Hæstiréttur íslands

Mál nr. 201/2016

A (Flosi Hrafn Sigurðsson hdl.)
gegn
Barnaverndarnefnd B (Ása A. Kristjánsdóttir hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Börn
  • Dómkvaðning matsmanns

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A um dómkvaðningu matsmanns í máli sem B höfðaði á hendur henni í því skyni að svipta hana forsjá þriggja barna sinna. Með vísan til þess að í málinu lágu fyrir nýleg sérfræðigögn um forsjárhæfni A var talið að matsgerð sú sem hún hygðist afla myndi vera tilgangslaus til sönnunar. Þá vísaði Hæstiréttur til þess að málið sætti flýtimeðferð samkvæmt 53. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og að samkvæmt 1. mgr. 54. gr. sömu laga skyldi kveðja sérfróða meðdómsmenn til setu í dómi við meðferð málsins.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. mars 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. febrúar 2016 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að dómkvaddur verði matsmaður til að veita svör við spurningum í matsbeiðni sóknaraðila. Þá krefst hann kærumálskostnaður úr hendi varnaraðila eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en með gjafsóknarleyfi 17. mars 2016 var sóknaraðila veitt gjafsókn til þess að kæra úrskurðinn til Hæstaréttar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Í málinu liggur fyrir ítarleg sálfræðileg álitsgerð 25. nóvember 2015 á forsjárhæfni sóknaraðila, en haft var samráð við hana við val á sálfræðingnum sem gerði rannsóknina. Álitsgerðin ber með sér að til grundvallar niðurstöðunni liggja fjölþætt próf og rannsóknir á heilsu sóknaraðila, stöðu hennar og högum. Þá ber að líta til þess að mál þetta sætir flýtimeðferð samkvæmt 53. gr. b. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Ennfremur liggur fyrir að samkvæmt 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga skal kveðja sérfróða meðdómsmenn til setu í dómi við meðferð málsins og að heimild stendur til eftir reglum réttarfarslaga að taka skýrslur fyrir dómi og leggja þar fram frekari gögn. Að þessu virtu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur en um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 200.000 krónur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. febrúar 2016.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 23. febrúar sl., var höfðað með stefnu útgefinni 5. febrúar og þingfestri 9. febrúar sl. af stefnanda, Barnaverndarnefnd B á hendur A, kt. [...], [...], [...].

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði svipt forsjá barnanna C, kt. [...], D, kt. [...] og E, kt. [...].

Stefnda krefst sýknu af kröfum stefnanda.

Í þinghaldi þann 23. febrúar sl. lagði stefnda fram beiðni um að matsmaður yrði dómkvaddur til að meta eftirfarandi þætti:

  1. Forsjárhæfni matsbeiðanda, þ.á.m. helstu persónueinkenni hennar, tilfinningaástand og tengslahæfni og jafnframt hvort matsbeiðandi sé ófær um að sinna daglegri umönnun og uppeldi barna matsbeiðanda með hliðsjón af aldri þeirra og þroska

  2. Hvernig háttað sé andlegri heilsu og hvort líklegt sé að matsbeiðandi sé ófær um að annast börn sín eða að börnunum sé hætta búin vegna andlegrar vanheilsu eða geðsjúkdóms matsbeiðanda.

  3. Hvernig háttað er tilfinningalegu sambandi og tengslum milli matsbeiðanda og barna hennar og hver skilningur matsbeiðanda á þörfum þeirra er.

  4. Hvort fullvíst sé að líkamlegri og andlegri heilsu barnanna eða þroska þeirra sé hætta búin fari matsbeiðandi með forsjá barnanna sökum andlegrar eða líkamlegrar vanheilsu matsbeiðanda eða hvort breytni matsbeiðanda sé líkleg til að valda börnunum alvarlegum skaða.

  5. Hvernig hæfni og getu matsbeiðanda til þess að nýta sér meðferð og stuðningsúrræði sé háttað.

  6. Hvort önnur úrræði en forsjársvipting gætu komið að gagni til að tryggja velferð barna matsbeiðanda.

  7. Hvort að forsjársvipting sé tímabær eða hvort rétt sé að gefa móður lengri tíma til að ná sér, með hagsmuni barnanna í huga.

    Stefnandi mótmælir því að fallist verði á beiðni stefndu um dómkvaðningu matsmanns. Vísar stefnandi til þess að fyrir liggi nýleg matsgerð sálfræðings frá 25. nóvember 2015, sem aflað hafi verið í tengslum við mál stefndu og með hennar samþykki. Þar sé m.a. byggt á læknisfræðilegum gögnum sem engu muni breyta við nýtt mat að því virtu að nýr matsmaður mun byggja á sömu gögnum og byggt sé á í fyrra matinu.

    Í gögnum málsins liggja fyrir tvö læknisvottorð vegna áfalla stefndu og afleiðinga þess. Læknisvottorði F frá 30. júlí 2015 og taugasálfræðimat G, sérfræðings í klínískri taugasálfræði. Í niðurstöðum G segir að stefnda sé greind með heilabilun, sem að öllum líkindum sé afleiðing slags sem hún fékk árið 2011, sem að hennar sögn hafi stafað af notkun Norplant getnaðarvarnarinnar.

Þann 8. október 2015 hóf H sálfræðingur vinnu við að gera forsjárhæfnimat á stefndu með samþykki stefndu. Átti m.a. að meta greindarfarslega stöðu móður, tengsl móður við börnin, aðbúnað barnanna á heimili móður, andlegt heilsufar móður og áhrif þess á umönnun barnanna, innsæi móður til að styrkja og mæta þörfum barna sinna og getu til að sinna þeim þörfum. Getu móður til að veita börnum sínum þá athygli og örvun sem þeim sé nauðsynleg. Getu móður til að sinna daglegum þörfum barna sinna. Möguleika móður á að nýta sér aðstoð byggða á leiðbeiningum og kennslu og stuðningsnet móður og viðhorf hennar til stuðningsaðila. Við matið var persónuleikaprófið Peronality Assessment Inventory (PAI) lagt fyrir stefndu. Byggði matsmaður niðurstöður sínar í matsgerðinni á gögnum málsins, niðurstöðum persónuleikaprófsins, viðtali við stefndu, börnin og fyrrum eiginmann, heimsóknum á heimili foreldra og læknisvottorðum sem greint er frá að framan. Lá niðurstaða hennar fyrir 25. nóvember sl.

Matsbeiðandi krefst þess nú að dómkvaddur verði einn óvilhallur matsmaður til að meta nánar tilgreind atriði sem sett eru fram í matsbeiðninni. Telur matsbeiðandi nauðsynlegt að nýtt mat fari fram á stefndu og börnunum, þrátt fyrir fyrirliggjandi mat þar sem ekki hafi verið um dómkvaddan matsmann að ræða. Hennar réttur sé að afla sönnunargagna m.a. matsgerðar sbr. IX. kafli laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, kröfum sínum til stuðnings

Matsþoli krefst þess að hafnað verði kröfu matsbeiðanda um að dómkvaddur verði matsmaður til að framkvæma mat á forsjárhæfni stefndu. Ítarleg gögn liggi fyrir um andlega og líkamlega heilsu matsbeiðanda og gögn málsins séu nýleg og nýtt mat muni byggja á sömu læknisfræðilegu gögnum og því vera tilgangslaust við úrlausn málsins.

Samkvæmt 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 getur dómari meinað aðila um sönnunarfærslu ef hann telur bersýnilegt að atriði sem aðili vill sanna skipti ekki máli eða gagn sé tilgangslaust til sönnunar. Sé ekki svo ástatt sem greinir í ákvæðinu er ekki girt fyrir að til viðbótar eldri matsgerðum, skýrslum eða greinargerðum sérfræðinga sé aflað nýrrar matsgerðar sem taki til annarra atriða en þær sem liggja fyrir í málinu.

Spurningar þær sem matsbeiðandi óskar eftir að verði svarað eru efnislega þær sömu og þegar hefur verið lagt mat á í forsjárhæfnimati H sálfræðings og er nú þriggja mánaða gamalt. Eru spurningar þessar því tilgangslausar til sönnunar þeim atriðum sem tiltekin eru í matsbeiðni, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Verður fallist á með stefnanda að um nýtt mat sé að ræða um sömu efnisatriði, án þess að veruleg breyting hafi orðið á högum sóknaraðila, sem sé tilgangslaust til sönnunar um forsjárhæfni hennar og önnur atriði sem í matsbeiðni greinir. Verður því kröfu matsbeiðanda um að dómkvaddur verði matsmaður til að framkvæma nýtt mat á forsjárhæfni matsbeiðanda hafnað.

Úrskurðinn kveður upp Ástríður Grímsdóttir héraðsdómar.

Ú r s k u r ð a r o r ð.

Krafa stefndu um að dómkvaddur verði matsmaður til að meta ofangreindar spurningar og forsjárhæfi aðila er hafnað.