Hæstiréttur íslands

Mál nr. 49/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Fimmtudaginn 25

 

Fimmtudaginn 25. janúar 2007.

Nr. 49/2007.

Lögreglustjórinn á Selfossi

(enginn)

gegn

X

(Guðjón Ægir Sigurjónsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Fallist var á kröfu L um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. janúar 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 21. janúar 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi til mánudagsins 29. janúar 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili er undir rökstuddum grun um að hafa átt þátt í brotum gegn 164 gr. og 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

        Hinn kærði úrskurður er staðfestur.                                 

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 21. janúar 2007.

Sýslumaðurinn á Selfossi hefur gert þá kröfu að úrskurðað verði að kærðu X verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til kl. 16:00 mánudaginn 29. janúar n.k. á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Af hálfu kærðu er þess krafist að kröfu um gæsluvarðhald verði hafnað en til vara að því verði markaður skemmri tími.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að kl. 05:41 laugardaginn 20. janúar s.l. hafi lögreglu verið tilkynnt um eld í parhúsi við [...],  mikill eldur hafi verið í húsinu þegar að var komið og muni íbúðin mikið skemmd bæði af eldi og reyk.  Íbúðin hafi verið mannlaus en húsráðandi, A, hafi verið á sjó.  Reykskemmdir hafi orðið í hinni íbúð parhússins, en þar búi kona ásamt tveimur börnum sínum, þau hafi komist klakklaust út. 

Síðar sama dag hafi óþekktur aðili hringt í þjónustuver Landsbanka Íslands og kynnt sig sem A.  Hafi hann beðið um að fé yrði flutt milli reikninga yfir á greiðslukort sitt, vegna þess að brunnið hefði ofan af honum um nóttina og heimild á greiðslukorti sínu væri fullnýtt, þjónustufulltrúi hafi framkvæmt millifærsluna þó viðkomandi hefði ekki leyniorð á reikninginn. Grunsemdir hafi vaknað hjá bankanum þegar A hafi hringt skömmu síðar og óskað fyrirgreiðslu vegna eldsvoða sem hann hefði lent í, þá sömu nótt. Þetta hafi leitt til þess að kl. 14.17 hafi B verið handtekinn að Smiðjuvegi 34, í Kópavogi, þar sem hann hugðist nota kortanúmer greiðslukorts frá A til dekkjakaupa. Enn fremur hafi fundist í bifreið þeirri sem B ók 2 hnífar, ætlað amfetamín, grammavog og ætlaðir skuldalistar vegna fíkniefnakaupa, auk þess sem B sé sviptur ökurétti ævilangt.  Við handtöku hafi fundist greiðslukort A í vasa B.   

Samkvæmt framburði B hafi hann verið staddur í [...], umrædda nótt ásamt unnustu sinni, kærðu í máli þessu. Þeim hafi sinnast um nóttina og B í framhaldi af því farið í gönguferð um [...], þar hafi hann komið að ólæstri fólksbifreið framan við blokk og tekið þaðan veski með kredit- og greiðslukorti.  A ber aftur á móti að þennan morgun hafi hann verið sóttur af skipsfélögum sínum um kl. 4:00 og hafi hann skilið veski sitt eftir á heimili sínu að [...].  Sambýliskona hans hafi enn fremur nefnt sinn verið á bifreið þeirra í Reykjavík og gist þar um nóttina.  Kærða beri hins vegar að þau hafi verið saman að [...], allan tímann og B hafi ekki farið úr húsi þá um nóttina.  B beri að þau kærða hafi farið til Reykjavíkur um hádegisbil á laugardeginum, ásamt C bróður sínum og D.  Þau C og D hafi komið í [...] milli kl. 02:00 og 04:00 umrædda nótt.   Kærða beri aftur á móti að nefndur C hafi komið einn milli kl. 09:00 og 10:00 á laugardagsmorgninum og ekið þeim til Reykjavíkur.  Nefndur C mun einnig í haldi lögreglu.

Kærða og B neiti sakargiftum en B viðurkenni að eiga umrædda tvo hnífa. B hafi í dag verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til kl. 16:00 föstudaginn 2. febrúar n.k.  Þá hafi í dag verið framkvæmd húsleit á heimili kærðu að fengnum úrskurði dómsins og hafi fundist þar undir rúmi kærðu kvikmyndatökuvél merkt A og einnig utanáliggjandi drif. Þá hafi fundist tómt veski í ruslatunnu í eldhúsi og hafi A borið kennsl á þessa muni.  Telur lögregla því ljóst að þessum munum hafi verið stolið að [...] í fyrrinótt.  Einnig hafi fundist grænn bensínbrúsi í forstofu. Kærða hefur hjá lögreglu og fyrir dómi ekki kannast við ofangreinda muni. Fram kemur í greinargerð lögreglu að brunavettvangur hafi verið girtur af og bíði brunarannsóknar sem hefjist á mánudagsmorgun og hafi verið lagt hald á fatnað B og C og bíði hann tæknirannsóknar. Þá sé verið að framkvæma húsleit á dvalarstað C í Reykjavík.  Þá eigi eftir að samprófa kærðu og aðra um ýmis atriði í frásögn hennar.  Telur lögreglan um flókna rannsókn að ræða og umfangsmikla og sé hætt við að kærða geti spillt rannsókninni með því að hafa samband við aðra eða samseka verði hún látin laus.  Sé verið að rannsaka ætluð brot kærðu á 2. mgr. 164. gr. og 244. gr. almennra hegningarlaga, en þau brot sem hér um ræði geti varðað fangelsi teljist sök sönnuð

Kærða er grunuð um brot sem geta varðað hana fangelsisrefsingu ef sök sannast.  Kærða neitar sakargiftum en rannsóknargögn vekja sterkan grun um aðild hennar að framangreindum brotum. Eftir er að yfirheyra og samprófa þá sem borið geta um ferðir kærðu og þá er beðið tæknirannsóknar á brunavettvangi og fatnaði og munum sem fundust í fórum kærðu. Rannsókn málsins er á algjöru frumstigi og verður að telja að hætta sé á því að kærða geti spillt rannsókninni með óskertu frelsi, svo sem með því að hafa áhrif á vitni eða þá sem hugsanlega eru samsekir.  Rannsóknarhagsmunir styðja þannig kröfu um að kærðu verði gert að sæta gæsluvarðhaldi.  Er því fallist á að skilyrði a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála séu uppfyllt og verður krafa sýslumannsins á Selfossi tekin til greina, og skal kærða sæta gæsluvarðhaldi allt til kl. 16:00 mánudaginn 29. janúar n.k.

Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

             Kærða, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 29. janúar n.k. kl. 16:00.