Hæstiréttur íslands
Mál nr. 341/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
|
|
Fimmtudaginn 4. ágúst 2005: |
|
Nr. 341/2005. |
X(Þorsteinn Einarsson hrl.) gegn Y(Brynjar Níelsson hrl.) |
Kærumál. Lögræði.
Sýnt þótti að heilsu og högum X væri svo háttað að hún væri ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum og fé sjálf. Með vísan til a. og b. liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 var X svipt lögræði, bæði fjárræði og sjálfræði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Garðar Gíslason.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. júlí 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júlí 2005, þar sem sóknaraðili var svipt lögræði, fjárræði og sjálfræði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um að hún verði svipt lögræði verði hafnað. Þá er þess krafist að kærumálskostnaður, þar með talin þóknun skipaðs verjanda hennar vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, verði greiddur úr ríkissjóði.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, en þóknunin er ákveðin eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, er svipt lögræði, bæði fjárræði og sjálfræði.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Þorsteins Einarssonar hæstaréttarlögmanns, og talsmanns varnaraðila, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 60.000 krónur til hvors þeirra, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júlí 2005.
I
Með bréfi 7. júlí sl., sem barst dóminum sama dag, krafðist sóknaraðili þess að varnaraðili yrði svipt lögræði, sjálfræði og fjárræði, ótímabundið. Málið var þingfest 13. júlí sl. og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum flutningi 15. sama mánaðar
Sóknaraðili er Y, en hún er dóttir varnaraðila.
Varnaraðili er X.
Krafa sóknaraðila er sú sem að framan greinir, auk þess sem krafist er lögmannsþóknunar úr ríkissjóði.
Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfu sóknaraðila verði hafnað, en til vara að sviptingin verði tímabundin. Þá er krafist lögmannsþóknunar úr ríkissjóði.
II
Sóknaraðili lýsir málavöxtum svo að varnaraðili hafi greinst með geðklofa í ársbyrjun 2003, en hún hafði þá verið vistuð á sjúkrahúsi gegn vilja sínum. Í kjölfarið var hún svipt lögræði til marsloka 2004. Eftir uppkvaðningu úrskurðarins var hún vistuð á sjúkrahúsum og síðar dvaldi hún á sambýli. Á þeim tíma hafi hún náð góðum bata og sótt reglulega viðtöl hjá lækni. Um haustið 2004 hafi varnaraðili hætt að koma í viðtölin og í kjölfarið hafi farið að bera á ofsóknarhugmyndum og öðrum einkennum, er fylgi veikindum hennar. Allan síðastliðinn vetur hafi hallað undan fæti hjá varnaraðila allt þar til hún hafi verið lögð nauðug inn á geðdeild 24. júní síðastliðinn. Hafi hún þá ekki tekið lyf í marga mánuði, auk þess sem hún hafi drukkið áfengi vikum saman. Hún hafi þá verið mjög veik, en ekki haft innsæi í veikindi sín. Með samþykki dómsmálaráðuneytisins hafi hún verið nauðungarvistuð til 18. júlí næstkomandi.
Varnaraðili bar að hún væri mikill fíkill og alkóhólisti. Hún hefði drukkið stíft síðastliðin þrjú ár og þar af samfellt í 5 vikur áður en hún var lögð inn á sjúkrahúsið 24. júní. Hún kvaðst hafa hætt að taka geðlyfin þegar hún hóf að drekka. Hún kvaðst ekki vera með geðklofa og taldi nauðsynlegt að óháður læknir rannsakaði sig.
Sóknaraðili byggir kröfu sína á framangreindri málavaxtalýsingu og hefur lagt fram vottorð Þórgunnar Ársælsdóttur geðlæknis máli sínu til stuðnings. [ ].
Varnaraðili byggir á því að skilyrði 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 séu ekki uppfyllt. Þá var sérstaklega bent á að engin gögn hefðu verið lögð fyrir dóminn sem sýndu fram á nauðsyn fjárræðissviptingar.
III
Framangreint læknisvottorð og framburður læknisins, sem áður greinir, sýnir afdráttarlaust fram á að varnaraðili á við alvarlegan geðsjúkdóm að stríða. Þá hefur á sama hátt verið sýnt fram á að hún er alkóhólisti og ræður ekki við áfengisdrykkju sína. Varnaraðili hefur kannast við að vera alkóhólisti en neitar að vera með geðklofa.
Það er niðurstaða dómsins að sýnt hafi verið fram á að varnaraðili er veik, eins og grein hefur verið gerð fyrir. Fallist er á það með sóknaraðila að nauðsyn beri til að hún verði vistuð á sjúkrahúsi til þess að hún fái læknismeðferð við sjúkdómunum. Veikindi varnaraðila og skortur á sjúkdómsinnsæi, eins og grein hefur verið gerð fyrir, leiðir til þess að svipta verður hana lögræði, sjálfræði og fjárræði, samkvæmt a og b liðum 4. gr. lögræðislaga. Sjúkdómar hennar eru þess eðlis að hún er vart fær um að stjórna fjármálum sínum.
Af gögnum má sjá að veikindi varnaraðila eru alvarleg og er vel þekkt að meðferð tekur langan tíma. Óraunhæft er því að marka sviptingu ákveðinn tíma, heldur skal hún vera ótímabundin.
Kostnaður af máli þessu greiðist úr ríkissjóði. Þóknun talsmanna aðila er ákveðin 80.000 krónur til hvors og skal greidd úr ríkissjóði.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð
X skal svipt lögræði, fjárræði og sjálfræði.
Þóknun talsmanns sóknaraðila, Brynjars Níelssonar hrl., 80.000 krónur, og verjanda varnaraðila, Guðrúnar Bjargar Birgisdóttur hdl., 80.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.