Hæstiréttur íslands
Mál nr. 431/2007
Lykilorð
- Börn
- Forsjá
- Gjafsókn
|
|
Miðvikudaginn 23. apríl 2008. |
|
Nr. 431/2007. |
M(Dögg Pálsdóttir hrl. Berglind Svavarsdóttir hdl.) gegn K (Valborg Þ. Snævarr hrl.) |
Börn. Forsjá. Gjafsókn.
M og K deildu um forsjá tveggja dætra sinna. Talið var að báðir aðilar væru hæfir til að fara með forsjá dætranna og þeim liði vel hjá þeim báðum. Með hliðsjón af áliti tveggja sálfræðinga sem dómkvaddir voru í málinu og öðrum gögnum var ekki talið tilefni til að hagga mati héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, um að það væri dætrunum fyrir bestu að lúta forsjá K.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. ágúst 2007. Hann krefst þess að sér verði dæmd forsjá dætra aðila, A og B, og að stefndu verði gert að greiða einfalt meðlag með þeim frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs þeirra. Jafnframt krefst áfrýjandi þess að með dómi verði kveðið á um inntak umgengnisréttar stefndu við dæturnar. Hann krefst og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt.
Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð nokkur ný gögn og eru þeirra á meðal matsgerðir Gunnars Hrafns Birgissonar sálfræðings 25. og 27. nóvember 2007, sem dómkvaddur var í Héraðsdómi Reykjavíkur að beiðni áfrýjanda eftir uppsögu héraðsdóms til að kanna afstöðu dætra aðilanna til framtíðarbúsetu, meðal annars með því að leggja fyrir þær nauðsynleg próf. Einnig hefur verið lagt fyrir Hæstarétt endurrit af skýrslu matsmannsins fyrir héraðsdómi, svo og vottorð Ingvars Kristjánssonar læknis varðandi stefndu og endurrit af skýrslu hans fyrir héraðsdómi. Þá hafa verið lögð fram bréf og umsagnir frá kennurum og íþróttaþjálfurum stúlknanna.
Fram er komið, að báðir aðilar eru hæfir til að fara með forsjá dætra sinna og að þeim líður vel hjá þeim báðum. Af gögnum málsins er ljóst að dæturnar standa vel að vígi og eru í góðu jafnvægi. Það var niðurstaða héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, að það væri stúlkunum fyrir bestu að lúta forsjá stefndu. Með hliðsjón af áliti þeirra tveggja sálfræðinga, sem dómkvaddir hafa verið til matsstarfa í málinu, og öðrum gögnum þess er ekki tilefni til að hagga þessu mati héraðsdóms. Samkvæmt þessu og með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, K, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 400.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júlí 2007.
Mál þetta, sem dómtekið var 25. júní sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af M, [...], Reykjavík, á hendur K, [...], Reykjavík, með stefnu birtri 15. nóvember 2006.
Dómkröfur stefnanda eru þær að honum verði með dómi falin forsjá barna hans og stefndu, þeirra A, [...], og B, [...], til heimilis að [...], Reykjavík, til 18 ára aldurs þeirra.
Þá er þess krafist að dæmt verði að stefndu beri að greiða stefnanda einfalt meðlag með A og B, til 18 ára aldurs þeirra.
Jafnframt gerir stefnandi þá kröfu að kveðið verði á um inntak umgengnisréttar stefndu við A og B, samkvæmt nánari lýsingu í stefnu.
Loks er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefndu eru þær að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda í málinu. Þá er gerð krafa um að samningur aðila frá 16. febrúar 2000 verði úr gildi felldur og henni falin forsjá dætranna B, [...], og A, [...].
Þá er gerð krafa um einfalt meðalmeðlag eins og það ákvarðast af Tryggingastofnun ríkisins hverju sinni, með hvorri dætranna um sig, frá dómsuppsögu til fullnaðs átján ára aldurs þeirra. Gerð er krafa um að dómurinn ákveði inntak umgengnisréttar dætranna við það foreldranna sem ekki fær forsjá.
Þá er gerð krafa um málskostnað úr hendi stefnanda samkvæmt málskostnaðarreikningi, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Málsatvik
Aðilar máls þessa hófu sambúð á árinu 1996 og eignuðust þau á sambúðartímanum stúlkumar A, fædda 1997, og B, fædda 1999. Samvistaslit urðu milli aðila í febrúarmánuði árið 2000. Gengið var frá staðfestingu á sambúðarslitum hjá sýslumanninum í Reykjavík 16. febrúar 2000 og sömdu aðilar um sameiginlega forsjá barnanna og að þau skyldu eiga lögheimili hjá stefndu. Skyldi stefnandi greiða með hvoru barni um sig einfalt meðalmeðlag eins og það ákvarðast af Tryggingastofnun ríkisins hverju sinni til átján ára aldurs. Var umgengni ákveðin aðra hvora helgi.
Með samkomulagi, gerðu í maí 2004, ákváðu aðilar að umgengni skyldi vera vikulega til skiptis hjá aðilum og var jafnframt í samkomulaginu ákvæði um tilhögun umgengni um jól og áramót. Hafði stefnandi verið búsettur á D en í tengslum við breytta umgengni flutti hann í E, sama hverfi og stefnda bjó í. Hefur fyrirkomulag umgengni verið óbreytt síðan.
Stefnda og sambýlismaður hennar hafa fest kaup á stærra húsnæði í F og flutt þangað og hafa telpurnar gengið þar í skóla frá síðustu áramótum.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 22. desember 2006, var hafnað kröfum aðila, hvors um sig, að fá forsjá dætra sinna til bráðabirgða.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir kröfu sína, um að honum verði fengin forsjá barnanna A og B, á því að það sé börnunum fyrir bestu að honum verði falin forsjá þeirra, sbr. 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003.
Stefnandi kveðst hafa verið í mjög nánum tengslum við dætur sínar frá fæðingu þeirra og síðastliðin tvö og hálft ár hafi þær verið í umgengni hjá honum heila viku á móti viku hjá stefndu og því alfarið til jafns við stefndu. Þá hafi stefnandi oft þurft að grípa inn í og hafa stúlkurnar hjá sér til lengri eða skemmri tíma vegna geðrænna vandamála stefndu. Stefnandi hafi búið í sömu götu og stefnda í rúm tvö ár, en hann flutti frá D á árinu 2004 til þess að geta verið nær börnum sínum og til þess að geta gripið inn í ef þörf krefði vegna veikinda stefndu, svo og haft rýmri umgengni við þær. Stefnandi telur sig því vera í mun betri tengslum við börnin en stefnda. Þá hafi stefnandi einnig mun betri skilning á þörfum barnanna en stefnda. Stefnandi láti sig uppeldismál barnanna miklu varða og hafi lagt mikið á sig til að skapa þeim það öryggi sem þau hafi búið við. Stúlkurnar hafi gengið í leikskóla og síðar grunnskóla í E og stundað fimleika hjá G, auk þess að stunda aðrar tómstundir, og eigi þær vini og kunningja í hverfinu. Stefnandi telur það algjörlega gagnstætt hagsmunum barnanna að flytja í annað byggðarlag og því börnunum fyrir bestu að honum verði falin forsjá þeirra þar sem hann geti tryggt þeim stöðugleika í þeirra umhverfi að öllu leyti. Stefnandi sé í sambúð með H, sem sé leikskólakennari, og hafi þau nýlega eignast barn. Stefnandi sé smiður og reki fyrirtækið [...] ásamt föður sínum og sé reglusamur í hvívetna.
Stefnandi telur stefndu ekki hæfa til þess að sjá um börnin. Stefnda sé 75% öryrki vegna geðrænna vandmála en hún sé greind með persónuleikaröskun, þunglyndi, þráhyggju og áráttu, auk einkenna átröskunar. Stefnda hafi oft þurft að leggjast inn á geðdeild Landspítalans og sé í daglegri göngudeildarmeðferð á Hvíta bandinu. Stefnda hafi gert nokkrar sjálfsvígstilraunir. Stefnda virðist ekki hafa góðan skilning á þörfum barnanna og virðist setja sína eigin hagsmuni í fyrirrúm en ekki barnanna.
Stefnandi telur vilja barnanna standa til að vera hjá sér.
Stefnandi byggir kröfu sína um meðlag úr hendi stefndu með börnunum á framfærsluskyldu foreldra, sbr. 53. gr. barnalaga nr. 76/2003. Um heimild dómara til að kveða á um meðlagsskyldu í málinu vísar stefnandi til 4. mgr. 34. gr. laganna.
Stefnandi byggir kröfu sína um að kveðið verði á um inntak umgengnisréttar stefndu og barnanna á 4. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Áskilur stefnandi sér rétt til þess að leggja fram tillögur sínar um umgengni síðar, svo og gera breytingar á þeim, allt fram til dómtöku málsins, sbr. 1. mgr. 41. gr. barnalaga nr. 76/2003.
Stefnandi telur nauðsynlegt, verði gripið til varna í málinu, að dómari skipi sérfróðan aðila til að kanna aðstæður aðila sem og hæfni þeirra til að fara með forsjá barnanna á grundvelli 3. mgr. 42. gr. barnalaga. Er þess óskað að dómari kveði á um að kostnaður af ofangreindri gagnaöflun greiðist úr ríkissjóði, sbr. 4. mgr. 42. gr. laganna.
Krafa um málskostnað byggist á XXI. kafla laga 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. gr. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun byggist á lögum 60/1988 þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt vegna þjónustu sinnar. Stefnandi máls þessa sé ekki virðisaukaskattsskyldur og sé honum því nauðsyn að fá skattinn tildæmdan úr hendi stefndu.
Málsástæður og lagarök stefndu
Stefnda byggir kröfur sínar um forsjá og meðlag á 34. gr. laga 76/2003 enda telur hún hagsmunum telpnanna best borgið í sinni umsjá. Á heimili stefndu búi yngri systir telpnanna en tengsl þeirra systra séu mjög góð innbyrðis sem og tengsl stefndu og sambýlismanns hennar við dæturnar. Sé fjölskyldan mjög samhent og ríki mikil reglusemi á heimilinu varðandi allt sem börnunum viðkomi, reglur séu skýrar, vel hugað að mataræði og svefntímum.
Mótmælt sé því sem fram komi í stefnu að tengsl stefnanda við dæturnar hafi verið náin allt frá fæðingu. Þvert á móti telur stefnda hann fyrst hafa byrjað að sýna þeim áhuga eftir sambúðarslit aðila. Þá sé því mótmælt að stefnandi hafi nokkurn tímann þurft að grípa inn í og hafa stúlkurnar hjá sér vegna veikinda stefndu. Hið rétta sé að þegar stefnda hafi veikst hafi hún ávallt haft sjálf frumkvæði að því að koma telpunum fyrir.
Stefnda hafi náð mjög góðum tökum á sjúkdómi sínum eins og fram komi í framlögðu læknisvottorði og hafi hann engin áhrif á forsjárhæfni hennar. Sé rangt, sem fram komi í stefnu, að stefnda fari daglega í göngudeildarmeðferð. Hið rétta sé að stefnda fari þrisvar í viku á göngudeild, þar sem hún taki þátt í listmeðferð einu sinni í viku en tvisvar í viku sé hún í hópmeðferð. Hafi meðferðin tekist það vel að hún uppfylli ekki lengur skilyrði þeirrar greiningar sem leiddu til meðferðarinnar, hún hafi því náð góðum bata. Sé vísað til framlagðs læknisvottorðs í því sambandi. Verði því ekki í máli þessu byggt á neinum sjónarmiðum um meint vanhæfi eins og gert sé í stefnu.
Aðstæður stefndu til að hafa forsjá séu góðar. Hún og fjölskyldan sé flutt í hentugt og rúmgott eigið húsnæði. Eigi telpurnar þar sérherbergi og sé aðstaðan sérstaklega valin með tilliti til aðstæðna barnanna. Í framlögðu söluyfirliti vegna eignarinnar komi fram góð lýsing á aðstæðum.
Stefnda sé nú í námi við Kennaraháskóla Íslands í [...] og gangi vel með námið. Hún sé í sambúð með J og hafi sú sambúð staðið um tveggja ára skeið. J starfi hjá [...]. Fjölskylda stefndu búi á [...] og sé hún í góðu sambandi við sitt fólk. Fari hún á sumri hverju norður með börnin í heimsókn.
Ákveðið hafi verið að telpurnar lykju skólaönninni í skólanum í E. Telpurnar hafi heimsótt hinn nýja skóla og hafi stefnda staðið að öllu leyti mjög vel að því að kynna þeim nýjar og breyttar aðstæður. Hafi telpurnar byrjað í skólanum eftir áramótin. Fyrir liggi að eldri telpan hafi átt í vissum félagslegum erfiðleikum í fyrri skóla og telur stefnda breytinguna geta gert henni gott. Ætlunin sé að hún haldi áfram í fimleikum í G. Yngri telpan sé full tilhlökkunar, hún hafi ekki sýnt fimleikum áhuga en vilji frekar reyna aðrar íþróttir.
Stefnda telur engan vafa leika á því að vilji telpnanna standi til áframhaldandi búsetu hjá sér enda hafi hún ávallt verið aðalumönnunarforeldri þeirra. Þannig hafi stefnda alfarið séð um að fara með börnin til læknis, tannlæknis og klippingu og í reynd borið ábyrgð á öllum helstu foreldraskyldum gagnvart börnunum. Sé vísað til yfirlýsingar O, fyrrum sambýlismanns stefndu og barnsföður, þessu til stuðnings en hann styðji hana mjög í máli þessu.
Aðstæður stefnanda séu miklum mun lakari. Hann og sambýliskona hans búi í fjögurra herbergja íbúð en á heimilinu búi þrettán ára gamall sonur sambýliskonunnar, sem sé ofvirkur og með athyglisbrest eftir því sem stefnda best viti, og ungt barn þeirra. Sé ljóst að engar aðstæður séu þar fyrir telpurnar og ekki gert ráð fyrir þeim og þeirra þörfum á heimilinu.
Í tengslum við erfiðleika hjá sambýliskonu stefnanda við meðgöngu og fæðingu hafi telpurnar verið hjá stefndu um þriggja vikna skeið samfellt, að beiðni stefnanda, sem virðist treysta stefndu mjög vel til að annast telpurnar. Veki því furðu sá hluti málatilbúnaðar stefnanda sem lúti að meintri vanhæfni stefndu og sem sérstaklega sé mótmælt af hálfu stefndu.
Fái stefnda forsjá telpnanna muni hún áfram stuðla að góðri og víðtækri umgengni telpnanna við stefnanda eins og hún hafi gert frá sambúðarslitum aðila. Telur stefnda, í ljósi reynslunnar, líklegra að telpurnar haldi góðu heildarsambandi við báða foreldra fái hún forsjána.
Sé málatilbúnaði stefnanda almennt mótmælt í heild sinni.
Niðurstaða
Í máli þessu deila aðilar um forsjá dætra sinna A, sem fædd er 1997 og B, sem fædd er 1999, sbr. ákvæði 34. gr. barnalaga nr. 76/2003.
Undir rekstri málsins var Ragna Ólafsdóttir sálfræðingur dómkvödd til að framkvæma sálfræðilegt mat vegna ágreinings aðila um forsjá barnanna. Þess var óskað að eftirfarandi atriði yrðu sérstaklega könnuð í tengslum við matsgerðina:
1. Aðstæður foreldra, persónulegir eiginleikar og hæfni þeirra til að fara með forsjá stúlknanna.
2. Tengsl stúlknanna við foreldrana og þeirra við þá verði könnuð, svo og tengsl stúlknanna við hálfsystkini sín.
3. Teknir verði saman kostir og gallar þess að fela hvorum aðila um sig forsjá stúlknanna.
Matsgerð er dags. 12. apríl 2007.
Í niðurstöðu hennar segir svo:
„1. Aðstæður foreldra, persónulegir eiginleikar og hæfni þeirra til að fara með forsjá stúlknanna.
Faðir hefur búið börnum sínum fjölskylduvænt heimili þar sem allur aðbúnaður er fullnægjandi. Faðir rekur eigið fyrirtæki og er ágætlega settur fjárhagslega. Hann er í sambúð og á með sambýliskonu sinni ungan son. Faðir er reglusamur maður og samkvæmt persónuleikaprófum mælist hann ekki með neinn alvarlegan geðsjúkdóm heldur er hann maður með jafnaðargeð, sjálfstæður, hagsýnn og ábyrgur. Þeir persónulegu eiginleikar sem fram komu á prófinu eru í samræmi við sýn matsmanns á eiginleika föður í gegnum viðtöl við hann sjálfan og aðra sem rætt var við. Fram til ársins 2004 annaðist faðir að jafnaði börn sín aðra hverja helgi en með samningi undirrituðum í maí 2004 skiptist umönnun barna til jafns á milli foreldra. Faðir hefur heilbrigða sýn á uppeldi barna og er fær um að framfylgja góðum uppeldisaðferðum. Faðir þekkir skaphöfn dætra sinna vel sem m.a. kemur fram í samræmdri lýsingu hans á henni og annarra er koma að uppeldi þeirra. Móðir hefur einnig búið sér, eiginmanni og dætrum fallegt og fjölskylduvænt heimili. Móðir hefur helgað sig uppeldi barna sinna og verið heimavinnandi frá fæðingu elstu dótturinnar. Móðir er gift og á aðra dóttur úr fyrra sambandi. Móðir hefur átt við heilsubrest að stríða undanfarin fimm ár en samkvæmt viðtali og vottorði frá geðlækni hennar sem hefur fylgt henni þessi ár hefur henni með mikilli eljusemi tekist að vinna sig út úr þeim og náð góðri heilsu. Jafnframt er það mat læknisins að veikindi hafi ekki sett mark sitt á börnin. Persónuleikapróf leiða ekki í ljós að hún eigi við alvarlegan geðsjúkdóm að stríða en þess ber að geta að K hefur svarað prófinu á þann veg að hún hefur leitast við að fegra mynd sína töluvert sem ekki er óalgengt að fram komi í forsjárdeilum. Niðurstöður persónuleikaprófs gefa mynd af einstaklingi sem kann að vera barnalegur og sjálfmiðaður og ofurviðkvæmur fyrir gagnrýni annarra. Í svarmynstri hennar komu fram vísbendingar um reiði og andstöðu gagnvart fjölskyldu eða samfélaginu. Matsmaður gat ekki greint annað í viðtölum við hana en að henni hefði tekist að vinna allvel úr gremju og vonbrigðum gagnvart fólki sem brást henni í bernsku. Reiði var ekki hægt að greina gagnvart föður sem höfðar þetta mál, fremur vonbrigði. Einnig leiddi prófið í ljós að félagsleg tengsl eru yfirborðskennd hjá fólki með slíka prófmynd. Vegna vanrækslu í uppvexti móður kemur það heim og saman við mat matsmanns að móðir hleypir ekki fólki auðveldlega að sér og á erfitt með að mynda djúp tengsl fyrir utan þá sem standa henni næstir. Móðir eins og faðir lifir reglusömu lífi og leggur mikla áherslu á að framfylgja góðum uppeldisvenjum. Hún ber einnig gott skynbragð á persónuleika dætra sinna. Báðir foreldrar eru hæfir uppalendur. Bæði eru þau tengd börnum sínum sterkum böndum og sýna þeim ástúð og umhyggju. Þeir hafa báðir metnað til að standa sig vel sem uppalendur.
2. Eiginleikar stúlknanna og tengsl þeirra við foreldrana og tengsl þeirra við hálfsystkini sín.
Mat á eiginleikum og líðan stúlknanna fór fram með viðtölum við þær sjálfar, foreldra þeirra, stjúpforeldra, stjúpsystkini, kennara og með prófum. A er 9 ára stúlka. Hún er rólegt og yfirvegað barn og nokkuð alvörugefið. Hún er nákvæm og vandvirk og stendur sig vel í því sem tekur sér fyrir hendur. Fram kemur í viðtölum við uppalendur að hún er hlýðin stúlka sem tekur fyrirmælum vel og ekki var hægt að greina að hún eigi erfitt með að standa með sjálfri sér. Þó að hún sé ekki sérlega opin tilfinningalega þá tengist hún sinni nánustu fjölskyldu sterkum böndum. Tengsl við foreldra eru afar jákvæð og eðlileg og hún ber traust til þeirra. Mjög eðlilegt systrasamband er á milli hennar og yngri systra þar sem er tekist á enda nálægar í aldri. Tengslin við litla bróður eru sterk og einkennast bara af jákvæðum tilfinningum. Hún lítur upp til stjúpbróður sem er henni góður og hjálpsamur. B er samkvæmt áliti allra sem henni kynnast kraftmikið og sjálfstætt barn. Hún er tilfinningalega frjálsari en eldri systir hennar, á auðveldara með að tjá tilfinningar. Hún er örugg í samskiptum sínum við fjölskyldumeðlimi og er tengd foreldrum sínum sterkum böndum, einnig stjúpforeldrum, þó sérstaklega stjúpmóður. Systrasambandið við eldri og yngri systur er eðlilegt og þar sem skiptast á skin og skúrir. B líkt og eldri systir hennar er hrifin af stjúpbróður sem hún hefur ánægju af að umgangast og tekur að einhverju leyti sér til fyrirmyndar. Litli bróðir er í uppáhaldi hjá henni eins og eðlilegt getur talist.
3. Kostir og gallar þess að fela hvorum aðila um sig forsjá stúlknanna.
Kostir við forsjá hvors aðila eru þeir sömu hjá báðum foreldrum þar sem börnin hafa verið til jafns hjá báðum aðilum undanfarin ár og vel hefur verið hlúð að þörfum barnanna á báðum heimilum og sterk tengsl til staðar milli foreldra og barna. Á báðum heimilum eru hálfsystkini sem stelpurnar eru nátengdar. Tengsl við stjúpforeldra og stjúpsystkini eru stelpunum mikilvæg. Í hugum stúlknanna eiga þær tvö heimili þar sem áherslur í uppeldi eru ekki ólíkar. Breytt forsjá fylgir sennilega minni umgengni við forsjárlaust foreldri og því fylgir óhjákvæmilega röskun fyrir börnin burtséð hvort um föður eða móður væri að ræða. Í ljósi þessa er það afar mikilvægt að stelpunum verði gert kleift að hafa ríka umgengni við forsjárlaust foreldri og hálfsystkini sín þar megin.“
Stefnandi byggir kröfu sína um forsjá á nokkrum atriðum. Hann telur stefndu vanhæfa vegna geðrænna erfiðleika. Hann kveðst oft hafa þurft að grípa inn í uppeldi og umönnun dætra sinna vegna þessa og engin trygging sé fyrir því að þessir geðrænu erfiðleikar séu að baki eða taki sig ekki upp aftur. Þá telur hann að skort hafi á samráð varðandi flutninga í annað sveitarfélag og að sú ákvörðun endurspegli ekki síst að móðir sé að hugsa um eigin hag frekar en dætranna. Þá kemur það fram að hann telur að stefnda gæti tekið upp á því að flytja á ný, sem geri öll samskipti við dæturnar erfiðari. Þá felur þessi flutningur að hans mati í sér veigamikla röskun á högum dætranna, þær séu rifnar upp úr því hverfi sem þær hafi alist upp í, þar sem þær eiga vini og stunda tómstundir, þar sem þeim líður vel og vilja vera. Hann telur högum þeirra betur borgið í sinni forsjá. Hann hafi haft systurnar til jafns við stefndu í þrjú ár og forsjá hans sé heilbrigð, stöðug og í kunnuglegu umhverfi.
Stefnda hafnar málatilbúnaði stefnanda. Hún neitar því ekki að hafa átt við geðræna erfiðleika að stríða. Þeir hafi hins vegar ekki bitnað á dætrunum og hún hafi átt frumkvæði að því að leita eftir aukinni þátttöku stefnanda í umönnun og uppeldi systranna þegar ástandið var sem verst. Þá kveðst hún hafa lagt mikið í það að ná góðum bata, meðferð hennar sé á lokastigi og geðlæknir hennar segi í vottorði að hún uppfylli ekki lengur skilyrði þeirrar sjúkdómsgreiningar sem hún hafði. Hún segir að þau hafi lengi viljað komast í stærra húsnæði til þess að geta búið börnunum betra umhverfi en ekki tekist að finna neitt við hæfi í því hverfi, þar sem þau bjuggu. Þá hafi stefnandi sjálfur verið með vangaveltur um flutning í það sveitarfélag sem hún nú býr. Hún segir flutning hafa gengið vel og stelpurnar séu sáttar, þær aðlagist mjög vel og vegni vel. Hún segir ekkert því til fyrirstöðu að þær stundi þær tómstundir sem þær stunduðu í sínu gamla hverfi enda sé stutt að fara með því að keyra þær á milli.
Ekki er um það deilt að stefnda hafi glímt við geðræna erfiðleika. Ágreiningur er hins vegar um hvort þessir geðrænu erfiðleikar séu að baki og hvort þeir hafi truflað uppeldi systranna eða séu líklegir til þess að gera það í framtíðinni, s.s. vegna sjálflægni eða skorts á innsæi stefndu í þarfir annarra. Í vottorði geðlæknis og viðtali matsmanns við sama geðlækni kemur fram það mat að stefnda uppfylli ekki lengur greiningarviðmið jaðarpersónuleikaröskunar og sýni fjölmörg batamerki, s.s. bætta sjálfsmynd, mun minni kvíða og þráhyggju og hafi ekki skaðað sig í langan tíma. Einnig kemur fram að hún hafi lært að virða mörk sín betur og hafi góða stjórn á geðhrifum.
Hins vegar kom fram í aðilaskýrslu stefndu fyrir dómi að hún tekur enn geðlyf og gerir ráð fyrir að þurfa að taka þau áfram um óákveðinn tíma. Því mætti lýsa stöðu mála þannig að sjúkdómseinkenni séu ekki fyrir hendi, þeim sé haldið í skefjum, en ef aðstæður breyttust til hins verra gætu þau gert vart við sig á ný. Í niðurstöðum matsmanns á persónuleika stefndu segir að persónuleikaprófið leiði ekki í ljós hún eigi við alvarlegan geðsjúkdóm að stríða. Hún fegri mynd sína hins vegar og sýni einstakling sem kann að vera barnalegur, sjálfmiðaður, með yfirborðsleg félagsleg tengsl. Hún telur hana þó bera gott skynbragð á persónuleika dætra sinna. Umsögn um persónuleika föður er einvörðungu jákvæð.
Það er mat dómsins að ekki sé forsenda til þess að efast um hæfni stefndu til þess að sinna dætrum sínum. Nægjanleg gögn liggja ekki fyrir um hvort veikindi hennar hafi haft eða muni hafa áhrif á dæturnar, aðra hvora eða báðar. Stefnda verður að teljast viðkvæm fyrir mögulegum endurteknum veikindum en getur með þeim ráðum sem hún hefur verið að tileinka sér og nýta haldið sér á góðu róli.
Um áhyggjur stefnanda af veigamikilli röskun á högum dætranna vegna flutnings stefndu í annað bæjarfélag, þá sýna umsagnir kennara telpnanna ekki annað en að þeim hafi vegnað vel í nýja skólanum á vormissiri. Ekki verður séð að kvartanir þeirra hafi verið umfram það sem eðlilegt má teljast við flutning barna. Svo virðist sem aðstandendur hafi allir lagst á eitt að auðvelda telpunum aðlögun að nýjum aðstæðum.
Báðir foreldrar eru að sögn matsmanns hæfir uppalendur. Þau eru bæði tengd börnum sínum sterkum böndum og sýna þeim ástúð og umhyggju. Bæði hafa þau einnig metnað til að standa sig vel sem uppalendur. Telpurnar eru báðar tengdar yngri hálfsystkinum sínum og eldri stjúpbróður tilfinningaböndum. Tengsl við stjúpforeldra og systkini eru þeim báðum mikilvæg. Á báðum heimilum hefur verið hlúð að þörfum þeirra og sterk tengsl til staðar á milli foreldra og barna. Undanfarin ár hafa þær dvalið til jafns á báðum heimilum. Í hugum stúlknanna eiga þær því tvö heimili þar sem áherslur í uppeldi eru ekki ólíkar. Því er mikilvægt að þeim verði gert kleift að hafa ríka umgengni við það foreldri sem ekki fær forsjána og systkini sín þeim megin.
Ágreiningslaust er að forsjá barnanna skuli vera óskipt hjá öðru hvoru foreldranna.
Þegar allt framangreint er virt er það niðurstaða dómsins með vísan til 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003 að samningur aðila frá 16. febrúar 2000 verði úr gildi felldur og að stefnda skuli fara með forsjá barnanna A og B. Við þá ákvörðun er litið til þess að stefnda er á góðum batavegi vegna veikinda sinna. Hún hefur sýnt styrk sinn í því að bæta andlega heilsu sína og félagsleg tengsl og með því að hefja nám við Kennaraháskóla Íslands. Forsjá í höndum stefndu hefur minni röskun í för með sér fyrir börnin, sem hafa aðlagast á nýjum stað eftir flutning. Þá virðist stefnda vera sveigjanlegri að því er umgengni varðar.
Með vísan til 4. mgr. 34. gr. barnalaga ber að kveða á um meðlag og inntak umgengnisréttar foreldra og barna í máli þessu. Stefnandi skal greiða með báðum börnunum einfalt meðalmeðlag eins og það ákvarðast af Tryggingastofnun ríkisins hverju sinni frá dómsuppsögu til fullnaðs átján ára aldurs þeirra. Umgengni aðila við börnin skal vera þannig að börnin verði hjá stefnanda aðra hverja viku frá miðvikudegi til mánudags.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Stefnda hefur gjafsókn í máli þessu samkvæmt bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 4. janúar 2007. Allur gjafsóknarkostnaður greiðist úr ríkissjóði þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefndu, Valborgar Þ. Snævarr hrl., sem ákveðst 647.368 kr. með virðisaukaskatti. Með vísan til 3. og 4. mgr. 42. barnalaga ákveðst að kostnaður vegna matsgerðar að fjárhæð 603.000 kr. samkvæmt reikningi skuli greiðast úr ríkissjóði.
Með vísan til 1. mgr. 44. gr. barnalaga frestar áfrýjun dóms ekki réttaráhrifum hans.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Ásu Guðmundsdóttur og Herði Þorgilssyni sálfræðingum.
DÓMSORÐ:
Stefnda, K, skal fara með forsjá barnanna A, [...], og B, [...].
Stefnandi, M, greiði með báðum börnunum einfalt meðalmeðlag eins og það ákvarðast af Tryggingastofnun ríkisins hverju sinni frá dómsuppsögu til fullnaðs átján ára aldurs þeirra.
Umgengni aðila við börnin skal vera þannig að börnin verði hjá stefnanda aðra hverja viku frá miðvikudegi til mánudags.
Málskostnaður fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefndu, Valborgar Þ. Snævarr hrl., 647.368 kr. Kostnaður vegna matsgerðar að fjárhæð 603.000 kr. samkvæmt reikningi greiðist úr ríkissjóði.
Áfrýjun dóms frestar ekki réttaráhrifum hans.