Hæstiréttur íslands
Mál nr. 320/2006
Lykilorð
- Virðisaukaskattur
- Staðgreiðsla opinberra gjalda
- Sekt
- Lagaskil
|
|
Fimmtudaginn 10. maí 2007. |
|
Nr. 320/2006. |
Ákæruvaldið(Björn Þorvaldsson settur saksóknari) gegn Helga Jóhannssyni (Brynjar Níelsson hrl.) |
Virðisaukaskattur. Staðgreiðsla opinberra gjalda. Sekt. Lagaskil.
H var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Fyrir lá að H greiddi fyrir útgáfu ákæru upp í hluta þeirra gjaldföllnu skattskulda sem ákæra tók til og var við ákvörðun refsingar litið til þess, sbr. 1. og 3. gr. laga nr. 134/2005. Að því virtu og með vísan til nánar tilgreindra dóma Hæstaréttar var refsing hans ákveðin 16.600.000 króna sekt. Brot H voru talin meiri háttar í skilningi 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var honum gert að sæta fangelsi í 4 mánuði, en sú refsing var skilorðsbundin vegna dráttar á rannsókn málsins hjá lögreglu og þess að hann hafði ekki áður gerst sekur um refsilagabrot.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 11. apríl 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar héraðsdóms.
Ákærði krefst mildunar refsingar.
Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða fyrir brot gegn 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt með síðari breytingum og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda með síðari breytingum.
Fyrir liggur að ákærði greiddi fyrir útgáfu ákæru upp í þær gjaldföllnu skattskuldir sem ákæran tekur til og verður við ákvörðun refsingar litið til þess, sbr. 1. og 3. gr. laga nr. 134/2005, sem breyttu framangreindum refsiákvæðum. Ákæruvaldið hefur lagt fyrir Hæstarétt gögn um nánari ráðstöfun á þessum greiðslum, þar á meðal leiðréttingu vegna greiðslna vangoldins virðisaukaskatts. Samkvæmt þessum gögnum hefur ákærði greitt alls 6.707.743 krónur upp í vangoldinn virðisaukaskatt fyrir þau greiðslutímabil sem ákært er vegna. Um er að ræða greiðslu á höfuðstól samtals 5.157.984 krónur vegna greiðslutímabilanna janúar-febrúar, mars-apríl, maí-júní og júlí-ágúst 2000 og janúar-febrúar 2001, 783.750 krónur í álag, 715.139 krónur í dráttarvexti og 50.870 krónur í kostnað vegna sömu tímabila. Skuld vegna greiðslutímabilanna janúar-febrúar, mars-apríl og maí-júní 2000 var að fullu greidd. Þá voru færðar 100.217 krónur inn á höfuðstól vegna tímabilsins júlí-ágúst 2000 af 1.882.025 króna vangoldinni fjárhæð, ekkert inn á höfuðstól tímabilanna september-október og nóvember-desember 2000 og júlí-ágúst 2001, en innheimtumaður ríkissjóðs hefur ráðstafað 461.253 krónum inn á höfuðstól tímabilsins janúar-febrúar 2001 af 1.358.963 króna vangoldinni fjárhæð. Álagsgreiðslum vegna allra tímabilanna, 783.750 krónum, verður í samræmi við dómafordæmi Hæstaréttar ráðstafað upp í elstu skattskuld, sem er vegna tímabilsins júlí-ágúst 2000. Alls hafa því verið greiddar 883.967 krónur upp í 1.882.025 króna skuld vegna þessa tímabils, sem talið er samkvæmt fordæmum Hæstaréttar nema verulegum hluta af þeirri fjárhæð samkvæmt 3. gr. laga nr. 134/2005. Að sama skapi hefur ákærði staðið skil á verulegum hluta skattfjárhæðar vegna tímabilsins janúar-febrúar 2001 samkvæmt því sem áður er rakið. Ekkert hefur hins vegar fengist greitt upp í virðisaukaskattskuldir vegna greiðslutímabilanna september-október og nóvember-desember 2000 og júlí-ágúst 2001.
Ákærði hefur fyrir útgáfu ákæru greitt alls 5.202.629 krónur vegna vangoldinnar staðgreiðslu opinberra gjalda, 4.531.017 krónur í höfuðstólsgreiðslur fyrir greiðslutímabilin janúar, febrúar, mars, apríl, maí, júní, júlí, ágúst, september, október og nóvember 2000 og september 2001, 478.934 krónur í álag fyrir sömu tímabil og 192.678 í dráttarvexti. Skuld vegna greiðslutímabilanna janúar, febrúar, mars, apríl, maí, júní, júlí, ágúst, september og október 2000 var að fullu greidd. Innheimtumaður ríkissjóðs ráðstafaði ennfremur inn á skuld vegna greiðslutímabilsins september 2001 með þeim hætti að hún telst að fullu greidd. Þá voru færðar 262.334 krónur inn á höfuðstól vegna tímabilsins nóvember 2000 af 437.932 króna vangoldinni fjárhæð, en ekkert inn á höfuðstól tímabilanna desember 2000, janúar, febrúar, mars, október, nóvember og desember 2001, og janúar og febrúar 2002. Álagsgreiðslum vegna allra tímabilanna, 478.934 krónum, verður samkvæmt fordæmum Hæstaréttar ráðstafað upp í elstu skattskuld. Sama á við um staðgreiðslu af launum ákærða sjálfs vegna þeirra tímabila sem eru að fullu greidd, 739.296 krónur. Samkvæmt því verða skattskuldir vegna greiðslutímabilanna nóvember 2000, 437.932 krónur, desember 2000, 460.564 krónur, og janúar 2001, 326.957 krónur, að fullu greiddar. Upp í skattskuld vegna greiðslutímabilsins febrúar 2001, 345.074 krónur, greiðast þá 255.111 krónur, sem nemur verulegum hluta af fyrrnefndri fjárhæð samkvæmt 1. gr. laga nr. 134/2005. Ekkert hefur hins vegar fengist greitt í upp staðgreiðsluskattskuldir vegna greiðslutímabilanna mars, október, nóvember og desember 2001 og janúar og febrúar 2002.
Að öllu framangreindu virtu verður sektarrefsing ákærða ákveðin með vísan til dóma Hæstaréttar í málunum nr. 428/2005 og 469/2005, sem kveðnir voru upp 30. mars 2006, 16.600.000 krónur sem honum ber að greiða til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa en sæta ella fangelsi í átta mánuði.
Brot ákærða eru meiri háttar í skilningi 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður fangelsisrefsing sú sem ákveðin var í héraðsdómi staðfest.
Mál ákærða var sent til skattrannsóknarstjóra til rannsóknar 28. október 2002. Rannsókn skattrannsóknarstjóra hófst 26. febrúar 2003 og lá skýrsla hans fyrir 14. mars 2003. Með bréfi skattrannsóknarstjóra 17. mars 2003 var ákærða gefið færi á að tjá sig um efni hennar. Ákærði óskaði eftir fresti til þess til 15. maí 2003 og var hann veittur. Rannsókn skattrannsóknarstjóra lauk 21. maí 2003 og vísaði hann málinu til ríkislögreglustjóra til opinberrar rannsóknar 7. október 2003. Tekin var skýrsla af ákærða hjá ríkislögreglustjóra 8. júlí 2005 og ákæra var gefin út 30. ágúst 2005. Samkvæmt framangreindu hefur við rannsókn málsins hjá lögreglu orðið nokkur dráttur sem ekki hefur verið réttlættur og er hann aðfinnsluverður. Fangelsisrefsing ákærða verður af þessari ástæðu, og þeirri að ákærði hefur ekki áður gerst sekur um refsilagabrot, skilorðsbundin með þeim hætti sem ákveðið var í héraðsdómi, en ekki kemur til álita að skilorðsbinda sektarrefsingu ákærða.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málflutningslaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákvæði héraðsdóms um fangelsisrefsingu ákærða, Helga Jóhannssonar, skal vera óraskað.
Ákærði greiði 16.600.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa en sæti ella fangelsi í átta mánuði.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 339.183 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. febrúar 2006.
Mál þetta, sem dómtekið var 10. febrúar sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkislögreglustjóranum 30. ágúst 2005 á hendur Helga Jóhannssyni, kt. 170563-2049, Berjarima 35, Reykjavík, fyrir eftirtalin skatta- og hegningarlagabrot, sem framkvæmdarstjóri og stjórnarmaður í einkahlutafélaginu A [kennitala].
I. Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt.
Með því að hafa eigi staðið Tollstjóranum í Reykjavík, í samræmi við það sem lög áskilja, skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í nafni einkahlutafélagsins á árunum 2000 og 2001, samtals að fjárhæð kr. 14.358.415,- og sundurliðast sem hér greinir:
Uppgjörstímabil:
Árið 2000
Janúar febrúar kr. 941.946
Mars apríl kr. 1.537.714
Maí júní kr. 2.116.854
Júlí ágúst kr. 1.882.025
September október kr. 1.463.361
Nóvember desember kr. 3.404.154 kr. 11.346.054
Árið 2001
Janúar febrúar kr. 1.358.963
Júlí ágúst kr. 1.653.398 kr. 3.012.361
Samtals: kr. 14.358.415
Telst þetta varða við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50,1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42, 1995 og 191. gr. laga nr. 82,1998 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.
II. Fyrir brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.
Með því að hafa eigi staðið Tollstjóranum í Reykjavík, í samræmi við það sem lög áskilja, skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins á árunum 2000 til 2002, samtals að fjárhæð 6.213.711,- og sundurliðast sem hér greinir:
Uppgjörstímabil:
Árið 2000
Janúar kr. 306.148
Febrúar kr. 379.813
Mars kr. 262.188
Apríl kr. 362.172
Maí kr. 388.886
Júní kr. 364.357
Júlí kr. 313.705
Ágúst kr. 193.410
September kr. 344.741
Október kr. 397.853
Nóvember kr. 437.932
Desember kr. 460.564 kr. 4.211.769
Árið 2001
Janúar kr. 326.957
Febrúar kr. 345.074
Mars kr. 280.610
September kr. 216.114
Október kr. 254.079
Nóvember kr. 366.718
Desember kr. 79.276 kr. 1.868.828
Árið 2002
Janúar kr. 99.002
Febrúar kr. 34.112 kr. 133.114
Samtals: kr. 6.213.711
Telst þetta varða við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45, 1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Verjandi ákærða krefst þess að ákærða verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa. Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins.
Rannsókn þessa máls hófst með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins 26. febrúar 2003 til skiptastjóra þrotabús A ehf., en búið var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 20. desember 2002. Í bréfinu var tilkynnt um að rannsókn væri hafin á skilum skattaðilans á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda og innheimtum virðisaukaskatti vegna tekjuáranna 2000, 2001 og 2002. Skýrsla skattrannsóknarstjóra leiddi í ljós að fyrrum fyrirsvarsmenn skattaðilans, B og ákærði, Helgi Jóhannsson, hafi ekki skilað öllum skilagreinum og virðisaukaskattskýrslum á lögmæltum tíma til innheimtumanns ríkissjóðs. Þá leiddi rannsóknin í ljós að þau hafi ekki heldur staðið að fullu skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda og innheimtum virðisaukaskatti til innheimtumanns ríkissjóðs. Á því tímabili sem rannsóknin tók til var B stjórnarformaður skattaðilans en ákærði meðstjórnandi og framkvæmdastjóri. Með bréfi 23. maí 2003 var skýrsla skattrannsóknarstjóra send ríkisskattstjóra vegna endurákvörðunarheimilda þess embættis. Með bréfi 3. júní 2003 tilkynnti ríkisskattstjóri þá ákvörðun sína að hann hefði ekki áform um að endurákvarða skattfjárhæðir í málinu. Með bréfi 7. október 2003 var málefnum ákærða vísað til rannsóknar hjá lögreglu.
Ákærði hefur skýrt svo frá að hann hafi á árinu 1997 komið inn í fyrirtæki foreldra sinna. Um áramótin 1998 til 1999 hafi hann ætlað að selja hluta sinn í félaginu og kaupandi verið fundinn. Hafi þeir gert ,,heiðursmannasamkomulag” sín á milli í þeim efnum. Það hafi hins vegar ekki gengið eftir og þá verið ákveðið að faðir ákærða myndi draga sig út úr félaginu með þeim hætti að ákærði tæki yfir hans hluta. Eftir að ákærði hafi komið aftur inn í reksturinn hafi honum orðið ljóst að staða fyrirtækisins væri mun verri en hann hefði órað fyrir. Ársreikningur fyrir árið 1999 hafi sýnt að tap félagsins hafi verið um 30.000.000 króna. Ákærði hafi þá brugðið á það ráð að taka persónuleg lán til að leggja inn í reksturinn í von um að bæta hag félagsins. Ákærði kvaðst hafa tekið tvö 3.000.000 króna lán í desember 1999, annað hjá Sjóvá-Almennum hf. en hitt hjá Búnaðarbanka Íslands. Því til viðbótar hafi hann 12. janúar 2000 tekið 5.000.000 króna lán hjá Búnaðarbankanum. Eiginkona ákærða hafi einnig tekið persónulegt lán að fjárhæð tæpar 6.000.000 króna 18. apríl 2000 hjá Búnaðarbankanum. Ákærði kvað fjármuni er fengist hafi út á öll þessi lán hafa farið inn í rekstur félagsins. Ákærði kvað stöðu sína og eiginkonu sinnar hafa orðið það slæma að þau hafi ekki getað staðið skil á greiðslum á þeim lánum sem þau hafi tekið persónulegu og hafi svo farið að íbúð þeirra hafi verið seld nauðungarsölu.
Ákærði kvaðst hafa séð um daglega fjármálastjórn A ehf. Kvaðst hann ekki gera athugasemdir við upphæðir er fram kæmu í ákæru. Hann kvað ástæðu þess að rekstri var haldið áfram vera þá að hann hafi lengi haldið í vonina um að hann næði að rétta úr kútnum. Ákærði kvaðst hafa greitt laun allra starfsmanna sinna sem og laun í uppsagnarfresti bókara sem starfaði hafi hjá honum. Hafi hann ákveðið að halda frekar eftir staðgreiðslu opinberra gjalda. Ákærði kvaðst telja að starfsmenn félagsins hafi verið 5 til 6 að jafnaði. Hafi félagið hætt rekstri í desember 2001. Sá árstími hafi verið erfiður fyrir starfsfólk og ákærði því kosið að greiða þeim laun. Sökum launagreiðslna nái rekstur inn á árið 2002 en félagið hafi þó í raun hætt rekstri 2001. Ákærði kvaðst sjálfur oft hafa verið án launa á meðan á rekstrinum stóð.
Ákærði kvaðst margoft hafa samið við stafsmenn embættis Tollstjóra um greiðslu vegna vanskila. Staða félagsins hafi hins vegar verið það slæm að erfitt hafi reynst að standa við gerða samninga. Skuldsetningin og staða fyrirtækisins hafi því orðið til þess að ákærði hafi ekki getað staðið að fullu við greiðslur á vörslusköttum fyrir árin 2000, 2001 og 2002.
Ákærði kvað mál þetta hafa haft gríðarlega slæm áhrif á sig. Hafi hann orðið þunglyndur vegna þess. Íbúð hans hafi verið seld nauðungarsölu en eiginkonu hans hafi tekist að forða þeim frá gjaldþroti með því að selja hlutabréf er hún fengið í arf eftir móður sína. Í dag væri ákærði þó kominn með nýjan rekstur sem gengi mjög vel og væri á nánast sama vettvangi og fyrri rekstur hans. Einn af hans fyrri starfsmönnum hafi starfað hjá nýja félaginu en hann hafi hætt störfum nýlega.
Niðurstaða:
Í máli þessu liggur það fyrir að ákærði var fyrirsvarsmaður A ehf. á þeim tíma er ákæra tekur til. Fór hann stöðu sinni samkvæmt, sem framkvæmdastjóri, með daglegan rekstur félagsins. Fyrir liggur og er viðurkennt af hans hálfu að umræddar skattgreiðslur féllu í gjalddaga án þess að greiðslur væru nema að óverulegu leyti inntar af hendi á lögmæltum tíma. Með þeirri háttsemi sinni hefur ákærði fullframið brot gegn ákvæðum laga um virðisaukaskatt og laga um staðgreiðslu opinberra gjalda sem í ákæru eru tilgreind. Þykja brot ákærða vera stórfelld þar sem um verulegar fjárhæðir er að ræða og varða brot hans því einnig við 1. mgr. 262. gr. laga nr. 19/1940. Verður hann því sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða. Ákærði hefur ekki áður sætt refsingu. Að þessu virtu og með hliðsjón af 77. gr. laga nr. 19/1940 þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 4 mánuði. Verður refsingin skilorðsbundin með þeim hætti er í dómsorði greinir.
Með lögum nr. 134/2005, um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, og fleiri lögum, voru þær breytingar gerðar á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og lögum um virðisaukaskatt að fésektarlágmark 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 er ekki talið eiga við hafi brot einskorðast við að standa ekki skil á réttilega tilgreindri staðgreiðslu samkvæmt skilagrein staðgreiðslu eða réttilega tilgreindum virðisaukaskatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu, enda hafi verið staðin skil á verulegum hluta skattfjárhæðar eða málsbætur eru miklar. Ákærði hefur kosið að halda uppi vörnum í máli þessu þar sem hann telur að hann hafi bæði staðið skil á verulegum hluta skattfjárhæðar, auk þess að eiga miklar málsbætur. Ákæruvald lítur hins vegar ekki svo á. Í lögum nr. 134/2005 er ekki að finna nánari afmörkun á því hvað sé ,,verulegur hluti skattfjárhæðar” eða ,,sérstakar málsbætur” að því er varðar þessi brot. Verður ekki annað séð en að látið hafi verið í hendur dómstóla að skýra þessi atriði.
Samkvæmt heildaryfirliti um afdregna staðgreiðslu af launum launþega A ehf., sem er í rannsóknargögnum málsins merkt II/1.1, og ákærði hefur staðfest að sé rétt, hafa 6.213.711 krónur verið til greiðslu fyrir þau tímabil sem ákært er fyrir. Ekkert hefur verið greitt á gjalddaga og fjárhæðin öll vangoldin eftir lögboðinn eindaga. Eftir eindaga hafa hins vegar verið greiddar inn á skattskuldina samtals 5.202.629 krónur, með álagi, dráttarvöxtum og kostnaði. Vangoldin staðgreiðsla 25. janúar 2005 nemur því samtals 1.011.082 krónum. Að mati dómsins er engum vafa undirorpið að ákærði hefur staðið skil á verulegum hluta afdreginnar staðgreiðslu með greiðslum eftir lögboðinn eindaga. Verður um ákvörðun fésektar því miðað við að fésektarlágmark 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 eigi ekki við í málinu að því er varðar brot gegn þeim lögum.
Með frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 45/1987 skyldi sú breyting gerð á 2. mgr. 30. gr. laganna að hefði verið staðið skil á hluta fjárhæðar réttilega tilgreindrar staðgreiðslu skyldi lágmark fésektar einungis eiga við um þann hluta skattfjárhæðarinnar sem væri í vanskilum. Frumvarp þetta sætti breytingum í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins og var samþykkt í því horfi sem áður var rakið. Að meginstefnu eru færð fram þau rök fyrir þessari breytingu á frumvarpinu að svigrúm dómara þyki ekki nægjanlegt til að ákvarða sekt í málum af þessum toga. Ef frumvarp til laga um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda hefði verið samþykkt í því horfi er það var lagt fram í hefði í þessu máli verið við það miðað að ákærði yrði dæmdur til að greiða sekt sem næmi að lágmarki tvöfaldri þeirri fjárhæð er vangoldin var 25. janúar 2005. Miðað við þær breytingar er gerðar voru á frumvarpinu verður að ætla að ekki hafi staðið til að ákvarða sekt með það íþyngjandi hætti, en sektir fyrir vanhöld á greiðslu svonefnds vörslufjár hafa verið gagnrýndar fyrir að vera of háar í ljósi vararefsinga er oft reynist nauðsynlegt að grípa til. Verður því í þessu máli miðað við að ákærða verði gert að greiða sekt fyrir brot gegn lögum nr. 45/1987 sem nemur vangoldinni staðgreiðslu 25. janúar 2005. Nemur sektarfjárhæð fyrir brot á lögunum því 1.011.000 krónum.
Samkvæmt heildaryfirliti um vangoldinn virðisaukaskatt vegna reksturs A ehf., sem í rannsóknargögnum málsins er merkt II/2.1, og ákærði hefur staðfest að sé rétt, hafa samtals verið til greiðslu fyrir þau tímabil sem ákært er fyrir 16.025.007 krónur. Greiddar hafa verið á gjalddaga 1.666.592 krónur og er vangoldinn virðisaukaskattur eftir lögboðinn eindaga því samtals 14.358.415 krónur. Eftir eindaga voru greiddar samtals 4.670.628 krónur með álagi, dráttarvöxtum og kostnaði og er vangoldinn virðisaukaskattur 6. október 2003 því samtals 11.354.379 krónur. Ákærði hefur þannig einungis staðið skil á hluta af vangoldnum virðisaukaskatti eftir lögboðinn eindaga og nemur hann tæplega þriðjungi fjárhæðarinnar. Að mati dómsins er ekki um verulegan hluta skattfjárhæðar að ræða í þessu tilviki, en telja verður að hún þurfi að jafnaði að nema að lágmarki tveimur þriðju hlutum skattfjárhæðar til að teljast vera verulegur hluti hennar.
Ákærði hefur lýst því að rekstur A ehf. hafi reynst til muna erfiðari en hann hafi haft hugboð um. Hafi hann án árangurs reynt að sporna við fótum sem m.a. hafi falist í því að hann hafi tekið persónuleg lán til að setja í reksturinn. Það sama hafi eiginkona hans gert. Ákærði hefur ekki lagt fram nein gögn þessum staðhæfingum sínum til stuðnings. Er því ekki unnt að líta til málsbóta af þessum toga. Að öðru leyti eru varnir ákærða svo sem almennt gerist við atvinnurekstur í erfiðu rekstrarumhverfi. Áttu honum að vera ljósir rekstrarerfiðleikar fyrirtækisins og hversu vonlítið væri að óbreyttu að halda rekstri áfram. Verður því ekki talið að ákærði eigi sér slíkar málsbætur að því er varðar vanskil á virðisaukaskatti fyrir rekstrarárin 2000 til 2001 að unnt sé af þeim ástæðum að hverfa frá sektarlágmarki 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988. Samkvæmt því verður ákærða gert að greiða í sekt fyrir brot á lögum nr. 50/1988, sem nemur tvöfaldri skattfjárhæð, eða 28.717.000 krónur.
Samkvæmt öllu þessu verður ákærði dæmdur til að greiða 29.728.000 krónur í sekt til ríkissjóðs. Er vararefsing ákveðin með sama hætti og í dómi Hæstaréttar 18. febrúar 1999 í máli nr. 327/1998. Samkvæmt því sæti ákærði fangelsi í 7 mánuði, greiðist sektin ekki innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, að viðbættum virðisaukaskatti, eins og í dómsorði greinir. Annan sakarkostnað hefur ekki leitt af málinu.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Björn Þorvaldsson fulltrúi ríkislögreglustjóra.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Helgi Jóhannsson, sæti fangelsi í 4 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði 29.728.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, en sæti ella fangelsi í 7 mánuði.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur.