Hæstiréttur íslands

Mál nr. 426/2016

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari)
gegn
X (Bjarni Hauksson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Haldlagning

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X um að aflétta haldi á nánar tilgreindum tölvubúnaði. Var í dómi Hæstaréttar vísað til þess að þrátt fyrir að þær tafir sem hefðu orðið á rannsókn málsins væru aðfinnsluverðar með hliðsjón af 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. og 3. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 þá hefði lögreglustjóri lýst því yfir að ákæra yrði gefin út innan skamms og væru því ekki næg efni til að fella haldlagninguna úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. júní 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. maí 2016, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun sóknaraðila um að leggja hald á nánar tilgreindan tölvubúnað varnaraðila. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að haldlagningunni verði aflétt. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Þær tafir sem orðið hafa á rannsókn máls þessa eru aðfinnsluverðar með hliðsjón af 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. og 3. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008, en í ljósi þess að sóknaraðili hefur lýst því yfir að ákæra verði gefin út fyrir lok júní 2016 eru ekki næg efni til að fella framangreinda haldlagningu úr gildi. Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. maí 2016.

Mál þetta hófst með því að dómnum barst bréf frá sóknaraðila 19. apríl 2016. Málið var tekið til úrskurðar 19. maí 2016 að loknum munnlegum málflutningi. 

Sóknaraðili er X, [...], [...], en varnaraðili lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, Hverfisgötu 113, 150 Reykjavík.

I.

Sóknaraðili krafðist þess í fyrstu að felld yrði úr gildi ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að leggja hald á eftirfarandi tæki og gagnageymslubúnað: Toshiba fartölvu, Coolmaster Pc turntölvu, USB 3.0 flakkara 1 tb., farsíma af gerðinni HTC Desire HD og USB-minnislykla.

Við upphaf munnlegs málflutnings, féll sóknaraðili frá kröfu um afléttingu haldlagningar á USB-minnislyklum. Þá lýsti varnaraðili því yfir að fallist væri á afhendingu á USB-flakkara og HTC Desire HD farsíma.

Því er nú krafa sóknaraðila sú að felld verði úr gildi ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að leggja hald á Toshiba fartölvu og Coolmaster Pc turntölvu. Þá krefst hann málskostnaðar úr ríkissjóði.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og að sóknaraðila verði gert að greiða málskostnað.

Varnaraðila var í þinghaldi 29. apríl 2016 veittur frestur til 4. maí, til að skila greinargerð af sinni hálfu. Hann kaus síðan að nýta sér ekki þann rétt.

II.

Varnaraðili hóf rannsókn þessa máls í kjölfar kæru frá [...]., 24. febrúar 2014. Skömmu síðar eða 24. mars 2014 var sóknaraðili handtekinn á þáverandi heimili sínu að [...] í [...], grunaður um að hafa afritað höfundarréttarvarið myndefni sem sýnt hafði verið á sjónvarpsstöðinni [...] og deilt því áfram á netsíðunni www.[...]. Við sama tækifæri fór fram húsleit á heimili sóknaraðila á grundvelli úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur frá 21. mars 2014 og munir þeir sem mál þetta varðar haldlagðir. Kærði var yfirheyrður af lögreglu sama dag en var í kjölfarið látinn laus úr haldi. Kærði var aftur yfirheyrður af lögreglu þann 28. nóvember 2014, og einnig að því er virðist 19. desember 2014 samkvæmt skýrslu lögreglu frá 5. janúar 2015. Eftir það eru engin gögn í málinu sem bera með sér að rannsókn þess hafi verið fram haldið og miðað áfram, fyrr en degi fyrir málflutning um kröfu þessa. Talsmaður varnaraðila staðhæfir þó að á tímabilinu hafi sérfræðingar lögreglu haft gögn málsins til skoðunar.

Sóknaraðili hefur margsinnis óskað þess munnlega að fá hina haldlögðu muni afhenta en ætíð verið synjað um það.

Sóknaraðili var eins og áður segir kallaður til skýrslutöku 18. maí 2016 og lýsti talsmaður varnaraðila því yfir við munnlegan málflutning um kröfu þessa, að rannsókn málsins væri nú lokið og málið komið í ákærumeðferð. Taldi hann þá að ákæra yrði gefin út á næstu þremur til fjórum vikum.

III.

Sóknaraðili kveðst byggja kröfu sína um afléttingu haldlagningar á því að skilyrði 68. gr. laga nr. 88/2008 um haldlagningu séu ekki fyrir hendi. Hinn haldlagði búnaður og tæki hafi ekki sönnunargildi í sakamáli, eða að minnsta kosti ekki lengur, og búnaðarins og tækjanna hafi ekki verið aflað á refsiverðan hátt. Því geti ekki komið til þess að búnaðurinn kunni að verða gerður upptækur, enda sé sóknaraðili saklaus af þeim sakargiftum sem tengjast haldlagningunni og sakargiftir auk þess óljósar.

Varðandi mögulega upptöku búnaðarins og tækjanna verði að líta til stöðu málsins í dag og geti ekki skipt máli þó að þessi möguleiki teljist hugsanlega hafa verið fyrir hendi á fyrri stigum málsins.

Sá dráttur sem orðið hefur á rannsókn málsins og hægagangur verði vart skýrður öðruvísi en svo að ekki hafi tekist að sanna sök á sóknaraðila. Þar sem rökstuddur grunur teljist þannig ekki fyrir hendi séu skilyrði haldlagningar ekki uppfyllt.

Sóknaraðili kveðst og byggja á því að reglur um málshraða hafi verið brotnar og að hann eigi ekki að þurfa að sæta haldlagningu á verðmætum í sinni eigu í svo langan tíma. Brot á málshraðareglum leiði sjálfkrafa til þess að skilyrði haldlagningar sé ekki fyrir hendi, hvað sem líði öðrum skilyrðum hennar. Rannsakendum beri að hraða rannsókn til að takmarka þá alvarlegu skerðingu sem felist í haldlagningu. Sóknaraðili telur mega leiða þetta af ákvæðum í 70. gr. stjórnarskrárinnar, 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Megi einnig vísa til meðalhófsreglu ákvæðis 3. mgr. 53. gr. laga um meðferð sakamála sem kveður á um að þeir sem rannsaka mál skuli gæta þess að mönnum verði ekki gert meira tjón, óhagræði eða miski en óhjákvæmilegt sé eftir því sem á stendur. Þá sé og vísað til ákvæðis 1. mgr. 72. gr. sömu laga, þar sem kemur m.a. fram að aflétta skuli haldi þegar þess sé ekki lengur þörf.

Sóknaraðili telur að varnaraðili hafi ekki gert það líklegt að ekki hefði mátt ljúka rannsókn málsins fyrr. Vísar hann til röksemda í fjórum dómum Hæstaréttar í málunum nr. 682-685/2011, þar sem kyrrsetning í eignum sakborning hafi verið felld úr gildi, en enginn greinarmunur verði gerður á því hvort um kyrrsetningu eða haldlagningu sé að ræða. Bæði úrræðin séu mjög íþyngjandi þvingunarráðstafanir, sem takmarki stjórnarskrárvarinn rétt manna og lögaðila til að njóta forræðis yfir eignum sínum. Liðin séu meira en tvö ár síðan sóknaraðili var handtekinn og munir haldlagðir.

Ekki sé hægt að réttlæta seinaganginn í málinu með umfangi þess. Verði að telja að lögreglunni hafi verið í lófa lagið að ljúka rannsókn málsins á mun skemmri tíma en raun beri vitni.

Sóknaraðili telji að ekki sé ágreiningur um eignarhald hans á hinum haldlagða búnaði. Upplýsti lögmaður sóknaraðila við málflutning, að fyrrum vinnuveitandi hans hefði átt aðra tölvuna en sóknaraðili eigi hana nú. Hvað sem öðru líði hafi hinir haldlögðu munir verið í vörslum sóknaraðila á heimili hans.

IV.

Varnaraðili kveðst byggja á því að haldlagning í öndverðu hafi verið nauðsynleg vegna rannsóknarhagsmuna. Þótt rannsóknargögn, sem lögð voru fram í þinghaldi 4. maí sl. beri það ekki með sér að mikið hafi gerst frá árslokum 2014, hafi sérfræðingar lögregluembættisins verið að greina og rannsaka þau gögn sem aflað hafi verið. Þá sé sá tími sem hér um ræði sambærilegur og í málum þar sem Hæstiréttur hafi hafnað því að aflétta haldlagningu. Varnaraðili bendi og á að vafi leiki á um eignarrétt á annarri tölvunni og því sé ekki hægt að fallast á að hún verði afhent sóknaraðila.

Meginatriði í þessu máli sé sú staðreynd að rannsókn sé nú lokið og málið komið í ákærumeðferð

V.

Heimild lögreglu til að leggja hald á muni er að finna í 68. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 þar sem segir að leggja skuli hald á muni, þar á meðal skjöl, ef ætla megi að þeir ellegar hlutir eða upplýsingar sem þeir hafa að geyma hafi sönnunargildi í sakamáli, að þeirra hafi verið aflað á refsiverðan hátt eða að þeir kunni að vera gerðir upptækir. Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. er lögreglu heimilt að leggja hald á muni án dómsúrskurðar nema ákvæði 2. mgr. greinarinnar eigi við. Í 72. gr. laganna segir að aflétta skuli haldi þegar þess sé ekki lengur þörf og í síðasta lagi þegar máli er endanlega lokið nema ákvæði a- til c-liðar 1. mgr. greinarinnar eigi við.

Samkvæmt 3. mgr. 69. gr., sbr. 2. mgr. 102. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 getur eigandi eða vörsluhafi munar, sem lögregla hefur lagt hald á, borið lögmæti haldlagningar undir dómara.

Fallist er á það með varnaraðila, eins og málið er vaxið samkvæmt rannsóknargögnum og þegar horft er til tilefnis rannsóknaraðgerða lögreglu, að haldlagning á umræddum munum hafi verið nauðsynleg vegna rannsóknarinnar og að gögnin hafi haft sönnunargildi í málinu. 

Á hinn bóginn er með öllu óútskýrt það hlé sem varð á rannsókn málsins, að minnsta kosti samkvæmt framlögðum gögnum, frá ársbyrjun 2015 að því er virðist og allt til 18. maí sl. Þótt ekki sé ástæða til að draga í efa yfirlýsingu aðstoðarsaksóknara fyrir dómi þess efnis að á tímabilinu hafi verið unnið af sérfræðingum lögreglu við rannsókn tölvugagna, verður ekki annað séð en að dráttur á rannsókn málsins sé umtalsverður og brjóti gegn réttindum sóknaraðila sem varin eru af 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu samanber lög nr. 62/1994. Þá ber þeim sem rannsaka mál að hraða málsmeðferð eins og kostur er samkvæmt 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008. Varnaraðili hefur ekki gert það sennilegt að haldlagning á umræddum tölvum hafi verið nauðsynleg í allan þennan tíma vegna rannsóknarhagsmuna, en samkvæmt 72. gr. laga nr. 88/2008 ber að aflétta haldi þegar þess er ekki lengur þörf. Fallist er á að haldlagningu megi jafna til kyrrsetningar í þeim skilningi að um er að ræða íþyngjandi þvingunarúrræði sem skerða alla jafnan mjög réttindi þess er fyrir verður. Því verður litið svo á að brot á málshraðareglu geti leitt eitt og sér til þess að aflétta beri haldi sbr. sjónarmið í framangreindum Hæstaréttarmálum nr. 682-685/2011.

Þrátt fyrir framangreint verður að líta til þess að varnaraðili hefur lýst því yfir að rannsókn málsins sé lokið og ákæra verði væntanlega gefin út á næstu dögum. Viðbúið er að krafist verði í ákæru, upptöku á tölvubúnaðinum, en að öðrum kosti mun varnaraðili væntanlega afhenda sóknaraðila búnaðinn. Hugsanlegt er einnig, úr því sem komið er, að búnaðurinn verði nýttur við sönnunarfærslu undir rekstri málsins. Sú ályktun verður óhjákvæmilega dregin að krafa sóknaraðila um afléttingu á haldi hafi orðið til þess að ákveðið var að ljúka rannsókn málsins. Fyrirséð er því að ekki muni líða langur tími þar til sóknaraðili fær hina haldlögðu muni afhenta, svo lengi sem ekki verður gerð krafa um upptöku þeirra og þá eftir atvikum fallist á slíka kröfu. Að þessu virtu er fallist á með varnaraðila að ekki séu að svo stöddu, efni til að fella haldlagningu þá er um ræðir í málinu, úr gildi.

Samkvæmt framansögðu er hafnað kröfu sóknaraðila um að fella úr gildi ákvörðun varnaraðila um að leggja hald á tölvubúnað sóknaraðila. 

Ekki eru efni til að kveða á um málskostnað.

Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ

Kröfu sóknaraðila um að felld verði úr gildi ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, um að leggja hald á Toshiba fartölvu og Coolmaster Pc turntölvu, er hafnað.