Hæstiréttur íslands

Mál nr. 252/2016

Ákæruvaldið (Stefanía G. Sæmundsdóttir saksóknari)
gegn
Aroni Trausta Sigurbjörnssyni (Oddgeir Einarsson hrl., Flosi Hrafn Sigurðsson hdl. 2. prófmál),
(Arnbjörg Sigurðardóttir réttargæslumaður )

Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Skaðabætur

Reifun

A var sakfelldur fyrir kynferðisbrot samkvæmt 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa haft samræði við B sem ekki gat spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga. Var refsing A ákveðin fangelsi í tvö ár auk þess sem honum var gert að greiða B 1.500.000 krónur í miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson og Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. mars 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hann verði sýknaður af henni.

B krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 1.500.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða og refsingu.

Að virtum þeim ítarlegu gögnum sem fyrir liggja um afleiðingar brots ákærða sem brotaþoli hefur þurft að glíma við verður miskabótakrafa hennar tekin til greina eins og hún er fram sett.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað eru staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, svo og útlagðan kostnað réttargæslumannsins, allt eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en einkaréttarkröfu.

Ákærði, Aron Trausti Sigurbjörnsson, greiði brotaþola, B, 1.500.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 1.129.000 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Oddgeirs Einarssonar hæstaréttarlögmanns, 868.000 krónur, þóknun réttargæslumanns brotaþola, Arnbjargar Sigurðardóttur hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur, og útlagðan kostnað réttargæslumannsins, 47.125 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 9. mars 2016.

Mál þetta, sem dómtekið var 14. janúar 2016, höfðaði ríkissaksóknari með ákæru 2. október 2015 á hendur ákærða, Aroni Trausta Sigurbjörnssyni, kt. [...], [...], [...];

„fyrir nauðgun, með því að hafa að morgni laugardagsins 2. ágúst 2014, að [...] á Akureyri, haft samræði við B, kennitala [...], gegn vilja hennar með því að notfæra sér að hún gat ekki spornað við sam­ræðinu sökum svefndrunga og ölvunar.

Telst þetta varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu B, kt. [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða miskabætur að fjárhæð kr. 1.500.000 auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 2. ágúst 2014 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laganna frá því einum mánuði eftir að kærða er birt bótakrafa þessi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða hæfilega þóknun vegna starfa réttargæslumanns að mati réttarins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts.

Kröfur ákærða í málinu eru þær aðallega að ákærði verði sýknaður af refsikröfu ákæruvalds en til vara að ákærða verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa. Þá krefst verjandi hæfilegrar þóknunar að mati dómsins sér til handa sem greiðist úr ríkissjóði ásamt öðrum sakarkostnaði. Hvað bótakröfu varðar krefst ákærði þess aðallega að bótakröfunni verði vísað frá dómi, til vara að hann verði sýknaður af kröfunni, en til þrautavara að krafan verði stórlega lækkuð.

I

A

Á hádegi laugardaginn 2. ágúst 2014 barst lögreglunni á Akureyri tilkynning símleiðis frá neyðarmóttöku Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri þess efnis að þar væri stödd ung kona, B, sem komið hefði inn til skoðunar vegna meints kynferðisbrots gegn henni.

Á sjúkrahúsinu hitti lögregla fyrir vinkonu brotaþola, C. Greindi C svo frá að hún og brotaþoli hefðu komið til Akureyrar kvöldið áður. Þær hefðu farið á [...] þar sem þær hefðu hitt nokkra stráka sem þær hefðu farið með í eftirpartý síðar um nóttina. Hvar það samkvæmi fór fram vissi stúlkan ekki en fyrir liggur í málinu að það var við húsið nr. [...] við [...] á Akureyri. Eftir C er haft í frumskýrslu lögreglu að brotaþoli hefði verið ofurölvi og hún dáið áfengisdauða í forstofu hússins. Húsráðandi, ákærði í málinu, hafi í kjölfarið farið með brotaþola í rúm sitt. C hefði síðan yfirgefið samkvæmið ásamt einum strákanna. Um það bil klukkustund síðar hefði brotaþoli komið þangað sem C gisti og greint henni frá því að hún hefði vaknað við það að ákærði var að hafa við hana samfarir. Brotaþoli hefði í framhaldinu farið til skoðunar á Fjórðungssjúkrahúsinu samkvæmt áðursögðu.

Í kjölfar viðtalsins við C ræddi lögregla við brotaþola, sem þá hafði undirgengist skoðun á sjúkrahúsinu. Kom fram hjá brotaþola að þær C hefðu komið til Akureyrar að áliðnum föstudeginum. Brotaþoli kvaðst ekki muna mikið eftir kvöldinu en minntist þess þó að þær hefðu farið á [...] um eða eftir miðnætti. Hefðu þær verið búnar að drekka töluvert áfengi. Er eftir brotaþola haft í frumskýrslu að hún myndi ekki eftir því að hafa hitt „strákana“ á [...] þar sem hún myndi síðast eftir sér. Hún hefði þá verið orðin mjög ölvuð. Það næsta sem hún myndi væri að hafa vaknað nakin í ókunnu rúmi með karlmann ofan á sér og hefði karlmaðurinn verið að hafa við hana samfarir. Karlmaðurinn hefði fengið sáðfall yfir brotaþola og þá hætt samförunum. Brotaþoli hefði farið fram á bað, klætt sig og komið sér út. Maðurinn hefði þá verið sofandi. Fyrir utan húsið hefði brotaþoli hitt strák sem hún hefði sagt frá því sem gerðist. Brotaþoli hefði því næst farið með leigubíl að húsi við [...], þar sem C hefði gist. Eftir að hafa farið þar í sturtu hefði brotaþoli farið á sjúkrahúsið til skoðunar. Kom fram hjá brotaþola í viðræðum við lögreglu að samfarirnar hefðu ekki verið með hennar vilja og vitund og að gerandann, sem brotaþoli kvaðst ekki þekkja, vildi hún kæra fyrir kynferðisbrot.

Eftir að hafa rætt við stúlkurnar framkvæmdi lögregla vettvangsrannsókn að [...] á Akureyri. Samtímis hóf hún leit að ákærða og var hann handtekinn skömmu síðar við [...] á Akureyri. Í kjölfarið tók lögregla skýrslu af ákærða. Við skýrslutökuna kannaðist ákærði við að hafa haft samfarir við brotaþola. Fullyrti ákærði að báðir aðilar hefðu tekið þátt í samförunum af fúsum og frjálsum vilja.

Síðdegis þennan sama dag hafði lögregla einnig uppi á fjórum karlmönnum sem farið höfðu með ákærða og stúlkunum tveimur að [...] um nóttina. Lögregla tók skýrslur af mönnunum og lauk skýrslutökum laust fyrir kl. 20:30 um kvöldið.

B

Í málinu liggur frammi matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, dagsett 21. ágúst 2014, undirrituð af D og E, sem báðar eru deildarstjórar á rannsóknastofunni. Matgerðin varðar alkóhólrannsókn á þvag- og blóðsýnum sem brotaþoli gaf í þágu rannsóknar málsins. Í matsgerðinni segir svo:

Etanólstyrkur í blóðsýni 73886 (kl. 12:00) mældist 1,15‰, 0,96‰ í blóðsýni 73887 (kl. 13:15) og 2,01‰ mældust í þvagsýni 73885 (kl. 10:15). Beðið er um mat á ölvunarástandi hlutaðeigandi milli kl. 06:00 og 08:00. Niðurstöður hér að ofan sýna að etanólstyrkur í blóði hlutaðeigandi hefur náð hámarki, það styður niðurstaða úr blóðsýni nr. 73887. Etanólstyrkur í þvaginu, þ.e. 2,01‰, segir einnig til um meðalstyrk etanóls í blóðinu einhvern tíma á undan. Etanólstyrkur í blóðinu hefur því örugglega verið að minnsta kosti 1,6‰ fyrir kl. 10:15 (sambærilegur styrkur í blóði er 20 til 25% lægri en í þvagi vegna þess að þvag er að mestu leyti vatn.)

Brotthvarfshraði etanóls úr blóði hlutaðeigandi er 0,15‰ á klukkustund. Ef reiknað er til baka með brotthvarfshraðanum, þá hefur etanólstyrkur verið um 1,6‰ 3 klukkustundum fyrir fyrri blóðsýnatöku, þ.e. um kl. 09. Ekki er hægt að segja til um etanólstyrkinn með mikilli nákvæmni lengra aftur, en miðað við brotthvarfshraða úr blóðinu gæti etanólstyrkur í blóði hafa verið 0,15 til 0,45‰ hærri en kl. 09 að því gefnu að lítil sem engin drykkja hafi átt sér stað eftir kl. 05 þessa nótt. Samkvæmt framansögðu hefur hlutaðeigandi verið ölvaður milli kl. 06:00 og 08:00.

 

D kom fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og staðfesti og skýrði matsgerðina. Staðfesti hún aðspurð að miðað við niðurstöður matsgerðarinnar gæti etanólstyrkur í blóði brotaþola á milli kl. 6:00 og 8:00 um morguninn hafa verið á bilinu 1,75‰ til 2,05‰.

 

Í málinu liggur einnig frammi vottorð F sálfræðings „... um líðan og meðferðarþarfir brotaþola eftir meint kynferðisbrot.“ Vottorðið er dagsett 13. nóvember 2015. Fram kemur í vottorðinu að þegar það var ritað hafði vottorðsgjafi fengið brotaþola til sín í 21 viðtal, á tímabilinu 8. ágúst 2014 til 30. október 2015. Í samantektarkafla í vottorðinu segir meðal annars svo:

Allt viðmót B bendir til þess að hún hafi upplifað mikla ógn, ofsaótta og bjargarleysi í meintu kynferðisbroti sem átti sér stað þann 02.08.2014. Niðurstöður endurtekins greiningarmats sýna að B þjáðist af áfallastreituröskun (Posttraumatic Stress Disorder) í kjölfar meints kynferðisbrots. Sálræn einkenni hennar í kjölfar áfallsins samsvara einkennum sem eru þekkt hjá fólki sem hefur upplifað alvarleg áföll eins og líkamsárás, nauðgun, stórslys eða hamfarir. Niðurstöður sjálfsmatskvarða samsvöruðu vel frásögnum hennar í viðtölum. B virtist trúverðug og samkvæm sjálfri sér.

Eins og fram hefur komið er formlegri meðferð við áfallastreituröskun eftir meint kynferðisbrot lokið með ágætum árangri en áfallastreitueinkenni B flokkast nú sem væg. B hefur verið í eftirfylgd hjá undirritaðri frá því meðferð lauk og býðst sú eftirfylgd áfram þar til dómsmáli lýkur. Hún mætti vel í viðtöl, var samstarfsfús og lagði sig fram um að sinna krefjandi verkefnum. B hefur viðhaldið bata sínum vel þó einkenni hennar hafi hækkað aðeins við aukna streitu tengda kærumáli. B er enn að takast á við afleiðingar meints kynferðisbrots í sínu daglega lífi og þarf áfram að vinna að því að viðhalda bata sínum. Ekki er hægt að segja til með vissu hver áhrif meints kynferðisbrots verða þegar til lengri tíma er litið en ljóst þykir að atburðurinn hefur haft víðtæk áhrif á líðan B.

 

F kom fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og staðfesti og skýrði vottorðið. Fram kom hjá vitninu að þegar aðalmeðferð málsins fór fram 14. janúar sl. hefði vitnið verið búið að hitta brotaþola í 22 skipti. Þá upplýsti vitnið að það hringdi reglulega í brotaþola. Nefndi vitnið í þessu sambandi að kærumálið sem slíkt hefði reynst streituvaldur fyrir brotaþola. Þannig hefðu einkenni brotaþola tekið að aukast aðeins að nýju í kjölfar þess að hún hefði fengið af því tíðindi að hreyfing færi að komast á málið. Í dag væri brotaþoli með væg áfallastreitueinkenni.

Vitnið sagði ekkert liggja fyrir um fyrri áföll brotaþola. Ekkert væri að finna í sjúkraskrá brotaþola sem skýrði áfallastreitu hennar. Væri það því mat vitnisins að mjög skýr tengsl væru á milli umræddra einkenna brotaþola og atvika máls þessa.

Vitnið kvaðst vonast eftir því að brotaþoli næði sér af fyrrgreindum einkennum. Bati hennar gæti að mati vitnisins orðið nokkuð góður. Það þýddi hins vegar ekki að batinn yrði fullkominn.

II

Ákærði kom fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og neitaði sök. Hann hafnaði einnig bótakröfu brotaþola. Í skýrslu sinni fyrir dómi greindi ákærði svo frá að hann hefði komið til Akureyrar umrædda nótt til þess að hitta nokkra vini sína. Félagar ákærða hefðu verið þangað komnir til að spila á hátíð um verslunarmanna­helgina. Ákærði hefði hitt félaga sína á bar um nóttina og þegar staðnum var lokað hefðu þeir fært sig yfir á annan stað sem opinn var lengur. Á honum hefðu þeir hitt tvær stúlkur sem þekkt hefðu einhverja af félögum ákærða. Aðspurður kvaðst ákærði ekki reka minni til þess að hafa rætt við stúlkurnar inni á skemmtistaðnum.

Síðar um nóttina hefði ákærði rölt ásamt tveimur félaga sinna heim til [...]. Þar hefðu þeir ætlað að gista, ákærði í húsinu en félagar hans í tjaldi í garðinum. Er þangað var komið hefði verið slegið upp eftirpartýi, bjór verið drukkinn og spilað á gítar. Í samkvæminu hefðu verið, auk ákærða og félaga hans, fyrrnefndar tvær stúlkur.

Á einhverjum tímapunkti hefði önnur stúlknanna, brotaþoli í málinu, farið inn í anddyri hússins þar sem ákærði hefði farið að spjalla við hana. Hefðu þau bæði setið á gólfinu. Stúlkan hefði verið með hiksta og hefði ákærði gefið henni ráð til þess að losna við hikstann. Til tals hefði komið strákur sem brotaþoli hefði sagt að farið hefði til [...]. Brotaþoli hefði haft símann sinn uppi við og eitthvað verið að velta því fyrir sér hvort hún ætti að senda stráknum skilaboð. Spurður um hvort í þessum samræðum hefði falist daður þeirra tveggja á milli kvaðst ákærði telja að svo hefði verið.

Eftir að ákærði og brotaþoli höfðu ræðst við í töluverðan tíma í anddyrinu, en þau hefðu lengstum verið þar tvö, aðrir einungis gægst þar inn, hefði brotaþoli sagst vera þreytt. Ákærði hefði þá boðið henni að leggjast í rúmið sem hann hefði ætlað að sofa í um nóttina. Hann hefði fylgt stúlkunni að rúminu og mögulega tekið sængina af því fyrir hana. Er þarna var komið sögu hefðu þau enn verið að spjalla. Um hvað gat ákærði hins vegar ekki borið. Ákærði hefði síðan farið út úr húsinu til félaga sinna.

Ákærði sagði þá félaga hafa haldið áfram að spjalla og spila á gítar um hríð. Ró hefði síðan færst yfir flesta og partýið fjarað út. Ákærði hefði þá sagt við félaga sína að hann hygðist fara og prófa að skríða upp í rúm og athuga hvort honum yrði sparkað út úr. Færi svo myndi ákærði koma aftur og gista í tjaldinu hjá félögum sínum. Vegna samskipta sinna við brotaþola fyrr um nóttina hefði ákærða langað að athuga hvort hann „fengi jákvætt viðmót“ ef hann færi upp í til hennar. Hann hefði talið þeirra fyrri samskipti gefa til kynna að svo gæti farið.

Þegar inn var komið kvaðst ákærði hafa lyft sænginni. Brotaþoli hefði þá vaknað, litið á ákærða og fært sig til í rúminu, nær veggnum, til að rýma til fyrir honum. Hún hefði þá enn verið klædd. Ákærði hefði síðan lagst fullklæddur upp í rúmið aftan við brotaþola, sem snúið hefði andlitinu að veggnum. Ákærði kvaðst hafa lagt annan handlegginn yfir stúlkuna og síðan fljótlega byrjað að gæla við hana, strjúka henni. Viðmót brotaþola hefði verið jákvætt. Spurður um í hverju þetta jákvæða viðmót hefði falist sagði ákærði erfitt að lýsa því. Ákærði hefði metið það svo að stúlkan hefði haft „gaman að“ strokum hans. Kom fram hjá ákærða að þau hefðu ekkert sagt hvort við annað. Síðan hefðu þau kysst eitthvað og í sameiningu fært brotaþola úr fötunum, fyrst úr bolnum og síðan úr buxunum. Ákærði hefði því næst afklætt sig og þau stundað kynlíf, haft samfarir. Í samförunum hefðu þau mestmegnis verið í svokallaðri trúboðastellingu en þó hefði brotaþoli einnig lagst á hliðina og snúið sér til veggjar og ákærði legið fyrir aftan hana. Ákærði sagði aðspurður að brotaþoli hefði ýmist verið með augun opin eða lokuð meðan á samförunum stóð. Spurður um hvort brotaþoli hefði sjálf sýnt sérstaklega af sér kynferðislegar athafnir gagnvart ákærða svaraði hann: „Bara móttökur við mínum, mestmegnis.“ Að samförunum loknum hefði brotaþoli farið úr rúminu og ákærði sofnað. Þegar hann hefði vaknað aftur hefði brotaþoli verið farin á brott.

Spurður um ástand sitt þessa nótt svaraði ákærði því til að hann hefði verið ölvaður. Kvaðst ákærði „gera ráð fyrir“ að það hefði brotaþoli einnig verið. Nánar aðspurður sagði ákærði það ekki hafa slegið sig svo að brotaþoli væri áberandi ölvuð, „... við vorum bara þarna hópur af fólki að drekka og ég spáði nú lítið í því.“ Ástand brotaþola hefði verið þannig að hún hefði verið fær um að sporna gegn samförunum hefðu þær verið henni á móti skapi.

III

B, brotaþoli í málinu, lýsti málsatvikum svo fyrir dómi að hún hefði farið ásamt C, vinkonu sinni, norður til Akureyrar umrædda verslunarmannahelgi. Þær hefðu verið komnar til bæjarins um kl. 18:00, föstudaginn 1. ágúst 2014. Fyrst hefðu þær farið heim til vinar C, G, sem búinn hefði verið að lofa þeim gistingu. Fram eftir kvöldi hefðu þær verið að gera sig til og horfa á bíómynd. Á meðan hefðu þær verið að drekka. Taldi brotaþoli aðspurð að hún hefði drukkið sex eða sjö stóra bjóra. Einnig hefði hún drukkið nokkra sopa af vodkablöndu sem C var með.

Um kl. 1 um nóttina hefði brotaþoli farið á [...] ásamt vinkonu sinni og yngri systur, sem komið höfðu heim til G fyrr um kvöldið. Á [...] hefði brotaþoli hitt sinn besta vin, H, ásamt kærustu hans. Seinna kvaðst brotaþoli hafa verið orðin „ansi drukkin“. Rámaði brotaþola í að hún hefði farið stuttan rúnt ásamt vinkonu sinni. Er þar var komið sögu hefði brotaþoli verið farin að „detta út“. Þegar þær komu til baka á [...] kvaðst brotaþoli hafa verið orðin illa áttuð. Spurð um áfengisneyslu sína á [...] þessa nótt svaraði brotaþoli því til að hún hefði drukkið eina vodkablöndu, einn mjög stóran bjór og þrjá litla bjóra.

Eftir lokun [...] hefði brotaþoli hitt áðurnefndan H fyrir utan staðinn. Hún hefði rætt eitthvað við hann og meðal annars spurt hann um C, sem brotaþoli hefði verið búin að missa af. Á þessum tímapunkti kvaðst brotaþoli hafa verið orðin ofurölvi. Það næsta sem brotaþoli muni sé að hún ranki við sér og geri sér þá grein fyrir því að „... það var verið að sofa hjá mér.“ Maður hefði legið ofan á brotaþola og verið að hafa samfarir við hana um leggöng. „Mér leið samt einhvern veginn eins og ég væri í [...]. Það var ógeðslega heitt og svona skrýtið umhverfi. Ég kannaðist ekkert við mig.“ ... „Ég næ ekki einu sinni að gera mér grein fyrir því hvað er að gerast almennilega. ... ég veit, mér fannst frekar augljóst að það var verið að sofa hjá mér, ég fann alveg vel fyrir þessu. ... Ég bara náði ekki að gera neitt. ... Ég var bara hálfdauð.“ Brotaþoli kvaðst hafa upplifað mikið varnarleysi og fullyrti að hún hefði vegna ölvunar ekki verið í ástandi til þess að sporna við samförunum.

Brotaþoli hefði dottið út aftur og næst muni hún eftir sér inni á klósetti, nakinni. Á þeim tímapunkti hefði brotaþoli ekki haft nokkra hugmynd um hvar hún var stödd eða hvernig hún hafði komist þangað sem hún var. Brotaþoli sagðist hafa fundið fyrir klístri á maganum á sér og verið aum í leggöngunum. Þegar hún hefði komið út af klósettinu hefði hún séð „þennan mann“ sofandi í rúminu. Kvaðst hún ekkert hafa þekkt manninn, ákærða í málinu, og myndi hún ekki til þess að hafa nokkru sinni talað við hann. Brotaþoli sagði sér hafa brugðið mjög. Hún hefði verið að hitta strák á þessum tíma, bróður C, og hún væri ekki týpan í það að halda framhjá eða sýna einhverjum óvirðingu. Brotaþoli hefði í framhaldinu klætt sig eins hljóðlega og hún gat í fötin og farið út úr húsinu. Er út var komið hefði brotaþoli hringt í C og spurt hana eftir því hvar hún væri. Einnig hefði brotaþoli spurt vinkonu sína þess hvar hún sjálf væri niðurkomin og af hverju vinkonan væri ekki hjá henni.

Brotaþoli kvaðst því næst hafa séð hvar strákur sat á dýnu fyrir utan tjald í garðinum. Brotþoli hefði innt hann eftir því hvar hún væri stödd. Að þeim upplýsingum fengnum hefði brotaþoli hringt á leigubíl. Á meðan hún beið eftir leigubílnum hefði hún greint stráknum frá því hvað hafði gerst. Eftir drykklanga stund hefði leigubíllinn loks komið og brotaþoli farið með honum þangað sem C gisti. Er þangað kom hefði C verið á snyrtingunni, brotaþoli drepið á dyr og vinkona hennar hleypt henni inn. Brotaþoli hefði síðan greint vinkonu sinni frá því sem hafði gerst að því marki sem hún sjálf hafði náð að átta sig á því. C hefði liðið mjög illa yfir því að hafa yfirgefið partýið án brotaþola. Er þarna var komið sögu kvaðst brotaþoli enn hafa verið töluvert ölvuð. Brotaþoli sagðist hafa verið í áfalli og hún fundið fyrir mikilli skömm, án þess þó að hafa vitað hvernig atvik höfðu þróast um nóttina. Brotaþola hefði liðið „ógeðslega“ og hún því viljað fara í sturtu. Þar hefði hún brotnað niður. Eftir að hafa skolað af sér hefði brotaþoli klætt sig. Er brotaþoli hefði komið fram aftur hefði hún greint I frá því sem gerst hafði og innt hann eftir því hvort hann vissi hver umræddur maður væri. Það hefði I vitað. Brotaþoli hefði síðan hringt í móður sína og greint henni frá atvikum. Móðir brotaþola hefði ráðlagt henni að fara upp á sjúkrahús og láta fötin sem hún var í um nóttina í poka. Það hefði brotaþoli gert og hefðu C og I fylgt henni á sjúkrahúsið. Á sjúkrahúsinu hefði verið vel tekið á móti brotaþola. Hún hefði fyrst rætt við hjúkrunarfræðing og lækni og síðan rannsóknar­lögreglumann, sem kallaður hefði verið á staðinn.

Brotaþoli kvaðst hafa farið til meðferðar hjá F sálfræðingi strax í kjölfar atburðarins. Hún hefði sótt tíma hjá sálfræðingnum vikulega í marga mánuði. Brotaþoli væri enn að hitta hana. Einnig hefði brotaþoli þurft að leita læknisaðstoðar vegna tíðra uppkasta, bólgna í maga og ógleði. Þá hefði hún misst mikið úr vinnu vegna þunglyndis og kvíða. Kvaðst brotaþoli hafa fengið þær skýringar að þessi einkenni væru stress- og álagstengd.

C bar fyrir dómi að á föstudeginum hefðu hún og brotaþoli komið akandi til Akureyrar. Fyrst hefðu þær farið heim til vinar vitnisins, G, sem búinn hefði verið að lofa þeim gistingu. Þangað hefðu einnig komið systir brotaþola og vinkona hennar. Þær hefðu verið að drekka heima hjá G um kvöldið ásamt fleira fólki. Þær hefðu síðan farið niður í bæ á skemmtistað. Þar hefðu þær haldið áfram að drekka. Vitnið kvaðst hafa yfirgefið staðinn um hríð og farið á rúntinn með vini sínum. Að ökuferðinni lokinni hefði vitnið farið aftur á sama barinn. Þar hefði vitnið haldið drykkju áfram. Þegar staðnum hefði verið lokað um nóttina hefði vitnið leitað brotaþola uppi og fundið hana við borð þar sem hún sat ásamt nokkrum strákum. Vitnið og brotaþoli hefðu labbað saman út af staðnum og þær síðan farið með nokkrum strákanna í hús í bænum í eftirpartý.

Vitnið kvaðst minnast þess að hafa ásamt brotaþola setið í stigagangi hússins um nóttina. Brotaþoli hefði þá virst vera „ógeðslega þreytt“. Hún verið orðin „frekar drukkin“, m.ö.o. „out of it“. Tók vitnið sérstaklega fram í þessu sambandi að sjálft hefði það verið orðið vel ölvað er þarna var komið sögu. Vitnið taldi að einhver hefði sest niður hjá henni og brotaþola en gat ekki um það borið hver það hefði verið. Muni vitnið síðan eftir sér fyrir utan húsið þar sem gestir í partýinu hefðu verið að syngja og spila á gítar. Vitnið hefði komið því til leiðar að leigubíll kom að húsinu til að sækja það. Þegar leigubílinn kom hefði brotaþoli verið uppi í rúmi inni í húsinu „... en hún var svo rotuð að ég fór inn í leigubílinn.“ Hvernig það kom til að brotaþoli var þangað komin gat vitnið ekki um borið en sagðist hafa heyrt frá einhverjum að henni hefði verið hjálpað upp í rúmið þar sem hún hefði verið að „deyja“ á ganginum. Vitnið kvaðst hvorki muna eftir ökuferðinni né eftir því að hafa farið inn í húsið hjá G, þar sem vitnið gisti. Vitnið myndi hins vegar eftir því að hafa rætt við G inni í húsinu.

Fram kom hjá vitninu að I, sem vitnið hefði þekkt síðan í grunnskóla, hefði orðið því samferða úr eftirpartýinu og hefðu þau gist heima hjá G. Þau hefðu verið vakandi uppi í rúmi um morguninn þegar brotaþoli hafi hringt í vitnið. Brotaþoli hefði verið illa áttuð og ekkert vitað hvar hún var stödd. Stuttu síðar hefði brotaþoli birst og verið „vönkuð“ að sjá. Hún hefði beðið vitnið að greiða fyrir leigubílinn, sem það hefði gert. Þegar vitnið kom til baka inn í húsið hefði það rætt við brotaþola inni á snyrtingu. Vitnið hefði í fyrstu ekki skilið vel hvað brotaþoli var að segja. Brotaþola hefði ekki liðið vel, henni fundist eins og hún væri skítug. Hún hefði talað um að „... hann hefði farið, eða gert eitthvað við hana.“ Brotaþoli hefði síðan farið í sturtu og vitnið á meðan farið aftur upp í til I. Skömmu síðar hefði brotaþoli komið hágrátandi inn í herbergið til þeirra eftir að hafa rætt við móður sína í síma. Í kjölfarið hefði brotaþoli greint þeim frá því hvað gerst hafði. Vitnið og I hefðu síðan fylgt brotaþola upp á spítala.

Vitnið tók fram að minni þess af atvikum næturinnar væri þokukennt. Hún myndi atvikin alls ekki heildstætt vegna áfengisneyslu. Um drykkju brotaþola bar vitnið aðspurt að hún hefði drukkið mikið áður en þær fóru á skemmtistaðinn samkvæmt áðursögðu. Mest bjór. Þá hefði vitnið séð hana nokkrum sinnum á barnum með mismunandi kokteila.

I greindi svo frá fyrir dómi að hann hefði verið staddur á Akureyri umrædda helgi þeirra erinda að spila með hljómsveitinni sinni. Um kvöldið hefðu vitnið og aðrir hljómsveitarmeðlimir farið út að skemmta sér og hefði ákærði, sem vitnið sagði vera góðan vin sinn, verið með þeim í för. Þegar komið hefði verið undir morgun hefðu þeir félagar hitt tvær stelpur, brotaþola og C, vinkonu hennar, sem vitnið kvaðst hvoruga hafa þekkt. Öll hefðu þau verið drukkin. Nánar lýsti vitnið sjálfu sér sem hífuðu, það hefði ekki riðað til eða neitt slíkt, og taldi vitnið að það myndi málsatvik frekar vel. Brotaþola lýsti vitnið svo: „Hún var svolítið hress, hún var hressari en ég allavega. ... Mér fannst hún vera ölvaðri en ég. ... En ekkert óeðlilega.“

Um nóttina hefðu þau öll farið „heim til Arons“, en vitnið og félagar hans hefðu verið búnir að ákveða að tjalda í garðinum. Fyrir utan húsið hefðu þau öll setið og spjallað saman. Svo hefði farið að ákærði leyfði brotaþola að gista inni hjá sér í samræmi við ósk hennar þar um. Ákærði hefði fylgt stúlkunni inn. Hann hefði síðan komið aftur út úr húsinu og þeir félagar haldið áfram að drekka, spjalla saman og skemmta sér. Vitnið hefði síðan farið á brott ásamt C. Brotaþoli hefði þá verið farin inn. Fram kom hjá vitninu að sjálft hefði það aldrei farið inn í húsið. Samskipti sín við brotaþola í garðinum sagði vitnið hafa verið takmörkuð. Vitnið hefði lítið rætt við brotaþola. Það hefði meira talað við vinkonu hennar.

Um kl. 10 um morguninn hefði brotaþoli síðan hringt í C og sagst ætla að koma til hennar. Í kjölfarið hefði stúlkan birst „... og þá virkar eins og eitthvað sé að ...“ hjá brotaþola. Þær vinkonurnar hefðu farið út úr herbergi því sem vitnið var í og rætt saman. Vitnið hefði þrátt fyrir það heyrt hvað stúlkunum fór á milli. „Eins og þetta blasir við mér þá er hún að sannfæra sjálfa sig um að eitthvað óeðlilegt hafi átt sér stað.“ Nefndi vitnið í því sambandi að komið hefði til tals um nóttina að brotaþoli hefði á þessum tíma verið að „deita einhvern strák“, sem vitnið taldi mögulega hafa tengst vinkonunni. „Hún er einhvern veginn svona ekki viss um það sem hafði gerst og er svona að leiða sjálfa sig að þeirri niðurstöðu að þetta hafi verið, sem sagt, nauðgun.“ Sagði vitnið sér hafa fundist skrýtið að hlýða á þetta. „Þetta fannst mér vera einhvern veginn svona hún að sannfæra sjálfa sig. Þetta var mjög skrýtið.“ Fram hefði komið hjá brotaþola að innst inni hefði hún ekki viljað gera þetta. Hins vegar hefði einnig komið fram hjá henni að „... hún beitti engri mótspyrnu eða tjáði sig ekkert um það.“ Í kjölfarið hefði vitnið fylgt brotaþola og vinkonu hennar upp á spítala.

Sérstaklega aðspurt fyrir dómi staðfesti vitnið lýsingar sínar fyrir lögreglu á ástandi brotaþola umrædda nótt sem réttar.

J skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði verið að spila með hljómsveit sinni á Akureyri um verslunarmanna­helgina 2014. Vitnið og félagar þess í hljómsveitinni, I, K og L, hefðu verið komnir til bæjarins undir miðnætti á föstudagskvöldinu. Í miðbænum hefðu þeir hitt góðan vin vitnisins, ákærða í málinu. Ákærði, sem ættir eigi að rekja til bæjarins, hefði verið í gistingu heima hjá [...] og hefðu vitnið og félagar þess í hljómsveitinni fengið leyfi til þess að tjalda í garðinum við húsið.

Fyrst hefðu vitnið og félagar þess farið á [...]. Þeir hefðu yfirgefið þann stað á milli kl. 2 og 3 og fært sig yfir á [...]. Þar hefðu þeir meðal annarra hitt tvær stelpur, brotaþola og vinkonu hennar, sem vitnið hefði hvoruga þekkt fyrir. Taldi vitnið líklegt að það hefði eitthvað spjallað við brotaþola inni á staðnum en gat hins vegar ekkert sagt til um það hvað þeim fór á milli. Vitnið sagðist hafa dvalið á [...] ásamt félögum sínum fram að lokun staðarins á milli kl. 4 og 5. Í framhaldinu hefðu þeir rölt eitthvað um bæinn. Þeir hefðu síðan, ásamt stelpunum tveimur, endað í garðinum heima hjá [...]. Þar hefðu þau haldið áfram að drekka og skemmta sér. Kom fram hjá vitninu að öll hefðu þau verið undir áhrifum áfengis.

Vitnið sagði ákærða hafa boðið brotaþola að leggja sig í hans rúmi. Þau hefðu í kjölfarið farið inn í húsið og dvalið þar um hríð. Ákærði hefði síðan komið út aftur og haldið áfram að drekka og spjalla.

I hefði síðan farið á brott ásamt vinkonu brotaþola og gist hjá henni. Nokkru síðar hefðu þeir ákærði boðið hvor öðrum góða nótt og ákærði farið inn í húsið aftur. K og L hefðu gist í tjaldinu en vitnið sofið á dýnu út undir berum himni. Vitnið hefði vaknað við það síðar að brotaþoli settist niður við hlið þess. Þau hefðu setið og rætt saman í stutta stund og brotaþoli hringt á leigubíl. Brotaþoli hefði verið „á einhverjum bömmer.“ „Bömmer“ hennar hefði gengið út á það af hverju hún hefði verið að sofa hjá ákærða þegar hún væri hrifin af öðrum manni. Þegar leigubíllinn hefði komið hefði brotaþoli farið á brott í honum áleiðis til vinkonu sinnar.

Fyrir dómi var samantektarskýrsla lögreglu af framburði vitnisins borin undir vitnið. Staðfesti vitnið þá lýsingu á ástandi brotaþola sem fram kemur í þeirri skýrslu.

Vitnið K bar fyrir dómi að umrætt kvöld hefði hann verið ásamt félögum sínum í miðbæ Akureyrar. Þeir hefðu kíkt á einn eða tvo staði og hitt þar tvær stelpur sem vitnið hefði ekki þekkt, einungis kannast lauslega við aðra þeirra. Spurt um ástandið á stúlkunum svaraði vitnið því til að það hefði verið „mjög eðlilegt miðað við aðstæður. Fólk var að fá sér bjór en ekkert eitthvað mikið.“ Um eigið ástand sérstaklega bar vitnið: „... ég var bara mjög temmilegur.“

Þau hefðu síðan öll farið saman upp á [...] og fengið sér [...]. Því næst hefðu þau farið að húsi [...] þar sem vitnið og félagar þess hefðu verið búnir að slá upp tjaldi í garðinum. Er þangað var komið hefðu þau drukkið nokkra bjóra og spjallað. Sérstaklega aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa merkt það að stúlkurnar tvær hefðu verið eitthvað meira ölvaðar en þeir félagarnir.

Fram kom hjá vitninu að brotaþoli hefði farið inn í húsið. Taldi vitnið að brotaþoli hefði viljað gista inni „... frekar en úti, eða eitthvað svoleiðis, ef ég man það rétt.“ Brotaþoli hefði allt að einu farið inn með ákærða á einhverjum tímapunkti og sofnað þar.

H, sem kvaðst aðspurður vera vinur brotaþola, lýsti atvikum svo fyrir dómi að hann hefði hitt brotaþola á [...] umrædda nótt. Hefði vitnið séð brotaþola drekka áfengi inni á skemmtistaðnum. Vitnið hefði síðan hitt hana aftur fyrir utan staðinn í þá mund sem verið var að loka honum. Brotaþoli hefði þá setið á jörðinni uppi við vegg og verið svo ölvuð „... að hún stóð ekki í lappirnar.“ Vitnið kvaðst hafa farið til brotaþola og talað við hana. Vitnið hefði ekki viljað skilja brotaþola eina eftir og því beðið hjá henni þar til vinkona hennar, C, kom og sótti hana.

Vitnið M læknir kvaðst hafa skoðað brotaþola laugardaginn 2. ágúst 2014, um kl. 13:30. Þá hefðu verið liðnar 6-7 klukkustundir frá umræddu atviki að sögn brotaþola. Stúlkan hefði sagst hafa rumskað um kl. 7:00 um morguninn við að verið var að hafa við hana samfarir.

Andlega sagði vitnið brotaþola hafa verið yfirvegaða. Eigi að síður hefði verið greinilegt að henni „... leið ekki alveg nógu vel.“ Þá hefði brotaþoli ekki munað atvik „... alveg nógu skýrt heldur.“ Stúlkan hefði vísað til mikillar áfengisneyslu sinnar því til skýringar.

Fram kom hjá vitninu að brotaþoli hefði verið búin að fara í sturtu áður en hún kom á sjúkrahúsið til skoðunar. Við þá skoðun hefði enga líkamlega áverka verið að sjá. Þá hefðu engin merki um sæði fundist í leggöngum.

Staðfestið vitnið að á sjúkrahúsinu hefði brotaþoli gefið blóð- og þvagsýni í þágu rannsóknar málsins.

N rannsóknarlögreglumaður bar fyrir dómi að hann hefði verið á bakvakt er atvik máls gerðust og verið kallaður út vegna málsins. Greindi vitnið svo frá að um kl. 12:00 hefði lögreglu borist tilkynning frá sjúkrahúsinu á Akureyri um unga konu sem komið hefði þangað til skoðunar. Vitnið hefði farið upp á neyðarmóttöku og hitt þar fyrir brotaþola og vinkonu hennar, C. Vitnið hefði rætt stuttlega við vinkonu brotaþola til þess að átta sig á atvikum. Stúlkan hefði lýst atvikum fram til þess tíma er þær brotaþoli urðu viðskila um nóttina.

Eftir að brotaþoli hafði gengist undir skoðun á sjúkrahúsinu hefði vitnið rætt við hana. Í kjölfar þess hefði lögregla farið í aðgerðir sem miðuðu að því að hafa uppi á meintum geranda og öðrum þeim sem lögregla taldi að tengst gætu málinu. Þær aðgerðir hefðu gengið hratt og vel fyrir sig og hefði ákærði verið handtekinn síðar um daginn, eða um kl. 15:00. Skýrsla hefði verið tekin af ákærða í kjölfarið. Vitnaskýrslur hefðu síðan einnig verið teknar af félögum ákærða, hljómsveitarmeðlimunum fjórum, þennan sama dag og hefði skýrslutökum verið lokið fyrir kl. 21:00 um kvöldið.

IV

Fyrir liggur að síðla nætur laugardaginn 2. ágúst 2014 fóru ákærði og fjórir félagar hans úr miðbæ Akureyrar ásamt brotaþola og vinkonu hennar að húsi [...] að [...] á Akureyri. Var samkvæmi slegið upp í garðinum við húsið. Upplýst er að síðar um nóttina fór brotaþoli inn í húsið ásamt ákærða og lagðist til hvílu í rúmi því sem ákærði hafði þar til umráða. Ákærði fór síðan aftur út úr húsinu til félaga sinna. Einnig er upplýst að ákærði fór inn í húsið að nýju nokkru síðar. Fyrir dómi kannaðist ákærði við að hafa sagt áður en hann fór inn að hann hygðist fara og prófa að skríða upp í rúm og athuga hvort honum yrði sparkað út úr. Ákærði fór síðan inn og lagðist upp í rúmið hjá brotaþola. Ákærða er í málinu gefið að sök að hafa í kjölfarið haft samræði við brotaþola gegn vilja stúlkunnar með því að notfæra sér að hún gat ekki spornað við samræðinu sökum svefndrunga og ölvunar. Ákærði neitar sök. Hann hefur, bæði við skýrslugjöf hjá lögreglu og fyrir dómi, kannast við að hafa haft samræði við brotaþola en ber því við að samræðið hafi verið með vitund og vilja brotaþola.

Við aðalmeðferð málsins lýsti brotaþoli mikilli áfengisneyslu sinni umrætt kvöld og nótt, svo sem rakið er í III. kafla dómsins. Um ástand sitt bar brotaþoli að hún hefði verið orðin „ansi drukkin“ á [...] og eftir stutta bílferð með vinkonu sinni hefði hún verið farin að „detta út“ og verið illa áttuð. Eftir lokun staðarins hefði brotaþoli hitt vin sinn, H, fyrir utan. Hún hefði þá verið orðin ofurölvi. Þessi framburður brotaþola er í samræmi við vætti H fyrir dómi en hann sagði brotaþola hafa verið svo ölvaða fyrir utan staðinn „... að hún stóð ekki í lappirnar.“ Sagði vitnið ástand brotaþola hafa verið slíkt að það hefði ekki viljað skilja stúlkuna eina eftir. Vitnið hefði því beðið hjá brotaþola þar til vinkona hennar kom og sótti hana. Sú lýsti ástandi brotaþola í anddyri hússins að [...] síðar um nóttina svo að stúlkan hefði virst vera „ógeðslega þreytt“. Hún hefði verið orðin „frekar drukkin“, m.ö.o. „out of it“, eins og vitnið orðaði það. Vitnið I bar fyrir dómi að brotaþoli hefði verið „svolítið hress“ og taldi vitnið hana hafa verið ölvaðri en sig. Sérstaklega aðspurt síðar í skýrslutökunni staðfesti vitnið hins vegar sem réttar lýsingar sínar fyrir lögreglu á ástandi brotaþola umrædda nótt, en vitnið tjáði lögreglu meðal annars að brotaþoli hefði verið mjög ölvuð og að sjálft hefði vitnið hugsað sig tvisvar um áður en það hefði litið á stúlkuna um nóttina vegna ölvunar hennar.

Auk ofangreindra vitnisburða er fullyrðing brotaþola um að hún hafi verið mjög ölvuð er atvik máls gerðust einnig studd framlagðri matsgerð D og E, deildarstjóra á Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, sbr. kafla I B hér að framan, sem og framburði þeirrar fyrrnefndu fyrir dómi en hún staðfesti að miðað við niðurstöður matsgerðarinnar gæti etanólstyrkur í blóði brotaþola á milli kl. 6:00 og 8:00 um morguninn hafa verið á bilinu 1,75‰ til 2,05‰. Samkvæmt þessu og öðru framangreindu þykir mega slá því föstu að brotaþoli hafi verið mjög ölvuð síðla nætur og snemma morguns 2. ágúst 2014.

Fyrir liggur að brotaþoli og ákærði þekktust ekkert er fundum þeirra bar saman umrædda nótt. Rak brotaþola ekki minni til þess að hafa nokkru sinni talað við ákærða. Ekkert þeirra vitna sem skýrslu gaf fyrir dómi bar um að samdráttur hefði verið með brotaþola og ákærða um nóttina. Ákærði hefur einn haldið slíku fram en að mati dómsins voru lýsingar hans á því með hvaða hætti brotaþoli á að hafa sýnt honum áhuga mjög óljósar.

Brotaþoli bar fyrir dómi að hún hefði rankað við sér umrætt sinn og gert sér grein fyrir því að „... það var verið að sofa hjá mér.“ Ákærði hefði legið ofan á henni og verið að hafa samfarir við hana um leggöng. Kvaðst brotaþoli ekki hafa áttað sig á því hvar hún var stödd og í raun ekki gert sér almennilega grein fyrir því sem var að gerast. „... mér fannst frekar augljóst að það var verið að sofa hjá mér, ég fann alveg vel fyrir þessu. ... Ég bara náði ekki að gera neitt. ... Ég var bara hálfdauð.“ Kvaðst brotaþoli hafa upplifað mikið varnarleysi og fullyrti að hún hefði vegna ölvunar ekki verið í ástandi til þess að sporna við samræðinu.

Upplýst er að brotaþoli lagðist til hvílu í ókunnu húsi umrædda nótt þrátt fyrir að hafa átt vísan svefnstað í húsi annars staðar í bænum þar sem vinkona hennar gisti. Samkvæmt framansögðu hefur ákærði kannast við að hafa látið þau orð falla áður en hann fór inn í húsið öðru sinni að hann hygðist fara og prófa að skríða upp í rúm og athuga hvort honum yrði sparkað út úr. Upplýst er að ákærði lét verða af þessari fyrirætlan sinni. Ekkert haldbært liggur fyrir í málinu um að samdráttur hafi verið með brotaþola og ákærða um nóttina og þá telur dómurinn sannað að brotaþoli hafi verið mjög ölvuð er atvik máls gerðust. Lýsingar ákærða sjálfs á takmörkuðum viðbrögðum brotaþola við atlotum hans samrýmast vel þeirri niðurstöðu að meðvitund brotaþola hafi verið skert vegna ölvunarástands hennar. Þá hefur brotaþoli borið að samræðið hafi verið gegn hennar vilja. Viðbrögð brotaþola eftir að hún vaknaði um morguninn benda eindregið til þess að hún hafi verið illa áttuð og að tíma hafi tekið fyrir hana að gera sér grein fyrir því sem gerst hafði. Er framburður brotaþola að mati dómsins trúverðugur og í góðu samræmi við framburð annarra vitna og framlögð gögn í málinu. Í ljósi alls þessa er það mat dómsins að ákærði hafi hlotið að hafa gert sér grein fyrir því hversu mjög brotaþoli var ölvuð og jafnframt að hann hefði enga réttmæta ástæðu til þess að ætla að hún væri því samþykk að hann hefði við hana samræði. Samkvæmt því telur dómurinn sannað, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að ákærði hafi á þeim stað og tíma sem í ákæru greinir haft samræði við brotaþola gegn vilja hennar með því að notfæra sér að hún gat ekki spornað við samræðinu sökum svefndrunga og ölvunar. Með þeirri háttsemi braut ákærði gegn 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, svo sem réttilega er vísað til í ákæru.

V

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærða ekki áður verið gerð refsing. Brot gegn 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 varðar fangelsi ekki skemur en í 1 ár og allt að 16 árum. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir alvarlegt kynferðisbrot, sbr. lögfestingu 3. gr. laga nr. 61/2007. Samkvæmt þessu og að virtum dómafordæmum Hæstaréttar Íslands þykir refsing ákærða, með vísan til 1., 2. og 7. töluliðar 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, réttilega ákveðin fangelsi í tvö ár.

VI

Í málinu krefst brotaþoli miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 1.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 2. ágúst 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá því ákærða var birt bótakrafan.

Samkvæmt framansögðu hefur dómurinn slegið því föstu að ákærði hafi brotið gegn brotaþola svo varði við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með hinni refsiverðu háttsemi hefur ákærði bakað sér bótaábyrgð gagnvart brotaþola á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Bætur fyrir miska skulu ákvarðaðar eftir því sem sanngjarnt þykir og við mat á fjárhæð þeirra skal einkum líta til alvarleika brotsins, sakarstigs brotamanns, huglægrar upplifunar brotaþola og loks umfangs tjónsins.

Við mat á miskabótum til handa brotaþola þykir mega líta til vottorðs F sálfræðings, en samantektarkafli skýrslunnar er reifaður í kafla I B hér að framan. Samkvæmt vottorðinu hafði brot ákærða alvarlegar afleiðingar á andlega líðan brotaþola. Upplýst er að hún fór strax til meðferðar hjá nefndum sálfræðingi og var til meðferðar hjá henni í langan tíma. Formlegri meðferð er nú lokið en vægra áfallastreitueinkenna gætir þó enn hjá brotaþola. Þó svo brotaþoli hafi samkvæmt tilvitnuðu vottorði og vætti sálfræðingsins náð góðum bata verður því ekki slegið föstu að batinn verði nokkru sinni fullkominn. Með vísan til alls þessa og að broti ákærða virtu þykja miskabætur til handa brotaþola hæfilega ákvarðaðar 1.000.000 króna. Um vexti og dráttarvexti af kröfunni fer svo sem í dómsorði greinir, en upplýst er að ákærða var kynnt bótakrafan 10. september 2014 og var kröfunni hafnað af hans hálfu degi síðar, sbr. framlagt tölvubréf skipaðs verjanda.

VII

Með vísan til sakfellingar ákærða, sbr. 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verður honum gert að greiða allan sakarkostnað málsins. Ákærði dæmist því til að greiða 104.143 krónur samkvæmt framlögðu sakarkostnaðaryfirliti og 132.000 krónur vegna öflunar vottorðs sálfræðings. Ákærði greiði jafnframt þóknun skipaðs verjanda síns, Ásgeirs Arnar Blöndal Jóhannssonar hdl., og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Arnbjargar Sigurðardóttur hrl., sem eftir umfangi málsins og með hliðsjón af tímaskýrslum lögmannanna þykir hæfilega ákveðin svo sem í dómsorði greinir að virðisaukaskatti meðtöldum. Í tilviki verjanda hefur verið tekið tillit til þeirrar greiðslu sem hann fékk vegna starfans á rannsóknarstigi málsins. Ákærði greiði einnig ferðakostnað verjanda og réttargæslumanns brotaþola með þeim hætti sem segir í dómsorði.

Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir Kristinn Halldórsson, sem dómsformaður, Ástríður Grímsdóttir og Bogi Hjálmtýsson. Fyrir uppsögu dómsins var gætt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Aron Trausti Sigurbjörnsson, sæti fangelsi í tvö ár.

Ákærði greiði samtals 1.968.493 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda síns, Ásgeirs Arnar Blöndal Jóhannssonar hdl., 1.023.000 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, og útlagðan ferðakostnað lögmannsins, 121.150 krónur,  sem og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Arnbjargar Sigurðardóttur hrl., 511.500 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, og útlagðan ferðarkostnað lögmannsins, 76.700 krónur.

Ákærði greiði brotaþola, B, 1.000.000 króna ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. ágúst 2014 til 10. október 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.