Hæstiréttur íslands
Mál nr. 208/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Þriðjudaginn 12. júní 2001. |
|
Nr. 208/2001. |
Ríkislögreglustjóri (Jón H. Snorrason saksóknari) gegn X (Þórir Örn Árnason hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
X, sem grunaður var um stórfelld virðisaukaskattsvik, kærði úrskurð héraðsdóms um að hann skyldi sæta gæsluvarðhaldi. Talið var að rökstuddur grunur væri kominn fram um að T hafi framið brot, sem geti varðað fangelsisrefsingu samkvæmt 262. gr. almennra hegningarlaga. Var sakarefnið umfangsmikið og snerti marga aðila. Var skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála talið fullnægt. Var úrskurður héraðsdóms því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. júní 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júní 2001, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 21. júní nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Við fyrirtöku gæsluvarðhaldskröfu í Héraðsdómi Reykjavíkur 8. júní sl. á hendur nafngreindum manni, sem grunaður er um aðild að ætluðu broti varnaraðila, bar sá maður að hann hafi selt varnaraðila reikninga, sem ýmist voru gefnir út á hans nafn eða tveggja annarra tilgreindra manna. Engin vinna hafi legið að baki þessum reikningum, sem gefnir voru út á óútfyllt reikningseyðublöð með árituðum nöfnum þeirra þriggja, og allir voru undirritaðir af þeim. Að þessu virtu og að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júní 2001.
Ár 2001, fimmtudaginn 7. júní, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjatorg af Sigríði Ólafsdóttur héraðsdómara kveðinn upp svofelldur úrskurður:
Ríkissaksóknari hefur krafist þess með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, að X, sem handtekinn var af lögreglu um kl. 9.00 í dag fimmtudaginn 7. júní 2001, verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 21. júní næstkomandi kl. 16.00.
Í greinargerð Ríkislögreglustjóra kemur fram að efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra hafi nú til rannsóknar mál vegna kæru Skattrannsóknarstjóra ríkissins dags. 18.04.2001. Með kæru þessari kæri Skattrannsóknarstjóri A, B og X, fyrir meint brot gegn 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, 1. mgr. 107. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 3. tölulið 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald, og 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.
...
Fram er kominn rökstuddur grundur um að kærði hafi framið brot sem geta varðað fangelsisrefsingu samkvæmt 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Er hér um umfangsmikið sakarefni að ræða sem snertir marga menn og m.a. nokkur fyrirtæki. Með hliðsjón af því svo og með vísan til a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 er fallist á kröfu ríkislögreglustjóra eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 21. júní næstkomandi kl. 16.00