Hæstiréttur íslands
Mál nr. 46/2000
Lykilorð
- Líkamsárás
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 12. október 2000. |
|
Nr. 46/2000. |
Karl Guðni Ólafsson (Kristján Stefánsson hrl.) gegn Svani Þór Sveinssyni (Stefán Pálsson hrl.) og gagnsök |
Líkamsárás. Skaðabætur.
Öxl S fór úr liði er hann lenti í átökum við K fyrir utan skemmtistað. Höfðaði S mál gegn K til heimtu bóta fyrir tjón sitt, en hann taldi hann hafa snúið eða togað sig úr axlarlið. Með hliðsjón af því að vitnum bar ekki saman um atburðarás og að fyrsta frásögn S af atburðinum, sem skráð var hjá lækni, var ekki á þá leið að K hefði togað hann úr axlarlið var ekki talið sannað að K hefði með saknæmum og ólögmætum hætti valdið S tjóni hans. Var K því sýknaður af kröfum S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. febrúar 2000 og krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 11. apríl 2000. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 669.964 krónur með 2% ársvöxtum frá 11. júní 1995 til 8. ágúst 1998, alls 43.377 krónur, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 713.341 krónu frá þeim degi til greiðsludags, svo og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst gagnáfrýjandi staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Svo sem lýst er í héraðsdómi greinir aðila á um átök þeirra fyrir utan félagsheimilið Sindrabæ á Höfn í Hornafirði aðfaranótt 11. júní 1995. Aðaláfrýjandi dregur ekki í efa að gagnáfrýjandi hafi þá orðið fyrir því að öxl hans fór úr liði, en andmælir að hann beri skaðabótaábyrgð á tjóni, sem gagnáfrýjandi hlaut við það.
Gagnáfrýjandi gaf skýrslu fyrir héraðsdómi 1. október 1999. Hann var beðinn um að lýsa tjónsatvikinu með eigin orðum. Hann lýsti því að hann hafi verið ölvaður fyrir utan húsið að reyna að komast inn. Eftir að hafa verið þarna nokkra stund ásamt fjölda manna, hafi hann séð hvar aðaláfrýjandi hafi verið að lemja föður gagnáfrýjanda í höfuðið, en hann hafi setið þarna fyrir utan hálf sofandi. Gagnáfrýjandi hafi gengið á milli og aðaláfrýjandi þá hætt strax og farið í burtu. Síðan hafi gagnáfrýjandi farið að reyna að koma föður sínum burtu, en það hafi gengið illa. Það næsta, sem hann myndi, var að hann lá á jörðinni og reyndi að standa á fætur, en hann hafi þá fundið að höndin var eitthvað skrýtin. Lögreglumenn hafi farið skömmu seinna með hann á heilsugæslustöð. Þegar borin var undir hann lýsing, sem læknir, sem tók á móti honum um nóttina, skráði í vottorði 15. desember 1996 um frásögn hans sjálfs á atburðinum, svaraði hann: „Ég man ekki hvað ég sagði við hann þarna um nóttina, eins og ég segi, ég var töluvert ölvaður.“
Í umræddu vottorði 15. desember 1996 segir læknirinn að gagnáfrýjandi hafi leitað til sín aðfaranótt 11. júní 1995 vegna axlaráverka, sem hann hafi orðið fyrir þá um nóttina. Síðan segir: „Var drukkinn við komu og gaf fremur litla og ómarktæka sögu en sagðist hafa verið að fíflast eitthvað í slagsmálum við félaga sinn og dottið við og félaginn fallið ofan á hann svo hann fékk sáran verk í hægri öxl og gat ekki hreyft hana vegna verkja. Virtist þó lítið muna um atburði.“ Síðar í bréfinu segir: „Eftirlit aftur 14.06 ... Gaf hann þá upp nánari sögu varðandi tilurð áverkans og sagðist nú hafa lent í slagsmálum í illu og hann hafi verið tekinn fantataki þar sem snúið hafi verið upp á handlegginn á honum og hann felldur og hafi þá þessi áverki orðið við það.“
Mánudaginn 19. júní 1995 gaf gagnáfrýjandi sig fram við lögregluna á Höfn og kærði aðaláfrýjanda fyrir líkamsárás. Hann kvaðst hafa verið mjög ölvaður þetta kvöld og lítið muna eftir því. Segir síðan í skýrslunni: „Hann segir að það hafi verið ráðist á sig fyrir utan skemmtistaðinn, þannig að mætti fór úr axlarlið og þarfnaðist læknishjálpar þá þegar um nóttina. Hann segir að Karl hafi ráðist á sig að tilefnislausu, eftir því sem mætti best veit, og komið aftan að sér, að auki.“ Hann gaf upp nöfn fjögurra vitna, sem gáfu síðan skýrslur hjá lögreglunni 2. júlí, 1. ágúst og 13. ágúst 1995. Efni þeirra er rakið í héraðsdómi.
Auk vitna þessara gáfu skýrslur fyrir héraðsdómi þrír menn og báru um atburðinn. Þeir sögðust allir hafa séð slagsmál aðila, sem hafi fallið til jarðar, en þeir kváðust ekki hafa séð neinum fantabrögðum beitt. Eitt vitnanna, sem borið hafði hjá lögreglunni, sagði fyrir dómi að það myndi ekkert um atburðinn. Annað vitni, sem hafði lýst hjá lögreglunni hvernig aðaláfrýjandi hafði sett fót í öxl gagnáfrýjanda og tekið í aðra hönd hans og sveigt hana upp og aftur þannig að hún hafi farið úr lið, að því er virtist, sagði fyrir héraðsdómi, að frásögn hans hafi ekki verið sannleikanum samkvæm. Hann hafi aðeins séð þá liggja á jörðinni með hálstak hvor á öðrum, svona í eina mínútu, en svo hafi hann farið í burtu. Vitnið kvað gagnáfrýjanda hafa beðið sig að gefa skýrslu hjá lögreglunni. Talað hafi verið um í samkvæmi hvernig þetta hafi gerst, vitnið hafi heyrt söguna og borið hana fyrir lögreglunni.
II.
Tveir menn, sem gefið höfðu skýrslu hjá lögreglunni, báru fyrir héraðsdómi að aðaláfrýjandi hafi tekið í handlegg gagnáfrýjanda og togað í hann. Um nánari atvik er framburður þeirra hins vegar ólíkur. Annar þeirra bar að aðaláfrýjandi hafi komið aftan að gagnáfrýjanda, þar sem hann sat á jörðinni. Hafi aðaláfrýjandi tekið gagnáfrýjanda „einhverju júdóbragði“, lagst aftur á bak með hann og haldið honum smá stund þar, en svo sleppt honum. Aðaláfrýjandi hafi tekið handlegginn „aftur fyrir haus og aftur fyrir einhvern veginn, eins og fastatak í júdó..., krækti löppunum utan um magann á honum...“. Hitt vitnið, sem starfaði sem dyravörður á skemmtistaðnum umrætt kvöld, kvaðst hafa séð að aðilarnir voru að slást utan við húsið. Þegar hann hafi séð að aðaláfrýjandi náði hálstaki á gagnáfrýjanda og sneri hann niður í jörðina hafi vitnið farið í símann og hringt í lögreglu. Þegar vitnið hafi komið til baka og horft út á ný hafi hann séð að aðaláfrýjandi var með fótinn í hægri síðu gagnáfrýjanda og togaði af alefli í handlegg hans. Þá hafi vitnið farið og beðið þá að hætta og aðaláfrýjandi hafi hlýtt því. Þegar hann var nánar spurður um þessi átök sagðist hann hafa séð að gagnáfrýjandi lá á bakinu og aðaláfrýjandi hafi togað handlegg hans út og upp á við. Hann tók fram að dimmt hafi verið.
III.
Fyrsta frásögn gagnáfrýjanda sjálfs af atburðinum, sem skráð var hjá lækni um nóttina, var ekki á þá leið að aðaláfrýjandi hafi snúið eða togað hann úr axlarlið. Þetta sagði hann fyrst hjá sama lækni þremur dögum síðar. Hann bar þetta í kæru sinni hjá lögreglu 19. júní 1995 og nefndi þá fjögur vitni til frásagnar. Eitt þessara vitna bar fyrir héraðsdómi að frásögn þess hjá lögreglu hafi verið saga frá gagnáfrýjanda sjálfum. Ekki er samræmi í framburði þeirra tveggja vitna, sem báru fyrir héraðsdómi að aðaláfrýjandi hafi beitt gagnáfrýjanda því átaki, sem átti að hafa leitt til þess að hann fór úr axlarlið. Þegar þessa er gætt, svo og þess, að þrjú önnur vitni báru skýrlega fyrir héraðsdómi að þau hafi séð aðila slást og falla til jarðar og annað hafi ekki gerst, verður að telja ósannað að aðaláfrýjandi hafi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið gagnáfrýjanda tjóni hans. Verður aðaláfrýjandi því sýknaður af kröfu gagnáfrýjanda.
Rétt er að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Aðaláfrýjandi, Karl Guðni Ólafsson, er sýkn af kröfu gagnáfrýjanda, Svans Þórs Sveinssonar.
Málskostnaður fellur niður í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Austurlands 29. nóvember 1999.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 24. nóvember 1999, er höfðað fyrir dómþinginu með stefnu birtri föstudaginn 13. janúar 1999. Málið var þingfest 10. febrúar 1999.
Stefnandi er Svanur Þór Sveinsson, kt. 171272-3279, Miðtúni 12, Höfn í Hornafirði.
Stefndi er Karl Guðni Ólafsson, kt. 060474-5919, Fákaleiru 6b, Höfn í Hornafirði.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 993.790 krónur auk vaxta samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga frá 11. júní 1995 til 8. ágúst 1998, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Þess er og krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins ásamt virðisaukaskatti.
Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara krefst hann verulegrar lækkunar á stefnukröfum. Þá krefst hann málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda að mati dómsins.
II.
Málsatvik
Aðfaranótt 11. júní 1995 var stefnandi staddur á dansleik í félagsheimilinu Sindrabæ á Höfn. Kom til átaka eða stympinga milli málsaðila fyrir utan félagsheimilið og varð stefnandi fyrir meiðslum.
Málsaðilar eru ekki sammála um atburðarrás að öðru leyti. Í stefnu segir að eftir að stefnandi hafi aðstoðað föður sinn við að fá bílfar heim af dansleiknum hafi hann fengið sér sæti á tröppum fyrir utan samkomuhúsið. Hafi stefndi þá án nokkurrar sýnilegrar ástæðu ráðist á stefnanda aftan frá, sett fót sinn á hægri öxl hans og sveigt handlegg hans aftur fyrir bak. Eftir árásina hafi hann ekki getað hreyft handlegginn. Stefnandi hafi enga mótspyrnu sýnt. Þrátt fyrir það hafi stefndi haldið árás sinni áfram og tekið stefnanda hálstaki og slengt honum í jörðina.
Stefndi kveðst játa að átök hafi orðið með honum og stefnanda, en neitar því hins vegar að hafa verið upphafsmaður þeirra. Þar hafi stefnandi átt jafnan hlut að máli. Stefndi kveður þá stefnanda hafa lent í áflogum og velst um á jörðinni og hafi stefnandi við það hlotið meiðsl. Um hafi verið að ræða óhappatilvik, sem stefndi beri ekki ábyrgð á.
Starfsmenn félagsheimilisins kölluðu til lögreglu og flutti hún stefnanda á heilsugæslustöðina á Höfn þar sem Baldur P. Thorstensen læknir skoðaði stefnanda. Kom í ljós að stefnandi var úr axlarlið. Einnig var hann með hruflsár yfir gagnauga. Stefnanda voru gefin sterk verkjalyf og vöðvaslakandi efni í æð og var öxlinni kippt í liðinn. Fékk stefnandi fyrirmæli um að vera með höndina í fatla næstu þrjár vikur. Nokkrum dögum síðar eða 14. júní fór stefnandi til læknis til eftirlits og fór þá fram nánari skoðun með tilliti til áverkans og hugsanlegs taugaskaða. Örlaði þá fyrir dofa í þumalfingri og í lófa. Stefnanda var ráðlagt að vera áfram með höndina í fatla. Stefnandi var í eftirliti hjá lækni í júlímánuði og reyndist bati vera eðlilegur og minnkaði stefnandi smám saman notkun fatlans. Voru stefnanda kenndar axlaræfingar til að liðka upp öxlina án álags á axlarliðinn. Við skoðun 16. ágúst 1995 var stefnandi talinn vinnufær. Hóf stefnandi þá störf á ný sem sjómaður. Kveðst hann geta sinnt flestum daglegum verkum, en fái þó oft sáran stingverk í öxlina þegar hann lyfti handleggnum og reyni á öxlina.
Stefnandi fór í læknisskoðun 13. nóvember 1996 vegna áverkans. Samkvæmt læknisvottorði var hann með eðlilega og sársaukalausa hreyfigetu um öxlina, en það fundust greinilegir smellir í öxlinni við vissar hreyfingar, sérstaklega við snúningshreyfingu er handleggur var í uppréttri stöðu. Segir í vottorðinu að það geti stafað af kölkun eða bandvefsmyndun aðlægt við axlarliðinn og geti hafa hlotist af áverkanum. Ekki voru nein merki um taugaskaða. Enn fremur segir að stefnandi hafi haft væg þreifieymsli yfir axlarliðnum framanverðum, yfir svo kölluðu coracoacromialis liðbandi, sem bendi til vægrar bólgu og geti hugsanlega hafa hlotist af áverkanum.
Atli Þór Óskarsson sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum mat örorku stefnanda og er matsgerð hans dags. 15. júní 1998. Í matsgerðinni segir svo um skoðun á stefnanda: “Líkamsbygging er eðlileg. Vöðvabygging er eðlileg og eins beggja megin. Vel þjálfaðir og stæltir vöðvar. Eymsli finnast framanvert í hægri axlarlið og yfir á krummahyrnu. Hreyfiferlar allir í báðum öxlum voru eðlilegir og jafnir og ekki komu fram nein óþægindi við hreyfingu. Við að færa upphandleggshöfuð í hægri axlarlið framávið komu fram óþægindi. Ekki var hægt að finna óstöðugleika í liðnum við átaks- og stöðugleikapróf. Taugaskoðun var eðlileg. Enginn dofi fannst umhverfis öxlina eða í handleggjum. Kraftar eðlilegir og vöðvar spenntust eðlilega og voru jafnhvelfdir beggja megin.”
Læknirinn greindi stefnandi með axlarliðhlaup í hægri öxl fram á við, sem hann taldi hafa hlotist hafi af átökum málsaðila 11. júní 1995.
Í samantekt matsgerðarinnar segir eftirfarandi:
“Við mat á tímabundnu atvinnutjóni er tekið mið af upplýsingum úr læknisvottorði um óvinnufærni frá 11.06. 1995 til 16.08. 1995.
Við mat á þjáningabótum er tekið mið af því að Svanur var ekki til meðferðar á sjúkrastofnun en hafði óþægindi í fjóra mánuði og var batnandi á þeim tíma.
Við mat á varanlegum miska er tekið mið af liðhlaupi í axlarlið er olli ekki skemmdum á bein- eða taugavef. Ekki hefur orðið vart við liðhlaup eftir þetta. Við átök upp fyrir öxl, sérstaklega með hönd snúna útávið, koma fram óþægindi og óöryggistilfinning í öxlinni. Svanur er rétthentur. Varanlegur miski og hefðbundin læknisfræðileg örorka er því metin 5%.
Við mat á varanlegu fjárhagslegu tjóni er tekið mið af því að axlaráverkinn virðist hafa jafnað sig vel og liður er stöðugur og öxlin ekki farið úr liði aftur. Svanur getur unnið alla vinnu á sjó, hefur ekki verið frá vinnu og telur ekki líkur á að svo verði í framtíðinni. Miðað við gott ástand axlarinnar og fulla vinnugetu Svans í þrjú ár, er ólíklegt að hann verði af vinnutekjum í framtíðinni af þessum sökum.”
Niðurstaða örorkumatsins er því eftirfarandi:
“Við líkamsárásina þann 11.06. 1995 varð Svanur Þór Sveinsson fyrir eftirfarandi skaða með hliðsjón af skaðabótalögum nr. 50/1993:
|
Tímabundið atvinnutjón skv. 2. grein: Frá 11.06.1995 til 16.08.1995 |
100% |
|
Þjáningabætur skv. 3. grein: Rúmliggjandi Batnandi, með fótaferð |
ekkert fjórir mánuðir |
|
Varanlegur miski skv. 4. grein |
5% |
|
Varanleg örorka skv. 5. grein |
0% |
|
Hefðbundin, varanleg læknisfræðileg örorka |
5% |
Í skýrslu stefnanda kom fram að hann hafi verið staddur fyrir utan félgsheimilið Sindrabæ umrætt kvöld. Hafi hann þá séð stefnda berja föður sinn í höfuðið þar sem hann hafi setið hálfsofandi fyrir utan félagsheimilið. Kvaðst hann hafa gengið á milli þeirra og stefndi þá horfið á braut. Hafi hann síðan reynt að koma föður sínum heim en gengið illa. Það næsta sem hann muni er að hann hafi legið í jörðinni og verið að reyna að standa á fætur. Hafi hann fundið að önnur höndin var eitthvað skrýtin. Hafi lögreglan keyrt hann á heilsugæslustöð til aðhlynningar. Stefnandi kvaðst ekki minnast þess að hafa ráðist á stefnda, en sig minni að hann hafi gengið á milli stefnda og föður síns.
Fyrir dómi skýrði stefndi svo frá að hann hafi verið staddur fyrir utan félagsheimilið umrædda nótt og talað við föður stefnanda. Hafi þeir verið að þrasa eða átt í orðaskaki eins og stefndi orðaði það sjálfur. Kveður hann stefnanda hafa komið þarna að og hafi hann haldið að stefndi væri að áreita föður hans. Hafi þeir byrjað að rífast og síðan að tuskast til og fljótlega dottið í jörðina. Stefndi hafi síðan staðið upp og farið aftur inn á dansleikinn. Meira hafi ekki gerst. Stefndi kvaðst ekki hafa frétt um meiðsl stefnanda fyrr en stefnandi kærði hann til lögreglu. Nánar aðspurður kvað stefndi átök aðila hafa líkst fangbrögðum, en ekki hafi verið um það að ræða að aðilar hafi kýlt hvorn annan eða að þeir hafi tekið hvorn annan hálstaki. Stefndi kannaðist ekki við það að hafa snúið upp á höndina á stefnanda og togað hana upp og aftur fyrir bak eða að hafa spyrnt fót eða hné í bak eða öxl á stefnanda.
Þórólfur Örn Einarsson gaf skýrslu um atburðinn hjá lögreglu 1. ágúst 1995. Kvaðst hann hafa séð stefnanda hjálpa föður sínum inn í bifreið, sem verið hafi á staðnum. Að því búnu hafi stefnandi sest á stéttina fyrir framan félagsheimilið. Hafi stefndi þá allt í einu komið aftan að stefnanda og sett annan fótinn í öxlina á honum og sveigt hægri hendi aftur fyrir bak. Kvað hann stefnanda ekki hafa tekið á móti stefnda þar sem stefnandi hafi verið mjög ölvaður. Enn fremur hafi stefndi tekið stefnanda hálstaki. Vitnið kvað stefnda hafa átt upptökin að átökunum.
Fyrir dómi kvaðst Þórólfur Örn ekkert muna lengur eftir málsatvikum, en staðfesti þó undirskrift sína undir lögregluskýrslu á dskj. nr. 5.
Björgvin Hlíðar Erlendsson gaf skýrslu hjá lögreglu 13. ágúst 1995 vegna atburðarins. Kvaðst hann hafa verið fyrir utan félagsheimilið eftir að dansleik lauk. Faðir stefnanda hafi setið þar fyrir utan. Stefndi hafi komið þar að og slegið föður stefnanda tveimur höggum beint ofan á höfuðið og algerlega að tilefnislausu. Hafi faðir stefnanda lagst út af við höggin. Hafi stefnandi þá komið aðvífandi og tekið í bringu stefnda og þeir eitthvað tekist á. Síðar hafi vitnið séð þá veltast um á jörðinni. Allt í einu hafi stefndi sett annan fótinn á stefnanda og tekið í aðra höndina á honum og sveigt hana upp og síðan aftur. Mætti segir að svo hafi virst sem öxlin á stefnanda hafi farið úr lið við þessi átök. Kvað vitnið stefnda hafa alfarið átt upptökin að átökunum.
Fyrir dómi dró Björgvin Hlíðar skýrslu sína hjá lögreglu til baka og kvað frásögn sína þar ekki rétta. Hann kvað stefnanda hafa beðið sig að gefa skýrslu um atburðinn hjá lögreglu. Áður en skýrslutaka hafi farið fram kvaðst vitnið hafa verið statt í “partýi” með stefnanda og fleirum. Hafi atvik málsins verið rædd þar og kvað vitnið skýrslu sína hjá lögreglu hafa verið litaða af þessari umræðu. Vitnið kvaðst ekki hafa séð aðdragandann að átökum málsaðila. Þeir hafi legið á jörðinni með hálstak hvor á öðrum eða í einhvers konar faðmlögum þegar vitnið hafi komið út af dansleiknum. Kvaðst vitnið ekki hafa fylgst með þessu frekar og haldið heim á leið.
Í skýrslu hjá lögreglu frá 1. ágúst 1995 skýrir Jón Ingimar Sigurðsson svo frá að hann hafi verið að keyra fyrir Þórólf Einarsson umrætt kvöld. Kveðst hann hafa séð stefnda taka stefnanda júdóbragði og sveigja hægri höndina á honum aftur fyrir bak. Eftir þetta hafi stefnandi tekið um höndina á sér og greinilega fundið til.
Vitnið bar mjög á sömu lund fyrir dómi. Hann kvað stefnanda hafa setið á jörðinni, greinilega dálítið drukkinn. Hafi stefndi komið aftan að honum og farið að tala við hann. Hafi stefndi síðan tekið stefnanda júdóbragði, sem vitnið lýsti nánar þannig, að stefndi hafi krækt fótunum utan um mittið á stefnanda, togað annan handlegg stefnanda upp fyrir höfuð og aftur fyrir með því að halla sjálfum sér aftur á bak. Kvað vitnið þetta hafa líkst fastataki í júdó. Stefndi hafi haldið stefnanda svona í stutta stund og þá sleppt og farið í burtu. Hafi vitnið séð að stefnandi hélt um handlegginn á eftir.
Olav Ingvald Olsen var dyravörður í félagsheimilinu Sindrabæ umrætt kvöld. Vitnið bar á sömu lund hjá lögreglu 2. júlí 1995 og hér fyrir dómi. Vitnið kvað föður stefnanda hafa orðið ofurölvi á dansleiknum og hafi hann orðið að vísa honum út. Hafi hópur krakka farið að fíflast utan í föður stefnanda fyrir utan félagsheimilið. Hafi vitnið beðið stefnanda, sem hafi verið á dansleiknum, að hjálpa föður sínum heim til sín. Stefnandi hafi strax farið út og aðstoðað föður sinn. Stuttu síðar hafi vitnið litið út um glugga á félagsheimilinu til að athuga hvernig stefnanda gengi að koma föður sínum heim og hafi vitnið þá séð að stefnandi og stefndi voru að slást. Stefndi hafi tekið stefnanda hálstaki og snúið hann í jörðina. Hafi vitnið þá hringt á lögreglu. Þegar vitnið hafi komið úr símanum hafi það séð stefnda með fótinn í hægri síðu stefnanda og hafi hann togað af alefli í hægri handlegg hans líkt og hann væri í reiptogi. Hafi stefndi hallað sér aftur á bak og togað handlegg stefnanda út og upp á við. Kvaðst vitnið þá hafa farið út og beðið stefnda að hætta og hafi stefndi hlýtt því og staðið upp. Vitnið kvaðst hafa séð að höndin á stefnanda var alveg máttlaus. Vitnið kvaðst ekki hafa séð hver átti upptökin að slagsmálunum. Það kvaðst ekki hafa verið undir áhrifum áfengis umrætt kvöld enda við skyldustörf.
Vitnið Ívar Smári Reynisson bar fyrir dómi að hann hafi séð stefnda á tali við Svein föður stefnanda. Hafi stefnandi komið æðandi að stefnda og átt einhver orðaskipti við hann. Brátt hafi málsaðilar verið farnir að slást. Kvaðst vitnið ekki hafa fylgst meira með þessu og hafi slagsmálin fljótlega verið yfirstaðin. Löngu síðar hafi vitnið frétt að stefnandi hefði kært stefnda vegna líkamsárásar. Nánar aðspurður um átökin kvað vitnið aðila hafa fallið strax í jörðina og hafi þeir hnoðast þar um, eins og vitnið orðaði það. Ekki hafi verið um það að ræða að þeir hafi kýlt hvorn annan. Vitnið kvaðst ekki hafa séð stefnda snúa upp á hönd stefnanda og keyra hana aftur fyrir bak. Þá kvaðst vitnið ekki hafa séð að stefnandi hafi legið eftir átökin. Vitnið kvaðst ekki geta sagt að það hafi horft á átök aðila frá upphafi til enda, en það hafi fylgst með þeim útundan sér. Það hafi séð hvernig átökin byrjuðu og hvernig þeim lauk, þ.e. að stefndi hafi staðið upp og farið inn á dansleikinn.
Vitnið Þorvaldur Borgar Hauksson kvaðst hafa séð stefnda rífast við föður stefnanda fyrir utan Sindrabæ umrætt kvöld. Að minnst kosti hafi einhverjar orðahnippingar átt sér stað milli þeirra, en hins vegar engin handalögmál. Hafi stefnandi þá komið æðandi að, málsaðilar hafi farið að rífast og hafi stefnandi rifið í bringuna á stefnda. Hafi þá upphafist átök með aðilum og lýsti vitnið þeim sem einhvers konar glímu, þ.e. um hafi verið að ræða hnoð, en ekki hafi verið um það að ræða að aðilar hafi kýlt hvorn annan. Ekki hafi verið um fantaslagsmál að ræða. Aðilar hafi dottið í jörðina og lent harkalega og hafi stefnandi orðið undir stefnda. Eftir smá stund hafi stefndi staðið upp og farið inn á dansleikinn. Stefnandi hafi legið eftir. Aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa séð stefnda snúa upp á hönd stefnanda eða setja fótinn í öxl eða bak stefnanda. Kvaðst vitnið hafa fylgst með átökunum frá upphafi til enda.
Vitnið Jón Björnsson kvað ósætti aðila hafa byrjað með rifrildi og stympingum, sem endað hafi í jörðinni. Aðilar hafi dottið í jörðina, tekist þar á í smá stund og svo hafi þetta verið yfirstaðið. Ekki sé hægt að segja hvor þeirra hafi átt upptökin að átökunum. Kvaðst vitnið hafa séð bæði upphaf og endi átakanna. Enn fremur hafi það séð að stefnandi hafi legið eftir átökin og kveinkað sér. Vitnið kvaðst ekki hafa séð stefnda snúa upp á handlegg stefnanda eða að stefndi hafi sett fótinn á öxl eða í bakið á stefnanda. Kvaðst vitnið telja að það hafi stefndi ekki gert.
III.
Málsástæður stefnanda
Stefnandi byggir kröfur sínar á því að stefndi beri samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar bótaábyrgð á tjóni því, sem hann olli stefnda með hinni ólögmætu árás. Beri stefnda að bæta stefnanda það tekjutap, sem hann hafi orðið fyrir í kjölfar árárarinnar og greiða honum þjáninga- og miskabætur í samræmi við ákvæði skaðabótalaga, auk vaxta, dráttarvaxta og málskostnaðar.
Stefnandi kveðst hafa verið algerlega frá vinnu til 16. ágúst 1995 vegna árásarinnar og því misst allar tekjur af sjómennsku þann tíma. Stefnandi kveður laun sín af sjómennsku í apríl, maí og september 1995 hafa numið 434.980 krónum, en á þessum tíma hafi hann verið á sjó samtals 54 daga af 90. Meðalmánaðarlaun hans á þessu tímabili hafi því numið rúmlega 360.000 krónum, en í kröfugerð sé miðað við að meðaltekjur hans hafi verið 340.000 krónur.
Stefnandi kveður bótakröfu sína sundurliðast þannig:
|
Bætur vegna tímabundins tekjutaps í tvo mánuði |
680.000 krónur |
|
Þjáningabætur skv. 3. gr. skaðabótalaga |
92.400 krónur |
|
Bætur vegna 5% varanlegs miska |
221.390 krónur |
|
Samtals |
993.790 krónur |
auk vaxta, dráttarvaxta, útlagðs kostnaðar og málskostnaðar.
Stefnandi kveðst hafa með bréfi 8. júlí 1998 krafið stefnda um greiðslu skaðabóta samkvæmt ofangreindri sundurliðun auk vaxta, útlagðs kostnaðar og lögmannsþóknunar, samtals 1.160.292 krónur. Þar sem stefndi hafi ekki enn greitt kröfuna hafi stefnanda verið nauðugur einn sá kostur að höfða mál þetta til innheimtu kröfunnar.
Um bótaskyldu stefnda vísar stefnandi til ólögfestra reglna skaðabótaréttar. Um útreikning og fjárhæð bótakröfu er vísað til 2., 3., 4., 5., 6., 7. og 15. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Kröfur um vexti og dráttarvexti styðjast við 16. gr. skaðabótalaga og ákvæði vaxtalaga nr. 25/1987. Krafist er málskostnaðar með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt af málskostnaði styðst við ákvæði laga nr. 50/1988. Stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur og honum sé því nauðsynlegt að fá dóm fyrir greiðslu skattsins úr hendi stefnda.
IV.
Málsástæður stefnda
Stefndi telur ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir því heilsutjóni, sem greinir í matsgerð læknis, og að það hafi hlotist af þeim meiðslum, sem stefnandi hafi orðið fyrir 11. júní 1995 í átökum við stefnda. Mat bæklunarlæknis, framkvæmt þremur árum síðar, sé ekkert sönnunargagn þar um. Bendir stefndi á að í áverkavottorði á dskj. nr. 8 komi fram að stefnandi hafi verið orðinn vinnufær um miðjan ágúst 1995.
Stefndi bendir á að í læknisvottorði á dskj. nr. 9 komi fram misvísandi frásögn stefndanda um tildrög meiðslanna. Þar komi einnig fram að engin merki séu um kraftminnkun hjá stefnanda vegna slyssins. Jafnframt að stefnandi hafi leitað til læknis vegna verkja í öxl í apríl 1996 eftir átök við sjómann, svo og að stefnandi hafi orðið fyrir slæmri byltu í byrjun apríl við að detta á svelli. Verulegur vafi leiki því á að afleiðingar átakanna hafi verið þær, sem í mati greini, en hjá matslækni hafi stefnandi gert lítið úr afleiðingum seinni óhappa. Þessum hrakförum hafi stefnandi ekki lýst við læknisskoðun 3. apríl 1996, sbr. læknisvottorð á dskj. nr. 9. Telur stefndi með öllu ósannað að afleiðing átaka hans og stefnanda séu þær, sem niðurstöður mats á dskj. nr. 11 gefi til kynna.
Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að stefndi beri að einhverju leyti ábyrgð á tjóni stefnanda telur stefndi að stefnandi eigi hlut að átökum þeirra og því beri að skipta sök.
Stefndi mótmælir kröfugerð stefnanda, bæði tölulega og eins með hvaða hætti hún er sett fram. Kröfu um bætur fyrir tímabundið tekjutap er sérstaklega mótmælt, bæði grundvelli kröfugerðar og upphæð kröfunnar. Gögn beri ekki með sér að stefnandi hafi verið í skipsrúmi er ætlað tjónsatvik átt sér stað, en hann hafi verið afskráður af skipi 18. maí 1995. Þá telur stefndi að lækka beri bætur vegna skattfrelsis þeirra. Stefnandi mótmælir kröfu um þjáningabætur að fjárhæð 92.400 krónur samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga. Stefnandi hafi samkvæmt framlögðum gögnum verið óvinnufær til 15. ágúst 1995 eða í um 60 daga og þá ekki rúmliggjandi. Kveður stefndi dómkröfur stefnanda með öllu vanreifaðar.
Stefndi mótmælir kröfum um bætur vegna 5% varanlegs miska sérstaklega. Ljóst sé að stefnandi hafi lent í öðrum hrakföllum, sem séu líklegar til þess að hafa leitt til aukins miska. Útilokað sé því að miski stefnanda verði allur einvörðungu rakinn til átaka málsaðila 11. júní 1995. Miskastig sé því minna en 5% og bætist því ekki samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Stefnandi mótmælir því að kröfur stefnanda beri vexti eða dráttarvexti fyrr en frá og með þingfestingu málsins.
V.
Niðurstaða
Í máli þessu byggir stefnandi á því svo sem fyrr greinir að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna ólögmætrar og saknæmrar líkamsárásar stefnda umrætt sinn. Hafi stefndi ráðist á sig að tilefnislausu. Stefndi játar að hafa lent í áflogum við stefnanda, en neitar því að hafa verið upphafsmaður þeirra. Þar hafi stefnandi átt jafnan hlut að máli. Í áflogunum hafi stefnandi orðið fyrir meiðslum, en um hafi verið að ræða óhappatilvik sem stefndi beri ekki ábyrgð á.
Fyrir dóminn hafa aðilar leitt sjö vitni til að bera um málsatvik. Fjögur þeirra höfðu gefið skýrslu um atburðinn hjá lögreglu í júlí og ágúst 1995.
Stefndi leiddi vitnin Ívar Smára Reynisson og Þorvald Borgar Hauksson fyrir dóminn, sem og vitnið, Jón Björnsson, en hann gaf skýrslu í gegnum síma. Vitni þessi voru ekki kvödd til skýrslutöku hjá lögreglu sumarið 1995 og voru þau fyrst nefnd til sögunnar af hálfu stefnda við aðalmeðferð málsins, en þá voru liðin rúm fjögur ár frá því umræddur atburður átti sér stað. Vitnaskýrslur Ívars Smára og Þorvalds Borgars eru samhljóða skýrslu stefnda að því leyti að átök málsaðila hafi byrjað með rifrildi, sem endað hafi með slagsmálum þeirra. Einnig að þeir hafi fljótlega dottið í jörðina. Stuttu síðar hafi stefndi staðið upp og hætt. Um hafi verið að ræða glímu eða hnoð, en aðilar hafi ekki kýlt hvorn annan.
Vitnið Ívar Smári kvaðst ekki hafa fylgst neitt sérstaklega með slagsmálunum, en það hafi verið statt fyrir utan félagsheimilið og horft á átök aðila útundan sér. Vitnið var innt eftir því hvort það hefði séð stefnda snúa upp á handlegg stefnanda og keyra handlegginn aftur fyrir bak og var svar vitnisins eftirfarandi: “Það gerðist alla vegar ekki þegar ég sá til.” Þá var vitnið innt eftir því hvort það hefði rætt málsatvik við einhvern. Svaraði vitnið því svo til að það hefði rætt málsatvik við stefnda, “sem ég er hér að vitna fyrir”, eins og vitnið orðaði það.
Frásögn vitnisins, Jóns Björnssonar, hér fyrir dómi af umræddum atburði er stuttorð og lýsing hans á átökum málsaðila er almenn og ónákvæm. Lýsing vitnanna, Ívars Smára og Þorvalds Borgars, á átökum málsaðila þykir einnig almenns eðlis og ónákvæm. Þegar vitnin, Ívar Smári og Þorvaldur Borgar, voru beðnir um að lýsa átökum málsaðila nánar brugðu þau á það ráð líkt og stefndi að lýsa því í hverju átök málsaðila voru ekki fólgin, þ.e. að aðilar hafi ekki kýlt hvorn annan, í stað þess að lýsa átökunum sjálfum nánar.
Aðspurt kvaðst vitnið, Ívar Smári, vera ágætiskunningi stefnda og kom það einnig fram í skýrslu stefnda. Í skýrslu sinni kvaðst vitnið, Þorvaldur Borgar, vera vinur stefnda og stefndi kvaðst einnig þekkja umrætt vitni vel.
Með hliðsjón af öllu framangreindu þykja skýrslur ofangreindra vitna ótrúverðugar.
Í ljósi þess að vitnið Björgvin Hlíðar Erlendsson dró skýrslu sína hjá lögreglu til baka hér fyrir dómi þykir ekki unnt að byggja á henni í máli þessu.
Vitnið Olav Ingvald Olsen gaf skýrslu hjá lögreglu 2. júlí 1995 eða þremur vikum eftir að átök urðu með málsaðilum og ber þeirri skýrslu saman við skýrslu vitnisins hér fyrir dómi. Vitnið var við störf sem dyravörður í félagsheimilinu þegar atburður sá, er hér um ræðir, átti sér stað. Kvaðst vitnið ekki hafa verið undir áhrifum áfengis, enda hafi það ekki lagt í vana sinn að bragða áfengi þegar það gengdi fyrrgreindum starfa sínum. Fram kom í skýrslu vitnisins að það fylgdist sérstaklega með því hvernig stefnanda gengi að koma föður sínum heim vegna þess sem á undan var gengið. Skýrsla vitnisins var skýr og glögg og framburður þess hefur verið stöðugur svo sem að framan greinir.
Málsaðilar og vitni þau, sem leidd hafa verið fyrir dóminn, önnur en framangreint vitni, voru öll á sama aldri eða í kringum tvítugt þegar umræddur atburður átti sér stað og flest búsett á Höfn þar sem “allir þekkja alla” eins og nokkur vitnanna komust að orði við skýrslutöku hér fyrir dómi. Vitnið, Olav Ingvald, er hins vegar töluvert eldri. Má því ætla að minni hætta sé á að kunningsskapur eða vinskapur við annan hvorn málsaðila hafi haft áhrif á framburð þess. Óumdeilt er að vitnið er hvorki skylt né tengt málsaðilum. Vitnið kvaðst þekkja til beggja málsaðila og fjölskyldna þeirra, en kvaðst hafa haft meiri samskipti við stefnda og fjölskyldu hans og að þau samskipti hafi verið góð.
Með vísan til alls framangreinds þykir framburður vitnisins, Olavs Ingvalds Olsen, trúverðugur. Skýrsla vitnisins, Jóns Ingimars Sigurðssonar, styður einnig framburð Olavs, en Jón Ingimar gaf skýrslu um atburðinn hjá lögreglu 1. ágúst 1995, sem er í samræmi við skýrslu hans hér fyrir dómi. Aðspurt kvaðst vitnið þekkja báða málsaðila, en stefnda þó meira en stefnanda. Einnig þykir skýrsla Þórólfs Arnar Einarssonar hjá lögreglu styðja framburð þeirra Olavs Ingvalds og Jóns Ingimars. Frásögn stefnda sjálfs um að hann hafi átt í orðaskaki við föður stefndanda þykir sömuleiðis styðja framburð Olavs Ingvalds um að faðir stefnanda hafi orðið fyrir áreiti fólks fyrir utan félagsheimilið, sem og framburður Björgvins Hlíðar hér fyrir dómi um að hann hafi séð málsaðila með hálstak hvor á öðrum. Fram kemur í skýrslu Þórólfs Arnar Einarssonar hjá lögreglu að stefnandi hafi ekki tekið á móti þegar stefndi togaði í höndina á honum þar sem stefnandi hafi verið mjög ölvaður. Fram kemur og í framlögðu vottorði Baldurs P. Thorstensen, læknis á Höfn, að stefnandi hafi verið mjög drukkinn þegar hann kom á heilsugæslustöðina eftir atburðinn.
Með vísan til skýrslna Olavs Ingvalds Olsen og Jóns Ingimars Sigurðssonar fyrir dóminum og skýrslu Þórólfs Arnar Einarssonar hjá lögreglu þykir sannað að stefndi olli því að stefnandi fór úr axlarlið í umrætt sinn með því að spyrna fæti í hægri síðu stefnanda og toga um leið af alefli í hægri handlegg hans upp og aftur fyrir bak. Ljóst er að með þessu atferli hefur stefndi valdið stefnanda tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti og ber hann samkvæmt hinni almennu skaðabótareglu bótaábyrgð á tjóni stefnanda. Með hliðsjón af ofangreindu þykir ekki skipta máli hvor málsaðila var upphafsmaður átaka þeirra, en ekkert hefur komið fram í málinu sem bendir til þess að stefnandi hafi áreitt stefnda.
Samkvæmt örorkumati Atla Þórs Ólasonar læknis var stefnandi óvinnufær frá 11. júní til 16. ágúst 1995, sbr. og vottorð heilsugæslulækna á Höfn. Stefnandi hefur lagt fram launaseðla sína fyrir apríl, maí og september 1995. Fram hefur komið að stefnandi var háseti í afleysingum á bátnum Hafnarey SF-36 á þessum tíma en var ekki með fast skipsrúm. Fram kom í skýrslu stefnanda hér fyrir dómi að hann hafði ekki loforð um skipsrúm á bátnum á þessum tíma. Hins vegar hefur komið fram að stefnandi hóf störf að nýju sem sjómaður þegar hann varð vinnufær og hefur stundað sjómennsku síðan. Í málinu hefur ekkert komið fram, sem bendir til annars en að stefnandi hefði stundað sjómennsku sumarið 1995 hefði hann verið vinnufær. Þykir því rétt að leggja laun stefnanda í apríl, maí og september til grundvallar þegar bætur vegna tímabundins atvinnutjóns hans eru ákveðnar. Upplýst er að tekjur stefnanda af sjómennsku í apríl, maí og september 1995 voru samtals 434.980 krónur. Meðal mánaðartekjur hans voru því 144.993 krónur. Með hliðsjón af framangreindu þykja bætur til stefnanda vegna tímabundins atvinnutjóns í 67 daga hæfilega ákveðnar 324.000 krónur. Upplýst er að stefnandi fékk á þessum tíma greidda sjúkradagpeninga frá Tryggingastofnun ríkisins að fjárhæð 28.704 krónur, sem ber samkvæmt 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaga nr. að draga frá umræddum bótum.
Stefnandi krefst þjáningabóta samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga án rúmlegu í fjóra mánuði eða samtals 92.400 krónur. Byggist krafa þessi á örorkumati Atla Þórs Ólasonar læknis. Með hliðsjón af því að stefnandi var metinn vinnufær 16. ágúst 1995 og hann hefur eftir það unnið forfallalaust á sjó, sbr. framlagða örorkumatsgerð á dskj. nr. 11 þykir stefnandi einungis eiga rétt á þjáningabótum í 67 daga eða samtals 51.590 krónur.
Loks krefst stefnandi bóta vegna 5% varanlegs miska að fjárhæð 221.390 krónur. Byggist sú krafa á mati Atla Þór Ólasonar læknis. Stefndi kveður verulegan vafa leika á því að afleiðing átaka málsaðila séu þær sem greinir í niðurstöðu framlagðs örorkumats vegna fyrrgreindra hrakfalla stefnanda í aprílmánuði 1996.
Fram kemur í vottorði Baldurs P. Thorstensen læknis á Höfn dags. 15. desember 1996 að í byrjun apríl 1996 hafi stefnandi runnið til á svelli, dottið fram fyrir sig og borið fyrir sig báðar hendur. Daginn eftir hafi hann verið aumur í öxlinni en jafnað sig á tveimur vikum án meðhöndlunar. Hinn 23. sama mánaðar hafi stefnandi leitað til læknis vegna verkja og stirðleika í öxlinni eftir átök við sjómann. Hafi það verið meðhöndlað með bólgueyðandi lyfjum. Fyrir dómi kvaðst stefnandi reyndar ekki kannast við að hafa lent í átökum við sjómann. Kvað hann að um einhvern misskilning væri að ræða.
Í fyrrgreindu vottorði segir og m.a. að algengt sé að axlarliðhlaup hafi í för með sér einhvers konar varanlegan skaða, a.m.k. verki og stirðleika í öxl af og til. Enn fremur segir að stefnandi virðist hafa sloppið við alvarlegri fylgikvilla axlarliðhlaups, en hann eigi þó á hættu að hljóta endurtekið liðhlaup verði hann fyrir áverka á öxlina eða ef hann beitir hægri handlegg þannig að mikið álag verði á axlarliðinn fram á við. Jafnframt sé hætt við að stefnandi verði áfram með verkjaónot frá öxlinni af og til.
Með vísan til þessa, svo og framlagðs örorkumats, en upplýsingar þessar lágu fyrir við gerð þess, verður að telja alls ósannað að miska stefnanda megi rekja til annars en átaka málsaðila 11. júní 1995. Verður krafa stefnanda um bætur vegna varanlegs miska því tekin til greina að fullu.
Með vísan til framangreinds verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda alls 568.276 krónur vegna tímabundins atvinnutjóns, þjáninga og varanlegs miska.
Stefnandi krefst þess að bótafjárhæð beri vexti samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga frá tjónsdegi til 8. ágúst 1998. Samkvæmt d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 skal í stefnu greina svo glöggt sem vera má dómkröfur stefnanda, þ.á.m. vexti ef því er að skipta. Hefur þetta ákvæði verið skýrt svo að í stefnu verði að tilgreina vaxtahæð, sbr. og 2. mgr. 14. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, en þar er sú undantekning gerð frá meginreglunni að ef dráttarvaxta er krafist samkvæmt 10. gr. þeirra laga megi dæma dráttarvexti frá gjalddaga kröfunnar fram að greiðsludegi enda þótt vaxtahæð sé ekki tilgreind í stefnu. Með vísan til þessa verður að telja framangreinda kröfu stefnanda um vexti samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga vanreifaða og er henni því vísað frá dómi.
Tildæmd bótafjárhæð beri dráttarvexti eins og í dómsorði greinir.
Í samræmi við úrslit málsins greiði stefndi stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 327.330 krónur, þar af eru 77.330 krónur vegna útlagðs kostnaðar. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Dóminn kvað upp Ragnheiður Bragadóttir settur héraðsdómari.
Dómsorð:
Stefndi, Karl Guðni Ólafsson, greiði stefnanda, Svani Þór Sveinssyni, 568.276 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 8. ágúst 1998 til greiðsludags.
Kröfu stefnanda um vexti af höfuðstól samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga frá 11. júní 1995 til 8. ágúst 1998 er vísað frá dómi
Stefndi greiði stefnanda 327.330 krónur í málskostnað.