Hæstiréttur íslands

Mál nr. 178/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vistun á stofnun


         

Þriðjudaginn 1. apríl 2008.

Nr. 178/2008.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason, saksóknari)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hdl.)

 

Kærumál. Vistun á stofnun.

Fallist var á að skilyrði c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála væru fyrir hendi til að X yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Hins vegar var talið að heilsufari X væri þannig háttað að forsendur væru til þess að í stað gæsluvarðhalds yrði honum gert að sæta vistun á viðeigandi stofnun samkvæmt lokamálslið 110. gr. sömu laga.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. mars 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. mars 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 18. apríl 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hann „sæti vistun á viðeigandi stofnun.“

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Kröfugerð sóknaraðila í héraði eru ekki gerð skil í hinum kærða úrskurði. Af bókun í þingbók má hins vegar sjá að varnaraðili hefur aðallega krafist þess að gæsluvarðhaldskröfu sóknaraðila yrði hafnað, til vara að honum yrði gert að sæta vímuefnameðferð á viðeigandi stofnun í stað gæsluvarðhalds og að því frágengnu að gæsluvarðhaldi yrði markaður skemmri tími. Við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar er bókað eftir varnaraðila að hann kæri úrskurðinn til Hæstaréttar í því skyni að fá honum hnekkt. Í skriflegri greinargerð til Hæstaréttar krefst varnaraðili þess að hann „sæti vistun á viðeigandi stofnun.“ Til stuðnings þeirri kröfu vísar varnaraðili til 110. gr. laga nr. 19/1991 og byggir á að hann eigi við andlegan heilsubrest að stríða, eins og staðfest hafi verið með geðrannsókn, sem á honum hafi verði gerð á síðasta ári. Hann hafi verið talinn ósakhæfur í opinberu máli sem dæmt hafi verið í Héraðsdómi Reykjavíkur 5. júlí 2007 og hafi niðurstaðan öðru fremur byggst á þessari geðrannsókn. Ástæða sé til að ætla að heilsu hans hafi hrakað síðan matið var gert og þau brot sem hann sé nú grunaður um ættu að gefa vísbendingu í þá átt. Af nánar tilgreindum ástæðum hafi ekki gefist færi á að afla nýs mats geðlæknis á heilsu varnaraðila í tilefni af meðferð máls þessa.

Í málinu liggur fyrir niðurstaða rannsóknar Tómasar Zoëga geðlæknis á geðheilsu varnaraðila frá 2. apríl 2007.  Þar kemur meðal annars fram að varnaraðili, sem sé fíkniefnaneytandi, eigi langa sögu um geðrofssjúkdóm. Þegar sá atburður átti sér stað, er varð þá tilefni ákæru á hendur varnaraðila, hafi hann verið haldinn alvarlegum geðrofssjúkdómi, sem hafi orðið til þess að hann hafi verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum.

 Með vísan til forsendna héraðsdóms verður fallist á að skilyrði c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 séu uppfyllt til að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Hins vegar verður talið, með vísan til þess sem að ofan greinir um heilsufar varnaraðila, að fyrir liggi í málinu fullnægjandi gögn um að skilyrði séu fyrir hendi til að varnaraðila verði í stað gæsluvarðhalds gert að sæta vistun á viðeigandi stofnun samkvæmt lokamálslið 110. gr. laga nr. 19/1991 allt til föstudagsins 18. apríl 2008 kl. 16.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, sæti vistun á viðeigandi stofnun allt til föstudagsins 18. apríl 2008 kl. 16.                        

                    

               

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykja­víkur 28. mars 2008.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að kærði, X, [kt.] sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 18. apríl  nk. kl. 16.

Í  kröfu lögreglustjóra kemur fram að með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur 21. mars sl. var hafi kærði verið úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi til dagsins í dag kl. 16, með skírskotun til a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991.  Úrskurðurinn hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands nr. 166/2008.  

Kærði sé nú undir sterkum rökstuddum grun um að hafa framið eftirfarandi brot:

Mál nr. 007-2008-[...]

Fimmtudaginn 14. febrúar sl. keypt sjónvarpstæki að verðmæti 269.989 krónur í raftækja­versl­uninni Max, Kauptúni 1, Garðabæ, með því að framvísa og nota stolið greiðslukort og þannig í heimildarleysi látið skuldfæra andvirði tækisins á greiðslukortareikning reikningseigenda.  Kærði hefur viðurkennt brotið.

Mál nr. 007-2008-[...]

Miðvikudaginn 19. mars sl., um kl. 20:40, barst lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynning um rán á bifreiðastæði við verslun Select, Suðurfelli í Reykjavík.  Árásarþoli, A, skýrði frá því að hún hafi tekið út reiðufé í hraðbanka í versluninni.  Hún hafi verið komin inn í bifreið sína, ásamt ellefu ára dóttur sinni, er maður, klæddur hvítri dúnúlpu hafi sest inn í bifreiðina.  Maðurinn hafi haldið á sprautunál og hótað að stinga hana ef hún ekki léti hann fá veskið sitt.  Hún hafi neitað að afhenda honum veskið og þær mæðgur komist út úr bifreiðinni og hafi maðurinn þá farið á brott.  Kærði hefur viðurkennt brotið

Mál nr. 007-2008-[...]

Miðvikudaginn 19. mars sl., um kl. 20:56, barst lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynning um rán í versluninni King Kong í Eddufelli í Reykjavík.  Tilkynnandi og starfsmaður verslunarinnar, B, skýrði frá því að maður  íklæddur rauðri hettupeysu og gallabuxum, hafi ráðist á viðskiptavin verslunarinnar, C, og reynt að hrifsa af henni veski.  C hafi barist á móti og þau fallið í gólfið.  C skýrði frá því að maðurinn hafi hótað að stinga hana með sprautunál ef hún léti hann ekki fá veskið.  Hún hafi hins vegar haldið fast um veskið og hann því ekki náð því af henni.  Hann hafi þá næst farið inn fyrir afgreiðsluborð verslunarinnar og ógnað starfsmanni verslunarinnar með sprautunál, opnað sjóðsvél verslunarinnar og tæmt hana.  Að því búnu hafi hann yfirgefið verslunina. Kærði hefur viðurkennt brotin.

Mál nr. 007-2008-[...]

Fimmtudaginn 20. mars sl., um kl. 12:02, barst lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynning um rán í söluturninum Leifasjoppu.  Tilkynnandi D skýrði frá því að maður íklæddur ljósri hettupeysu, dökkum jakka og brúnum buxum, hafi komið inn í verslunina og farið inn fyrir afgreiðsluborðið, þar sem hann ógnað sér með notaðri sprautunál og opnað sjóðsvél verslunarinnar og tekið peninga úr henni.  Þá hafi maðurinn krafið tilkynnanda um að opna aðra sjóðsvél, sem hann og gerði og á maðurinn einnig að hafa tekið fjármuni úr þeim kassa.  Að því búni hafi maðurinn yfirgefið söluturninn.  Kærði hefur viðurkennt brotið.

Mál nr. 007-2008-[...]

Föstudaginn 21. mars, um kl. 11:02, barst lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynning um rán í verslun Select við Suðurfell í Reykjavík.  Vitni sem stödd voru á vettvangi skýrðu frá því að þrír aðilar hafi staðið að ráninu.  Skýrðu þau frá því að maður klæddur í svartan jakka, með svarta húfu hafi komið inn fyrir afgreiðsluborðið og haldið á sprautunál og þannig ógnað starfsfólki verslunarinnar.  Hafi maður þessi náð að opna sjóðsvél verslunarinnar og tekið þaðan um 65.000 krónur í reiðufé og tvö karton af Winston sígarettum.  Stuttu síðar hafi kærði verið handtekinn í íbúð að E í Reykjavík.  Kærði hefur viðurkennt brotið.            

Rannsókn málanna sé á lokastigi. Við rannsókn þeirra hafi komið í ljós að kærði sé í mikilli óreglu og án atvinnu.  Brotaferill hans hafi verið samfelldur og sé það mat lögreglustjóra að hann muni halda áfram afbrotum verði hann látinn laus.  Nauðsynlegt sé því að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi svo unnt verði að ljúka rannsókn mála hans og taka ákvörðun um saksókn.  Það sé og mat lögreglustjóra að lagaskilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 séu uppfyllt, enda sé kærði nú sterklega grunaður um að hafa framið afbrot sem varðað geti að lögum allt að 16 ára fangelsi og sé í eðli sínu svo svívirðileg að almannhagsmunir krefjist þess að hann sæti áfram gæsluvarðhaldi. 

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1. mgr. 103. gr. og 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Kærði hefur viðurkennt að hafa framið auðgunarbrot þau sem lýst er hér að framan og fangelsisrefsing liggur við. Brotaferill kærða er samfelldur og það er mat lögreglustjóra að hann muni halda áfram afbrotum verði hann látinn laus. Kærði er í mikilli óreglu og án atvinnu. Þegar framangreint er virt þykir ljóst að veruleg hætta er á því að kærði muni halda áfram afbrotum fari hann frjáls ferða sinna. Eru því fyrir hendi skilyrði c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 til að hann sæti áfram gæsluvarðhaldi. Verður krafan tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurð þennan kveður upp Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

X, [kt.], sæti gæsluvarðhaldi til föstudagsins 18. apríl n.k. kl. 16:00.