytingar á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í breytingarlögunum skyldi miða frestdag í þeim fjármálafyrirtækjum sem Fjármálaeftirlitið hefði þegar skipað skilanefndir yfir við gildistöku laganna. Lögin skyldu samkvæmt 5. gr. öðlast þegar gildi. Þau birtust 14. nóvember 2008 og tóku því gildi daginn eftir, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað. Sá dagur telst því frestdagur við slit Landsbanka Íslands hf.

 Samkvæmt 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. getur hver sá sem skuldar þrotabúi dregið það frá sem hann á hjá því hvernig sem skuld og gagnkröfu er varið ef hann hefur eignast kröfuna áður en þrír mánuðir voru til frestdags. Þetta skilyrði, sem óumdeilt er að gildi við slit Landsbanka Íslands hf., er óundanþægt og snýst ágreiningur aðila eingöngu um hvort meta beri aðdraganda að gerð gjaldmiðlaskiptasamnings bankans og áfrýjanda nr. 2945223 þann 18. september 2008 þannig að áfrýjandi teljist hafa eignast kröfu samkvæmt honum fyrir 15. ágúst 2008 í skilningi 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991.

Áfrýjandi kveðst vegna nánar tilgreindra verðbréfaviðskipta sumarið 2007 hafa eignast nokkra fjárhæð í evrum. Hann hafi haft í hyggju að flytja til Bandaríkjanna og því viljað firra sig gengisáhættu vegna hugsanlegra breytinga á gengi bandaríkjadals gagnvart evru. Hann hafi í því skyni gert svonefndan stundarsamning á gjaldeyri við Landsbanka Íslands hf. 6. september 2007. Samkvæmt honum keypti bankinn af áfrýjanda 1.000.000 evrur og seldi honum 1.369.600 bandaríkjadali miðað við svonefnt stundargengi 1,3696. Gjalddagi samningsins var 10. september 2007. Þann dag gerðu áfrýjandi og Landsbanki Íslands hf. með sér gjaldmiðlaskiptasamning. Samkvæmt honum keypti bankinn af áfrýjanda 1.369.600 bandaríkjadali eða sömu fjárhæð í þeim gjaldmiðli og bankinn seldi áfrýjanda þann dag samkvæmt fyrrnefndum stundarsamningi á gjaldeyri, en seldi honum 1.000.000 evrur miðað við stundargengið 1,3696000001. Samkvæmt samningum skyldi bankinn mánuði síðar eða 10. október 2007 selja áfrýjanda aftur 1.370.800 bandaríkjadali en kaupa í staðinn 1.000.000 evrur og var þar miðað við framvirkt gengi sem var hið sama og stundargengið í viðskiptunum mánuði fyrr að viðbættu 0,0012 álagi. Á gjalddaga þessa samnings gerðu áfrýjandi og bankinn nýjan gjaldmiðlaskiptasamning, þar sem bankinn keypti aftur bandaríkjadalina fyrir evrur á framvirka genginu, sem hann hafði selt áfrýjanda þá fyrir þann dag samkvæmt fyrri samningnum, en skyldi síðan selja áfrýjanda þá aftur fyrir evrur mánuði síðar eða 13. nóvember 2007 á því gengi að viðbættu 0,0004 álagi. Þann dag gerðu bankinn og áfrýjandi enn með sér gjaldmiðlaskiptasamning, en nú til þriggja mánaða, sem tók með sama hætti við af hinum fyrri. Þeir gerðu síðan gjaldmiðlaskiptasamninga 12. febrúar, 13. mars, 17. apríl, 17. júlí og 18. ágúst 2008, en loks samning nr. 2945223, sem ágreiningur aðila lýtur að, 18. september 2008 þannig að hver samningur tók við af öðrum með sama hætti og að framan er lýst. Gengi á gjalddaga hvers samnings var hið sama og í samningnum á undan, þó þannig að við stundargengið á samningsdegi bættist á gjalddaga svonefnt álag, sem mun annars vegar hafa ráðist af vaxtamun milli evru og bandaríkjadals og hins vegar af þóknun til bankans. Þannig verður gengi samnings nr. 2945223 rakið til þess gengis sem áfrýjandi samdi um við Landsbanka Íslands hf. 6. september 2007 í stundarsamningi á gjaldeyri, en tók ekki mið af markaðsgengi evru og bandaríkjadals á samningsdegi.

 Enda þótt samningskjör hvers framangreinds samnings verði samkvæmt áðursögðu rakin til þess samnings sem á undan kom var hver þeirra um sig sjálfstæður bæði að formi og efni. Þannig bar hver samningur sjálfstætt númer óháð fyrri samningum, hver samningur stóð sjálfstæður í þeim skilningi að skuldbinding samkvæmt honum réðist að fullu af texta hans sjálfs án tilvísana til fyrri samninga og síðast en ekki síst fólst í hverjum samningi skuldbinding um að efna hann á gjalddaga með skiptum á evrum og bandaríkjadölum á því gengi sem um var samið. Þótt áfrýjandi og Landsbanki Íslands hf. hafi kosið að ljúka ekki samningnum 18. ágúst 2008 með efndum samkvæmt efni hans, en gera í þess stað nýjan samning, leiðir það ekki til þess að áfrýjandi hafi eignast kröfu samkvæmt þessum nýja samningi nr. 2845223 fyrr en við undirritun hans. Samkvæmt þessu og með því að ákvæði 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 stendur þannig í vegi kröfu áfrýjanda um skuldajöfnuð verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

 

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Óskar Veturliði Sigurðsson, greiði stefnda, Landsbankanum hf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2010.

Mál þetta, sem dómtekið var 1. desember sl. er höfðað með stefnu áritaðri um birtingu og þingfest 21. apríl 2009. Málið var upphaflega flutt og dómtekið 28 september sl. en vegna þess að dómur varð ekki lagður á það innan lögmælts frests var það flutt að nýju og dómtekið 1. desember sl.

Stefnandi er Óskar Veturliði Sigurðsson., 472 Devonshire Drive, Waterloo, Indiana 50701, Bandaríkjunum.

Stefndi er NBI hf., Austurstræti 11, Reykjavik.

Dómkröfur stefnanda er þær að viðurkennd verði með dómi heimild stefnanda til að skuldajafna kröfum sem stefnandi er eigandi að á hendur Landsbanka  Íslands hf.  kt. 540291-2259, gegn kröfu sem stefndi er nú eigandi að á hendur stefnanda og eignaðist með framsali  krafna Landsbanka Íslands til stefnda, með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins þann 9. október 2009.

Nánar tiltekið er um að ræða kröfur stefnanda á hendur Landsbanka Íslands, annars vegar á grundvelli framvirks gjaldmiðlaskiptasamnings nr. 2945223, útgefnum 19. september 2008, með gjalddaga 22. október 2008 og hins vegar á grundvelli  stundarsamninga á gjaldeyri, með sölu á 20.000 GBP á genginu 249,02 (tilvísun 3016751) og kaupum á 20.000 GBP síðar sama dag á genginu 188,55 (tilvísun 3017606) þannig að stefnanda sé heimilt að skuldajafna kröfum þessum á móti skuld sinni við stefnda vegna láns nr. 9221, sem er skuld stefnanda í DKK, upphaflega við Landsbanka Íslands hf., en framselt til stefnda með ákvörðun FME, dags. 9. október 2008. Við aðalmeðferð málsins hinn 28. september sl,. gerði stefnandi þá breytingu á kröfum sínum að fallið var frá kröfu um viðurkenningu skuldajafnaðar vegna stundarsamninga á gjaldeyri frá 8. október 2008.

Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.

MÁLSATVIK

Stefnandi var um langt skeið viðskiptavinur Landsbanka Íslands hf. Stefnandi kveðst hafa átt í ýmsum viðskiptum við bankann og hafi meðal annars gert þá viðskiptagerninga sem ágreiningur aðila lýtur að.  Stefnandi gerði hinn 31. ágúst 2007 samning við Landsbanka Íslands hf. þar sem samið var um reikningslánalínu til handa stefnanda að fjárhæð 50.000.000 króna. Samkvæmt skilmálum þeim sem fylgdu lánasamningnum var stefnanda heimilt að greiða inn á lánið áður en til gjalddaga á hluta lánsins kom. Ágreiningslaust er af hálfu aðila málsins að stefnandi hafi skv. gr. 8. 1. í umræddum samningi heimild til að greiða inn á lánið áður en það fellur í gjalddaga. Viðurkenni stefndi því að lausnardagur sé kominn fyrir stefnanda. Hinn 7. október 2008 hafi sú ákvörðun verið tekin af hálfu stjórnar Fjármálaeftirlitsins að víkja skyldi stjórn Landsbanka Íslands hf. frá og skipaði Fjármálaeftirlitið slitastjórn fyrir Landsbanka Íslands hf. Stofnaður var NBI hf. sem tók yfir kröfuréttindi Landsbanka Íslands og flutti yfir til NBI hf. sbr. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hinn 9. október 2008. Hinn 12 október 2008 var ákvörðun stofnunarinnar með nýrri ákvörðun Fjármálaeftirlitsins breytt á þann hátt að NBI hf. tók ekki yfir afleiðusamninga sem Landsbanki Íslands hf. hafði gert. Hinn 19. október 2008 gaf Fjármálaeftirlitið út ákvörðun um breytingu á fyrri breytingu sinni vegna flutnings krafna frá Landsbanka Íslands hf. til NBI hf. Var í þeirri ákvörðun tekið fram að framsal á kröfum milli aðila svipti viðskiptamenn Landsbanka Íslands hf. ekki skuldajöfnunarrétti við NBI hf. Stefnandi hefur gert þær kröfur til NBI hf. að skuldajafnað verði á láni hans við NBI hf. og þeim samningum sem hann gerði við Landsbankann hf. Um sé að ræða samning sem var gerður við Landsbankann hf. hinn 6. september 2007. Samningurinn er framvirkur gjaldmiðlasamningur nr. 2945223, útg. 19. september 2008, með gjalddaga 22. október  2008.  Samkvæmt samningnum lofar Landsbanki Íslands að kaupa 1.000.000 EUR hinn 22. október 2008 og selja í staðinn USD. 1.350.000. Stefnandi segir að samningurinn hafi upphaflega verið gerður 6. september 2007, sem samningur um stundarviðskipti með gjaldmiðla til fjögurra daga, en 10. september 2008 hafi samningurinn orðið að gjaldmiðlaskiptasamningi. Þessi gjaldmiðlasamningur hafi síðan verið  framlengdur reglulega, allt þar til í síðasta skipti 19. september 2008.  Staða samningsins hinn 22 október 2008, á gjalddaga, hafi verið 7.531.000 króna í hagnað fyrir stefnanda.

Stefndi hefur lýst því yfir að hann telji kröfu stefnanda hæfa til að mætast við skuldajöfnuð milli aðila líkt og fram hefur komið með ákvörðun fjármálaeftirlitsins. Það sem um er deilt í málinu sé það viðhorf stefnda að um hafi verið að ræða nýjan samning sem hafi stofnast til eftir að frestdagur var í bú Landsbankans. Að mati stefnda hafi frestdagur verið í bú Landsbankans 13. nóvember 2008 þar sem skilanefnd hafi á þeim degi verið skipuð yfir bankanum. Vísar stefndi til ákvæðis í lögum nr. 129/2008 máli sínu til stuðnings. Krafan hafi að mati stefnda orðið til 18. september 2008 og sé því m.t.t. 100. gr. laga nr. 21/1991 eigi tæk til skuldajöfnunar.

MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK

Stefnandi gerir þá kröfu að skuldajafnað verði við kröfu NBI hf. eftirstöðvum af samningi sem stefnandi gerði við Landsbankann hf. árið 2007. Um sé að ræða framvirkan gjaldeyrisskiptasamning nr. 2945223, sem framlengdur hafi verið með jöfnu millibili fram að síðustu framlengingu hinn 18. september 2008. Um hafi verið að ræða gjaldeyrisskiptasamning fyrir 1 milljón evra á móti USD.  Telur stefnandi sig hafa heimild til að lýsa yfir skuldajöfnuði á móti kröfu NBI hf. á þeim forsendum að framsalshafi, hér NBI hf., geti ekki öðlast betri rétt en framseljandi, Landsbanki Íslands hf. Stefnandi styður að auki þá kröfu sína með tilvísun til ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 19. október 2008 þar sem slík skuldajöfnunarheimild var áréttuð til handa þeim sem Landsbankinn átti fjárkröfur á hendur og framseldar voru NB. hf.

Stefnandi bendir sérstaklega á í stefnu sinni að strax þann 16. október 2008 hafi hann gert kröfu til þess að skuldajafnað yrði við hann samningi hans við Landsbanka Íslands og eftirstöðvum á lánasamningi hans sem NBI hf. hafi fengið framseldan. Kveður stefnandi að hann hafi sent tölvupóst til stefnda og gert þá kröfu að samningi sínum við Landsbanka Íslands hf. yrði lokað og skuldajafnað yrði á móti skuld sinni við NBI hf. Kröfum stefnanda hafi hins vegar ekki verið svarað af hálfu Landsbanka Íslands hf.

Með vísan til ákvörðunar FME telur stefnandi sig hafa rétt til skuldajafnaðar við kröfu NBI hf. Muni sá skuldajöfnuður fara langt með að greiða skuld hans við bankann. Bendir stefnandi á að hann hafi átt viðskipti við viðskiptastofnun sem hann hafi talið trausta og örugga og að beiting réttarúrræðis líkt og skuldajöfnunar mundi ætíð standa honum til boða. Telur stefnandi að það renni sérstökum stoðum undir kröfu sína um skuldajöfnun að íslenska ríkið hafi tekið Landsbankann yfir hinn 7. október 2008 og að viðskipti við Landsbanka Íslands hf. yrðu þannig efnd af hálfu bankans. Bendir stefnandi sérstaklega á að hann hafi talið að með yfirtöku íslenska ríkisins á bankanum hafi falist eins konar ríkisábyrgð á kröfum sínum við bankann. Á þeim grunni taldi stefnandi sig hafa ákveðna vissu fyrir því að gjaldeyrisskiptasamningur hans við bankann frá árinu 2007 yrði tryggður og efndur.

Stefnandi telur að frestdagur í bú Landsbanka Íslands hf. skuli ákvarðast 5. desember 2008. Byggir stefnandi þá kröfu sína á tilvísun til 2. gr. laga nr. 21/1991, þar sem frestdagur skuli teljast sá dagur er dómstóli berist krafa um heimild til greiðslustöðvunar, en úrskurður þess efnis hafi verið felldur hinn 5. desember 2008.

Stefnandi telur það engu breyta um skuldajöfnunarrétt sinn á hendur NBI hf. að Landsbanki Íslands hf. hafi fengið heimild til greiðslustöðvunar. Vísar stefnandi til ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 19. október 2008 máli sínu til stuðnings.

Stefnandi telur að 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti komi ekki í veg fyrir að skuldajöfnuði verði komið að í máli þessu. Skv. umræddri 100. gr gjaldþrotaskiptalaga sé unnt að koma fram skuldajöfnuði við gjaldþrotaskipti með kröfu sem varð til 3 mánuðum fyrir frestdag.  Krafa stefnanda hafi stofnast árið 2007, en frestdagur sé 5. desember 2008. Því komist að allar kröfur sem urðu til fyrir 5. september 2008.

Stefnandi telur að þótt komist verði að þeirri niðurstöðu að til kröfu hans hafi stofnast innan þess tímabils sem 100. gr. gjaldþrotaskiptalaganna tilgreinir sé umrædd 100. gr. gjaldþrotaskiptalaganna ekki svo fortakslaus að skuldajöfnuði verði ekki komið að, því greinin tiltaki að meta þurfi hvert tilfelli sérstaklega, ef krafa hafi stofnast innan þriggja  mánaða fyrir frestdag. Bendir stefnandi á að hann hafi ekki vitað eða mátt vita, að þrotamaður hafi ekki átt fyrir skuldum, þegar viðskipti áttu sér stað. Stefnandi hafi ekki fengið kröfuna til þess eins að skuldajafna, enda hafi hann staðið í áhættusömum viðskiptum með fjarfestingarsamning.

Stefnandi byggir á því að krafa hans á hendur Landsbanka Íslands hf. hafi orðið til fyrir frestdag í bú Landsbanka Íslands hf. Stefnandi byggir jafnframt á því að sú almenna regla gildi við framsal kröfuréttinda að framsalshafi verði að sæta sömu mótbárum og upphaflegur kröfuhafi hafi þurft að sæta. Því sé um sterka mótbáru að ræða sem haggi ekki rétti stefnanda til þess að lýsa yfir skuldajöfnuði.

Stefnandi telur skuldajöfnunarheimild sína gagnvart Landsbanka Íslands hf. ótvíræða og því eigi hann kröfu til skuldajöfnunar á hendur NBI hf. Bendir stefnandi á að öll almenn skilyrði skuldajöfnunar séu fyrir hendi .

Stefnandi byggir kröfu sína um heimild til skuldajöfnunar á almennum reglum kröfuréttar og almennum reglum samningaréttar.  Einnig vísast til laga um gjaldþrotaskipti, nr. 21/1991, sérstaklega 100. gr.   Þá er vísað til laga nr. 121/1994 um neytendalán, sérstaklega 17. gr.  Að öðru leyti vísast til laga 91/1991 um meðferð málsins.

Krafa um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur og ber því nauðsyn til að tekið verði tillit til skyldu hans til að greiða virðisaukaskatt við ákvörðun málskostnaðar sbr. ákvæði l. nr. 50/1988.  

Af hálfu stefnda kemur fram að hann telji kröfu stefnanda vera tæka til skuldajöfnunar. Stefndi lýsir því yfir að réttur stefnanda hafi ekki verið skertur með framsali krafna Landsbanka Íslands hf. til NBI hf. Því standi stefnanda enn til boða að lýsa yfir skuldajöfnuði á kröfu NBI hf. á hendur stefnanda.

Stefndi mótmælir þeirri túlkun stefnanda að samningur um stundarviðskipti með gjaldeyri sem gerður var hinn 6. september 2008 og varð síðan að samningi um gjaldeyrisskipti nr. 2945223 hinn 10. september 2008 sé þess eðlis að hann hafi verið framlengdur reglulega og sé því sami samningur frá upphafi til þess að krafist var loka á honum hinn 22. október 2008. Telur stefnandi að ekki verði ráðið af staðfestingum þeim sem stefnandi undirritaði að um framlengingu samnings hafi verið að ræða, enda telur stefndi að af þeim megi ráða að þeir hafi verið gerðir upp í hvert sinn.  Telur stefndi að samningurinn hafi verið gerður upp hinn 18. september 2008 og nýr sjálfstæður samningur tekið við að því loknu.

Stefndi bendir á að skv. lögum nr. 129/2008 sem breytti lögum nr. 161/2002, komi fram í 3. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 að frestdagur í fjármálafyrirtækjum skuli vera sá dagur sem Fjármálaeftirlitið skipi skilanefnd yfir fjármálastofnun. Frestdagur fyrir Landsbanka Íslands hafi því verið 13. nóvember 2008.

Stefndi telur að krafa stefnanda sé ekki tæk til skuldajafnaðar við kröfu NBI hf. Stefndi byggir á því að hafa verði í huga ákvæði laga nr. 21/1991, laga um gjaldþrotaskipti, en í þeim lögum sé fjallað um skuldajöfnun við gjaldþrot sem og riftun á ráðstöfunum þrotamanns fyrir gjaldþrot. Bendir stefndi á að beita megi 136. gr gjaldþrotaskiptalaganna ef ekki er unnt að beita 100. gr. gjaldþrotaskiptalaganna.  Þar sem 136. gr. gjaldþrotaskiptalaganna sé hlutlægt riftunarregla telji stefndi að það sama eigi við um 100. gr. gjaldþrotaskiptalaganna. Í því felist hlutlæg skilyrði sem séu þau að sá sem lýsi yfir skuldajöfnuði verði að hafa eignast kröfuna þremur mánuðum fyrir frestdag, hafi ekki vitað né mátt vita um ógjaldfærni skuldara og ekki fengið kröfuna til að skuldajafna. Því hafni stefndi því að horfa eigi til hvers tilfellis fyrir sig þegar metin sé heimild til skuldajöfnunar við gjaldþrotaskipti líkt og stefnandi heldur fram.

Stefndi telur að krafa stefnanda hafi orðið til inna þriggja mánaða fyrir frestdag. Frestdagur sé að mati stefnanda 13. nóvember 2008. Kröfur sem stofnist til eftir 13. ágúst 2008 séu því eigi tækar til skuldajöfnunar. Telur stefnandi að krafa stefnanda á grundvelli gjaldmiðlaskiptasamningsins hafi orðið til þann 19. september 2008.  Krafan sé því ekki tæk til skuldajafnaðar þar sem hún hafi orðið til innan þess þriggja mánaða frests sem tilgreindur sé í 100. gr. gjaldþrotaskiptalaganna.

Stefndi vísar til almennra reglna um kröfu- og samningarétt og laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti.

Krafa aðalstefnda um málskostnað byggir á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Aðalstefndi er ekki virðisaukaskattskyldur og ber honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir þessum skatti úr hendi stefnanda

NIÐURSTAÐA

Í máli þessu krefst stefnandi þess að fá að skuldajafna kröfu sinni á hendur Landsbanka Íslands hf. við kröfu stefnda, NBI hf., sem stefndi fékk framselda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hinn 9. október 2008. Fyrir liggur að hinn 6. september 2007 var gerður stundarsamningur með gjaldeyri auðkenndur með nr. 1562537. Hinn 10. september 2007 var gerður gjaldmiðlaskiptasamningur USD/EUR sem bar nr. 1571361. Stefnandi hefur haldið því fram að síðarnefndi samningurinn hafi verið framlengdur með jöfnu millibili allt þar til krafa var gerð hinn 22. október 2008 um að samningurinn yrði gerður upp. Því hafi samningnum aldrei lokið heldur hafi hann verið framlengdur. Fram kom í vitnaleiðslum við aðalmeðferð í málinu að ekki sé til neitt í kerfi Landsbanka Íslands sem beri heitið framlenging á samningi. Er því álitamál hvort um sé að ræða framlengingu eða uppgjör og endurnýjun. Samkvæmt gögnum málsins var samningur aðila endurnýjaður að einhverju leyti enda fékk hann í hvert sinn nýtt númer. Síðasta slíka staðfesting ber nr. 2945223 og er dagsett 18. september 2008. Í 100. gr. laga nr. 21/1991 segir að hver sá, sem skuldar þrotabúi, geti dregið það frá sem hann á hjá því hvernig sem skuld og gagnkröfu er varið ef lánardrottinn hefur eignast kröfuna áður en þrír mánuðir voru til frestdags, hvorki vitað né mátt vita að þrotamaðurinn átti ekki fyrir skuldum og ekki fengið kröfuna til að skuldajafna, enda hafi krafa þrotabúsins á hendur honum orðið til fyrir frestdag.

Í lögum 129/2008 sem breytti lögum 161/2002 um fjármálafyrirtæki kemur fram í 3. gr. að frestdagur í fjármálafyrirtækjum skuli teljast sá dagur er slitastjórn er skipuð yfir félaginu. Í málinu liggur fyrir að Landsbanka Íslands hf. var skipuð slitastjórn þann 13. nóvember 2008. Frestdagur telst því vera þann dag.. Allar kröfur sem urðu til eftir 13. ágúst 2008 eru því ekki tækar til skuldajöfnunar.

Af gögnum málsins þykir ljóst að ekki verði unnt að líta svo á að samningur stefnanda við Landsbanka Íslands hf. dagsettur 18. september 2008 nr. 2945223 hafi verið framlenging á gjaldmiðlaskiptasamningi þeim sem gerður var milli sömu aðila þann 10. september 2007 nr.1571361. Gögn málsins benda til þess að um sjálfstæðan samning hafi verið að ræða í hvert skipti enda verður litið svo á að sjálfstætt uppgjör hafi orðið á samningi í lok hans og ný staða verið tekin sem fengið hafi nýtt samningsnúmer. Þá staðfesti stefnandi með undirskrift sinni í hvert skipti hinn nýja samning og er gjalddagi samnings breytilegur. Að auki er litið til þess vitnisburðar sem kom fram í málinu að ekkert sé til í ferlum Landsbanka Íslands hf. sem flokkist sem framlenging á samningi. Því verður ekki litið svo á að samningur nr. 2945223 sé tækur til skuldajöfnunar við kröfu NBI hf. þar sem til hans stofnaðist eftir að þrír mánuðir voru til frestdags í bú Landsbanka Íslands hf. sem líkt og að framan getur, var 13. nóvember 2008. Er krafa stefnanda því ekki tæk  til skuldajöfnunar á móti kröfu NBI hf. á hendur stefnanda.

Samkvæmt þessu verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda og eftir úrslitum málsins verður stefnanda gert að greiða stefnda 500.000 krónur í málskostnað.       

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp þennan dóm.

DÓMSORÐ

Stefndi NBI hf. skal sýkn af kröfum stefnanda, Óskars Veturliða Sigurðssonar.

Stefnandi greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað.