Hæstiréttur íslands
Mál nr. 650/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slitameðferð
- Verðbréfaviðskipti
- Skaðabætur
- Húsbóndaábyrgð
|
|
Miðvikudaginn 14. nóvember 2012. |
|
Nr. 650/2012. |
Magnús Björn Brynjólfsson (sjálfur) gegn Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf. (Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Verðbréfaviðskipti. Skaðabætur. Húsbóndaábyrgð.
M keypti stofnfjárbréf í SPRON hjá SPRON verðbréfum hf. 25. júlí 2007 og greiddi fyrir þau 5.000.005 krónur. Þann 21. ágúst 2007 samþykkti stjórn SPRON að breyta sparisjóðnum í hlutafélag og eignaðist M hlutabréf í félaginu í stað stofnfjárbréfanna. Þann 23. júní 2009 var SPRON hf. tekið til slitameðferðar og lýsti M kröfu við slitin að fjárhæð 8.552.498 krónum, sem svaraði til kaupverðs stofnfjárbréfanna auk dráttarvaxta og kostnaðar. Samkvæmt kröfulýsingu M var krafa hans „skv. riftun og endurkröfu á greiðslu stofnbréfa í SPRON“. Þá kom fram að M hefði einnig sent fyrrverandi stjórnarformanni félagsins riftunar- og endurkröfu, en í ljós kom að formaðurinn hafði átt stofnfjárbréfin sem M keypti 25. júlí 2007. Slitastjórn SPRON hf. hafnaði kröfu M og var þeim ágreiningi vísað til úrlausnar héraðsdóms. Í málinu hélt M því fram að SPRON hf. hefði borið ábyrgð á saknæmri háttsemi formannsins, auk fleiri starfsmanna, á grundvelli húsbóndaábyrgðar í tengslum við sölu stofnfjárbréfanna. Talið var að M gæti ekki beint kröfu um riftun kaupanna og endurgreiðslu kaupverðsins að SPRON hf. þar sem bréfin hefðu ekki verið keypt af sparisjóðnum. Þá þótti kröfulýsing M ekki fullnægja ákvæðum lokamálsliðar 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 en í henni hafði í engu verið greint frá því að höfð væri uppi krafa um skaðabætur úr hendi SPRON hf. vegna saknæmrar háttsemi starfsmanna félagsins. Að auki þótti ljóst að verðbréfamiðlarar sem komu að kaupum M á stofnfjárbréfunum, voru samkvæmt gögnum málsins starfsmenn SPRON verðbréfa hf. en ekki SPRON. Þá var talið að ætluð háttsemi stjórnarformannsins, gæti í engu fallið undir ábyrgð SPRON, þar sem sala formannsins á stofnfjárbréfum hans var störfum hans hjá félaginu með öllu óviðkomandi. Var kröfu M því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. október 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2012, þar sem hafnað var að viðurkenna nánar tilgreinda kröfu, sem sóknaraðili lýsti við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að við slit varnaraðila verði krafa hans að fjárhæð 5.000.005 krónur ásamt nánar tilgreindum vöxtum frá 26. júlí 2007 til greiðsludags viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Samkvæmt gögnum málsins lét Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis frá sér fara fréttatilkynningu 17. júlí 2007, þar sem greint var meðal annars frá því að stjórn sparisjóðsins hafi samþykkt þann dag að undirbúa breytingu hans í hlutafélag og óska eftir skráningu þess í kauphöll. Hafi ráðgjafarfyrirtækið Capacent metið markaðsvirði sparisjóðsins miðað við 31. mars 2007, en á grundvelli þess mats ættu 85% hlutafjár í hlutafélaginu að falla til stofnfjáreigenda í honum og 15% til sjálfseignarstofnunar, sbr. þágildandi 74. gr. og 76. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Ráðgert væri að markaði fyrir stofnfjárbréf í sparisjóðnum yrði lokað 7. ágúst 2007 og myndi stjórn hans ekki samþykkja framsal á þeim upp frá því, en eftir það yrði næst unnt að eiga viðskipti með eignarhluti í sparisjóðnum í formi hlutabréfa eftir skráningu hlutafélagsins í kauphöll. Væri stefnt að því að sú skráning fengist í september 2007. Á fundi stofnfjáreigenda í sparisjóðnum 21. ágúst 2007 var samþykkt tillaga um staðfestingu samrunaáætlunar hans og varnaraðila og „þar með að breyta Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis í hlutafélag“, svo sem komist var að orði í fundargerð, en ráðagerðir um skráningu félagsins í kauphöll munu hafa gengið eftir í framhaldi af því.
Samkvæmt fundargerð frá stjórnarfundi í sparisjóðnum 9. ágúst 2007 höfðu 5,4% stofnfjár í honum skipt um hendur á tímabilinu frá 24. júlí 2007 fram að lokun markaðar fyrir stofnfjárbréf 7. ágúst sama ár og hefði stofnfjáreigendum þá fjölgað um 200, þannig að heildarfjöldi þeirra væri orðinn rúmlega 1.700. Sóknaraðili var eftir gögnum málsins meðal þeirra, sem gerðust stofnfjáreigendur á þessu tímabili. Í því skyni hafði hann leitað 25. júlí 2007 til SPRON verðbréfa hf., sem hafði á hendi markað fyrir stofnfjárbréf í sparisjóðnum, en þau munu ekki hafa verið skráð á skipulegum verðbréfamarkaði. Samkvæmt endurriti af hljóðrituðu símtali, sem sóknaraðili átti þá við tiltekinn verðbréfamiðlara, óskaði sá fyrrnefndi eftir því að gert yrði fyrir sig tilboð í stofnfjárbréf á genginu 5,05 og miðað við að heildarkaupverð yrði 5.000.000 krónur. Á grundvelli þessa tilboðs komust á kaup 26. sama mánaðar um 17,78244 stofnfjárhluti, sem hver var að nafnverði 25.000 krónur, en það var framreiknað með stuðlinum 2,20509 og taldist þannig nafnverðið alls 980.297 krónur. Samkvæmt kvittun frá SPRON verðbréfum hf. voru þessir hlutir keyptir á áðurnefndu gengi og var því verð þeirra 4.950.500 krónur, en við þá fjárhæð bættust 49.505 krónur vegna þóknunar. Sóknaraðili greiddi kaupverðið, 5.000.005 krónur, inn á bankareikning SPRON verðbréfa hf. 30. júlí 2007. Í samræmi við samþykktir sparisjóðsins voru eigendaskipti að stofnfjárbréfum í honum, sem tóku samanlagt til 512.710.756 stofnfjárhluta, borin undir stjórn hans á fyrrnefndum fundi 9. ágúst 2007 og voru þau samþykkt þar í einu lagi, en meðal þeirra viðskipta voru framangreind kaup sóknaraðila. Eftir samruna sparisjóðsins við varnaraðila fékk sóknaraðili hlutabréf í félaginu að nafnverði 198.883 krónur í stað stofnfjárbréfanna, sem hann hafði samkvæmt áðursögðu keypt í júlí 2007.
Fjármálaeftirlitið tók 21. mars 2009 yfir vald hluthafafundar í varnaraðila, vék félagsstjórn frá störfum og skipaði honum skilanefnd í samræmi við 100. gr. a. laga nr. 161/2002, eins og þeim hafði verið breytt með lögum nr. 125/2008. Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði varnaraðila slitastjórn 23. júní 2009 samkvæmt 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009, og birti hún innköllun til skuldheimtumanna 22. júlí sama ár. Samkvæmt gögnum málsins hafði sóknaraðili allt frá 9. mars 2009 ítrekað krafið varnaraðila um upplýsingar um hver hafi verið viðsemjandi hans í fyrrgreindum kaupum á stofnfjárbréfum og fékk hann loks svar við því frá slitastjórn 2. september sama ár. Þar kom fram að seljandinn hafi verið Hildur Petersen, sem hafði verið formaður stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og síðan varnaraðila fram til aðalfundar 27. febrúar 2008. Að fengnum þessum upplýsingum sendi sóknaraðili bréf til seljanda stofnfjárhlutanna 15. september 2009, þar sem hann lýsti yfir riftun kaupanna og krafðist endurgreiðslu á kaupverðinu, sem hann kvað hafa verið 5.000.000 krónur, auk dráttarvaxta og kostnaðar, en að þessu meðtöldu nam krafan samtals 8.552.498 krónum. Þá ritaði sóknaraðili kröfulýsingu á hendur varnaraðila 16. september 2009, þar sem hann gerði kröfu um greiðslu sömu fjárhæðar, sem fengi stöðu í réttindaröð við slit varnaraðila samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, en með kröfulýsingunni fylgdu kvittun fyrir greiðslu kaupverðs stofnfjárhlutanna og afrit af framangreindu bréfi til seljanda þeirra. Í kröfulýsingunni gerði sóknaraðili að öðru leyti grein fyrir kröfu sinni á eftirfarandi hátt: „Krafan er skv. riftun og endurkröfu á greiðslu stofnbréfa í SPRON, en þau kaup áttu sér stað þann 26.07.2007. Upplýst hefur verið með tölvupósti dags. 02.09.2009 frá slitastjórn Spron að viðsemjandi kröfuhafa þann 26.07.2007 var Hildur Petersen, stjórnarmaður í Spron. Kröfuhafi hefur gert riftunar- og endurkröfu á hendur stjórnarmanni sparisjóðsins, sem mun væntanlega verða borin undir dómstóla. ... Áskilinn er réttur til að gera nánari grein fyrir kröfunni síðar og koma að gögnum henni til frekari stuðnings á síðari stigum.“ Í skrá um lýstar kröfur á hendur varnaraðila, sem mun hafa verið lögð fram á kröfuhafafundi 17. mars 2010, hafnaði slitastjórn kröfu sóknaraðila og kom hann á framfæri mótmælum gegn þeirri afstöðu 16. sama mánaðar. Með því að ekki tókst að jafna ágreining um viðurkenningu kröfunnar beindi slitastjórn honum til héraðsdóms 17. janúar 2011 og var mál þetta þingfest af því tilefni 11. maí sama ár.
II
Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila reisir hann kröfu sína á því að nánar tilteknir menn, sem varnaraðili hafi borið ábyrgð á sem vinnuveitandi, hafi sýnt af sér saknæma háttsemi í tengslum við fyrrgreind kaup á stofnfjárbréfum í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis. Í því sambandi vísar sóknaraðili til þess að í áðurnefndu verðmati Capacent 23. maí 2007 hafi verið uppi „efasemdir um ágæti SPRON“ og gerðir fyrirvarar um „matsverð bankans“, en þetta mat hafi ekki verið birt almenningi fyrr en í desember 2009. Um verðmatið hafi viðsemjanda sóknaraðila á hinn bóginn verið kunnugt sem stjórnarformanni í sparisjóðnum þegar kaupin um stofnfjárbréfin voru gerð, þar á meðal „að verðmat Capacent stæðist ekki“, og hafi stjórnarformaðurinn þannig búið yfir „mikilvægum innherjaupplýsingum.“ Stjórn sparisjóðsins hafi verið skylt að sjá til þess að öll viðskipti stjórnenda með stofnfjárbréf yrðu tilkynnt regluverði, en viðsemjandi sóknaraðila hafi ekki sinnt þeirri skyldu við sölu á sínum bréfum, ekki hafi verið fyllt út eyðublað um sölu stofnfjárbréfa, viðskiptin hafi ekki verið færð í svonefnda samskiptaskrá regluvarðarins og hafi stjórnarformaðurinn ekki vikið af stjórnarfundi 9. ágúst 2007 þegar eigendaskipti að stofnfjárbréfum voru samþykkt. Verðbréfamiðlari, sem hafði milligöngu um viðskipti sóknaraðila, hafi viðurkennt fyrir dómi að sér hafi verið kunnugt um að viðsemjandinn væri stjórnarformaður sparisjóðsins, en hann hafi ekki látið regluvörð vita um þau. Þá hafi einn og sami regluvörður gegnt „sömu starfsskyldum gagnvart innherjum og verðbréfamiðlara“. Á þessu öllu hafi varnaraðili borið húsbóndaábyrgð.
Í kröfulýsingu sóknaraðila kom sem áður segir fram að krafan, sem mál þetta varðar, væri um „riftun og endurkröfu á greiðslu stofnbréfa í SPRON“. Sóknaraðili keypti ekki stofnfjárbréfin af Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis og gat hann því ekki beint kröfum um riftun kaupanna og endurgreiðslu kaupverðsins að varnaraðila. Án tillits til þess að kröfulýsing sóknaraðila fullnægði ekki ákvæðum lokamálsliðar 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 og þar hafi í engu verið greint frá því að höfð væri uppi krafa um skaðabætur úr hendi varnaraðila vegna saknæmrar háttsemi manna, sem hann bar ábyrgð á sem vinnuveitandi, verður að gæta að því að verðbréfamiðlarar, sem komu einn eða fleiri að kaupum sóknaraðila, voru samkvæmt gögnum málsins starfsmenn SPRON verðbréfa hf. en ekki Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Óumdeilt virðist vera í málinu að regluverði í þjónustu sparisjóðsins, sem mun einnig hafa sinnt því starfi fyrir SPRON verðbréf hf., hafi hvorki verið tilkynnt um viðskipti stjórnarformanns sparisjóðsins við sóknaraðila né af öðrum sökum kunnugt um þau. Ætluð háttsemi stjórnarformannsins, sem sóknaraðili telur varða skaðabótaskyldu samkvæmt áðursögðu, gæti í engu fallið undir þá ábyrgð, sem varnaraðili bar á gerðum stjórnarformannsins vegna rækslu starfa hans, en sala á stofnfjárbréfum hans var þeim störfum með öllu óviðkomandi. Þegar af þessum ástæðum verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest á þann hátt, sem í dómsorði greinir.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Hafnað er að viðurkenna kröfu að fjárhæð samtals 8.552.498 krónur, sem sóknaraðili, Magnús Björn Brynjólfsson, lýsti við slit varnaraðila, Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað skal vera óraskað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2012.
Mál þetta var fyrst tekið til úrskurðar 29. mars sl., en það var þingfest 11. maí 2011. Úrskurður var kveðinn upp í málinu 20. apríl 2012 og málinu þá vísað sjálfkrafa frá dómi. Með dómi Hæstaréttar frá 29. maí sl., var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Að lokinni endurtekinni aðalmeðferð málsins 14. september sl., var málið tekið til úrskurðar á ný.
Sóknaraðili er Magnús B. Brynjólfsson, Aflagranda 31, Reykjavík.
Varnaraðili er Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hf. í slitameðferð.
Endanlegar dómkröfur sóknaraðila eru þær að við slitameðferð varnaraðila verði skaðabótakrafa hans að fjárhæð 5.005.005 krónur viðurkennd sem almenn krafa, sbr. 113. gr. laga nr. 21/1991, ,,auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 26.07.2007 til 16.09.2009, en þá með dráttarvöxtum af sömu fjárhæð skv. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags“. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar sér að skaðlausu að mati dómsins.
Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila, sem lýst var við slitameðferð varnaraðila, verði hafnað. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati dómsins.
Málsatvik
Á stjórnarfundi 17. júlí 2007 tók stjórn SPRON þá ákvörðun að leita eftir samþykki stofnfjáreigenda fyrir því að SPRON yrði breytt í hlutafélag og skráð í OMX Norrænu kauphöllina Íslandi. Samhliða því var kynnt verðmat Capacent á markaðsvirði SPRON miðað við 31. mars 2007. Niðurstaða verðmats Capacent, sem var unnið í tengslum við hlutafjárvæðingu SPRON samkvæmt þágildandi 74. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, var kynnt á heimasíðu SPRON 17. júlí 2007. Var markaðsvirði SPRON metið á 59,4 milljarða króna miðað við 31. mars 2007 og var eignarhlutur stofnfjáreigenda 85% af markaðsvirðinu eða um 50,5 milljarðar króna. Útgefið stofnfé í SPRON var upphaflega að fjárhæð um 9,5 milljarðar króna að nafnverði eða 19,4 milljarðar króna samkvæmt framreiknuðu virði þess í árslok 2006.
Ákveðið var að lokað yrði fyrir viðskipti með stofnfjárbréf 7. ágúst 2007. Fundur stofnfjáreigenda í SPRON var haldinn 21. ágúst 2007 og var þar samþykkt tillaga stjórnar um að breyta SPRON í hlutafélag. Var hlutafélagið SPRON skráð í Kauphöll Íslands 23. október 2007.
Sóknaraðili keypti stofnfjárbréf í SPRON, hjá SPRON verðbréfum hf. 25. júlí 2007 á grundvelli tilboðs síns á genginu 5,05. Sóknaraðili komst að því síðar að seljandi þeirra var stjórnarformaður SPRON, Hildur Petersen.
Hinn 21. mars 2009 vék Fjármálaeftirlitið stjórn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. frá og skipaði skilanefnd yfir sparisjóðnum. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júní 2009 var SPRON skipuð slitastjórn samkvæmt 101. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Innköllun vegna slitameðferðar SPRON birtist fyrra sinni í Lögbirtingablaðinu 22. júlí 2009 og lýsti sóknaraðili kröfu sinni innan kröfulýsingarfrests. Kröfunni var lýst sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 á þann veg að krafan væri ,,skv. riftun og endurkröfu á greiðslu stofnbréfa í SPRON, en þau kaup áttu sér stað þann 26.07.2007“. Slitastjórn hafnaði kröfu sóknaraðila og ekki tókst að jafna ágreining um afstöðu slitastjórnar til kröfunnar á fundi 13. janúar 2011. Ágreiningi um afstöðu slitastjórnar var þá vísað til dómsins samkvæmt 171. gr. laga nr. 21/1991.
Sóknaraðili byggir kröfu sína á því að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna þess að stjórnarformaður varnaraðila hafi við sölu til sóknaraðila búið yfir upplýsingum um verðmæti SPRON sem sóknaraðili hafi ekki haft. Tjónið verði rakið til meintrar saknæmrar háttsemi af hálfu stjórnarformannsins, stjórnar varnaraðila og starfsmanna varnaraðila.
Fyrir dóminn komu og gáfu skýrslur Hildur Petersen, Lárus Ari Knútsson, Vilhjálmur Bjarnason, Lárus Andri Jónsson, Sigurpáll Grímsson og Kristjana Geirmundsdóttir.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili telur að Hildur Petersen, stjórnarformaður SPRON, og stjórn SPRON hafi búið yfir upplýsingum um erfiða fjárhagslega stöðu sparisjóðsins sem gerðu það að verkum að stjórnarformaðurinn misnotaði aðstöðu sína, sem æðsti yfirmaður bankans, af ásetningi eða gáleysi. Hún hafi selt sóknaraðila stofnfjárbréf með atbeina stjórnar og annarra starfsmanna, sem hún hafi vitað að voru metin allt of háu verði. Innherjasvik hafi falist í því að þegja yfir því að stjórnarformaðurinn seldi bréf sín á sama tíma og stjórn varnaraðila talaði fyrir hlutafjárvæðingu SPRON. Það að fjórir af fimm stjórnarmönnum, auk forstjóra og eiginkonu hans, hafi selt stofnfjárbréf sín bendi til þess að þau hafi haft vantrú á starfsemi SPRON.
Samkvæmt reglum SPRON frá 11. desember 2003 teljist innherjaupplýsingar vera upplýsingar um útgefanda fjármálagerninga, fjármálagerninginn sjálfan eða önnur atriði, sem ekki hafi verið gerð opinber, en séu líkleg til þess að hafa áhrif á markaðsverð fjármálagernings, ef opinber væru. Verðmat Capacent, forsendur þess og innihald séu mjög mikilvægar innherjaupplýsingar um blekkingar gagnvart grandlausum viðskiptavinum. Þótt matsverð SPRON upp á 59,4 milljarða hafi verið birt 17. eða 18. júlí 2007, segi það væntanlegum fjárfestum ekki neitt. Skýrsla Capacent hafi verið gerð til að blekkja almenning og væntanlega kaupendur. Ef hún hefði fengið umfjöllun sérfræðinga hefði markaðsverð bankans hrunið og einnig gangverð stofnfjárbréfa. Fjárhagsstaða sparisjóðsins og umræður um hana eða framtíðarfyrirætlanir SPRON á stjórnarfundum teljist einnig innherjaupplýsingar.
Sóknaraðili bendir á að Fjármálaeftirlitið hafi beint þeim tilmælum til SPRON og sparisjóða að eiginfjárkrafa væri ekki minni en 12%, en á fyrsta ársfjórðungi 2007 hafi eiginfjárstaða verið 7,9% og því langt undir tilmælum Fjármálaeftirlitsins. Til að laga stöðuna hafi verið tekið víkjandi lán upp á 3,9% þannig að staða eiginfjár hafi orðið 11,8%, sem þó hafi verið undir 12% markinu. Gífurlegar eignir SPRON í Exista hafi ekki átt við rök að styðjast, þar sem meint markaðsmisnotkun Kaupþings hf. á eigin bréfum hafi leitt til verulegrar hækkunar á verðbréfum í Exista. Allur hagnaður í SPRON hafi því legið í bréfum í Exista, sem hafi verið ímynduð en ekki raunveruleg verðmæti.
Fjárhagsstaða SPRON hafi verið afar slæm og um það hafi stjórnarformaður SPRON, ásamt stjórnarmönnum og sparisjóðsstjóra haft vitneskju. Stjórn varnaraðila hafi notfært sér innherjaupplýsingar, beint villandi upplýsingum til væntanlegra kaupenda og það hefði skapað aðstöðumun gagnvart sóknaraðila.
Sóknaraðili telur að allt ferli SPRON til skráningar í Kauphöll hafi verið skipulögð fjársvik og varði við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þá bendir sóknaraðili á að stjórnarformaður varnaraðila hafi verið fruminnherji.
Sóknaraðili kveður stjórnarformanninn, Hildi Petersen, hafa brotið reglur SPRON um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja frá 11. desember 2003. Þannig hafi hún brotið gegn 5. gr. reglnanna, um viðskipti innherja. Hún, ásamt stjórn varnaraðila, hafi átt að sinna rannsóknarskyldu sinni samkvæmt reglu nr. 5.4 og hefði formaður stjórnar átt að sinna tilkynningarskyldu sinni til regluvarðar. Það hafi hún ekki gert og regluvörður hafi ekki heldur gengið eftir því. Regluvörður hafi framið saknæmt atferli í starfi og því beri varnaraðili húsbónda- eða vinnuveitandaábyrgð á athafnaleysi regluvarðarins. Stjórnarformaður hafi haft sérstaka stöðu og skyldu sem slíkur til þess, sem æðsti yfirmaður sparisjóðsins, að sjá til þess að reglur þessar væru ekki brotnar og að regluvörður færi að settum reglum félagsins.
Sóknaraðili telur að stjórnarformaðurinn hafi nýtt sér upplýsingar sem hún hafi fengið sem slíkur, með óheiðarlegum og saknæmum hætti, sjálfri sér til hagsbóta en til tjóns fyrir sóknaraðila. Sóknaraðili tapaði öllu sínu stofnfé í hendur stjórnarformannsins, sem hefði ekki mátt eiga viðskipti með stofnfjárbréf sem fruminnherji. Stjórn og formaður hafi sniðgengið regluvörðinn og farið fram hjá öllu regluverki SPRON. Viðskiptin hafi verið heimildarlaus og því skaðabótaskyld. Sparisjóðurinn hafi verið rekinn með stórfelldu tapi og enginn hafi betur gert sér grein fyrir því en stjórnin. Sóknaraðili telur að SPRON hafi staðið á brauðfótum á þessum tíma. Ef félagið hefði ekki verið gert að hlutafélagi hefði það farið beint í gjaldþrot, þar sem allar eignir þess hafi verið meira og minna veðsettar.
Varnaraðili beri alla sönnunarbyrði fyrir því að SPRON hafi staðið vel 26. júlí 2007. Verði ekki færðar á það sönnur, teljist hluti stjórnarinnar hafa verið að misnota sér innherjaupplýsingar um stöðu SPRON til að selja hluta af stofnfjárbréfum sínum. Hér sé því um sök að ræða sem leiði til skaðabótaskyldu. Stjórnarformanni hafi borið skylda til að tilkynna sölutilraunir sínar og sölu sína til regluvarðar SPRON verðbréfa hf. og síðan til Kauphallar Íslands hf. samkvæmt 13. gr., 17. gr., 22. gr. og 24. gr. eftirlits- og starfsreglna SPRON verðbréfa hf. frá 3. nóvember 2006. Varnaraðili, stjórnin, beri sök þar sem hún hafi brotið reglur SPRON og 54. og 55. gr. laga nr. 161/2002 auk 58. og 59. gr., sem mæla fyrir um að fjármálafyrirtæki sé óheimilt að hafa milligöngu um verðbréfaviðskipti, hafi starfsmenn þess vitneskju eða grun um að viðskiptin brjóti í bága við ákvæði um innherjaviðskipti. Húsbóndaábyrgðin gildi í þessu tilviki varðandi regluvörðinn.
Þá bendir sóknaraðili á að stjórnin hafi brotið eftirlits- og starfsreglur SPRON frá 31. janúar 2007. Stjórnin hafi brotið 1. gr. umræddra reglna sem kveði á um að SPRON og stjórnin skyldu gæta ítrustu óhlutdrægni gagnvart viðskiptamönnum sínum, einkum í verðbréfaviðskiptum. Samkvæmt 2. gr. sömu reglna hafi stjórnarmenn varnaraðila átt að undirrita yfirlýsingu þar sem fram kæmi að þeir hefðu kynnt sér reglurnar og skuldbundið sig til að lúta þeim. Það hafi þeir ekki gert. Sérstaklega er bent á 3. mgr. 5. gr. umræddra reglna, er kveði á um að fái SPRON beiðni um sölu verðbréfa fyrir eigin reikning geti stjórnendur ekki átt viðskipti fyrir eign hönd með viðkomandi verðbréf, fyrr en eftir að þessi viðskipti hafi átt sér stað. Þá bendir sóknaraðili á 6. gr. og 7. gr. sömu reglna, þar sem segi að starfsmönnum sé óheimilt að eiga verðbréfaviðskipti án fyrir fram skriflegrar heimildar regluvarðar SPRON. Stjórnarformaður falli undir þá skilgreiningu enda hafi hún verið með mikla viðveru og eftirlitsskyldu, auk þess hafi hún verið vel launuð sem formaður stjórnar. Ekki verði annað séð en að stjórnin hafi farið þvert gegn umræddum reglum frá 31. janúar 2007, og brotið þær reglur sem hún sjálf hafi sett sér.
Sóknaraðili vekur sérstaka athygli á 17. gr. framangreindra reglna, þar sem segi m.a., að annist SPRON sölu á verðbréfum fyrir stjórnarmenn skuli afgreiðsla vera eins og um almennan viðskiptamann sé að ræða. Í 22. gr. sömu reglna segi frá hlutverki regluvarðar SPRON og sérstaklega sé hnykkt á því að starfsmaður beri sjálfur ábyrgð á viðskiptum sínum, þótt hann hafi fengið leyfi regluvarðar, t.d. ef í ljós komi að hann hafi búið yfir trúnaðarupplýsingum. Sóknaraðili vísar til þessa ákvæðis varðandi ábyrgð stjórnar.
Það að regluvörður hafi verið sniðgenginn dragi ekki úr ábyrgð hans í því starfi. Og þótt formaður stjórnar hafi hvorki sótt um né fengið leyfi regluvarðar, hniki það í engu sök regluvarðar né ábyrgð varnaraðila sem vinnuveitanda. Regluvörður hafi í engu fylgt 22. gr. ofangreindra reglna. Samkvæmt 7. gr. reglna frá 31. janúar 2007 hafi stjórnarformanni verið óheimilt að eiga viðskipti með verðbréf nema með fyrir fram skriflegri heimild regluvarðar og ef viðskiptin færu ekki fram þann dag, skyldi afla nýrrar heimildar.
Sóknaraðili byggir einnig á hlutlægri reglu 25. gr. ofangreindra reglna, sem segi að viðskipti sem brjóti í bága við reglur þessar skuli ganga til baka. Þess vegna beri varnaraðili skaðabótaskyldu gagnvart sóknaraðila.
Sóknaraðili bendir enn fremur á að varnaraðili hafi brotið reglur SPRON um framkvæmd starfa stjórnar og sparisjóðsstjóra frá 9. ágúst 2007, sem tekið hafi gildi 1. mars 2007, og 54. gr. og 55. gr. laga nr. 161/2002, sem kveði á um verkaskiptingu og heimildir stjórna í samþykktum fjármálafyrirtækja.
Sóknaraðili telur að stjórnarmenn varnaraðila hafi brotið 3. gr. framangreindra reglna. Samkvæmt 14. gr. sömu reglna hafi stjórnarformaður og stjórn átt að hafa aðgang að öllum gögnum sparisjóðsins til að geta sinnt stjórnunar- og eftirlitsskyldu sinni. Samkvæmt 15. gr. sömu reglna hafi sparisjóðurinn átt að setja viðmið um hverjir gætu talist innherjar í sparisjóðnum. Á grundvelli þeirra viðmiða hafi regluvörður átt að útbúa innherjalista. Stjórnarformaðurinn hefði átt að vera á þeim lista. Engar upplýsingar liggi hins vegar fyrir um það. Nú hafi það verið staðfest í vitnamáli V-11/2011 að engin verðbréfaviðskipti stjórnarformannsins hafi verið tilkynnt regluverði. Varnaraðila hafi verið skylt að sjá til þess að öll verðbréfaviðskipti stjórnenda og starfsmanna væru tilkynnt til regluvarðar, Páls Árnasonar, en það hafi ekki verið gert. Varnaraðili beri sök á því samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttarins og sé þar af leiðandi skaðabótaskyldur.
Stjórnarformaður varnaraðila hafi ekki uppfyllt hæfisskilyrði 21. gr. og 22. gr. reglna frá 9. ágúst 2007, þar sem hún hafi misnotað aðstöðu sína sem stjórnarformaður í eigin þágu. Hún hafi ekki vikið sæti á stjórnarfundi 9. ágúst 2007, er viðskipti hennar og sóknaraðila hafi verið til meðferðar á stjórnafundi. Þannig hafi hún og varnaraðili brotið 22. gr. reglna frá 9. ágúst 2007. Samþykki stjórnarinnar sé því ógilt og að engu hafandi.
Þá kveður sóknaraðili að varnaraðili hafi brotið eftirlits- og starfsskyldur SPRON verðbréfa hf., þar sem stjórnarformaður varnaraðila hafi brotið ,,Kínamúra“ samkvæmt 4. gr. reglna frá 3. nóvember 2006. Tölvuskeyti Lárusar Ara Knútssonar frá 24. júlí 2007 og 26. júlí 2007, sýni að stjórnarformaðurinn hafi sniðgengið regluvörðinn og misnotað stöðu sína gagnvart starfsmanni SPRON verðbréfa, Lárusi Ara. Hún hafi gengið eftir upplýsingum að eigin hentisemi hjá fyrrnefndum Lárusi Ara. Hún hafi síðan sótt innherjaupplýsingar inn í stjórnina og svo selt 28% af stofnfjárbréfum sínum fyrir 7. ágúst 2007.
Sóknaraðili telur 5. gr. reglna frá 3. nóvember 2006 hafa verið þverbrotna, þar sem segi að stjórnendur geti ekki átt viðskipti fyrir eigin hönd með viðkomandi verðbréf fyrr en viðskipti félagsins hafi átt sér stað. Skylt hafi verið að tilkynna regluverði um óskir viðskiptavina. Sóknaraðili hafi enga vitneskju haft um það við hvern hann átti viðskipti. Stjórnarformaðurinn hafi stýrt miðlaranum, Lárusi Ara, til þess að koma á viðskiptunum með sín stofnbréf við sóknaraðila. Miðlarinn og stjórnarformaðurinn hafi vísvitandi brotið gegn sóknaraðila, með því að miðlarinn hafi látið hjá líða að tilkynna honum um að seljandi væri stjórnarformaður SPRON. Þá hafi miðlarinn og Lárus látið hjá líða að tilkynna regluverði SPRON um viðskiptin.
Regluvörður varnaraðila, miðlarinn og stjórnarformaðurinn hafi jafnframt vanrækt þá skyldu að fylla út sérstakt eyðublað um framsal stofnfjárbréfa, sbr. 6. og 7. gr. reglna frá 3. nóvember 2006. Varnaraðili og SPRON verðbréf hf. séu sameiginlega ábyrg og skaðabótaskyld fyrir tjóni sóknaraðila. Húsbóndaábyrgð SPRON verðbréfa sé einnig fyrir hendi vegna saknæmra athafna Lárusar Ara Knútssonar.
Reglur dótturfélagsins hljóti að koma hér til skoðunar varðandi atferli stjórnarformanns varnaraðila, en samkvæmt 17. gr. eftirlits- og starfsreglna SPRON verðbréfa hf., frá 3. nóvember 2006, hafi innherjareglur félagsins gilt um innherjaviðskipti og upplýsingaskyldu gagnvart Kauphöll Íslands hf.
Regluvörður, Páll Árnason, er sinnt hafi SPRON, hafi einnig verið regluvörður SPRON verðbréfa hf. Stjórnarformaðurinn hafi sniðgengið regluvörðinn samkvæmt ákvæðum 22. gr. fyrrnefndra reglna.
Líta verði á stjórnarformanninn sem opinbera persónu í mjög ábyrgðarfullu hlutverki sem stjórnarformaður varnaraðila, sem einnig hafi verið eigandi dótturfélagsins og haft alla þræði í hendi sér.
Þá kveður sóknaraðili að varnaraðili hafi brotið reglur um viðskipti á stofnfjármarkaði SPRON, sem samþykktar hafi verið árið 2004 af stjórn félagsins. Þannig hafi 4. gr. reglnanna verið brotin með því að umsjón og hýsing stofnfjármarkaðar SPRON hafi verið í höndum aðila, sem hafi verið í nánum tengslum við SPRON í skilningi 18. gr. laga nr. 161/2002. Ekki hafi verið farið að 6. gr. nefndra reglna, þar sem kaupandi hafi ekki lagt fram skriflega umsókn vegna kaupa til stjórnar SPRON. Ekki hafi legið fyrir beiðni á sérstökum eyðublöðum, sem SPRON hafi lagt til, um sölu á stofnfjárbréfum samkvæmt 8. gr. reglnanna. Þar sem reglur þessar hafi verið brotnar séu viðskiptin ekki gild.
Samkvæmt 13. gr. reglnanna skyldi birta á vef SPRON allar opinberar tilkynningar sem SPRON sendi Kauphöll Íslands sem og allar aðrar upplýsingar sem stjórnin hafi talið að gætu haft áhrif á verð stofnfjárbréfanna. Upplýst hafi verið í vitnamáli að viðskipti stjórnarformannsins hafi verið skráð í Kauphöllina. Stjórninni hafi verið skylt að gera þessar upplýsingar opinberar. Sala stjórnarformannsins á stofnbréfum sínum hljóti að teljast til upplýsinga sem áhrif hafi á markaðinn.
Sóknaraðili heldur því fram að sala stjórnarformannsins hafi fallið undir innherjaupplýsingar, þar sem ljóst hafi verið að nánustu samstarfsmenn og trúnaðarmenn hafi farið að selja stofnfjárbréf sín með leynd. Stjórnarmenn hafi greinilega ekki haft trú á því sem þeir hafi talað opinberlega fyrir.
Sóknaraðili kveður huglægan þátt málsins mikilvægan. Stjórnarformaður varnaraðila og varnaraðili hafi ýmist af ásetningi eða gáleysi gerst sek um blekkingar gagnvart sóknaraðila með því að nota sér bankaleynd og með því að þverbrjóta reglur SPRON. Varnaraðili hafi tekið þátt í því með stjórnarformanninum að brjóta allt regluverk SPRON.
Sóknaraðili kveður að ef hann hefði haft vitneskju um að stjórnarformaður varnaraðila stæði á bak við umrædda sölu, hefði ekki orðið af kaupum hans. Varnaraðili hafi gerst sekur um markaðsmisnotkun. Þess vegna hafi það verið ámælisvert af stjórnarformanninum að selja stofnfjárbréf sín á sama tíma og keppst var við að gera sparisjóðinn að hlutafélagi, þar sem vænta mátti að hlutabréf yrðu hærra metin en stofnfjárbréf og gengju kaupum og sölum á frjálsum markaði. Varnaraðili hafi stuðlað að broti stjórnarformannsins á 30. gr. samningalaga, með þátttöku sinni og þögn. Stjórnarformaðurinn og varnaraðili hafi þagað sviksamlega yfir atvikum sem skipt hafi máli, sbr. og 36. gr. samningalaga. Þessar málsástæður leiði til skaðabótaskyldu varnaraðila.
Þá telur sóknaraðili að verulegur aðstöðumunur hans og stjórnarformannsins til að afla upplýsinga um framtíðarverðmæti stofnfjárbréfa sé augljós. Stjórnarformaðurinn hefði ekki selt bréfin nema söluverðið hefði verið mun hagstæðara en framtíðarvæntingar hennar. Það hefði aldrei hvarflað að sóknaraðila að eiga viðskipti við stjórnarformann SPRON ef hann hefði vitað að stjórnarformaðurinn sjálfur væri eigandi bréfanna. Rík skylda hefði hvílt á stjórnarformanninum og öðrum stjórnarmönnum varnaraðila að upplýsa um eignarhald sitt á bréfum við þessar aðstæður.
Matsskýrsla Capacent hafi gefið stjórnarmönnum varnaraðila og stjórnarformanninum forskot á alla aðra viðskiptamenn. Það forskot hafi stjórnarformaðurinn nýtt sér. Það hafi ekki verið fyrr en 2. september 2009, sem sóknaraðili hafi vitað hver hinn raunverulegi seljandi stofnfjárbréfanna hafi verið.
Sóknaraðili byggir heimild sína til skaðabóta á því að stjórnarformaður varnaraðila hafi notfært sér aðstöðu sína sem fruminnherji og að varnaraðili hafi ekkert aðhafst til að stöðva hið löglausa athæfi stjórnarformannsins. Um það vísist til almennra reglna samninga- og kröfuréttar og reglna um brostnar forsendur samkvæmt 18. gr., 19. gr. og 1. mgr. 39. gr. lausafjárkaupalaga nr. 50/2000.
Stofnfjárbréfin hafi verið haldin galla, sem réttlæti kröfu sóknaraðila um skaðabætur á grundvelli laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Skaðabótakrafa byggist einnig á 30. gr. samningalaga nr. 7/1936.
Sóknaraðili hafi tilkynnt varnaraðila um riftun bréfanna samkvæmt 32. gr. laga nr. 50/2000, þar sem stofnfjárbréfin hafi verið haldin galla og galli sé metinn til verulegra vanefnda. Gallinn felist aðallega í því að verðmæti bréfanna hafi verið allt annað og verulega lægra en söluverð þeirra. Gengi stofnfjárbréfa í SPRON hafi verið verulega ofmetið á þeim tíma er stjórnarformaðurinn hafi selt bréfin og varnaraðili hafi búið yfir innherjaupplýsingum varðandi það. Capacent matsskýrslan segi í sjálfu sér ekki nægilega mikið um stöðu SPRON á þeim tíma er hún hafi verið afhent varnaraðila. Ef skýrsla Capacent hefði verið krufin til mergjar af sérfræðingum á þeim tíma er hún var gerð, hefði verið ljóst að sölugengi stofnfjárbréfa hafi verið stórlega ofmetið.
Sóknaraðili byggir kröfu sína um skaðabætur úr hendi varnaraðila á því að hann hafi beðið tjón vegna galla á söluhlut samkvæmt 1. mgr. og 3. mgr. 40. gr. kaupalaga, þar sem tjónið hafi mátt rekja til vanrækslu stjórnarformannsins og varnaraðila og þess að stofnfjárbréfin hafi verið verulega gölluð.
Þá bendir sóknaraðili á ákvæði 67. gr. lausafjárkaupalaga varðandi umfang skaðabóta og 71. gr. sömu laga um vexti, þegar vangoldin fjárhæð er ekki greidd á réttum tíma.
Sóknaraðili telur að sala stofnfjárbréfanna sé ógild og skaðabótaskyld vegna óheiðarleika stjórnarformannsins samkvæmt 30. og 33. gr. samningalaga nr. 7/1936, þar sem ákveðin atvik hafi verið fyrir hendi, sem gert hafi samninginn ógildan. Ef sóknaraðili hefði fengið vitneskju um það hver hafi verið seljandi stofnfjárbréfa á sínum tíma, hefði aldrei komið til viðskipta af hans hálfu við stjórnarformanninn sjálfan. Þá hefði ekki heldur komið til þessara viðskipta ef sóknaraðili hefði haft aðgang að og vitneskju um innihald matsskýrslu Capacent, en varnaraðili hafi neitað um aðgang að þeirri skýrslu á opinberum fundi.
Sóknaraðili vísar einnig til 36. gr. samningalaga, sem heimili að víkja samningi til hliðar í heild, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Sóknaraðili bendir sérstaklega á 2. mgr. 36. gr. samningalaga.
Þá telur sóknaraðili að líta beri til fjársvikaákvæðis 30. gr. samningalaga. Sóknaraðili bendir á að stjórnarformaður varnaraðila hafi skýrt sviksamlega frá eða þagað sviksamlega yfir atvikum sem ætla mátti að skiptu máli fyrir löggerninginn. Varnaraðili hafi setið aðgerðarlaus hjá og ekki farið að eigin regluverki um innherja og þannig heimilað athafnir stjórnarformannsins. Hér sé enn vísað til innherjastöðu stjórnarformannsins.
Jafnframt byggir sóknaraðili á ákvæðum 67. gr., 72. gr. og 76. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Lögjafna megi um það að þessar reglur gildi einnig um sparisjóði, þar sem um eðlislíka starfsemi sé að ræða. Í 2. mgr. 67. gr. hlutafélagalaga segi að stjórnarmenn megi ekki misnota aðstöðu sína í viðskiptum með hluti í félaginu eða í félögum innan sömu samstæðu. Samkvæmt 72. gr. sömu laga megi stjórnarmaður ekki taka þátt í meðferð máls um samningsgerð milli félagsins og þeirra.
Stjórnarformaður hafi með skipulegum hætti, ýmist af ráðnum hug eða gáleysi, misnotað aðstöðu sína í viðskiptum með stofnfjárbréf í félaginu, eða félaginu SPRON verðbréf hf., innan sömu samstæðu, þar sem hún hafi verið æðsti yfirmaður samstæðunnar.
Tjón sóknaraðila sé sennileg afleiðing af hinni bótaskyldu háttsemi varnaraðila. Bein orsakatengsl séu milli háttsemi varnaraðila og tjónsins. Stjórnarformaður varnaraðila hafi skert lögvarða hagsmuni sóknaraðila með háttsemi sinni, með því að fara með leynd og blekkja sóknaraðila til viðskipta með sviksamlegum hætti. Hlutverk varnaraðila hafi verið að sjá til þess að reglur SPRON væru virtar. Það hafi varnaraðili ekki gert, heldur tekið þátt í hinu ólögmæta og saknæma atferli stjórnarformannsins, með því ýmist að samþykkja gjörðir hennar eða með algeru athafnaleysi.
Sóknaraðili kveður að tjónið hefði ekki orðið, ef stjórnarformaður varnaraðila hefði komið heiðarlega fram og upplýst sóknaraðila um stöðu sína og fyrirætlan áður en kaupin hafi verið gerð. Allar eftirlits- og starfsreglur varnaraðila, sem og lög nr. 33/2003, reglugerð nr. 630/2005, ákvæði kaupalaga nr. 50/2000 og ákvæði samningalaga nr. 7/1936 hafi verið brotin. Stjórnarformaður varnaraðila og varnaraðili sjálfur hafi valdið sóknaraðila tjóni sem nemi 5.005.005 krónum. Sóknaraðili kveður öll skilyrði bótaskyldu uppfyllt. Orsakasamband sé milli athafna stjórnarformannsins og varnaraðila sem leitt hafi til tjóns sóknaraðila, sem sé m.a. afleiðing af athöfnum eða athafnaleysi varnaraðila. Varnaraðili beri einnig húsbóndaábyrgð á regluverði SPRON sem hafi ekki farið að þeim reglum sem varnaraðili hafi sjálfur sett sér.
Sóknaraðili kveður vaxtakröfu sína taka mið af þeim tíma er kaupin hafi átt sér stað 26. júlí 2007 og sé krafist vaxta frá þeim tíma til 15. september 2009, en þá hafi verið krafist riftunar og endurgreiðslu samkvæmt bréfi stefnanda.
Um lagarök vísar sóknaraðili til 54., 55., 62. og 64. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, til 18., 19., 27. og 30.-40. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, til 30., 33. og 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 og til almennra reglna kröfuréttarins, til 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og til laga nr. 34/1998 um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða. Þá vísar sóknaraðili til 6., 14., 15., 56., 58., 59., 60., 61., 63., 64., gr. laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti.
Þá vísar sóknaraðili til reglna SPRON, sem dagsettar eru 11. desember 2003, 1. mars 2007, 31. janúar 2007, 2. nóvember 2006 og árið 2004.
Sóknaraðili vísar til almennu skaðabótareglunnar varðandi sök varnaraðila og regluvarðar. Þá vísar hann til reglunnar um vinnuveitandaábyrgð varnaraðila gagnvart regluverði og Lárusi Ara Knútssyni.
Sóknaraðili bendir einnig á reglugerð nr. 630/2005 um innherjaupplýsingar og markaðssvik. Einnig bendir hann á gildi reglugerðar nr. 994/2007 um innleiðingu reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1287/2006 frá 10. ágúst 2006 um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og -ráðins 2004/39/EB.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili bendir á að fáir, ef nokkrir, hafi í júlí 2007 séð fram á það efnahagshrun sem riðið hafi yfir Ísland í október 2008. Afleiðingar þess hafi valdið mörgum tjóni, bæði einstaklingum og lögaðilum, án þess þó að það tjón verði rakið til saknæmrar háttsemi varnaraðila. Varnaraðili bendir á, að á árinu 2007 hafi fjárhagsupplýsingar um rekstur SPRON bent til þess að rekstur félagsins væri í góðu horfi. Samkvæmt ársuppgjöri 2006 hafi hagnaður SPRON samstæðunnar numið 9 milljörðum eftir skatta það ár. Árangurinn hafi verið sá langbesti frá upphafi. Í lok apríl 2007 hafi stofnfjáreigendum verið greiddur arður vegna fyrrgreinds hagnaðar.
Samkvæmt árshlutauppgjöri fyrstu þrjá mánuði ársins 2007 hafi hagnaður SPRON samstæðunnar numið tæpum 5 milljörðum króna eftir skatta og hafi afkoman verið sú næstbesta í 75 ára sögu SPRON. Samkvæmt árshlutauppgjöri fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2007 hafi hagnaður SPRON samstæðunnar numið liðlega 10 milljörðum króna eftir skatta og hafi hagnaðurinn verið meiri en áður hafi sést. Þá bendir varnaraðili á að samkvæmt ársuppgjöri 2007 hafi hagnaður SPRON hf. numið 3,3 milljörðum króna, en það hafi talist viðunandi miðað við þá miklu lækkun sem orðið hefði á hlutabréfamörkuðum mánuðina á undan. Í lok maí 2008 hafi stofnfjáreigendum verið greiddur arður vegna fyrrgreinds hagnaðar.
Þannig hafi fátt bent til þeirrar miklu lækkunar sem orðið hafi á mörkuðum á þeim tíma sem sóknaraðili hafi keypt umrædd stofnfjárbréf. Þvert á móti hafi flestir búist við umtalsverðri hækkun á gengi stofnfjárbréfa þegar SPRON yrði skráð á skipulagðan verðbréfamarkað í samræmi við aukna velgengni SPRON árin á undan.
Kröfu sóknaraðila sé beint að varnaraðila vegna fjögurra aðila, þ.e. Hildar Petersen, fyrrverandi stjórnarformanns SPRON, Páls Árnasonar, fyrrverandi regluvarðar SPRON og SPRON verðbréfa hf., Lárusar Ara Knútssonar, miðlara hjá SPRON verðbréfum hf., og loks að SPRON. Af greinargerð sóknaraðila verði ekki alltaf ráðið hvaða kröfum er beint að hverjum ofangreindra aðila.
Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og bendir á að öll skilyrði sakarreglunnar þurfi að vera uppfyllt til þess að á varnaraðila verði lögð skaðabótaábyrgð vegna meints tjóns sóknaraðila. Grundvallarskilyrði slíkrar ábyrgðar sé að tjóni sé valdið með saknæmum hætti og að orsakatengsl séu milli háttsemi og þess tjóns sem bóta er krafist fyrir, auk þess sem tjónið þarf að vera sennileg afleiðing hinnar saknæmu háttsemi. Þá megi sérstakar ábyrgðarleysisástæður, s.s. samþykki eða áhættutaka, ekki vera fyrir hendi, en varnaraðili hafnar því að framangreind skilyrði séu fyrir hendi.
Varnaraðili bendir á að fyrir liggi að sóknaraðili hafi keypt stofnfjárbréf í SPRON í júlí 2007. Um 15 mánuðum seinna, eða í október 2008, hafi viðskiptabankarnir þrír verið yfirteknir af Fjármálaeftirlitinu. Það hafi síðan verið 19 mánuðum eftir kaup sóknaraðila á stofnfjárbréfum, eða í mars 2009, sem FME hafi skipað SPRON skilanefnd. Varnaraðili byggir á því að ekkert orsakasamband sé milli kaupa sóknaraðila á stofnfjárbréfum í júní 2007 og efnahagshrunsins, sem leitt hafi til falls SPRON og þess að hlutabréf í SPRON urðu verðlaus. Sönnunarbyrði um þetta aðalatriði málsins hvíli á sóknaraðila, en hann hafi ekki sýnt fram á að nokkurt orsakasamband sé milli meintrar saknæmrar háttsemi varnaraðila í júlí 2007 og þess tjóns sem hann telji sig hafa orðið fyrir. Sóknaraðili hafi ekki heldur sýnt fram á að meint saknæm háttsemi varnaraðila í júlí 2007 hafi leitt til þess að hlutabréf í SPRON hafi á árinu 2009 orðið verðlaus vegna falls SPRON. Ekki liggi fyrir í gögnum málsins og sóknaraðili hafi ekki gert líklegt að varnaraðili hafi séð fyrir að bankakerfið á Íslandi myndi hrynja með þeim afleiðingum að FME tæki yfir vald hluthafafundar SPRON, sem síðar hafi leitt til slitameðferðar varnaraðila. Þvert á móti hafi framtíðarspár verið góðar, hagnaður SPRON hafi aldrei verið meiri, Capacent hafi metið markaðsvirði SPRON á tæpa 60 milljarða króna miðað við 31. mars 2007 og búist hafi verið við áframhaldandi hækkun á gengi bréfanna eftir skráningu í SPRON í Kauphöllina.
Grundvallarskilyrðum skaðabótaábyrgðar um orsakatengsl og sennilega afleiðingu sé því ekki fullnægt.
Sóknaraðili hafi leitað til SPRON verðbréfa hf. að eigin frumkvæði í júlí 2007 og lagt fram tilboð um kaup á stofnfjárbréfum í SPRON. Tilviljun hafi ráðið því að kauptilboð sóknaraðila hafi parast við sölutilboð stjórnarformanns SPRON, en ekki sölutilboð annars stofnfjáreiganda. Fram hjá því verði ekki litið að sóknaraðili hefði orðið fyrir nákvæmlega sama tjóni ef mótaðili viðskiptanna hefði verið annar stofnfjáreigandi. Aðrir stofnfjáreigendur, síðar hluthafar í SPRON, hafi orðið fyrir sama ,,tjóni“ og sóknaraðili, sem verði aðeins rakið til efnahagshrunsins haustið 2008. Það megi því fullyrða að háttsemi varnaraðila, fyrrverandi stjórnarformanns SPRON, stjórnar SPRON, regluvarðar SPRON og verðbréfamiðlara SPRON verðbréfa hf., hafi ekki verið orsök tjóns sóknaraðila á nokkurn hátt, heldur hafi aðstæður á mörkuðum, bæði hérlendis og erlendis leitt til tjóns sóknaraðila, sem og annarra fjárfesta á Íslandi haustið 2008.
Kaupendur viðskiptabréfa taki almennt ákvörðun um tilboðsgerð út frá eigin forsendum, en ekki því hver er mótaðili viðskiptanna. Slíkar upplýsingar séu auk þess sjaldan eða aldrei gefnar upp í samræmi við eðli viðskiptanna og það regluverk sem um viðskiptin gildi. Varnaraðili hafnar því sem röngu að einhverjum þeim aðila sem viðskiptunum tengdust hafi borið að lögum að upplýsa sóknaraðila um hvaða sölutilboð hafi parast á móti kauptilboði sóknaraðila. Þá er því mótmælt sem ósönnuðu að það hafi skipt sóknaraðila nokkru máli hver hafi verið mótaðili viðskiptanna, þegar þau hafi átt sér stað. Sóknaraðili hafi tekið ákvörðun um kaupin á eigin forsendum og hafi hann séð fram á að hagnast á viðskiptunum eins og aðrir á þessum tíma.
Meint skaðabótaábyrgð varnaraðila verði samkvæmt meginreglum skaðabótaréttarins takmörkuð við afleiðingar bótaskyldrar háttsemi sem eru fyrirsjáanlegar eða við sennilegar afleiðingar sem er eðlilegt og sanngjarnt að varnaraðili beri ábyrgð á. Varnaraðili verði því ekki bótaskyldur vegna afleiðinga sem eru tilviljunarkenndar eða af öðrum ástæðum ófyrirséðar.
Sóknaraðila hefði verið í lófa lagið að selja bréf sín frá því að kaupin voru frágengin þar til SPRON féll 19 mánuðum síðar og takmarka þannig tjón sitt. Nú þegar SPRON hafi verið tekið til slitameðferðar reyni sóknaraðili að komast tjónlaus frá skuldbindingum sem hann sjálfur hafi stofnað til og hann hafi mátt vita hver áhættan var af. Þá er á það bent að viðskiptum með viðskiptabréf fylgi ávallt töluverð áhætta og hafi sóknaraðila, sem hæstaréttarlögmanni, mátt vera það ljóst. Sóknaraðili hafi tekið þá ákvörðun að kaupa stofnfjárbréf í SPRON og með því hafi hann samþykkt að taka áhættu sem fylgi því að eiga í slíkum viðskiptum. Sú áhætta sé enn meiri þegar um kaup á óskráðum bréfum sé að ræða. Orsakatengsl milli háttsemi varnaraðila og tjóns sóknaraðila séu ekki fyrir hendi, auk þess sem sóknaraðili hafi glatað rétti sínum til skaðabóta vegna tjóns sem hlotist hafi af áhættutöku hans sjálfs. Samkvæmt öllu framangreindu telji varnaraðili að skaðabótaábyrgð vegna meints tjóns sóknaraðila, vegna kaupa á stofnfjárbréfum í SPRON, verði ekki lögð á varnaraðila.
Þá kveður varnaraðili að skilyrði vinnuveitandaábyrgðar séu ekki fyrir hendi, en á því er byggt af hálfu sóknaraðila að varnaraðili beri, á grundvelli reglu um vinnuveitandaábyrgð, ábyrgð á meintri saknæmri háttsemi Hildar Petersen, fyrrverandi stjórnarformanns SPRON, Lárusar Ara Knútssonar, verðbréfamiðlara SPRON verðbréfa hf., Páls Árnasonar, fyrrverandi regluvarðar SPRON og stjórnar SPRON.
Varnaraðili bendir á, að til þess að vinnuveitandi verði talinn bera ábyrgð á tjóni af völdum starfsmanna sinna, verði að vera unnt að rekja tjónið til saknæmrar háttsemi starfsmannsins, tjóninu verður að hafa verið valdið í starfi eða í tengslum við starf og starfsmaður sem olli tjóni verður að hafa verið settur undir boðvald vinnuveitanda. Öll þrjú skilyrðin verður að uppfylla til þess að hægt sé að leggja skaðabótaábyrgð á varnaraðila sem vinnuveitanda. Varnaraðili bendir á að Lárus Ari Knútsson, Hildur Petersen eða aðrir stjórnarmenn SPRON hafi ekki verið starfsmenn varnaraðila. Hildur hafi setið í stjórn SPRON en hafi ekki verið starfsmaður félagsins eða lotið boðvaldi þess, frekar en aðrir stjórnarmenn. Lárus Ari hafi verið starfsmaður dótturfélags SPRON, þ.e. SPRON verðbréfa hf. og komið fram sem slíkur. Þegar af þessum ástæðum verði SPRON ekki talið bera ábyrgð á störfum þessara aðila á grundvelli reglna skaðabótaréttarins um vinnuveitandaábyrgð.
Varnaraðili bendir á að sala Hildar á bréfum í hennar eigu hafi ekki tengst setu hennar í stjórn SPRON. Viðskiptin hafi ekki verið í tengslum við starf hennar sem stjórnarformanns og hafi ekki átt sér stað undir boðvaldi SPRON enda sé hún ekki starfsmaður SPRON. Ákvörðun um sölu stofnfjárbréfanna hafi verið tekin af Hildi og hafi varðað persónulegar eignir hennar og fjármál hennar. Skilyrði reglunnar um vinnuveitandaábyrgð séu samkvæmt þessu ekki uppfyllt og geti SPRON ekki borið ábyrgð á meintu tjóni sóknaraðila, verði á annað borð talið að einhver saknæm háttsemi hafi átt sér stað.
Til vara er því hafnað að sýnt hafi verið fram á að Hildur hafi sýnt af sér saknæma háttsemi í tengslum við sölu bréfa sinna. Fullyrðingar sóknaraðila um að Hildur hafi búið yfir upplýsingum um meinta slæma fjárhagsstöðu SPRON eða ofmat á virði félagsins, séu með öllu órökstuddar. Bent er á að ríkislögreglustjóri hafi fellt niður rannsókn vegna kæru á hendur Hildi og öðrum stjórnarmönnum SPRON, þar sem rannsókn málsins hafi ekki leitt í ljós að þau hefðu á ólögmætan hátt leynt upplýsingum sem áhrif gætu haft á verðmæti stofnfjárbréfanna. Ákvörðun ríkislögreglustjóra hafi verið staðfest af ríkissaksóknara 7. janúar 2011. Varnaraðili bendir einnig á að þegar helstu niðurstöður Capacent verðmatsins hafi verið birtar 17. júlí 2007, hafi allar upplýsingar sem stjórn hafi haft undir höndum verið gerðar opinberar. Því hafi engar innherjaupplýsingar legið fyrir þegar sóknaraðili keypti umrædd stofnfjárbréf í júlí sama ár.
Jafnvel þótt sýnt yrði fram á að Hildur hefði búið yfir einhverjum þeim upplýsingum á umræddum tíma, sem ekki hafi verið öðrum aðgengilegar, eða sniðgengið reglur SPRON í tengslum við viðskiptin, vanti enn sem áður orsakatengslin. Tjón sóknaraðila hefði orðið, hvort sem stjórnarformaðurinn hefði sýnt af sér saknæma háttsemi eða ekki, enda hafi aðstæður á markaðnum, sem hún hafi ekkert við ráðið, verið orsök ,,tjóns“ sóknaraðila.
Varðandi aðkomu Lárusar Ara Knútssonar, bendir varnaraðili á að hann geti ekki borið ábyrgð á störfum hans. Hann sé verðbréfamiðlari SPRON verðbréfa hf., sem hafi verið dótturfélag SPRON. SPRON verðbréf hf. sé annar lögaðili og hafi Lárus Ari komið fram gagnvart sóknaraðila sem starfsmaður SPRON verðbréfa hf. Viðskiptin hafi verið gerð í samræmi við skyldur miðlarans samkvæmt ráðningarsamningi hans við SPRON verðbréf hf. Lárus Ari hafi því verið undir boðvaldi SPRON verðbréfa hf. umrætt sinn.
Til vara er því mótmælt, sem sóknaraðili haldi fram, að Lárus Ari hafi upplýst um að gengi stofnfjárbréfa færi hækkandi. Eins og fram komi í endurriti af símtali sóknaraðila og Lárusar Ara hafi þetta ekki komið fram.
Þá hvíli engin skylda á verðbréfamiðlaranum að upplýsa um kaupendur og seljendur í einstökum viðskiptum, eins og sóknaraðili haldi fram. Verðbréfamiðlarinn hefði þvert á móti brotið gegn starfsskyldum sínum, hefði hann upplýst um mótaðila viðskiptanna.
Þá bendir varnaraðili á að tilkynningarskylda til regluvarðar um viðskipti fruminnherja hvíli á innherjanum sjálfum en ekki þeim verðbréfamiðlara sem sjái um viðskiptin.
Með vísan til framangreinds telji varnaraðili með öllu ósannað að Lárus Ari hafi unnið sér til sakar í málinu þannig að bótaskylt sé, enda beri endurrit símtalsins glögglega með sér að hann hafi gert sitt ítrasta til að leiðbeina sóknaraðila við kaupin. Þá hafi Lárus Ari tilkynnt sóknaraðila sérstaklega að SPRON væri ekki seljandi stofnfjárbréfa og því hafi sóknaraðili ekki getað staðið í þeirri trú.
Varðandi aðkomu stjórnar SPRON að kaupum sóknaraðila á stofnfjárbréfum sínum, kveður varnaraðili að hann beri ekki skaðabótaábyrgð á grundvelli reglunnar um vinnuveitandaábyrgð á meintu tjóni sóknaraðila. Hann bendir á að stjórn varnaraðila hafi ekki verið undir boðvaldi félagsins í skilningi reglunnar. Þá sé samsömun stjórnar SPRON og SPRON ekki tæk samkvæmt almennum reglum.
Til vara bendir varnaraðili á að þáttur stjórnar SPRON í viðskiptunum hafi einungis falist í því að samþykkja framsal bréfanna á stjórnarfundi 9. ágúst 2007. Í samræmi við ákvæði þágildandi 64. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sem fellt hafi verið úr gildi með 7. gr. breytingalaga nr. 76/2009 hafi framsal stofnfjárhlutar í sparisjóði verið óheimilt nema með samþykki sparisjóðsstjórnar. Sams konar lagareglu hafi verið að finna í eldri lögum sem gilt hafi um starfsemi SPRON. Samkvæmt ákvæðinu hafi sparisjóðsstjórn borið að vísa máli til Fjármálaeftirlitsins, ef hún taldi að væntanlegur kaupandi stofnfjár falaðist eftir virkum eignarhlut í sparisjóði. Í 10. gr. reglna um viðskipti á stofnfjármarkaði SPRON hafi fyrrgreint ákvæði verið útfært nánar. Þar segi að við mat á því hvort stjórn SPRON samþykki framsal stofnfjárhlutar skuli stjórnin líta til ákvæða 5. gr. samþykkta SPRON og laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki auk almennra hagsmuna sparisjóðsins.
Samkvæmt 5. gr. samþykkta SPRON hafi einstökum stofnfjáreigendum aldrei verið heimilt, fyrir sjálfs sín hönd eða annarra, að fara með meira en 5% heildaratkvæðamagns í sparisjóðnum hvort sem yfirráð yfir atkvæðisrétti byggðist á beinni eða óbeinni hlutdeild í stofnfé sparisjóðsins.
Með hliðsjón af þágildandi ákvæði 64. gr. laga um fjármálafyrirtæki og 5. gr. samþykkta SPRON hafi samþykki stjórnarinnar fyrst og fremst falist í því að koma í veg fyrir að einstakur stofnfjáreigandi og aðilar tengdir honum, eignuðust virkan eignarhlut í SPRON. Í máli þessu hafi það ekki verið tilfellið og því ekkert því til fyrirstöðu að samþykkja framsalið enda hafi sóknaraðili verið hæfur til að kaupa stofnfjárhluti, sbr. 5. gr. reglnanna um viðskipti á stofnfjármarkaði SPRON. Viðskiptin hafi verið samþykkt og hafi atkvæði stjórnarformannsins ekki haft áhrif á það hvort viðskiptin gengju í gegn eða ekki.
Hlutverk stjórnar SPRON hafi því ekki verið annað og meira en gert hafi verið ráð fyrir í framangreindum reglum, þ.e. að gæta þeirra formreglna sem þar hafi komið fram. Ljóst sé að stjórnin hafi sinnt starfsskyldum sínum samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með setningu reglna um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja og setningu eftirlits- og starfsreglna SPRON. Stjórnin beri ábyrgð á því að regluverkið sé í samræmi við lög og reglur, en hún beri hins vegar ekki ábyrgð á einstökum viðskiptum. Verði því ekki felld skaðabótaábyrgð á varnaraðila í málinu vegna aðkomu stjórnar SPRON að viðskiptunum.
Varðandi aðkomu regluvarðar SPRON bendir varnaraðili á að grundvöllur þess að regluvörður geti sinnt reglubundnu eftirliti sínu, sé að hann fái vitneskju um þau atriði sem eftirlit hans lúti að, sbr. t.d. 22. gr. reglna um eftirlits- og starfsreglur SPRON. Í 3. mgr. 22. gr. fyrrnefndra reglna segi að mikilvægt sé að undirstrika að hlutaðeigandi starfsmaður beri ábyrgð á viðskiptum sínum þótt hann hafi fengið leyfi regluvarðar, t.d. ef í ljós komi að hann hafi búið yfir trúnaðarupplýsingum. Staðfest hafi verið í vitnamáli nr. V-11/2011 að upplýsingar um viðskiptin hafi ekki verið skráðar í samskiptaskrá regluvarðar og bendi það til þess að viðskiptin hafi aldrei verið tilkynnt. Á því geti varnaraðili ekki borið ábyrgð. Loks verði ekki séð að orsakatengsl séu milli meintrar vanrækslu regluvarðar SPRON og SPRON verðbréfa hf. og meints tjóns sóknaraðila.
Fallist dómurinn ekki á að þegar beri að hafna ölum kröfum sóknaraðila, bendir varnaraðili á að hann geti ekki verið réttur aðili til greiðslu bóta vegna ,,galla“ á stofnfjárbréfum í skilningi lausafjárkaupalaga. Af sömu ástæðu verði málsástæðum er byggist á 30., 33., eða 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga ekki beitt gagnvart varnaraðila þessa máls, ekki frekar en málsástæðum sem byggist á sjónarmiðum samningaréttarins um brostnar forsendur. Varnaraðili hafi ekki verið viðsemjandi sóknaraðila eða aðili að viðskiptunum, hann hafi í raun verið hluti söluandlagsins.
Þá kveður varnaraðili að þágildandi lög um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003, sem sóknaraðili vísi til, hafi ekki gilt um kaup sóknaraðila á stofnfjárbréfum. Reglur IX. kafla laganna um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja hafi ekki tekið til viðskipta með stofnfjárbréf í SPRON hf.
Þá er því hafnað að lögum nr. 2/1995 um hlutafélög verði beitt í málinu, enda hafi SPRON ekki verið hlutafélag þegar atvik málsins hafi átt sér stað og lögjöfnun sé ótæk.
Jafnframt mótmælir varnaraðili staðhæfingum sóknaraðila um bága fjárhagsstöðu SPRON árið 2007. Hann bendir á að eiginfjárgrunnur SPRON hafi samkvæmt ársreikningi fyrsta ársfjórðungs 2007 verið 11,8%. Eiginfjárgrunnur SPRON hafi ekki farið niður fyrir lögmælt mörk á árinu 2007. SPRON hafi ekki tekið víkjandi lán á árinu 2007 upp á 3,9% til að bjarga SPRON. Þá hafi innanstokksmunir SPRON ekki verið veðsettir Kaupþingi banka á árinu 2007.
Varnaraðili kveður að í greinargerð sóknaraðila séu hinar ýmsu reglur sem gilt hafi innan SPRON raktar í löngu máli. Varnaraðili hafnar því að við kaup sóknaraðila á stofnfjárbréfum SPRON hafi verið brotið gegn reglum SPRON. Allt að einu geti varnaraðili ekki borið skaðabótaábyrgð á því. Á það er bent að reglur um viðskipti á stofnfjármarkaði SPRON hafi verið innri starfsreglur SPRON um framkvæmd viðskipta á stofnfjármarkaði og ekki birtar almenningi. Gildissvið reglna SPRON um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja frá 11. desember 2003, hafi verið takmarkað við verðbréf sem gefin hafi verið út af SPRON og skráð á skipulegum verðbréfamarkaði, eða þar sem óskað hafi verið eftir að bréfin yrðu skráð á skipulegum verðbréfamarkaði. Reglurnar hafi því ekki tekið til kaupa sóknaraðila á stofnfjárbréfum. Þá hafi eftirlits- og starfsreglur SPRON verðbréfa hf. aðeins gilt um starfsemi þess félags.
Því er mótmælt af hálfu varnaraðila að tilskipanir Evrópusambandsins og lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið séu málinu viðkomandi. Þá kveður varnaraðili að tilvísanir sóknaraðila til reglna um upplýsingaskyldu útgefanda fjármálagerninga í Kauphöll Íslands frá 1. júlí 1999 eða til reglugerðar nr. 630/2005 um innherjaupplýsingar og markaðssvik hafi enga þýðingu í málinu.
Niðurstaða
Sóknaraðili byggir skaðabótakröfu sína á sakarreglunni og telur varnaraðila eiga sök á meintu tjóni sínu, þar sem stjórnarformaður varnaraðila og stjórn hans hafi af gáleysi eða ásetningi skaðað sóknaraðila fjárhagslega með ólögmætum athöfnum sínum, þannig að hann tapaði allri stofnfjáreign sinni. Þá byggir sóknaraðili á reglunni um húsbóndaábyrgð varnaraðila, þar sem regluvörður og stjórnarformaður varnaraðila og regluvörður SPRON verðbréfa hf. hafi ekki farið að þeim reglum sem þeim hafi verið settar af stjórn varnaraðila.
Í sakarreglunni felst að maður beri ábyrgð á tjóni sem hann veldur með saknæmum og ólögmætum hætti, enda sé tjónið sennileg afleiðing af hegðun hans og raski hagsmunum sem verndaðir eru með skaðabótareglum. Öll skilyrði reglunnar þurfa að vera fyrir hendi til þess að unnt sé að leggja skaðabótaábyrgð á tjónvald vegna meints tjóns. Til þess að á varnaraðila verði felld bótaábyrgð í máli þessu nægir því ekki að sýnt sé fram á saknæma og ólögmæta háttsemi varnaraðila, heldur þarf sóknaraðili að sýna fram á orsakatengsl milli þeirrar háttsemi og þess tjóns sem sóknaraðili telur sig hafa orðið fyrir og að tjónið sé sennileg afleiðing hinnar ólögmætu og saknæmu háttsemi.
Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að tjón hans hafi orðið á þeirri stundu er hann keypti umrædd stofnfjárbréf, 26. júlí 2007. Við aðalmeðferð málsins var sóknaraðili sérstaklega inntur eftir því hvort hann teldi að tjón sitt hefði orðið þá og kvaðst hann telja að þegar blekkingum hafi verið beitt af hálfu varnaraðila á kaupdegi bréfanna, hafi hann orðið fyrir því tjóni sem krafa hans eigi rætur að rekja til, en krafa hans er að fjárhæð 5.005.005 krónur, auk vaxta.
Fram kemur í gögnum málsins að samkvæmt uppgjöri ársins 2007 nam hagnaður SPRON vegna ársins 3,3 milljörðum króna og fyrir liggur einnig í gögnum málsins að stofnfjáreigendum var greiddur arður í lok maí 2008. Fram kemur á dómskjali því sem lagt var fram fyrir upphaf aðalmeðferðar, nr. 95, að sóknaraðili var einn þeirra stofnfjáreigenda sem fengu greiddan arð af bréfunum í maí 2008. Samkvæmt framangreindu er ljóst að þau stofnfjárbréf sem sóknaraðili keypti 26. júlí 2007 urðu ekki einskis virði á kaupdegi, eins og sóknaraðili hefur haldið fram. Því verður ekki fallist á að tjón sóknaraðila hafi orðið á þeim degi. Sóknaraðili aðhafðist heldur ekkert í kjölfar kaupanna, sem rennt getur stoðum undir þá staðhæfingu hans, að hann hafi á þeim degi talið sig hafa orðið fyrir tjóni. Hann freistaði þess fyrst í september 2009, eða rúmum tveimur árum eftir kaupin, að rifta kaupum á bréfunum. Hann hélt því umræddum bréfum í rúm tvö ár og fékk greiddan arð af þeim. Hann gerði ekkert til takmarka meint tjón sitt fyrr en rúmum tveimur árum eftir að hann taldi sig hafa orðið fyrir tjóni, en þá hafði Fjármálaeftirlitið skipað SPRON skilanefnd og hlutabréf í varnaraðila voru orðin verðlaus.
Sóknaraðili falaðist sjálfur eftir að kaupa títtnefnd stofnfjárbréf, en kaup á slíkum bréfum fela ávallt í sér ákveðna áhættu þar sem erfitt getur verið að sjá fyrir um þróun markaðarins hverju sinni. Viðskipti aðila voru með óskráð verðbréf, sem ekki var hægt að skrá á skipulegum verðbréfamarkaði og á þeim tíma er viðskipti aðila fóru fram hafði ekki verið óskað eftir skráningu SPRON í kauphöll. Því var áhætta af slíkum viðskiptum enn meiri en ella.
Á sóknaraðila hvílir sönnunarbyrði fyrir því að meint tjón hans verði rakið til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi varnaraðila og að orsakatengsl séu milli þeirrar háttsemi og meints tjóns, sem og þess að tjónið sé sennileg afleiðing háttseminnar. Það er mat dómsins að slík sönnun hafi ekki tekist, heldur hafi verið í ljós leitt að tjón sóknaraðila verði rakið til hans sjálfs og þeirra atburða er urðu í íslensku efnahagslífi í október árið 2008, sem leiddu til falls íslensku bankanna, og þess að stjórn Fjármálaeftirlitsins skipaði skilanefnd yfir SPRON 21. mars 2009. Tjónið verði einnig rakið til þeirrar áhættu er hann tók er hann keypti umrædd bréf og þess að hann reyndi ekki að takmarka tjón sitt, í kjölfar meints tjónsatburðar. Þessir atburðir eru orsök tjóns sóknaraðila og hefur ekkert fram komið í málinu er fært geta sönnur á að tjón hans verði rakið til annars, hvað sem líður vitneskju stjórnar varnaraðila og stjórnarformanns um fjárhagsstöðu SPRON á þeim tíma er sóknaraðili keypti umrædd bréf. Þá breyta meint brot stjórnarformanns, stjórnar og starfsmanna SPRON og SPRON verðbréfa hf. á lögum nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti, meint brot gegn lögum um hlutafélög, meint brot gegn reglum sem giltu um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja, meint brot þeirra á eftirlits- og starfsreglum SPRON verðbréfa hf., meint brot þeirra á eftirlits- og starfsreglum SPRON, meint brot á reglum SPRON um framkvæmd starfa stjórnar og sparisjóðsstjóra, eða meint brot á reglum um viðskipti á stofnfjármarkaði SPRON engu um það heldur. Orsök tjóns sóknaraðila verður ekki rakin til meintrar ólögmætrar og saknæmrar háttsemi af hálfu stjórnar, stjórnarformanns eða starfsmanna varnaraðila eða starfsmanna SPRON verðbréfa hf. og er ekki sennileg afleiðing af þeirri háttsemi.
Með sömu rökum og að framan greinir um orsök meints tjóns sóknaraðila verður skaðabótaskylda varnaraðila ekki heldur reist á ákvæðum lausafjárkaupalaga um galla á söluhlut. Þá hefur sóknaraðili hvorki sýnt fram á að málsástæður er byggjast á tilvísan til 30. gr., 33. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936, né að málsástæður er byggja á sjónarmiðum samningaréttarins um brostnar forsendur, séu á rökum reistar, eða eigi við í máli þessu. Jafnframt hafnar dómurinn því að lögum um hlutafélög nr. 2/1995 verði beitt í málinu, enda var SPRON ekki orðið hlutafélag þegar atvik málsins áttu sér stað
Þegar allt framangreint er virt hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að varnaraðili beri skaðabótaábyrgð á meintu tjóni hans og verður því kröfu hans á hendur varnaraðila hafnað.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 greiði sóknaraðili varnaraðila 600.000 krónur í málskostnað.
Sóknaraðili flutti mál sitt sjálfur.
Bjarki Már Baxter hdl. flutti málið af hálfu varnaraðila.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Kröfu sóknaraðila, Magnúsar Björns Brynjólfssonar, sem lýst var við slitameðferð varnaraðila, Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, sem almennri kröfu, sbr. 113. gr. laga nr. 21/1991, að höfuðstólsfjárhæð 5.005.005 krónur auk vaxta, er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 600.000 krónur í málskostnað.