Hæstiréttur íslands

Mál nr. 564/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
  • Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Miðvikudaginn 7

 

Miðvikudaginn 7. október 2009.

Nr. 564/2009.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir fulltrúi)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. og B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. og b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut til Hæstaréttar 2. október 2009 tveimur úrskurðum Héraðsdóms Reykjaness sama dag. Kæran barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Í öðrum úrskurðinum var varnaraðila gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 16. október 2009 klukkan 16 og hinum að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinir kærðu úrskurðir verði felldir úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hinna kærðu úrskurða.

Með vísan til forsendna hinna kærðu úrskurða verða þeir staðfestir.

Dómsorð:

Hinir kærðu úrskurðir eru staðfestir.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. október 2009.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess í dag fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til a og b liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að X, fd. [...],[...], verði með úrskurði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 16. október 2009 kl. 16:00.

Kærði krefst þess aðallega að kröfunni verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldstíma verði markaður styttri tími.

Krafan er reist á því að kærði sé undir rökstuddum grun um brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í  kröfu lögreglustjórans kemur m.a. fram að kærði hafi verið stöðvaður við tollhlið á Keflavíkurflugvelli þann 12. september sl. ásamt landa sínum, Z. Þeir hafi verið að koma með flugi til landsins frá Varsjá í Póllandi. Við leit tollgæslu í farangri kærða hafi fundist níu niðursuðudósir sem reynst hafi innihalda 3.340 ecstasy töflur. Í fórum Z hafi fundist í sjö samskonar niðursuðudósum 2.647 ecstasy töflur. Lögreglan segir að hún hafi upplýsingar um að ofangreindir tveir aðilar hafi haft símsamband sín á milli og jafnframt að þeir hafi hringt í íslenskt símanúmer. Því telur lögreglan rökstuddan grun um að kærði og Z hafi sameignlega staðið að innflutningi fíkniefnanna til landsins og að fleiri aðilar kunni að vera viðriðnir innflutninginn. Rannsókn málsins sé langt á veg komin en enn sé beðið styrkleikamælingar fíkniefnanna auk þess sem verið sé að kanna frekar aðild annarra að málinu. Lögreglan telur víst að þessi efni hafi verið ætluð til sölu og dreifingar hér á landi og að háttsemi kærða kunni að varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk ákvæða laga nr. 65/1974. Lögreglan telur að ætla megi að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hann laus. Þá telur lögreglan að líklegt sé að kærði muni reyna að komast úr landi eða með öðrum hætti koma sér undan málssókn og fullnustu refsingar gangi hann laus.

Að öllu framangreindu virtu, sem og gögnum málsins að öðru leyti, verður fallist á það með lögreglustjóra að sterkur grunur sé um að kærði hafi framið afbrot sem að lögum geti varðað allt að 12 ára fangelsi samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Rannsókn málsins er ekki að fullu lokið. Verður því fallist á með lögreglustjóra að skilyrði a liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 séu fyrir hendi í málinu. Þar sem þung refsing liggur við  meintu broti má ætla að kærði reyni að komast úr landi eða koma sér með öðrum hætti undan málsókn. Skilyrði b liðar sömu greinar eru því uppfyllt. Verður því, með vísan til framanritaðs og rannsóknargagna málsins, fallist á kröfu lögreglustjórans eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ

Kærði, X, skal sæta áframhaldandi  gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 16. október 2009, kl. 16:00.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. október 2009.

X hefur krafist þess að gæsluvarðhald, sem úrskurðað var fyrr í dag, að hann skyldi sæta til  föstudagsins 16. október 2009 verði hagað þannig að ekki verði um takmarkanir að ræða samkvæmt b lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð opinberra mála.

Af hálfu lögreglustjórans á Suðurnesjum er kröfu kærða mótmælt og þess krafist að tilhögun gæsluvarðhalds fari fram samkvæmt framangreindu ákvæði.

Það liggur fyrir í máli þessu að kærði sætir gæsluvarðhaldi m.a. á grundvelli a liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Er rannsóknarhagsmunum þeim sem liggja til grundvallar lýst í fyrrnefndum úrskurði um gæsluvarðhald. Með vísan til þess sem þar greinir, og að virtum öllum atvikum málsins, þykir skilyrðum fullnægt til að kærði sæti enn um sinn takmörkunum samkvæmt b lið 99. gr. laga nr. 88/2008.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ

Kærði, X, sæti einangrun í gæsluvarðhaldinu samkvæmt b lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.