Hæstiréttur íslands
Mál nr. 374/2008
Lykilorð
- Bifreið
- Líkamstjón
- Örorka
- Skaðabótalög
- Dráttarvextir
- Samlagsaðild
|
|
Fimmtudaginn 5. febrúar 2009. |
|
Nr. 374/2008. |
Hlini Melsteð Jóngeirsson(Hlöðver Kjartansson hrl.) gegn Jóngeiri Hjörvari Hlinasyni og Vátryggingafélagi Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.) |
Bifreiðir. Líkamstjón. Örorka. Skaðabótalög. Dráttarvextir. Samlagsaðild.
H höfðaði mál til heimtu bóta vegna tveggja umferðarslysa. Í fyrra slysinu var hann ökumaður bifreiðar í eigu föður síns, J. Bifreiðin var tryggð ökumannstryggingu samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 hjá V og beindist krafa H að eiganda hennar og vátryggjanda. Í síðara slysinu var H farþegi í bifreið sem lenti í árekstri við bifreið í eigu G hf. og var síðarnefnda tryggð ábyrgðartryggingu hjá V. Við meðferð málsins fyrir Hæstarétti féll H frá kröfum á hendur G, þar sem meðferð máls á hendur fjármálafyrirtæki sem veitt hefur verið greiðslustöðvun verður ekki fram haldið á meðan á greiðslustöðvun stendur, sbr. 4. mgr. 2. gr. laga nr. 129/2008 um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Var honum talið það heimilt. Í kjölfar nýrra upplýsinga frá H um tekjuöflun hans á árinu 1997 gerði V upp bætur til hans í október 2005 vegna beggja slysanna. Hæstiréttur staðfesti með vísan til forsendna úrlausnir héraðsdóms um einstaka liði í kröfum H vegna slysanna tveggja að öllu öðru leyti en um dráttarvexti af bótum vegna síðara slyssins 25. janúar 2003. Var J því sýknaður af kröfu H. Hafði H og V greint á um við hvaða laun bæri að miða við útreikning bóta til H eftir síðara slysið. Leiddi það til þess að V féllst í tölvubréfi 11. október 2004 á að miða útreikning bóta fyrir varanlega örorku H við tekjur hans á slysaárinu 2003. Í málinu lá ekki fyrir hvenær H afhenti V staðfestar upplýsingar um nefnd árslaun. Þær lágu að minnsta kosti fyrir 11. október 2004 og þótti með vísan til 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu mega miða við að krafa H vegna þessa slyss skyldi bera dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá 11. nóvember 2004.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. júlí 2008. Hann krefst þess að stefndu, Jóngeir Hjörvar Hlinason og Vátryggingafélag Íslands hf., verði óskipt dæmdir til að greiða sér 1.792.695 krónur með 2% ársvöxtum af 1.725.274 krónum frá 27. ágúst 1997 til 28. ágúst 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, að frádreginni innborgun stefnda 7. október 2005 að fjárhæð 982.454 krónur. Þá krefst áfrýjandi þess einnig að stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., verði dæmdur til að greiða sér 1.940.498 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 28. ágúst 2004 til greiðsludags, að frádreginni innborgun stefnda 7. október 2005 að fjárhæð 1.394.852 krónur. Loks krefst áfrýjandi að stefndu verði í báðum tilvikum dæmdir til greiðslu málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og að áfrýjandi verði dæmdur til að greiða þeim málskostnað fyrir Hæstarétti.
Mál þetta hefur áfrýjandi höfðað til heimtu bóta vegna tveggja umferðarslysa 27. ágúst 1997 og 25. janúar 2003. Í fyrra slysinu var hann ökumaður bifreiðar í eigu föður síns, stefnda Jóngeirs Hjörvars Hlinasonar. Bifreiðin var tryggð ökumannstryggingu samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. og beinist krafa áfrýjanda að eiganda hennar og vátryggjanda. Í síðara slysinu var áfrýjandi farþegi í bifreið, sem lenti í árekstri við bifreið í eigu Glitnis banka hf. og tryggð var ábyrgðartryggingu hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. Kröfu sinni um bætur vegna þess slyss beindi hann í héraði og við áfrýjun héraðsdóms að eigandanum, Glitni banka hf., sbr. 1. mgr. 90. gr. umferðarlaga og stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. á grundvelli ábyrgðartryggingar samkvæmt 91. gr. laganna, sbr. einnig 1. mgr. 95. gr. og 1. mgr. 97. gr. þeirra.
Í 4. mgr. 2. gr. laga nr. 129/2008 um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 er kveðið á um að meðferð máls á hendur fjármálafyrirtæki sem veitt hefur verið heimild til greiðslustöðvunar verði ekki fram haldið meðan á greiðslustöðvun stendur. Svo mun standa á um Glitni banka hf. Í tilefni af þessu og í þeim tilgangi að fá lagðan dóm á málið fyrir Hæstarétti hafa málsaðilar lagt fyrir réttinn sameiginlega yfirlýsingu um að áfrýjandi falli frá kröfum á hendur Glitni banka hf. og að af hálfu bankans sé þetta samþykkt og jafnframt fallið frá málskostnaðarkröfu á hendur áfrýjanda fyrir Hæstarétti. Samkvæmt 1. mgr. 95. gr. umferðarlaga er vátryggingafélag greiðsluskylt gagnvart tjónþola vegna bótakrafna samkvæmt 1. mgr. 91. gr. laganna. Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 11. júlí 2007. Þá höfðu gengið í gildi lög nr. 30/2004 um vátryggingasamninga, en í 44. gr. þeirra felst að tjónþoli við ábyrgðartryggingu getur krafist bóta beint frá vátryggingafélagi án þess að ávallt sé nauðsynlegt að stefna líka þeim sem ber skaðabótaábyrgð og keypt hefur trygginguna. Samkvæmt þessu verður lagður efnisdómur á málið í þeim búningi sem að framan er lýst.
Stefndu hafa ekki mótmælt því að áfrýjandi stefni þeim í einu máli vegna beggja slysanna og er þessi háttur við málsóknina heimill, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málsatvikum og málsástæðum aðila er lýst í hinum áfrýjaða dómi.
Hinn 7. október 2005 gerði stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. upp bætur til áfrýjanda vegna beggja slysanna eins og lýst er í héraðsdómi. Þá höfðu félaginu borist nýjar upplýsingar frá áfrýjanda um tekjuöflun hans á árinu 1997, sem skiptu máli við uppgjör bóta vegna fyrra slyssins en samkvæmt gögnum málsins voru þær sendar með símbréfi 23. september 2005. Við uppgjörið fékk áfrýjandi greidda vexti af kröfum sínum en ekki dráttarvexti, eins og missagt er í héraðsdómi.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verða staðfestar úrlausnir hans um hina einstöku liði í kröfum áfrýjanda vegna slysanna tveggja að öllu öðru leyti en um dráttarvexti af bótum vegna síðara slyssins 25. janúar 2003. Stefndi Jóngeir Hjörvar Hlinason verður því sýknaður af kröfu áfrýjanda.
Hinn 28. júlí 2004 sendi lögmaður áfrýjanda stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. bréf þar sem gerð var grein fyrir bótakröfum áfrýjanda vegna beggja slysanna. Þar var krafa um bætur vegna varanlegrar örorku í síðara slysinu miðuð við „meðallaun verkakarla á höfuðborgarsvæðinu“ 2.715.264 krónur á ári. Í svarbréfi 12. ágúst 2004 tók stefndi fram að hann vildi miða við „lágmarkslaun, sjá 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, til viðmiðunar við útreikning varanlegrar örorku.“ Kom fram að þau næmu 1.619.500 krónum á ári. Í framhaldinu skiptust aðilar á orðsendingum um þetta. Leiddi það til þess að stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. féllst í tölvubréfi 11. október 2004 á að miða útreikning bóta fyrir varanlega örorku áfrýjanda eftir þetta slys við tekjur hans á slysárinu 2003 sem námu 2.235.000 krónum. Við þessar tekjur var svo miðað, þegar félagið gerði upp bætur vegna þessa slyss 7. október 2005. Í málinu liggur ekki fyrir hvenær áfrýjandi afhenti stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. staðfestar upplýsingar um nefnd árslaun. Þær lágu samkvæmt framansögðu að minnsta kosti fyrir 11. október 2004. Með vísan til 9. gr. laga nr. 38/2001 þykir mega miða við að krafa áfrýjanda vegna þessa slyss skuli bera dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá 11. nóvember 2004. Samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja í málinu nemur sú fjárhæð, sem bera skal dráttarvexti frá þessum degi samkvæmt framansögðu, 1.507.376 krónum, en það er höfuðstóll þeirrar fjárhæðar sem stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. greiddi áfrýjanda vegna þessa slyss 7. október 2005, 1.394.852 krónur, að viðbættum 4,5% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sem fallnir voru á kröfuna 11. nóvember 2004, en af gögnum málsins má ráða að þeir hafi þann dag numið 109.524 krónum. Samkvæmt þessu verður stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. dæmdur til að greiða áfrýjanda þá fjárhæð sem dráttarvextirnir reiknast af samkvæmt framansögðu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 11. nóvember 2004 til greiðsludags en að frádreginni þeirri fjárhæð höfuðstóls og vaxta sem þessi stefndi greiddi áfrýjanda 7. október 2005, samtals 1.562.216 krónum.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991 verður málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti felldur niður.
Dómsorð:
Stefndi, Jóngeir Hjörvar Hlinason, er sýkn af kröfu áfrýjanda, Hlina Melsted Jóngeirssonar.
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði áfrýjanda 1.507.376 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. nóvember 2004 til greiðsludags, en að frádregnum 1.562.216 krónum miðað við 7. október 2005.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. apríl 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 1. febrúar sl., og endurupptekið og flutt að nýju hinn 15. apríl sl., var höfðað fyrir dómþinginu af Hlina Melsteð Jóngeirssyni, Staðarbergi 8, Hafnarfirði, á hendur Jóngeiri Hjörvari Hlinasyni, Lyngdal 5, Vogum, Glitni banka hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík, og Vátryggingafélagi Íslands hf., með stefnu áritaðri um birtingu 11. júlí 2007.
Dómkröfur stefnanda eru:
1) að stefndu Jóngeir Hjörvar Hlinason og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði in solidum 1.792.695 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993, frá 27. ágúst 1997 til 28. ágúst 2004, og að þeir vextir höfuðstólsfærist árlega, í fyrsta sinn 27. ágúst 1998, og með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001, af þeirri fjárhæð, frá 28. ágúst 2004 til greiðsludags, og höfuðstólsfærist dráttarvextir árlega, í fyrsta sinn 28. ágúst 2005. Til frádráttar komi innborgun stefnda hinn 7. október 2005, að fjárhæð 982.454.
2) að stefndu, Glitnir hf. og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði in solidum stefnanda 1.940.498 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 frá 28. ágúst 2004 til greiðsludags, og dráttarvextir höfuðstólsfærist árlega, í fyrsta sinn 28. ágúst 2005. Til frádráttar komi innborgun stefnda hinn 7. október 2005, að fjárhæð 1.394.852 krónur.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu in solidum, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Dómkröfur stefndu eru þær aðallega, að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hans hendi að mati dómsins, en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
II
Mál þetta á rót sína í tveimur umferðarslysum 27. ágúst 1997 og 25. janúar 2003. Slasaðist stefnandi í báðum þessum slysum.
Í fyrra slysinu var stefnandi, sem sat í bílbelti, ökumaður bifreiðarinnar G-5815, er henni var ekið aftan á bifreiðina JA-601, kyrrstæða á Laugavegi við gatnamót Bolholts í Reykjavík, sem við það kastaðist aftan á bifreiðina TR-767 sem einnig var kyrrstæð við gatnamótin. Eigandi bifreiðarinnar G-5815 var faðir stefnanda, stefndi, Jóngeir Hjörvar Hlinason, og var hún tryggð lögboðinni ökutækjatryggingu hjá stefna, Vátryggingafélagi Íslands hf.
Í síðara slysinu var stefnandi farþegi og sat í bílbelti í framsæti jeppabifreiðarinnar PX-409, er hún lenti í árekstri við bifreiðina PN-814 á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar í Reykjavík. Eigandi bifreiðarinnar PN-814 var stefndi, Glitnir hf., og var hún tryggð lögboðinni ökutækjatryggingu hjá stefna, Vátryggingafélagi Íslands hf. Glitnir hf. rann saman við Íslandsbanka hf., 1. janúar 2003. Nafni Íslandsbanka hf. var síðar breytt í Glitnir banki hf. og sú breyting skráð hjá hlutafélagaskrá 28. mars 2006. Bótakröfunni er því beint að Glitni banka hf. og Vátryggingafélagi Íslands hf.
Stefnandi var 17 ára, er fyrra slysið varð, en 22 ára í seinna slysinu. Var hann í bílbelti í bæði skiptin. Var honum metin 3% varanleg örorka og 4% varanlegur miski af völdum hvors slyss samkvæmt matsgerð læknanna Jónasar Hallgrímssonar og Ragnars Jónssonar, dagsettri 11. maí 2004. Þá hafði stefnandi lent í bílslysi 13. maí 1998 og mátu læknarnir honum 4% varanlegan miska af völdum þess slyss, en varanleg örorka taldist engin. Stóðu málsaðilar sameiginlega að öflun matsgerðarinnar ásamt Sjóvá Almennum tryggingum hf., sem vátryggði viðkomandi ökutæki í síðastnefnda slysinu .
Samkvæmt upplýsingum í matsgerð lauk stefnandi grunnskóla vorið 1996, hóf síðan nám í Flensborg um haustið, vann sumarið 1997 við viðgerðir og samsetningar á tölvum og eitthvað með hjá Samkaupi, er hann lenti í slysinu 27. ágúst 1997. Hann hélt síðan áfram námi í Flensborg um haustið, en sótti skólann illa það misserið og féll á mætingu, en náði hins vegar tveim prófum vorið 1998 þrátt fyrir slysið 13. maí 1998. Haustið 1999 var hann í Flensborg, en hætti eftir tvo mánuði vegna svefnörðugleika. Frá sumri 2000 var hann þjónn á hóteli í hálft ár og frá janúar 2001 var hann þjónn á veitingaskipi í hálft ár. Síðan var hann atvinnulaus utan ígripavinnu um helgar. Frá janúar 2002 starfaði hann sem bílstjóri hjá Íslandspósti í ellefu mánuði, en síðan í þjónustuveri fyrirtækisins og fluttist til Og Vodafone eftir samruna fyrirtækjanna. Vann hann þar sem þjónustufulltrúi, er hann lenti í slysinu 23. janúar 2003.
Með bréfi 28. júlí 2004 krafði lögmaður stefnanda, á grundvelli matsgerðarinnar, stefnda Vátryggingafélag Íslands hf., um bætur fyrir bifreiðaslysin 27. ágúst 1997 og 25. janúar 2003. Var krafist bóta fyrir sjúkrakostnað og annað fjártjón, tímabundið atvinnutjón, þjáningar, varanlegan miska og varanlega örorku. Miðaði stefnandi við meðalárslaun verkakarla til útreiknings á bótum fyrir varanlega örorku. Hinn 12. ágúst 2004 sendi stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., lögmanninum tillögur að bótauppgjöri fyrir bæði slysin. Var í þeim tillögum ekki gert ráð fyrir bótum fyrir sjúkrakostnað og annað fjártón né tímabundið atvinnutjón, þar sem stefndi taldi en sönnur skorta fyrir þeim kröfuliðum. Ekki voru heldur boðnar bætur fyrir varanlegan miska vegna fyrra slyssins, þar sem stefndi taldi lagaskilyrði skorta, en í 4. gr. þágildandi skaðabótalaga hafi sérstaklega verið tekið fram, að engar bætur skyldi greiða, þegar varanlegur miski væri minni en 5%. Þá var í tillögunum gert ráð fyrir bótum fyrir varanlega örorku á grundvelli miskastigs, sbr. 1. mgr. 8. gr. þágildandi skaðabótalaga, en stefnandi var barn í lagaskilningi og ekki annað fyrirliggjandi, en hann hefði verið námsmaður og nýtt vinnugetu sína þannig, að hann hefði haft mjög takmarkaðar vinnutekjur. Loks miðaði stefndi í tilboðinu við lágmarksárslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga til útreiknings á bótum fyrir varanlega örorku vegna síðara slyssins, og taldi fyrirliggjandi tekjuupplýsingar ekki gefa tilefni til annars.
Lögmaður stefnanda hafnaði tilboðinu í tölvupósti 8. október 2004, og taldi m.a. árslaunaviðmiðun í síðara slysinu ekki vera rétt, engar bætur væru fyrir varanlega miska í fyrra slysinu og bætur fyrir varanlega örorku í sama slysi á grundvelli 1. mgr. 8. gr. þágildandi skaðabótalaga. Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., bauð stefnanda, vegna síðara slyssins, að miða við árslaun hans á slysárinu, 2.235.000 krónur, við útreikning bóta fyrir varanlega örorku, í stað meðalvinnutekna þriggja síðustu almannaksára fyrir slysið eins og miðað er við 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.
Með tölvupósti 18. október 2004 sendi lögmaður stefnanda stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., nýjar upplýsingar um skólasókn og tekjur stefnanda og ítrekaði ósk sína um bætur fyrir varanlegan miska vegna fyrra slyssins. Hinn 12. nóvember 2004, setti stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., fram nýtt bótatilboði. Fólst breyting frá fyrra tilboði efnislega í því, að stefndi bauð að bæta stefnanda varanlegan miska vegna fyrra slyssins og nota fyrrnefnda árslaunaviðmiðun, 2.235.000 krónur, við útreikning bóta fyrir varanlega örorku vegna síðara slyssins. Ekki var frekar en áður reiknað með bótum fyrir sjúkrakostnað og annað fjártjón eða tímabundið atvinnutjón. Þá var sem fyrr reiknaðir vextir og lögmannskostnaður á fram boðnar bætur.
Með tölvupósti 8. des. 2004 gerði lögmaður stefnanda áfram ágreining, einkum varðandi árslaunaviðmiðunina, kröfu um bætur vegna sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns og bótakröfur vegna tímabundins atvinnutjóns. Þá krafðist hann einnig dráttarvaxta og mun hærri lögmannsþóknunar, en stefndi hafði reiknað með í bótatilboðunum
Með bréfi til stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., 4. október 2005 ítrekaði lögmaður stefnanda fyrri kröfur, en sendi nú jafnframt ljósrit af launaseðlum stefnanda vegna vinnu hans hjá Kaupfélagi Suðurnesja frá desember 1996 til desember 1997. Að fengnum þeim upplýsingum bauðst stefndi hinn 5. október 2005 til að bæta varanlega örorku stefnanda vegna fyrra slyssins og miða við laun stefnanda á slysárinu 1997, þar sem launaseðlarnir sýndu ca 1000 tíma atvinnuþátttöku hjá stefnanda á árinu 1997, sem væri ca 50% starf. Kveður stefndi, að árslaun hafi verið fundin með því að tvöfalda launafjárhæð stefnanda samkvæmt launaseðli 1997, 556.508 krónur, og bæta við 6% framlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Hafi árslaun stefnanda þá numið 1.179.797 krónum, sem með verðbótum sé samtals 1.602.985 krónur. Gerði stefndi daginn eftir, eða 6. október 2005, upp bæði slysin við lögmann stefnanda í takt við þetta og áður fram boðnar bætur, ásamt vöxtum frá slysdögum til greiðsludags og innheimtuþóknun lögmanns. Tók lögmaður stefnanda við bótunum sem innborgun og með fyrirvara um einstaka kröfuliði.
Höfðaði stefnandi síðan mál þetta til heimtu krafna, sem stefndu telja að ekki eigi rétt á sér. Ber þar hæst vegna fyrra slyssins kröfur stefnanda um bætur fyrir sjúkrakostnað og annað fjártjón, tímabundið atvinnutjón og bætur fyrir varanlega örorku á grundvelli meðaltekna verkamanna, en vegna síðara slyssins bótakrafa fyrir tímabundið atvinnutjón auk bótakröfu fyrir varanlega örorku á grundvelli meðaltekna verkamanna. Þá er ágreiningur um vexti, dráttarvexti og umkrafinn lögmannskostnað samkvæmt taxta skrifstofu lögmann stefnanda.
III
Stefnandi byggir bótakröfur sínar á ákvæðum XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987, einkum 88. og 90. gr. Stefnda VÍS greiddi stefnanda 7. október 2005 bætur vegna slysanna og tók stefnandi við bótagreiðslunni sem innborgun og með fyrirvara um hana og einstaka liðir hennar, þar sem ekki væri um fullar bætur að ræða.
Stefnandi leitaði tveimur dögum eftir fyrra slysið til Heilsugæslustöðvarinnar Sólvangi. Á vettvangi síðara slyssins kvartaði stefnandi um verk í baki og hálsi. Var hann fluttur þaðan með lögreglubifreið á slysadeild Landspítalans í Fossvogi.
Með beiðni lögmanns stefnanda, stefnda Vátryggingafélags Íslands og Sjóvár-Almennra trygginga hf., dagsettri 30. janúar 2003, var læknunum Ragnari Jónssyni og Jónasi Hallgrímssyni falið að framkvæma örorkumat vegna slyssins, hinn 27. ágúst 1997, og einnig vegna þriðja slyssins sem áður er ógetið og stefnandi lenti í 13. maí 1998. Því mati var frestað vegna slyssins, hinn 25. janúar 2003, og var sömu læknum síðar einnig falið að framkvæma örorkumat vegna þess. Vegna slyssins hinn 13. maí 1998 átti stefnandi bótarétt úr lögboðinni ökutækjatryggingu hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf. og fékk hann það að fullu bætt í samræmi við matsgerð læknanna, dagsetta 11. maí 2004.
Í matsgerðinni komust læknarnir að þeirri niðurstöðu að heildarmiski stefnanda vegna slysanna þriggja væri 12% og heildarörorka 6%. Miskinn skiptist jafnt á slysin þrjú, en örorkan aðeins á fyrsta og þriðja slysið. Vegna slyssins 27. ágúst 1997 hefði stefnandi hlotið 3% varanlega örorku og 4% varanlegan miska. Tímabundið atvinnutjón hans var metið 100% í þrjá daga og síðan var hann í hlutastarfi með skóla í fjóra mánuði og þjáningatímabil án rúmlegu var metið frá 27. ágúst 1997 til 31. desember 1997. Vegna slyssins 25. janúar 2003 hefði stefnandi hlotið 3% varanlega örorku og 4% varanlegan miska. Tímabundið atvinnutjón hans var metið 100% tímabilið 25. janúar 2003 til 14. febrúar 2003, þjáningatímabil tveir mánuðir án rúmlegu og stöðugleikapunktur 25. mars 2003.
Með bréfi, dagsettu 28. júlí 2004, krafði lögmaður stefnanda stefnda Vátryggingafélag Íslands hf. um skaðabætur vegna þessara tveggja slysa, hinn 27. ágúst 1997 og 25. janúar 2003, á grundvelli matsgerðarinnar. Krafist var bóta fyrir varanlegan miska sem í báðum tilvikum var 4% og vegna varanlegrar örorku samkvæmt ákvæðum 5.-7. gr. skaðabótalaga og miðað við að árslaunaviðmiðun væri metin, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna. Bótakröfur stefnanda og tilboð sem stefnda VÍS gerði stefnanda um fullnaðaruppgjör 12. ágúst 2004 sundurliðuðust samkvæmt eftirgreindu með vísan til viðeigandi ákvæða skaðabótalaga.
|
Slysið 27. ágúst 1997: |
|
Tilboð VÍS |
|
Sjúkrakostnaður og annað fjártjón skv. 1. mgr. 1. gr. |
kr. 250.000 |
kr. 0 |
|
Tímabundið atvinnutjón skv. 2. gr. |
kr. 260.200 |
kr. 0 |
|
Þjáningabætur skv. 3. gr. |
kr. 124.740 |
kr. 122.760 |
|
Varanlegur miski skv. 4. gr. |
kr. 226.880 |
kr. 0 |
|
Varanleg örorka skv. 5.-7. gr. |
kr. 863.454 |
kr. 177.833 |
|
Bótakrafa alls |
kr. 1.725.274 |
kr. 300.593 |
Tilboð stefnda, Vátryggingafélagsins hf., um bætur vegna varanlegrar örorku hafi verið byggð á 8. gr. þágildandi skaðabótalaga. Telur stefnandi tilboðsfjárhæðina eigi heldur fela í sér fullar bætur samkvæmt þeirri viðmiðun sem hefði átt, hvað sem öðru líði, að reiknast þannig: 4.000.000 kr. x 4654/3282 = 5.572.000 kr. x 4% (varanlegur miski) = 226.886 kr. x 108% = 240.710 kr.
|
Slysið 25. janúar 2003: |
|
Tilboð VÍS |
|
Tímabundið atvinnutjón skv. 2. gr. |
kr. 192.390 |
kr. 0 |
|
Þjáningabætur skv. 3. gr. (átti að vera kr. 59.400) |
kr. 124.740 |
kr. 59.400 |
|
Varanlegur miski skv. 4. gr. (átti að vera kr. 226.880) |
kr. 59.400 |
kr. 225.820 |
|
Varanleg örorka skv. 5.-7. gr. |
kr.1.373.755 |
kr. 793.295 |
|
Bótakrafa alls (átti að vera kr. 1.852.425) |
kr.1.750.285 |
kr. 1.078.515 |
Fjárhæðir krafna um þjáningabætur og varanlegan miska vegna þessa slyss höfðu misritast í kröfubréfinu, en þeir liðir hafi réttilega átt að nema 59.400 kr. í stað 124.740 kr. vegna þjáningabóta og 226.880 kr. í stað 59.400 kr. vegna varanlegs miska eins og getið sé innan sviga í yfirlitinu.
Tilboð Vátryggingafélags Íslands hf. um bætur vegna varanlegrar örorku hafi verið reiknað þannig: Árslaun 1.619.500 kr. x 16,3280 x 3% = 793.295 kr. Árslaunaviðmiðunin hafi verið sögð byggð á lágmarkslaunum samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, en stefnandi telur útreikning eftir þeirri viðmiðun ófullnægjandi og tilboðsfjárhæðina, hvað sem öðru líði, eigi fela í sér fullar bætur samkvæmt þeirri árslaunaviðmiðun sem hefði átt að reiknast þannig: 1.200.000 kr. x 4654/3282 = 1.702.000 kr. (kr. 1.701.645,34).
Mismunur á framboðnum þjáningabótum í báðum tilvikum og bótum vegna varanlegs miska vegna slyssins 25. janúar 2003 hefði ekki þurft að hindra samkomulag aðila um bótauppgjör, en stefnda hafi verið tilkynnt að ekki væri unnt að ljúka bótamálunum á þeim grundvelli sem fram komi í tilboði hans: Annars vegar vegna árslaunaviðmiðunar stefnda í síðara slysinu og viðmiðunar við reglur 8. gr. skaðabótalaga í hinu fyrra og hins vegar vegna hinnar vafasömu skiptingar 12% af varanlegum heildarmiska í matsgerðinni, sem læknarnir hafi metið alls 12% í slysunum þremur og skipt honum að jöfnu á hvert þeirra, og ylli því, samkvæmt tilboði stefnda, að stefnandi ætti að tapa bótum fyrir nefndan 4% miska vegna fyrra slyssins. Sjóvá-Almennar tryggingar hf. hafi bætt slíkan miska að fullu í bótauppgjöri vegna slyssins 13. maí 1998 sem lokið hafi verið með samkomulagi. Með tölvupósti 11. október 2004 hafi stefndi þó tilkynnt að hann væri tilbúinn til þess, við útreikning örorkubóta vegna slyssins 25. janúar 2003, að taka mið af tekjum stefnanda á slysárinu 2.235.000 kr. + 6%, en aðrir liðir í bótatillögunum frá 12. ágúst 2004 stæðu óbreyttir.
Með tölvupósti, dagsettum 18. október 2004, hafi stefnandi sent stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., samantekt um skólasókn stefnanda eftir að hann lauk grunnskólanámi 1996, laun hans og launamánuði og bréf Flensborgarskólans í Hafnarfirði, dagsett 15. október 2004, ásamt útprentuðum námsferli hans við skólann skólaárin 1996-2001. Tekið sé fram í þessum pósti að samkvæmt þeim gögnum væri sýnt að stefnandi hefði ekki stundað nám á þessum tíma með eðlilegum hætti og því bæri að ákvarða honum bætur sem launþega og meta honum árslaun samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., hafi gert stefnanda nýtt tilboð um fullnaðaruppgjör 12. nóvember 2004. Bótakröfur stefnanda og það tilboð stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., sundurliðist samkvæmt eftirgreindu með vísan til viðeigandi ákvæða skaðabótalaga.
|
Slysið 27. ágúst 1997: |
|
Tilboð VÍS |
|
Sjúkrakostnaður og annað fjártjón skv. 1. mgr. 1. gr. |
kr. 250.000 |
kr. 0 |
|
Tímabundið atvinnutjón skv. 2. gr |
kr. 260.200 |
kr. 0 |
|
Þjáningabætur skv. 3. gr. |
kr. 124.740 |
kr. 124.000 |
|
Varanlegur miski skv. 4. gr. |
kr. 226.880 |
kr. 226.780 |
|
Varanleg örorka skv. 5.-7. gr. |
kr. 863.454 |
kr. 239.925 |
|
Bótakrafa alls |
kr. 1.725.274 |
kr. 590.705 |
Tilboð stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., um bætur vegna varanlegrar örorku hafi áfram verið byggt á 8. gr. skaðabótalaga og á því að telja yrði að stefnandi hefði verið í námi og nýtt vinnugetu sína þannig að um takmarkaðar tekjur hefði verið að ræða. Styðjist það einnig við frásögn hans í örorkumati. Hins vegar hafi í þessu tilboði verið fallist á að bæta stefnanda varanlega miskann, sem ekki hafi verið gert í fyrra tilboði stefnda frá 12. ágúst 2004.
|
Slysið 25. janúar 2003: |
|
Tilboð VÍS |
|
Tímabundið atvinnutjón skv. 2. gr. |
kr. 192.390 |
kr. 0 |
|
Þjáningabætur skv. 3. gr. (var ranglega kr. 124.740) |
kr. 59.400 |
kr. 60.000 |
|
Varanlegur miski skv. 4. gr. (var ranglega kr. 59.400) |
kr. 226.880 |
kr. 228.500 |
|
Varanleg örorka skv. 5.-7. gr. |
kr. 1.373.755 |
kr. 1.094.792 |
|
Bótakrafa alls (var ranglega kr. 1.750.285) |
kr. 1.852.425 |
kr. 1.383.292 |
Tilboð stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., um bætur vegna varanlegrar örorku í þessu tilboði hafi reiknast í samræmi við áðurgreinda tilkynningu í tölvupósti 11. október 2004, þannig: Árslaun 2.235.000 kr. x 16,3280 x 3% = 1.094.792 kr., en í fyrra tilboði hafi árslaunaviðmiðunin verið byggð á lágmarkslaunum samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.
Þessu tilboði stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., hafi verið svarað með því í tölvupósti lögmanns stefnanda, 8. desember 2004, að það væri ekki aðgengilegt fyrir stefnanda, þ.m.t. að því er varðaði vexti og dráttarvexti frá 28. ágúst 2004. Stefnandi kveður engin viðbrögð hafa komið frá stefnda við þessu. Með tölvupósti 8. apríl 2005 hafi lögmaður stefnanda enn ítrekað við stefnda hvort ekki ætti enn einu sinni að freista samkomulags. Með tölvupósti stefnda 12. apríl 2005 hafi því verið svarað til að stefndi sæi ekki flöt á því að víkja frá síðastgreindu uppgjörstillögum sínum og þær stæðu óbreyttar.
Með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda, dagsettu bréf 4. október 2005, hafi áður gerðar kröfur verið ítrekaðar, auk þess sem krafist hafi verið áframhaldandi vaxta samkvæmt skaðabótalögum frá dagsetningu kröfubréfs 29. júlí 2004 til 28. ágúst 2004, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Til frekari upplýsingar hafi launaseðlar stefnanda, vegna starfa hans hjá Kaupfélagi Suðurnesja frá desember 1996 til desember 1997, fylgt bréfinu.
Enn hafi stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., gert stefnanda nýtt tilboð um fullnaðaruppgjör 5. október 2005. Bótakröfur stefnanda og það tilboð stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., sundurliðist samkvæmt eftirgreindu með vísan til viðeigandi ákvæða skaðabótalaga.
|
Slysið 27. ágúst 1997: |
|
Tilboð VÍS |
|
Sjúkrakostnaður og annað fjártjón skv. 1. mgr. 1. gr. |
kr. 250.000 |
kr. 0 |
|
Tímabundið atvinnutjón skv. 2. gr. |
kr. 260.200 |
kr. 0 |
|
Þjáningabætur skv. 3. gr. |
kr. 124.740 |
kr. 128.960 |
|
Varanlegur miski skv. 4. gr. |
kr. 226.880 |
kr. 226.780 |
|
Varanleg örorka skv. 5.-7. gr. |
kr. 863.454 |
kr. 480.895 |
|
Bótakrafa alls |
kr. 1.725.274 |
kr. 836.635 |
|
Vextir |
|
kr. 145.819 |
|
Innheimtuþóknun lögfræðings |
|
kr 61.930 |
|
Virðisaukaskattur |
|
kr. 15.173 |
|
Samtals |
|
kr. 1.059.557 |
Tilboð VÍS um bætur vegna varanlegrar örorku var loks nú reist á 7. gr. skaðabótalaga og vísað til þess að samkvæmt launaseðlum hafi atvinnuþátttaka stefnanda á árinu 1997 verið ca 1000 tímar og sé það ca 50% starf. Við útreikning á bótum fyrir varanlega örorku væri byggt á þeim launum og þau uppfærð til 100% launa að viðbættu 6% framlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Árslaunaviðmiðun í tilboðinu er kr. 1.602.985, en útreikningur þeirrar fjárhæðar ekki sýndur á nokkurn hátt.
|
Slysið 25. janúar 2003: |
|
Tilboð VÍS |
|
Tímabundið atvinnutjón skv. 2. gr. |
kr. 192.390 |
kr. 0 |
|
Þjáningabætur skv. 3. gr. (var ranglega kr. 124.740) |
kr. 59.400 |
kr. 62.400 |
|
Varanlegur miski skv. 4. gr. (var ranglega kr. 59.400) |
kr. 226.880 |
kr. 237.660 |
|
Varanleg örorka skv. 5.-7. gr. |
kr. 1.373.755 |
kr. 1.094.792 |
|
Bótakrafa alls (var ranglega kr. 1.750.285) |
kr. 1.852.425 |
kr. 1.394.852 |
|
Vextir |
|
kr. 167.364 |
|
Innheimtuþóknun lögfræðings |
|
kr. 101.244 |
|
Virðisaukaskattur |
|
kr. 24.805 |
|
Ýmis kostnaður ótalinn annars staðar |
|
kr. 1.600 |
|
Samtals |
|
kr. 1.689.865 |
Þetta tilboð stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., um bætur vegna varanlegrar örorku hafi verið óbreytt frá tilboðinu 12. nóvember 2004, en þjáningabætur og bætur fyrir varanlegan miska þó ögn hærri.
Eins og áður segi hafi stefnda, Vátryggingafélag Íslands hf., greitt stefnanda hinn 7. október 2005 bætur vegna slysanna í samræmi við þetta tilboð um fullnaðaruppgjör, samtals að upphæð 2.749.422 krónur (1.059.557 kr. + 1.689.865 kr.), að meðtöldum tilgreindum fjárhæðum í vexti, og lögmannskostnað og útlagðan kostnað, án nokkurra skýringa. Hafi stefnandi tekið við bótagreiðslunni sem innborgun og með fyrirvara um hana og einstaka liði hennar, þar sem ekki væri um fullar bætur að ræða.
Stefnandi hefur sundurliðað dómkröfur sínar í málinu í samræmi við áðurnefndar leiðréttingar vegna ritvillna í kröfubréfi, dagsettu 28. júlí 2004, með vísan til viðeigandi ákvæða skaðabótalaga, nr. 50/1993, með síðari breytingum:
|
Slysið 27. ágúst 1997: |
|
|
Sjúkrakostnaður og annað fjártjón samkvæmt 1. mgr. 1. gr., að álitum |
kr. 250.000 |
|
Tímabundið atvinnutjón skv. 2. gr.: 100% í 3 daga miðað við mánaðarlaun, kr. 100.000 x 3/30 =10.000 kr. + 6% framlag atvrek. í lífeyrissj. =
|
kr. 10.600 |
|
100% í 4 mánuði í hlutastarfi með skóla-miðað við mánaðarlaun60.000 kr. x 4 = 240.000 kr. + 6% framlag atv.rek. í lífeyrissj. = kr. 249.600 |
kr. 260.200 |
|
Þjáningabætur skv. 3. gr.: |
|
|
126 dagar x (kr. 700 x 4654/3282) kr. 990 |
kr. 124.740 |
|
Varanlegur miski skv. 4. gr.: |
|
|
kr. 4.000.000 x 4654/3282 = kr. 5.572.000 x 4% |
kr. 226.880 |
|
Varanleg örorka skv. 5.-7. gr. Árslaunaviðmiðun meðal mánaðarlaun verkakarla á höfuðborgarsvæðinu skv. upplýsingum kjararannsóknanefndar |
|
|
(upplýsingar um þessi laun á slysdegi ekki til) og framreiknuð með þróun launavísitölu 1988-2004; 151.300 kr. á 1. ársfj. 1998 x (launavísitala ágúst 1997) 158/(launavísitölu janúar 1998) 167,9 = mánaðarlaun 142.378 x (launavísitala júní 2004) 251,1 / (launavísitölu ágúst 1997) 158 = |
|
|
mánaðarlaun 226.272 kr. og árslaun 2.715.264 kr. +6% framlag atvinnurekanda í lífeyrissjóð |
|
|
162.915 kr. = 2.878.179 kr. x 10 x 3% |
kr. 863.454 |
|
|
kr. 1.725.274 |
Með vísan til 16. gr. skaðabótalaga hafi verið krafist 2% ársvaxta af bótafjárhæð -
246.749 krónur, í kröfubréfi, dagsettu 28. júlí 2004, en vaxtainnborgun stefnda hafi numið 145.819 krónum, í áðurgreindu bótauppgjöri. Í samræmi við réttarframkvæmd sé vaxtakrafan ekki fólgin í höfuðstól stefnukröfu, en vaxtagreiðslan komi til frádráttar stefnukröfu samkvæmt eftirgreindri sundurliðun.
Innheimtukostnaður samkvæmt taxta skrifstofu lögmanns stefnanda af greiddri bótafjárhæð, 836.635 krónur, hefði réttilega átt að nema 144.624 krónum, en stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., hafi einhliða aðeins greitt 77.103 krónur og ógreiddur kostnaður sé því
|
|
kr. 67.421 |
|
1. tl. stefnukröfu alls |
kr. 1.792.695 |
Frádráttarliður í 1. tl. stefnukröfu, 982.454 krónur, sundurliðist þannig:
( 836.635 kr. + 145.819 kr.).
|
Slysið 25. janúar 2003: |
|
|
|
Tímabundið atvinnutjón skv. 2. gr.: |
|
|
|
100% í 3 vikur tímabilið 25.01.2003 14.02.2003 |
|
|
|
miðað við mánaðarlaun í jan. 2003 |
|
|
|
kr. 242.000 x ¾ = 181.500 + 6% framlag atvrek. í lífeyrissj. |
|
kr. 192.390 |
|
Þjáningabætur skv. 3. gr. (var ranglega kr. 124.740) |
|
|
|
60 dagar x (700 kr. x 4654/3282) 990 |
|
kr. 59.400 |
|
Varanlegur miski skv. 4. gr. (var ranglega kr. 59.400) |
|
|
|
4.000.000 kr. x 4654/3282 = 5.572.000 kr. x 4% |
|
kr. 226.880 |
|
Varanleg örorka skv. 5.-7. gr. Sama viðmiðun og vegna slyss 27.08.1997. Árslaun kr. 2.715.264 +6% framlag atvrek. í lífeyrissjóð162.915 kr.= 2.878.179 kr.x 3% x 15,910 |
|
kr. 1.373.755 |
|
Samtals (var ranglega 1.750.285 kr.) |
|
kr. 1.852.425 |
Með vísan til 16. gr. skaðabótalaga hafi verið krafist 4,5% ársvaxta af bótafjárhæð, eða 109.836 króna, í kröfubréfi. Þar sem vaxtagreiðsla í áðurgreindu bótauppgjöri hafi numið 167.364 krónum skoðist þessi kröfuliður að fullu greiddur. Innheimtukostnaður samkvæmt taxta skrifstofu lögmanns stefnanda af greiddri bótafjárhæð, 1.394.852 krónur, hefði réttilega átt að nema 214.122 krónum, en stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., hafi einhliða greitt 126.049 krónur, og ógreiddur kostnaður sé því kr. 88.073
2. tl. stefnukröfu alls kr. 1.940.498
Frádráttarliður í 2. tl. stefnukröfu, 1.394.852 krónur, nemi bótagreiðslu samkvæmt framangreindri sundurliðun á bótauppgjöri stefnda, Vátryggingafélagsins hf.
Samtals nemi fjárhæð dómkröfu stefnanda samkvæmt framangreindu 3.733.193 krónum (1.792.695 kr. + 1.940.498 kr.) auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar. Inn á þennan hluta bótakröfunnar hafi stefndi greitt, samkvæmt framangreindu, 2.377.306 krónur (836.635 kr. + 145.819 kr. + 1.394.852 kr.), sem komi stefnukröfunni til frádráttar eins og fram komi í dómkröfum.
Stefnandi kveðst hafa lokið grunnskólanámi árið 1996 og hafið nám við Flensborgarskólann haustið 1996. Hann hafi starfað hjá Hafnarfjarðarkaupstað um sumarið og einnig unnið með skólanum hjá Samkaupum frá og með desember 1996 til og með desember 1997 og hafi haft laun þar alla þá mánuði. Haustönnina 1996 hafi stefnandi verið skráður í sex námsgreinar. Hann hafi fallið eða hætt í fjórum greinum og verið með slaka mætingu, einkunnina 3 í skólasókn af 10 mögulegum. Í október, nóvember og desember 1997 hafi hann einnig unnið á þremur öðrum stöðum: Hróa hetti, Pizza 2000 og Hafnarfjarðarkirkju. Vorönnina 1997 hafi hann verið í sjö námsgreinum og fallið eða hætt í fjórum. Á prentuðum námsferli hafi hann verið með 0% í skólasókn. Vegna afleiðinga slyssins 27. ágúst 1997 hafi hann átt erfitt með svefn og þreyst og verið með stöðug óþægindi í baki. Hann hafi ætlað sér að vinna um haustið hjá Samkaupum með skóla, en lítið orðið úr því. Á haustönn 1997 hafi skólasókn stefnanda og námsárangur verið svipaður. Hann hafi staðist próf í aðeins einni grein, fallið í einni, en ekki lokið prófi í þremur greinum. Þá hafi hann fallið á skólasókn. Stefnandi hafi horfið frá námi í Flensborg, skráð sig aftur í Flensborgarskólann á vorönn 1999, en horfið frá námi án þess að taka próf. Á haustönn 2000 hafi hann verið í sjö námsgreinum, fallið í tveimur, hætt í tveimur, en lokið þremur. Hann hafi fallið á skólasókn. Þá hafi hann verið skráður til náms á vorönn 2001, en hætt við og horfið frá námi án próftöku.
Árið 1998 hafi stefnandi áfram unnið hjá Pizza 2000 við að keyra út pizzur í janúar - apríl og síðan á mörgum öðrum stöðum. Árið 1999 hafi hann verið í vinnu síðari hluta ársins, m.a. við viðgerðir og samsetningar á tölvum hjá TB-tæknibúnaði og sem þjónn á Hótel Geysi. Árin þar á eftir hafi hann meira og minna verið í fullri vinnu á ýmsum stöðum, svo sem við veitingastörf. Á tímabilum hafi hann verið atvinnulaus. Í árslok 2001 hafi hann hafið störf hjá Íslandspósti sem bílstjóri. Seint á árinu 2002 hafi hann farið að vinna hjá Íslandssíma í þjónustuveri sem þjónustufulltrúi og síðan hjá Og Vodafone við samruna fyrirtækjanna og Og fjarskiptum. Frá marsmánuði 2002 hafi hann verið á námskeiði í tvo mánuði um kvöld og helgar (MCP nám Microsoft Certified Professional) í nýja Tölvu- og viðskiptaskólanum, þar sem hann hafi hugsað sér að læra meira í kringum þáverandi starf og jafnvel hugað að formlegu nám í kerfisfræði. Árið 2005 hafi hann starfað hjá Dagsbrún hf., síðar 365 hf., og hafi frá ársbyrjun 2006 starfað hjá Friðriki Skúlasyni ehf.
|
Stefnandi kveður tekjur sínar hafa verið eftirfarandi: |
|
|
Árið 1996 Hafnarfjarðarkaupstaður og Kaupfélag Suðurnesja |
kr. 126.581 |
|
Árið 1997 Kaupfélag Suðurnesja, Hrói Höttur, Pizza 2000, Hafnarfjkirkja |
kr. 627.750 |
|
Árið 1998 Pizza 2000, Þórver, Sjóvá, 10-11, Nyt ehf., |
|
|
Samband alm. lífeyrissjóða, Vöruveltan, Þórscafé, Tölvusetrið, Takmark |
kr. 716.758 |
|
Árið 1999 TB-tæknibúnaður og Hótel Geysir |
kr. 1.085.127 |
|
Árið 2000 Hótel Geysir, Veitingahúsið Þór og Lendur |
kr. 733.172 |
|
Árið 2001 Lendur og Íslandspóstur |
kr. 421.511 |
|
Árið 2002 - Íslandspóstur og Íslandssími |
kr. 1.533.445 |
|
Árið 2003 Og fjarskipti |
kr. 2.235.000 |
|
Árið 2004 Og fjarskipti |
kr. 3.142.051 |
|
Árið 2005 Dagsbrún hf. |
kr. 2.759.308 |
|
Árið 2006 365 hf. og Friðrik Skúlason ehf. |
kr. 2.160.131 |
|
Árið 2007 janúar til maí Friðrik Skúlason ehf. |
kr. 1.457.998 |
Sjúkrakostnaður og annað fjártjón samkvæmt 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga.
Krafa vegna slyssins 27. ágúst 1997 sé gerð að álitum, enda viðurkennt að erfitt sé um sönnun vegna þessa tjóns, t.d. að leggja fram reikninga því til grundvallar eins og fram komi í athugasemdum með frumvarpi til hinna upphaflegu skaðabótalaga, og líkur séu á því að stefnandi hafi orðið fyrir sjúkrakostnaði og öðru fjártjóni. Hafi stefnanda ekki verið bættur nokkur kostnaður vegna slíks tjóns af völdum slyssins. Krafan sé á því byggð, að vegna slyssins hafi stefnandi þurft á lyfjum og læknishjálp að halda, haft kostnað vegna náms sem ónýttist og orðið fyrir töfum í námi. Vegna afleiðinga slyssins hafi hann lítið getað sinnt námi og störfum veturinn 1997-1998 og orðið fyrir töfum í námi.
Námið veturinn 1997 1998 hafi orðið honum að mestu ónýtt vegna afleiðinga slyssins og einnig eftir það. Þá hafi hann orðið fyrir verulegu tjóni vegna kaupa á námsgögnum sem eigi hafi heldur nýst. Tjón vegna tafa í námi beri samkvæmt greindum athugasemdum að meta eftir þeim sömu efnisreglum og áður hafi gilt um bætur fyrir röskun á stöðu og högum vegna tafa í námi vegna slyss, sbr. 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þessi kröfuliður sé við það miðaður að stefnandi hafi tafist sem nemur einu ári í námi eða að eitt ár hafi ónýst honum og einnig raskað möguleikum hans til tekjuöflunar á þessu tímabili. Kröfulið þessum sé í hóf stillt og fái stuðning í dómum Hæstaréttar, svo sem dómum 13. júní 2002 í málinu nr. 19/2002 og 4. nóvember 2004 í málinu nr. 18872004
Þjáningabætur og varanlegur miski.
Ágreiningslaust sé að stefnanda beri þjáningabætur og bætur fyrir varanlegan miska samkvæmt skaðabótalögum í samræmi við matsgerð vegna beggja slysanna. Hins vegar sé misræmi í útreikningi aðila á þeim. Stefnandi byggir á því og það sé viðurkennt af stefndu að reikna beri bætur að þessu leyti á verðlagi þess tíma, er kröfubréf hafi verið sent stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., 28. júlí 2004, auk vaxta samkvæmt skaðabótalögum til 28. ágúst 2004, er mánuður hafi verið liðinn frá kröfubréfi, og dráttarvaxta frá þeim tíma til greiðsludags. Tjón stefnanda að þessu leyti hafi stefndu ekki bætt honum að fullu.
Tímabundið atvinnutjón.
Slysið 27. ágúst 1997:
Samkvæmt matsgerð sé tímabundið atvinnutjón stefnanda vegna slyssins 100% í þrjá daga og síðan í hlutastarfi með skóla í fjóra mánuði. Þjáningatímabil sé frá slysdegi 27. ágúst 1997 til 31. desember 1997. Laun stefnanda í júlí 1997 hafi numið alls 118.197 krónum, en í ágúst 1997 102.999 krónum. Með vísan til þessa, launa stefnanda að öðru leyti árið 1997 og skerðingar á auknum launatekjum, vegna afleiðinga slyssins, sem stefnandi hafi ætlað sér með vinnu um kvöld og helgar með námi síðari hluta ársins, sé kröfu vegna nefndra þriggja daga í ágúst að upphæð 10.600 krónur og 249.000 krónur, eða samtals 260.200 krónur, í hóf stillt. Í öllu falli beri stefnanda bætur annað hvort að þessu leyti eða vegna annars fjártjóns samkvæmt framangreindu eða samkvæmt báðum þessum kröfuliðum að hluta.
Slysið 25. janúar 2003:
Samkvæmt matsgerð sé tímabundið atvinnutjón stefnanda vegna slyssins 100% tímabilið 25. janúar 2003 til 14. febrúar 2003. Þjáningatímabil sé tveir mánuðir frá slysdegi og stöðugleikapunktur 25. mars 2003. Á þessum tíma hafi stefnandi starfað hjá Og Vodafone. Verði ekki á þennan kröfulið, að upphæð 192.390 krónur, fallist eins og hann sé settur fram, sé þess krafist að stefnanda verði bættur mismunur launa hans í janúar 2003 242.000 krónur og í febrúar 2003 184.000 krónur, eða 58.000 krónur, en þar sé um að tefla launatap vegna skerðingar á vinnugetu af völdum slyssins.
Varanleg örorka.
Slysið 27. ágúst 1997:
Stefnandi kveður, að þegar í kröfubréfi 28. júlí 2004 hafi verið gerð skýr grein fyrir forsendum þessa kröfuliðar og þeim rökum sem hann hafi verið byggður á. Hann sé á því byggður, að meta verði árslaunaviðmiðun stefnanda samkvæmt þágildandi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Tjónþoli hafi verið 17 ára á slysdegi og hafi því ekki eðlilega árslaunaviðmiðun samkvæmt 1. mgr. 7. gr., þ.e. á næstliðnu ári fyrir þann dag er tjónið varð. Á þessum tíma hafði hann ekki lagt grunn að neinni fagmenntun, þó helst vinnu við tölvur. Á árinu 2003 hafi hann þannig lokið MCSA námi (Microsoft Certified System Adminisstrator) og hafi ráðgert frekara nám tengt þáverandi starfi hjá Og fjarskipti hf. og jafnvel nám í kerfisfræði. Hann hafi, af eðlilegum ástæðum vegna aldurs og námsloka í grunnskóla, verið með óverulegar launtekjur á árinu 1996 eða aðeins 126.581 krónu vegna vinnu í júní-ágúst hjá Hafnarfjarðarbæ og í desember hjá Kaupfélagi Suðurnesja. Slysárið hafi tekjur hans verið aðeins 627.750 krónur vegna vinnu alla mánuði ársins á áðurgreindum vinnustöðum. Tekjur hans hafi verið frekar óreglulegar og lágar árin þar á eftir á ýmsum stöðum. Þar sé um að kenna afleiðingum slyssins. Vegna þessara óvenjulegu aðstæðna verði að meta árslaun hans. Þó svo að stefnandi hafi verið ungur að árum á slysdegi geti það ekki, án tillits til atvika að öðru leyti, leitt til þess að fylgja beri reglu þágildandi 8. gr. skaðabótalaga við uppgjör bóta honum til handa fyrir varanlega örorku. Þó hann hafi verið, eða réttara sagt hangið, í skóla með fram vinnu verði honum ekki ákvarðaðar bætur á grundvelli miskastigs samkvæmt þágildandi 1. mgr. 8. gr. skaðabótalaga, þó að hann hafi einnig nýtt vinnugetu sína þannig að hann hafi ekki haft fullar vinnutekjur. Skýra beri nefnda lagareglu þröngt, enda um undantekningarreglu að tefla frá meginreglu 7. gr. laganna. Í raun hafi stefnandi nýtt vinnugetu sína að verulegu leyti til að afla tekna eins og framangreindar upplýsingar og framlögð gögn um tekjur hans sýni. Þótt hann hafi verið ungur námsmaður eigi hér við um bótarétt hans, sem fram komi í athugasemdum við 8. gr. í frumvarpi til upphaflegra skaðabótalaga, að henni verði því aðeins beitt um ungt námsfólk sem afli tekna í vinnu með námi, og án tillits til tekna af þess konar vinnu, svo framarlega sem nemandinn stundi í reynd nám með eðlilegum hætti. Því fari fjarri að stefnandi hafi stundað nám sitt með eðlilegum hætti eða árangri. Það staðfesti fram komnar upplýsingar í málinu og framlögð gögn frá Flensborgarskólanum. Að því gættu og vinnuframlagi stefnanda til tekjuöflunar hafi stefnandi nýtt vinnugetu sína að verulegu leyti til að afla tekna og engin alvara verið í námi hans. Það sýni námsástundun hans, námsárangur, vinnuframlag til tekjuöflunar og tekjur hans fyrir slysið. Þegar á þessum tíma hafi hann hafið störf tengd tölvum og tölvuvinnslu sem hann hafi náð góðum tökum á með sjálfsnámi, sem hann hafi síðan haldið áfram að þjálfa sig til og hafi starfað við. Skólagöngu hans hafi í raun verið lokið og hann búinn að marka sér starfsvettvang til frambúðar. Nám hans eftir grunnskóla, bæði fyrir og eftir slysið, hafi verið harla stopult og árangurslítið. Eins og atvikum sé háttað geti tekjur stefnanda fyrir slysið eða á slysárinu ekki verið réttur mælikvarði til að ákvarða honum bætur vegna tjóns hans vegna varanlegrar örorku, enda aðstæður allar óvenjulegar og sérstakar í þessu tilviki. Því markmiði skaðabótalaga, að bæta tjónþola það tap á atvinnutekjum sem hann muni að líkindum verða fyrir í framtíðinni vegna afleiðinga líkamstjóns hans af völdum þessa slyss, verði ekki náð með öðrum hætti en að meta árslaun hans samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga eftir almennum mælikvarða vinnumarkaðar. Engin ástæða sé til að ætla annað, en að stefnandi muni vinna fulla vinnu til tekjuöflunar í framtíðinni hvað sem öllu námi hans fyrr eða síðar viðvíki.
Með áðurgreindu bótauppgjöri stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., hafi loks verið viðurkennt að meta bæri árslaun stefnanda, en stefnandi byggi á því að viðmiðun við laun stefnanda mæli honum ekki fullar og réttmætar bætur. Bótakrafa stefnanda sé reist á þeirri lægstu viðmiðun sem viðgengist hafi samkvæmt fyrri dómaframkvæmd, sem skaðabótalög hafi engu breytt um eða dómaframkvæmd eftir gildistöku þeirra. Krafan sé byggð á upplýsingum frá kjararannsóknarnefnd um meðallaun verkakarla á höfuðborgarsvæðinu á 1. ársfjórðungi 1998, en upplýsingar um þessi laun á slysdegi séu ekki til, og upplýsingum um þróun launavísitölu 1988-2004. Laun stefnanda fyrir slysið endurspegli engan veginn þau laun sem búast hafi mátt þá við að hann hefði í framtíðinni. Því sé rétt, samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, að styðjast við umrædd meðallaun verkamanna sem viðmiðunarlaun með hliðsjón af aldri tjónþola, verkamannastörfum hans og ýmsum öðrum störfum ófaglærðra fyrir og eftir slys og því að hann hafi ekki lagt grunn að fagmenntun sem leiða myndi til hærri viðmiðunarlauna. Einnig sé rétt að líta til þess að hann búi á höfuðborgarsvæðinu, í Hafnarfirði.
Til stuðnings kröfum stefnanda er vísað til fordæmis í dómum Hæstaréttar 22. maí 1998 í málinu nr. 311/1997, 23. október 2003 í málinu nr. 200/2003 og 2. nóvember 2006 í málinu nr. 240/2006, sbr. athugasemdir með 6. gr. frumvarps um breyting á 7. gr. skaðabótalaga og 7. gr. frumvarpsins um breyting á 8. gr., sbr. lög nr. 37/1999.
Slysið 25. janúar 2003:
Krafan sé byggð á sama grunni og vegna slyssins 27. ágúst 1997. Byggt sé á þágildandi reglu 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Árslaun verði að meta, þar sem óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi og ætla megi að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur stefnanda, m.a. með hliðsjón af atvinnutekjum stefnanda nú og árin eftir slysið. Viðurkennt sé í áðurgreindu bótauppgjöri stefnda að meta beri árslaunaviðmiðun stefnanda og miðað við laun hans á slysárinu. Stefnandi byggir á því að við það mat sé eðlilegt og réttmætt af hans hálfu að reisa kröfu sína á viðmiðun við laun verkakarla og beita í því efni þeirri viðmiðun sem hann hafi gert í kröfubréfi 28. júlí 2004, enda myndi viðmiðun við upplýsingar frá kjararannsóknarnefnd um meðallaun verkakarla á höfuðborgarsvæðinu á slysdegi, þ.e. 1. ársfjórðungi 2003, og upplýsingar um þróun launavísitölu 1988-2004 leiða til hærri árslaunaviðmiðunar eða 2.898.850 krónur (215.100 kr. / 237 launavísitala janúar 2003 x 251,1 launavísitala júní 2004 = 227.897 kr. x 12 = 2.734.764 kr.+ 6% 164.086 kr.).
Lögmannskostnaður:
Lögmannsþóknun byggist á 1. og 17. gr. Gjaldskrár Lögmanna Bæjarhrauni 8, sem stefndu hafi borið að miða við og reiknist með tilliti til hagsmuna sem fólgnir séu í bótagreiðslu stefndu eins og fram komi í sundurliðun stefnukrafna. Einnig byggir hún á mikilli vinnu lögmanns, sem nauðsynleg hafi verið til að ná fram þeirri bótagreiðslu. Þessi þóknun lögmanns stefnanda sé hluti þess kostnaðar sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna slysanna og því hluti af tjóni hans. Þessari kröfu sé í hóf stillt og stefndu hafa ekki sýnt fram á að hún sé ósanngjörn eða óeðlileg eftir atvikum. Kröfunni til stuðnings sé vísað til dóma Hæstaréttar 26. október 1995 í málinu nr. 204/1995, 22. maí 1998 í málinu nr. 231/1997 og 22. maí 1998 í málinu nr. 312/1997.
Um lagarök vísar stefnandi til umferðarlaga nr. 50/1987 og skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, einkum þeirra ákvæða er áður greini, almennra reglna skaðabótaréttar og dómafordæma um ákvörðun bótafjárhæða o.fl. Þá sé vísað til laga um lögmenn nr. 77/1998, einkum 24. gr.
Kröfur um málskostnað auk virðisaukaskatts byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr., sbr. 3. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt með síðari breytingum, þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur.
IV
Sýknukrafa stefndu er byggð á því, að með þegar uppgerðum bótum hafi stefnandi fengið greiddar þær bætur vegna beggja slysa, sem hann eigi lögvarinn rétt til samkvæmt skaðabótalögum, og eigi hann því ekki kröfu til frekari bóta úr hendi stefndu.
Bótakröfu vegna sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns í fyrra slysinu, 250.000 krónur, segi stefnandi tilkomna vegna kostnaðar við lyf og læknishjálp eftir slysið, kostnaðar vegna náms í Flensborg, sem ónýttist, tjóns vegna tafa í náminu um eitt ár og röskunar á tekjuöflunarmöguleikum á sama tíma. Þessar staðhæfingar séu hins vegar ósannaðar með öllu. Beri að sýkna stefndu af þessum kröfulið þegar af þeirri ástæðu. Stefnanda hafi verið vandalaust að sanna kostnað vegna lyfjakaupa og læknishjálpar með reikningum eða kvittunum, ef um það hafi verið að ræða, og sama gildi um meintan námskostnað. Það hafi stefnandi ekki gert. Þá sé alls ósannað, að slysið hafi valdið nokkru um lélega námsframvindu stefnanda í Flensborgarskóla og að hann hætti þar námi. Skólasókn og námsárangur stefnanda hafi verið afar lélegur þegar fyrir slysið, en stefnandi var í vinnu með skóla og hið sama hafi gilt eftir slysið. Þá hafi meiðsl stefnanda, hálstognunin, verið það léttvæg, að þau hafi ekki getað valdið námstöfum eða því að stefnandi hætti námi. Hins vegar hafi stefnandi fengið bráða botnlangabólgu fjórum dögum eftir slysið og mjóbaksverki í kjölfar hennar, en jafnað sig að mestu af hálstognuninni, sem hann fékk í slysinu. Léleg skólasókn, vinna með námi auk mjóbaksverkja og svefnleysis í kjölfar botnlangabólgunnar séu því ástæða þess, að stefnandi hafi horfið frá námi, en ekki bílslysið. Ætti að vera ljóst að framangreindu virtu að þessi kröfuliður eigi engan rétt á sér.
Bótakrafa stefnanda vegna meints tímabundins atvinnutjóns af völdum fyrra slyssins, 260.200 krónur, eigi heldur ekki rétt á sér. Um sé að ræða ósannað áætlað vinnutekjutap, en löng dómvenja sé fyrir því að ekki beri að bæta ósannað áætlað vinnutekjutap, heldur aðeins raunverulegt og sannað vinnutekjutap. Hafi stefnandi ekki lagt fram nein gögn til sönnunar því, að hann hafi í raun orðið fyrir tímabundnu vinnutekjutapi af völdum slyssins. Sé þar aðeins á sögusögn hans að byggja. Þá ætti stefnandi, samkvæmt lögum og kjarasamningum, að hafa átt rétt til forfallalauna frá vinnuveitanda fyrir þann tíma, sem hann taldi sig tímabundið óvinnufæran eftir slysið, ef um það hafi verið að ræða. Hins vegar bendi allt til þess, að eftirköst botnlangabólgunnar, en ekki slysið, hafi valdið meintri óvinnufærni stefnanda í kjölfarið, rétt eins og hinni lélegu námsframvindu stefnanda. Standi þannig allar líkur gegn því, að stefnandi hafi í raun orðið fyrir nokkru raunverulegu tímabundnu vinnutekjutapi af völdum slyssins. Beri því einnig alfarið að hafna þessum kröfulið.
Stefndu telja og, varðandi þessa kröfuliði, að stefnandi sé að nokkru að tvíkrefja um bætur fyrir sama tjónið, annars vegar með kröfu um bætur fyrir námstöf í kjölfar slyssins og jafnframt með kröfu um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón fyrir sama tíma.
Bótakrafa stefnanda fyrir varanlega örorku vegna fyrra slyssins á grundvelli meðaltekna verkakarla fái heldur ekki staðist. Nemi sú krafa, að frádreginni bótagreiðslu stefnda fyrir varanlega örorku á grundvelli launa stefnanda sjálfs, 382.559 krónum (863.454 480.895). Hafi stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., strangt til tekið, greitt þær bætur umfram skyldu, en stefnanda hafi aðeins borið bætur á grundvelli miskastigs samkvæmt 1. mgr. 8. gr. þágildandi skaðabótalaga. Stefnandi hafi aðeins verið 17 ára að aldri á slysdegi og því barn í skilningi skaðabótalaga. Þá hafi hann nýtt vinnugetu sína á þessum tíma að verulegu leyti þannig, að hann hafi haft takmarkaðar vinnutekjur, enda verið í skóla. Stefnandi hafi þannig fallið undir ákvæði 1. mgr. 8. gr. laganna. Hafi og verið tekið fram í athugasemdum við 8. gr. í lagafrumvarpinu, að reglum 8. gr. skyldi beitt um ungt námsfólk þótt það aflaði tekna í vinnu með námi og án tillits til tekna af þess konar vinnu, svo framarlega sem nemandinn stundaði í reynd nám með eðlilegum hætti. Verði ekki annað séð en stefnandi hafi gert það á þessum tíma, þó mæting væri léleg og árangur slakur á prófum. Hafi bætur til stefnanda fyrir varanlega örorku á grundvelli miskastigs, samkvæmt 1. mgr. 8. gr. þágildandi skaðabótalaga, numið 226.780 krónum, en bótagreiðsla stefnda hafi verið 480.895 krónur eða nálægt tvöföld sú fjárhæð. Beri þegar af framangreindum ástæðum að hafna þessum kröfulið.
Í annan stað sé á það að líta, að þó farin sé sú leið að bæta varanlega örorku stefnanda á árslaunagrundvelli samkvæmt 7. gr. skaðabótalaga í stað miskastigs samkvæmt 1. mgr. 8. gr., þá skorti skilyrði 2. mgr. 7. gr. til að meta árslaun sérstaklega og miða við meðallaun verkakarla eins og stefnandi byggir á í stað launa hans sjálfs fyrir slysið, svo sem stefndi hafi miðað við. Aðstæður stefnanda hafi ekkert verið óvenjulegar á þeim tíma sem hann lenti í slysinu, heldur þvert á móti mjög venjulegar, þegar unglingar eigi í hlut. Hafi stefnandi verið óráðinn og milli vita, í skóla og vinnu með, en óreglulega og stopult, svo sem margra unglinga sé háttur. Ekki hafi staðið fyrir dyrum breytingar á aðstæðum hans og högum. Skilyrði 2. mgr. 7. gr. um óvenjulegar aðstæður séu því ekki uppfyllt. Loks bendi ekkert í tekjusögu stefnanda til þess, að hann hefði markað sér framtíðarstarfvettvang á sviði verkakarla, enda hafi sú ekki orðið raunin. Árslaunaviðmiðun á grundvelli meðaltekna verkakarla sé þannig ótæk viðmiðun og ekki önnur árslaunaviðmiðun nærtækari, en laun stefnanda sjálfs.
Krafa stefnanda um innheimtukostnað samkvæmt taxta skrifstofu lögmanns stefnanda af þegar greiddum bótum eigi heldur ekki rétt á sér. Greiddar bætur hafi numið 836.638 krónum og hafi stefndi greitt til viðbótar í lögmannskostnað 77.103 krónur. Hafi stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., þar tekið mið af tíðkanlegum töxtum lögmannsstofa við uppgjör í slysamálun og meginreglu 24. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 um hæfilegt endurgjald fyrir lögmannsstörf. Stefnandi krefji hins vegar um næstum tvöfalda þessa fjárhæð eða 144.624 krónur í lögmannskostnað. Taxti lögmanns stefnanda sé helmingi hærri en annarra lögmanna. Þar sem krafa stefnanda umfram það, sem þegar hefur verið bætt í lögmannskostnað, sé þannig bersýnilega ósanngjörn, og andstæð meginreglu lögmannalaga um hæfilegt endurgjald, beri að hafna henni.
Ekki sé ágreiningur um höfuðstólsfjárhæð greiddra bóta fyrir þjáningar og varanlegan miska af völdum slyssins. Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., hafi greitt bætur fyrir varanlegan miska umfram lagaskyldu. Þær bætur hafi numið 226.780 krónum.
Síðara slysið
Bótakrafa stefnanda fyrir tímabundið atvinnutjón af völdum síðara slyssins sé áætluð og ósönnuð. Eins og áður segi sé löng dómvenja fyrir því, að aðeins beri að bæta sannað raunverulegt tímabundið vinnutekjutap. Á það hafi stefnandi ekki fært sönnur. Þvert á móti virðist hann ekki hafa misst úr vinnu miðað við staðgreiðsluyfirlit. Þá ætti stefnandi samkvæmt lögum og kjarasamningi að hafa fengið forfallalaun hjá vinnuveitanda þær 3 vikur, sem hann sé sagður hafa verið tímabundið óvinnufær af völdum slyssins. Beri af framangreindu virtu að hafna þessum kröfulið.
Stefndu telja að bótakrafa stefnanda fyrir varanlega örorku vegna síðara slyssins, á grundvelli meðalárslauna verkakarla á 1. ársfjórðungi 2003 í stað árslauna stefnanda sjálfs á árinu 2003, fái ekki staðist. Stefnandi hafi ekki verið í verkamannastörfum, er slysið varð, en fastráðinn hjá Og Vodafone frá febrúar 2003 og hafi starfað sem þjónustufulltrúi við að hjálpa fólki að komast á Internetið og við ADSL tengingar. Bendi ekkert til þess, að stefnandi stundi nú eða muni síðar leggja þau fyrir sig. Bótakrafa stefnanda á grundvelli meðalárslauna verkakarla eigi því engan rétt á sér og beri að hafna henni. Önnur árslaunaviðmiðun en á grundvelli launa stefnanda sjálfs sé ekki nærtækari.
Krafa stefnanda um innheimtukostnað samkvæmt taxta skrifstofu lögmanns stefnanda af þegar greiddum bótum eigi heldur ekki rétt á sér. Greiddar bætur vegna slyssins hafi numið 1.394.852 krónum og hafi stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greitt til viðbótar 127.649 krónur í lögmannskostnað. Hafi stefndi tekið þar mið af þeim taxta sem tíðkast á lögmannsstofum við uppgjör slysamála og meginreglu 24. gr. lögmannlaga nr. 77/ 1998 um hæfilegt endurgjald fyrir lögmannsstörf. Stefnandi vilji hins vegar fá næstum tvöfalda þessa fjárhæð eða 214.122 krónur. Kveður stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., taxta lögmannsins vera helmingi hærri en annarra lögmanna. Þar sem krafa stefnanda, umfram það sem þegar hefur verið bætt í lögmannskostnað, sé þannig bersýnilega ósanngjörn og andstæð meginreglu lögmannalaga um hæfilegt endurgjald, ber að hafna henni.
Stefndu kveða ekki vera ágreining um höfuðstólsfjárhæð greiddra bóta fyrir þjáningar og varanlegan miska vegna slyssins.
Stefndu mótmæla sérstaklega kröfum stefnanda um vexti, en stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., hafi þegar greitt lögskylda vexti á greiddar bótafjárhæðir frá slysdögum til greiðsludags. Þá séu eldri vextir en 4 ára frá birtingardegi stefnu fyrndir, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 14/1905.
Stefndu andmæla kröfum stefnanda um dráttarvexti frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi, ef til komi. Stefndu hafi fengið síðustu upplýsingar frá stefnanda (launaseðla), sem afstaða til krafna hafi byggst á, fyrst rétt fyrir bótauppgjörið, sem fram hafi farið án dráttar í beinu framhaldi. Þá séu eldri dráttarvextir en 4 ára frá birtingardegi stefnu fyrndir, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 14/1905.
Loks er því andmælt, að stefnandi geti tekið bótauppgjör stefnda sem innborgun upp í heildarkröfur sínar. Skýrlega sé tilgreint í bótasundurliðun hvaða tjónaliði sé verið að bæta. Í kröfurétti sé það meginregla, að skuldari ráði því hverjar kröfur af fleirum hann greiði, sé það tekið fram, og geti kröfuhafi ekki tekið af greiðslu skuldara inn á kröfuliði sem skuldari viðurkenni ekki, eins og t.d. kröfur um sjúkrakostnað og annað fjártjón, tímabundið atvinnutjón, vexti, lögmannskostnað o.s.frv., í þessu tilviki.
Varakrafa stefndu sé á því byggð, að hvað sem öðru líði geti stefnandi aðeins átt rétt til lítils hluta umstefndra bótakrafna. Vísast um rökstuðning með varakröfu til rökstuðnings með aðalkröfu.
V
Ágreiningur máls þessa lýtur að ákvörðun bóta vegna slysa sem stefnandi varð fyrir 27. ágúst 1997 og 25. janúar 2003.
Ekki er ágreiningur um óskerta bótaskyldu stefndu á grundvelli framlagðrar matsgerðar, en ágreiningur er um bótafjárhæðir.
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., hefur þegar greitt stefnanda bætur vegna tjóns sem hann varð fyrir í áðurgreindum slysum, og tók stefndi við greiðslunum með fyrirvara um réttmæti þeirra, sbr. tjónskvittun, dagsetta 6. október 2005.
Eins og áður greinir er ágreiningur um hvernig skuli reikna út bætur til handa stefnanda. Verður fyrst fjallað um bætur vegna slyssins 27. ágúst 2007 og einstaka kröfuliði.
Stefnandi krafði stefndu um bætur vegna 3% varanlegrar örorku og 4% varanlegs miska, sem afleiðingar þessa slyss. Samkvæmt matsgerðinni var tímabundið atvinnutjón stefnanda 100% í þrjá daga og þjáningatímabil án rúmlegu var metið frá 27. ágúst 1997 til 31. desember 1997.
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 skal greiða skaðabætur fyrir atvinnutjón, sjúkrakostnað og annað fjártjón sem af líkamstjóni hlýst og enn fremur þjáningabætur. Stefnandi hefur krafist þess að stefndu greiði 250.000 krónur, að álitum, samkvæmt þessum lið. Ágreiningur aðila lýtur og að því hvort stefnandi eigi að fá bætur fyrir annað fjártjón sitt sem og bætur vegna tafa frá námi. Eins og að framan hefur verið rakið var skólaganga stefnanda fyrir slysið mjög gloppótt og námsárangur lélegur. Bera gögn málsins það ekki með sér að stefnandi hafi tafist í námi vegna slyssins eða að það hafi valdið röskun á stöðu hans og högum svo bótaskylt sé samkvæmt 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá hefur stefnandi ekki sýnt fram á með neinum hætti að hann hafi orðið fyrir útgjöldum vegna slyssins og ber því að sýkna stefndu af þessum kröfulið stefnanda.
Samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 skal ákveða bætur fyrir atvinnutjón fyrir tímann frá því að tjón varð þangað til tjónþoli getur hafið vinnu að nýju eða þar til ekki er að vænta frekari bata. Í framlagðri matsgerð segir: „Tímabundið atvinnutjón vegna slyssins er 100% í þrjá daga og síðan hlutastarfi með skóla að sögn Hlina í fjóra mánuði (sic í matsgerð).“ Fallist verður á það með stefndu, að bætur samkvæmt fyrrgreindri lagagrein eru einungis ætlaðar fyrir sannað vinnutekjutap. Samkvæmt gögnum málsins verður ekki séð að stefnandi hafi verið frá vinnu vegna umrædds slyss, en hann virðist ekki hafa verið í fastri vinnu og ekkert liggur fyrir um að hann hafi átt vísa vinnu þá 3 daga sem hann taldist algerlega óvinnufær, og hann þar með orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni, sem 2. gr. skaðabótalaga er ætlað að bæta. Verður þessum kröfulið stefnanda því hafnað.
Stefnandi krefur stefndu um bætur fyrir 3% varanlega örorku, samkvæmt 5.-7. gr. laga nr. 50/1993. Stefnandi krefst þess að bætur verði reiknaðar á grundvelli 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, eins og hún var er slysið varð, þ.e. að árslaun skuli metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi, t.d. breytingar á tekjum eða atvinnuhögum. Krefst hann þess að miðað sé við meðalmánaðarlaun verkakarla á höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt upplýsingum kjararannsóknarnefndar, framreiknuð með þróun launavísitölu 1998-2004. Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiddi stefnanda bætur, sem hann segir vera umfram skyldu, og miðaði við tvöföld árslaun stefnanda eins og þau voru fyrir slysið.
Í greinargerð, sem fylgdi upphaflegu frumvarpi til skaðabótalaga, segir í umfjöllun um 1. mgr. 7. gr., að átt sé við tekjur tjónþola 12 mánuðum fyrir slysdag. Þar kemur einnig fram, að 1. mgr. 7. gr. eigi fyrst og fremst við um launþega. Í 2. mgr. er á hinn bóginn fjallað um þau tilvik, þegar vandkvæðum er bundið að ákveða árslaun. Þegar svo stendur á skal meta árslaun sérstaklega, segir í ákvæðinu. Fram kemur í greinargerð, að ákvæðinu skuli beitt, þegar óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi hjá tjónþola, s.s. tímabundið atvinnuleysi, hlutastarf húsmæðra eða sveiflur í tekjum sjálfstæðra atvinnurekenda. Þegar þannig stendur á skuli meta bætur sérstaklega og hafa til hliðsjónar, sé þess kostur, venjuleg árslaun í viðkomandi starfsgrein, eða laun staðgengils tjónþola, þegar það á við. Um tjónþola sem ekki fá laun í tengslum við nám, fer eftir ákvæðum 8. gr. frumvarpsins.
Í greinargerð skaðabótalaga segir m.a. í umfjöllun um 8. gr., að reglum þeirrar greinar skuli beita um ungt skólafólk þótt það afli tekna í vinnu með námi og án tillits til tekna af þess konar vinnu, svo framarlega sem nemandinn stundi í reynd nám með eðlilegum hætti. Örorkubótum er ætlað að bæta tjónþola það tjón, sem hann kunni að verða fyrir til framtíðar vegna skertrar getu til að afla tekna. Eins og fram hefur komið starfaði stefnandi hjá hinum ýmsu atvinnurekendum með námi sínu í Flensborgarskólanum, bæði fyrir og eftir slysið árið 1997. Voru þessar aðstæður óvenjulegar að því leyti til að hann var ekki í fullri vinnu allt árið og gefa tekjur hans árið fyrir slysið því ekki raunsanna mynd af líklegum framtíðartekjum hans. Stefnandi hélt áfram námi sínu, þó gloppótt væri, eftir slysið, og hélt áfram að vinna með námi. Í dómafordæmum Hæstaréttar hefur reynt á skil milli 5. 7. gr. og 8. gr. skaðabótalaga, þegar um námsmenn hefur verið að ræða, eins og þessar greinar laganna voru er slysið varð. Var þar litið svo á, að þegar um unga námsmenn var að ræða, sem skammt voru komnir í námi sínu þegar tjónsatvik urðu, skyldi við uppgjör bóta farið eftir reglu 8. gr. skaðabótalaga. Eins og að framan greinir hefur stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., hins vegar fallist á að við útreikning bóta til handa stefnanda verði miðað við tekjureynslu hans fyrir slysið, þ.e. tvöföld laun stefnanda. Þegar litið er til fordæma Hæstaréttar verður ekki hjá því komist að fallast á það með stefndu að við uppgjör bóta skyldi farið eftir reglu 8. gr. skaðabótalaga, en ekki liggur fyrir að stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., hafi samþykkt að um útreikninginn skyldi farið eftir 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993. Með hliðsjón af þeim bótagreiðslum sem stefnandi hefur þegar fengið vegna þessa slyss er örorkujón hans, með vísan til framanritaðs, að fullu bætt. Verður því þessum kröfulið stefnanda hafnað.
Stefnandi krefur stefnda og um greiðslu lögmannsþóknunar. Stefndi hefur greitt stefnanda 77.103 krónur vegna lögmannsaðstoðar. Stefnandi hefur stutt kröfu sína með því að vísa til gjaldskrár lögmannsstofu þeirrar, er farið hefur með málið fyrir hans hönd. Þóknun lögmanns stefnanda er hluti þess kostnaðar, sem stefnandi varð fyrir í kjölfar umferðarslyssins, og því hluti af tjóni hans. Samkvæmt því, og með hliðsjón af vinnu lögmannsins og þeim hagsmunum sem í húfi voru, sem og niðurstöðu málsins, þykir þóknunin hafa verið hæfilega metin. Verður því kröfu samkvæmt þessum lið hafnað.
Verður nú fjallað um kröfur stefnanda vegna síðara slyssins.
Samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 skal ákveða bætur vegna atvinnutjóns fyrir tímann frá því að tjón varð þangað til tjónþoli getur hafið vinnu að nýju eða þar til ekki er að vænta frekari bata. Í framlagðri matsgerð kemur fram að tímabundið atvinnutjón stefnanda vegna slyssins hafi verið 100% tímabilið 25. janúar 2003 til 14. febrúar 2003. Stefnandi krefst þess aðallega að sér verði greiddar 192.390 krónur vegna tímabundins atvinnutjóns en til vara er krafist greiðslu á 58.000 krónum. Eins og áður greinir er fallist á það með stefndu, að bætur samkvæmt fyrrgreindri lagagrein séu einungis ætlaðar fyrir sannað vinnutekjutap. Er fjárhæð aðalkröfu stefnanda reiknuð sem 3/4 af launum stefnanda í janúar 2003, en varakrafan er byggð á mismuni á greiddum launum í janúar og febrúar 2003. Stefnandi hefur ekki lagt fram gögn um að hann hafi orðið af tekjum hjá vinnuveitanda sínum umrætt tímabil og þannig ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir raunverulegu tekjutapi vegna slyssins, sem 2. gr. skaðabótalaga er ætlað að bæta, verður þessum kröfulið stefnanda því hafnað.
Stefnandi krefur stefndu um bætur fyrir 3% varanlega örorku, samkvæmt 5.-7. gr. laga nr. 50/1993. Stefnandi krefst þess að bætur verði reiknaðar á grundvelli 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, eins og hún var er slysið varð, þ.e. að árslaun skuli metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi, t.d. breytingar á tekjum eða atvinnuhögum. Krefst hann þess að miðað sé við meðalmánaðarlaun verkakarla á höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt upplýsingum kjararannsóknarnefndar, framreiknuð með þróun launavísitölu 1998-2004. Eins og áður hefur komið fram telja stefndu að tjón stefnanda sé að fullu bætt með þeim bótum sem stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiddi honum, en við lokaútreikning bóta fyrir varanlega örorku miðaði stefndi við tekjur stefnanda sjálfs á árinu 2003. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga segir: „Árslaun til ákvörðunar bóta skv. 6. gr. skulu teljast vera meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við.“
Í greinargerð sem fylgdi upphaflegu frumvarpi til skaðabótalaga, segir í umfjöllun um 1. mgr. 7. gr., að átt sé við tekjur tjónþola 12 mánuðum fyrir slysdag. Þar kemur einnig fram, að 1. mgr. 7. gr. eigi fyrst og fremst við um launþega. Í 2. mgr. er á hinn bóginn fjallað um þau tilvik, þegar vandkvæðum er bundið að ákveða árslaun. Þegar svo stendur á skal meta árslaun sérstaklega, segir í ákvæðinu. Fram kemur í greinargerð, að ákvæðinu skuli beitt, þegar óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi hjá tjónþola, s.s. tímabundið atvinnuleysi, hlutastarf húsmæðra, eða sveiflur í tekjum sjálfstæðra atvinnurekenda. Þegar þannig stendur á skuli meta bætur sérstaklega og hafa til hliðsjónar, sé þess kostur, venjuleg árslaun í viðkomandi starfsgrein, eða laun staðgengils tjónþola, þegar það á við.
Í greinargerð með 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, eins og henni var breytt með lögum nr. 37/1999, segir í umfjöllun um 1. mgr. að viðmiðun við síðustu þrjú tekjuár sé að jafnaði eðlileg þegar um sé að ræða mann í launuðu starfi. Launatekjur liðinna ára séu oftast góð vísbending um launatekjur komandi ára. Þetta eigi þó ekki alltaf við. Hjá ungu fólki, sem sé að hefja starfsferil sinn, séu líkur til þess að laun hækki. Hjá fullorðnu fólki, sem nálgist lok starfsævinnar, séu líkur til þess að laun lækki. Til þessara þátta sé tekið tillit í margfeldisstuðli 6. gr. Launatekjur liðinna ára séu hins vegar ekki góður mælikvarði ef breytingar hafa orðið á högum tjónþola skömmu áður en slys varð eða þegar fullyrða má að slíkar breytingar standi fyrir dyrum. Er nefnt sem dæmi að tjónþoli hafi skipt um starf þannig að breyting hafi orðið á tekjum eða látið af starfi og hafið töku lífeyris. Í slíkum tilvikum sé eðlilegra að ákveða viðmiðunarlaunin út frá nýjum aðstæðum. Á sama hátt yrði tekjuviðmiðun námsmanns, sem væri að ljúka starfsréttindanámi, eðlilegust út frá því starfi, sbr. umfjöllun um 8. gr. Þá er gerð tillaga um að 2. mgr. 7. gr. verði rýmkuð þannig að mati verði beitt í þeim tilvikum þegar ekki þykir af einhverjum ástæðum réttmætt að miða við síðustu þrjú tekjuár fyrir slys.
Eins og fram er komið starfaði stefnandi fyrir slysið hjá Íslandspósti og Íslandssíma og hjá Og fjarskiptum. Laun hans á árinu 2003 hækkuðu umtalsvert frá því sem verið hafði og fékk hann fastráðningu hjá Og fjarskiptum í febrúar árið 2003. Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiddi stefnanda bætur vegna varanlegrar örorku og lagði þar til grundvallar, við útreikning bótanna, laun stefnanda á á slysaári. En fallast má á það að meðaltal launa stefnanda síðustu þrjú almanaksár fyrir slysið hafi ekki gefið raunsanna mynd af líklegum framtíðartekjum hans. Hins vegar hefur stefnandi ekki lagt fram haldbær gögn sem styðja það að viðmiðunartekjur þær sem hann gerir ráð fyrir í kröfum sínum séu líklegar framtíðartekjur hans og allsendis ósannað að hann hefði farið að vinna sem verkamaður. Verður stefnandi að bera hallann af þessum sönnunarskorti. Með vísan til þess sem nú hefur verið rakið verður við það miðað að þær tekjur sem stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., lagði til grundvallar útreikningi bóta, séu líklegur mælikvarði á framtíðartekjur hans. Ber því að hafna kröfu stefnanda samkvæmt þessum lið.
Stefnandi krefur stefnda og um greiðslu lögmannsþóknunar. Stefndi hefur greitt stefnanda 126.049 krónur vegna lögmannsaðstoðar. Stefnandi hefur stutt kröfu sína með því að vísa til gjaldskrár lögmannsstofu þeirrar, er farið hefur með málið fyrir hans hönd. Þóknun lögmanns stefnanda er hluti þess kostnaðar, sem stefnandi varð fyrir í kjölfar umferðarslyssins, og því hluti af tjóni hans. Samkvæmt því, og með hliðsjón af vinnu lögmannsins og þeim hagsmunum sem í húfi voru, sem og niðurstöðu málsins, þykir þóknunin hafa verið hæfilega metin. Verður því kröfu samkvæmt þessum lið hafnað.
Eins og rakið hefur verið hefur stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greitt stefnanda bætur að fullu. Þá hafa stefnanda verið greiddir vextir og dráttarvextir af þeim fjárhæðum sem stefndu hafa viðurkennt fram til greiðsludags síðasta uppgjörs 6. október 2005.
Samkvæmt öllu framansögðu er fallist á sýknukröfu stefndu, og því kemur vaxtakrafa stefnanda ekki sérstaklega til skoðunar, enda hafa stefnanda, samkvæmt framlagðri tjónskvittun, verið greiddar þær bætur, sem honum bar vegna umrædds slyss, ásamt vöxtum.
Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt að hver aðili beri sinn kostnað af málinu.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
DÓMSORÐ:
Stefndu, Jóngeir Hjörvar Hlinason, Glitnir banka hf. og Vátryggingafélag Íslands hf., eru sýkn af kröfum stefnanda, Hlina Melsteð Jóngeirssonar.
Málskostnaður fellur niður.