Hæstiréttur íslands
Mál nr. 545/2012
Lykilorð
- Ráðningarsamningur
- Samkeppni
- Trúnaðarskylda
- Uppsagnarfrestur
- Laun
- Vanreifun
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
|
|
Fimmtudaginn 7. mars 2013. |
|
Nr. 545/2012.
|
Egersund Ísland ehf. (Kristján Stefánsson hrl.) gegn Birni Jóhannssyni (Guðmundur B. Ólafsson hrl.) |
Ráðningarsamningur. Samkeppni. Trúnaðarskylda. Uppsagnafrestur. Laun. Vanreifun. Frávísun frá héraðsdómi að hluta.
B höfðaði mál gegn E ehf. til heimtu vangoldinna launa í uppsagnarfresti og tiltekinna launatengdra greiðslna í tengslum við starfslok sín hjá félaginu. B hafði sagt upp starfi sínu hjá E ehf. með bréfi og í því tekist á hendur skuldbindingu um bann við samkeppni við E ehf. eins og nánar greindi þar. E ehf. bar því við að B hefði brotið gegn þeirri skuldbindingu, með því að setja sig í samband við erlenda viðskiptamenn E ehf. í þágu I ehf. sem starfaði í samkeppni við E ehf., og því glatað rétti til launa í uppsagnarfresti. Á hinn bóginn greiddi E ehf. B orlofslaun, orlofsuppbót og desemberuppbót. Aðilar deildu um hver hefði samið texta uppsagnarbréfsins um bann við samkeppni og að tilhlutan hvers það hefði verið gert, auk þess sem þá greindi á um merkingu textans. Hæstiréttur taldi, hvað sem liði fyrrgreindum ágreiningsefnum aðila, að leggja yrði til grundvallar að B hefði brotið gegn skilmálanum sem fram kom í uppsagnarbréfi hans og með því glatað rétti til launa í uppsagnarfresti ásamt orlofsfé af þeim. Hæstiréttur hafnaði einnig kröfum B um greiðslu orlofsuppbótar og desemberuppbótar með vísan til þess að eins og málið lægi fyrir virtust þær kröfur eiga rætur að rekja til tímabils innan uppsagnarfrests. Þá var kröfu B um greiðslu orlofslauna vegna tímabils fyrir uppsögn hans vísað frá héraðsdómi vegna vanreifunar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. ágúst 2012. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að hún verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Samkvæmt gögnum málsins réði stefndi sig haustið 2009 til starfa sem sölumaður hjá áfrýjanda, sem mun hafa fengist við innflutning, sölu, framleiðslu og viðgerðir á netum til fiskveiða og búnaði þeim tengdum. Með bréfi 28. september 2010 sagði stefndi upp starfinu frá næstu mánaðamótum og var uppsagnarfrestur þrír mánuðir. Í bréfinu sagði meðal annars eftirfarandi: „Jafnframt uppsögninni skuldbindur undirritaður sig til þess að hafa ekki samband við þá birgja sem Egersund Ísland er með samninga við næstu 2 árin.“ Áfrýjandi svaraði þessu með bréfi næsta dag, þar sem staðfest var að uppsögnin hefði borist og tekið fram að hann óskaði ekki eftir vinnuframlagi stefnda á uppsagnarfresti, svo og að stefndi fengi „greidd laun út mánaðarlega á uppsagnartímanum“ með því skilyrði að hann stæði „við það sem stendur í uppsagnarbréfi“. Samkvæmt skýrslu, sem stefndi gaf fyrir héraðsdómi, tók hann í framhaldi af þessu til starfa hjá félagi með heitinu IceBox Company ehf., sem stofnað var á miðju ári 2009 og hann átti hlut í, en það mun hafa á hendi rekstur í samkeppni við áfrýjanda. Fyrir liggur að áfrýjandi hefur ekki greitt stefnda laun í uppsagnarfresti. Samkvæmt málatilbúnaði stefnda leitaði hann skýringa hjá áfrýjanda þegar greiðsla hafi ekki borist um mánaðamót október og nóvember 2010 og hafi áfrýjandi þá borið því við að stefndi hafi brotið gegn fyrrgreindri skuldbindingu, sem fram kom í uppsagnarbréfi hans, og hann því glatað rétti til launa í uppsagnarfrestinum. Áfrýjandi greiddi á hinn bóginn stefnda 1. nóvember 2010 samtals 296.136 krónur vegna orlofslauna, orlofsuppbótar og desemberuppbótar.
Stefndi höfðaði mál þetta 15. júní 2011 til greiðslu á samtals 2.573.553 krónum auk dráttarvaxta og málskostnaðar. Samkvæmt málatilbúnaði hans er fjárhæð þessi reist á því að mánaðarlaun hafi numið 461.250 krónum og hann jafnframt notið bifreiðahlunninda, sem metin hafi verið til 93.383 króna á mánuði, en vegna þriggja mánaða uppsagnarfrests eigi hann samkvæmt þessu rétt til greiðslu á 1.663.899 krónum. Þá hafi hann átt inni orlofslaun vegna alls starfstíma síns hjá áfrýjanda, samtals 639.862 krónur, auk 200.832 króna vegna orlofsfjár af launum í uppsagnarfresti. Þessu til viðbótar hafi áfrýjanda borið að greiða orlofsuppbót að fjárhæð 15.860 krónur vegna tímabilsins frá 1. maí til loka ársins 2010 og 53.100 krónur í desemberuppbót fyrir sama ár. Við aðalmeðferð málsins í héraði lækkaði stefndi kröfu sína með tilliti til áðurnefndrar greiðslu frá áfrýjanda 1. nóvember 2010, en vegna reikniskekkju áfrýjanda í hag krafðist stefndi þess að honum yrði gert að greiða sér 2.274.247 krónur og var sú krafa tekin til greina með hinum áfrýjaða dómi.
II
Í málinu vísa aðilarnir hvor á annan um það hver samið hafi þann texta í uppsagnarbréfi stefnda frá 28. september 2010, sem greinir hér að framan, og að tilhlutan hvors það hafi verið gert. Jafnframt greinir þá á um merkingu þessa texta, nánar tiltekið hvort áfrýjandi teljist í skilningi bréfsins hafa verið „með samninga við“ þá eina, sem hafi gert við hann skriflega samninga um einkarétt til að selja vörur frá sér hér á landi, svo sem stefndi heldur fram, eða hvort átt hafi verið við alla þá erlendu vöruseljendur, sem áfrýjandi hafi verið í föstu viðskiptasambandi við, svo sem hann heldur fram. Hvað sem líður þessu ágreiningsefni verður að líta til þess að áfrýjandi hefur lagt fram samning sinn 1. október 2009 við erlent félag með heitinu Vistec Ltd., þar sem honum var veittur einkaréttur til að selja vörur frá því hér á landi næstu tvö árin. Einnig liggur fyrir kynningarefni, sem stefndi sendi í mars 2011 í þágu IceBox Company ehf. til nafngreinds erlends vörusala, en í því var meðal annars að finna talningu á þeim, sem félagið seldi vörur frá, og var Vistec Ltd. getið þar ásamt öðrum. Í skýrslu fyrir héraðsdómi gaf stefndi ekki aðra skýringu á þessu en þá að það hafi verið mistök af sinni hendi að tilgreina þetta erlenda félag í kynningarefninu. Stefndi hefur lagt fram yfirlýsingu frá fyrirtæki, sem veitir IceBox Company ehf. bókhaldsþjónustu, og er þar staðfest að samkvæmt bókhaldsgögnum félagsins hafi það ekki átt viðskipti við erlent félag með heitinu Vistec. Um þetta verður að gæta að því að eftir hljóðan uppsagnarbréfs stefnda 28. september 2010 sneri skuldbinding hans að því að hafa „ekki samband við þá birgja sem Egersund Ísland er með samninga við næstu 2 árin“, en ekki að því að hann myndi ekki stofna til viðskipta við þá. Fyrrgreind skýring stefnda á því hvernig atvikast hafi að Vistec Ltd. hafi ratað inn í talningu þeirra erlendu fyrirtækja, sem IceBox Company ehf. selji vörur frá, í áðurnefndu kynningarefni er með þeim hætti að stefnda hefði staðið næst að afla í málinu staðfestingar á réttmæti þessarar skýringar. Það hefur hann látið ógert. Að þessu virtu verður að leggja til grundvallar að stefndi hafi brotið gegn þeim skilmála, sem fram kom í uppsagnarbréfi hans og áfrýjandi vísaði sérstaklega til í fyrrnefndu bréfi 29. september 2010, og með því glatað rétti til launa í uppsagnarfresti ásamt orlofsfé af þeim, sem hann hefur gert kröfu um.
Eins og málið liggur fyrir verður ekki annað séð en að mismunur á þeim fjárhæðum, sem stefndi krefst að fá greiddar vegna orlofsuppbótar og desemberuppbótar, og þeim, sem áfrýjandi greiddi af sömu sökum 1. nóvember 2010, eigi rætur að rekja til tímabilsins frá 1. október til 31. desember sama ár. Með því að hafnað er samkvæmt framansögðu kröfu stefnda um laun í uppsagnarfresti á því tímabili verður jafnframt að hafna þessum liðum í dómkröfu hans.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum virðist áfrýjandi hafa greitt stefnda 1. nóvember 2010 fyrir þann fjölda klukkustunda, sem áfrýjandi teldi stefnda hafa öðlast rétt til orlofslauna fyrir á yfirstandandi orlofsári. Gögn málsins eru á hinn bóginn óskýr um hvort þetta uppgjör hafi verið rétt og hvort stefndi hafi að auki átt ógreidd orlofslaun vegna fyrra tímabils. Reifun málsins að þessu leyti hefur verið ófullnægjandi af hendi beggja aðila. Að því virtu verður að vísa frá héraðsdómi þessum lið í dómkröfu stefnda.
Eftir þessum úrslitum verður stefnda gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Kröfulið stefnda, Björns Jóhannssonar, um orlofslaun úr hendi áfrýjanda, Egersund Ísland ehf., er vísað frá héraðsdómi.
Að öðru leyti er áfrýjandi sýkn af kröfu stefnda.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. maí 2012.
Mál þetta, sem var dómtekið 3. maí sl., var höfðað 15. júní 2011.
Stefnandi er Björn Jóhannsson, Tröllateigi 49, Mosfellsbæ.
Stefndi er Egersund Ísland ehf., Hafnargötu 2, Eskifirði.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða honum vangoldin laun og orlof að fjárhæð 2.274.247 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 554.633 krónum frá 1. nóvember 2010 til 1. desember 2010 og frá þeim degi af 1.109.266 krónum til 1. janúar 2011 og frá þeim degi af 2.274.247 krónum til greiðsludags. Þess er krafist, að dæmt verði, að dráttarvextir skuli leggjast við höfuðstól á tólf mánaða fresti í fyrsta sinn þann 1. nóvember 2011 en síðan árlega þann dag. Þá er krafist málskostnaðar, auk vaxta af málskostnaði samkvæmt 3. kafla laga nr. 38/2001 frá 15. degi eftir uppkvaðningu dóms til greiðsludags. Einnig er krafist virðisauka af málskostnaði þar sem stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur.
Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfu stefnanda, en til vara verulegrar lækkunar. Þá krefst hann í báðum tilvikum málskostnaðar úr hendi stefnanda.
I
Mál þetta hefur stefnandi höfðað til heimtu vangoldinna launa og orlofs. Málsatvik eru þau að stefnandi, hóf störf hjá stefnda í október 2009 og starfaði sem sölumaður á starfsstöð stefnda að Sundaborg 1 í Reykjavík. Umsamin mánaðarlaun stefnanda voru 461.250 krónur, auk fastra bifreiðahlunninda 93.383 krónur, eða samtals 554.633 krónur á mánuði.
Stefnandi sagði upp störfum með tölvupósti, dags. 20 september 2010, og skilaði bifreið þeirri er hann hafði til umráða til stefnda daginn eftir, samkvæmt samkomulagi aðila. Stefnandi afhenti stefnda í kjölfar þessa uppsagnarbréf, dags. 28. september 2010. Samhliða uppsögn tók stefnandi á sig skyldur á uppsagnarfresti með svohljóðandi ákvæði: „Jafnframt uppsögninni skuldbindur undirritaður sig til þess að hafa ekki samband við þá birgja sem Egersund Ísland er með samninga við næstu 2 árin.“
Móttaka uppsagnar stefnanda var staðfest með bréfi, dags. 29. september 2010. Samkvæmt því var ekki óskað vinnuframlags stefnanda á uppsagnarfresti. Þá var staðfest að stefndi myndi greiða mánaðarlega út laun á uppsagnartímanum, svo framarlega sem stefnandi stæði við það sem fram kæmi í uppsagnarbréfi hans.
Stefndi telur að stefnandi hafi brotið gegn framangreindu ákvæði starfslokasamnings síns og hefur því ekki greitt honum laun á uppsagnarfresti.
Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi skýrslu, auk Benedikts Ernis Stefánssonar, sölu- og innkaupastjóra stefnda.
II
Stefnandi byggir kröfu sína á því að við uppsögn hans hafi hann áunnið sér þriggja mánaða uppsagnarfrest sem miðist við mánaðamót og sé uppsagnarfrestur því október, nóvember og desember 2010. Þegar honum hafi engin laun verið greidd vegna október 2010 hafi hann haft samband við stefnda sem hafi tjáð honum að vegna meintra brota hans gegn fyrirtækinu á uppsagnarfresti væri það ákvörðun stefnda að greiða engin laun á uppsagnarfresti.
Í kjölfar þessa hafi stefnandi leitað aðstoðar VR við innheimtu vangoldinna launa. Á fundi starfsmanna VR með stefnda hafi stefndi greint frá því að hann hefði undir höndum tölvuskeyti, dags. 8. og 18. október 2010, þar sem fram komi að stefnandi hafði óskað eftir vöru- og verðlista frá hinu erlenda félagi The Blue Line. Starfsmenn VR hafi ítrekað skorað á fyrirsvarsmenn stefnda að leggja fram gögn um samband stefnda við félagið The Blue Line. Ekki hafi verið orðið við þeim áskorunum. Stefnandi hafi því á engan hátt brotið gegn þeirri skuldbindingu sinni á uppsagnarfresti „að hafa ekki samband við birgja sem Egersund Ísland er með samninga við“ enda sé ekkert samningssamband milli stefnda og The Blue Line. Þar sem stefnandi hafi staðið við þær skuldbindingar er hann hafi tekið á sig samhliða uppsögn sé stefnda óheimilt að halda eftir launagreiðslum stefnanda.
Samkvæmt gr. 1.9 í kjarasamningi VR og SA sem gildi frá febrúar 2008 eigi laun að greiðast fyrsta dag eftir að þeim mánuði ljúki sem laun séu greidd fyrir. Þá beri vinnuveitanda að greiða áunnin orlofslaun við lok ráðningartímans samkvæmt 8. gr. orlofslaga nr. 30/1987, auk þess að greiða áunnið hlutfall launþega af orlofs- og desemberuppbótum samkvæmt köflum 1.3.1 og 1.3.2 í kjarasamningi VR og SA.
Stefnandi krefjist greiðslu vangoldinna launa á uppsagnarfresti sem sé október, nóvember og desember 2010. Þá sé einnig krafist uppgjörs vangoldins orlofs stefnanda en samkvæmt launaseðli, dags. 30. september 2010, sé áunninn orlofsréttur 188,28 klst. eða 25 dagar (188,28 klst./7.5 klst.) og nemi orlofslaun stefnanda vegna framangreinds tímabils 639.862 krónum (mánaðarlaun 554.633 krónur/21,67 = daglaun 25.595 krónur X 25 dagar). Einnig sé krafist orlofs á vangoldin laun stefnanda á uppsagnarfresti, en umsamið orlof sé 12,07%, sbr. launaseðla, og nemi það 66.944 krónum á mánuði í þrjá mánuði, alls 200.832 krónum. Loks sé krafist uppgjörs orlofs og desemberuppbóta samkvæmt kjarasamningum.
Krafa stefnanda sundurliðist með eftirfarandi hætti:
|
Laun vegna október 2010 |
|
|
|
|
554.633 |
kr. |
||
|
Laun vegna nóvember 2010 |
|
|
|
|
554.633 |
kr. |
||
|
Laun vegna desember 2010 |
|
|
|
|
554.633 |
kr. |
||
|
Orlof sbr. launaseðil 30.09.2010 |
|
|
|
|
639.862 |
kr. |
||
|
12,07% orlof á laun á uppsagnarfresti |
|
|
|
|
200.832 |
kr. |
||
|
Orlofsuppbót v/ 1. maí - 31. des. 2010 (36,6 vikur) |
|
|
15.860 |
kr. |
||||
|
Desemberuppbót ársins 2010 |
|
|
53.100 |
kr. |
||||
|
Samtals |
|
|
|
|
|
|
2.573.553 |
kr. |
Lögmaður stefnanda hafi þann 28. febrúar 2011 sent innheimtubréf til stefnda. Kröfum stefnanda hafi verið hafnað með tölvupósti lögmanns stefnda 22. mars 2011. Þar sem innheimtutilraunir hafi ekki borið árangur sé málshöfðun nauðsynleg og sé farið fram á ítrustu kröfur samkvæmt lögum og kjarasamningum.
Stefnandi kveðst styðja kröfur sínar við lög nr. 28/1930 um greiðslu verkkaups, lög nr. 30/1987 um orlof, meginreglur kröfuréttar, meginreglur vinnuréttar, kjarasamninga VR, vinnuveitenda og bókanir sem teljast hluti kjarasamninga. Kröfu um dráttarvexti og vaxtavexti styðji stefnandi við reglur III. og V. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Kröfu um málskostnað styðji stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 4. mgr. 129. gr. um vexti af málskostnaði. Einnig sé krafist virðisaukaskatts af málskostnaði þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur. Mál þetta sé höfðað á launavarnarþingi, en stefnandi hafi innt störf sína af hendi í Reykjavík og sé málið höfðað í þeirri þinghá, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga nr. 91/1991.
III
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi, með ólögmætum hætti, brotið skyldur sínar samkvæmt starfslokasamningi gagnvart stefnda, er hann að eigin frumkvæði, án vitundar eða heimildar stefnda, hafi leitað til birgja og viðskiptavina stefnda með það að markmiði að koma á viðskiptasambandi og valda stefnda þannig tjóni. Þrátt fyrir að stefndi hafi ekki óskað eftir vinnuframlagi stefnanda á uppsagnarfresti hafi trúnaðarskyldur verið í fullu gildi. Stefnanda hafi verið óheimilt að ræða við birgja í tvö ár frá starfslokum. Ekki hafi verið liðinn mánuður frá því að stefnandi hafi hætt störfum þangað til sýnt hafi verið fram á að hann hafði brotið gegn ákvæðum samningsins og það á uppsagnarfresti.
Þann 25. október 2010 hafi forsvarsmenn Brdr. Markussen A/S (The Blue Line) haft samband við stefnda og upplýst um að stefnandi hefði haft samband við þá í gegnum fyrirtæki sitt, Cool Blue Box Company. Framlagðir tölvupóstar staðfesti að slík samskipti hafi átt sér stað. Í svarbréfi forsvarsmanna Brdr. Markussen A/S til stefnanda komi fram að fyrirtækið ætli sér að halda áfram áralöngum viðskiptum við traustan viðskiptavin sinn hér á landi.
Þá hafi forsvarsmenn stefnda haft veður af því í viðskiptaferð í Þýskalandi í nóvember 2010 að stefnandi hafi haft samband við fyrirtækið Fender Team í Þýskalandi. Til hafi staðið af hálfu stefnda að framlengja samning við fyrirtækið, en samningur til eins árs hafi átt að renna út um áramótin 2010/2011. Sá samningur hafi ekki verið framlengdur.
Með tölvuskeytum, dags. 21. júlí 2011, hafi forsvarsmaður Euronete, sem sé í viðskiptum við stefnda, upplýst hann um að stefnandi hefði ítrekað reynt að koma á viðskiptasambandi við Euronete. Stefnandi hefði sent forsvarsmönnum Euronete upplýsingar um félag hans, Cool Blue Box Company. Þar segi meðal annars að meðal viðskiptavina félagsins sé Vistec Ltd., en stefndi sé með umboðssamning við það félag um einkasölu á vörum þess á Íslandi. Þá sé þar jafnframt að finna fyrirtækið Scanmarc Trating A/S, sem eigi í viðskiptum við stefnda. Ljóst sé af framangreindu að stefnandi hafi margítrekað brotið gegn ákvæðum starfslokasamnings við stefnda.
Í trúnaðarskyldu samkvæmt vinnusamningi felist að eigin hagsmunir ráði ekki einhliða athöfnum eða athafnaleysi í samningssambandinu heldur verði að taka tillit til hagsmuna viðsemjandans. Sú trúnaðarskylda vari meðan á vinnusambandi og uppsagnarfresti standi sem og á meðan ákvæði starfslokasamnings séu í gildi. Stefnanda hafi borið að virða samkomulagið. Brot hans hafi verið það alvarlegt að stefnda hafi verið heimilt að rifta starfslokasamningi einhliða og bótalaust.
Stefnanda hafi mátt vera fullljóst að með háttalagi sínu hafi hann brotið gegn hagsmunum stefnda og unnið honum tjón. Þá hafi stefnanda ekki getað dulist að slík háttsemi væri ósamrýmanleg trúnaðarskyldum hans við stefnda, sem að öllu leyti stóð við ákvæði samningsins. Með þessu hafi stefnandi því fyrirgert rétti sínum til frekari launa úr hendi stefnda og beri því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Til vara krefjist stefndi þess, komist dómari að þeirri niðurstöðu að stefnandi eigi rétt á launum úr hendi stefnda, að kröfur stefnanda verði verulega lækkaðar. Stefndi hafi greitt stefnanda orlofsgreiðslur að fjárhæð 278.351 króna, orlofsuppbót að fjárhæð 8.125 krónur og desemberuppbót að fjárhæð 39.825 krónur. Þá hafi stefndi jafnframt staðið skil á öllum opinberum gjöldum. Þess sé til vara krafist að þessar greiðslur verði dregnar frá kröfu stefnanda.
Stefndi vísi til ákvæða laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sem og meginreglna vinnuréttar. Krafa stefnda um málskostnað eigi sér grundvöll í XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
IV
Stefnandi krefst í máli þessu greiðslu launa og orlofs á uppsagnarfresti. Stefnandi sagði upp störfum hjá stefnda í september 2010. Óumdeilt er að hann átti þá rétt til þriggja mánaða uppsagnarfrests. Stefndi hefur hafnað kröfu stefnanda um laun á uppsagnarfresti þar sem hann hafi brotið skyldur sínar samkvæmt starfslokasamningi um að hafa ekki samband við birgja, sem stefndi er með samninga við, í tvö ár frá uppsögn.
Við uppsögn stefnanda skrifaði hann undir samkomulag við stefnda með ákvæði þar sem hann skuldbatt sig til þess að hafa ekki samband næstu tvö árin við þá birgja sem stefndi var með samninga við. Samkvæmt orðalagi samningsins var ekki um að ræða alla birgja stefnda heldur einungis þá sem stefndi hafði gert samninga við. Fyrir dómi skýrðu stefnandi og Benedikt Ernir Stefánsson, sölu- og innkaupastjóra stefnda, báðir svo frá að í sumum tilvikum væru gerðir umboðssölusamningar við birgja, en í öðrum tilvikum væri birgjar í viðskiptum við marga aðila. Ef gerður væri umboðssölusamningur við birgja mætti enginn annar kaupa af honum og selja vörur hans á sama markaði. Ef slíkur samningur væri ekki í gildi væri öðrum einnig heimilt að kaupa vörurnar. Ákvæðið í samkomulagi aðila er íþyngjandi fyrir stefnanda. Verður það því ekki túlkað víðar en orðalag þess gefur til kynna og verður fallist á það með stefnanda að ákvæðið nái einungis til þeirra birgja sem stefndi hefur gert umboðssölusamninga við. Hafi ákvæðið átt að hafa víðtækari áhrif bar stefnda að sjá til þess með orðalagi sem gæfi það skýrt til kynna.
Stefndi telur að stefnandi hafi brotið gegn framangreindu ákvæði samkomulags þeirra með því að hafa samband við félögin Blue Line, Euronete, Fender Team, Vistec Ltd. og Scanmark Trating A/S. Ágreiningslaust er að af þessum félögum var stefndi einungis með umboðssölusamning við félagið Vistec Ltd. Samskipti hans við önnur félög teljast því ekki brot á samkomulaginu. Brot vegna Vistec Ltd. byggja stefndu á því að í kynningarefni um félag í sinni eigu, Cool Blue Box Company, sem stefnandi sendi Euronete komi fram að meðal birgja þeirra sé félagið Vistec Ltd. í Úkraínu. Stefnandi skýrði frá því fyrir dóminum að hann hefði gert mistök við gerð lista yfir birgja. Hann hafi ekki átt í neinum samskiptum við þetta félag. Þá hefur hann lagt fram yfirlýsingu sem undirrituð er af Sigurjóni Bjarnasyni, bókara og höfundi ársreikninga IceBox Company ehf., félags stefnanda, þar sem fram kemur að af bókhaldsgögnum félagsins sjáist ekki að félagið hafi átt nokkur viðskipti við félag að nafni Vistec. Þá sjáist ekki af gögnum félagsins að viðskiptasamband hafi stofnast á milli þessara aðila á árunum 2010 eða 2011. Með því að ekki er að finna í gögnum málsins neitt sem bendir til þess að stefnandi hafi átt einhver samskipti við Vistec Ltd. verður ekki talið að stefndi hafi sannað að stefnandi hafi brotið gegn samkomulagi aðila.
Samkvæmt framangreindu þykir ekki sannað að stefnandi hafi brotið skyldur sínar samkvæmt starfslokasamningi um að hafa ekki samband við birgja, sem stefndi er með samninga við, í tvö ár frá uppsögn og verður því fallist á kröfur hans. Ekki er ágreiningur um fjárhæð kröfunnar að öðru leyti en því að stefndi hefur krafist lækkunar hennar vegna innborgunar. Stefnandi lækkaði kröfur sínar vegna innborgunarinnar við aðalmeðferð málsins. Þá hélt lögmaður stefnda því fram við aðalmeðferð málsins að bifreiðahlunnindi skyldu falla niður á uppsagnarfresti, en stefnandi hafi einungis átt rétt til launa á uppsagnarfresti. Stefnandi andmælti þessari nýju málsástæðu ekki sem of seint fram kominni, en hélt því fram að bifreiðahlunnindi skyldu fylgja laununum. Líta verður svo á að varnaraðili hafi með þessu samþykkt að þessi málsástæða komist að í málinu. Fyrir liggur að umrædd bifreiðahlunnindi voru hluti af ráðningarkjörum stefnanda hjá stefnda og hann greiddi skatta af þeim. Verða þessi réttindi stefnanda ekki rýrð á uppsagnarfresti, en ekkert liggur fyrir um annað en að hann hefði notið þessara hlunninda hefði hann unnið á uppsagnarfresti. Verður því fallist á greiðslu vegna bifreiðahlunninda á uppsagnarfresti.
Í ljósi framangreinds er það niðurstaða dómsins að krafa stefnanda verði tekin til greina. Rétt stefnanda til höfuðstólsfærslu dráttarvaxta á tólf mánaða fresti má leiða beint af ákvæðum 12. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Það er því óþarft að kveða á um slíka höfuðstólsfærslu í dómsorði.
Stefnandi verður, með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 450.000 krónur. Stefnandi hefur krafist þess að dæmt verði að málskostnaður beri dráttarvexti frá 15. degi eftir uppkvaðningu dóms til greiðsludags. Rétt til dráttarvaxta á málskostnað má leiða af ákvæði 4. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og er óþarfi að kveða á um hann í dómsorði.
Barbara Björnsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan dóm.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Egersund Ísland ehf., greiði stefnanda, Birni Jóhannssyni 2.274.247 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 554.633 krónum frá 1. nóvember 2010 til 1. desember 2010, en frá þeim degi af 1.109.266 krónum til 1. janúar 2011 og frá þeim degi af 2.274.247 krónum til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 450.000 krónur í málskostnað.