Hæstiréttur íslands
Mál nr. 112/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Mánudaginn 28. febrúar 2011. |
|
|
Nr. 112/2011. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (enginn) gegn X (Stefán Karl Kristjánsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. febrúar 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 25. febrúar 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 24. mars 2011 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann „kærumálskostnaðar, að mati dóms, fyrir meðferð máls fyrir héraðsdómi og fyrir Hæstarétti Íslands.“
Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Fallist er á að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um að hafa framið afbrot sem varða fangelsisrefsingu. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar að öðru leyti verður hann staðfestur.
Skilja verður varnaraðila svo að hann krefjist málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Samkvæmt 38. gr. og 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 eru ekki skilyrði til að fallast á slíkar kröfur, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 25. febrúar 2011 í máli nr. 105/2011.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 25. febrúar 2011.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist að héraðsdómur Reykjaness úrskurði X kt.[...], til að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 24. mars 2011 kl. 16.
Greinargerð um málsatvik og lagarök:
Í gærmorgun, fimmtudaginn 24. febrúar, fékk lögregla tilkynningu um fólk sem væri að ganga á milli húsa í Kópavogi og bankandi á dyr og að þau væru að reyna inngöngu í hús. Tilkynnandi sagði að augljóslega væri ekki um heimilisfólk á þessum stöðum að ræða og því fór lögregla á vettvang. Lögregla kom að kærða og vinkonu hans við íþróttahúsið í [...] í Kópavogi og við leit á aðilunum kom í ljós að í blárri íþróttatösku sem þau höfðu meðferðis var fartölva og dvd spilari ásamt fleiri munum. Aðspurður viðurkenndi kærði að hafa farið inn í hús skammt frá vettvangi og stolið þessum munum þaðan. Kom síðar í ljós að um var að ræða íbúðarhúsnæði að [...] í Kópavogi.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu viðurkenndi kærði að hafa brotist inn á ofangreindum stað og stolið þaðan fyrrnefndum munum, sjá mál lögreglu nr. 007-2011-11593. Í sömu yfirheyrslu yfir kærða kom fram að hann sé á örorkubótum og skuldi rúmlega 1 miljón króna vegna fíkniefnaskulda og ástæða þess að hann hafi brotist inní húsnæðið hafi verið sú að hann væri blankur og þyrfti peninga til að geta borgað þessar skuldir. Kærði á að baki langan sakarferill og hefur verið háður fíkniefnum í um 20 ár, að eigin sögn, en nú undanfarið hafa afbrot hans færst í aukanna og sér lögregla sig því knúinn til að fara fram á gæsluvarðhald yfir honum.
Auk ofangreinds máls er kærði er sterklega grunaður um aðild að neðangreindum 13 málum sem hafa átt sér stað á tímabilinu 10. janúar til 24. febrúar:
- Mál lögreglu nr. 033-2011-625
Fyrir fjársvik, með því að hafa á tímabilinu frá mánudeginum 10. janúar til 19. janúar 2011, í félagi við Y, kt. [...], notað í 11 skipti í heimildarleysi greiðslukort í eigu A, kt. [...], til að greiða fyrir vörur að samtals verðmæti 33.150 kr. Við skýrslutöku hjá lögreglu viðurkenndi kærði að hafa notað kortið í umrædd skipti.
- Mál lögreglu nr. 033-2011-573
Fyrir þjófnað, með því að hafa sunnudaginn 16. janúar 2011 stolið tveimur tölvuflökkurum af gerðinni ACIE og ABIGS á heimili B, kt. [...], að [...] í Reykjavík. Við skýrslutöku hjá lögreglu viðurkenndi kærði að hafa stolið einum flakkara.
- Mál lögreglu nr. 033-2011-562
Fyrir þjófnað, með því að hafa sunnudaginn 23. janúar 2011 brotist inn í sumarhús við [...] í Grímsnesi, með því að spenna upp hurð í húsnæðinu með kúbeini og stolið þaðan borvél af gerðinni Boss að verðmæti 70.000 kr. og Phillips sjónvarpstæki að verðmæti um 125.000 kr.
- Mál lögreglu nr. 033-2011-555
Fyrir þjófnað, með því að hafa sunnudaginn 23. janúar 2011 brotist inn í sumarhús við [...] í Grímsnesi, með því að spenna upp hurð í húsnæðinu með kúbeini og stolið þaðan verkfæratösku og borvél af gerðinni Dewalt, samtals að verðmæti kr. 139.000. Við skýrslutöku hjá lögreglu viðurkenndi kærði að hafa stolið umræddri borvél.
- Mál lögreglu nr. 007-2011-5271
Fyrir þjófnað, með því að hafa mánudaginn 24. janúar 2011 tekið skyrtu og rakvél, að samtals verðmæti 18.989 kr., í verslun [...] í Smáralind í Kópavogi, stungið vörunum inn á sig og gengið út án þess að greiða fyrir þær.
- Mál lögreglu nr. 007-2011-5326
Fyrir þjófnað, með því að hafa þriðjudaginn 25. janúar 2011 tekið Durex Gel Heat og Durex gleðihring, að samtals verðmæti 1.959 kr., í verslun [...] í Skeifunni í Reykjavík, stungið vörunum inn á sig og gengið út án þess að greiða fyrir þær.
- Mál lögreglu nr. 033-2011-571
Fyrir gripdeild, með því að hafa þriðjudaginn 25. janúar 2011 í verslun [...] við [...] á Selfossi tekið rifjasteik og ensk-íslenska orðabók, samtals að verðmæti kr. 17.166, og hlaupið með vörurnar út úr versluninni án þess að greiða fyrir þær. Kærði var handtekinn á vettvangi og viðurkenndi verknaðinn.
- Mál lögreglu nr. 007-2011-8316
Fyrir þjófnað, með því að hafa sunnudaginn 6. febrúar 2011 stolið nautalundum að verðmæti 4.707 kr. úr verslun [...] við [...] í Reykjavík.
- Mál lögreglu nr. 033-2011-1243
Fyrir nytjastuld og umferðarlagabrot, með því að hafa mánudaginn 21. febrúar 2011 fengið bifreiðina [...] lánaða til reynsluaksturs hjá bílasölunni [...] við [...] á Selfossi en í heimildarleysi og til eigin nota ekið bifreiðinni áleiðis til Reykjavíkur en lögregla handók kærða ásamt samverkamönnum við Litlu Kaffistofuna eftir að bifreiðin hafði bilað. Kærði er einnig grunaður akstur undir áhrifum ávana og fíkniefna en hann viðurkenndi neyslu skömmu áður en beðið er niðurstöðu blóðsýnarannsóknar.
- Mál lögreglu nr. 033-2011-1255
Fyrir þjófnað og gripdeild, með því að hafa mánudaginn 21. febrúar 2011 í verslun [...] við [...] í Hveragerði stolið þremur pökkum af rakvélablöðum að andvirði kr. 6.585, með því að taka vörurnar og setja þær í úlpuvasa og ganga út úr versluninni án þess að greiða fyrir vörurnar og með því að hafa dælt eldsneyti á bifreiðina [...] að andvirði kr. 6.500 og ekið á brott án þess að hafa greitt fyrir eldsneytið.
- Mál lögreglu nr. 033-2011-1262
Fyrir eignaspjöll, með því að hafa mánudaginn 21. febrúar 2011 á lögreglustöðinni á Selfossi eyðilagt fangadýnu með því að rífa hana í sundur og skilað af sér þvagi yfir dýnuna.
- Mál lögreglu nr. 007-2011-11056
Fyrir þjófnað, með því að hafa aðfaranótt miðvikudagsins 23. febrúar 2011, í félagi við Z, kt. [...], brotist inn í Auglýsingastofuna [...] við [...] í Reykjavík, með því að hafa brotið rúðu í húsnæðinu og stolið þaðan Dell fartölvu og iMac tölvu að verðmæti 300.000 kr.
- Mál lögreglu nr. 007-2011-11438
Fyrir tilraun til þjófnaðar, með því að hafa miðvikudaginn 23. febrúar 2011, í auðgunarskyni farið inn um ólæstan glugga á íbúð að [...] í Reykjavík í þeim tilgangi að verða sér út um verðmæti sem kærði hugðist koma í verð til að verða sér út um peninga.
Kærði á að baki langan sakarferil sem nær allt frá árinu 1990 og hefur kærði á þessum tíma hlotið 31 refsidóm vegna ýmissa brota. Stór hluti þessara dóma er vegna auðgunarbrota eða skjalabrota sem tengjast fíkniefnaneyslu kærða. Nú síðast hlaut kærði 12 mánaða fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 1. desember 2008 vegna tilraunar til ráns og árásar á opinberan starfsmann, sjá dóm nr. S-1340/2008. Kærða var veitt reynslulausn 26. nóvember 2009 í 2 ár á eftirstöðvum refsingar á 317 dögum. Kærði stóðst hinsvegar ekki reynslulausnina og hóf afplánun eftirstöðvanna þann 31. janúar 2010. Kærði lauk afplánun þann 14. desember 2010 og núna er kærði sterklega grunaður í ofangreindum málum sem öll nema eitt eru auðgunarbrot eða nytjastuldur og hafa átt sér stað á tímabili sem nemur rúmum mánuði.
Þá liggur fyrir, að mati lögreglu, verði kærði fundinn sekur fyrir ofangreind brot muni hann fá óskilorðsbundna fangelsisrefsingu.
Við rannsókn mála kærða hefur komið í ljós að hann er í mikilli neyslu fíkniefna og án atvinnu. Með vísan til samfellds brotaferils kærða, sem hefur færst mjög í aukanna á síðustu dögum er það mat lögreglustjóra að hann muni halda áfram afbrotum verði hann látinn laus.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Kærði mótmælti gæsluvarhaldskröfunni og til vara að verði á hana fallist þá verði gæsluvarðhaldinu markaður skemmri tími en krafsist er.
Í skýrslu hjá lögreglu kvaðst kærði vera atvinnulaus og á örorkubótum auk þess sem hann sé í neyslu fíkniefna og skuldi rúmlega milljón í fíkniefnaskuldir og að þær skuldir fari hækkandi. Telur dómari það hafið yfir vafa hafinn að hann fjármagni neyslu sína m.a. með afbrotum. Fallist er á með sóknaraðila að ætla megi að varnaraðili muni halda áfram afbrotum meðan máli hans er ekki lokið. Eru því uppfyllt skilyrði c. liðar 1. mgr. 95. laga nr. 88/2008 fyrir því að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi meðan máli hans er ekki lokið sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 682/2009.
Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 24. mars nk. kl. 16.00.