Hæstiréttur íslands
Mál nr. 93/2015
Lykilorð
- Líkamsárás
- Samverknaður
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 14. janúar 2016. |
|
Nr. 93/2015.
|
Ákæruvaldið (Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari) gegn Reyni Þór Jónassyni (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) (Karl Georg Sigurbjörnsson hrl. réttargæslumaður) |
Líkamsárás. Samverknaður. Skaðabætur.
R var sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa í sameiningu með X ráðist á A, X með því að slá A hnefahögg í andlitið svo hann missti meðvitund og R með því að slá A liggjandi meðvitundarlausan á jörðinni tvö hnefahögg í andlitið, allt með þeim afleiðingum að A hlaut lífshættulega höfuðáverka. Með hliðsjón af niðurstöðu yfirmatsgerðar, sem aflað var eftir að hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp, og að virtu mati héraðsdóms á framburði R, X og vitna var talið að þeir ættu jafna sök á áverkum A. Við ákvörðun refsingar R var litið til 1., 2. og 6. töluliðar 1. mgr. og 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Var refsing hans ákveðin fangelsi í fjögur ár og honum ásamt X gert að greiða A óskipt miskabætur að fjárhæð 1.500.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir og Garðar Gíslason og Haraldur Henrysson fyrrverandi hæstaréttardómarar.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. desember 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað en að því frágengnu að refsing hans verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð.
Brotaþoli, A, krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 3.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
I
Nokkur ný skjöl hafa verið lögð fyrir Hæstarétt. Þar á meðal er læknisvottorð B sérfræðilæknis 31. júlí 2015 varðandi A, þar sem fram kemur að hann sé með varanlegar afleiðingar af lífshættulegum heilaskaða og honum hafi nær ekkert farið fram síðastliðið hálft ár. Horfur á frekari bata hljóti að teljast mjög takmarkaðar.
Þá liggur fyrir úrskurður héraðsdóms 16. september 2015 þar sem fallist var á beiðni ákærða um dómkvaðningu yfirmatsmanna. Skyldu þeir svara eftirtöldum spurningum: „1. Hversu mikla áverka hlaut brotaþoli við að vera sleginn hnefahöggi í andlitið og falla við það aftur á bak úr standandi stöðu með höfuðið í malbik? 2. Hversu mikla áverka hlaut brotaþoli við að vera sleginn tveimur hnefahöggum í andlitið eftir framangreint fall?“
Til að framkvæma matið voru kvödd C endurhæfingar- og taugalæknir, D heila- og taugalæknir og E endurhæfingarlæknir. Í niðurstöðu matsgerðar 1. nóvember 2015 segja yfirmatsmenn að þeir telji að „ekki sé hægt að aðgreina hversu mikla áverka brotaþoli hlaut við að vera sleginn hnefahöggi í andlitið af meðákærða og falla við það aftur á bak úr standandi stöðu í malbik og hljóta við það högg á höfuðið og hversu mikla áverka brotaþoli hlaut við að vera sleginn tveimur hnefahöggum í andlitið af yfirmatsbeiðanda eftir framangreint fall. Leggja yfirmatsmenn þannig að jöfnu varanlegar afleiðingar högga meðákærða og yfirmatsbeiðanda.“
II
Ákærði reisir kröfu sína um ómerkingu héraðsdóms öðrum þræði á því „að málsvörn ákærða hafi verið áfátt í héraði þar sem verjandi ákærða hafi ekki fengið afhenta myndbandsupptöku úr eftirlitsmyndavél“. Fram kemur í gögnum málsins að ákærða og verjanda hans var ítrekað gefinn kostur á að kynna sér og skoða umrædda myndupptöku. Horfðu þeir tvívegis saman á upptökuna og verjandinn auk þess við aðalmeðferð málsins þar sem bókað var að verjendur ákærðu hefðu sérstaklega bent á atriði sem þeim fannst skipta máli varðandi þátt skjólstæðinga sinna. Af varnarskjali verjanda ákærða sést og að vörn var að engu áfátt af þessum sökum. Að þessu virtu eru ekki efni til að fallast á ofangreinda ómerkingarkröfu.
III
Niðurstaða héraðsdóms, sem skipaður var þremur dómurum, er byggð á mati á trúverðugleika framburðar ákærðu og vitna með hliðsjón af öðrum gögnum. Ný gögn í málinu styrkja þessa niðurstöðu. Verður henni ekki haggað og með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur að öllu leyti að því er tekur til ákærða.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Reynir Þór Jónasson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 2.358.670 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 1.240.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Karls Georgs Sigurbjörnssonar hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 4. desember 2014.
Mál þetta, sem þingfest var 15. september 2014 og dómtekið 17. nóvember sl., var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 12. september 2014, á hendur X, fæddum [...], [...] ríkisborgara, með lögheimili í [...] í [...], og Reyni Þór Jónassyni, kt. [...], Goðabraut 18, Dalvíkurbyggð, „fyrir stórfellda líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 17. júlí 2014, á hafnarsvæðinu í Grundarfirði, í sameiningu ráðist á A, kennitala [...], ákærði X með því að slá A hnefahögg í andlitið svo hann missti meðvitund og skall aftur fyrir sig og lenti harkalega með höfuðið á jörðinni, og ákærði Reynir Þór sem fylgdi á eftir með því að slá A liggjandi og meðvitundarlausan á jörðinni tvö hnefahögg í andlitið svo höfuðið skall harkalega á jörðinni, allt með þeim afleiðingum að hann hlaut lífshættulega og alvarlega höfuðáverka, þar með talið mar á höfuðleðri ofan við hægra eyra á stóru svæði, mjúkpartabólgur utan við hægra kinnbein og meira áberandi bólgur, mar og blæðingu hægra megin aftarlega á hvirfli utan höfuðkúpu, beinbrot hægra megin aftarlega á gagnaugablaðsbeini, sem gekk áfram niður í höfuðkúpubotn og aftur að hnakkabeinshluta höfuðkúpu, dreift mar innan höfuðkúpu í hægra neðanverðu heilahveli með bólgu og miðlínutilfærslu heila yfir til vinstri með aukinn bjúg og blæðingar hægra megin, sem leiddi til heilaskaða, meðal annars með verulegum minnisskerðingum og skertri hæfni til skilnings og tjáningar, auk máttminnkunar og skertrar líkamlegrar hreyfigetu.“
Er þetta talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 111. gr. laga nr. 82/1998.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Í málinu gerir brotaþoli einkaréttarkröfu á hendur ákærðu, aðallega kröfu um að ákærðu verði dæmdir in solidum til að greiða miskabætur að fjárhæð 3.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. júlí 2014 þangað til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu en síðan með dráttarvöxtum til greiðsludags samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Til vara krefst brotaþoli þess að ákærðu verði dæmdir pro rata til að greiða miskabætur að áliti dómsins og hlutfallslega eftir sök hvors um sig með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 17. júlí 2014 þangað til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu en síðan með dráttarvöxtum til greiðsludags samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6 gr. sömu laga. Þá er einnig krafist greiðslu þóknunar réttargæslumanns.
Ákærðu neita sök.
Ákærði X krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum sakargiftum. Til vara krefst hann þess að verknaður hans verði heimfærður undir 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og honum verði gerð vægasta refsing er lög leyfa og að gæsluvarðhald sem hann hefur sætt frá 17. júlí 2014 komi að öllu leyti í stað refsingar eða a.m.k. til frádráttar henni. Þá krefst ákærði þess að einkaréttarkröfu brotaþola verði vísað frá dómi en til vara að hann verði sýknaður af henni og til þrautavara að krafan verði lækkuð stórlega. Loks krefst ákærði X málsvarnarlauna hver sem úrslit málsins verða og að málsvarnarlaun og annar sakarkostnaður málsins verði lagður á ríkissjóð.
Ákærði Reynir gerir þá kröfu aðallega að hann verði sýknaður af þeirri háttsemi sem lýst er í ákæru en til vara krefst hann vægustu refsingar er lög leyfa. Hann krefst þess ennfremur að gæsluvarðhaldsvist hans komi til frádráttar dæmdri refsingu. Ákærði krefst þess að einkaréttarkröfu brotaþola verði vísað frá dómi en til vara að hann verði sýknaður af henni og til þrautavara að krafan verði lækkuð stórlega. Loks krefst ákærði Reynir þess að málsvarnarlaun skipaðs verjanda verði greidd úr ríkissjóði.
Undirritaður dómsformaður fékk málið til meðferðar 18. september 2014 samkvæmt 6. mgr. 15. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla.
I
Klukkan 02:28 þann 17. júlí 2014 var lögreglunni á Snæfellsnesi tilkynnt um að maður hefði orðið fyrir líkamsárás við höfnina í Grundarfirði. Forsaga málsins er sú að skipið [...] landaði í Grundarfirði 16. júlí 2014 og um kvöldið fóru flestir skipverjar, þ. á m. ákærðu, á veitingastaðinn [...] í Grundarfirði og fengu sér pizzu og bjór. Dvöldu þeir þar uns staðnum var lokað um klukkan eitt eftir miðnætti. Brotaþoli, sem er ekki einn af áhöfninni og býr í Grundarfirði, var staddur á veitingastaðnum. Fram hefur komið í framburði vitna og ákærðu fyrir dóminum að brotaþoli hafi verið töluvert drukkinn og uppivöðslusamur og verið að leita eftir slagsmálum. Hann hafi gengið milli borða, reynt að fá menn í sjómann og drukkið úr glösum áhafnarmeðlima. Vitnið F, sem vann á veitingastaðnum umrætt kvöld, sagði að brotaþoli hefði verið mjög drukkinn og verið að reyna að fá einhvern til þess að slást við sig. Um klukkan eitt eftir miðnætti hafi hún komið öllum út af staðnum en haldið brotaþola eftir í 5-10 mínútur til þess að róa hann niður. Það síðasta sem brotaþoli hafi sagt við hana áður en hann yfirgaf veitingastaðinn var að hann ætlaði að lemja einhvern eða drepa í kvöld.
Eftir að staðnum hafði verið lokað gengu skipverjar sem leið lá niður á höfn í tveimur eða þremur hópum. Ákærði Reynir var í síðasta hópnum og er sá hópur var kominn að versluninni [...] dró brotaþoli þá uppi. Kom þar til deilna milli ákærða Reynis og brotaþola en vitnið G gekk á milli. Sagði ákærði Reynir að deila þeirra hefði snúist um að brotaþoli hafi enn verið að leita eftir slagsmálum við skipverja en hann hafi verið að reyna að koma brotaþola í skilning um að þeir hefðu engan áhuga á slíku, heldur vildu komast til skips. Sagði vitnið G að honum hafi virst deilum þeirra lokið en þá hafi hann skyndilega fengið hnefahögg frá brotaþola á gagnauga með þeim afleiðingum að gleraugu hans duttu í jörðina og brotnuðu. Ekki kom til frekari ryskinga vegna þessa heldur hélt hópurinn för sinni áfram niður á bryggju og um borð í skipið. Voru allir skipverjar komnir um borð þegar brotaþoli kemur, eins og sést á eftirlitsmyndavél, gangandi í humátt á eftir þeim kl. 02:13:38. Tvær upptökuvélar eru staðsettar á bryggjunni og tekur önnur upp mynd til vesturs í átt að bænum en hin myndavélin tekur við því sjónarhorni og tekur upp mynd til austurs í átt að skipinu. Brotaþoli sést ganga upp landganginn og er að stíga um borð þegar vitnið G gengur á móti honum ásamt öðrum skipverja og meinar brotaþola að koma um borð. Fleiri skipverjar bætast í hópinn og sést brotaþoli síðan ganga niður landganginn kl. 02.16.23. Staldraði brotaþoli við hjá lyftara og talaði þar um stund við kunningja sinn, vitnið H. Sagði vitnið í skýrslu sinni fyrir dómi að brotaþoli hefði beðið sig um að skutla sér og sagt að skipverjar væru vitleysingjar, talað um líkamsmeiðingar og að einhver myndi deyja í kvöld. Ekki gat vitnið gefið frekari skýringar á þessum orðum brotaþola eða hvað hann ætti við en sagði jafnframt að brotaþoli ætti ekki vana til að tala svona. Brotaþoli gekk síðan upp bryggjuna í átt að bænum og er kominn í töluverða fjarlægð frá skipinu þegar sést til ákærða X kl. 02.23.00 ganga frá borði og að ákærði Reyni kemur hlaupandi á eftir meðákærða. Ganga ákærðu síðan saman á eftir brotaþola og sést ákærði X klæða sig í hanska. Þegar brotaþoli verður ákærðu var stansar hann og snýr við á móti þeim kl. 02.24.14. Eftirlitsmyndavélin tekur ekki upp næstu 28 sekúndur og sést því ekki upphaf átakanna. Þegar upptaka byrjar á ný eru slagsmál byrjuð og sést þá að ákærðu sækja báðir að brotaþola og ganga högg á milli. Brotaþoli er þó bersýnilega í vörn og berast slagsmálin í hvarf við gám sem staðsettur er á bryggjunni. Er þeir koma aftur inn í mynd má sjá að ákærði X veitir brotaþola högg í höfuðið með þeim afleiðingum að hann fellur aftur fyrir sig og skellur með höfuðið í götuna án þess að bera fyrir sig hendur eða reyna að draga úr fallinu á annan hátt. Liggur hann hreyfingarlaus á bakinu með útréttar hendur frá líkama þegar ákærði Reynir krýpur við hlið hans og slær hann tveimur höggum í andlitið með krepptum hnefa. Í þann mund kemur vitnið I aðvífandi á lyftaranum. Loks má sjá nokkra áhafnarmeðlimi koma hlaupandi að en ákærðu ganga í burtu í átt að skipinu. Á leiðinni má sjá ákærðu slá saman öxlum og klappa hvor öðrum á herðar. Sjúkraflutningamenn og læknir komu fljótt á vettvang og hlúðu að brotaþola. Brotaþoli var fluttur á sjúkrahús en síðan með þyrlu á bráðadeild Landspítalans.
II
Á grundvelli 1. mgr. 128. gr. laga nr. 88/2008 um sakamál óskaði lögreglan á Akranesi eftir dómkvaðningu matsmanna til þess að skýra út afleiðingar hinnar meintu líkamsárásar. Dómkvaddir voru J, heila- og taugaskurðlæknir, og K taugalæknir. Í matsgerð þeirra 8. september 2014 segir m.a. að þegar vakthafandi heilsugæslulæknir á Grundarfirði hafi komið að brotaþola hafi hann verið meðvitundarlaus og hafi læknirinn sett í hann barkarennu til að tryggja öndunarveginn. Við komu á Landspítala hafi brotaþoli verið svæfður. Hann hafi verið stöðugur í lífsmörkum og verið lagður á gjörgæsludeild. Nokkrum klukkustundum síðar hafi brotaþoli sýnt merki um lífshættulegan háan innankúpuþrýsting. Hann hafi gengist undir aðgerð þar sem þrýstingsmælir hafi verið settur inn í heila. Þrýstingsmælingin hafi sýnt hættulegan háan innankúpuþrýsting og því hafi brotaþoli gengist undir stærri bráðaaðgerð þar sem stór hluti höfuðkúpubeins hægra megin hafi verið fjarlægður, heilahimnur opnaðar og þannig hafi verið skapað aukið rými fyrir hinn bólgna heila. Brotaþoli hafi verið vistaður á gjörgæsludeild í 13 daga. Í upphafi hafi hann verið með háan innankúpuþrýsting þrátt fyrir aðgerðina en síðan hafi hægst á og jafnvægi náðst. Unnt hafi verið að losa hann úr öndunarvél á 10. degi. Framan af hafi meðvitundarástand hans verið verulega skert en farið batnandi síðustu dagana á gjörgæslu. Við útskrift af gjörgæslu 1. ágúst 2014 hafi brotaþoli verið lamaður á vinstri hlið en hann hafði getað fylgt fyrirmælum og svarað einföldum já- og neispurningum. Þann 27. ágúst 2014 hafi brotaþoli verið fluttur af heila- og taugaskurðdeild í Fossvogi og yfir á endurhæfingardeild LSH að Grensási til áframhaldandi þjálfunar og alhliða endurhæfingar. Teymismeðlimir, einkum sjúkraþjálfari og iðjuþjálfi, hafi reynt að fá brotaþola til þess að vinna í alhliða þjálfun fyrst um sinn stutta stund í senn vegna mjög takmarkaðs úthalds og mikils óróa en allt frá komu brotaþola hafi hann verið mjög órólegur. Matsmenn telja nánast engar líkur á því að brotaþola muni batna það mikið að hann geti átt eðlilegt líf. Ógjörningur sé að svara í dag hversu miklum bata megi búast við miðað við útbreiðslu heilamars og blæðinga í stórum hluta hægra heilahvels. Útilokað sé að brotaþoli muni ekki hafa neina skerðingu á hreyfigetu né erfiðleika við að skilja talað mál eða tjá sig. Brotaþoli sé enn sem komið er með of mikla vitræna skerðingu til þess að hægt sé að gera ítarlegt taugasálfræðimat sem sé eitt helsta hjálpartæki við nánari greiningu á vitrænni skerðingu. Þess vegna sé nánast ógerningur að svara með fullnægjandi hætti spurningu um hverjar mögulegar framtíðarhorfur brotaþola séu til þess að skilja, tjá sig og eiga möguleika á eðlilegri hreyfigetu.
Matsmenn telja mjög sennilegt að brotaþoli hafi rotast eða misst meðvitund við fyrsta höggið áður en hann féll aftur fyrir sig. Samkvæmt myndbandi virðist sem ákærði X hafi veitt honum rothögg og brotaþoli hafi þannig verið búinn að missa meðvitund áður en hann féll í götuna. Rökin fyrir þessu séu þau að brotaþoli falli skyndilega varnarlaust í götuna með útrétta handleggi án þess að bera fyrir sig hendur, axlir eða draga undan höfuðið við fallið. Þá telja matsmenn yfirgnæfandi líkur á því að brotaþoli hafi verið meðvitundarlaus þegar ákærði Reynir kýldi hann með tveimur hnefahöggum í andlitið. Myndbandið sýni að hann liggi máttlaus á bakinu og sýni enga viðleitni til að verja sig. Líkaminn kippist aðeins við þegar höggin dynja á honum.
Matsmenn telja útilokað að brotaþoli hafi hlotið áverka á höfði eftir að lyftaragaffli hafi verið ekið á höfuð hans eins og ákærði X heldur fram. Stálbiti hefði rofið húð hans og þá hefði stórséð á höfði brotaþola. Engin merki hafi verið um að stálbiti hafi lent á höfði brotaþola.
Matsmenn telja ekki tímabært að meta varanlegar afleiðingar áverka brotaþola. Matsmenn taka fram að ef ekki hafi verið komið að brotaþola strax hefði hann látist af völdum áverkans. Hann hefði látist ef ekki hefði verið gerð barkaþræðing og ef fyrstu þættir gjörgæslu hefðu ekki hafist á Grundarfirði og í sjúkraþyrlunni á leið til Reykjavíkur. Hann hefði ennfremur örugglega látist vegna mikillar hækkunar á innankúpuþrýstingi ef ekki hefði verið gerð heilaskurðaðgerð þar sem hluti höfuðkúpubeins var fjarlægt. Innankúpuþrýstingurinn hafi verið það mikill að brotaþola hafi vart verið hugað líf þrátt fyrir að þessi aðgerð hafi verið framkvæmd. Lífi brotaþola hafi ítrekað verið bjargað með skjótum og réttum viðbrögðum á bráðastigi fyrir og eftir komu á Landspítalann.
Matsmenn segja að samantekið hafi sjúkrasaga og þróun leitt í ljós miðlungs alvarleg lömunareinkenni með skertri hreyfigetu í öllum líkamanum, sem þó sé mun meiri í vinstri líkamshelmingi, ásamt verulegri skerðingu á flestum eða öllum sviðum vitrænnar getu, þ.m.t. erfiðleikum við að skilja og framkvæma fyrirmæli, skertum hæfileika til að átta sig á stað og stund og ekki hvað síst gríðarlega skertri lestrargetu, lestrarskilningi og stærðfræðigetu.
Í matsbeiðni eru matsmenn spurðir eftirfarandi spurningar: Hversu mikla áverka má telja að A hafi hlotið við eftirfarandi: a) Við að falla með höfuðið í malbik úr standandi stöðu. b) Við að fá tvö hnefahögg eftir fallið sem að framan greinir. Þess er óskað í matsbeiðni að greint verði eins skýr lega og unnt er milli afleiðinga a) og b) hér að framan.
Í matsgerð segir um þetta að það sé ómögulegt að greina hversu miklir áverkar komu við a) eða b). A getur hafa fengið nánast alla áverkana við a) eða b) sem undirstriki afgerandi þátt beggja í heildaráverkum A. Það sé ekki hægt að færa vísindalega rök fyrir hversu miklir áverkar hlutust hlutfallslega við áverka a) og hlutfallslega við áverka b). Síðan segir í matsgerð:
„Það hefði verið hægt að svara þessari spurningu með nokkurri vissu ef við hefðum getað tekið tölvusneiðmynd og þrýstingsmælt eftir a) og síðan aftur eftir b). Önnur leið að komast að öruggri og áreiðanlegri niðurstöðu hefði verið að skoða þrjá hópa einstaklinga; einn hóp sem varð fyrir áverka sem líkjast sem allra mest áverka a); annan hóp sem varð fyrir áverka sem líkist sem allra mest áverka b); ásamt þriðja hópnum sem varð fyrir báðum áverkunum a) og b), í þessari röð. Þá, en ekki fyrr, hefði verið hægt að gefa áreiðanlegt mat á því hvaða áverki orsakaði hvaða heilaáverka. Með öðrum orðum; þar sem hvorug þessara rannsókna er framkvæmanleg, er ekki raunhæfur möguleiki að geta sagt eitthvað með vissu um samband hvers þáttar atburðarásarinnar á heildarmynd heilaskaðans.“
Jafnframt segir í matsgerð að þótt ákveðin óvissa ríki um hve hátt hlutfall af heilaáverkanum í heild hafi orsakast af hverjum einstökum þætti, sé það samdóma álit matsmanna að það sé nánast útilokað að enginn heilaskaði hafi orðið við þátt a) og jafn ólíklegt að enginn heilaskaði hafi orðið við þátt b). Ef orsakakeðja sé skoðuð, þar með talin áhrif áverkanna á meðvitund brotaþola, og ef hinir mismunandi áverkaþættir séu bornir saman við helstu rannsóknarniðurstöður (einkum staðsetningu höfuðkúpubrots og heilamars ásamt heilabólgum), séu yfirgnæfandi líkur á því að samverkan eftirfarandi áverkaþátta hafi haft afgerandi þýðingu fyrir umfang skaðans, þ.e. rothögg þegar brotaþoli stendur uppi, áverkum þegar hann skellur með höfuðið í malbikið og áverkar frá tveimur hnefahöggum ásamt ávekum þegar höfuðið skellur í tvígang í malbikið. Þessir áverkar séu nægileg og fullnægjandi skýring á öllum þáttum í skaðamynd brotaþola. Þar sem sýnt hafi verið án nokkurs efa að báðir ákærðu hafa átt afgerandi þátt í orsakakeðjunni, sem samtals myndi heildaráverkann, sé engin leið að greina á milli þess hvort annar árásaraðilinn hafi átt meiri þátt í heildarskaðanum en hinn.
Í þinghaldi 6. október 2014 var þess beiðst af ákærða Reyni að dómkvaddur yrði matsmaður til þess að meta afleiðingar þess að ákærði Reynir fékk höfuðhögg frá brotaþola í áflogunum. Var óskað eftir mati á því hvort það höfuðhögg hafi valdið heilahristingi hjá ákærða sem leitt hafi til skertrar dómgreindar hans, skert hæfni hans til þess að leggja mat á aðstæður eða valdið óeðlilegri ákvarðanatöku. Ennfremur hvort höfuðmeiðsli ákærða Reynis 25. júlí 2013 hafi valdið því að hann sé viðkvæmari fyrir höfuðhöggum en annars.
Í matsskýrslu L, heila- og taugaskurðlæknis, 24. október 2014, segir m.a. að samkvæmt áverkavottorði 19. júlí 2014 hafi ákærði Reynir verið með mar og eymsli á hægra kinnbeini og nefi og það geti svarað til umrædds höggs frá brotaþola. Matsmaður telur að ekkert hafi komið fram sem styðji að þetta högg hafi orsakað heilahristing hjá ákærða Reyni. Matsmaður taldi ólíklegt að heilahristingur gæti skert dómgreind. Það séu ekki venjuleg einkenni heilahristings og í heild megi segja að heilahristingur slævi og dragi úr getu frekar en að valda brenglun á heilastarfsemi eins og dómgreind. Niðurstaða matsmanns er því sú að ákærði Reynir hafi ekki orðið fyrir heilahristingi við högg frá brotaþola þar sem hann hafi ekki minnisskerðingu í aðdraganda höggsins og ekki heldur hefðbundin einkenni eftir að átökum lýkur. Af myndbandinu megi ráða að ákærði Reynir hafi engin einkenni um heilahristing.
Vitnið B endurhæfingarlæknir hefur annast brotaþola undanfarið í endurhæfingu. Hann sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að brotaþoli væri mikið skertur andlega. Hann væri gleyminn, framkvæmdalítill, skorti allt frumkvæði, gæti skrifað nafnið sitt en ekki meir, hefði ekki skilning á tölum og gæti því ekki séð um fjármál sín. Aðalvandamálið væri þó skortur á innsæi því að hann gerði sér ekki grein fyrir minnkandi getu. Varðandi líkamlegan styrk sagði vitnið að brotaþoli væri með lömun í vinstri hlið en gæti þó gengið óstuddur og án hjálpartækja. Hann gæti hugsanlega unnið á vernduðum vinnustað en gæti ekki búið sjálfstætt því að hann þyrfti aðstoð við að elda mat, halda upp reglu o.s.frv. Hann gæti því ekki lifað eðlilegu lífi án aðstoðar.
III
Ákærði X skýrði á sama veg frá hjá lögreglu og fyrir dómi. Hann kvaðst hafa hitt brotaþola á veitingastaðnum fyrr um kvöldið og hafi brotaþoli spurt hann hvaðan hann væri og hann sagst vera frá [...]. Brotaþoli hafði þá sagt að hann vildi gjarnan slást við [...]. Hann hafi sagt honum að hann hefði ekki áhuga á að slást. Brotaþoli hafi verið að ögra honum allt kvöldið og reynt að fá hann til að slást. Hann hafi verið hávær og fyrirferð í honum, drukkið úr glösum annarra, og reynt að fá menn til að slást við sig. Kvartað hafi verið við starfsfólk staðarins sem hafi reynt að róa brotaþola en án árangurs. Þegar veitingastaðnum var lokað um klukkan eitt eftir miðnætti hafi áhöfnin haldið á stað niður á bryggju. Þeir hafi gengið í tveimur hópum og kveðst ákærði hafa verið í fyrri hópnum og gengið um borð í skipið. Seinni hópurinn hafi komið um 10 mínútum seinna um borð. Ákærði X sagði að hann hafi farið upp í heilsuræktarstöðina í skipinu og ætlað að fara að hreyfa sig aðeins. Þess vegna hafi hann verið með hanska á höndum þegar til átakanna kom. Hann hafi heyrt mikinn hávaða um borð og farið niður og spurt hvað væri um að vera. Hafi hann þá hitt vitnið G, sem hafi verið með brotin gleraugu og glóðarauga, og spurt vitnið hvað hefði komið fyrir. Vitnið G hafi sagt honum að það hafi verið brotaþoli sem hefði slegið hann og brotið gleraugun. Hann hafi þá ákveðið að fara á eftir brotaþola í þeim tilgangi, annars vegar að segja honum að hann mætti ekki koma um borð í skipið og hins vegar að segja honum að hann yrði að borga gleraugun. Hann hafi byrjað að tala um gleraugun en brotaþoli þá samstundis slegið til hans. Brotaþoli hafi reynt tvisvar til þrisvar sinnum að slá til ákærða X en ekki hitt. Ákærði kvaðst einnig hafa reynt að slá til baka en ekki heldur hitt brotaþola. Ákærði X sagðist þá hafa tekið eftir því að ákærði Reynir hafi blandað sér í slagsmálin með því að öskra á þá að hætta og reyna að ganga á milli. Síðan hafi slagsmálin verið milli þeirra þriggja þar til brotaþoli hafi dottið aftur fyrir sig. Hann sagði að högg frá honum hafi ekki valdið því að brotaþoli féll aftur fyrir sig á malbikið heldur hafi hann ýtt brotaþola. Hafi brotaþoli síðan legið á malbikinu þar til lyftarinn kom. Ekki kvaðst ákærði X hafa tekið eftir því hvort ákærði Reynir hefði slegið til brotaþola eftir að hann lá í jörðinni. Ákærði X sagði að lyftaramaðurinn hafi komið á mikilli ferð og líklegast hafi hann rekið gaffalinn á lyftaranum í höfuð brotaþola.
Í skýrslu sinni fyrir dómi sagði ákærði Reynir Þ. Jónasson m.a. að brotaþoli hafi verið töluvert ölvaður á veitingahúsinu og byrjað fljótlega með vesen og leitað eftir slagsmálum við alla. Brotaþoli sé stór og mikill og hafi verið að reyna að ota mönnum í sjómann, heilsað þeim og þá kreist á þeim hendurnar, stelandi af þeim bjór af borðum og reynt að fá einhvern til að slást við sig. Ákærði hafi verið í síðasta hópnum sem gekk til skips. Brotaþoli hafi gengið á eftir hópnum og náð honum við verslunina [...] í Grundarfirði. Hann hafi byrjað með leiðindi og reynt að fá menn í slagsmál. Ákærði kveðst hafa reynt að tala um fyrir honum og segja honum að þeir vildu ekki slást heldur vildu þeir ganga til skips og fara að sofa. Brotaþoli hafi slegið vitnið G og brotið gleraugu hans en það hafi ekki haft eftirmála að því leyti að skipverjar hafi haldið för sinni áfram án frekari afskipta brotaþola að sinni. Eftir að brotaþola hafði verið snúið við í landganginum og verið á braut hafi vitnið G farið að segja ákærða X frá því að brotaþoli hefði kýlt sig og brotið gleraugu sín. Við það hafi fokið í ákærða X og hann sagt að brotaþoli skyldi fá að borga gleraugun. Hafi X rokið af stað til að tala við brotaþola og kvaðst Reynir hafa farið á eftir ákærða X til þess að reyna að koma í veg fyrir slagsmál. Kvaðst hann hafa verið búinn að koma í veg fyrir slagsmál við brotaþola allt kvöldið og ekki ætlað að láta það gerast nú. Ákærði X hafi sagt við brotaþola að hann yrði að borga fyrir gleraugun en X hafi varla verið búinn að sleppa orðinu þegar brotaþoli hafi slegið til hans. Þeir hafi byrjað að kýla hvor annan en ákærði Reynir kveðst hafa öskrað á þá að hætta og stigið á milli. Ákærði telur að hann hafi fengið högg frá brotaþola því að hann hafi misst minnið og muni ekki frekar frá atburðinum, aðeins brot og brot. Sagðist ákærði Reynir hafa meiðst eftir högg frá brotaþola en hann muni þó ekki eftir því að hafa fengið höggið. Hann muni ekki frekar eftir atburðum fyrr en nokkru síðar er hann standi í setustofunni í bátnum.
Ákærðu ávörpuðu dóminn í lok málflutnings og kom fram hjá þeim báðum að þeir harma mjög hvernig komið er fyrir brotaþola. Þetta hafi verið hræðilegur atburður og það líði vart sá dagur að þeir hugsi ekki um líðan brotaþola og hvernig þetta allt gat gerst.
Vitnið I sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að hann hafi verið að vinna við löndun á lyftaranum við skipshlið þegar hann hafi heyrt skipverja tala um að einhverjir væru að fara að ráðast á brotaþola. Hann hafi þá séð tvo menn ganga á eftir brotaþola sem hann þekki og sé æskuvinur hans. Hann taldi að ákærðu og brotaþoli hefðu þá verið í um 150 metra fjarlægð frá honum þegar slagsmálin byrjuðu. Hann kvaðst ekki hafa séð upphaf átakanna, aðeins séð að þrír menn voru að slást og honum virtist að brotaþoli væri að hörfa undan ákærðu. Hann kvaðst síðan hafa séð brotaþola detta aftur fyrir sig og annan ákærðu slá hann tveimur hnefahöggum þar sem brotaþoli lá í götunni.
Fleiri vitni komu fyrir dóminn og gáfu skýrslu en ekki þykir þörf á að rekja framburð þeirra að öðru leyti en því að þau staðfestu þá frásögn ákærðu að brotaþoli hefði verið fyrirferðamikill og uppivöðslusamur á veitingastaðnum fyrr um kvöldið og verið að leita eftir slagsmálum.
IV
Ákærðu er gefin að sök líkamsárás með því að hafa í sameiningu ráðist að brotaþola, ákærði X með því að slá brotaþola hnefahöggi í andlitið svo að hann missti meðvitund og skall aftur fyrir sig og lenti harkalega með höfuðið á jörðinni, og ákærði Reynir Þ. Jónasson með því að slá brotaþola tveimur höggum í höfuðið þar sem hann lá meðvitundarlaus í jörðinni. Brotaþoli hlaut alvarlega og lífshættulega höfuðáverka sem leiddu til heilaskaða og eru meiðsli hans og sjúkrasaga rakin hér að framan. Heilaskaði hans leiddi til verulegrar skerðingar á minni, skertrar hæfni hans til skilnings og tjáningar, auk minnkunar á mætti og skertrar líkamlegrar hreyfigetu.
Aðalsönnunargagn ákæruvaldsins er upptaka úr eftirlitsmyndavél sem staðsett er við höfnina í Grundarfirði. Efni myndbandsins er rakið hér að framan. Sést m.a. á myndskeiðinu er brotaþoli kemur gangandi að skipinu, stuttu eftir að skipverjar voru komnir um borð, leitar uppgöngu en er neitað að koma um borð, snýr við og gengur frá skipinu, staldrar stutta stund við hjá kunningja sínum, vitninu H, sem er að vinna við löndun á lyftara, heldur síðan áfram göngu sinni upp bryggjuna í átt að bænum. Þegar hann er kominn í töluverða fjarlægð frá skipinu, líklegast um 150 metra, sést að ákærðu veita honum eftirför. Á leiðinni klæðir ákærði X sig í hanska. Þegar brotaþoli verður ákærðu var snýr hann við og gengur á móti þeim. Ekki sést á myndbandinu hver hóf átökin því að á upptökuna vantar 28 sekúndna myndskeið um upphafið. Þegar upptaka fer í gang á ný má sjá að aðilar sækja hver að öðrum með hnefahöggum á víxl. Brotaþoli er þó bersýnilega í vörn og hörfar undan. Berast átökin í stutta stund í hvarf við gám, sem staðsettur er á bryggjunni, en þegar þeir koma aftur úr hvarfi sést að ákærði X slær brotaþola í höfuðið með þeim afleiðingum að hann fellur í götuna. Það er álit matsmannanna J, heila- og taugaskurðlæknis, og K taugalæknis að ákærði X hafi með þessu höggi veitt brotaþola rothögg og að hann hafi verið búinn að missa meðvitund er hann féll í götuna vegna þess að hann ber hvorki fyrir sig hendur eða axlir né reynir að koma í veg fyrir að höfuðið skelli í malbikið. Þá sést að í beinu framhaldi krýpur ákærði Reynir við hlið brotaþola og kýlir hann tvisvar með krepptum hnefa í höfuðið. Brotaþoli liggur þá hreyfingar- og rænulaus á jörðinni með hendur útréttar en slæst til þegar höggin dynja á honum. Í sama mund kemur vitnið I aðvífandi á lyftara.
Þar sem upphaf átakanna náðist ekki á mynd og vitni eru ekki til frásagnar um það verður ekkert fullyrt um hvernig þau hófust. Hins vegar er ljóst að ákærðu fóru á eftir brotaþola þegar honum hafði verið vísað frá skipinu og var á leið í burtu af vettvangi. Var hann kominn í töluverða fjarlægð þegar ákærðu hófu eftirförina. Brotaþoli virtist hafa skilið að hann væri ekki velkominn um borð í skipið, og það samtal brotaþola og skipverja á landganginum fór fram án illdeilna eða átaka, þrátt fyrir það sem á undan var gengið. Enda þótt brotaþoli hafi verið ögrandi fyrr um kvöldið og verið að leita eftir slagsmálum réttlætti það ekki eftirför ákærðu og aðför þeirra að brotaþola, sérstaklega þegar allt var um garð gengið. Þegar ákærðu hófu eftirförina vissu þeir af reynslu sinni fyrr um kvöldið að brotaþoli hafði mikinn áhuga á slagsmálum. Í ljósi þess verður því að miða við að ásetningur þeirra hafi verið að stofna til slagsmála við brotaþola sem endaði með framangreindum hætti. Frásögn ákærða X um að hann hafi aðeins ætlað að ræða við brotaþola um brotin gleraugu og að hann stæði í skuld við G vegna þeirra þykir ótrúverðug í ljósi framangreinds. Þá þykir framburður ákærða Reynis ekki heldur trúverðugur um að hann hafi ætlað að koma í veg fyrir slagsmál með því að fylgja meðákærða X á vettvang. Gefur framganga hans, eins og hún birtist á upptökunni, ekki slíkt til kynna, heldur þvert á móti, t.d. þegar ákærðu ganga til skips eftir átökin og virðast ánægðir með unnið verk. Myndbandsupptakan og álit hinna dómkvöddu matsmanna tekur af öll tvímæli um að meiðsl brotaþola komu til vegna árásar og högga ákærðu. Hafna ber vörn ákærðu um að rekja megi meiðsl brotaþola að einhverju leyti til þess að gaffall lyftarans hafi rekist í höfuð brotaþola þegar hann lá meðvitundarlaus á jörðinni, enda telja matsmenn það útilokað. Þá verður einnig að hafna þeirri málsvörn ákærða Reynis að dómgreind hans hafi brenglast við höfuðhögg frá brotaþola, enda er það niðurstaða matsmannsins L, heila- og taugaskurðlæknis, að ákærði Reynir hafi ekki borið nein einkenni heilahristings eftir átökin en auk þess séu það ekki einkenni heilahristings að hann leiði til skertra dómgreindar, heldur slævi og dragi úr krafti og getu.
Dómurinn er sammála matsmönnum um að ógjörningur sé að greina á milli hversu miklir áverkar brotaþola stafi frá höggi ákærða X og hversu miklir stafi frá tveimur höggum ákærða Reynis en hinir dómkvöddu matsmenn telja að ekki sé unnt að færa vísindaleg rök fyrir slíkri sundurgreiningu. Verður því málið metið heildstætt og miðað við að samkvæmt læknisfræðilegum gögnum eigi ákærðu jafna sök á áverkum brotaþola.
Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða dómsins að sannað sé að ákærðu hafi gerst sekir um þá háttsemi sem saksókn á hendur þeim tekur til og að hún sé réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Ákærðu eru því sakfelldir fyrir hættulega líkamsárás.
Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði X ekki gerst sekur um refsivert brot. Ákærði Reynir hefur tvívegis hlotið refsingu, árið 2008 fyrir fíkniefnabrot og 30. mars 2012 fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga en þá hlaut hann fangelsisdóm í tvo mánuði, skilorðsbundið í tvö ár. Atvik í aðdraganda þess að ákærðu veittu brotaþola eftirför og slagsmál hófust voru ekki með þeim hætti að líta beri til 3. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga nr. 19/1940 við ákvörðun refsingar ákærðu þeim til málsbóta. Ákærðu réðust í félagi á brotaþola og ber því að horfa til 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga svo og til sjónarmiða að baki 1., 2. og 6. tölulið 1. mgr. sömu greinar laganna. Að þessu virtu þykir refsing ákærða X hæfilega ákveðin 4 ár og refsing ákærða Reynis 4 ár. Til frádráttar kemur gæsluvarðhaldsvist ákærðu frá 17. júlí 2014.
Af hálfu brotaþola hefur verið krafist skaðabóta úr hendi ákærðu að fjárhæð 3.000.000 króna. Í skaðabótakröfunni kemur fram að um sé að ræða kröfu um miskabætur á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Er vísað til þess að árás ákærðu á brotaþola hafi verið lífshættuleg og brotaþoli hafi orðið fyrir varanlegum skaða vegna árásarinnar. Ákærðu hafa verið sakfelldir fyrir stórfellda líkamsárás. Með ólögmætri og saknæmri háttsemi hafi þeir valdið brotaþola alvarlegu líkamstjóni og á hann því rétt á skaðabótum úr hendi þeirra. Með hliðsjón af atlögunni, afleiðingum árásarinnar og dómvenju á þessu réttarsviði þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 1.500.000 krónur. Aðalkrafa brotaþola um að ákærðu greiði honum miskabætur in solidum verður tekin til greina. Um vexti fer svo sem í dómsorði greinir en skaðabótakrafan var birt verjendum ákærðu 2. september 2014.
Ákærðu greiði sakarkostnað samkvæmt sakarkostnaðaryfirliti, málsvarnarlaun skipaðra verjenda og þóknun réttargæslumanns brotaþola, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, eins og nánar í dómsorði greinir.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari dæmir mál þetta ásamt meðdómsmönnunum Jóni Höskuldssyni og Ragnheiði Bragadóttur héraðsdómurum.
Dómsorð
Ákærði, Reynir Þór Jónasson, sæti fangelsi í 4 ár. Til frádráttar refsingu kemur óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 17. júlí 2014.
Ákærði, X, sæti fangelsi í 4 ár. Til frádráttar refsingu kemur óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 17. júlí 2014.
Ákærðu greiði brotaþola, A, óskipt miskabætur að fjárhæð 1.500.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. júlí 2014 til 2. október 2014 en með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði Reynir greiði verjanda sínum, Jóhannesi Árnasyni hdl., 2.800.000 krónur í málsvarnarlaun. Ákærði X greiði verjanda sínum, Arnari Þór Stefánssyni hrl., 2.800.000 krónur í málsvarnarlaun. Ákærðu greiði óskipt þóknun réttargæslumanns brotaþola, Gísla Kr. Björnssonar hdl., 450.000 krónur. Ákærðu greiði óskipt 923.856 krónur í annan sakarkostnað. Ákærði Reynir greiði 296.710 krónur í annan sakarkostnað. Ákærði X greiði 68.710 krónur í annan sakarkostnað.