Hæstiréttur íslands
Mál nr. 638/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Res Judicata
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Þriðjudaginn 17. nóvember 2009. |
|
Nr. 638/2009. |
S.R. Holdings ehf. (Sigurður Sigurjónsson hrl.) gegn Vagneignum ehf. (Baldvin Hafsteinsson hrl.) |
Kærumál. Res Judicata. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.
Héraðsdómari vísaði máli SH ehf. gegn V ehf., til greiðslu skuldar vegna samninga á milli SV ehf. og V ehf., frá dómi þar sem að áður hafði verið dæmt í máli sem SH ehf. hafði höfðað gegn V ehf. til heimtu skuldar vegna sömu samninga. Niðurstaða héraðsdóms um frávísun málsins með vísan til 2. mgr. 116. gr. laga 91/1991 var staðfest í Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. október 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. október 2009, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til hins forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, S.R. Holdings ehf., greiði varnaraðila, Vagneignum ehf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. október 2009.
Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 14. október sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af SR verktökum ehf., Miðhrauni 22 c, Garðabæ á hendur Vagneignum ehf., Vagnhöfða 23, Reykjavík, með stefnu birtri í mars 2009.
Dómkröfur stefnanda er þær að stefndi greiði stefnanda 23.426.692 kr. ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 2.801.000 kr. frá 18. janúar 2008 til 14. mars s.á., en af 3.953.000 kr. frá þeim tíma til 7. apríl s.á., en af 3.453.000 kr. frá þeim tíma til 23. apríl s.á, en af 23.426.692 kr. frá þeim tíma og til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að málinu verði vísað frá dómi. Til vara að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og til þrautavara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega að mati dómsins.
Þá krefst stefndi þess að stefnanda verði gert að greiða honum tafabætur að fjárhæð 3.107.000 kr. með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 7. apríl 2008 til greiðsludags. Ef stefnda verði gert að greiða stefnanda fjárhæð, verði honum heimilað að skuldajafna tafabótum við þá fjárhæð eins og hún hrekkur til. Standi eitthvað út af er krafist sjálfstæðs dóms fyrir því. Þá er krafist málskostnaðar.
Í þessum þætti málsins er krafa stefndu um frávísun málsins tekin til úrskurðar. Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefnda verði hrundið og að málskostnaðarákvörðun bíði efnisdóms.
Ágreiningsefni
Í september 2007 var gefin út útboðslýsing að jarðvinnuverki fyrir Vagneignir ehf., að Krókhálsi 9, Reykjavík. Nokkur tilboð fengust í verkið og voru SR verktakar ehf. meðal tilboðsgjafa. Hinn 11. október 2007 var gerður verksamningur á milli Vagneigna ehf., sem verkkaupa og SR verktaka ehf., sem verktaka. Hinn 10. desember 2007 var gerður viðbótarsamningur á milli sömu aðila. Mál þetta er sprottið af samningum þessum.
Með stefnu, birtri 9. júní 2008, höfðaði SR Holdings ehf. mál á hendur stefnda, Vagneignum ehf., vegna ofangreindara samninga. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. desember 2008 var stefndi sýknaður af kröfum stefnanda með vísan til 2. mgr. 16. gr. eml.
Málsástæður og lagarök stefnda fyrir frávísun
Máli
þessu er stefnt inn af SR verktökum ehf., kt.
... Með bréfi til dómstólsins, dags. 6. maí 2009, sem lagt var fram í
réttinum 4. júní 2009, var tilkynnt um aðilaskipti að málinu sóknarmegin,
þannig að SR Holdings, kt.
., tæki við aðild að málinu af stefnanda, SR
verktökum ehf., og vísað til yfirlýsingar um framsal kröfu sem dagsett er 6.
maí 2008, sbr. dskj. 54. Með dómi
Héraðsdóms Reykjavíkur, sem kveðinn var upp 15. desember 2008 í málinu nr.
E-4546/2008, var stefndi sýknaður af kröfum SR Holdings ehf. sem tekið hefur
við hlutverki stefnanda í máli þessu.
Eins og mál þetta er lagt fyrir er um sömu kröfu og deilu að ræða milli
aðila. Ekkert það hefur
verið kynnt sem réttlætt geti að sami dómstóll endurskoði fyrri niðurstöðu
sína, enda ekki heimilt samkvæmt grundvallarreglum í réttarfari. Framlagning stefnanda á dskj. 54, yfirlýsing
um kröfuframsal, breytir hér engu um, enda var stefnanda í lófa lagið að leggja
þetta skjal fram í hinu fyrra máli. Þá breytir það heldur engu að málinu hafi
upphaflega verið stefnt inn af SR verktökum ehf., enda ljóst, miðað við
framlagða yfirlýsingu á dskj. 54, að um aðildarskort hafi verið að ræða hjá SR
verktökum, sem bætt var úr með inngöngu SR Holdings ehf. Niðurstaða verður sú sama, verið er að
leggja að nýju sama deiluefnið milli sömu aðila fyrir sama dómstól. Slíkt er
fortakslaust bannað með vísan til 1. og 2. mgr. 116. gr. eml. og ber að vísa
málinu frá ex officio.
Málsástæður og lagarök stefnanda gegn frávísun
Í
upphafi vísar stefnandi til niðurstöðu í málinu nr. E-4546/2008 en þar var SR
Holdings ehf. sýknað af kröfu Vagneigna ehf. með vísan til 2. mgr. 16. gr. eml.
Í dómnum komi fram að engir samningar hafi verið lagðir fram né beri reikningar
það með sér að þeir hafi verið framseldir SR Holdings ehf. Þessum dómi hafi ekki verið áfrýjað. Vegna þessara niðurstöðu dómsins hafi
yfirlýsing um kröfuframsal frá 6. maí 2008 á dskj. 54 gengið til baka. Í mars 2009 hafi því
SR verktakar ehf. höfðað mál þetta, þ.e. nr. E-3172/2009. Þetta sé sami
grundvöllur og í fyrra málinu. Stefndi, Vagneignir ehf., hafi farið fram á
tryggingu fyrir málskostnaði og var hún tekin til greina, sbr. úrskurð dags.
22. apríl 2009 og SR verktökum ehf. gert að setja 800.000 kr. tryggingu. Vegna
þessa gerði stefnandi, SR verktakar ehf. samkomulag við SR Holdings ehf. og
raknaði við kröfuframsalið á dskj. 54. Jafnframt tók SR Holdings ehf. við
rekstri málsins, sbr. dskj. 60.
Lögmaður
stefnanda upplýsir að upphaflegi stefnandi málsins, SR verktakar ehf., séu nú
gjaldþrota. Auk þess hafi þeir á einhverju stigi breytt um nafn, þ.e. RTH ehf. Það skipti þó ekki máli
fyrir ágreining málsins, þar sem einungis hafi verið um nafnbreytingu að ræða.
Stefnandi tekur í fyrsta lagi fram, að SR verktakar ehf. hafi mátt höfða málið. Það hafi verið afleiðing dómsins í málinu nr. E-4546/2009. Í öðru lagi er bent á að SR verktökum ehf. hafi verið heimilt að framselja kröfu stefnanda til SR Holdings ehf. Stefndi sé ekki að gera annað en að reyna að afstýra því að krafan fái efnislega umfjöllun og komast hjá því að greiða hana. Dómkrafan er á milli sömu aðila en það hefur ekki verið leyst úr henni efnislega og því eigi 116. gr. eml. ekki við.
Niðurstaða
Mál þetta var í upphafi höfðað af hálfu SR verktaka ehf. Samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur var þeim aðila gert að setja málskostnaðartryggingu. Í þinghaldi 4. júní sl. er eftirfarandi bókað: „Lögmaður stefnanda óskar eftir að gerð verði aðilaskipti stefnenda megin þannig að SR Holdings ehf. komi í stað SR verktaka ehf.“ Er þetta í samræmi við bréf lögmanns stefnanda til Héraðsdóms Reykjavíkur á dskj. 60. Gekk þetta eftir og er SR Holdings ehf. sóknaraðili máls þessa.
Hinn 15. desember 2008 var stefndi sýknaður af kröfum SR Holdings ehf. Grundvöllur beggja málanna er verksamningur á milli stefnda og SR verktaka ehf. og er ágreiningslaust að sakarefni er hið sama í báðum málunum. Ljóst er því að dæmt hefur verið um sakarefnið á milli aðila málsins þ.e. SR Holdings ehf. og Vagneigna ehf. Er máli þessu því vísað frá dómi sbr. 116. gr. eml.
Eftir þessari niðurstöðu, og með vísan til 130. gr. og 131. gr. eml., ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað svo sem greinir í dómsorði.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Málinu er vísað frá dómi.
SR Holdings ehf. greiði, stefnda, Vagneignum ehf., 300.000 kr. í málskostnað.