Hæstiréttur íslands

Mál nr. 200/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárslit milli hjóna


Miðvikudaginn 8

 

Miðvikudaginn 8. maí 2002.

Nr. 200/2002.

Ólafur Elías Oddsson

(Árni Grétar Finnsson hrl.)

gegn

Önnu Rögnu Alexandersdóttur

(Svala Thorlacius hrl.)

 

Kærumál. Fjárslit milli hjóna.

A og Ó greindi á um hvort beitt skyldi helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 við opinber skipti til fjárslita milli þeirra. Hjúskapur þeirra var skammur í skilningi í 1. mgr. 104. gr. laganna og sýnt þótti að A hefði lagt fram verulega miklu meiri verðmæti við hjúskaparstofnun, í skilningi 1. mgr. 104. gr. Með vísan til þess ákvæðis þótti A því eiga rétt á að fá utan skipta tilgreinda fjárhæð sem hún hafði lagt af mörkum við fasteignarkaup aðila.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. apríl 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. apríl 2002, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að hún fengi að halda utan skipta nánar tilgreindum verðmætum við opinber skipti til fjárslita milli hennar og sóknaraðila vegna hjónaskilnaðar. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að framangreindri kröfu varnaraðila verði hafnað, varakröfu hennar í héraði verði vísað frá héraðsdómi og mælt verði fyrir um að beita skuli helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 við fjárslit milli aðilanna. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest sú niðurstaða héraðsdómara að varnaraðili eigi með vísan til 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga rétt á að fá utan skipta við fjárslit milli sín og sóknaraðila 7.008.986 krónur, sem hún lagði af mörkum til kaupa á fasteigninni Svalbarði 13 í Hafnarfirði með samningi 30. október 1997. Í hinum kærða úrskurði var kveðið á um að varnaraðili skyldi fá þessa fjárhæð með verðbótum til samræmis við breytingar á vísitölu neysluverðs á tímabilinu frá síðastgreindum degi til 2. mars 2000, en þann dag leitaði hún skilnaðar að borði og sæng við sóknaraðila. Ákvörðun héraðsdóms um þessa verðtryggingu átti sér ekki nægilega stoð í málatilbúnaði varnaraðila. Þegar af þeirri ástæðu voru ekki skilyrði til að kveða á um verðtryggingu þessa. Samkvæmt því verður hinn kærði úrskurður staðfestur á þann hátt, sem í dómsorði greinir.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Við opinber skipti til fjárslita milli sóknaraðila, Ólafs Elíasar Oddssonar, og varnaraðila, Önnu Rögnu Alexandersdóttur, á varnaraðili rétt á að fá greiddar utan skipta 7.008.986 krónur. Að öðru leyti fer um fjárslitin samkvæmt því, sem segir í 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað er staðfest.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 75.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. apríl 2002.

I.

Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 27. febrúar sl., var þingfest fyrir dóminum 18. september 2001.

Sóknaraðili er Anna Ragna Alexandersdóttir, kt. 031052-2979, Ránargötu 1a, Reykjavík

Varnaraðili er Ólafur Elías Oddsson, kt. 140147-2229, Mjósundi 3, Hafnarfirði.

Sóknaraðili gerir aðallega þær dómkröfur að við opinber skipti til fjárslita milli aðila verði vikið frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 með vísan til 1. mgr. 104. gr. laga nr. 31/1993 og að sóknaraðila verði heimilað að taka að óskiptu eignir eða verðígildi eigna, samtals að fjárhæð 12.830.633 krónur, auk hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. að nafnvirði 58.342 krónur og hlutabréfa í Búnaðarbanka Íslands hf. að nafnvirði 3.760 krónur.

Til vara krefst sóknaraðili þess að við opinber skipti til fjárslita milli aðila verði vikið frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, með vísan til 1. mgr. 104. gr. laga nr. 31/1993 og að henni verði heimilað að taka samkvæmt mati dómsins að óskiptu eignir eða verðígildi eigna sem hún flutti í búið.

Til þrautavara krefst sóknaraðili þess að við opinber skipti til fjárslita milli aðila, verði vikið frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, með vísan til meginreglu 4. tl. 1. mgr. 102. gr. laga nr. 31/1993 og undir skiptin komi ekki tjónabætur sóknaraðila sem greiddar hafi verið í nóvember 1995, samtals að fjárhæð 2.837.700 krónur, auk verðbóta miðað við breytingar á vísitölu neysluverðs frá nóvember 1995 til greiðsludags.

Sóknaraðili krefst í öllum kröfuliðum málskostnaðar úr hendi varnaraðila samkvæmt málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins, auk virðisaukaskatts.

Varnaraðili gerir þær dómkröfur að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað, þó þannig að aðallega er krafist frávísunar varakröfu sóknaraðila, en til vara að henni verði hafnað.  Þá gerir varnaraðili þá kröfu, að mælt verði fyrir um að beita skuli helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 við opinber skipti til fjárslita milli sóknaraðila og varnaraðila.  Loks krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að skaðlausu, að viðbættum virðisaukaskatti.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, uppkveðnum 1. september 2000, var mælt fyrir um opinber skipti til fjárslita milli hjónanna Önnu Rögnu Alexandersdóttur og Ólafs Elíasar Oddsonar, aðila þessa máls og Steinunn Guðbjartsdóttir hdl. skipuð skiptastjóri.

Á skiptafundi 26. mars 2001 varð endanlega ljóst að ágreiningur sá sem hér hefur verið lagður fyrir dóminn myndi ekki verða leystur fyrir milligöngu skiptastjóra og var því ákveðið að skjóta ágreiningnum til úrlausnar dómsins.  Skaut skiptastjóri málinu til Héraðsdóms Reykjaness með bréfi þann 26. mars 2001 samkvæmt heimild í 122. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., sbr. XVII. kafla sömu laga.

Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilar skýrslur en vitni voru ekki leidd. 

 

Málsatvik.

Aðila máls þessa greinir mjög á um málsatvik.

Í greinargerð sóknaraðila er málsatvikum lýst á þann veg að sóknaraðili hafi skilið við fyrri mann sinn árið 1996 eftir 24 ára hjónaband og eigi hún með honum tvö börn.  Hafi þau hjón rekið saman um 10 ára skeið veitingastaðinn Singapore í Hafnarfirði og hafi hann verið matreiðslumaður en hún séð um framreiðslu, innkaup og annað viðkomandi rekstri staðarins.  Við skilnaðinn hafi komið í hennar hlut fasteignin að Klapparholti 12 í Hafnarfirði, tvær bifreiðar að takmörkuðu verðmæti, innbú og hluti í einkahlutafélögunum Sjávarlíf ehf. og Gróanda ehf.  Hafi síðarnefnda félagið verið rekstraraðili veitingahússins Singapore en hið síðarnefnda hafi verið stofnað til að sjá um innflutning fyrir hið síðarnefnda.  Eignir sóknaraðila um áramótin 1996/1997 hafi meðal annars verið áðurgreind íbúð að Klapparholti 12, Hafnarfirði og hlutafé í ofangreindum fyrirtækjum eins og sjáist af framlögðum skattframtölum.  Kveður sóknaraðili sig hafa fjármagnað kaup fasteignarinnar að miklu leyti með slysabótum sem hún hafi fengið árið 1995, en þær hafi numið tæplega 3 milljónum króna með vöxtum. 

Varnaraðili hefur mótmælt því sem ósönnuðu að nefndar slysabætur hafi gengið til kaupa á fasteigninni að Klapparholti 12.

Kveður sóknaraðili að kynni hafi tekist með aðilum um það leyti sem hún hafi verið að skilja við fyrri mann sinn eða haustið 1996.  Hafi samband aðila og tengsl verið mjög lausleg í fyrstu en hafi vaxið smám saman.  Varnaraðili hefur haldið því fram kynni aðila hafi frá upphafi verið náin og að sambúð aðila hafi hafist að Klapparholti 12, Hafnarfirði strax haustið 1996 en því hefur sóknaraðili hafnað og kveður þau ekki hafa hafið sambúð fyrr en í nóvember 1998.

Óumdeilt er að varnaraðili lenti í slysi í Svíþjóð fyrir kynni aðila og fær vegna þeirrar örorku sem hann þá hlaut, mánaðarlegar greiðslur frá því landi.  Varnaraðili átti við upphaf kynna aðila félagslega íbúð að Flétturima 20, Reykjavík og fólksbifreið og festi síðar kaup á jeppabifreið.  Átti hann ennfremur 5,55% eignarhlut í fasteigninni Heiðargerði 6 á Akranesi sem hann mun hafa fengið í arf fyrir kynni aðila.

Sóknaraðili kveður að í aprílmánuði 1997 hafi hún látið undan þrýstingi sóknaraðila og selt honum hlut sinn í Sjávarlífi ehf.  Varnaraðili hefur alfarið hafnað því að hann hafi beitt nokkrum þrýstingi og um eðlileg og þvingunarlaus viðskipti hafi verið að ræða.  Hvað sem líður ágreiningi aðila um það hvernig viðskipti tókust milli þeirra, liggur fyrir í gögnum málsins að varnaraðili keypti öll hlutabréf í Sjávarlífi ehf. með kaupsamningi dagsettum 2. apríl 1997.  Umsamið kaupverð var 100.000 krónur og seljendur voru, auk varnaraðila, sem átti 50% hlut, hjónin Sveindís Alexandersdóttir og Guðmundur Óskarsson.  Kveður sóknaraðili að varnaraðili hafi greitt nefndum hjónum fyrir þeirra hlut í félaginu en hún hafi aldrei fengið greiðslu vegna síns hlutar.  Þann  28. nóvember 1998 framseldi varnaraðili sóknaraðila 25% hlut í nefndu félagi.  Hefur varnaraðili haldið því fram að með því framsali hafi hann talið að skuld sín við sóknaraðila vegna viðskiptanna væri að fullu uppgerð. 

Á árinu 1997 mun varnaraðili hafa keypt þriðjungs hlut í Gróanda ehf. af þriðja manni.

Í júlí 1997 kaupa aðilar saman tjaldvagn í eignarhlutföllunum 1/3 (varnaraðili) og 2/3 (sóknaraðili). 

Með kaupsamningi dagsettum 30. október 1997 selur sóknaraðili fasteign sína að Klapparholti 12, Hafnarfirði.  Var söluverð eignarinnar 11.500.000 krónur og voru 5.526.000 krónur greiddar með hlut í fasteigninni Svalbarð 13 Hafnarfirði, 1.482.986 krónur með fasteignaveðbréfi, skiptanlegu fyrir húsbréf og 4.491.014 krónur með yfirtöku áhvílandi veðskulda.  Þann sama dag gera aðilar þessa máls kaupsamning um fasteignina Svalbarð 13.  Kaupverð eignarinnar var 13.800.000 krónur og voru 5.526.000 krónur greiddar með hluta í Klapparholti 12, samanber fyrrnefndan kaupsamning, 1.482.986 krónur með húsbréfum til 25 ára, 1.192.889 krónur með yfirtöku áhvílandi veðskulda og 5.598.125 krónur með fasteignaveðbréfi, skiptanlegu fyrir húsbréf.  Óumdeilt er í málinu að 7.008.986 krónur af kaupverði Svalbarðs 13 voru fjármunir sem voru hrein eign sóknaraðila í Klapparholti 12.

Við fasteignaviðskipti þessi kveðast aðilar hafa staðið saman að greiðslumati vegna umsóknar um húsbréfalán.  Á kaupsamningi eru aðilar bæði tilgreind sem kaupendur en ágreiningur er um í hvaða eignarhlutföllum.  Sjá má á þinglýstu eintaki kaupsamnings að upphaflega hafa verið skráð á hann eignarhlutföllin 89% (sóknaraðili) og 11% (varnaraðili), ofan í þessar tölur hefur verð handskrifuð breyting sem tilgreinir jöfn eignarhlutföll.  Við breytinguna eru skráðir upphafsstafirnir I.G. ásamt stimpli sem bendir til þess að breytingin hafi verið gerð af Ingvari Guðmundssyni, löggiltum fasteignasala, sem hafði milligöngu um fasteignaviðskipti aðila.  Virðist kaupsamningnum hafa verið þinglýst svo breyttum.  Greinir aðila verulega á um það hvers vegna umrædd breyting var gerð á kaupsamningnum.  Byggir sóknaraðili á því að henni hafi ekki verið kunnugt um þessa breytingu og að hún hafi gengið út frá því að eignarhlutföll ættu að vera í samræmi við það sem prentað er á samninginn.  Varnaraðili kveður hins vegar að hann hefði aldrei skrifað undir samninginn nema hann tilgreindi eignarhlutföll jöfn og að það hafi verið ástæða þess að breyting þessi hafi verið gerð.  Hvorugur aðila hefur kosið að leiða Ingvar Guðmundsson sem vitni í málinu til að varpa ljósi á þetta atriði.

Nokkru fyrir undirritun fyrrnefnds kaupsamnings, eða þann 7. október 1997 skrifuðu aðilar undir svohljóðandi samkomulag:

„Undirrituð aðilar sem erum kaupendur eignarinnar nr. 13 við Svalbarð í Hafnarfirði, staðfestum hér með að eigiðfjárframlag Önnu, er nettóeignin í Klapparholti.  Miða skal við gerð kaupmála áður en gengið er frá kaupsamningi.“

Samkomulag þetta er undirritað af báðum aðilum en óvottað.

Sam dag og kaupsamningur vegna Svalbarðs 13 var gerður eða 30. október 1997, rituðu aðilar undir annað skjal sem ber yfirskriftina, samkomulag og yfirlýsing. Þar segir:

„Undirrituð Anna Alexandersdóttir, kt. 031052-2979 og Ólafur Elías Oddsson, kt. 140147-2229, kaupendur eignarinnar nr. 13 við Svalbarð í Hafnarfirði, sbr. kaupsamning dags., í dag, staðfestum hér með eftirfarandi:

Eigðfjárframlag Önnu vegna kaupanna er  að fjárhæð 5,526,000,-, sbr. kaupsamning um Klapparholt 12, og er það framlag 40% af kaupverði eignarinnar.  Hér með staðfestist að það er séreign Önnu í Svalbarði 13.

Skjali þessu skal þinglýsa á Svalbarð 13.“

Skjal þetta er undirritað af aðilum og vottað af Ingvari Guðmundssyni löggiltum fasteignasala og ber með sér að hafa verið fært inn í þinglýsingarbækur 7. janúar 1998.

Sóknaraðili kveðst hafa flutt að Svalbarði 13 þann 1. febrúar 1998 þegar eignin var afhent en kveður varnaraðila ekki hafa flutt þangað fyrr en haustið 1998 og hafi hann ekki tilkynnt um flutning lögheimilis fyrr en 13. nóvember 1998.  Kveður sóknaraðili að sambúð aðila geti ekki talist hefjast fyrr en í fyrsta lagi í nóvember það ár.  Aðilar hafi ekki verið skráð í sambúð þó þau hafi frá þeim tíma átt sameiginlegt lögheimili og fjárhagur þeirra hafi verið sundurgreindur samanber skattframtal vegna þess árs.

Af gögnum málsins og skýrslum aðila fyrir dómi má ráða að afsal vegna Svalbarðs 13 var gefið út 13. ágúst 1998.  Samkvæmt veðbókarvottorði frá 7. desember 1998, sem liggur fyrir í málinu og gefið er eftir þinglýsingu afsalsins eru aðilar málsins tilgreindir sameigendur nefndrar húseignar í eignarhlutföllunum 89% (sóknaraðili) og 11% (varnaraðili).  Afsal þetta hefur ekki verið lagt fram í málinu.

Þann 14. janúar 1999 gengu aðilar í hjónaband.  Ekki var gerður kaupmáli.

Varnaraðili seldi þann 30. apríl 1999, félagslega eignaríbúð er hann átti við Flétturima 20 í Reykjavík.  Var eignarhlutur hans, að teknu tilliti til kostnaðar, 496.266 krónur og runnu þeir peningar til að greiða niður bílalán sem hvíldi á Nissan Patrol jeppabifreið sem varnaraðili átti.

Þann 23. ágúst 1999 undirrituðu aðilar yfirlýsingu um sameign sína í fasteigninni að Svalbarði 13.  Var yfirlýsingu þessari þinglýst 26. ágúst 1999.  Er yfirlýsing þessi svohljóðandi:

„Við undirrituð hjón/sambýlisfólk lýsum því hér með yfir að við erum sameigendur að fasteigninni Svalbarð 13, 220 Hafnarfjörður (sic) enda höfum við fjármagnað byggingu/kaup hennar sameiginlega og berum sameiginlega ábyrgð á áhvílandi veðskuldum.

Við óskum því eftir að eignin sem hingað til hefur aðeins verið skráð á nafn annars okkar, verði eftirleiðis skráð í óskiptri sameign á nöfn okkar beggja.“

Yfirlýsing þessi er undirrituð af báðum aðilum og vottuð af tveimur vottum.

Í lok ágúst 1999 festir Sjávarlíf ehf. kaup á íbúð að Mjósundi 3 í Hafnarfirði og gefur félagið út veðskuldabréf af því tilefni að höfuðstól 2.200.000 krónur sem tryggt var með veði í Svalbarði 13.  Aðilar máls þessa rita báðir undir skuldabréf þetta sem þinglýstir eigendur hins veðsetta.  Ber aðilum saman um það að þegar eignin var afhent þann 1. október 1999 hafi varnaraðili flutt af heimilinu og sest að í Mjósundi 3 og þar búi hann enn.  Sáttavottorð prests er gefið út 4. október 1999.  Sóknaraðili óskaði eftir skilnaði að borði og sæng 2. mars 2000.  Eftir að aðilar höfðu slitið samvistir varð að samkomulagi að varnaraðili leysti til sín hlut sóknaraðila í Gróanda ehf. og greiddi fyrir hlutinn 2.000.000 króna.  Kaupsamningur aðila er dagsettur 4. febrúar 2000 og kemur fram í honum að hann hafi ekki áhrif á fjárskipti milli aðila að öðru leyti en því að við verðmat félagsins við þau skipti skuli miða við að heildarverðmæti hlutabréfa sé 3.000.000 króna.  Varnaraðili greiddi þann 8. febrúar 2000  umsamið kaupverð og fékk félagið afhent sama dag.

Eins og fram er komið var félagsbú aðila tekið til opinberra skipta þann 1. september 2000 og Steinunn Guðbjartsdóttir, hdl, skipuð skiptastjóri.

Varnaraðili leysti til sín Nissan Patrol bifreið með áhvílandi bílaláni í júlí mánuði 2001.  Var verð bifreiðarinnar ákveðið 700.000 og áhvílandi lán var að fjárhæð 386.952 krónur og því um að ræða úthlutun til varnaraðila að fjárhæð 313.048 krónur.

Undir skiptunum hefur fasteignin að Svalbarði 13 verið seld og er hrein eign, þegar gengið hafði verið frá áhvílandi veðskuldum 10.637.300 krónur að teknu tilliti til kostnaðar við söluna.

Að kröfu sóknaraðila var dómkvaddur matsmaður til að meta Sjávarlíf ehf.  Var niðurstaða matsmannsins að félagið væri einskis virði og er fullt samkomulag með aðilum að sú niðurstaða verði lögð til grundvallar.

 

Málsástæður og lagarök sóknaraðila.

Sóknaraðili kveður aðalkröfu sína þannig upp byggða að nettóeign vegna sölu á fasteigninni Svalbarð 13 sé 10.637.300 krónur, fyrirtækið Sjávarlíf ehf. 25% eignarhlutur að verðmæti 0 krónur, Gróandi ehf. 2/3 eignarhlutur að verðmæti 2.000.000 krónur og 2/3 af söluverðmæti tjaldvagns 193.333 krónur eða samtals 12.830.633 krónur auk hlutabréfa í Búnaðarbanka Íslands hf. að nafnvirði 3.760 krónur og hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. að nafnvirði 58.342 krónur.

Kveður sóknaraðili að ef fallist verði á aðalkröfu hans komi í hlut varnaraðila Nissan Patrol bifreið 313.048 krónur, 1/3 hluti í söluverðmæti tjaldvagns 96.666 krónur, Gróandi ehf. 1/3 eignarhlutur 1.000.000 krónur,  Sjávarlíf 75% eignarhlutur að verðmæti 0 krónur og fasteignin að Heiðargerði 6, Akranesi 5,55% eignarhlutur að óvissu verðmæti.  Samtals verðmæti 1.409.714 krónur og er þá ekki tekið tillit til verðmætis fasteignarinnar að Heiðargerði 6.

Sóknaraðili styður kröfur sínar um að vikið verði frá helmingaskiptareglu hjúskaparlaganna nr. 31/1993 með því að helmingaskipti milli aðila séu bersýnilega ósanngjörn og að öll skilyrði 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga séu uppfyllt.

Hjúskapur aðila hafi verið skammur.  Hafi verið stofnað til hans 14. janúar 1999 og hafi samvistir aðila ekki staðið nema til 1. október sama ár og sáttavottorð prests gefið út þann 4. október 1999.  Samvistalengd í hjónabandinu hafi því verið átta og hálfur mánuður.

Sóknaraðili byggir og á því að fyrir hjúskap hafi aðilar búið saman um mjög skammt skeið, aðeins rúma tvo mánuði og fjárhagsleg samstaða aðila því takmörkuð.  Varnaraðili hafi þó lagt mikinn þrýsting á konuna til að fá sem mest af eigum hennar skráðar á sig, til dæmis hluta í fyrirtækjum hennar og fasteignarinnar Svalbarð 13, án þess að leggja fram verðmæti á móti.

Við upphaf sambúðar aðila hafi það verið sóknaraðili sem hafi átt fasteign og fyrirtæki, sem hún hafi komið með úr fyrri hjúskap og hafi meðal annars fjármagnað með slysabótum sínum.  Varnaraðili hafi hins vegar átt skuldsetta jeppabifreið og félagslega íbúð.  Andvirði íbúðarinnar hafi varnaraðili ekki notað til að greiða niður ávílandi lán á Svalbarði 13, heldur til niðurgreiðslu láns sem hvíldi á framangreindri jeppabifreið.  Að auki hafi varnaraðili átt lítinn eignarhlut í fasteign á Akranesi sem hann eigi enn.  Kveður sóknaraðili því ljóst að sóknaraðili hafi flutt í búið verulega mikið meira en varnaraðili við hjúskaparstofnun.

Að auki byggir sóknaraðili á því að fjárhagsleg samstaða hafi verið takmörkuð með aðilum á samvistar og hjúskapartímanum.  Báðir aðilar hafi aflað tekna á hjúskapartímanum og hvorugt því fjárhagslega háð hinu.

Sóknaraðili kveður og að aðilar hafi ekki fjárfest í nýjum eignum á hjúskapartímanum og því hafi varnaraðili ekki lagt til fé til eignaaukningar í búinu.  Eignir sem séu í búi aðila við skipti séu því að miklum meirihluta eigur sem sóknaraðili hafi fært með sér við stofnun hjúskapar og hafi búið ekki vaxið nema takmörkuðu leyti á samvistartímanum.  Verðmætasta eign búsins sé fasteignin að Svalbarði 13, Hafnarfirði.  Kaup þeirrar eignar hafi verið fjármögnuð með kaupsamningsgreiðslum sem sóknaraðili hafi ein innt af hendi með eign sinni í Klapparholti 12 og lánum sem aðilar hafi verið samskuldarar að og hafi greitt af í stuttan tíma.  Höfuðstóll þeirra lána hafi hækkað frá hjúskaparstofnun og hafi báðir aðilar nú verið leystir undan  skyldum skuldara með yfirtöku kaupenda eignarinnnar á áhvílandi lánum.  Kveður sóknaraðili að yfirlýsingar sem varnaraðili hafi fengið sóknaraðila til að undirrita um jafna fjármögnun og skiptingu Svalbarðs 13 séu því rangar og aðeins hluti af ætlan varnaraðila að ná undir sig sem mestu af eigum sóknaraðila.  Heldur sóknaraðili því fram að hún hafi verið beitt óeðlilegum þrýstingi til að rita undir nefnda gerninga.  Þá hafi eignarhlutfall aðila að Svalbarði 13 verið rangt fram talið í skattskýrslu sóknaraðila fyrir árið 1998.

Sóknaraðili byggir á því að það hafi alla tíð verið hennar vilji að gerður yrði kaupmáli milli aðila vegna þeirra eigna sem hún hafi fært í búið og hafi varnaraðili samþykkt það og lofað, sbr. meðal annars samkomulag frá 7. október 1997.  Af gerð kaupmála hafi hins vegar ekki orðið vegna viðsnúnings hjá varnaraðila og hótana hans um að hann gæti ekki búið með sóknaraðila ef hún ætti ein sínar eignir eins og eðlilegt hefði verið.

Telur sóknaraðili að verulegar líkur séu á því að varnaraðili hafi stofnað til hjúskapar með henni fyrst og fremst í þeim tilgangi að komast yfir eigur hennar.  Það sé óeðlilegt og ósanngjarnt að varnaraðili geti hagnast á helmingaskiptum eftir svo skamman hjúskap og fari það í raun gegn vilja löggjafans að baki 103. gr. hjúskaparlaga.  Sé 104. gr. hjúskaparlaganna meðal annars ætlað að koma í veg fyrir að nokkur hagnist á helmingaskiptum.

Kveður sóknaraðili að kaup Sjávarfangs ehf. á íbúð í Mjósundi hafi verið gerð að frumkvæði varnaraðila og hafi fljótt komið í ljós að hann hafi ætlað íbúðina sem dvalarstað fyrir sig.

Ástæður að baki fjárhæðar aðalkröfu, kveður sóknaraðili vera meðal annars að við kaup Svalbarðs 13 hafi hún ein greitt útborgun í eigninni og því rétt að hún fái útborgun þessa ásamt verðmætaaukningu, við skipti á búinu.  Varnaraðili hafi ekki lagt fram fé til kaupa fastegnarinnar en hafi staðið ásamt sóknaraðila að greiðslumati og aðilar hafi verið samskuldarar áhvílandi veðlána.  Þau hafi nú bæði verið leyst undan skuldaraábyrgð og njóti varnaraðili þess á sama hátt og sóknaraðili.  Varnaraðili hafi hins vegar ekkert lagt af mörkum við kaup eignarinnar og geti því ekki krafist hlutar af söluverðmæti eignarinnar.  Fjárhæð annarra krafna sinna miðar sóknaraðili við eignarhlut hennar í eignum við stofnun hjúskapar, samkvæmt skattframtali fyrir árið 1998, en fjárhæðir séu miðaðar við nettó eign við sölu eða upplýsingar frá skiptastjóra.

Kveður sóknaraðili sig styðja varakröfu sömu málsástæðum og varakröfu.

Þrautavarakröfu sína styður sóknaraðili með því að um sé að ræða tjónabætur sem hún hafi fengið greiddar í nóvember 1995 vegna umferðaslyss.  Bótunum hafi meðal annars verið ætlað að bæta sóknaraðila upp tekjutap hennar til framtíðar.  Bótunum hafi sóknaraðili ráðstafað til eignamyndunar í íbúð sinni að Klapparholti 12 og ígildi bótanna því enn til staðar og sérgreint.  Gerð sé krafa um að bótum þessum verði haldið utan skipta, auk verðbóta.

Sóknaraðili styður málskostnaðarkröfu sína við meginreglur einkamálalaga en um fjárhæð málskostnaðar vísar hún til umfangs málsins og þess að varnaraðili hafi hafnað öllum sáttaumleitunum og kveður að það sé alfarið sök varnaraðila að úrlausn deilna þeirra sé komin fyrir dómstóla.

Í greinargerð sinni gerði sóknaraðili fyrirvara um það að kröfugerð hans byggðist á að samkomulag væri með aðilum um skuldir.  Við munnlegan málflutning féll sóknaraðili frá þessum fyrirvara.

Um lagarök vísar sóknaraðili til 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 varðandi aðal- og varakröfu, en til meginreglu 4. tl. 1. mgr. 102. gr. sömu laga varðandi þrautavarakröfu.  Um málskostnað vísar sóknaraðili til meginreglna laga um meðferð einkamála, sbr. XXI. kafla laga nr. 91/1991.

 

Málsástæður og lagarök varnaraðila.

Af hálfu varnaraðila er öllum kröfum, málsástæðum og lagarökum sóknaraðila mótmælt og kveður hann ekki skilyrði til þess í máli þessu að víkja frá þeirri grundvallarreglu 103. gr. hjúskaparlaganna nr. 31/1993 að helmingaskipti skuli fara fram við fjárskipti milli hjóna, eins og sóknaraðili geri kröfu um.

Varðandi aðalkröfu sóknaraðila mótmælir varnaraðili í einu lagi öllum fullyrðingum sem komi fram í greinargerð sóknaraðila um að varnaraðili hafi með ofbeldi, hótunum, ógnunum eða þrýstingi í garð sóknaraðila eða barna hennar, eða á annan hátt, fengið sóknaraðila til þess að skrá eignir á nafn varnaraðila og/eða gera þær ráðstafanir í fjármálum sem hafi verið til þess fallnar að rýra réttarstöðu sóknaraðila við fjárskipti milli aðila.  Allar fullyrðingar í þessa veru séu rangar og sé þeim mótmælt sem ósönnuðum.  Öfugt við það sem sóknaraðili haldi fram hafi skráningar á eignum verið gerðar með fullu samþykki beggja aðila og með sanngirni að leiðarljósi, að teknu tilliti til fjárframlaga, afborgana af lánum og kostnaðar við framfærslu fjölskyldu aðila.

Málsaðilar hafi gengið í hjúskap 14. janúar 1999 og hafi sóknaraðili óskað eftir skilnaði að borði og sæng 2. mars 2000 og sé það viðmiðunardagur opinberra skipta.  Formlegur hjúskapur hafi þá staðið með aðilum í um það bil eitt ár og tvo mánuði.  Geti það eftir atvikum þessa máls ekki talist skammvinnur hjúskapur. Þá beri að hafa í huga að samvistir og sambúð aðila hafi staðið mun lengur, enda þótt þeir hafi aldrei formlega verið skráðir í óvígða sambúð.  Aðilar hafi kynnst í júnímánuði 1996 og hafi þá tekist með þeim mikil og sterk tengsl.  Hafi þau hafið sambúð í íbúð sóknaraðila að Klapparholti í september 1996 og eftir kaup hússins að Svalbarði 13 hafi aðilar flust þangað og hafi þau búið þar saman frá þeim tíma, allt þar til sóknaraðili hafi óskað eftir því að varnaraðili flytti af heimilinu, síðla árs 1999.  Engu skipti þótt varnaraðili hafi ekki flutt lögheimili sitt formlega að Svalbarði 13 fyrr en í nóvember 1998.

Þá kveður varnaraðili það beinlínis rangt að sóknaraðili hafi flutt með sér í hjúskapinn verulega miklu meiri eignir en varnaraðili. Samkvæmt skattaframtali 1999 hafi eignastaða sóknaraðila um áramótin 1998/1999, eða fjórtán dögum áður en aðilar hafi gengið í hjúskap, verið sú að sóknaraðili telji fram 2/3 eignarhluta í fellihýsi sem metinn hafi verið á 222.000 krónur, hlutabréf í Búnaðarbanka Íslands hf. að nafnvirði 3.760 krónur, í Landsbanka Íslands hf. að nafnvirði 58.352 krónur, í Gróanda ehf. 1.760.000 krónur og í Sjávarlífi ehf. 100.000 krónur og loks fasteignina Svalbarð 13 sem sóknaraðili eigi 50% í á móti varnaraðila, samkvæmt kaupsamningi, að fasteignamati 5.750.000 krónur.   Kveður varnaraðili að í greinargerð sóknaraðila sé jafnframt talin til eignar Honda Civic bifreið að verðmæti 1.100.000 krónur þrátt fyrir að hún hafi verið seld í mars mánuði 1998 svo sem skýrt komi fram á skattframtali sóknaraðila.

Að sögn varnaraðila komi fram á skattframtali hans 1999 að eignastaða hans um áramótin 1998/1999 hafi verið 1/3 eignarhluti í fellihýsi að verðmæti 90.000 krónur, Skidoo vélsleði að verðmæti 260.000 krónur, en hann hafi verið seldur 8. janúar 1999, hlutabréf í Búnaðarbanka Íslands hf. að nafnvirði 3.760 krónur, í Landsbanka Íslands hf. að nafnvirði 58.342 krónur, í Gróanda ehf. 860.000 krónur og í Sjávarlífi ehf. 300.000 krónur.  Jafnframt fasteignin að Flétturima 20 að fasteignamati 4.634.000 krónur og loks 50% eignarhlutur í Svalbarði 13 að fasteignamati 5.750.000 krónur.  Kveður sóknaraðili að gleymst hafi á umræddu skattframtali að telja fram 5,55% eignarhlut í fasteigninni að Heiðargerði 6, Akranesi, auk Nissan Patrol bifreiðar að verðmæti 2.308.500 krónur sem viðurkennt sé af hálfu sóknaraðila að varnaraðili hafi eignast á þessum tíma.

Telur varnaraðili að því sé ljóst að það hafi verið hann en ekki sóknaraðili sem hafi flutt með sér meirihluta eigna í hjúskapinn.

Kveður varnaraðili og að veruleg fjárhagsleg samstaða hafi verið með aðilum frá upphafi kynna þeirra og hafi hún haldist og reyndar vaxið stöðugt á sambúðartímanum og síðar hjúskapartímanum.  Af skattframtölum aðila megi ráða að varnaraðili hafi haft umtalsvert meiri tekjur en sóknaraðili.  Hafi sóknaraðila því í reynd verið fjárhagslega háður varnaraðila að verulegu leyti.  Þá hafi varnaraðili fengið greiddar slysa- og örorkubætur frá Svíþjóð sem hafi runnið til samneyslu aðila.  Það hafi því komið í hlut varnaraðila að greiða afborganir hæstu áhvílandi lánanna á Svalbarði 13 sem aðilar hafi verið samskuldarar að, sbr. reikningsyfirlit, greiðsluseðla og upplýsingar Íbúðalánasjóðs um stöðu lána.  Aðilar hafi greitt jöfnum höndum af öðrum lánum.  Þá hafi varnaraðili greitt hitaveitureikninga og hluta rafmagnsreikninga vegna Svalbarðs 13, sbr. greiðsluseðla.  Sama megi segja um fasteignagjöld.  Jafnframt hafi varnaraðili lagt mun meira til heimilishalds og framfærslu aðila, þar á meðal tveggja barna sóknaraðila af fyrra hjónabandi sem búið hafi á heimili aðila.  Ennfremur hafi varnaraðili annast rekstur bifreiða og hafi hann meðal annars látið sóknaraðila um tíma í té Honda Civic bifreið endurgjaldslaust.  Þá hafi aðilar haft að nokkru leyti sameiginlegan reikning við Sparisjóð Hafnarfjarðar.

Varnaraðili byggir og á að vegna greiðslu sinnar á sameiginlegum skuldum aðila, meðal annars lána sem áhvílandi hafi verið á Svalbarði 13, sé ljóst að sameiginlegar skuldir aðila hafi ekki verið að hækka í sama mæli og þær ella hefðu gert.  Varnaraðili hafi þannig lagt beinínis fram fé til niðurgreiðslu sameiginlegra skulda umfram sóknaraðila og það hafi komið báðum aðilum til góða.  Taka verði tillit til þessa engu síður en beinnar eignaaukningar á hjúskapartíma.  Með hliðsjón af þessu öllu hafi aðilar talið sanngjarnt og eðlilegt að þeir væru sameigendur að Svalbarði 13 í jöfnum hlutföllum allt frá því að fasteignin hafi verið keypt, eins og fram komi í kaupsamningi aðila frá 30. október 1997.  Hafi þessi skilningur verið ítrekaður síðar á hjúskapartímanum, eins og fram komi í staðlaðri yfirlýsingu frá 23. ágúst 1999 sem gerð hafi verið með samþykki og af fúsum og frjálsum vilja beggja aðila.  Kveður varnaraðili að samkomulag og yfirlýsingar aðila, annars vegar frá 7. október 1997og hins vegar frá 30. október 1997 hnekki ekki þessum gerningum.  Sami skilningur, þ.e. um helmingseign hvors aðila í Svalbarði 13, komi og fram í skattframtölum aðila.  Þá beri og að hafa í huga að að það hafi verið varnaraðili sem hafi greitt sölulaun fasteignasölunnar í fasteignaviðskiptum aðila, 229.623 krónur vegna Klapparholts 12, svo og þinglýsingar- og stimpilgjöld, 186.456 krónur.  Loks verði ekki fram hjá því litið að aðilar hafi staðið saman að greiðslumati vegna umsóknar um fasteignaveðbréf vegna kaupanna á Svalbarði 13.  Ef ekki hefði verið fyrir tekjur varnaraðila, hefði lán til kaupanna ekki fengist þannig að dygði fyrir kaupverðinu.

Hvað sem framangreindu líði telur varnaraðili að í öllu falli verði að líta svo á að í ofannefndri yfirlýsingu aðila frá 23. ágúst 1999 hafi falist afsal sóknaraðila á hugsanlegu tilkalli til að taka verðígildi Svalbarðs 13 að óskiptu við fjárslit milli aðila, ef slíkt tilkall teldist á einhverju tímamarki hafa átt rétt á sér á annað borð.

Kveður varnaraðili að það hafi verið fyrst og fremst með hliðsjón af hinni verulegu fjárhagslegu samstöðu, er myndast hafi með aðilum á sambúðartímanum og hjúskapartímanum, sem sóknaraðili hafi ekki haft uppi óskir um að gerður yrði kaupmáli, enda hefði það beinlínis gengið gegn hugmyndum aðila um það hvað væri sanngjarnt þegar höfð hafi verið í huga framlög aðila.  Varnaraðili minnir og á, hvað sem öðru líði, að sóknaraðila hafi verið og sé í sjálfsvald sett, hvernig hann ráðstafi eigum sínum.  Í því sambandi ríki samningsfrelsi og ein af grundvallarreglum íslensks réttar sé að samningar skuli standa.

Varnaraðili mótmælir og fullyrðingum um að hann hafi stofnað til hjúskaparins beinlínis í því skyni að ná undir sig eigum sóknaraðila.  Kveður varnaraðili ekkert styðja þessa fullyrðingu sóknaraðila og mótmælir henni sem ósannaðri.  Í fyrsta lagi hafi varnaraðili engu minna lagt til hjúskapar aðila en sóknaraðili, svo sem fram sé komið.  Að teknu tilliti til framlaga í heild og með hliðsjón af niðurgreiðslu sameiginlegra skulda, blasi í reynd við að fjárhagur varnaraðila hafi ekki batnað neitt sérstaklega við hjúskap aðila, nema síður sé.  Í öðru lagi hafi að sjálfsögðu verið stofnað til hjúskaparins vegna þess að aðilar hafi fellt hugi saman.  Í þriðja lagi hafi það verið sóknaraðili sem hafi tekið ákvörðun um að slíta hjúskapnum en ekki varnaraðili, sbr. beiðni um útgáfu skilnaðarleyfis og kröfu um opinber skipti til fjárslita milli aðila.  Hafi þá viljað svo heppilega til að varnaraðili hafi getað, eftir samvistaslit aðila, dvalið í íbúðinni að Mjósundi 3, sem Sjávarlíf ehf. hafi þá nýverið keypt, enda hafi varnaraðili þá nýverið selt fasteign sína að Flétturima 20 og hafi því ekki átt í önnur hús að venda.  Að sögn varnaraðila hafi aðilar þó í reynd verið í samvistum eftir þetta og hafi meðal annars átt í kynferðissambandi.

Af öllu framangreindu telur sóknaraðili ljóst að 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 eigi ekki við í máli þessu eins og atvikum þess sé háttað.  Allar eignir aðila séu hjúskapareignir og kaupmála sé ekki til að dreifa.  Engin efnisleg rök séu því fyrir því að víkja frá almennum reglum um fjárskipti milli hjóna, með þeim hætti sem aðalkrafa sóknaraðila geri ráð fyrir.  Það sé grundvallarregla við fjárskipti milli hjóna að hvor maki um sig eigi tilkall til helmings úr skírri hjúskapareign hins, nema annað leiði af ákvæðum laga, sbr. 103. gr. hjúskaparlaga.  Undantekningar frá þessari meginreglu beri að skýra þröngt, samkvæmt viðurkenndu lögskýringarsjónarmiði.  Sú niðurstaða fái ekki bara ótvíræðan stuðning í, - heldur liggi beinlínis til grundvallar orðalagi 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga, sem sóknaraðili byggi kröfur sínar á.  Í ákvæðinu sé heimilað að víkja frá almennum reglum um helmingaskipti, ef skiptin yrðu að öðrum kosti „bersýnilega ósanngjörn“ fyrir annað hjóna.  Þannig þurfi augljóslega mjög mikið til að koma, svo heimilt sé að víkja frá almennum reglum um helmingaskipti. Því fari víðs fjarri, að fjárskipti milli aðila þessa máls yrðu „bersýnilega ósanngjörn“, ef meginreglu 103. gr. hjúskaparlaga yrði fylgt.

Varnaraðili telur það þvert á móti bersýnilega ósanngjarnt í garð varnaraðila, ef vikið yrði frá grundvallarreglunni um helmingaskipti með þeim hætti sem krafa sóknaraðila geri ráð fyrir.  Sóknaraðili myndi samkvæmt henni ekki bara hagnast fjárhagslega á hjúskap aðila með því að njóta einn verulegrar, tilviljanakenndrar hækkunar á fasteignaverði á því tímabili sem hér sé til skoðunar, heldur myndi sóknaraðili einnig hagnast vegna framlaga varnaraðila.  Varnaraðili sem sé 75% öryrki eftir slys í Svíþjóð árið 1981, stæði eftir nánast allslaus, þrátt fyrir allar þær eignir, sem hann hafi flutt í hjúskap aðila og þrátt fyrir miklu hærri framlög en sóknaraðili hafi látið í té til sameiginlegrar framfærslu aðila og barna sóknaraðila og þrátt fyrir verulega niðurgreiðslu á sameiginlegum skuldum aðila umfram niðurgreiðslu af hálfu sóknaraðila.  Loks minnir varnaraðili á að hann hafi keypt 2/3 eignarhlut sóknaraðila í Gróanda ehf. fyrir 2.000.000 króna, en áður hafi hann keypt 1/3 hlut af þriðja manni.

Af hálfu varnaraðila er og á því byggt, með vísan til alls þess sem að framan sé rakið, að augljóslega séu ekki fyrir hendi nein skilyrði til þess, með vísan til 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga, að víkja frá helmingaskiptareglu 103. gr. sömu laga við fjárskipti milli aðila með þeim hætti sem sóknaraðili krefjist aðallega í máli þessu.  Því beri að hafna aðalkröfu sóknaraðila.  Helmingaskiptareglan sé meginregla við fjárskipti hjóna og sé á því byggt að þess vegna verði að virða sóknaraðila í óhag allan vafa eða skort á upplýsingum um hvort skilyrðum þröngra undantekningarreglna sé fullnægt.

Að því er varakröfu sóknaraðila varðar krefst varnaraðili að henni verði vísað frá dómi.  Kveður varnaraðili sig byggja á því að krafan standist ekki lágmarkskröfur megingreglna réttarfars um skýra og afmarkaða kröfugerð í dómsmálum og samræmist auk þess ekki hlutverki dómstóla, meðal annars við opinber skipti til fjárslita á milli hjóna, sbr. ákvæði laga nr. 21/1991, um skipti á dánarbúum o.fl.  Sóknaraðili krefjist ekki að vikið verði frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga í tilteknum hlutföllum, t.d. 2/3, 3/4 eða 4/5 hlutum, eða að vikið verði frá helmingaskiptareglunni þannig að sóknaraðila verði heimilað að taka að óskiptu tilteknar eignir eða verðígildi tiltekinna eigna að ákveðinni fjárhæð, -heldur sé krafan sú, að vikið verði frá reglunni samkvæmt mati dómsins.  Slík kröfugerð standist ekki, enda væri þá dómstólum ekki ætlað að teka afstöðu til kröfu um ákveðna skiptingu milli aðila, heldur að ákveða fjárskipti milli aðila samkvæmt eigin mati án tengsla við tiltekna, afmarkaða og skýra kröfu.  Á því sé byggt af hálfu varnaraðila, að slíkri kröfu sem að auki sé með öllu órökstudd, beri að vísa frá dómi ex officio, jafnvel þótt varnaraðili krefðist ekki frávísunar.  Verði frávísunarkrafa ekki tekin til greina er þess krafist að varkröfu sóknaraðila verði hafnað með vísan til sömu málsástæðna og lagaraka og færð hafi verið fram fyrir því að hafna beri aðalkröfu sóknaraðila.

Varnaraðili byggir á varðandi þrautavarakröfu sóknaraðila að henni eigi að hafna, þar sem skilyrði 4. töluliðar 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga séu ekki fyrir hendi.  Sóknaraðili hafi fengið umræddar fébætur í nóvember 1995.  Ekkert liggi fyrir um að fébæturnar, sem sóknaraðili krefjist að komi ekki undir fjárskipti aðila, hafi runnið til kaupa á fasteigninni að Klapparholti 12, svo sem sóknaraðili haldi fram og sé ósannað að svo hafi verið.  Þá telur varnaraðili það einnig ósannað að fébæturnar eða ígildi þeirra hafi verið við lýði þegar sóknaraðili hafi lagt fram kröfu um skilnað og að þær hafi þá verið sérgreinanlegar.  Þar sem þessum skilyrðum tilvitnaðrar lagagreinar sé ekki fullnægt beri að hafna þrautavarakröfu sóknaraðila.

Varðandi málskostnaðarkröfu sóknaraðila kveðst varnaraðili mótmæla því sérstaklega að hann eigi sök á því að mál þetta hafi farið fyrir dómstóla, eins og sóknaraðili haldi fram, við rökstuðning málskotnaðarkröfu sinnar.  Ekki sé réttmætt að segja að varnaraðili hafi hafnað öllum sáttaumleitunum í málinu.  Hið rétta sé að varnaraðili hafi ekki viljað fallast á kröfur sóknaraðila um frávik frá almennum reglum um fjárskipti.  Sóknaraðili beri því alfarið ábyrgð á því að mál þetta sé komið til kasta dómstóla, en ekki varnaraðili.

Varnaraðili kveður að í greinargerð sóknaraðila sé gerður sá fyrirvari við kröfugerð að miðað sé við að ekki sé deilt um skuldir aðila eða skiptingu þeirra.  Mótmælir varnaraðili þessu í þeim skilningi að ekkert liggi endanlega fyrir um það við skiptameðferðina, hvort aðilar séu sammála í þessu efni eða ekki.  Skiptameðferðin hafi einfaldlega aldrei komist á það stig.  Þá kveður varnaraðili að það beri að hafa í huga, að kröfugerð sóknaraðila í þessu máli virðist byggja á því að víkja beri frá helmingaskiptareglunni alveg án tillits til skulda aðila og þess hvernig niðurgreiðslu á sameiginlegum skuldum aðila hafi verið háttað á sambúðar- og hjúskapartímanum.  Varnaraðili mótmælir því að horft verði fram hjá þessu atriði enda hafi varnaraðili greitt niður sameiginlegar skuldir aðila langt umfram greiðslur af hálfu sóknaraðila.  Eins og áður sé komið fram hafi niðurgreiðslur þessar komið sóknaraðila til góða með því að lækka skuldastöðu hans á sama hátt og skuldastöðu varnaraðila.

Varnaraðili kveðst og gera þá sjálfstæðu gagnkröfu í málinu að úrskurðað verði að beita beri helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 við opinber skipti til fjárslita milli málsaðila.  Vísar varnaraðili um rökstuðning fyrir þessari kröfu til þeirra málsástæðna og lagaraka sem rakin séu að framan í umfjöllun hans um að hafna beri kröfum sóknaraðila.

Varnaraðili kveðst byggja kröfur sínar einkum á 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, sbr. og að skilyrðum 104. gr. og 4. tl. 1. mgr. 102. gr. sömu laga sé ekki fullnægt.  Heimild til að hafa uppi kröfu um frávísun á varakröfu sóknaraðila hafi stoð í 3. mgr. 130. gr. laga nr. 20/1991.  Um heimild til að að gera sjálfstæða kröfu sem farið verði með sem gagnkröfu í málinu, vísar varnaraðili til 4. mgr. 130. gr. laga nr. 20/1991.  Krafa um málskostnað sé studd við XXI. kafla laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991.  Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé studd við lög nr. 50/1988 en varnaraðili sé ekki virðisaukaskattskyldur og sé honum því nauðsynlegt að fá dóm fyrir skattinum til að sleppa skaðlaus frá málssókn þessari.

 

Niðurstaða.

Sóknaraðili byggir málatilbúnað sinn að nokkru leyti á því að í samskiptum aðila hafi hún þurft að sæta ofbeldi og nauðung af hálfu varnaraðila og það sé skýringin á ýmsum þeim gerningum sem hún hafi skrifað undir, varðandi afsal eigna og tilgreiningu eignarhlutar í fasteign aðila.  Einnig hefur sóknaraðili haldið því fram að varnaraðili hafi verið sér góður þar til eftir að hjúskapur þeirra hófst en eftir það hafi framkoma hans breyst til hins verra, einkum eftir að þinglýst hafi verið yfirlýsingu aðila frá 23. ágúst 1999 um að þau skyldu teljast sameigendur Svalbarðs 13 í jöfnum eignarhlutföllum.  Fallast verður á það með varnaraðila að fullyrðingar sóknaraðila í þessa veru eru algerlega órökstuddar og ekki studdar nokkrum gögnum.  Það sama gildir um fullyrðingar sóknaraðila varðandi það að varnaraðili hafi kvænst sóknaraðila í þeim tilgangi einum að komast yfir eigur hennar.  Verður ekki frekar í dómi þessum vikið að þessum atriðum, enda þýðingarlaus varðandi úrlausn málsins.

Í málatilbúnaði sóknaraðila er og byggt á atvikum er varða ákvarðanir aðila sem stjórnenda einkahlutafélaganna Sjávarlífs ehf. og Gróanda ehf.  Kemur fram í greinargerð sóknaraðila að matvælalager að verðmæti 800.000 krónur, í eigu Sjávarlífs ehf. hafi verið fjarlægður af varnaraðila og sóknaraðili hafi ekki fengið greitt fyrir hlut sinn í honum.  Matvælalager þessi var eign einkahlutafélagsins og átti sóknaraðili ekki rétt á því að fá greitt fyrir hann umfram þá greiðslu sem hún samdi um þegar hún framseldi hlut sinn í félaginu til varnaraðila.  Gæti þetta atriði eingöngu haft áhrif í fjárskiptum milli aðila máls þessa ef sýnt væri fram á að þetta hefði haft áhrif á verðmat félagsins.  Þar sem svo hefur ekki verið gert er það mat dómsins að afdrif nefnds matvælalagers hafi ekki áhrif á niðurstöðu máls þessa.  Sama er að segja um kaup sama félags á fasteigninni að Mjósundi 3.  Atvik að baki þeim kaupum skipta ekki máli varðandi þann ágreining sem hér er lagður fyrir dóminn nema ef vera kynni að þetta hefði haft áhrif á verðmæti félagsins.  Verðmat félagsins liggur fyrir samkvæmt mati dómkvadds matsmanns og hafa aðilar að því er virðist fellt sig við það mat og verður því lagt til grundvallar að verðmæti félagsins sé ekkert eins og fram kemur í nefndri matsgerð.  Samkomulag hefur orðið með aðilum að við fjárskipti skuli miðað við það að verðmæti hlutafjár í Gróanda ehf. sé 3.000.000 króna og verður það samkomulag einnig lagt til grundvallar við úrlausn málsins. 

Í 104. gr. hjúskarlaga nr. 31/1993 greinir að víkja megi frá reglum um helmingaskipti og ákvæðum um skipti á séreign ef skipti yrðu að öðrum kosti bersýnilega ósanngjörn fyrir  annað hjóna.  Einkum eigi þetta við þegar tekið sé tillit til fjárhags hjónanna og lengdar hjúskapar, svo og ef annað hjóna hafi flutt í búið verulega miklu meira en hitt eða hafi síðar erft fé eða fengið það að gjöf frá öðrum en maka sínum.  Sóknaraðili byggir á því að skilyrði nefndrar lagagreinar séu uppfyllt þannig að víkja skuli frá reglum um helmingaskipti í fjárskiptum milli aðila málsins.  Við mat á þessu er nauðsynlegt að horfa fyrst til þess hvaða verðmæti hvor aðili um sig flutti í búið.  Það tímamark sem miða verður við í þessum efnum hlýtur að vera stofnun hjúskaparins og hefur undanfarandi óvígð sambúð ekki áhrif á þetta.  Má lesa þennan skilning út úr dómi Hæstaréttar 1985 á blaðsíðu 322.  Aftur  á móti verður ekki fram hjá því horft að aðilar geta byggt á því, að opinber eignaskráning og tilgreining eigna sem fram kemur á skattframtölum, gefi ekki rétta mynd af eignum aðila við hjúskaparstofnun, vegna þeirrar fjárhagslegu samstöðu sem hugsanlega hafi myndast á sambúðartímanum.  Sá sem heldur  því fram að hann hafi með framlögum til eignamyndunar eignast hlutdeild í eign sem skráð er á nafn annars manns ber að sjálfsögðu sönnunarbyrði fyrir slíkri staðhæfingu. 

Tilgreining aðila á eignum og skuldum við upphaf hjúskapar þeirra er um margt óljós og ljóst er af samanburði við gögn málsins að talningu skulda aðila virðist að nokkru ábótavant.  Að mati dómsins kemur þessi annmarki á málatilbúnaði ekki í veg fyrir að gera megi sér mynd af fjárhag aðila sem sé nægilega glögg til að lagður verði dómur á ágreininginn.  Dómurinn telur sannað og í raun óumdeilt að meginuppistaðan í eignum þeim sem runnu inn í félagsbú aðila við hjúskaparstofnun þann 14. janúar 1999 eigi rætur sínar að rekja til hreinnar eignar sóknaraðila í Klapparholti 12 að verðmæti 7.008.986 krónur og nam sú upphæð allri útborgun aðila í eigninni Svalbarð 13.  Þar sem sóknaraðili hefur sýnt fram á þetta og varnaraðili hefur í raun fallist á að svo hafi verið verður að telja að þinglýsing yfirlýsinga um jafna eignaraðild breyti hér engu um.  Varnaraðili hefur ekki haldið því fram að um gjöf hafi verið að ræða og því síður að hann hafi greitt sóknaraðila fyrir aukna eignahlutdeild sína í fasteigninni.  Varnaraðili byggir eingöngu á því að framlög hans til greiðslu lána og til framfærslu fjölskyldunnar hafi verið mun meira en sóknaraðila og að sóknaraðila hefði ekki verið kleift að fá lánafyrirgreiðslu vegna kaupa á umræddri eign nema varnaraðili tæki þátt í greiðslumati með henni.  Ekki er fallist á það með varnaraðila að hann geti á grundvelli þeirra röksemda sem hér voru síðast taldar öðlast eignarrétt yfir því framlagi til kaupa fasteignarinnar sem sóknaraðili lagði fram.  Verður það því lagt til grundvallar, að þrátt fyrir þinglýsingar misvísandi skjala um eignarhlutfall aðila í Svalbarði 13, þá teljist sóknaraðili hafa lagt fram við hjúskaparstofnun mun meira en varnaraðili af verðmæti fasteignarinnar.  Verður að telja, þegar litið er til þeirra upplýsinga  um eignir og skuldir aðila sem fram koma í gögnum málsins og greinargerðum, að augljóst sé að sóknaraðili hafi lagt fram verulega miklu meiri verðmæti við hjúskaparstofnun, í skilningi 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga.  Það er mat dómsins að hjúskapur aðila hafi verið skammur í skilningi 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga.  Stofnað var til hjúskaparins 14. janúar 1999, samvistaslit urðu í októberbyrjun sama ár og krafa var sett fram um skilnað að borði og sæng 2. mars 2000.  Hafa verður og í huga við mat á þessu þann verulega mun sem var á eignum aðila við hjúskaparstofnun og áður er getið. 

Eins og fram er komið liggur fyrir að fasteignin Svalbarð 13 hefur verið seld og nemur nettó andvirði eignarinnar 10.637.300 krónum.  Einnig liggur fyrir hvert framlag sóknaraðila var til þeirrar eignar þegar hún var keypt.  Ekki liggur fyrir í gögnum málsins svo óyggjandi sé hvert var verðmæti annarra eigna sem aðilar komu með með sér í hjúskapinn  Í kröfugerð sóknaraðila er við tilgreiningu verðmæta hlutabréfa stuðst við nafnvirði þeirra.  Fyrir liggur í málinu að Sjávarlíf ehf. var metið einskis virði af dómkvöddum matsmanni.  Samkomulag er um að miða við að verðmæti Gróanda ehf. sé 3.000.000 krónur við skipti á búi aðila.  Útilokað er að meta það á grundvelli þeirra upplýsinga sem lagðar hafa verið fyrir dóminn hvert verðmæti umræddra félaga var þegar aðilar stofnuðu til hjúskapar. 

Sóknaraðili gerir kröfu um að fá utan skipta þau verðmæti sem hann hafi flutt í búið auk verðmætaaukningar þeirra verðmæta á hjúskapartímanum.  Eins og fram er komið skortir á að aðilar hafi gert fullnægjandi grein fyrir öllum eignum sínum og skuldum með þeim hætti að unnt sé að segja til um hvert verðmæti hjúskapareigna hvors um sig hafi verið við stofnun hjúskapar eða við lok hans.  Þó liggur skýrt fyrir að fasteignin að Svalbarði 13 hækkaði mjög í verði meðan aðilar áttu hana.  Krefst sóknaraðili þess að henni verði heimilað að taka þessa verðmætaaukningu utan skipta.  Varnaraðili hefur bent á að það hafi verið hann sem greiddi af hæsta láninu á fasteigninni og að sóknaraðili hefði aldrei getað staðið undir kaupunum ef ekki hefðu komið til framlög varnaraðila, auk þess sem greiðslumat hefði ekki fengist ef ekki væri fyrir það að laun varnaraðila hafi verið umtalsvert hærri en sóknaraðila.  Fallast verður á það með varnaraðila að sóknaraðila hefði ekki verið kleift að festa kaup á nefndri fasteign eða greiða af áhvílandi lánum hennar nema með aðstoð varnaraðila.  Er þetta augljóst þegar virtur er sá tekjumunur sem kemur fram í skattframtölum aðila sem liggja frammi í málinu.  Verður því að telja að ekki sé sanngjarnt að sóknaraðili njóti ein þeirrar verðhækkunar sem varð á fasteigninni að Svalbarði 13 á sambúðar- og hjúskapartímanum.  Kröfu sína um að henni beri sú verðmætaaukning á fasteigninni hefur sóknaraðili stutt við Hæstaréttardóm 1985 á bls.  322.  Í þeim dómi var aðila sem hafði lagt til útborgun fasteignar heimilað að taka utan skipta verðmæti þau sem hann hafði lagt til kaupa fasteignarinnar auk þeirrar verðmætaaukningar sem orðið hafði á henni.  Í máli því sem hér liggur fyrir hefur varnaraðili sýnt fram á það með gögnum, auk þess að það var staðfest með framburði sóknaraðila sjálfs fyrir dómi, að hann hafi staðið straum af afborgunum húsbréfaláns sem hvíldi á eigninni og hefur því sýnt fram á að hann hefur lagt fram fé til fasteignarinnar.  Eru atvik að þessu leyti ekki sambærileg við nefndan dóm Hæstaréttar og verður hann því ekki talinn hafa fordæmisgildi varðandi þetta atriði í máli því sem hér er til úrlausnar.  Það er því niðurstaða dómsins að sóknaraðili eigi rétt á því að vikið verði frá helmingaskiptum á búi hennar og varnaraðila varðandi hlut þann sem hún lagði ein af mörkum til kaupa á fasteigninni að Svalbarði 13.  Þykir rétt að miða við að hlutur hennar verði ákveðinn hærri sem nemur hækkun vísitölu neysluverðs frá kaupsamningsdegi 30. október 1997 til viðmiðunardags skipta þann 2. mars 2000.

Niðurstaða þessi er byggð á aðalkröfu sóknaraðila, þó ekki sé fallist á hana að fullu og eru því ekki efni til að fjalla sérstaklega um frávísunarkröfu varnaraðila á varakröfu sóknaraðila.

Þar sem ekki hefur verið upplýst undir rekstri málsins um verðmæti annarra eigna aðila við hjúskaparstofnun þykja ekki tilefni til að víkja frá helmingaskiptareglu að öðru leyti en að framan greinir og skulu því aðrar eignir aðila sæta helmingaskiptum á grundvelli 103. gr. hjúskaparlaga.

Rétt þykir að málskostnaður milli aðila falli niður.

  Finnbogi H. Alexandersson, héraðsdómari kveður úrskurðinn upp.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Sóknaraðili skal fá greiddar utan skipta 7.008.986 krónur með verðbótum miðað við breytingu á vísitölu neysluverðs frá 30. október 1997 til 2. mars 2000.

Að öðru leyti skal við skipti á félagsbúi aðila stuðst við helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.

Málskostnaður fellur niður.