Hæstiréttur íslands

Mál nr. 503/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Börn
  • Bráðabirgðaforsjá
  • Umgengni


Þriðjudaginn 11

 

Þriðjudaginn 11. janúar 2005.

Nr. 503/2004.

M

(Dögg Pálsdóttir hrl.)

gegn

K

(Sigurbjörn Magnússon hrl.)

 

Kærumál. Börn. Bráðabirgðaforsjá. Umgengni.

K og M deildu um forsjá tveggja barna þeirra til bráðabirgða og umgengni við þau. Staðfest var sú niðurstaða héraðsdóms að K færi með forsjána meðan á rekstri málsins stæði. Þá var staðfest niðurstaða héraðsdóms um umgengnisrétt M við börnin.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 10. desember 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 26. nóvember 2004, þar sem leyst var úr ágreiningi aðilanna um forsjá tveggja barna þeirra til bráðabirgða og umgengni við þau. Kæruheimild er í 5. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðili krefst þess aðallega, að hinum kærða úrskurði verði breytt á þann veg, að sér verði falin forsjá barnanna til bráðabirgða og varnaraðila gert að greiða sér meðlag með þeim frá dómsuppsögu, sem sé jafnhátt og barnalífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins, þar til endanleg niðurstaða liggur fyrir um forsjárágreining aðila. Hann krefst þess að umgengni varnaraðila og barnanna verði aðra hverja helgi frá fimmtudegi til þriðjudags, auk nánar tilgreindrar umgengni um jól og áramót og í sumarleyfi. Til vara krefst sóknaraðili þess, að staðfest verði að forsjá aðila yfir börnunum verði áfram sameiginleg en að lögheimili þeirra verði breytt þannig, að það verði hjá sér meðan forsjármálið sé rekið, varnaraðili greiði meðlag með börnunum eins og í aðalkröfu og umgengni verði með sama hætti og þar er krafist. Að því frágengnu krefst hann þess, að hinum kærða úrskurði verði breytt þannig, að regluleg umgengni sín og barnanna verði í eina viku í senn, aðra hverja viku, eða aðra hverja helgi frá fimmtudegi til þriðjudags.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurði og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 26. nóvember 2004.

Mál þetta var þingfest  4. nóvember 2004 en það barst dóminum með bréfi sóknaraðila þann 13. október 2004.

             Krafa sóknaraðila er að honum verði ákvörðuð forsjá barnanna, A og B, til bráðabirgða, sbr. 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þá er þess krafist að dómurinn ákveði meðlag og inntak umgengnisréttar varnaraðila og barnanna meðan forsjármálið er rekið. Hann krefst einnig málskostnaðar.

             Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að henni verði  einnig veitt bráðabirgðaforsjá yfir börnum þeirra. Þá krefst hún tvöfalds meðlags úr hendi sóknaraðila auk greiðslu leikskólagjalda á meðan forsjármálið sé rekið og að   og að dómurinn ákveði inntak umgengnisréttar sóknaraðila. Til vara krefst hún þess að öllum kröfum sóknaraðila um bráðabirgðaforsjá verði hafnað og að forsjá barnanna og meðlagsgreiðslur haldist óbreytt samkvæmt samkomulagi aðilanna frá 1. júní 2004, sbr. sifjamálabók Z-bæjar, [...]. Loks er krafist málskostnaðar.

I.

Málsaðilar bjuggu saman í 6 ár og eignuðust á sambúðartímanum börnin A árið 1999 og B árið 2001. Upp úr sambúðinni slitnaði um mánaðar­mótin apríl/maí s.l. og mun varnaraðili þá hafa flutt af heimili þeirra við [...] þar sem sóknaraðili býr enn, og tók hún þá bæði börnin með sér. Gerðu aðilar með sér samkomulag, sem var staðfest af Sýslumanninum í Z þann 1. júní 2004, þess efnis að þau færu sameiginlega með forsjá barnanna en lögheimili þeirra yrði hjá varnaraðila. Þegar kom fram í ágúst virðast börnin hins vegar hafa verið hjá hvoru foreldrinu um sig til skiptis. Svipað virðist hafa verið uppi á teningnum í september en síðan hafa börnin verið hjá sóknaraðila óslitið frá 30. september þrátt fyrir að varnaraðili kveðist hafa sett fram ítrekaðar óskir um að fá börnin afhent sér.

II.

Sóknaraðili kveðst hafa unnið sem sjómaður á dagróðrarbátum en varnaraðili hafi að mestu verið heimavinnandi. Hún hafi þó unnið stopula vinnu utan heimilis, síðast sem gangavörður í grunnskóla Z. Sóknaraðili hafi engu að síður séð að mestu um heimilishald og annast um börnin. Hafi varnaraðili sjaldan eða aldrei tekið til hendinni á heimilinu. Þegar um mánuður hafi verið liðinn frá sambúðaslitum hafi hann síðan sannfærst endanlega um að varnaraðili væri ófær um að annast um börnin með fullnægjandi hætti. Hafi honum orðið þetta ljóst þegar hann eitt sinn kom í heimsókn á heimili hennar því umgengni hafi þá öll verið ömurleg. Hafi þá greinilega ekki verið vaskað upp eða þrifið í langan tíma, myglaðar matarleifar hafi verið um allt hús. Í húsnæði hennar og barnanna hafi á þessum tíma vanið komur sínar “góðkunningjar lögreglunnar” í Z og gruni sóknaraðila að þar hafi daglega verið mikil neysla áfengis og eiturlyfja. Hafi hann því fljótlega farið fram á við varnaraðila að börnin flyttu aftur heim til hans þar sem hann bjó áfram á fyrrum heimili þeirra við [...]. Hafi varnaraðili í fyrstu ekki verið tilbúinn að samþykkja flutning en sóknaraðili hafi engu að síður fengið þau til sín í byrjun ágúst og hafi þau búið hjá honum síðan. Varnaraðili hafi svo samþykkt í lok ágúst að börnin skyldu búa til frambúðar hjá sér en ágreiningur sé um lögheimili barnanna.

Þegar svo varnaraðili hafi fengið börnin í umgengni síðustu helgina í sept­ember hafi hún sótt börnin á föstudegi í leikskólann og á sunnudagseftirmiðdegi hafi hún hringt og látið sig vita af því að hún ætlaði ekki að skila þeim til hans. Sóknaraðili kveðst þó engu að síður talið sig hafa sannfært varnaraðila um að skila börnunum og jafnframt að hitta sig morguninn eftir til að ræða málin. Á sunnudags­kvöldi hafi hann síðan farið að undrast um börnin og varnaraðila en þá hafi komið í ljós að hún hefði farið frá Z með börnin. Hann hafi þó fengið fregnir af verustað þeirra og hafi farið [...] að sækja börnin, fimmtudaginn 30. september sl. Hefði hann þá hvorki séð né heyrt af börnunum síðan á sunnudeginum á undan. Sóknaraðili hafi síðan haft börnin hjá sér.

Sóknaraðili byggir kröfu sína um bráðabirgðaforsjá á 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Telur hann brýna nauðsyn bera til að ákvarða um forsjá barnanna til bráðabirgða í ljósi þeirra aðstæðna og deilna sem séu upp varðandi búsetu þeirra. Sé það börnunum fyrir bestu að honum verði falin forsjá þeirra meðan forsjármálið sé rekið. Yrðu börnin þá áfram á heimili sínu, og hjá föður sínum sem hafi annast um þau einn undanfarna mánuði. Kröfuna um meðlag með börnunum úr hendi varnaraðila byggir hann á framfærsluskyldu foreldra, sbr. 53. gr. barnalaga og lágmarksmeðlags­skyldu forsjárlauss foreldris samkvæmt 57. gr., sbr. 55. gr. sl. 

Heldur sóknaraðili því fram að umönnun varnaraðila á börnunum hafi verið ábótavant og aðbúnaður þeirra hjá henni slæmur. Hafi hann óttast um hag þeirra þegar þau dvöldu hjá varnaraðila. Jafnframt liggi fyrir að forsendur fyrir sameiginlegri forsjá séu brostnar eftir uppákomur síðustu vikna.

III.

Varnaraðili vísar til þess að sóknaraðila sé ekki treystandi fyrir forræði barnanna. Hann hafi sannanlega haft í frammi gagnvart sér, bæði líkamlegt og andlegt ofbeldi. Þannig liggi fyrir í málinu bókun úr dagbók lögreglunnar í Z og áverkavottorð frá árinu 1999 sem staðfesti að hún hafi í september það ár leitað til lögreglu og lækna vegna afleiðinga þess að hann hafi þá lagt hendur á sig með því að taka sig kverkataki ásamt því að slá sig með koddum. Hann hafi einnig iðulega meðan að sambúð þeirra varði drukkið áfengi óhóflega fyrir framan börnin. Hann hafi leitað í félagsskap þar sem áfengi sé haft um hönd og hafi ekki haft stjórn á drykkju sinni.

Heldur varnaraðili því fram, að sóknaraðili hafi á sambúðartímanum lítið sinnt börnunum og tekið takmarkaðan þátt í uppeldi þeirra og þroskaferli. Hann geti ekki boðið þeim upp á það öryggi og hlýju sem börnum á þeirra aldri sé nauðsynlegt. Hún kveðst hins vegar vera umhyggjusöm móðir sem veitt hafi börnum sínum gott heimili. Sé hún nú flutt í gott leiguhúsnæði þar sem nægt rými sé fyrir börnin. Þar geti hún verið eins lengi og henni henti.

Varnaraðili segir að fullt samkomulag hafi verið um að börnin skyldu vera hjá föður sínum í sumarleyfi í ágústmánuði. Raunin hafi hins vegar orðið sú að þau hafi verið hjá þeim til skiptis. Þegar hún síðan hafi flutt í nýtt leiguhúsnæði sitt í september þá hafi hann boðist til að annast börnin á meðan hún væri að flytja og koma sér fyrir. Hafi börnin þá verið hjá honum í 4-5 daga eða til 10. september. Að ósk sóknaraðila hafi börnin síðan dvalið hjá honum til 24. september. Hún hafi síðan farið með börnin í heimsókn til móður sinnar á Y þann 26. september. Sóknaraðili hafi komið þangað þann 30. september og óskað eftir að fá börnin og hafi lýst því yfir að hann myndi skila þeim á heimili varnaraðila þann 4. október. Það hafi síðan ekki gengið eftir. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir varnaraðila í framhaldi til að fá sóknaraðila til að skila börnunum og loforð sóknaraðila um að verða við því hafi það ekki tekist.

Varnaraðili bendir á að það sé óþolandi ofbeldi af hálfu sóknaraðila að halda börnunum frá móður sinni. Virðist henni sem framferði sóknaraðila síðustu vikurnar hafi verið liður í að undirbúa forsjárdeilu hans við sig. Hafi hann því í raun kerfis­bundið haldið börnunum frá sér í því skyni að skapa honum betri stöðu í deilunni. Sé þetta skýrt brot á samkomulagi málsaðila frá 1. júní sl. Mótmælir varnaraðili því að beiting slíkra aðferða af hálfu aðilja að forræðisdeilu geti haft áhrif á niðurstöðu dómstóla þeim í vil sem þeim beitir.

Varnaraðili vísar til þeirrar meginreglu barnalaga nr. 76/2003, sem fram komi í 2. mgr. 34. gr. þeirra, að við ákvarðanatöku um forsjá barns verði að horfa til þess sem sé barninu fyrir bestu. Varnaraðili hafi alla tíð haft veg og vanda af umönnun barnanna og umlukið þau umhyggju sinni, öryggi og ástúð, enda séu þau mjög tengd henni. Í máli þessu verði og að líta til þess að ljóst sé að sóknaraðili muni ekki virða umgengnisrétt varnaraðila. Á hinn bóginn hafi varnaraðili alltaf sýnt liðlegheit varðandi umgengnisrétt sóknaraðila og talið það mikilvægt að börnin umgengjust og þekktu föður sinn.

Kröfu sína um tvöfalt meðlag styður varnaraðili við þau rök að við blasi að börnin muni þurfa meiri tíma með móður sinni óskiptri til að jafna sig eftir þessi átök foreldranna.

IV.

Niðurstaða.

Eins og fyrr hefur verið rakið gerðu málsaðilar með sér samkomulag þann 1. júní 2004, þess efnis að þau færu sameiginlega með forsjá barnanna en lögheimili þeirra yrði hjá varnaraðila.

Af sjálfu leiðir að sambúðarslit hafa yfirleitt einhverja röskun í för með sér, bæði fyrir aðilana sjálfa og börn þeirra. Varnaraðili flutti af heimili þeirra við [...] og þurfti að leita sér að leiguhúsnæði. Kvaðst hún fyrir dómi hafa þurft að skipta um húsnæði oftar en einu sinni en vonast nú til að vera komin í húsnæði í Z til einhverrar frambúðar svo fremi sem hún fái vinnu þar við hæfi. Hún starfaði sem leiðbeinandi við skólagarðana þar, bæði sumarið 2003 og síðast liðið sumar, en er nú án vinnu. Sóknaraðili, sem áfram býr að [...], kveðst vera að leita sér að vinnu í landi eftir að hafa unnið sem sjómaður á dagróðrarbáti um nokkurt skeið.

Fyrir dóminn komu auk aðilanna sjálfra, móðir varnaraðila, S, og vinkona varnaraðila, E. Skýrðu þær báðar frá því að samband varnaraðila við börnin væri gott og að þær vissu ekki betur en að hún hefði staðið sig vel sem móðir og við heimilishald fjölskyldunnar.

Í málinu hefur verið lagt fram bréf frá leikskólastjóra Leikskólans [...], sem börn málsaðila hafa sótt með hléum frá apríl 2002. Kemur þar fram, að þau hafi byrjað aftur í leikskólanum þann 9. september sl. eftir hlé frá nóvember 2003, og verið þar frá kl. 08.00 til kl. 12.30. Jafnframt segir þar að sóknaraðili hafi komið með börnin í skólann og sótt þau allt frá því að þau byrjuðu aftur í september og hafi umbúnaður barnanna á þeim tíma verið mjög góður.

Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003 hefur dómari heimild í máli um forsjá til að úrskurða til bráðabirgða, að kröfu aðila, hvernig fara skuli um forsjá barns eftir því sem barninu er fyrir bestu. Við mat á kröfu um bráðabirgðaforsjá í þessu máli verður litið til þess að úrskurði um bráðabirgðaforsjá er almennt ætlað að koma skipan á forsjá barna þegar svo hagar til við skilnað foreldra eða sambúðarslit að frumákvörðun liggur ekki fyrir þar um og ákveða þarf hver hafi forsjá á meðan ágreiningur um það er til meðferðar. Einungis eru liðnir tæplega sex mánuðir frá því að málsaðilar sömdu sjálfir um sameiginlega forsjá barnanna.

Sóknaraðili hefur með stefnu, sem þingfest var þann 13. október sl., höfðað mál gegn varnaraðila þar sem gerð er krafa um forsjá barnanna beggja. Í því máli mun væntanlega fara fram viðhlítandi rannsókn á högum málsaðila og barnanna. Er það mat dómsins að breytingar á forsjá barnanna nú geti leitt til röskunar á högum þeirra sem vart séu æskilegar nema bersýnilegt sé að öðrum aðilanna verði ekki treyst fyrir forsjá þeirra. Þykja hvorki framlögð gögn í málinu né framburðir aðila og vitna fyrir dómi staðfesta að brýn þörf sé fyrir slíkum breytingum á meðan forsjárdeilan er til lykta leidd í aðalmálinu.  Skulu málsaðilar því fara áfram sameiginlega með forsjá beggja barnanna og skal lögheimili þeirra vera áfram hjá varnaraðila.

             Með vísan til heimildar í 2. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003 þykir rétt að kveða í úrskurði þessum til bráðabirgða á um inntak umgengnisréttar sóknaraðila við börnin og greiðslu meðlags. Þykir við ákvörðun umgengnisréttarins rétt að taka mið af tillögum sóknaraðila, sem fram koma í stefnu hans í aðalmálinu. Skal umgengni sóknaraðila við börnin því verða með eftirgreindum hætti:

  1. Regluleg umgengni: Sóknaraðili skal hafa reglulega umgengni við börnin aðra hverja helgi frá kl. 18.00 á föstudagi til kl. 18.00 á sunnudegi, í fyrsta sinn föstudaginn 10. desember 2004.
  2. Jóla-og áramótaumgengni: Börnin skulu dvelja hjá sóknaraðila frá kl. 16.00 hinn 25. desember til kl. 16.00 hinn 27. desember . Um áramót verði börnin hjá sóknaraðila 1. janúar frá kl. 16.00 til kl. 16.00 hinn 2. janúar. Regluleg umgengni skal falla niður um jól og áramót.
  3. Páskaumgengni: Umgengni um páska fylgi reglulegri umgengni.
  4. Sumarumgengni: Börnin dveljist hjá sóknaraðila í sumarleyfi í 4 vikur ár hvert, 2 vikur í senn. Jafnframt skal umgengni sóknaraðila við börnin falla niður í 4 vikur í sumarleyfi varnaraðila með þeim. Sóknaraðili skal fyrir 1. apríl ár hvert láta varnaraðila vita hvaða tími henti best til sumarleyfis hans og barnanna og fyrir 1. maí ár hvert skulu aðilar hafa ákveðið sumarleyfi með hvoru foreldri um sig.

Meðlagsgreiðslur sóknaraðila með börnunum haldist óbreyttar í samræmi við samkomulag aðila dags. 1. júní 2004.

     Ákvörðun málskostnaðar bíður dóms í málinu.

     Ásgeir Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

           Kröfu sóknaraðila, M, um að honum verði til bráðabirgða ákvörðuð forsjá A og B, er hafnað.

   Sóknaraðili skal hafa reglulega umgengni við börnin aðra hverja helgi frá kl. 18.00 á föstudagi til kl. 18.00 á sunnudegi, í fyrsta sinn föstudaginn 10. desember 2004. Börnin skulu dvelja hjá sóknaraðila frá kl. 16.00 hinn 25. desember til kl. 16.00 hinn 27. desember. Börnin skulu dvelja hjá sóknaraðila 1. janúar frá kl. 16.00 til kl. 16.00 hinn 2. janúar. Regluleg umgengni skal falla niður um jól og áramót. Umgengni um páska fylgi reglulegri umgengni. Börnin dveljist hjá sóknaraðila í sumarleyfi í 4 vikur ár hvert, 2 vikur í senn. Jafnframt skal umgengni sóknaraðila við börnin falla niður í 4 vikur í sumarleyfi varnaraðila með þeim. Sóknaraðili skal fyrir 1. apríl ár hvert láta varnaraðila vita hvaða tími henti best til sumarleyfis hans og barnanna og fyrir 1. maí ár hvert skulu aðilar hafa ákveðið sumarleyfi með hvoru foreldri um sig.

   Meðlagsgreiðslur sóknaraðila með börnunum haldist óbreyttar í samræmi við samkomulag aðila dags. 1. júní 2004.

           Ákvörðun málskostnaðar bíður dóms í málinu.