Hæstiréttur íslands

Mál nr. 43/2000


Lykilorð

  • Hótanir
  • Líkamsárás
  • Fjársvik
  • Ákæra


Fimmtudaginn 23

 

Fimmtudaginn 23. mars 2000.

Nr. 43/2000.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Brynjari Erni Valssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

                                              

Hótanir. Líkamsárás. Fjársvik. Ákæra.

Í héraðsdómi var B sakfelldur fyrir brot gegn 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa hótað nafngreindum manni að bana syni hans, svo og öðrum í fjölskyldu hans, fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga fyrir líkamsárás og fyrir brot gegn 248. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa ásamt nafngreindri konu svikið út vörur og þjónustu í einu tilviki. Fallist var á niðurstöðu héraðsdómara um að B hefði gerst sekur um hótanir og líkamsárás. Hins vegar varð málatilbúnaður ákæruvaldsins ekki skýrður á aðra leið en þá, að sá liður ákærunnar um fjársvik, sem B hafði verið sakfelldur fyrir, hefði í reynd verið afturkallaður hvað ákærða varðaði. Var málið því fellt niður að þessu leyti. Að gættum sakaferli B og röksemda héraðsdómara var niðurstaða hans um refsingu staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 26. janúar 2000 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing, sem ákærða var gert að sæta með héraðsdómi, verði þyngd.

Ákærði krefst sýknu af sakargiftum samkvæmt ákærum 1. júní og 21. september 1999, en að öðru leyti að refsing samkvæmt héraðsdómi verði milduð.

Í málinu er ákærði borinn sökum með þremur ákærum. Í þeirri fyrstu, sem var gefin út 1. júní 1999, var ákærða gefið að sök að hafa brotið gegn ákvæðum 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa 5. janúar 1999 hótað nafngreindum manni að bana syni hans, svo og öðrum í fjölskyldu hans. Í annan stað var ákærði sóttur til saka með ákæru 24. júní 1999 fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga vegna líkamsárásar 4. september 1998 á hendur nánar tilgreindum manni, sem krafðist skaðabóta úr hendi ákærða samkvæmt ákærunni. Loks var ákærði saksóttur ásamt nafngreindri konu með ákæru 21. september 1999 fyrir brot gegn 248. gr. almennra hegningarlaga. Var þeim gefið að sök að hafa staðið saman um að svíkja út vörur og þjónustu á tímabilinu 25. til 27. febrúar sama árs í átta tilvikum, sem nánar var lýst, í viðskiptum, þar sem meðákærða innti af hendi greiðslur með innistæðulausum tékkum. Í hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur fyrir þau brot, sem um ræddi í tveimur fyrstnefndu ákærunum, svo og fyrir eitt af þeim brotum, sem síðastnefnda ákæran tók til, en að auki var honum gert að greiða brotaþola samkvæmt ákæru 24. júní 1999 skaðabætur að fjárhæð 2.670 krónur.

Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi taldi héraðsdómari sannað með vætti tveggja manna, sem fengi jafnframt stoð í vitnisburði þess þriðja, að ákærði hefði gerst sekur um þær hótanir, sem um ræddi í ákæru 1. júní 1999. Við þeirri niðurstöðu verður ekki hreyft, sbr. 4. mgr. og 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, svo sem þeim var breytt með 19. gr. laga nr. 37/1994. Þegar af þessari ástæðu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða samkvæmt ákæru 1. júní 1999.

Hvorki hefur af hálfu ákæruvalds né ákærða verið gerð krafa um endurskoðun þeirrar niðurstöðu héraðsdómara að ákærði hafi gerst sekur um líkamsárás, sem honum var gefið að sök með ákæru 24. júní 1999, svo og að honum beri að greiða brotaþola skaðabætur fyrrgreindrar fjárhæðar. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms um þessi efni því látin standa óröskuð.

Ákærði krefst sýknu af þeim lið ákæru 21. september 1999, sem hann var sakfelldur fyrir með hinum áfrýjaða dómi. Í greinargerð af hálfu ákæruvalds fyrir Hæstarétti var komist svo að orði um þessa kröfu að umræddum lið ákæru væri „aðeins áfrýjað af ákærða hálfu til sýknu, án nokkurra andmæla af hálfu ákæruvalds.“ Við munnlegan flutning málsins hér fyrir dómi var því lýst yfir af hálfu ákæruvalds að þessum lið ákæru væri ekki haldið til streitu. Þennan málatilbúnað ákæruvaldsins er ekki unnt að skilja á annan veg en svo að í reynd hafi þessi hluti ákærunnar verið afturkallaður hvað ákærða varðar. Því til samræmis er málið að þessu leyti fellt niður, sbr. b. lið 132. gr. laga nr. 19/1991.

Eins og greinir í héraðsdómi hefur ákærði áður hlotið sex refsidóma fyrir brot gegn almennum hegningarlögum og umferðarlögum, en að auki hefur hann sjö sinnum gengist undir sátt vegna brota gegn sömu lögum. Af sakavottorði ákærða verður ráðið að þrír af þessum dómum og þrjár sáttir hafi lotið að brotum, sem hann drýgði áður en hann náði 18 ára aldri. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til þeirra röksemda, sem greinir í héraðsdómi fyrir ákvörðun refsingar, verður niðurstaða hans um það efni staðfest.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Brynjar Örn Valsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 35.000 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. desember 1999.

Málið er höfðað með ákæru útgefinni 1. júní 1999 á hendur: “Brynjari Erni Valssyni, kt. 020975-5209, Sogavegi 216, Reykjavík, fyrir hótanir, með því að hafa, að kvöldi þriðjudagsins 5. janúar 1999, fyrir utan heimili sitt að Sogavegi 216 í Reykjavík, hótað Birni Tómasi Sigurðssyni því að lífláta son hans, Ragnar Þór Björnsson, kt. 020980-3979, og aðra í fjölskyldu hans.

Telst þetta varða við 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist, að ákærði verði dæmdur til refsingar.”

 

Önnur ákæra var gefin út á hendur ákærða, Brynjari Erni, 24. júní 1999 og þá ákært “fyrir líkamsárás, með því að hafa, aðfaranótt föstudagsins 4. september 1999, fyrir utan Hótel Esju við Suðurlandsbraut í Reykjavík, slegið Björgvin Ingvason, kt. 261077-4699, hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum að Björgvin hlaut sár vinstra megin á efri vör og vinstri framtönn losnaði.

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20, 1981.

Þess er krafist, að ákærði verði dæmdur til refsingar.  Þá krefst Björgvin Ingvason þess, að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta, samtals að fjárhæð kr. 1.509.54, auk vaxta eins og þeir ákvarðast skv. 16. gr. skaðabótalaga, svo og dráttarvaxta eins og þeir ákvarðast skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 með áorðnum breytingum.”

 

Loks var gefin út ákæra 21. september 1999 á hendur “Brynjari Erni Valssyni, Sogavegi 216, Reykjavík, kennitala 020975-5209 og Camillu Isabel Strutt, Sóleyjargötu 31, Reykjavík, kennitala 070279-2079 fyrir fjársvik framin í Reykjavík, nema annars sé getið, dagana 25. til 27. febrúar 1999 með því að hafa staðið saman að því að svíkja út vöru og þjónustu, samtals að andvirði kr. 707.607, í staðgreiðsluviðskiptum nema í lið I.8, við eftirgreinda aðila með afhendingu innistæðulausra tékka, sem ákærða gaf út á reikning sinn hjá Íslandsbanka hf., Breiðholti, nr. 170279 sem ákærða stofnaði í sviksamlegum tilgangi hjá bankanum 9. sama mánaðar að undirlagi ákærða Brynjars Arnar.  Ákærðu ráðstöfuðu andvirði tékkanna í sameiningu:

1.

Í febrúar svikið út sjónvarpstæki og myndbandstæki í viðskiptum við Kristján Kristjánsson, kt. 190375-6099, Sæviðarsundi 13, sem ákærða greiddi með 2 tékkum, samtals kr. 160.000 á eyðublöðum nr. 5529237 og 5529238.

 

2.

Þann 26. febrúar leðurklæddan sófa í verslun TM-húsgagna, Síðumúla 30, sem ákærða greiddi með tékka að fjárhæð kr. 188.500 á eyðublaði nr. 5529230.

 

3.

Þann 27. febrúar ferðatölvu af gerðinni BT Companion 266MMX í verslun Tæknivals BT, Skeifunni 17, sem ákærða greiddi með tékka að fjárhæð kr. 139.990 á eyðublaði nr. 5529235.

 

4.

Þann 27. febrúar svikið út 4  hjólbarða hjá Sólningu hf., Smiðjuvegi 332-34, Kópavogi, með tékka að fjárhæð kr. 65.145 á eyðublaði nr. 5529236.

 

5.

Þann 27. febrúar 4 álfelgur að verðmæti kr. 58.492 hjá Gúmmívinnustofunni, Réttarhálsi 2, með tékka á eyðublaði nr. 5529229.

 

6.

Sama dag geislaspilara, varahluti og smávöru að verðmæti kr. 68.856 í versluninni Bílanausti, Borgartúni 26, með tékka á eyðublaði nr. 5529234.

 

7.

Að morgni 27. febrúar svikið út leiguakstur og kr. 9.000 í reiðufé af Hrafni Steinþórssyni, leigubifreiðastjóra, kt. 080144-2299, með tékka að andvirði kr. 20.000 á eyðublaði nr. 5529321.

 

8.

Þann 25. febrúar án greiðslugetu fengið starfsmenn bifreiðaverkstæðis Friðriks Ólafsson ehf., Smiðjuvegi 14, Kópavogi, til að gera við bifreið ákærða Brynjars Arnar VD-590, en ákærðu afhentu sem greiðslu tékka að andvirði kr. 12.624 á eyðublaði nr. 5529228.

 

Telst þetta varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, en til vara telst háttsemi ákærðu Camillu Isabel samkvæmt ákærulið I.8 varða við 73. gr. tékkalaga nr. 94, 1933, sbr. lög nr. 35, 1977.

 

Þess er krafist, að ákærðu verði dæmd til refsingar.

 

Í málinu krefjast eftirgreindir skaðabóta:

 

Kristján Kristjánsson, kt. 190375-6099, kr. 160.000 auk dráttarvaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 1. mars til greiðsludags.

Tæknival BT, kt. 53276-0239, kr. 139.990 ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 27. febrúar en síðan dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga til greiðsludags.

Bílanaust hf. kr. 62.856 ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 27.2.1999 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga til greiðsludags.

Hrafn Steinþórsson, kt. 080144-2299, kr. 20.000 ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 27.2. 1999 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga.

Bifreiðaverkstæði Friðriks Ólafssonar, ehf., kt. 680994-2779, kr. 12. 624 ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 25.2. 1999 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga til greiðsludags.”

Málin voru sameinuð.

 

Verjandi ákærða, Brynjars Arnar, krefst aðallega að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins og allur sakarkostnaður verði lagður á ríkisjóð, þar með talin hæfileg málsvarnarlaun.  Til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og að gæsluvarðhald ákærða komi til frádráttar refsivist verði hún dæmd.  Þess er krafist að öllum skaðabótakröfum á hendur ákærða verði vísað frá dómi og að ákærði verði einungis dæmdur til að greiða hluta sakarkostnaðar.

Verjandi ákærðu, Camillu Isabel, krefst þess að hún hljóti vægustu refsingu sem lög leyfa og ef dæmd verði refsivist verði hún skilorðsbundin og í báðum tilvikum að gæsluvarðhald hennar komi til frádráttar.  Þess er aðallega krafist varðandi skaðabótakröfur að þeim verði vísað frá dómi, en til vara að ákærða verði sýknuð af þeim.  Þá er krafist réttargæslu- og málsvarnarlauna að mati dómsins.

 

Ákæra dagsett 1. júní 1999.

Samkvæmt gögnum þessa máls sætti það upphaflega rannsókn vegna ætlaðra áfengislagabrota ákærða, Brynjars Arnar, og fleiri.  Samkvæmt skýrslum málsins hafði Ragnar Þór Björnsson bifreið í láni hjá ákærða og virðist lánið á bifreiðinni hafa tengst áfengislagabrotum, sem í rannsókn voru og Ragnar Þór lýsti landasölu sinni fyrir ákærða, Brynjar Örn.  Ragnar Þór kvaðst síðan hafa tekið ákvörðun um það að kvöldi 5. janúar sl. að skila ákærða bifreiðinni og hefði Ómar Örn Björnsson, bróðir hans, ekið bifreiðinni að heimili ákærða að Sogavegi 216, þar sem faðir ákærða skilaði bíllyklunum.  Samkvæmt lögregluskýrslum var ákærði heima og kom hann út og var honum greint frá því að verið væri að skila bílnum fyrir Ragnar Þór.  Ákærði hefði þá viljað ná tali af honum vegna peningaskuldar, sem hann stæði í við sig.  Þessum samskiptum ákærða og Björns Tómasar Sigurðssonar á vettvangi hafi lokið með því að ákærði hótaði Birni, eins og lýst er í ákærunni. Ákærði neitar þessu við skýrslutöku hjá lögreglunni.

 

Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

Ákærði neitar sök.  Hann kvað Björn Tómas Sigurðsson hafa komið á heimili ákærða að kvöldi 5. janúar sl. í fylgd sonar síns.  Hann kvaðst telja að þeir feðgar hefðu komið þeirra erinda að skila bíl, sem ákærði hafði lánað Ragnari Þór.  Ákærði kvaðst ekki minnast þess að hafa rætt við feðgana og kveðst minna að hann hafi ekki farið út úr húsinu, en einungis séð feðgana út um glugga á heimili sínu að Sogavegi 216 og engar hótanir við haft.

Björn Tómas Sigurðsson kvað málavexti þá, að hann hefði farið að heimili ákærða að kvöldi 5. janúar sl. þeirra erinda að skila ákærða bifreið, sem Ragnar Þór, sonur Björns, hafði umráð yfir að kröfu ákærða, en Björn kvað ákærða hafa fengið Ragnar, son sinn, til að selja fyrir sig landa.  Eftir að bílnum hafði verið lagt fyrir utan heimili ákærða setti Björn bíllyklana inn um glugga á heimili hans og kom hann þá út og spurði um Ragnar.  Björn kvaðst hafa sagt honum að hann kæmist ekki nærri honum.  Ákærði hefði þá sagt að ætlaði Ragnar sér í felur þá yrði það verra fyrir hann.  Ákærði myndi ganga frá honum og lífláta hann og ef hann þyrfti að leita að honum þá yrði dauðdaginn einungis kvalafyllri.  Björn kvað hafa fokið í sig við að heyra þessi ummæli og sagði ákærða að hann myndi tilkynna lögreglunni þetta.  Ákærði hefði þá haldið áfram hótunum og sagt að hótanirnar ættu ekki einungis við Ragnar heldur báða bræðurna og báða foreldrana, sem hann hótaði lífláti á “hinn versta veg”.  Björn kvað Ómar Örn, son sinn, hafa staðið þarna nærri er þetta átti sér stað.

 Ómar Örn Björnsson fór ásamt foreldrum sínum að skila ákærða bifreið, sem Ragnar bróðir hans hafði undir höndum, en ákærði átti.  Ákærði hafi þá haft í frammi hótanir um að ganga frá allri fjölskyldunni.  Málavextir voru þannig að eftir að bíllyklarnir höfðu verið settir inn um glugga á heimili ákærða, þá kom hann út og var með kjaft og hótanir, þar með taldar líflátshótanir í garð Ragnars Þórs og allrar fjölskyldunnar og gengið yrði frá þeim.  Ragnar heyrði þetta mjög vel, þar sem hann stóð við hlið ákærða og föður síns og fóru þeir feðgar við svo búið.

Hjá lögreglunni lýsti Ómar Örn hótunum efnislega á sama veg og faðir hans gerði og lýst var hér að ofan og staðfesti hann þennan vitnisburð sinn fyrir dóminum.

Hjördís Hauksdóttir lýsti því er hún beið álengdar í bíl sínum svo hún gæti hringt á lögregluna, ef á þyrfti að halda, meðan feðgarnir, Björn og Ómar skiluðu bifreiðinni til ákærða þetta kvöld.  Hún kvaðst hafa séð til ákærða ræða við Björn, en hún heyrði ekki hvað þeim fór á milli.  Hún kvaðst ekki rengja hótanirnar sem þeir lýstu.

 

Ákæra dagsett 24. júní 1999.

Samkvæmt lögregluskýrslu dags. 4. september 1998 var lögreglan kvödd að Hótel Esju vegna óláta utandyra.  Á vettvangi kom Björgvin Ingvason að máli við lögregluna og kvað hafa verið skallaður í andlitið af Hilmari Braga Þráinssyni.  Björgvin var fluttur á slysadeild til skoðunar.  Hilmari Bragi neitaði að hafa veist að Björgvini.  Hinn 21. september 1998 lagði Björgvin Ingvason fram kæru á hendur ákærða.  Hann kvað ákærða hafa komið að Hótel Esju í leigubíl ásamt Björgvini og fleirum.  Þeim hafi orðið sundurorða í bílnum og er út var komið hefði ákærði slegið sig hnefahögg í andlitið með krepptum hnefa og hann hlotið áverkana, sem lýst er í ákærunni.

Verður nú rakinn framburður ákærðu og vitna fyrir dómi.

Ákærði játar sök.  Hann kvaðst hafa verið staddur í leigubíl ásamt fleirum þessa nótt og Björgvin verið óður inní bílnum og haft í hótunum við sig.  Er út var komið við Hótel Esju héldu hótanir Björgvins áfram og allir sem þarna voru reyndu að róa hann niður uns Björgvin réðst að ákærða, sem sló til baka í sjálfsvörn.

Björgvin Ingvason kvaðst hafa verið ásamt þremur öðrum mönnum í leigubíl og endaði ferðin við Hótel Esju þessa nótt.  Er þangað kom kvaðst ákærði og félagi hans hafa peninga til þess að greiða leigubílinn, en Björgvin kvaðst ekki hafa haft peninga á sér til þess.  Ákærði og kunningi hans hlupust þá á brott og Björgvin á eftir.  Er leigubíllinn var farinn komu þeir til baka og spurði Björgvin ákærða þá að því hvers vegna þeir hefðu ekki greitt leigubílinn og sneri hann sér að ákærða, sem þá sló hann hnefahögg á munninn svo að Björgvin féll í götuna.  Tönn í efri góm drapst við höggið, en afleiðingarnar voru þær sem lýst er í ákærunni.  Ákærði hafði eitthvað áður þrifið í Björgvin í leigubílnum, en ekki hafi verið annar aðdragandi að högginu.  Björgvin greiddi fyrir leiguaksturinn daginn eftir.

Jósep Freyr Pétursson var samferða ákærða og Björgvini Ingvasyni í leigubílnum þessa nótt. Hann sagði að ákærð og Björgvin hefðu rifist í bílnum um það hver ætti að greiða fyrir aksturinn og ákærði þá þrifið í Björgvin, en gripið var inn í þá atburðarrás.  Er út var komið stóðu þeir upp við hótelinnganginn og héldu rifrildinu áfram.  Engir pústrar eða högg áttu sér stað fyrr en ákærði réðst á Björgvin og sló hann þungt högg með krepptum hnefa í andlitið svo Björgvin féll í götuna.

Þröstur Gylfason var með ákærða og fleirum þessa nótt við Hótel Esju.  Hann kvaðst hafa snúið sér undan augnablik og er hann sneri sér aftur við hafði ákærði slegið Björgvin í andlitið.  Hann sá það ekki gerast.  Eitthvert rifrildi var á milli ákærða og Björgvins í leigubílnum, en eftir að út var komið virtist allt rólegt og ekkert tilefni verið til árásar.

 

Ákæra dagsett 21. september 1999.

Upphaf lögregluafskipta af þessu máli má rekja til kæru, sem lögreglu barst 1. mars sl. vegna viðskipta, sem lýst er í ákærulið 1.

Nú verður rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi og að hluta hjá lögreglu.

Ákærða, Camilla Isabel, játar sök.  Hún kvað þau meðákærða hafa verið sambýlisfólk á þessum tíma og meðákærða verið kunnug fjárhagsstaða sín.  Hún lýsti ítarlega í lögregluskýrslum, sem hún staðfesti fyrir dómi, aðdraganda stofnunar reiknings í Íslandsbanka í febrúar 1999.  Meðákærði hefði stungið upp á því að stofna skyldi þennan reikning, en ákærða hefði á þessum tíma verið komin með yfirdrátt á reikning sem hún átti hjá Landsbankanum.  Hún kvað tilgang með stofnun reikningsins í Íslandsbanka hafa verið þann að nota tékka til að greiða fyrir vörur, sem endurseldar yrðu til að afla fjár til kaupa á fíkniefnum í Amsterdam.  Hún kvaðst hafa gefið alla tékkana út að fyrirmælum meðákærða í þessu skyni.  Eftir að reikningurinn í Íslandsbanka var stofnaður voru lagðir inn á hann peningar semteknir voru út af reikningi ákærðu í Landsbankanum. Meðákærði hafi síðan sama dag fengið ákærðu til að millifæra 90.000 krónur af hinum nýstofnaða reikningi sínum yfir á reikning hans við sama banka.  Þá lýsti hún því er hún gaf út tékkana, sem ákært er vegna að beiðni meðákærða, sem með þessu hefði verið að afla fjár til að fjármagna utanlandsferð til að kaupa fíkniefni eins og áður er lýst.

Nú verður vikið að framburði ákærðu um einstaka liði og rakinn framburður hennar hjá lögreglu að hluta, þar sem hún greindi ítarlega frá einstökum kaupum, en ákærða hefur staðfest lögregluskýrslurnar fyrir dómi.

1.

Ákærða kvaðst hafa gefið út tvo tékka eins og hér er lýst.  Brynjar Örn var með henni í för er tækin voru keypt, en hefði farið var með þau í íbúð kunningja Brynjars Arnar, en hún vissi ekki hvar hann bjó.

2.

Ákærða kvaðst hafa greitt með tékka eins og hér er lýst.  Meðákærði var með í för ásamt kunningja hans Annþóri Karlssyni.  Ákærða fékk sófann aldrei í sínar hendur, en farið var með hann á heimili Annþórs.

Annþór Kristján Karlsson kvað ákærða, Brynjar Örn, hafa skuldað sér peninga og sófinn sem keyptur var og hér er lýst hafi verið hugsaður sem uppgjör skuldarinnar.  Annþór fór með er sófinn var keyptur, enda fyrir fram ákveðið milli þeirra ákærða, Brynjars, að uppgjör skuldarinnar færi fram á þennan hátt.  Aðdragandinn hafi verið sá að ákærði, Brynjar, kom að máli við Annþór og spurði hvað hann vantaði og greindi Annþór honum þá frá því að hann hygðist kaupa sófasett.  Síðar kom í ljós að ákærða, Camilla Isabel, greiddi með innistæðulausum tékka og kvaðst Annþór hafa greitt sófann.  Hann kvaðst á þessum tíma ekki hafa hugleitt stöðu mála, en eftir að hann lenti í gæsluvarðhaldi vegna þessa, kvaðst hann hafa rætt við ákærða, Brynjar, sem sagðist hafa notað ákærðu og fengið út úr henni peninga, þar sem hún vissi engin deili á íslensku bankakerfi.

3.

Ákærða, Camilla, kvaðst hafa greitt fyrir þessar vörur með tékkanum eins og hér er lýst.  Í lögregluskýrslu lýsti ákærða því er hún keypti tölvuna eftir leiðbeiningum frá meðákærða.  Helena hafi farið með sér er hún keypti tölvuna, en Annþór hefði beðið útí bíl á meðan.  Eftir kaupin hefðu Helena og Annþór tekið við tölvunni og líklega selt hana.  Ákærða bar efnislega um þetta eins fyrir dóminum.

Annþór Kristján Karlsson kom fyrir dóminn og kvaðst ekki vita neitt um þessi kaup.

4.

Hjá lögreglunni lýsti ákærða því er Annþór ók henni á hjólbarðaverkstæði, þar sem Hörður Sigþórsson beið hennar með þau skilaboð að ákærða ætti að skrifa tékka fyrir hjólbörðum undir bifreið hans.  Þetta kvaðst hún hafa gert, en hún vissi ekkert um samkomulag milli meðákærða, Brynjars, og Harðar vegna þessara kaupa.  Hún lýsti því fyrir dóminum að hún hefði keypt þessa hjólbarða að fyrirmælum meðákærða, Brynjars.

5.

Hjá lögreglunni lýsti ákærða því er meðákærði sendi hana ásamt Herði Sigurgeirssyni þeirra erinda að kaupa felgurnar, sem hún gerði, og greiddi eins og lýst er í ákærunni.  Hún kvað felgurnar hafa verið keyptar með það í huga að endurselja fyrir reiðufé.  Hún vissi ekki um afdrif þeirra.  Hún játaði þetta eins og annað fyrir dóminum.

6.

Ákærða játar þessi fjársvik og kvað Annþór og vinkonu hans hafa komið með sér er þetta átti sér stað.  Hlutirnir voru keyptir samkvæmt fyrirmælum meðákærða, Brynjars. Hún vissi ekki um afdrif þessara muna.  Hjá lögreglunni lýsti ákærða því að Annþór hefði tekið við mununum og vissi hún ekki hvernig hann ráðstafaði þeim. 

Annþór Kristján Karlsson sagði að ákærði, Brynjar, hefði boðið sér að senda ákærðu, Camillu, með sér í Bílanaust og hún myndi greiða dempara, sem hann þurfti undir bíl sinn með tékka.  Þetta gerði ákærða auk þess sem keyptur var geislaspilari fyrir ákærða, Brynjar Örn.

7.

Ákærða kvað þennan lið réttan og meðákærði hefði fengið reiðuféð í hendur, sem hún fékk til baka frá leigubílstjóranum.

8.

Hún kvað þennan tékka hafa verið gefinn út til að greiða viðgerð, sem meðákærði átti, en tékkinn var gefinn út að fyrirmælum meðákærða.

 

Ákærði, Brynjar Örn, neitar sök.  Hann kvaðst ekki hafa komið nærri stofnun tékkareikningsins í Íslandsbanka utan það, að meðákærða bað hann um aðstoð í bankanum vegna þess að enginn starfsmaður þar talaði ensku, en meðákærða er enskumælandi.  Ákærðu voru sambýlisfólk á þessum tíma.  Hún kvaðst ekki hafa notið góðs af andvirði tékkanna, sem meðákærða gaf út.  Ákærði kvaðst hafa talið hana eiga innistæðu fyrir þeim tékkum sem hún gaf út, enda greindi hún honum svo frá og þá hefði hún verið í vel launaðri vinnu.

Verður nú rakinn framburður ákærða, Brynjars, um einstaka liði.

1.

Ákærði kvað meðákærðu hafa beðið sig um að líta í dagblöðin og aðstoða sig við að finna sjónvarpstæki.  Ákærði gerði þetta og fór með henni er hún keypti tækin og greiddi fyrir með ávísun.

2.

Ákærði kvað meðákærðu hafa verið að skoða sófa og Annþór Kristján Karlsson hefði verið að ákveða kaup á sófa og beðið meðákærðu að lána sér fyrir honum.  Ákærði neitaði því að sófakaupin tengdust peningauppgjöri þeirra Annþórs eins og hann lýsti og eins og meðákærða bar.

3-5.

Ákærði kannast ekkert við þessi kaup.

6.

Ákærði kvaðst ekkert vita um þessi kaup.  Hann kvaðst ekki hafa fengið geislaspilarann, sem keyptur var, í sínar hendur.

7.

Ákærði kveðst hafa verið með meðákærðu og fleirum í för er þessi ferð var farin í leigubílnum.  Þetta hefði verið gert í einhverju rugli.

8.

Ákærði kannaðist við þessi viðskipti.  Hann kvað meðákærðu hafa skuldað sér peninga og þess vegna hafi hún greitt fyrir viðgerðina á bílnum og þar með greitt inn á skuldina.  Hann kannaðist ekki við að ávísanaheftið hefði verið afhent í bankanum í tengslum við þennan bíl, eins og vitnið Guðrún Ólöf Sigmundsdóttir bar og lýst verður síðar.

 

Guðrún Ólöf Sigmundsdóttir lýsti því er ákærðu komu að máli við hana vegna stofnunar reikningsins í Íslandsbanka, en ákærðu komu nokkrum sinnum vegna þessa reiknings.  Ákærði, Brynjar Örn, hafði orð fyrir ákærðu og hringdi hann einnig oft í bankann vegna þessa.  Að lokum var millifært af reikningi ákærðu í Íslandsbanka og yfir á hinn nýstofnaða reikning hennar í Íslandsbanka.  Guðrún Ólöf kvað ákærðu hafa fengið tékkhefti á þeim forsendum að hún væri með bilaðan bíl á verkstæði, sem þyrfti að ná út fyrir helgina, sem þá var framundan, auk þess sem mánaðamót voru. En ákærði, Brynjar, greindi henni frá þessu og ákærði greindi henni einnig frá því að stofnun reikningsins stæði í sambandi við launareikning ákærðu, sem var starfsmaður Naustsins.  Guðrún Ólöf kvað ekkert óvenjulegt við stofnun þessa reiknings ákærðu í bankanum.

Anna Stella Guðjónsdóttir var einnig starfsmaður í Íslandsbanka á þessum tíma og hafði samskipti við ákærðu vegna reikningsstofnunarinnar.  Hún lýsti því að reikningurinn hefði verið stofnaður með 100.000 króna yfirdráttarheimild.  Ákærða hefði að mestu leyti talað ensku við sig, en ákærði, Brynjar, hefði spurt hvort ákærða fengi yfirdráttarheimild á reikninginn.

 

 

Niðurstöður.

Ákæra dagsett 1. júní 1999.

Sannað er með vitnisburði Björns Tómasar Sigurðssonar og Ómars Arnar Björnssonar sem fær stuðning af vitnisburði Hjördísar Hauksdóttur, en gegn neitun ákærða, að hann hafi viðhaft þær hótanir, sem lýst er í ákærunni og varðar brot ákærða við 233. gr. almennra hegningarlaga.

 

Ákæra dagsett 23. júní 1999.

Dómurinn telur sannað með vitnisburði Björgvins Ingvasonar, Jóseps Freys Péturssonar og Þrastar Gylfasonar, en gegn neitun ákærða, að hann hafi framið þá háttsemi sem lýst er í ákærunni, en misritun hefur orðið í ákærunni, en atburðurinn átti sér stað 4. september 1998.  Kemur þetta ekki að sök.

Samkvæmt vitnisburði Björgvins Ingvasonar og læknisvottorði hans hlaut hann þá áverka, sem lýst er í ákærunni, en Björgvin fór til skoðunar á slysadeild þegar eftir árásina sem hann varð fyrir.

Brot ákærða varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.

 

Ákæra dagsett 21. september 1999.

Gegn eindreginni neitun ákærða, Brynjars Arnar, er ósannað að ákærða, Camilla Isabel, hafi stofnað reikninginn í Íslandsbanka að hans undirlagi.

Dómurinn telur sannað með framburði ákærðu, Camillu Isabel, og vitnisburði Annþórs Kristins Karlssonar, en gegn neitun ákærða, Brynjars Arnar, að ákærðu hafi gerst sek um háttsemi, sem lýst er í ákærulið  2. Ákærði, Brynjar Örn, um bága fjárhagsstöðu ákærðu, þar sem voru sambýlisfólk á þessum tíma. Hann hlaut einnig að vita að lágmarksfjárhæð var lögð inn á reikninginn í Íslandsbanka við stofnun og að sú fjárhæð nægði ekki til greiðslu verðmætanna, sem lýst er í ákærulið 2.  Að öðru leyti er ekki nægilega sannað gegn eindreginni neitun ákærða; Brynjars Arnar, að hann hafi í samvinnu við ákærðu, Camillu Isabel, svikið út vörur og ráðstafað andvirði tékkana eins og lýst er í öðrum ákæruliðum þessarar ákæru en ákærði vissi af lágmarksfjárhæð á tékkareikningi ákærðu var hærri en sem nam greiðslunni fyrir viðgerðina á bílnum sem lýst er í lið 8. Ákærði, Brynjar Örn, er því sýknaður af öllum ákæruliðum þessara ákæru utan ákærulið 2.

Sannað er með skýlausri játningu ákærðu, Camillu Isabel, og öðrum gögnum málsins, að hún hafi framið þá háttsemi sem hún er ákærð fyrir, að teknu tilliti til breytingar sem leiða af sýknu ákærða, Brynjars Arnar. 

Brot ákærðu eru rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.

 

Ákærði, Brynjar Örn, hefur frá árinu 1992 hlotið 6 refsidóma fyrir líkamsárás, þjófnað, húsbrot, skjalafals, nytjastuld og umferðarlagabrot.  Hann hlaut síðast dóm 29. desember 1998 fyrir umferðarlagabrot og ber að dæma hegningarauka sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga við þann dóm vegna brotsins í ákærunni frá 24. júní 1999. Að öðru leyti er refsing ákærða Brynjars Arnar ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga.

Líkamsárás ákærða á Björgvin Ingvason var tilefnislaus. Hótun ákærða í garð Björns Tómasar Sigurðssonar vakti hjá honum ótta um líf fjölskyldunnar. Með hliðsjón af sakaferli ákærða og að öllu ofanrituðu virtu þykir refsing ákærða, Brynjars Arnar, hæfilega ákvörðuð 6 mánaða fangelsi. Frá refsivistinni skal draga 8 daga gæsluvarðhaldsvist hans sbr. 76. gr. almmennra hegningarlaga.

Ákærða, Camilla Isabel, hefur ekki áður gerst brotleg við lög.  Hún játaði brot sín hreinskilnislega og er það virt henni til refsilækkunar og þykir refsing hennar hæfilega ákvörðuð 3 mánaða fangelsi, en fresta skal fullnustu refsivistarinnar skilorðsbundið í 2 ár frá uppsögu dómsins að telja og skal refsing hennar falla niður að þeim tíma liðnum haldi hún almennt skilorðs 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Komi til afplánunar refsivistar ákærðu skal draga 7 daga gæsluvarðhald hennar frá refsivistinni sbr. 76. gr. almennra hegningarlaga.

Björgvin Ingvason krefst skaðabóta eins og lýst er í ákærunni 24. júní 1999 auk vaxta eins og þar greinir.  Kröfuliðirnir eru margir og reistir á áætluðum kostnaði og einstakir kröfuliðir eru órökstuddir og þeim fylgja ekki fullnægjandi gögn.  Ekki verður annað ráðið af gögnum, sem fylgdu kröfugerðinni, en að Tryggingastofnun ríkisins hafi endurgreitt reikninga vegna tannlækniskostnaðar, sem krafist er skaðabóta fyrir.  Samkvæmt því er öllum kröfuliðum Björgvins vísað frá dómi, utan kröfuliður vegna komu hans á slysadeild. Útlagður kostnaður þar er 2.670 krónur og er ákærði dæmdur til að greiða þá fjárhæð auk vaxta eins og greinir í dómsorði.

Ákærða, Camilla Isabel, er skaðabótaskyld gagnvart öllum kröfuhöfum sem um getur í ákærunni frá 21. september 1999 og er hún dæmd til að greiða kröfuhöfunum þar til greindar fjárhæðir auk vaxta eins og lýst er í dómsorði.

Ákærði, Brynjar Örn, greiði 10.788 krónur í sakarkostnað vegna ákæru 23. júní 1999

Ákærði, Brynjar Örn, greiði 2/3 hluta 120.000 króna málsvarnarlauna til Kristins Bjarnasonar hæstaréttarlögmanns á móti 1/3 hluta sem greiðist úr ríkissjóði.

Ákærða, Camilla Isabel, greiði 120.000 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun til Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns. Sakarkostnað að öðru leyti greiði ákærðu óskipt.

Guðjón Magnússon fulltrúi flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

DÓMSORÐ:

Ákærði, Brynjar Örn Valsson, sæti fangelsi í 6 mánuði, en frá refsivist hans skal draga 8 daga gæsluvarðhald hans.

Ákærða, Camilla Isabel Strutt, sæti fangelsi í 3 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingar hennar skilorðsbundið í 2 ár frá uppsögu dómsins að telja og skal hún falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Komi til afplánunar refsivistar, ákærðu Camillu Isabel, skal draga frá henni 7 daga gæsluvarðhald hennar.

Ákærði, Brynjar Örn, greiði Björgvini Ingvasyni, kt. 261077-4699, 2.670 krónur auk vaxta eins og þeir ákvarðast skv. 16. gr. skaðabótalaga svo og dráttarvaxta eins og þeir ákvarðast skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.

Ákærða, Camilla Isabel, greiði eftirtöldum aðilum skaðabætur:

Kristjáni Kristjánssyni, kt. 190375-6099, 160.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 1. mars 1999 til greiðsludags.

Tæknivali  BT, kt. 53276-0239, 139.990 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 27. febrúar 1999 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga til greiðsludags.

Bílanausti hf. 62.856 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 27. febrúar 1999 en síðan með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga til greiðsludags.

Hrafni Steinþórssyni, kt. 080144-2299, 20.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 27. febrúar 1999 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga.

Bifreiðaverkstæði Friðriks Ólafssonar, ehf., kt. 680994-2779, 12.624 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 25. febrúar 1999 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga til greiðsludags.

Ákærði, Brynjar Örn, greiði 10.788 krónur í sakarkostnað vegna sakarefnis samkvæmt ákæru 23. júní 1999.

Ákærði, Brynjar Örn, greiði 2/3 hluta af 120.000 króna málsvarnarlaunum til Kristins Bjarnasonar hæstaréttarlögmanns á móti 1/3 hluta sem greiðist úr ríkissjóði.

Ákærða, Camilla Isabel, greiði 120.000 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun til Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns.

Að öðru leyti greiði ákærðu sakarkostnað óskipt.