Hæstiréttur íslands

Mál nr. 350/2004


Lykilorð

  • Áfrýjunarfrestur
  • Leiðbeiningarskylda dómara
  • Ráðningarsamningur
  • Jafnrétti
  • Kröfugerð
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 27

 

Fimmtudaginn 27. janúar 2005.

Nr. 350/2004.

Þuríður Gísladóttir

(sjálf)

gegn

íslenska ríkinu

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

 

Áfrýjunarfrestur. Leiðbeiningarskylda dómara. Ráðningarsamningur. Jafnrétti. Kröfugerð. Skaðabætur.

 

Þ starfaði hjá Garðyrkjuskóla ríkisins að rannsóknarverkefni, sem hún hugðist fá viðurkennt til doktorsprófs við landbúnaðarháskóla í Svíþjóð. Var um að ræða hálft starf með tímabundnum samningum. Endir var bundinn á ráðningu Þ með vísan til þess að ekki hefðu fengist styrkir til verkefnisins. Á sama tíma sótti Þ um starf hjá garðyrkjuskólanum ásamt karlmanni sem fékk starfið. Hélt hún því fram að garðyrkjuskólinn hefði vanefnt samning hennar um doktorsverkefnið auk þess sem henni hefði verið mismunað eftir kynferði við stöðuveitinguna og krafðist skaðabóta af því tilefni. Í Hæstarétti var tekið fram Þ hefði aldrei fengið bindandi fyrirheit frá sænska skólanum um að verða tekin í doktorsnámið auk þess sem hún hefði aldrei verið formlega skráð til þess. Gæti íslenska ríkið ekki borið ábyrgð gagnvart Þ á því að hún varð ekki innrituð í doktorsnám. Þá var fallist á með héraðsdómi að Þ hefði ekki leitt líkur að því að henni hefði verið mismunað eftir kynferði við umrædda stöðuveitingu. Var ríkið sýknað af kröfum Þ.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. ágúst 2004. Hún krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 6.304.144 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. og IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. nóvember 2003 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Héraðsdómur var kveðinn upp 11. maí 2004. Fyrir liggur, að áfrýjandi óskaði eftir áfrýjunarleyfi með bréfi til Hæstaréttar 2. júní 2004. Bréfinu fylgdi áfrýjunarstefna tilbúin til útgáfu svo sem kveðið er á um í 1. mgr. 155. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vegna mistaka var þess ekki gætt við móttöku erindis áfrýjanda, að leyfis var ekki þörf til áfrýjunar málsins. Kom þetta ekki í ljós fyrr en 18. ágúst 2004 en þá var almennur áfrýjunarfrestur samkvæmt 1. mgr. 153. gr. liðinn. Áfrýjunarstefnan var þá gefin út.

Skýra verður framangreind ákvæði laga nr. 91/1991 svo að málinu teljist hafa verið áfrýjað innan áfrýjunarfrests, sbr. dóm Hæstaréttar í dómasafni réttarins 1999, bls. 2056.

Áfrýjandi er ólöglærð og hefur flutt mál sitt sjálf á báðum dómstigum. Kröfugerð hennar í héraði var ekki að öllu leyti í samræmi við ákvæði laga nr. 91/1991, þar sem hluta málsástæðna var blandað inn í dómkröfuna. Er hún hafði fengið leiðbeiningar um þetta fyrir Hæstarétti samkvæmt 4. mgr. 101 gr., sbr. 166. gr. laganna, lagfærði áfrýjandi kröfugerð sína í það horf sem að framan greinir. Afstaða verður tekin til málsástæðna áfrýjanda eftir því sem efni málsins standa til.

II.

Í forsendum hins áfrýjaða dóms er því lýst er áfrýjandi var ráðin í 50% starf hjá Garðyrkjuskóla ríkisins 1. júlí 1999 og starfaði þar að rannsóknarverkefni, sem hún hugðist fá viðurkennt til doktorsprófs við landbúnaðarháskóla í Svíþjóð. Liggur fyrir í málinu, að skólastjóri Garðyrkjuskóla ríkisins þekkti til við sænska skólann og aðstoðaði áfrýjanda við að hrinda þessum fyrirætlunum í framkvæmd. Jafnframt var aflað styrkja til verkefnisins hér innanlands, aðallega frá Rannsóknarráði Íslands (RANNÍS). Stefndi kveður styrkina hafa verið forsendu fyrir að unnt væri að ráða áfrýjanda til starfsins hjá garðyrkjuskólanum á þann hátt sem gert var.

Af málsgögnum er ljóst, að áfrýjandi fékk aldrei bindandi fyrirheit frá sænska skólanum um að verða tekin í doktorsnámið og var aldrei formlega skráð til þess. Stefndi gaf áfrýjanda heldur ekki nein loforð um þetta enda var það ekki á hans færi. Styrkir fengust til verkefnisins fram til ársloka 2001 og dugðu þeir til að greiða hluta kostnaðar við það þetta tímabil. Þegar ekki tókst að afla styrkja árin 2002 og 2003 kveður stefndi hafa orðið ljóst, að ekki yrði unnt að halda áfram ráðningu áfrýjanda við Garðyrkjuskóla ríkisins.

Staðið hafði verið þannig að ráðningu áfrýjanda að skólanum, að hún var ráðin í 50% starf með tímabundnum samningum, fyrst til 31. desember 1999, en síðan með nýjum samningum til árs í senn, síðast til 31. desember 2002. Þann 29. nóvember 2002 ritaði skólastjóri Garðyrkjuskóla ríkisins áfrýjanda bréf og sagði þar meðal annars, að ný umsókn um styrk til verkefnis áfrýjanda væri til umfjöllunar hjá RANNÍS og væri svars að vænta í janúar-febrúar 2003. Sæi skólinn sér ekki annað fært en að bíða með hefðbundna endurnýjun hins tímabundna ráðningarsamnings fyrir árið 2003. Þar sem hin tímabundna ráðning hefði verið endurnýjuð nokkrum sinnum mætti líta svo á að áfrýjandi hefði öðlast meiri réttindi en fælust í tímabundinni ráðningu. Því væri skólinn reiðubúinn til að veita henni þriggja mánaða uppsagnarfrest. Var um þetta vísað til 1. mgr. 41. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Væri samkvæmt þessu ekki unnt að veita henni framhaldsráðningu til lengri tíma en 28. febrúar 2003, eins og komist var að orði í bréfinu.

Í janúar 2003 auglýsti Garðyrkjuskóli ríkisins laust til umsóknar starf verkefnisstjóra þróunarverkefna í grænmetisframleiðslu. Tvær umsóknir munu hafa borist um starfið, frá áfrýjanda og karlmanni, sem ráðinn var. Garðyrkjuskólinn sendi áfrýjanda bréf 10. febrúar 2003, þar sem henni var tilkynnt að starfið hefði verið veitt öðrum umsækjanda og skýrðar ástæður þess að hann var valinn.

III.

Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi er dómkrafa áfrýjanda tvíþætt. Í fyrsta lagi krefst hún greiðslu á 4.953.256 krónum vegna „einhliða riftunar loforðsskuldbindingar“ um að rannsóknarverkefni hennar leiddi til doktorsgráðu. Kemur fram í málflutningi hennar að hún telji stefnda hafa vanefnt „löggerningsígildi“ um doktorsverkefni sitt. Er fjárhæð kröfunnar miðuð við launin sem hún fékk fyrir 50% starf síðasta mánuðinn í starfi, 112.574 krónur. Hún margfaldar þessa fjárhæð með 44, sem er fjöldi þeirra mánaða frá 1. júlí 1999 til loka febrúar 2003, sem hún starfaði hjá Garðyrkjuskóla ríkisins. Kveðst hún þennan tíma hafa innt af hendi fullt vinnuframlag fyrir vinnu sína en aðeins fengið hálf laun. Miðast krafan við leiðréttingu á því. Í annan stað krefst áfrýjandi bóta að fjárhæð 1.350.888 krónur fyrir að hafa ekki verið ráðin í stöðuna sem auglýst var í janúar 2003. Segir hún þetta vera sex mánaða laun náttúrufræðings með samsvarandi menntun og starfsreynslu og hún hafi. Með vali karlmanns í þessa stöðu fremur en hennar telur hún að brotinn hafi verið á sér réttur samkvæmt lögum nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi haft uppi málsástæður, sem ekki verður séð af framlögðum skjölum eða endurritum að hún hafi haft uppi í héraði. Stefndi hefur mótmælt slíkum nýjum ástæðum. Koma þær því ekki til skoðunar fyrir Hæstarétti.

IV.

Stefndi getur ekki borið ábyrgð gagnvart áfrýjanda á því að hún varð ekki innrituð í doktorsnám við hinn sænska skóla. Um þá innritun réð stefndi engu og samskipti aðila verða ekki túlkuð svo að hann hafi gefið henni loforð um að tryggja henni þetta. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsenda hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmd til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er staðfestur.

Áfrýjandi, Þuríður Gísladóttir, greiði stefnda, íslenska ríkinu, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2002.

I

Málið var höfðað 13. október sl. og tekið til dóms 29. apríl sl.

Stefnandi er Þuríður Gísladóttir, Akraseli 17, Reykjavík.

Stefndi er Garðyrkjuskóli ríkisins, Reykjum, Ölfusi.

Stefnandi orðar dómkröfu sína svo:  "Vegna einhliða riftunar lof­orðs­skuld­bind­ingar um að verkefnið "Lífsíur úr vikri og sandi í lokuðum ræktunarkerfum í ylrækt" leiði til Ph.D. gráðu hennar, eigi stefnandi kröfu á fébótum í bótakröfu 1, að upphæð 4.953.256 kr. úr hendi stefnda.  Fyrir brot á 24. gr. jafnréttislaga nr. 96/2000, gerir stefn­andi kröfu um bætur í bótakröfu 2, að upphæð 1.350.888 kr. úr hendi stefnda.  Sam­anlagðar nema bótakröfur 1 og 2, 6.304.144 kr. Dráttarvextir samkvæmt III. og IV. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 bætist við þessar upphæðir frá 1. nóvember 2003 til greiðslu­dags."  Þá er krafist málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.

II

Stefnandi lýsir málavöxtum svo, að hún hafi á árinu 1998 haft samband við for­svars­mann stefnda og lýst áhuga sínum á að starfa þar við tilteknar rannsóknir, er gætu nýst henni til að öðlast Ph.D.-gráðu.  Hún kveðst vera með kennsluréttindi í raun­greinum, M.Sc.-gráðu í matvælavísindum og tækni og handhafi Licentiate Diploma skírteinis frá breskum fagsamtökum.  Stefnandi kveður stefnda hafa boðist til að skipuleggja rannsóknarverkefni fyrir sig, sem fjármagnað yrði af honum og fleiri aðilum innlendum, auk sænsks landbúnaðarháskóla.  Stefnandi kveðst hafa samþykkt þetta og farið á launaskrá hjá stefnda í 50% starfi 1. júlí 1999, en kveðst þá þegar hafa unnið að verkefninu í nokkrar vikur.  Hún hafi fengið vinnuaðstöðu hjá stefnda og víðar en skólameistari stefnda hafi verið verkefnisstjóri.  Stefnandi kveðst hafa unnið að verkefninu allt þar til í september 2001 og safnað miklum gögnum, sem hafi verið vistuð í tölvu­kerfi stefnda.

Í september 2000 kveðst stefnandi hafa fengið í hendur afrit af bréfi verk­efn­is­stjóra stefnda til Rannsóknarráðs Íslands þar sem hann telji tímaleysi sitt standa verk­efninu fyrir þrifum.  Þrátt fyrir það hafi hún verið beðin um að útbúa umsóknir um styrki á árunum 2001 og 2002 en þeim umsóknum hafi báðum verið hafnað.  Í fram­haldinu hafi verið auglýst föst staða verkefnisstjóra þróunarverkefna hjá stefnda sem stefn­andi hafi sótt um.  Hins vegar hafi karlmaður verið ráðinn í stöðuna og stefnandi tekin af launaskrá. 

Þrátt fyrir þessi málalok kveðst stefnandi að mestu hafa lokið við úrvinnslu rann­sókna sinna.  Einnig hafi hún sinnt ýmsum öðrum verkefnum, er tengjast doktorsnámi hennar.

Í málinu krefur stefnandi stefnda um laun fyrir hálft starf náttúrufræðings með hennar menntun og starfsreynslu í 44 mánuði.  Mánaðarlaun fyrir það starf séu 225.148 krónur á mánuði og helmingur þeirrar fjárhæðar, 112.574 krónur marg­fald­aður með 44 geri 4.953.256 krónur.  Þá krefst stefnandi 1.350.888 króna sem bóta vegna þess að gengið var fram hjá henni við ráðningu verkefnisstjóra.  Eru það fram­an­greind mánaðarlaun í 6 mánuði.  Samtals mynda þessar fjárhæðir stefnufjárhæðina. 

Stefndi kveður stefnanda hafa óskað eftir starfi við rannsóknir hjá sér haustið 1998.  Í framhaldinu hafi stefnandi verið ráðin tímabundið til stefnda frá 1. júlí 1999 en ráðningu hennar hafi lokið 28. febrúar 2003.  Hafi ástæðan verið sú að ekki fengust frekari styrkir til verkefnisins, sem hún vann að.  Í upphafi hafi stefndi talið að rann­sóknir stefnanda gætu nýst henni sem doktorsverkefni við sænskan háskóla en síðar kom í ljós að ekkert gat orðið af því.  Stefnanda hafi engin loforð verið gefin varðandi doktors­námið, ekki hafi einu sinni verið sótt um það, heldur hafi verið um ráðagerðir að ræða.

Stefndi kveður karl hafa verið ráðinn í stöðu hjá sér, en stefnandi hafi einnig sótt um hana.  Karlinn hafi verið ráðinn vegna þess að hann var hæfari.  Kveður stefndi hann hafa stundað mun umfangsmeiri vísindastörf en stefnandi.

III

Stefnandi byggir á því að hún hafi unnið hjá stefnda í fullu starfi við verkefni, sem hún hafi talið að væri doktorsverkefni, en fengið greidd laun fyrir hálft starf.  Stefndi hafi einhliða rift samningi aðila um verkefnið og þar með valdið sér fjártjóni, sem honum beri að bæta samkvæmt almennum fébótareglum.  Vísar stefnandi, máli sínu til stuðnings, til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi loforða.

Stefnandi byggir kröfuna um bætur fyrir það að hún var ekki ráðin í stöðu hjá stefnda á 24. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.  Karl­inn, sem ráðinn var, hafi ekki haft doktorspróf og því ekki verið hæfari en stefnandi til að gegna starfinu.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að hann hafi ekki lofað stefnanda því að hún ætti að fá rannsóknarvinnu sína hjá stefnda metna sem doktorsnám við hinn sænska land­búnaðarháskóla.  Það hafi verið sænski skólinn sem hafi metið stefnanda og hún hafi ekki staðist það mat.  Á því geti stefndi ekki borið ábyrgð, hvorki beint né óbeint.  Engu geti breytt þar um þótt stefnandi hafi í samráði við stefnda ætlað að fá rann­sókn­arverkefni sitt metið til prófgráðu við sænska skólann, enda sé það ekki á færi stefnda að segja skólanum fyrir verkum. 

Þá er á því byggt að um samskipti aðila hafi gilt ráðningarsamningur, sem efndur hafi verið.  Aldrei hafi verið samið um annað og krafa stefnanda um tvöföldun launa byggist ekki á samningi og beri því að sýkna stefnda af þeirri kröfu.

Stefndi byggir á því að ósannað sé að ákvæði jafnstöðulaga hafi verið brotin á stefn­anda.  Hún hafi ekki látið reyna á málið fyrir Kærunefnd jafnréttismála og hafi málið því ekki verið rannsakað á þann hátt sem lög bjóði.  Enn fremur byggir hann á því að karlmaðurinn, sem ráðinn var í stöðuna, hafi verið hæfari.    

IV

Eins og rakið var þá var stefnandi ráðin tímabundið í hálft starf hjá stefnda.  Hún byggir kröfu sína um laun fyrir fullt starf á því að hún hafi unnið fullt starf við verk­efni, sem hún hafi talið að væri doktorsverkefni.  Stefnandi ber sönnunarbyrðina fyrir þeirri málsástæðu sinni að stefnda beri að greiða henni laun fyrir fullt starf, þrátt fyrir að ráðningarsamningar þeirra kveði aðeins á um að hún væri í hálfu starfi.  Til stuðn­ings þessari málsástæðu sinni hefur stefnandi ekki fært annað fram en eigin full­yrð­ingu og gegn mótmælum stefnda er því ósannað að svo hafi samist um á milli þeirra að henni bæri laun fyrir meira en hálft starf svo sem ráðningarsamningarnir sögðu til um og henni hefur þegar verið greitt fyrir.  Þá er upplýst að doktorsverkefni stefnanda átti að vinna við sænskan landbúnaðarháskóla og aðkoma stefnda að því var aðeins vegna þess að skólastjóri hans hafði heimild sænska skólans til að hafa umsjón með doktors­nemum án þess að þiggja laun fyrir og án þess að ráða nokkru um námið.  Það er því niðurstaða dómsins að stefndi eigi ekki aðild að hugsanlegri kröfu stefnanda vegna þess að ekkert varð úr doktorsnámi hennar heldur beri henni að beina þeirri kröfu að hinum sænska landbúnaðarháskóla.

Í 3. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla segir að ef leiddar séu líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis við ráðn­ingu í starf skuli atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.  Það er því stefnanda að leiða líkur að því að henni hafi verið mismunað vegna kynferðis síns þegar ráðið var í starf verkefnisstjóra hjá stefnda.  Stefnandi heldur því fram í stefnu að karlinn, sem ráðinn var, sé "ekki með Ph.D. gráðu á fagsviðinu og því ekki hæfari, vegna menntunar sinnar eða starfs­reynslu, heldur en stefnandi til að gegna starfinu."  Annar rökstuðningur er ekki í stefnu fyrir þeirri málsástæðu stefnanda að brotin hafi verið á henni ákvæði fram­an­greindra laga.  Það er niðurstaða dómsins að stefnandi hafi með þessu ekki leitt að því líkur að henni hafi verið mismunað á þann hátt að varði við framangreind lög og þegar af þeirri ástæðu verður stefndi sýknaður af því að hafa brotið á stefnanda með ráðn­ingu karls í stöðuna.

Samkvæmt framansögðu verður stefndi sýknaður af kröfu stefnanda og hún dæmd til að greiða honum 100.000 krónur í málskostnað.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð

Stefndi, Garðyrkjuskóli ríkisins, er sýknaður af kröfu stefnanda, Þuríðar Gísla­dóttur, og skal stefnandi greiða stefnda 100.000 krónur í málskostnað.