Hæstiréttur íslands
Mál nr. 187/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaður
|
|
Miðvikudaginn 18. mars 2015. |
|
Nr. 187/2015.
|
Valdimar Jónsson (Steinbergur Finnbogason hdl.) gegn José Luis Freyr Garcia (Haukur Örn Birgisson hrl.) |
Kærumál. Málskostnaður.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli V á hendur J var fellt niður að ósk þess fyrrnefnda og honum gert að greiða J málskostnað. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, yrði gerðarbeiðanda gert að greiða gerðarþola málskostnað ef mál væri fellt niður af annarri ástæðu en þeirri að gerðarþoli efni þá skyldu sem hann væri krafinn um í máli. Fyrir lægi að J hefði ekki efnt skylduna heldur væri honum meinaður aðgangur að húsnæðinu sem málið beindist að. Að því gættu ætti J rétt á málskostnaði úr hendi V sem þótti hæfilega ákveðinn með hinum kærða úrskurði. Var hann því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. mars 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. febrúar 2015, þar sem mál sóknaraðila á hendur varnaraðila var fellt niður og sóknaraðila gert að greiða varnaraðila 500.000 krónur í málskostnað. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst aðallega málskostnaðar í héraði, til vara að hann falli niður en að því frágengnu að dæmdur málskostnaður í héraði verði lækkaður. Í öllum tilvikum krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989, verður gerðarbeiðanda gert að greiða gerðarþola málskostnað ef mál er fellt niður af annarri ástæðu en þeirri að gerðarþoli efni þá skyldu sem hann er krafinn um í máli. Fyrir liggur að varnaraðili efndi ekki skylduna heldur var honum meinaður aðgangur að húsnæðinu sem málið beindist að. Að því gættu á hann rétt á málskostnaði úr hendi sóknaraðila sem þykir hæfilega ákveðinn með hinum kærða úrskurði. Verður úrskurðurinn því staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Valdimar Jónsson, greiði varnaraðila, José Luis Freyr Garcia, 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. febrúar 2015.
Máli þessu var skotið til Héraðsdóms Reykjavíkur með bréfi sem barst dóminum 2. júní sl. Sóknaraðili er Valdimar Jónsson, Seljugerði 12, Reykjavík, en varnaraðili er José Luis Frey Garcia, Efstasundi 13, Reykjavík.
Sóknaraðili krafðist dómsúrskurðar um að honum yrði heimilað að fá varnaraðila, ásamt öllu því sem honum tilheyrði, borinn út úr fasteigninni Þingholtsstræti 1, Reykjavík, fastanúmer 200-4361. Kröfu sína byggði sóknaraðili á því að hann hefði rift leigusamningi sínum við varnaraðila um fasteignina, hvar varnaraðili rak veitingastað, vegna vanefnda varnaraðila. Varnaraðili krafðist þess að öllum kröfum sóknaraðila yrði hafnað og mótmælti því að skilyrðum riftunar hefði verið fullnægt í málinu. Hann stæði ekki í skuld við sóknaraðila og vísaði m.a. til þess að hann hefði þurft að ráðast í endurbætur á hinu leigða húsnæði til að forða því og rekstri sínum frá tjóni. Hefði hann lýst yfir skuldajöfnuði á kostnaði vegna þessa við leigugreiðslur.
Við fyrirtöku málsins 17. desember sl. kvaðst lögmaður sóknaraðila vilja fella þetta mál niður og krafðist málkostnaðar úr hendi varnaraðila. Lögmaður varnaraðila mótmælti því ekki að málið yrði fellt niður en krafðist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Munnlegur málflutningur fór fram 21. janúar sl. um kröfur aðila um málskostnað. Endanlegar kröfur sóknaraðila eru að varnaraðili greiði sóknaraðila málskostnað en til vara að málskostnaður verði látinn niður falla. Fallist dómurinn á málskostnaðarkröfu varnaraðila krefst sóknaraðili þess til þrautavara að málskostnaður verði dæmdur í hófi.
Endanlegar kröfur varnaraðila eru aðallega að kröfu sóknaraðila verði vísað frá dómi en til vara að kröfunni verði hafnað. Þá krefst varnaraðili þess að sóknaraðila verði gert að greiða honum málskostnað að skaðlausu, auk álags á málskostnað. Loks krefst varnaraðili þess að sóknaraðila verði gert að greiða réttarfarssekt til ríkissjóðs.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila:
Til stuðnings þeirri kröfu að málið verði fellt niður og varnaraðila verði gert að greiða sóknaraðila málskostnað vísar sóknaraðili til þess að leigusamningur aðila hafi runnið út 15. desember sl.. Sóknaraðili hafi því ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurð um útburð varnaraðila úr fasteigninni. Sóknaraðili eigi hins vegar fjárkröfu á hendur varnaraðila vegna vangoldinnar leigu. Þá hafi varnaraðili tafið meðferð þessa máls að óþörfu og beri því að dæma hann til að greiða sóknaraðila málskostnað samkvæmt b-lið 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök varnaraðila:
Af hálfu varnaraðila er á því byggt að engin lagaheimild sé fyrir málskostnaðarkröfu sóknaraðila. Þá sé hún haldlaus með öllu.
Varnaraðili vísar til þess að krafa hans um málskostnað úr hendi sóknaraðila byggi á a- og g-liðum 1. mgr. 129. gr. og 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Varnaraðili vísar til þess að hann hafi haft kostnað af flutningi málsins auk þess sem annar kostnaður hafi beinlínis fallið til vegna málsins. Sú meginregla komi fram í 2. mgr. 130. gr. laganna að sóknaraðila skuli gert að greiða varnaraðila málskostnað sé mál fellt niður af annarri ástæðu en þeirri að varnaraðili efni þá skyldu sem hann sé krafinn um í málinu. Við ákvörðun málskostnaðar beri að líta til a- og c-liða 1. mgr. 131. gr. sömu laga. Sóknaraðili hafi höfðað þetta mál að þarflausu og aldrei hafi staðið til að fá efnisúrlausn fyrir dómi. Sóknaraðili hafi náð kröfum sínum fram með húsbroti, og með því beitt gertæki. Þessi málshöfðun hafi aðeins verið til þess að afvegaleiða varnaraðila og valda honum fjártjóni. Þá séu kröfur sóknaraðila í málinu rangar og haldlausar, sbr. kröfu sóknaraðila um málskostnað. Sakir sóknaraðila séu miklar og því beri með vísan til 2. mgr. 131. gr. að gera honum að greiða varnaraðila álag á málskostnað. Varnaraðili krefjist þess einnig með vísan til 3. mgr. 131. gr. að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða allan þann kostnað sem megi leiða af þessum málaferlum, þar með talið vinnu í tengslum við húsbrot, gertæki og þá háttsemi sóknaraðila að gera eignir upptækar, enda séu þessar aðgerðir bersýnilega þarflausar og tilgangslausar.
Þá beri að skoða hvort beita eigi heimild 4. mgr. 131. gr. sömu laga til að dæma lögmann sóknaraðila einan eða sameiginlega með sóknaraðila til að greiða varnaraðila málskostnað. Krafan um málskostnað sé þarflaus, en eina aðkoma lögmannsins hafi verið að bera fram umrædda kröfu eftir niðurfellingu málsins.
Krafa um að sóknaraðila verði gert að greiða réttarfarssekt byggi á a-, d- og e-liðum 1. mgr. 135. gr. sömu laga. Málið sé höfðað að þarflausu, sóknaraðili hafi haft uppi vísvitandi rangar kröfur og staðhæfingar, sbr. málskostnaðarkröfu hans, auk þess sem lögmaður sóknaraðila hafi sagt að ,,vegna tafa hjá dóminum hafi sóknaraðili gripið til sinna aðgerða“..
Niðurstaða:
Með vísan til c-liðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, ber að fallast á kröfu sóknaraðila um niðurfellingu málsins.
Í 1. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989 er mælt fyrir um að málsaðilum skuli veittur skammur frestur til greinargerða og öflunar sýnilegra sönnunargagna, sé þing sótt af hálfu varnaraðila og varnir, sem ekki verður þegar vísað á bug, koma fram gegn aðfararbeiðni. Takist ekki sátt, skal málið síðan sótt og varið munnlega. Samkvæmt þessu skal hraða meðferð máls um aðfararbeiðni og er það í samræmi við þann áskilnað 1. mgr. 78. gr. sömu laga að réttur sóknaraðila sé svo ljós að sönnur verði færðar fyrir honum með sönnunargögnum, öðrum en vitnaleiðslum og matsgerðum.
Málið var þingfest 19. september 2014. Hinn 26. sama mánaðar fór fram málflutningur um kröfu varnaraðila um málskostnaðartryggingu úr hendi sóknaraðila og var úrskurður í þeim þætti málsins kveðinn upp 1. október sama ár þar sem kröfunni var hafnað. Málið var næst tekið fyrir 20. sama mánaðar og skilaði varnaraðili þá greinargerð. Í sama þinghaldi var sóknaraðila veittur frestur til 28. október 2014 til að skila greinargerð. Að hans ósk var sá frestur framlengdur utan réttar til 10. nóvember sama ár og skilaði þá sóknaraðili greinargerð. Málinu var úthlutað til dómara málsins sem tók það fyrir 20. sama mánaðar og var málinu þá frestað til sáttaumleitana með samþykki beggja aðila til 3. desember sama ár. Þegar málið var tekið fyrir þann dag var m.a. lögð fram sáttatillaga varnaraðila. Málið var næst tekið fyrir 17. sama mánaðar og í því þinghaldi kvaðst lögmaður sóknaraðila vilja fella þetta mál niður. Málflutningur fór síðan fram 21. janúar sl. um kröfur aðila um málskostnað, eins og fyrr greinir. Samkvæmt þessu verður ekki séð að neinar tafir hafi orðið á málinu sem öðrum aðilanum verður kennt um umfram hinn. Verður krafa sóknaraðila um málskostnað því ekki tekin til greina á grundvelli b-liðar 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991. Krafan verður heldur ekki tekin til greina á þeim grunni að varnaraðili hafi innt af hendi þá skyldu sem hann var krafinn um í málinu, þ.e. að afhenda eignina, enda óumdeilt í málinu að varnaraðili fór ekki sjálfviljugur út úr hinu leigða húsnæði heldur var honum hamlaður aðgangur að því um miðjan desember sl. Rann leigusamningur hans við sóknaraðila út um það leyti en fyrir liggur að varnaraðili hafði áður lýst því yfir að hann hygðist nýta sér forleigurétt sinn samkvæmt samningnum. Ekki liggja fyrir í gögnum málsins svör sóknaraðila við þeirri yfirlýsingu.
Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 á varnaraðili rétt á málskostnaði úr hendi sóknaraðila. Varnaraðili hefur vísað til þess að sóknaraðili hafi tekið sér umráð hins umdeilda húsnæðis að varnaraðila forspurðum og án aðfararheimildar. Þótt óumdeilt sé, eins og áður greinir, að varnaraðila hafi verið hamlaður aðgangur að húsnæðinu liggur ekkert fyrir um það í málinu að það hafi verið að undirlagi sóknaraðila. Sóknaraðili er ekki eigandi húsnæðisins, heldur framleigði hann það af eiganda þess, Hótel Valhöll ehf. Þykir varnaraðili ekki hafa gert sennilegt að sóknaraðili hafi í upphafi höfðað þetta mál að þarflausu eða án neins tilefnis af hendi varnaraðila, en aðfararbeiðni sóknaraðila var móttekin 2. júní 2014. Verður því ekki litið til a- og c-liða 1. mgr. og 2., 3. og 4. mgr. 131. gr. sömu laga við ákvörðun málskostnaðar. Að þessu virtu og með vísan til umfangs málsins þykir málskostnaður hæfilega ákveðinn 500.000 krónur.
Ekki eru skilyrði til þess að gera sóknaraðila eða lögmanni hans réttarfarssekt í máli þessu.
Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Málið er fellt niður.
Sóknaraðili, Valdimar Jónsson, greiði varnaraðila, José Luis Frey Garcia, 500.000 krónur í málskostnað.