Hæstiréttur íslands

Mál nr. 314/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi


Ár 1999, miðvikudaginn 11

                                                         

Miðvikudaginn 11. ágúst 1999.

Nr. 314/1999.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Ingibjörg Halldórsdóttir fulltrúi)

gegn

Helga Þór Kristínarsyni

(Steingrímur Gautur Kristjánsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi.

Úrskurður héraðsdóms um að H skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var felldur úr gildi, þar sem ekki var talið, að fram væri kominn rökstuddur grunur um að H hefði framið verknað sem varðað gæti fangelsisrefsingu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. ágúst 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. ágúst 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 13. ágúst nk. kl. 16.00. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði hefur nafngreindur maður viðurkennt að hafa í félagi við annan tiltekinn mann framið tvö innbrot í Reykjavík aðfaranótt 8. ágúst sl. Það eitt, að varnaraðili hafi verið í fylgd með síðargreinda manninum þegar sá var handtekinn um einni og hálfri klukkustund eftir síðara innbrotið, nægir ekki til að rökstuddur grunur geti talist vera fyrir hendi um að varnaraðili hafi gerst sekur um brot gegn 263. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 140. gr. laga nr. 82/1998. Þar sem ekkert annað er fram komið í málinu, sem styður staðhæfingar sóknaraðila um að varnaraðili hafi framið verknað, sem fangelsisrefsing er lögð við, brestur skilyrði til gæsluvarðhalds yfir varnaraðila samkvæmt 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. ágúst 1999.

Ár 1999, sunnudaginn 8. ágúst, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Gretu Baldursdóttur héraðsdómara kveðinn upp úrskurður þessi.

Með kröfu lögreglustjórans í Reykjavík dagsettri í dag er þess krafist að Helga Þór Kristínarsyni, kt. 240872-3319, Smiðjustíg 13, Reykjavík, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 allt til föstudagsins 13. ágúst nk. kl. 16.00.

[...]

Lögreglan kveður verið að rannsaka ætluð brot kærða á 263. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Það sakarefni sem hér um ræði mundi varða fangelsisrefsingu ef sök teljist sönnuð. Með vísan til alls framanritaðs, rannsóknar­hagsmuna svo og með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála sé þess farið á leit að ofangreind krafa nái fram að ganga.

Verið er að rannsaka ætlað brot kærða á 263. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og geta brot samkvæmt þessum ákvæðum varðað fangelsisrefsingu. Rökstuddur grunur leikur á því að [...] hafi gerst sekur um brot gegn 231. gr. og 244. gr. almennra hegningarlaga. Fyrir liggur að kærði hitti [...] sl. nótt án þess að upplýst sé nákvæmlega hvenær það var og var með honum þegar þeir voru handteknir af lögreglu. Rannsókn er skammt á veg komin og hluti þýfis ekki kominn fram. Þykja rannsóknar­nauðsynjar leiða til þess að taka beri kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti gæsluvarðhaldi til greina enda þykir fullnægt skilyrðum a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

   Samkvæmt þessu verður krafa lögreglustjóra um að kærði sæti gæsluvarð­haldi tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurðarorð:

Kærði, Helgi Þór Kristínarson, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstu­dagsins 13. ágúst 1999 kl. 16.00.