Hæstiréttur íslands

Mál nr. 358/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði
  • Sjálfræði


                                                                                                                          

Mánudaginn 6. júní 2012.

Nr. 358/2012.

A

(Oddgeir Einarsson hdl.)

gegn

B

(María Magnúsdóttir hdl.)

Kærumál. Lögræði. Sjálfræði.

Úrskurður héraðsdóms um að A yrði sviptur sjálfræði, á grundvelli a. liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. maí 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. maí 2012, þar sem sóknaraðili var að kröfu varnaraðila sviptur sjálfræði í sex mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kærumálskostnaðar greiddur úr ríkissjóði. 

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar úr ríkissjóði. 

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Oddgeirs Einarssonar héraðsdómslögmanns, og skipaðs talsmanns varnaraðila, Maríu Magnúsdóttur héraðsdómslögmanns, 200.000 krónur til hvors þeirra.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. maí 2012.

Með beiðni, dagsettri 10. maí 2012, hefur B, kt. [...], óskað eftir því að sonur hennar, A, kt. og heimilisfang [...], verði sviptur sjálfræði á grundvelli a-liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Um aðild er vísað til a-liðar 2. mgr. 7. gr. sömu laga.

                Varnaraðili andmælir kröfunni og krefst þess aðallega að henni verði synjað, en til vara að sjálfræðissviptingu verði markaður lágmarkstími.

                Samkvæmt vottorði C geðlæknis, dagsettu 9. maí sl., er varnaraðili í geðrofsástandi og bendir margt til þess að hann sé haldinn geðklofasjúkdómi. Kemur fram að hann hafi miklar ranghugmyndir, sem stýri hegðun hans og sé hann því ekki fær um að hugsa um sig sjálfur. Hann hafi ekki sjúkdómsinnsæi og óski ekki eftir að njóta læknismeðferðar á geðdeild. Líklegt sé að sjúkdómseinkenni hafi varað í allt að eitt ár. Varnaraðili hafi verið lagður inn á bráðageðdeild fyrir þremur vikum og notið lyfjameðferðar þann tíma. Líðan hans hafi batnað örlítið, en lengri meðferð sé nauðsynleg. Án áframhaldandi læknismeðferðar stefni varnaraðili heilsu sinni í voða og spilli möguleikum á bata. Kemur fram í læknisvottorðinu að nauðsynlegt sé talið að sjálfræðissvipting vari í 6 mánuði til að ná tilætluðum árangri.

                C gaf skýrslu fyrir dóminum, staðfesti læknisvottorð sitt og áréttaði álit sitt sem þar kemur fram. Hún kvaðst telja hæfilegt að svipta varnaraðila sjálfræði í 6 mánuði og líklegt að hann geti náð góðum bata á þeim tíma.

Niðurstaða

      Með staðfestu vottorði C geðlæknis, er sýnt fram á að varnaraðili er ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum. Er fullnægt skilyrðum a-liðar 4. gr. lögræðislaga og verður varnaraðili sviptur sjáfræði svo að tryggja megi að hann njóti viðeigandi læknismeðferðar. Með hliðsjón af læknisvottorði og vætti C verður svipting sjálfræðis miðuð við 6 mánuði, sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist málskostnaður úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Maríu Magnúsdóttur hdl., og varnaraðila, Oddgeirs Einarssonar hdl., 75.300 krónur til hvors um sig að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

                Varnaraðili, A, kt. [...], er sviptur sjálfræði í 6 mánuði.

                Málskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun talsmanns sóknaraðila, Maríu Magnúsdóttur hdl., og varnaraðila, Oddgeirs Einarssonar hdl., 75.300 krónur til hvors um sig.