Hæstiréttur íslands
Mál nr. 336/2006
Lykilorð
- Samningur
- Riftun
- Trúnaðarskylda
|
|
Þriðjudaginn 19. desember 2006. |
|
Nr. 336/2006. |
Lifandi ljós ehf. (Guðmundur Ágústsson hdl.) gegn Símanum hf. (Andri Árnason hrl.) |
Samningur. Riftun. Trúnaðarskylda.
Í málinu var deilt um hvort L ehf. hefði, á gildistíma samnings við S hf. frá 1. maí 2004, verið bundið trúnaðarskyldum við S hf. sem gerðu félaginu óheimilt að taka að sér störf fyrir fjölmiðil sem tilheyrði fyrirtækjasamsteypu N hf., en S hf. var í samkeppni á markaði við fjölmiðla sem tilheyrðu henni. L ehf. taldi að félagið hefði ekki brotið gegnum slíkum skyldum með gerð þjónustusamnings við F ehf. 25 ágúst 2004, en það félag tilheyrði nefndri fyrirtækjasamsteypu og gefur út nafngreint dagblað. L ehf. krafðist í málinu greiðslna samkvæmt samningnum við S hf. út gildistíma hans, þ.e. til 31. desember 2004, en S hf. hafði lýst yfir riftun á samningnum vegna trúnaðarbrests með bréfi 30. september 2004. Talið var að S hf. hefði ekki þurft að una því, eins og á stóð um viðskipti málsaðila, að L ehf. tæki að sér verkefni tengd auglýsingaöflun fyrir F ehf. þar sem slíkt gat skapað hættu á að samkeppnisaðilinn fengi aðgang að trúnaðarupplýsingum um rekstur S hf. Var fallist á með S hf. að með samningi L ehf. við F ehf. hefði L ehf. brotið gegn trúnaðarskyldu sinni við S hf. þótt ósannað væri að L ehf. hefði misnotað trúnaðarupplýsingar sem félagið hafði aðgang að. Af þessum ástæðum var talið að S hf. hefði verið heimilt að binda fyrirvaralaust enda á samning aðilanna. S hf. var hins vegar dæmt til að inna af hendi til L ehf. greiðslur samkvæmt nefndum samningi fram að riftunardegi, að frádreginni viðskiptaskuld, í samræmi við yfirlýsingar sem fólust í bréfi lögmanns S hf. til lögmanns L ehf. 20. janúar 2005.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. júní 2006. Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 10.126.952 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 919.680 krónum frá 1. september 2004 til 1. október sama ár, af 2.712.480 krónum frá þeim degi til 1. nóvember sama ár, af 5.002.159 krónum frá þeim degi til 1. desember sama ár, af 7.523.284 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2005, en af 10.126.952 krónum frá þeim degi til greiðsludags, að frádregnum 1.235.370 krónum miðað við 1. september 2004. Hann krefst þess til vara að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 5.002.159 krónur með sömu dráttarvöxtum og í aðalkröfu til 1. desember 2004, en af 5.002.159 krónum frá þeim degi til greiðsludags og einnig að frádregnum 1.235.370 krónum miðað við 1. september 2004. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Sverrir Agnarsson hafði starfað sem verktaki hjá stefnda við störf tengd öflun auglýsinga í nokkur ár, lengst af sem auglýsingastjóri, þegar aðilar gerðu samninginn 1. maí 2004. Hafði hann þá ýmist starfað í eigin nafni eða í nafni lögaðila á hans vegum. Munu reikningar vegna starfa hans í þágu stefnda hafa verið skrifaðir í nafni áfrýjanda um nokkurt skeið áður en samningurinn var gerður. Sverrir skrifaði undir samninginn fyrir hönd áfrýjanda og átti síðan í bréfaskiptum við stefnda í byrjun september 2004, þegar ágreiningur reis með aðilum. Verður fallist á með stefnda að honum hafi verið rétt að líta svo á að Sverrir kæmi fram fyrir hönd áfrýjanda með fullu umboði í samskiptum þeirra vegna samningsins 1. maí 2004 sem í hönd fóru.
Meginágreiningur aðila lýtur að því hvort áfrýjandi hafi, á gildistíma samningsins 1. maí 2004, verið bundinn trúnaðarskyldum við stefnda sem gerðu honum óheimilt að taka að sér störf fyrir fjölmiðil, sem tilheyrði fyrirtækjasamsteypu Norðurljósa hf., en óumdeilt er í málinu að stefndi var í samkeppni á markaði við fjölmiðla sem tilheyrðu henni. Áfrýjandi telur að hann hafi ekki brotið gegn slíkum skyldum er hann gerði þjónustusamning við Frétt ehf. 25. ágúst 2004, en það er félag sem tilheyrði nefndri fyrirtækjasamsteypu og gefur úr Fréttablaðið. Með þeim samningi hafi hann tekið að sér sölustýringu á flokkuðum auglýsingum hjá Frétt ehf. og séu það annars konar störf en þau, sem hann hafi unnið í þágu stefnda samkvæmt samningnum 1. maí 2004.
Þann 5. september 2004 sendi Sverrir Agnarsson tölvubréf til Magnúsar Ragnarssonar forstjóra Íslenska sjónvarpsfélagsins hf., og fylgdu því drög að breytingum á samningi aðila. Ekki lét hann þess þá getið að áfrýjandi hefði þegar gert fyrrnefndan samning við Frétt ehf. Í svarbréfi Magnúsar daginn eftir segir svo: „Ertu sem sagt að fara að vinna á öðrum fjölmiðli? Heyrist það á þér. Eins og þú manst væntanlega þá hef ég orð þín fyrir því að þú ætlaðir ekki þá leið. Ef svo er þurfum við að tala saman enda mun ég þá ekki telja mig bundinn af samkomulaginu.“ Frekari bréfaskipti fylgdu í kjölfarið þennan dag. Í bréfi Sverris Agnarssonar að kvöldi sama dags segir meðal annars: „Breytingarnar sem við höfum verið að ræða tryggja einmitt það að ég hafi ekki aðgang að innanhúsgögnum SkjásEins heldur vinni með gögn sem allir hafa aðgang að sem kaupa fjölmiðlagögn Samstarfshóps um fjölmiðlakannanir. Textarnir sem ég skrifa út frá þeim hafa alltaf komið úr mínu eigin höfði. Það var jú tilgangur breytinganna að spara Skjánum pening og losa mig formlega undan þjónustu sem þið eruð hvort sem er ekki að nýta og trúnaður minn við ykkur vegna gildandi samnings getur valdið mér trafala í að fá áhugaverð verkefni. Ég tel mig t.d. ekki geta unnið fyrir aðra ljósvakamiðla meðan okkar samningur er í gildi né heldur eftir þær breytingar sem við erum eiginlega ásáttir um. Og ég tel mig heldur ekki geta unnið við fjölmiðlagreiningar yfirleitt hver sem miðlategundin er fyrir eða eftir breytingar samnings um það erum við sammála. Að ég geti ekki unnið sem blaðberi eða smáauglýsingasali hjá Dagblaðinu er fáránlegt og stenst aldrei ef við lendum í alvöru deilum um þennan samning okkar.“
Af bréfinu er ljóst að áfrýjandi viðurkennir að í samningi aðila felist trúnaðarskylda við stefnda sem geri áfrýjanda óheimilt að vinna fyrir aðila sem stundi rekstur í samkeppni við stefnda. Frétt ehf., sem áfrýjandi gerði samning við 25. ágúst 2004, var í eigu þess aðila sem stefndi var helst í samkeppni við. Hann þurfti ekki að una því, eins og á stóð um viðskipti málsaðila, að áfrýjandi tæki að sér verkefni tengd auglýsingaöflun fyrir þennan aðila, þar sem slíkt gat skapað hættu á að samkeppnisaðilinn fengi aðgang að trúnaðarupplýsingum um rekstur hans. Samningurinn var til tiltekins tíma og þær trúnaðarupplýsingar sem áfrýjandi bjó yfir tengjast eðli málsins samkvæmt hagsmunum til skamms tíma. Verður fallist á með stefnda að með samningi áfrýjanda við Frétt ehf. hafi áfrýjandi brotið gegn trúnaðarskyldu sinni við stefnda, þótt ósannað sé að áfrýjandi hafi misnotað trúnaðarupplýsingar, sem hann hafði aðgang að. Af þessum ástæðum verður talið að stefnda hafi verið heimilt að binda fyrirvaralaust enda á samning aðilanna.
II.
Áfrýjandi hefur byggt á því til vara, að stefndi hafi viðurkennt skyldu sína til að greiða áfrýjanda samkvæmt samningnum til þess tíma er honum var sagt upp. Þáverandi lögmaður stefnda sendi Sverri Agnarssyni fyrir hönd áfrýjanda bréf 30. september 2004 sem bar yfirskriftina „Yfirlýsing um riftun“. Í því tilkynnti stefndi að hann rifti samningnum þegar í stað. Segir í lok bréfsins að ekki verði um frekari greiðslur að ræða samkvæmt samningnum „en gert mun verða upp við yður til dagsins í dag að telja.“ Þrátt fyrir þetta hefur stefndi krafist sýknu af kröfu áfrýjanda um greiðslu samkvæmt samningnum fyrir september 2004. Gefur hann þá skýringu, að sér hafi á þessum tíma ekki verið kunnugt um samninginn sem áfrýjandi gerði við Frétt ehf. 25. ágúst 2004, en samkvæmt honum hafi áfrýjandi hafið störf í þágu Fréttar 1. september 2004. Í bréfi lögmanns stefnda 20. janúar 2005 til lögmanns áfrýjanda segir meðal annars svo: „Umbj. minn, Íslenska sjónvarpsfélagið hf., hefur farið yfir stöðu umbj. þíns hjá félaginu og sett upp uppgjör í samræmi við það.“ Í bréfinu er síðan tekið fram að uppgjörið miðist við að greitt sé fyrir ágúst- og septembermánuði 2004, en frá dragist tilgreind skuld Sverris Agnarssonar við stefnda. Síðan segir: „Það skal tekið fram að Sverrir braut samning aðila strax í byrjun september s.l. með því að ráða sig til samkeppnisaðila og hefur því í raun ekki unnið nein störf í þágu umbj. míns í september 2004. Umbj. minn hefur samt sem áður ákveðið að miða uppgjörið við greiðslu fram að riftunardegi. Samkvæmt því mun uppgjör til umbj. þíns nema kr. 997.416,-, með þeim fyrirvara þó að enn eiga eftir að koma fram reikningar vegna úttekta Sverris Agnarssonar í nafni umbj. míns sem munu dragast frá upphæðinni. Meðfylgjandi er uppgjör vegna þjónustusamnings fyrir ágúst og september 2004, ásamt uppgjörsblaði þar sem tekið er tillit til skuldar umbj. þíns við umbj. minn. Uppgjörið verður greitt til umbj. þíns gegn framvísun reikninga í samræmi við uppgjörið, sem og reikninga vegna úttekta Sverris Agnarssonar í nafni félagsins.“ Bréfi þessu fylgdi svo yfirlit um ætlaða inneign áfrýjanda vegna þessara tveggja mánaða sem var talin nema 220.013 og 1.361.379 krónum eða samtals 1.581.392 krónum, en ekki hefðu borist reikningar vegna þessara fjárhæða. Síðan er á yfirlitinu gert ráð fyrir að frá þessari fjárhæð dragist skuld Sverris Agnarssonar á viðskiptareikningi, sem stefndi taldi nema 583.976 krónum. Þannig næmi skuld stefnda við áfrýjanda 997.416 krónum. Af hálfu stefnda er ekki vefengt að lögmaðurinn hafi haft umboð til að skuldbinda hann með þeim hætti sem bréfið greinir. Stefndi hefur haldið því fram að bréfið 20. janúar 2005 hafi haft að geyma tilboð til áfrýjanda um að ljúka skiptum aðila á þann hátt sem bréfið greinir. Áfrýjandi hafi ekki samþykkt það og þess vegna sé stefndi ekki bundinn af tilboðinu.
Svo sem fram kemur í bréfinu felur það í sér tilkynningu til áfrýjanda um að stefndi hafi ákveðið að gera lögskipti aðila upp með þeim hætti sem þar greinir. Í bréfinu er tekið fram að stefnda sé ljóst að áfrýjandi „braut samning aðila strax í byrjun september“. Ákvörðun stefnda er því tekin að gefinni þeirri forsendu. Í bréfinu kemur ekki fram neinn fyrirvari um að ákvörðun stefnda verði því aðeins gild að áfrýjandi samþykki hana. Sá eini fyrirvari er gerður að frá fjárhæðinni sem stefndi hyggist greiða eigi að dragast „reikningar vegna úttekta Sverris Agnarssonar“, sem ekki séu enn fram komnir. Stefndi er samkvæmt þessu skuldbundinn í samræmi við þær yfirlýsingar sem felast í þessu bréfi. Í héraðsdómi kemur fram að stefndi hafi sagt viðskiptaskuld áfrýjanda hafa hækkað um 89.145 krónur eftir að bréfið 20. janúar 2005 var ritað, þar sem einn reikningur vegna úttektar Sverris fyrir riftun samningsins hafi ekki verið sendur fyrr en um átta mánuðum eftir að riftunarbréf hafði verið sent. Áfrýjandi hefur ekki mótmælt þessu sérstaklega og verður þessi fjárhæð því dregin frá skuldinni sem stefndi viðurkenndi í bréfinu 20. janúar 2005. Samkvæmt þessu verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda 908.271 krónu. Í kröfugerð áfrýjanda um dráttarvexti er miðað við að upphafsdagur þeirra vegna september 2004 sé 1. október 2004. Stefndi hefur mótmælt upphafstíma dráttarvaxta í kröfugerð áfrýjanda meðal annars á þeirri forsendu að hann hafi ekki framvísað reikningi, þrátt fyrir að hafa fengið tilmæli um það í bréfinu 20. janúar 2005. Með vísan til þess verða dráttarvextir dæmdir frá þingfestingu málsins í héraði 26. maí 2005.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður málskostnaður felldur niður í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Stefndi, Síminn hf., greiði áfrýjanda, Lifandi ljósum ehf., 908.271 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. maí 2005 til greiðsludags.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. apríl 2006.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 2. mars sl., er höfðað fyrir dómþinginu af Lifandi ljósi ehf., Smiðjustíg 4, Reykjavík á hendur Íslenska sjónvarpsfélaginu hf., nú Símanum hf., með stefnu áritaðri um birtingu hinn 20. maí 2005.
Endanlegar dómkröfur stefnanda voru þær, að stefndi yrði dæmdur til þess að greiða honum 10.126.952 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 919.680 krónum frá 1. september 2004 til 1. október 2004, en þá af 2.712.480 krónum til 1. nóvember 2004, en þá af 5.002.159 krónum til 1. desember 2004, en þá af 7.523.284 krónum til 1. janúar 2005, en þá af 10.126.952 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Allt að frádregnum 1.235.370 krónum, sem komi til frádráttar hinn 1. september 2004.
Til vara krafðist stefnandi þess, að stefnda yrði gert að greiða honum 5.002.159 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 919.680 krónum frá l. september 2004 til 1. október 2004, en þá af 2.712.480 krónum til 1. nóvember 2004, en af 5.002.159 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 1.235.370 krónum, sem komi til frádráttar 1. september 2004.
Stefndi krafðist þess aðallega að hann yrði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara að dómkröfur stefnanda yrðu lækkaðar verulega.
Þá krafðist stefndi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.
II
Málavextir eru þeir að með þjónustusamningi frá 1. maí 2004 tók stefndi að sér að annast markaðsmáls og markaðsgreiningu fyrir söludeild stefnanda. Í þeirri vinnu fólst m.a. greining á áhorfskönnun, framsetning á sölutölum, byggðum á könnunum og hugmyndavinnu í enduruppstillingu sjónvarpsdagskrár að könnun lokinni. Þá átti stefnandi að sitja sem fulltrúi stefnda í samstarfsnefnd um fjölmiðlakannanir og annast samskipti við samtök auglýsenda og sambands íslenskra auglýsingastofa auk þess sem stefnandi átti að annast ráðgjöf til stefnda varðandi þróun á nýjum tekjuleiðum. Umsamið var í samningum að stefnandi skyldi fá fyrir þjónustu sína 2% af nettósölu auglýsinga umliðins mánaðar.
Samningurinn var tímabundinn frá 1. maí til 31. desember 2004 og skyldi þá falla úr gildi án sérstakrar uppsagnar.
Samningur þessi kom í stað eldri samnings, sem mælti m.a. fyrir um hærri prósentu af innkomu fyrir sömu vinnu.
Í samræmi við samninginn frá 1. maí 2004, var unnið í maí, júní, júlí og ágúst 2004 og gerði stefnandi stefndu reikninga fyrir þá vinnu hinn 1. júní, júlí og ágúst, í samræmi við samninginn.
Stefnandi kveður að í byrjun september 2004 hafi farið fram viðræður á milli starfsmanns stefnanda, Sverris Agnarssonar og sjónvarpsstjóra Skjás eins, Magnúsar Ragnarssonar, sem jafnframt er framkvæmdastjóri stefnda. Hafi Sverrir tjáð Magnúsi að leitað hafi verið til hans um að taka að sér ákveðin verkefni fyrir Fréttablaðið sem væru alls ótengd þeirri vinnu sem stefnandi vann fyrir stefnda. Viðbrögð Magnúsar hafi verið þau að meina stefnanda að fá upplýsingar frá IMG Gallup hf., en það félag hafi annast áhorfskannanir fyrir fjölmiðlana, þ.á m. fyrir stefnda. En í tölvubréfi sem Hafsteinn Már Einarsson riti stefnanda, hinn 8. september 2005, komi fram að Magnús Ragnarsson, sjónvarpsstjóri Skjás eins, hafi tjáð honum að framvegis ætti IMP Gallup einungis að senda fjölmiðlagögnin sem Skjár einn greiddi fyrir beint til Skjás eins og ekki annað. Stefnandi kveður að með þessu og neitun stefnda að afhenda stefnanda þessi gögn hafi stefnanda verið gert ókleift að inna starf sitt af hendi. Þá hafi stefnandi ekki heldur verið boðaður á þá fundi sem mælt var fyrir um í samningum.
Stefnandi kveðst engin bréf hafa fengið frá stefnda eða tilkynningar um uppsögn samningsins og hafi honum jafnframt verið neitað um sölutölur. Stefnandi hafi því ekki getað gert stefnda reikning.
Með bréfi lögmanns stefnda, dagsettu 27. september 2004, var lýst yfir riftun á áðurgreindum samningi vegna brostinna forsendna, en fyrirsjáanlegur ómöguleiki sé fyrir stefnanda að efna samninginn, þar sem Sverrir Agnarsson sé orðinn starfsmaður Fréttablaðsins, sem sé samkeppnisaðili Skjás eins. Sverrir Agnarsson kveðst hafa móttekið bréfið hinn 26. október 2004.
Með bréfi, dagsettu 16. nóvember 2005, er riftun samningsins mótmælt og til þess vísað í fyrsta lagi að riftuninni sé beint að röngum aðila, í öðru lagi að samningur aðila kveði ekki á um hvaða starfsmaður stefnanda eigi að vinna hin umsömdu verk, í þriðja lagi hafi stefnanda verið meinað að vinna verkin og í fjórða lagi séu þau verk sem Sverrir Agnarsson vinni fyrir Fréttablaðið á engan hátt sambærileg við það starf sem stefnandi vann fyrir Skjá einn.
Stefndi kveður að Sverrir Agnarsson, starfsmaður og aðaleigandi stefnanda, hafi í upphafi gengt störfum auglýsingastjóra hjá stefnda frá stofnun félagsins og fram í maí 2004. Þrátt fyrir að hann hefði gegnt störfum hjá stefnda, þá hafi ávallt verið gerður verktakasamningur við einstök félög, sem hafi verið í hans eigu, en ekki vinnusamningur við Sverri Agnarsson persónulega. Þannig hafi félögin Lifandi ljós ehf., Ferðabatteríið ehf. og Þungavigtin ehf. sent reikninga til stefnda vegna vinnu Sverris Agnarssonar. Þetta fyrirkomulag hafi grundvallast á óskum Sverris Agnarssonar. Þessi félög hafi synir hans stofnað, en Sverrir Agnarsson ávallt komið fram fyrir hönd þeirra í samskiptum sínum við stefnda.
Á fyrsta ársfjórðungi 2004 hafi stefnda borist erindi frá Skattstjóranum í Reykjavík, þar sem gerðar hafi verið athugasemdir við ofangreint fyrirkomulag. Vegna þessara athugasemda hafi stefndi gert vinnusamning við þá starfsmenn sem gert höfðu verktakasamninga við félagið. Þessari málaleitan stefnda hafi ekki verið vel tekið af Sverri og svo farið að lokum að hann hafi hafnað henni alfarið.
Skömmu síðar hafi orðið umtalsverð lækkun á auglýsingatekjum félagsins. Að teknu tilliti til góðra aðstæðna á auglýsingamarkaði á þeim tíma hafi stefndi talið að ekki væri allt með felldu í auglýsingadeild sinni, en henni var stjórnað af Sverri Agnarssonar.
Í ljósi þessa hafi stefndi og Sverrir Agnarsson orðið ásáttir um að binda enda á viðskiptasamband aðila. Af þeim sökum hafi verið gerður sá verktakasamningur sem mál þetta varðar. Í raun hafi aðilar orðið ásáttir um það, að samningurinn yrði Sverri Agnarssyni í hag, enda hafi hann sýnt félaginu trúnað og gegnt störfum allt frá stofnun stefnda. Þrátt fyrir þann skilning aðila hafi þeir orðið ásáttir um, að teknu tilliti til sérstakra aðstæðna á auglýsingamarkaði, að stefnandi hefði ekki frjálsar hendur um fyrir hverja hann ynni á meðan samningur aðila væri í gildi. Eftir undirritun samnings aðila hafi Sverrir Agnarsson hætt störfum á starfsstöð félagsins.
Stefndi kveður að í byrjun september 2004 hafi Sverrir Agnarsson haft samband við Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóra stefnda, og látið vita af því að hann gæti ekki unnið fyrir stefnda. Í kjölfar þess hafi verið haldinn fundur þar sem farið hafi verið yfir málið en í lok fundarins hafi Sverrir óskað eftir breytingum á verktakasamningi aðila. Hinn 5. september 2004 hafi Sverrir sent stefnda tölvupóst, þar sem ákveðnar breytingar hafi verið lagðar til og þess óskað að þær yrðu staðfestar strax af hálfu stefnda.
Stefndi kveðst hafa talið umræddar óskir stefnanda óeðlilegar vegna þess hve umræddur samningur hafi í raun verið stefnanda í hag, auk þess sem hann hafi haft spurnir af því, að Sverrir Agnarsson hefði hafið störf hjá Norðurljósum hf. Af þeim sökum hafi framkvæmdastjóri stefnda sent Sverri tölvupóst hinn 6. september 2004, þar sem Sverrir hafi verið inntur eftir því hvort hann hefði hafið störf fyrir annan fjölmiðil. Síðar sama dag hafi svar borist frá Sverri, en spurningunni ekki verið svarað með beinum hætti, einungis svarað því til að hann hefði unnið fyrir Viðskiptablaðið. Var það gert með samþykki stefnda. Í framhaldi af því, eða síðar hinn sama dag, hafi stefndi ítrekað spurningu sína með tölvupósti. Með óljósu svarbréfi Sverris Agnarssonar, dagsettu sama dag, taldi stefndi sig hafa fengið staðfestingu þess, að Sverrir hefði hafið störf hjá Norðurljósum hf. Mótmælir stefndi þeirri fullyrðingu stefnanda, að aðilar hafi átt í viðræðum um breytingar á samningnum vegna starfa Sverris fyrir Fréttablaðið, enda hafi Sverrir aldrei tilkynnt honum um þau störf sín.
Með bréfi stefnda, dags. 20. janúar 2005, var gerð grein fyrir uppgjöri aðila að teknu tilliti til riftunar stefnda og útistandandi kröfu hans á hendur stefnanda.
Stefndi kveður viðskiptaskuld stefnanda við sig hafa hækkað um 89.145 krónur eftir að bréfið, dagsett 20. janúar 2005, var ritað, þar sem einn reikningur vegna úttektar Sverris fyrir riftun samningsins hafi ekki verið sendur fyrr en um 8 mánuðum eftir að riftunarbréf hafði verið sent.
III
Stefnandi byggir kröfu sína á samningi málsaðila. Stefnandi kveðst hafa efnt samninginn að því marki sem honum hafi verið kleift, en hann hafi ekki unnið umsamin verk frá september og út samningstímanna af ástæðum er vörðuðu stefnda. Stefnandi byggir á því að hann eigi að fá umsamin laun fyrir vinnu sína. Telur hann engu breyta um rétt sinn til umsaminna verklauna að hann hafi ekki unnið, þar sem ástæða þess séu atvik, sem varði stefnda.
Stefnandi mótmælir því, að samningi aðila hafi verið rift og að ástæða hafi verið til riftunar hans. Bréf stefnda, sem sent hafi verið Sverri Agnarssyni, sé ekki gild riftun eða uppsögn samningsins, enda hafi bréfið verið sent röngum aðila. Sverrir Agnarsson hafi einungis verið starfsmaður stefnanda en hvorki forsvarsmaður stefnanda né í stjórn félagsins.
Stefnandi mótmælir einnig að stefndi hafi haft tilefni til riftunar samningsins. Í samningnum sé hvorki kveðið á um það hvaða starfsmaður stefnanda skyldi vinna þau verk sem stefnandi tók að sér að vinna né lagðar á hann kvaðir að hann megi ekki vinna fyrir aðra aðila. Það verk sem starfsmaður stefnanda tók að sér að vinna fyrir Fréttablaðið hafi verið allt annars eðlis en sú þjónustu sem stefnandi veitti stefnda við markaðsrannsóknir.
Stefnandi byggir varakröfu sína á því, að samningi aðila hafi ekki verið rift fyrr en með móttöku riftunarbréfsins, hinn 26. október 2004, og því beri stefnda að greiða samkvæmt samningnum fram til mánaðamóta október/nóvember 2004. Um sé að ræða ákvöð sem bindi móttakanda fyrst við viðtöku hans á bréfinu.
Stefnandi telur að fyrir liggi viðurkenning af hálfu stefndu að honum beri að greiða til þess tíma að samningnum var rift/sagt upp.
Krafa stefnanda er byggð á áætluðum tekjum stefnda á tímabilinu. Eftir réttum tölum hefur verið óskað en stefndi verið ófáanlegur til að gefa þær upp. Um hafi verið að ræða varfærnislega áætlun á tekjum fyrir utan enska boltann. Tekjur af enska boltanum hafi verið áætlaðar 20.000.000 króna á mánuði þá mánuði sem keppnistímabilið var í Englandi, þ.e frá lokum ágúst 2004 og fram í miðjan maí 2005. Kveðst stefnandi hafa unnið áætlanir og greiningar vegna enska boltans eins og annað efni stöðvarinnar.
Kröfugerð stefnanda er byggð á eftirfarandi forsendum:
|
Mánuður |
Áætl.tekjur |
Enski boltinn |
Samtals |
Verkl.un 2% |
Forritagj. |
Vsk. |
Krafa |
|
ágúst 2004 |
33.698.300 |
* |
33.698.300 |
673.699 |
65.000 |
180.981 |
919.680 |
|
sept. 2004 |
48.750.000 |
20.000.000 |
68.750.000 |
1.375.000 |
65.000 |
352.800 |
1.792.800 |
|
okt. 2004 |
68.705.000 |
20.000.000 |
88.705.000 |
1.774.100 |
65.000 |
450.579 |
2.289.679 |
|
nóv. 2004 |
78.000.000 |
20.000.000 |
98.000.000 |
1.960.000 |
65.000 |
496.125 |
2.521.125 |
|
des. 2004 |
81.315.000 |
20.000.000 |
101.315.000 |
2.026.300 |
65.000 |
512.368 |
2.603.668 |
|
|
|
|
|
|
|
|
10.126.952 |
* velta í ágúst 2004 sé byggð á upplýsingum frá stefnda.
Stefnandi hafi fengið greitt frá stefnda fyrir ágústmánuð 562.249 krónur, sem dragist frá kröfufjárhæð.
Aðalkrafan miðist við uppgjör fyrir allt tímabilið eins og samningurinn segi til um, að frádregnum úttektum stefnanda. Aðalkrafan sé því 9.564.703 krónur (10.126.952 - 562.249).
Varakrafan miðist við tímabilið frá ágúst til og með október 2004, að frádregnum úttektum stefnanda. Varakrafan sé því 4.439.910 krónur (919.680+ 1.792.800+2.289.679 -562.249).
Við aðalmeðferð málsins féllst stefnandi á að viðskiptareikningur, að fjárhæð 673.121 króna, komi jafnframt til frádráttar stefnukröfu, bæði aðalkröfu og varakröfu, hinn 1. september 2004.
Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna samninga- og kröfuréttar.
Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, byggir stefnandi á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991, um meðferð einkamála.
IV
Stefndi byggir aðallega á því að vanefnd stefnanda hafi leitt til þess að forsendur hafi brostið fyrir samningi aðila og því beri stefnda ekki skylda til að greiða stefnanda hina umkröfðu fjárhæð. Stefnda hafi verið fullkomlega heimilt, að teknu tilliti til vanefndar stefnanda, að rifta samningi aðila.
Aðilar hafi samið svo um að stefnandi veitti ákveðna þjónustu. Ástæða þess, að sá samningur hafi verið gerður, hafi verið sú, að Sverrir Agnarsson var starfsmaður stefnda og hafði verið það allt frá stofnun stefnda. Sverrir hafi verið auglýsingastjóri stefnda og því einn af lykilstarfsmönnum félagsins. Stefndi sé hlutafélag sem reki sjónvarpsstöðina Skjár einn. Sjónvarpsstöðin útvarpi sendingu sinni án endurgjalds til allra íbúa á höfuðborgarsvæðinu og á völdum svæðum á landsbyggðinni. Stefndi byggi því starfsemi sína eingöngu á sölu auglýsinga á meðan einstakir dagskrárliðir séu sýndir eða á milli þeirra. Upplýsingar um auglýsingatekjur félagsins hafi því verið og séu algjörar trúnaðarupplýsingar.
Staða á íslenskum auglýsingamarkaði leiði enn fremur til þess að gæta verði sérstaks trúnaðar. Auglýsingamarkaðurinn sé einungis skipaður nokkrum félögum í samkeppni. Þrátt fyrir töluverðan fjölda fjölmiðla á íslenskum auglýsingamarkaði séu einungis þrír aðilar þar ráðandi: Ríkisútvarpið/Ríkissjónvarpið, Íslenska sjónvarpsfélagið hf. og Norðurljós hf. (nú 365 ehf.). Staða síðastnefnda aðilans sé sterkust, eins og alkunna sé, enda sé það félag eigandi að allflestum fjölmiðlum á Íslandi. Af þessum sökum hafi það haft grundvallarþýðingu við gerð þess samnings, sem undirritaður var þann 1. maí 2004 á milli aðila máls þessa, að Norðurljós hf. fengi ekki aðgang að þeim trúnaðarupplýsingum sem Sverrir Agnarsson bjó yfir á meðan samningur á milli aðila var í gildi. Byggir stefndi á því að stefnanda, einkum og sér í lagi Sverri Agnarssyni, hafi verið þetta kunnugt og í raun hafi þetta verið sameiginlegur skilningur aðila á samningnum.
Á stefnanda hafi hvílt sérstök trúnaðarskylda. Þessi trúnaðarskylda hafi byggst á gagnkvæmum skilningi aðila á því réttarsambandi sem var til staðar á milli þeirra við gerð samningsins, og mikilvægi þeirra trúnaðarupplýsinga sem stefnandi bjó yfir vegna starfa sinna hjá stefnda. Byggir stefndi á því að þessi trúnaðarskylda hafi leitt til þess að stefnanda hafi verið óheimilt að hefja störf, hvort heldur persónulega eða sem starfsmaður félags, hjá samkeppnisaðila. Þessi vanefnd stefnanda hafi leitt til þess að efndaskylda hafi fallið niður af hálfu stefnda, enda hafi vanefnd stefnda leitt til fullkomins forsendubrests fyrir samningi aðila. Við það hafi efndaskylda stefnda fallið niður frá og með september 2004, þ.e. þegar stefnandi hóf störf hjá Norðurljósum hf.
Óumdeilt sé hins vegar að stefndi hafi átt eftir að greiða stefnanda vegna ágúst- mánaðar. Að teknu tilliti til hlutareiknings, og viðskiptaskuldar stefnanda hjá stefnda, eigi stefnandi hins vegar enga kröfu á hendur stefnda. Uppgjör sé eftirfarandi:
|
Greiðsla vegna ágústmánaðar 2004 |
220.013 kr. |
|
Viðskiptaskuld stefnanda |
-673.121 kr. |
|
Samtals |
-453.108 kr. |
Ekki sé gert ráð fyrir dráttarvöxtum vegna viðskiptaskuldar, en þó sé ljóst að krafan sé mun hærri að teknu tilliti til dráttarvaxta.
Samkvæmt framansögðu eigi stefndi kröfu á hendur stefnanda að fjárhæð 453.108 krónur, sem leiði til sýknu.
Varakröfu sína byggir stefndi á því að stefnandi eigi eftir að fá greidda tvo síðustu mánuðina fyrir riftun samningsins, þ.e. ágúst og september 2004. Beri stefnda þá að greiða stefnanda 908.271 krónu. Fjárhæðin sé fundin með því að leggja saman þá tvo mánuði sem stefnandi átti eftir að fá greidda en til frádráttar komi hlutareikningur stefnanda og skuld hans við stefnda.
Ofangreind fjárhæð sundurliðast á eftirfarandi hátt:
|
Greiðsla vegna ágústsmánaðar 2004 |
220.013 kr. |
|
Greiðsla vegna septembermánaðar 2004 |
1.361.379 kr. |
|
Samtals |
1.581.392 kr. |
|
Skuld stefnanda við stefnda |
-673.121.00 kr. |
|
SAMTALS |
908.271 kr. |
Hafi þá verið tekið tillit til hlutareiknings stefnanda, en þó sé ljóst að krafan sé mun hærri að teknu tilliti til dráttarvaxta.
Stefndi mótmælir sérstaklega dráttarvaxtakröfu stefnanda. Samkvæmt samningi aðila hafi stefnda borið að greiða stefnanda tiltekna fjárhæð gegn framvísun reiknings. Reikningi vegna septembermánaðar hafi ekki verið framvísað þrátt fyrir tilmæli lögmanns stefnda í bréfi til stefnanda, dags. 20. janúar 2005. Af þeim sökum sé þess krafist að engir dráttarvextir verði reiknaðir.
Í stefnu er byggt á því að stefnandi eigi enn fremur rétt til greiðslu fyrir október- mánuð þar sem tilkynning um riftun hafi ekki borist stefnanda fyrr en eftir 1. október 2004. Tilkynning stefnda um riftun hafi verið ákvöð í skilningi 39. gr. samningalaga nr. 7/1936 og 82. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, en upphaf réttaráhrifa slíkra ákvaða miðist við það tímamark þegar tilkynningin var send af stað á nægilegan tryggan hátt.
Stefndi hafnar því að stefnandi hafi efnt samning aðila réttilega. Við gerð samningsins hafi sameiginlegur skilningur aðila verið sá að stefnanda hafi verið óheimilt að hefja störf eða vinna fyrir samkeppnisaðila. Umræddum skilningi sé líst að hluta í tölvupósti Sverris Agnarssonar til Magnúsar Ragnarssonar, dags. 6. september 2004, en þar segi eftirfarandi: „Ég tel mig t.d. ekki geta unnið fyrir aðra ljósvakamiðla meðan okkar samningur er í gildi né heldur eftir þær breytingar sem við erum ásáttir um. Og ég tel mig heldur ekki geta unnið við fjölmiðlagreiningar yfirleitt hver sem miðlategundin er fyrir eða eftir breytingar samnings um það erum við sammála.“
Að teknu tilliti til ofangreindrar afstöðu stefnanda sé fráleitt að halda því fram að stefnandi hafi efnt samning aðila réttilega eftir að hann hóf störf hjá helsta samkeppnisaðila stefnda, Norðurljósum hf.
Þá er á því byggt að framangreind vanefnd stefnanda leiði til þess að hann eigi ekki rétt á þeim greiðslum sem samningurinn mæli fyrir um, þar sem forsenda greiðsluskyldu stefnda samkvæmt samningnum hafi verið að stefnandi efndi samninginn. Þar sem Sverrir Agnarsson hafi vanefnt samning aðila verulega bresti þessi forsenda samningsins og því eigi hann ekki rétt til greiðslu þeirra fjárhæða sem hann geri kröfur til í máli þessu.
Þá er því mótmælt sérstaklega að stefnandi hafi ekki getað efnt samninginn vegna atvika er vörðuðu stefnda máls þessa. Hið rétta sé að samningurinn hafi ekki verið efndur réttilega af hálfu stefnanda vegna vanefndar hans sjálfs. Viðbrögð stefnda við vanefnd stefnanda hafi verið fullkomlega eðlileg að teknu tilliti til aðstæðna málsins.
Stefndi byggir á því að forsendur fyrir samningi aðila hafi brostið þegar stefnandi vanefndi samninginn. Um hafi verið að ræða fullkominn trúnaðarbrest sem telja verði verulega vanefnd í skilningi kröfuréttarins og því hafi skilyrði til riftunar samningsins verið fyrir hendi. Auk þess hafi riftun verið beint til þess aðila sem hún beindist gegn, þ.e. Sverri Agnarssyni f.h. stefnanda, en Sverrir hafi ávallt komið fram f.h. stefnanda gagnvart stefnda.
Í máli þessu liggur fyrir að stefnandi hafi hafið störf á öðrum fjölmiðli, nánar tiltekið helsta samkeppnisaðila stefnda máls þessa. Í fyrstu hafi stefnandi haldið því fram að hann bæri út dagblöð og ynni við sölu smáauglýsinga. Þessar yfirlýsingar stefnanda hafi ávallt verið ótrúverðugar enda hafi stefndi haft upplýsingar um að stefndi ynni í sambærilegu starfi og hann hafði gegnt hjá stefnda. Aðili að þeim samningi, sem mál þetta varði, sé stefnandi máls þessa, Lifandi ljós ehf. Af því leiði að félagið sé bundið við samninginn og þann skilning, sem bæði stefnandi og stefndi hafi lagt í hann þegar hann var gerður, þ.e. að stefnandi hæfi ekki störf hjá öðrum félögum í samkeppni við stefnda máls þessa. Þessi skilningur eigi bæði við um Sverri Agnarsson og aðra starfsmenn stefnanda. Að mati stefnda gildi það einu hvort Sverrir Agnarsson eða aðrir starfsmenn stefnanda, t.d. synir Sverris, hafi látið af hendi trúnaðarupplýsingar til annarra aðila. Um trúnaðarbrot sé að ræða hvernig sem upplýsingarnar berist frá stefnanda til 365 ehf.
Stefndi kveður stefnanda aldrei hafa upplýst hvaða störfum hann gegndi hjá Fréttablaðinu eða fjölmiðlum sem teljast til fyrirtækjasamstæðu 365 ehf. Í fyrstu hafi því verið haldið fram að stefnandi ynni við það að bera út dagblöð og selja smáauglýsingar. Þessar fullyrðingar hafa ekki talist trúverðugar að teknu tilliti til sérfræðiþekkingar Sverris Agnarssonar og hafi hann unnið við markaðsrannsóknir.
Stefndi mótmælir því, að Sverrir Agnarsson geti skýlt sér á bak við kennitölu einkahlutafélagsins Lifandi ljós ehf. Með afstöðu sinni hyggist Sverrir Agnarsson koma því til leiðar að honum hafi í raun verið óskylt að efna þær skyldur sem á honum og stefnanda hafi hvílt vegna hinna viðkvæmu trúnaðarupplýsinga sem hann hafi búið yfir.
Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V
Ágreiningur máls þessa lýtur að þjónustusamningi sem aðilar máls þessa gerðu með sér hinn 1. maí 2004 og átti að gilda til 31. desember sama ár. Telur stefndi að forsendur samningsins hafi brostið er stefnandi hafi hafið störf hjá Frétt ehf. í byrjun september 2004. Byggir hann á því aðallega, að með því hafi stefnandi vanefnt samning aðila og því hafi skylda hans samkvæmt samningnum fallið niður. Til vara byggir stefndi á því að honum hafi verið heimil riftun samningsins, eins og hann hafi gert með bréfi sínu dagsettu 26. september 2004.
Við aðalmeðferð málsins gaf framkvæmdastjóri Skjás eins skýrslu. Kvað hann að í starfi Sverris hjá fyrirtækinu sem auglýsingastjóri hafi falist sala á auglýsingum til viðskiptavina, greining á dagskrárkönnunum og markhópum en einnig kannanir, greiningar, úrvinnsla og stjórnun á sölu eftir þeim gögnum. Hafi hann stjórnað daglegri sölu hjá söludeildinni. Kvað hann Sverri í upphafi starfs síns hjá Skjá einum hafa verið ráðinn sem verktaka undir eigin nafni. Síðan hafi honum verið greitt fyrir störf sín til nokkurra einkahlutafélaga á hans nafni, allt verktakagreiðslur, og undir það síðasta til Lifandi ljóss ehf., eða frá miðju ári 2003. Hafi Sverrir ítrekað verið beðinn um að verða launþegi, en hann neitað. Á árinu 2004, er framkvæmdastjórinn hafi komið til starfa hjá fyrirtækinu, hafi skattstjórinn í Reykjavík verið búinn að gera athugasemdir við svokallaða gerviverktöku, sem tíðkast hafi hjá fjölmiðlafyrirtækjum. Kvaðst hann hafa gert samkomulag við skattstjóra um að breyta þessum samningum í launasamninga, sem síðan hafi verið gert við alla aðra en Sverri, sem ekki hafi viljað ganga að því. Vegna þessa og eins þess að sala á auglýsingum hafi hrunið, hafi verið ákveðið að gera nokkurs konar starfslokasamning við Sverri með það að markmiði að koma honum út úr húsi og láta hann vinna á eigin starfsstöð og stjórna sinni vinnu, en jafnframt að aðstoða hann við að stofna eigið fyrirtæki. Hann kvað að stefnandi, Lifandi ljós, hefði alltaf verið eingöngu Sverrir Agnarsson. Umdeildur uppgjörssamningur og þjónustusamningur hafi verið gerður af honum og hafi enginn annar en Sverrir getað uppfyllt samninginn. Hafi það ætíð verið sameiginlegur skilningur aðila og algjör eining um, að Sverrir færi ekki að vinna fyrir fyrirtæki í eigu Norðurljósa, sem hafi verið helsti keppinautur stefnda, en Sverrir hafi búið yfir mikilli þekkingu og haft undir höndum mörg gögn um sölu og afkomu félagsins. Hafi verið hamrað á því ítrekað að ekki kæmi til greina að Sverrir ynni hjá fyrirtækjum í eigu Norðurljósa. Á sama tíma hafi stjórnarmenn Skjás eins reynt að afla Sverri fleiri viðskiptavina, og m.a. rætt við Viðskiptablaðið og IKEA, sem verið hafi að hluta í eigu stjórnarmanna Skjás eins. Hins vegar kvað framkvæmdastjórinn það ekki hafa verið sérstaklega rætt milli aðila að um starfslokasamning væri að ræða. Hann kvað Sverri hafi verið í leyfi frá því í byrjun maí árið 2004, án þess að Skjár einn gerði athugasemdir við það, enda hafi Sverrir á þeim tíma verið gersamlega útbrunninn. Í byrjun september hafi síðan borist tölvupóstur frá Sverri, þar sem hann gagnrýndi stjórnendur fyrirtækisins og bað um breytingu á samningnum, að skyldum hans yrði breytt, umsvif minnkuð og þar með að tekjur hans yrðu skertar hjá félaginu. Hafi Sverrir sent drög að samningnum svo breyttum, með tölvupósti, og beðið um staðfestingu tafarlaust. Kvaðst framkvæmdastjóranum hafa þótt þetta undarlegt og spurt Sverri hvort hann væri farinn að vinna fyrir samkeppnisaðila. Síðan hafi hann komist að því að Sverrir væri farinn að vinna fyrir Fréttablaðið í eigu Fréttar, sem verið hafi dótturfélag Norðurljósa, við sölu og greiningu, en samningur hans við Frétt sé undirritaður 25. ágúst það ár. Hafi þetta orðið endir á samskiptum aðila. Hann kvað að við samningsgerð málsaðila hafi verið rætt um trúnað og bann við því að Sverrir ynni hjá öðrum, en Sverrir hafi á þeim tíma verið hatursmaður Norðurljósa. Kvað hann Sverri hafa haft aðgang að öllum viðskiptaleyndarmálum fyrirtækisins, en auglýsingar séu eini tekjustofn þess og mikil samkeppni sé milli fyrirtækjanna um auglýsendur. Er samningurinn hafi verið gerður hafi Sverrir haft nokkra stöðu á viðskiptareikningi hjá fyrirtækinu eða nærri eina milljón. Greiðslur samkvæmt samningnum hafi átt að greiða til Lifandi ljóss, en létta jafnframt viðskiptastöðunni mánaðarlega. Þessar skuldir hafi því verið lækkaðar eftir því sem leið á samnings-tímann, undir hans stjórn. Sverrir hafi ekki unnið mikið fyrir stefnda frá því að umdeildur samningur hafi verið gerður í maí og fram til loka hans, en stefndi hafi ekki gert neinar kröfur til hans um vinnuframlag. Á þessum tíma hafi hann mætt á tvo til þrjá samráðsfundi og framlögð greining á „enska boltanum“ hafi að hluta til verið unnin af Sverri Agnarssyni, en hann hafi reiknað út sekúnduverð á auglýsingatíma í „enska boltanum“, sem hafi orðið stefnda gagnslítið þar sem sá útreikningur hafi verið rangur. Framkvæmdastjórinn kvað starf Sverris við sölu á flokkuðum auglýsingum vera sambærilegt því starfi sem hann hafi unnið fyrir stefnda. Miðlarnir berjist hart sín á milli um auglýsingar og séu bæði blöð og ljósvakamiðlar samkeppnisaðilar á sama auglýsingamarkaði.
Sverrir Agnarsson gaf og skýrslu við aðalmeðferð málsins. Kvaðst hann hafa komið til starfa fyrir stefnda sumarið 1999, sem sölustjóri, verið ráðinn sem verktaki og hafi aldrei viljað vera launþegi. Síðar hafi hann tekið að sér ráðgjöf við uppstillingu dagskrár. Starf hans hafi aðallega falist í greiningu á fjölmiðlanotkun Íslendinga. Hann kvaðst alltaf hafa unnið sem verktaki. Í byrjun hafi hann gert reikning fyrir vinnu sína á eigin kennitölu, en síðan hafi synir hans stofnað fyrirtæki með honum. Sverrir kvaðst ekki vera eigandi stefnanda, sem sé í eigu sonar hans. Hafi hann fengið greidd laun frá stefnanda. Skattstjóri hafi farið yfir þetta mál og hafi samþykkt verktökuna, ef hann flytti starfsemina út úr húsi stefnda, til þess að fyrirtækið fengi sjálfstæði. Sverrir kvaðst aldrei hafa viljað skrifa undir slíkan samning, að hann gæti ekki unnið fyrir aðra. Umdeildan samning hafi Magnús lagt fram og stefnandi skrifað undir hann. Hann kvað tekjur sínar ætíð hafa verið prósentur af tekjum Skjás eins, en samningurinn hafi falið í sér lækkað prósentuhlutfall af tekjum Skjás eins. Stefndi hafi ætlað að aðstoða hann við að útvega sér vinnu hjá öðrum, m.a Viðskiptablaðinu. Samkvæmt samningnum hafi stefnandi tekið að sér ákveðin verkefni, þau sömu og hann hafi haft með höndum fyrir stefnda, en annar hafi átt að koma inn og taka við sölustjórninni. Hann kvaðst hafa uppfyllt samninginn og framkvæmt þau verkefni sem honum hafi verið ætlað, setið marga fundi með markaðsstjóra, og komið fram með hugmyndir sem notaðar hafi verið. Hann kvað það vera rétt að um nokkurs konar starfslokasamning hafi verið að ræða, gerðan á vinsamlegum nótum meðan hann væri að leita fyrir sér annars staðar, en héldi jafnframt áfram að vinna fyrir stefnda. Í ágúst- september hafi hann farið til starfa hjá Fréttablaðinu og leitaði því eftir breytingu á samningnum við stefnda. Kvaðst hann hafa verið reiðubúinn að skrifa undir það að hann myndi ekki vinna sams konar verkefni fyrir aðra fjölmiðla. Hjá Frétt hafi hann unnið við eins óskylt verkefni og hægt sé að hugsa sér, en hann hafi þar tekið að sér sölustjórn fyrir innblað Fréttablaðsins á flokkuðum auglýsingum og smáauglýsingum. Starf hans þar hafi því ekki falið í sér markaðsrannsóknir eða samskipti við Stöð tvö eða Norðurljós. Þó svo að blöð og ljósvakamiðlar séu í samkeppni um auglýsingar, hafi hann ekki verið að selja auglýsingar til sömu aðila og auglýsi hjá stefnda. Sverrir kvaðst hafa samið við Frétt f.h. stefnanda, en ekki talið ástæðu til að upplýsa stefnda um þennan samning. Kvað hann hafa legið ljóst fyrir að hann færi að vinna hjá fyrirtækjum tengdum Norðurljósasamsteypunni, sem ráði yfir 70% af fjölmiðlum landsins. Að hans mati hafi hann ekki búið yfir nokkrum trúnaðarupplýsingum. Hann kvað stefnda hafa viljað breyta samningnum þannig, að hann bannaði að hann færi að vinna fyrir aðra fjölmiðla. Hins vegar hafi hann lagt til að samningur málsaðila kvæði á um að hann færi ekki að vinna við sambærileg störf og skilgreind eru í 1. gr. samningsins, og hafi ekki verið tilbúinn til að skrifa undir annað. Við samningsgerð hins umdeilda samnings hafi hann hafnað því að skrifa undir samkeppnisákvæði, en kvaðst hafa sagt Magnúsi að hann skyldi ekki fara að vinna fyrir Norðurljós, þar sem honum hafi liðið þannig þá, en margt hafi breyst síðan.
Eins og að framan greinir gerðu aðilar með sér skriflegan þjónustusamning, þar sem stefnandi tók að sér að annast markaðsmál og markaðsgreiningar fyrir söludeild Íslenska sjónvarpsfélagsins, eins og greinir í 1. gr. samningsins. Samkvæmt framburði Sverris Agnarssonar og fyrirsvarsmanns stefnda, var samningur þessi m.a. gerður þar sem Sverrir Agnarsson, sem verið hafði starfsmaður stefnda í langan tíma og alltaf sem verktaki, vildi ekki gerast launþegi hjá stefnda auk þess sem aðilar virðast hafa verið sammála um að um nokkurs konar lok á vinnusamningum þeirra yrði að ræða og stefnandi haslaði sér völl annars staðar, þar sem starfsreynsla hans og þekking nýttist honum. Af því sem fram er komið um vinnusamband aðila er ljóst að umdeildur samningur var um persónulegt vinnuframlag Sverris Agnarssonar fyrir stefnda, eins og verið hafði, enda liggur og ekkert fyrir um að Sverrir Agnarsson hafi verið eða sé launþegi hjá stefnanda. Verður því litið svo á að umdeildur verksamningur hafi í raun verið milli Sverris Agnarssonar og stefnda.
Stefndi aflar tekna til reksturs sjónvarpsstöðvarinnar Skjás eins með auglýsingatekjum og fólst starf Sverris meðal annars í að annast markaðsmál og markaðsgreiningar fyrir stefnda. Verður að telja að nægilega sé fram komið í málinu, m.a. með framburði Sverris Agnarssonar, að í starfi sínu fyrir stefnda hafi hann haft aðgang að upplýsingum um söluáætlanir og annað það sem trúnaður á að ríkja um og að stefnda hafi verið í mun að Sverrir, sem starfsmanni hans, bæri að gæta þess að aðhafast ekkert það sem færi í bága við skyldur hans samkvæmt samningnum eða væri andstætt hagsmunum stefnda. Þó svo að ekki sé skriflegt ákvæði um trúnað eða bann við að stefnandi færi til starfa hjá samkeppnisaðila í margnefndum samningi aðila liggur fyrir, samkvæmt framburði Sverris Agnarssonar, að við gerð samningsins hafi hann lýst því yfir að hann skyldi ekki fara að vinna fyrir Norðurljós. Mátti stefndi treysta orðum Sverris og var því rétt að líta svo á að með því hafi Sverrir lofað að fara ekki til starfa hjá samkeppnisaðilanum.
Með þjónustusamningi Sverris við Frétt ehf., dagsettum 25. ágúst 2004, þar sem hann tekur að sér sölustýringu á flokkuðum auglýsingum hjá Frétt ehf. braut Sverrir gegn þessu loforði sínu við gerð margnefnds þjónustusamnings málsaðila og ber því að fallast á með stefnda að með því hafi stefnandi rofið samninginn og hann fallið úr gildi. Ber því að fallast á það með stefnda að frá þeim degi eigi stefnandi ekki kröfu á hendur stefnda samkvæmt samningnum og þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í málinu.
Þrátt fyrir þessa niðurstöðu málsins þykir rétt, með hliðsjón af atvikum öllum, að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Síminn hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Lifandi ljóss ehf., í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.