Hæstiréttur íslands
Mál nr. 5/2001
Lykilorð
- Bifreið
- Líkamsáverkar
- Skilorð
|
|
Fimmtudaginn 29. mars 2001. |
|
Nr. 5/2001. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari) gegn Guðmundi Óla Gunnarssyni (Ólafur Sigurgeirsson hrl.) |
Bifreiðir. Líkamsáverkar. Skilorð.
Kona slasaðist er bifreið, sem hún var farþegi í, rakst á bifreið sem G ók. Var G ákærður fyrir að hafa valdið slysinu með ógætilegum akstri. Er áreksturinn varð voru aðstæður til aksturs slæmar og var talið að sýna hefði þurft sérstaka varúð við aksturinn. Þrátt fyrir að bifreið G hefði verið á öfugum vegarhelmingi er bifreiðarnar rákust á var ekki talið sannað að G hefði þá verið að reyna framúrakstur. Á hinn bóginn var talið að hann hefði brugðist þeirri skyldu að halda bifreið sinni vel á hægri vegarkanti. Varð áreksturinn rakinn til gáleysislegs aksturs G. Var hann því dæmdur til refsingar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 19. desember 2000 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að héraðsdómur verði staðfestur.
Ákærði krefst sýknu.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Guðmundur Óli Gunnarsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Ólafs Sigurgeirssonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 11. desember 2000.
Mál þetta, sem þingfest var hinn 27. október sl., en tekið er til dóms hinn 23. nóvember sl. að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað með svofelldri ákæru Lögreglustjórans í Rangárvallasýslu, dagsettri 28. ágúst sl., á hendur Guðmundi Óla Gunnarssyni, kt. 310875-2959, Efstasundi 39, Reykjavík, „fyrir hegningar- og umferðarlagabrot með því að hafa sunnudaginn 30. janúar 2000, ekið bifreiðinni PZ 704 vestur Suðurlandsveg í Kolavatnsmýri án nægjanlegrar aðgæslu og reynt að aka fram úr bifreiðinni JD 154 (snjóruðningstæki), en blint var vegna kófs frá snjóruðningstækinu, með þeim afleiðingum að bifreiðin PZ 704 lenti framan á bifreiðinni NL 009 er kom úr gagnstæðri átt. Við áreksturinn hlaut farþegi í bifreiðinni NL 009 Sjöfn Árnadóttir kt. 120340-3019, brot á bringubeini.
Telst þetta varða við 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 14. gr. og a lið 2. mgr. 20. gr., sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”.
Við flutning málsins krafðist sækjandi þess að ákærði yrði jafnframt dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Af hálfu ákærða er þess krafist aðallega að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins, en til vara að ákærði verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög frekast heimila. Þá krefst verjandi ákærða málflutningslauna sér til handa, að mati dómsins.
II. Málavextir
Um klukkan átta að kveldi sunnudagsins 30. janúar sl. varð árekstur milli bifreiðanna PZ-704, sem ákærði hafði ekið vestur Suðurlandsveg í Kolvatnsmýri og bifreiðanna NL-009 og IA-882, er höfðu ekið austur veginn. Er lögregla kom á vettvang var bifreiðin NL-099 sunnan vegarins. Sjöfn Árnadóttir, kt. 120340-3019, farþegi í bifreiðinni NL-099 var flutt í sjúkrabifreið á Landsspítalann. Bifreiðarnar NL-099 og PZ-704 reyndust svo mikið skemmdar að lögregla fjarlægði skráninganúmer af þeim og tilkynnti þær sem svokallaðar tjónabifreiðar til ökutækjaskrár. Voru bifreiðarnar fluttar á Selfoss með dráttarbifreiðum. Hámarkshraði á veginum var 90 km/klst. Áreksturinn varð aðallega milli bifreiðanna PZ-704 og NL-009. Bifreiðinni IA-882 var ekið á eftir bifreiðinni NL-009, en eftir árekstur varð milli bifreiðanna PZ-704 og NL-009, mun bifreiðin IA-882 hafa rekist lítillega utan í hinar tvær bifreiðarnar.
Bifreiðin PZ-704 var jeppabifreið, af Nissan gerð, undirtegund Patrol GR, í eigu hjálparsveitar skáta, Garðabæ. Farþegar í bifreiðinni voru Magnea Magnúsdóttir, kt. 160677-3259, Arnar Þór Emilsson, kt. 110679-3069, Ívar F. Finnbogason, kt. 280676-3069 og Lilja Rún Bjarnadóttir, kt. 060977-5699.
Bifreiðin NL-009 var fólksbifreið af Honda gerð, undirtegund Civic, árgerð 1991. Ökumaður var Filippus Björgvinsson, kt. 161031-7049, en áðurnefnd Sjöfn, eiginkona Filippusar, var farþegi í framsæti bifreiðarinnar.
Bifreiðin IA-882 er jeppabifreið af gerðinni Range Rover. Ökumaður hennar var Sigurður Sigurðsson, kt. 111271-4029. Farþegar í bifreiðinni voru, Axel Þór Gissurarson, kt. 110374-5779, Elías Þráinsson, kt. 170173-5899 og Kristján Hafsteinsson, kt. 060478-4309.
Snjóruðningstækið JD-134 er vörubifreið af gerðinni Scania, undirtegund R-112, í flokknum vörubifreiðar II, árgerð 1987, en ökumaður var Gunnar Kristinn Ólafsson, kt. 130375-4569. Vörubifreiðin var með festa framan á sig tönn til að ryðja burt snjó.
Í gögnum málsins er uppdráttur af vettvangi, teiknaður af Gils Jóhannssyni varðstjóra lögreglunnar á Hvolsvelli. Í framlögðu áverkavottorði Þórarins Arnórssonar, sérfræðings á handlækningadeild spítalans, dagsettu 21. ágúst sl., segir m. a.:
„ Sjöfn [Árnadóttir] var innlögð á hjartaskurðdeild Landspítalans við Hringbraut frá Slysadeild Landspítalans í Fossvogi eftir að hafa hlotið bílbeltisskaða í árekstri. Hún var farþegi í bifreið, sem ekið var beint framan á og mun höggið hafa komið framanvert á bílinn bílstjóramegin. Hún hlaut af mikið högg og greinist með dæmigerðan bílbeltisskaða með broti á bringubeini. Rtg. skoðanir á hálsliðum og brjósthrygg sýna ekki nein örugg merki um skaða á þessum hryggjarsvæðum en þó smávægilega fleygmyndun á II. brjósthryggjarlið, trúlegast gamalt. Einnig sjást vægar fleyglaganir á fjölda liðbola í brjósthrygg, sem allt er metið gamalt. Sneiðmyndir af brjóst- og kviðarholi sýna ekki merki um skaða á innri líffærum. Ómskoðun er gerð á hjarta, hún sýnir ekki merki um skaða á því og mælingar á hjartaenzymum eru eðlil. Hinsvegar sýna rtg. myndir brot á bringubeini um miðbik með óvenjulegu misgengi beinkanta. Hún vistast hjá okkur í vikutíma eftir innlögn, vegna verkja frá brotinu en útskrifast í stabilu og ágætu ásigkomulagi en hinsvegar mun hún hafa frá þessu óþægindi, sjálfsagt í ríflega mánuð eftir útskrift eða meðan beinið er að gróa.
Allar líkur á því að hún muni í áframhaldi ekki bera neinn varanlegan skaða. ”
Ákærði og vitni voru yfirheyrð hjá lögreglu í janúar og febrúar sl.
Ákærði hefur neitað sök. Hann kvaðst vissulega hafa ekið bifreiðinni PZ-704 greint sinn, en hins vegar hafa sýnt ágæta aðgæslu við aksturinn og ekki freistað þess að aka fram úr snjóruðningstækinu JD-134. Ákærði lýsti atvikum nánar þannig: „Það sem er að gerast þarna er að ég er að keyra fyrir aftan snjóruðningstæki. Og ég sé leggja mikið kóf frá því. Og sé að það er ekki möguleiki að komast framúr bara það er ekki nokkur möguleiki. Þannig að ég hægi á mér og held svona einhverri fjarlægð frá kófinu sem að nær svolítið aftur fyrir bílinn og er að hérna með þokuljós og svona á bílnum og ég er að reyna eitthvað svona að fikta eitthvað í því, en ég er ekki vanur að keyra akkúrat þennan bíl. Er sem sagt að halda minni fjarlægð frá þessu kófi. Nú svo gerist eitthvað sem ég átta mig ekki alveg á hvað er, hvort hann hefur hægt á sér sem var á snjóruðningstækinu, eða stungið í gegn um skafl eða eitthvað, þannig að kófið alla vega nær til mín án þess að ég hafi aukið hraðann og ég lendi inn í kófinu. Bremsa og er inni í kófinu að bremsa og hugsa að það væri nú betra að halda sig vel til hægri. En hérna það næsta sem ég sé er bara að ljósin koma út úr sortanum beint á móti mér og það verður árekstur.”. Ákærði kvaðst hafa ekið vel undir hámarkshraða, enda hafa ekið á sama hraða og snjóruðningstækið í nokkurn tíma. Ákærði kvaðst ekki hafa verið að flýta sér, sérstaklega. Ákærði kvaðst ekki hafa séð bifreiðina NL-009 fyrr en er árekstur varð. Ákærði kvaðst telja sig vanan ökumann, en aka að meðaltali 50-60.000 km á ári og hafa annast farþegaflutninga, bæði með jeppa- og rútubifreiðum. Ákærði kvaðst ekki hafa lent í umferðaróhöppum í mjög mörg ár. Ákærði sagði aðrar bifreiðar hafa ekið á eftir sér, en ekki hafa reynt að fara fram úr snjóruðningstækinu. Ákærði sagði þau öll sem voru í bifreiðinni PZ-704 vera reynt hjálparsveitarfólk og náð að hlúa að hinni slösuðu og eiginmanni hennar uns aðstoð barst.
Vitnið Filippus Björgvinsson, er ók bifreiðinni NL-099 greint sinn, lýsti atvikum þannig að hann og Sjöfn Árnadóttir, eiginkona sín, hafi verið að koma akandi frá Reykjavík. Þegar þau hafi komið á hæðina fyrir austan Þjórsártún þá hafi hann tekið eftir snjóruðningstækinu. Vegna þess að Sjöfn hafi áður lent í kófi frá snjóruðningstæki í akstri hafi hún bent sér á að rétt væri hægja ferðina sem hann hafi gert, „en ekki þó kannski nógu mikið, en hægi hana samt”, sagði vitnið orðrétt. Þá sagði vitnið: „Ég hafði aldrei lent í svona hlutum og vissi ekki hvað um var að vera, en þegar við mætum þessu snjóruðningstæki þá gusast bara yfir okkur þessum ósköpum af snjó og ísingu og um leið nánast og við komum inn í þetta kóf þá birtast mér ljós, sem að væntanlega keyrir á bílinn, eða bíllinn sem að var með þessi ljós keyrir á bílinn okkar. Og þá datt ég eiginlega út og eftir það man ég ekkert annað heldur en þegar ég var að tala við dreng sem að stóð þarna fyrir utan og hann sagði mér að hann hafi verið ökumaður bílsins sem að rakst á okkur. Sennilega hef ég rotast af því að pósturinn kom þarna inn á höfuðið á mér og ég man ekkert af þessu þarna.”. Vitnið sagði að færðin hafi verið ágæt, bjart yfir, þ. e. ekki skýjað. Vitnið sagði að hann hafi séð vel fram yfir, meðal annars hafi hann er hann ók upp á hæðina, séð yfir Kolavatnsmýrina og séð ljós á bifreiðum fyrir aftan snjóruðningstækið. Lítill ruðningur hafi verið á veginum. Snjóruðningstækið hafi rutt upp snjó, en vegna vinds hafi hafi snjórinn fokið, eða gusast yfir veginn. Vitnið kvað þau hjón hafa verið á ágætri bifreið á negldum hjólbörðum. Vitnið kvaðst ekki hafa ekið hratt, enda hafi þeim hjónum ekkert legið á. Vitnið kvaðst ekki hafa haft augun á hraðamæli bifreiðarinnar, en telja að hann hafi varla ekið hægar en 50 km/klst, en tæpast hraðar en 70 km/klst., án þess þó að vilja fullyrða um það nánar, en tók fram að hann hefði það fyrir sið að aka ekki hratt á þessum slóðum vegna aðstæðna á vegi við Þjórsárbrú.
Vitnið Sjöfn Árnadóttir lýsti atvikum mjög á sömu lund og eiginmaður hennar. Kvaðst hún löngu áður hafa tekið eftir blikkandi ljósum á snjóruðningstækinu og ljósum á bifreiðum á eftir. Vitnið sagði eiginmann sinn hafa hægt ferðina að sinni ósk, en hann hefði þó ekið hægt fyrir. Vitnið sagði þau hafa séð kófið koma frá tækinu er tækið nálgaðist, „en þó þannig að við hefðum getað stoppað þess vegna”, sagði vitnið. Þá sagði vitnið: „Svo bara mætum við þessum snjóplógi og förum inn í vegg af snjó og bara augnabliki seinna sé ég bílljós, og svo bara brothljóð. Ég sá engan bíl eða neitt. Bara brothljóð, sem mér fannst aldrei ætla að enda og árekstur orðinn.”. Vitnið sagði veður hafa verið gott, norðanátt kalt og ísing á jörðu en ekki hafi þó verið mjög hált. Vitnið kvaðst ekki telja að kófið frá snjóruðningstækinu hefði aukist skömmu fyrir árekstur. Þá sagðist vitnið vera viss um að eiginmaður sinn hafi haldið sig á réttum vegarhelmingi er árekstur varð, en jafnvel þó farið farið frekar út í kantinn, a. m. k. væri það venja hans þegar hann mætti bifreiðum. Vitnið kvaðst ekki vilja gera athugasemdir við framlagt áverkavottorð, en hafa jafnað sig mikið í dag. Hún finni ekki lengur fyrir sársauka í rifbeinum, en finni enn fyrir nokkrum óþægindum í bringubeini, sem líklega muni jafna sig.
Vitnið Gunnar Kristinn Ólafsson, vörubifreiðastjóri og ökumaður snjóruðningstækisins, tók fyrst fram að langt væri liðið frá atvikum og hann myndi ekki nákvæmlega eftir þeim. Vitnið sagði vind hafa verið en enga ofankomu og ekki mikinn snjó á veginum. Hann hefði fyrr um kvöldið rutt veginn og verið að hreinsa snjó af vegöxl, en vegna vinds hafi snjórinn kastast yfir veginn. Vitnið kvaðst hafa unnið starf sitt með venjubundnum hætti greint sinn. Vitnið sagði að mikið og stöðugt kóf hefði komið frá bifreið sinni og vegna vindáttar hafi kófið lagt yfir veginn. Vitnið kvaðst hafa tekið eftir því að nokkrar bifreiðar hafi ekið fyrir aftan sig, en þar sem einungis um tveir kílómetrar hafi verið á leiðarenda, hafi hann ekki stöðvað bifreiðina til að hleypa hinum bifreiðunum fram úr. Vitnið sagði að engin skilyrði hefðu verið til framúraksturs, enda hefðu engar bifreiðar tekið fram úr sér. Vitnið kvaðst þó hafa veitt því athygli að ein bifreiðin í bílalestinni fyrir aftan sig hafi tekið nokkrum sinnum fram úr öðrum bifreiðum og hafi sú bifreið verið komin næst fyrir aftan sig og mjög nálægt sér. Vitnið sagði að fólksbifreið sú sem komið hafi á móti hafi hægt mikið á hraða sínum og vikið út í vegöxl áður en bifreiðarnar mættust. Vitnið kvaðst hafa verið „meira svona út í kanti”, er áreksturinn varð. Vitnið kvaðst raunar ekki hafa tekið eftir því að árekstur hafði orðið fyrr en hann hafði ekið „nokkra metra” frá árekstursstað. Vitnið kvaðst hafa ekið á „venjulegum moksturshraða”, eða á um 50-70 km/klst.
Vitnið Lárus Ingi Magnússon sagðist muna vel eftir atvikum. Hann var ökumaður einnar af þeim bifreiðum sem óku á eftir snjóruðningstækinu greint sinn. Vitnið kvaðst hafa ekið á eftir snjóruðningstækinu í nokkurn tíma, en vegna snjókófs frá tækinu hafi engin möguleiki verið á framúrakstri. Þá sagði vitnið að við Lyngás eða við hæðina við Ásmundarstaði hafi „þessi björgunarsveitarbíll” komið „fram úr mér og þá mjög tæpur á að lenda framan á bíl sem að kemur út úr kófinu og það var lukkan ein sem að bjargaði því og um leið og hann fer fram úr mér. Þá biður konan mín mig um að hægja á því að þessi maður eigi eftir að valda slysi. Síðan sé ég, ég dreg úr ferðinni og held mig svona í humátt á eftir og nýbúinn reyndar að sleppa orðinu um það hvað fólk væri skynsamt fyrir aftan okkur, því þá var ég kominn með, ja örugglega einhverja fimm eða sex bíla röð á eftir mér. Og síðan sé ég að fyrir vestan nei eða austan Þjórsá koma tveir bílar. Þá reyndi ég að nálgast þennan björgunarsveitarbíl og gefa honum merki, því ég var búinn að sjá hann síga það oft inn á miðjan vegarhelming og þaðan af lengra. Og svo bara náttúrulega hverfa bílarnir, koma náttúrulega bara beint á móti snjóplógnum og svo bara rétt sjáum við smá flashlight og síðan bara björgunarsveitarbílinn ja nánast upp á hann og skullu þarna saman.”. Vitnið sagði veðrið hafa verið afar gott, ekkert hafi verið að skyggni, en kalt og nokkur vindur. Vitnið sagði veg hafa verið hálan, því „þjappaður snjór” hafi verið yfir öllu. Vitnið ítrekaði að ákærði hefði ekið ekið „allt, allt of” nálægt snjóruðningstækinu miðað við aðstæður, svo mjög að hann hafi óttast það sem síðar varð.
Vitnið Erlingur Sigurgeirsson tók fram að hann myndi ekki glöggt eftir atvikum. Vitnið kvaðst hafa verið ökumaður bifreiðar sem ekið var á eftir snjóruðningstækinu, en þó hafi aðrar bifreiðar verið á undan bifreið vitnisins í þeirri bílalest, sennilega þrjár bifreiðar. Vitnið kvað þau hafa ekið á 60-70 km/klst. og mikið kóf hafi komið frá snjóruðningstækinu og aðstæður til framúraksturs hafi „engar verið”. Þegar þau hafi verið að nálgast Þjórsá hafi „þessi björgunarsveitarbíll”, þ. e. bifreið ákærða, ekið fram úr bifreið vitnisins. Í þann mund hafi önnur bifreið komið á móti og litlu hafi munað að árekstur yrði. Síðan hafi björgunarsveitarbifreiðin ekið á eftir snjóruðningstækinu, en þó þannig að björgunarsveitarbifreiðin hafi ekið stundum að miðjum vegi eins og ökumaður hennar væri að kanna möguleika á akstri framúr snjóruðningstækinu. Áður hafi vitnið tekið eftir að tvær bifreiðar nálguðust úr gagnstæðri átt. Vitnið sagðist því hafa hugsað með sér að hann „tryði því ekki” að björgunarsveitarbifreiðinni yrði ekið fram úr snjóruðningstækinu. Hins vegar hafi sér og öðrum sem voru með vitninu í bifreið hafa „fundist” sem björgunarsveitarbifreiðin væri við hlið snjóplógsins er árekstur varð. Vitnið ítrekaði að sér hefði virst sem bifreið ákærða hefði verið á öfugum vegarhelmingi er árekstur varð. Sér hefði virst sem ákærði hefði reynt að aka fram úr snjóruðningstækinu og örugglega ekið of nálægt tækinu að teknu tilliti til þess snjókófs sem frá tækinu hafi komið.
Vitnið Kristján Helgi Hafsteinsson var farþegi í bifreiðinni IA-882, sem ekið var á eftir bifreiðinni NL-009. Vitnið sagði þá í bifreiðinni hafa verið á leið á körfuboltaæfingu og ekið „ábyggilega” á 90 100 km/klst., er þeir lentu fyrir aftan bifreið sem ekið hafi verið á um það bil 50 km/klst. Þá hafi bílstjórinn bölvað yfir seinagangi bifreiðarinnar og hægt ferðina. Vitnið sagðist hafa tekið eftir að snjóruðningstæki hafi komið á móti. Því næst hafi vitnið séð bifreiðina á undan takast á loft og hendast út í vegarkant. Bifreið sem komið hafi á móti hafi þá lent utan í annarri hlið bifreiðar þeirrar sem vitnið var í, en skemmdir hafi ekki orðið miklar. Vitnið sagði að frost hefði verið mikið og norðanátt og afar kalt. Hálka hefði verið á vegi. Vitnið sagði að töluvert kóf hafi komið frá snjóruðningstækinu. Vitnið sagði bifreiðina á undan sér hafa ekið á réttum vegarhelmingi er árekstur varð.
Vitnið Arnar Þór Emilsson var farþegi í bifreið ákærða. Sagði hann svo frá atvikum: „Við vorum að keyra þarna eftir veghefli og síðan lendum við í kófi fyrir aftan veghefilinn. Og þá hægir Guðmundur Óli á sér og síðan kemur bíll út úr kófinu og við keyrum á hann. Og sennilega þá höfum við verið of innarlega á veginum. Ég kíkti á för þarna á veginum og þá erum við aðeins of innarlega á veginum. Og ástæðan fyrir því það gæti verið út af því að hann hafi bremsað niður, en ég veit það ekki. Það var ekki framúrakstur í gangi alla vega.”. Taldi vitnið raunar að ákærði hefði bremsað rétt fyrir árekstur. Vitnið sagði skyggni hafa verið gott, snjór á vegi, þó ekki hálka. Hins vegar hafi komið kóf frá snjóruðningstækinu komið yfir bifreið ákærða, en ákærði hefði aldrei reynt að fara fram úr snjóruðningstækinu, þó hann hefði „athugað” hvort möguleiki væri á framúrakstri, með því að „keyra aðeins til hliðar og kíkja”, eins og vitnið komst að orði. Vitnið kvaðst hins vegar ekkert geta sagt til um hvort ákærði hafi þess vegna stýrt bifreið sinni yfir miðlínu vegarins. Vitnið sagði að skömmu áður hefði ákærði tekið fram úr bifreiðum, ekkert hafi verið athugavert við þann framúrakstur.
Vitnið Lilja Rún Bjarnadóttir var farþegi í bifreið ákærða greint sinn. Sagði hún þau í bifreið ákærða hafa verið að bíða eftir að snjóruðningstækið myndi stöðva og hleypa umferð framúr. Kvað hún ákærða hafa reynt að gefa ökumanni tækisins merki um það. Síðan hafi snjóruðningstækið hægt ferðina, þannig að þau hafi lent inn í kófinu sem komið hafi frá honum. Hafi kófið verið svo mikið að hvorki hafi sést út um framrúðu bifreiðarinnar né hliðarrúður. Síðan sagði vitnið: „Við vorum bara á mjög lítilli ferð og ég held að við höfum öll verið hrædd um að við værum að klessa aftan á bílinn. En svo allt í einu birtist þarna bara ljós út úr kófinu og þá vorum við greinilega komin út á hinn vegarhelminginn. Í rauninni, ég get ekki sagt hvað gerðist. Ætli hann hafi ekki bremsað og bíllinn skrikað til, eða eitthvað slíkt.”. Hins vegar kvaðst vitnið ekki hafa orðið vör við að ákærði bremsaði, en tiltók að atvik hefðu gerst hratt, „allt í einu sá ég ekki neitt og svo komu bílljósin á móti”, sagði vitnið. Vitnið sagði veðrið hafa verið ágætt, en hvasst að norðan þannig að kófið frá blásaranum hafi staðið yfir veginn og þess vegna hafi þau verið að bíða eftir að snjóruðningstækið stöðvaði og hleypti bifreiðum framhjá. Vitnið sagði að ákærði hefði nokkru áður tekið fram úr, líklega fjórum, bifreiðum í þessari bílalest. Vitnið sagðist ekki muna að ákærði hafi þá nærri ekið á bifreið sem komið hafi úr gagnstæðri átt. Vitnið nefndi að lokum að hún treysti sér þó ekki til að fullyrða að ákærði hefði ekið á öfugum vegarhelmingi er árekstur varð, en hún og aðrir hafi dregið þá ályktun við vettvangsskoðun.
Vitnið Gils Jóhannsson, varðstjóri lögreglunnar, sagði veður hafa verið mjög kalt, ekki mikill vindur þó, snjóþekja á yfirborði vegar og stjörnubjart. Vitnið sagði að vegna aðstæðna, aðallega snjós á vegi, hafi lögreglumenn ekki náð að merkja hjólför á vettvangsuppdrátt.
Að loknum vitnaskýrslum kvaðst ákærði ekki hafa séð kófið frá snjóruðningstækinu er hann ók framúr þeim fjórum bifreiðum sem óku á eftir snjóruðningstækinu. Ákærði nefndi einnig að bifreiðin sem hann ók hafi ekki látið nægilega vel að stjórn að sínu mati, en um „nýbreytta” bifreið hafi verið að ræða og kvaðst ákærði „hafa á tilfinningunni” að þegar hann hafi bremsað hafi bifreiðin „kippt sér upp úr hjólförunum”, eins og ákærði komst að orði.
III. Niðurstöður.
Óumdeilt er að greint sinn varð árekstur milli bifreiðanna PZ-704, er ákærði ók og NL-009, er Filippus Björgvinsson ók. Samkvæmt framburði vitna var þá myrkur, nokkur vindur að norðan og frekar kalt í veðri. Snjór var á veginum.
Af framburði ákærða og allra vitna er ljóst að mikið kóf kom frá snjóruðningstækinu og fauk snjór yfir veginn. Því voru engar aðstæður til aksturs fram úr snjóruðningstækinu. Þó lögregla hafi ekki getað merkt á uppdrátt hvar áreksturinn varð á veginum, né teiknað upp hjólför ökutækja, þá hafa vitni borið nokkuð glöggt um málsatvik. Framburður hjónanna Filippusar Björgvinssonar og Sjafnar Árnadóttur um málsatvik er mjög á sama veg. Fær framburður þeirra um aksturslag Filippusar fullan stuðning í framburði Kristjáns Helga Hafsteinssonar, farþega í bifreiðinni IA-882, sem ekið var á eftir bifreið þeirra hjóna, en hann segir að bifreiðin NL-099 er Filippus ók, hafi verið á hægri ferð og á réttum vegarhelmingi er bifreiðin mætti snjóruðningstækinu. Þessi lýsing fær einnig stoð í framburði Gunnars Kristins Ólafssonar, ökumanns snjóruðningstækisins, sem segir Filippus reyndar hafa vikið bifreiðinni NL-099 vel til hliðar og út í vegöxl er hún mætti snjóruðningstækinu. Vitnin Lárus Ingi Magnússon og Erlingur Sigurgeirsson, er voru í bifreiðum sem ekið var á eftir bifreið ákærða í bílalestinni á eftir snjóruðningstækinu, báru báðir að aksturslag ákærða fyrir ákeyrslu hefði verið óvarlegt, en hann hefði ekið afar nálægt snjóruðningstækinu og nokkrum sinnum beygt inn á miðjan veg, eins og hann hygðist freista þess að aka fram úr snjóruðningstækinu. Vitnið Lárus Ingi bar raunar að hann hefði árangurslaust með ljósagjöf reynt að vara ákærða við umferð á móti, en vitnið Erlingur sagði að sér hefði „fundist” sem bifreið ákærða hefði verið við hlið snjóruðningstækisins er árekstur varð. Vitnin Arnar Þór Emilsson og Lilja Rún Bjarnadóttir, er voru farþegar í bifreið ákærða, báru bæði að ákærði hefði ekki reynt framúrakstur. Arnar Þór bar þó að ákærði hefði ekið „of innarlega á veginum” er árekstur varð, án þess að vita ástæðu þess og Lilja Rún sagðist halda að ákærði hefði ekið á röngum vegarhelmingi er árekstur varð. Þá kom raunar fram hjá ákærða við lok skýrslugjafa fyrir dómi að hann hefði ekki þekkt vel til aksturseiginleika bifreiðarinnar PZ-704, sem var svokölluð breytt jeppabifreið og „hafa á tilfinningunni” að bifreiðin hafi „kippt sér úr hjólförunum” vegna þess að hann bremsaði. Af framburði framangreindra vitna verður því ekki annað séð en að ákærði hafi ekið bifreiðinni á öfugum vegarhelmingi er árekstur varð, þó ekki verði fullyrt að ákærði hafi verið að reyna að aka fram úr snjóruðningstækinu. Framburður vitnisins Lilju Rúnar Bjarnadóttur um að líklega hefði snjóruðningstækið hægt ferðina skömmu fyrir árekstur fær ekki stoð í framburði annarra vitna, en vitnið Gunnar Kristinn Ólafsson, ökumaður snjóruðningstækisins, kvaðst hafa ekið á jafnri ferð.
Ekki er fallist á það með verjanda ákærða að lagaákvæði þau sem ákæruvaldið vísar til séu svo óljós að ekki sé unnt að heimfæra háttsemi ákærða undir þau, enda margdæmt um þessi ákvæði. Akstursaðstæður voru ekki góðar og kröfðust þess að ökumenn sýndu sérstaka varúð. Hálka var, myrkur og barst snjókóf yfir veginn frá snjóruðningstækinu svo blint var fyrir þá sem óku of nálægt tækinu. Þó ekki verði talið með öruggum hætti sannað að ákærði hafi reynt framúrakstur og miðað sé við að snjóruðningstækið hafi lítillega hægt ferðina skömmu fyrir árekstur, þá bar ákærða að halda sig vel á hægri vegarkanti og í hæfilegri fjarlægð frá snjóruðningstækinu. Samkvæmt framburði vitna gerði ákærði það ekki, heldur ók ákærði afar gáleysislega með þeim afleiðingum sem getið er um í ákæru. Háttsemi ákærða er því nægilega lýst í ákæru og einnig réttilega heimfærð undir 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 14. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Hins vegar telst samkvæmt framansögðu ekki fullsannað að ákærði hafi einnig brotið a lið 2. mgr. 20. gr. umferðarlaga.
Ákærði hefur unnið sér til refsingar samkvæmt 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Við ákvörðun refsingar og fullnustu hennar er tekið sérstaklega tillit til þess að ákærði hefur ekki áður gerst sekur um refsivert brot.
Refsing ákærða er ákveðin fangelsi í einn mánuð, en fresta skal fullnustu fangelsisrefsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 1971940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Þá skal ákærði greiða 50.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja, en sæta ella fangelsi í 12 daga.
Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, skal ákærði greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Ólafs Sigurgeirssonar, hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur.
Ólafur Börkur Þorvaldsson, dómstjóri, kveður upp þennan dóm.
Dómsorð:
Ákærði, Guðmundur Óli Gunnarsson, sæti fangelsi í einn mánuð, en fresta skal fullnustu fangelsisrefsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði 50.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja, en sæti ella fangelsi 12 daga.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ólafs Sigurgeirssonar, hæstaréttarlögmanns 80.000 krónur.