Hæstiréttur íslands
Mál nr. 36/2010
Lykilorð
- Lögmaður
- Skaðabætur
- Gjaldþrotaskipti
|
Fimmtudaginn 21. október 2010. |
|
|
Nr. 36/2010. |
Sveinn Halldórsson (Guðmundur Kristjánsson hrl.) gegn Jóni Auðuni Jónssyni (Kristín Edwald hrl.) |
Lögmenn. Skaðabætur. Gjaldþrotaskipti.
S höfðaði mál gegn lögmanninum J og krafði hann um greiðslu skaða- og miskabóta. Taldi S sig hafa orðið fyrir tjóni vegna mistaka sem J hafi sýnt af sér við gæslu hagsmuna hans. Taldi S mistökin annars vegar felast í því að J hafi ekki sótt þing við fyrirtöku kröfu um gjaldþrotaskipti á búi hans og óskað þar eftir frestun á meðferð kröfunnar í samræmi við beiðni S þar um. Hins vegar að J hefði sýnt af sér mistök með því að hafa dregið að hefjast handa við undirbúning nauðasamningsumleitana fyrir hann við skiptin. Í málinu hafði J viðurkennt að sér hefðu orðið á mistök með því að láta hjá líða að mæta á dómþing þegar krafa um gjaldþrotaskipti á búi S var tekin fyrir. Aðila greindi á hinn bóginn um hvort J hefði verið falið að aðhafast frekar á því stigi. Þá taldi J að sér hefði ekki orðið á mistök varðandi nauðasamningsumleitanir. Starfsábyrgðartrygging J var hjá SA sem hafnaði bótaskyldu og höfðaði S mál til heimtu bótanna. Talið var að ekki hefðu verið nokkrar líkur á því að unnt hefði verið að forða S frá gjaldþrotaskiptum með því að fá meðferð kröfunnar frestað um einn mánuð, en ósannað var að S hefði falið J að gera nokkuð frekar en að sækja þing fyrir sína hönd. Af þeim sökum hefði S ekki sannað að hann hafi orðið fyrir tjóni þótt J hafi orðið á þessi mistök. Þá var talið að þrátt fyrir að J hefði með réttu borið að halda hagsmunum S fram með meiri festu gagnvart skiptastjóra, við að reyna að fella gjaldþrotaskiptin niður, yrði að gæta að því að á þeim tímapunkti hafi tilgreindar eignir búsins verið löngu seldar og hafi því engu breytt um verð þeirra hvort S hefði tekist að fá lánardrottna til að ljúka gjaldþrotaskiptunum með nauðasamningi. Var kröfu S um skaðabætur fyrir fjártjón því hafnað, en jafnframt var talið að ekki væru fyrir hendi skilyrði í málinu til að fallast á kröfu S um miskabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. janúar 2010. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 5.268.954 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 2.268.954 krónum frá 6. október 2004 til 26. febrúar 2009, en af 5.268.954 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum var veitt fyrir héraðsdómi.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður falli niður.
Áfrýjandi hefur stefnt Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.
I
Samkvæmt gögnum málsins mun áfrýjanda 21. janúar 2003 hafa verið birt krafa lánardrottins um að bú hans yrði tekið til gjaldþrotaskipta ásamt fyrirkalli dómara um að mæta vegna hennar á dómþingi 6. febrúar sama ár. Í framhaldi af þessari birtingu mun áfrýjandi hafa leitað til stefnda, sem er starfandi hæstaréttarlögmaður. Óumdeilt er að áfrýjandi óskaði eftir að stefndi mætti fyrir sig í þinghaldinu til að fá meðferð kröfunnar frestað, en ágreiningur er milli aðilanna um hvort stefnda hafi verið falið annað og meira. Stefndi lét hjá líða að mæta í þinghaldinu. Bú áfrýjanda var tekið til gjaldþrotaskipta 10. febrúar 2003 og Jón G. Briem hæstaréttarlögmaður skipaður skiptastjóri.
Fyrir liggur að kröfulýsingarfresti við gjaldþrotaskiptin lauk 25. apríl sama ár og bárust skiptastjóra innan hans kröfur að fjárhæð samtals 21.293.854 krónur. Meðal eigna þrotabúsins var hluti í fasteigninni Suðurhrauni 2 í Garðabæ, sem veðhafi hafði leitað nauðungarsölu á fyrir upphaf gjaldþrotaskipta, og var þessi eign seld á uppboði 26. júní 2003, að því er virðist samkvæmt kröfu veðhafa og með samþykki skiptastjóra. Af gögnum málsins verður ráðið að söluverð eignarhlutans hafi nægt til fullnustu áhvílandi veðskulda að teknu tilliti til ákvæða 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu og hafi þannig fallið niður veðkröfur, sem lýst hafði verið við gjaldþrotaskiptin, að fjárhæð samtals 13.048.333 krónur. Að öðru leyti virðast eignir áfrýjanda við upphaf skipta hafa verið innstæða á bankareikningi að fjárhæð 363.138 krónur og trésmíðavélar, sem sérfróður maður, sem skiptastjóri leitaði til, mat 30. apríl 2003 á samtals 2.190.000 krónur, en við skiptin seldi sá síðastnefndi þær fyrir 1.199.557 krónur. Þessu til viðbótar áskotnuðust þrotabúinu tekjur af leigu áðurnefndrar fasteignar og véla, 249.000 krónur, og endurgreiðsla á virðisaukaskatti að fjárhæð 171.671 króna, auk þess sem maki áfrýjanda greiddi þrotabúinu 1.250.000 krónur samkvæmt samningi 12. september 2003 til að komast hjá riftun kaupmála þeirra. Þá liggur fyrir að endanlegar lyktir um viðurkenningu lýstra krafna við gjaldþrotaskiptin urðu á þann veg að teknar voru til greina forgangskröfur, sem skipað var í réttindaröð eftir 110. og 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., að fjárhæð samtals 744.152 krónur og almennar kröfur samkvæmt 113. gr. sömu laga, sem alls námu 5.562.336 krónum.
Í málinu hefur verið lagt fram bréf skiptastjóra til nafngreinds héraðsdómslögmanns 30. september 2003, sem virðist hafa verið ritað í tilefni af fyrirspurn þess síðarnefnda í tengslum við ráðagerðir um að áfrýjandi leitaði samninga við lánardrottna sína um að ljúka gjaldþrotaskiptunum, en þar kom meðal annars fram að skiptastjóri teldi þrotabúið eiga um þær mundir „peningaeign upp á kr. 1.8-2.0 mkr.“ Svo virðist sem sami lögmaður hafi aftur borið upp sams konar erindi, því skiptastjóri ritaði honum bréf 25. febrúar 2004 með sambærilegum upplýsingum og í fyrra bréfinu. Í framhaldi af þessu kveðst áfrýjandi hafa óskað á nýjan leik eftir aðstoð stefnda, en í bréfi til skiptastjóra 28. maí 2004 tilkynnti áfrýjandi að stefndi færi „alfarið með mín mál“ í stað áðurgreinds héraðsdómslögmanns og myndi hann „annast um að leita nauðasamninga við skuldheimtumenn mína.“ Af þessu tilefni óskaði áfrýjandi eftir að skiptastjóri sendi stefnda „uppfærða kröfuskrá og stutta greinargerð um stöðu búsins.“ Stefndi kveðst hafa náð tali af skiptastjóra áður en þetta bréf var ritað og hafi sá síðarnefndi neitað að láta honum í té upplýsingar nema staðfesting af þessum toga bærist frá áfrýjanda, en eftir það hafi stefndi ítrekað reynt að ná til skiptastjórans án árangurs. Stefnda hafi loks 23. ágúst 2004 borist afrit af fyrrnefndu bréfi áfrýjanda, sem skiptastjóri hafði skrifað á að „nettóeign búsins“ væri 1.840.952 krónur og heildarkröfur í einstökum flokkum næmu nánar tilgreindum fjárhæðum, en að endingu var tekið fram að skiptastjóri myndi „boða til skiptafundar fljótlega“. Óumdeilt er að stefndi hafðist ekkert frekar að til að reka erindi áfrýjanda við skiptastjóra, sem lét 3. september 2004 frá sér fara frumvarp til úthlutunar úr þrotabúinu. Samkvæmt frumvarpinu voru heildareignir þrotabúsins samtals 3.233.366 krónur, svo sem sundurliðað var hér að framan, og virðast engir vextir hafa fallið til af fé þess. Til frádráttar þeirri fjárhæð komu þóknun skiptastjóra, 1.376.596 krónur, og annar skiptakostnaður, samtals 165.858 krónur. Stóðu því eftir til úthlutunar 1.690.912 krónur og skyldi verja samtals 744.152 krónum af þeirri fjárhæð til greiðslu áðurnefndra forgangskrafna, þannig að eftir stæðu 946.760 krónur upp í almennar kröfur, sem greiddar yrðu að 17,02 hundraðshlutum. Skiptum á þrotabúi áfrýjanda var lokið á grundvelli þessa frumvarps 6. október 2004.
Áfrýjandi mun 8. febrúar 2005 hafa borið fram kvörtun á hendur stefnda við úrskurðarnefnd lögmanna, sem taldi í úrskurði 6. apríl 2006 að stefnda hafi orðið á aðfinnsluverð mistök með því að hafa annars vegar ekki sótt þing við fyrirtöku kröfu um gjaldþrotaskipti á búi áfrýjanda og hins vegar dregið að hefjast handa við undirbúning nauðasamningsumleitana fyrir hann. Í framhaldi af þessu mun áfrýjandi hafa krafið stefnda um skaðabætur með bréfi 14. júlí 2006 og síðan réttargæslustefnda 27. október sama ár, en óumdeilt er að hjá honum hafi stefndi haft starfsábyrgðartryggingu. Að undangengnum frekari samskiptum aðilanna, sem greint er frá í hinum áfrýjaða dómi, fékk áfrýjandi dómkvaddan mann 11. apríl 2008 til að meta tjón sitt af þeim mistökum, sem úrskurðarnefnd lögmanna taldi stefnda hafa orðið á samkvæmt áðursögðu. Í matsgerð 9. júlí sama ár var annars vegar komist að þeirri niðurstöðu að tjón áfrýjanda af vanrækslu stefnda um þingsókn við fyrirtöku gjaldþrotaskiptakröfu fælist í því að trésmíðavélar í eigu þess fyrrnefnda hafi verið seldar við skiptin fyrir 1.226.500 króna lægra verð en nam matsverði þeirra samkvæmt áðurgreindu áliti sérfróðs manns þegar tillit hafði verið tekið til virðisaukaskatts og fallið hafi til kostnaður af gjaldþrotaskiptunum, sem matsmaður taldi ranglega að hafi numið samtals 1.692.454 krónum. Þessu til frádráttar taldi hann að koma ættu 500.000 krónur, sem væri „hæfilegt að áætla vegna starfa sem komið hefðu í hlut umsjónarmanns með nauðasamningsumleitunum“. Matsmaðurinn taldi því að tjón áfrýjanda á þessum grunni næmi samtals 2.418.954 krónum. Hins vegar var í matsgerðinni komist að þeirri niðurstöðu að tjón áfrýjanda af vanrækslu stefnda um að framfylgja ósk þess fyrrnefnda um nauðasamningsumleitanir fælist í því einu að trésmíðavélar hans hafi verið seldar of lágu verði við gjaldþrotaskiptin og næmi það fyrrgreindum 1.226.500 krónum. Í málinu reisir áfrýjandi kröfu sína á fyrri lið matsgerðarinnar að teknu tilliti til leiðréttingar á villu í henni og telur fjártjón sitt vegna mistaka stefnda hafa orðið 2.268.954 krónur, en að auki krefst áfrýjandi miskabóta að fjárhæð 3.000.000 krónur.
II
Í málinu hefur stefndi viðurkennt að sér hafi orðið á mistök með því að láta hjá líða að mæta á dómþingi 6. febrúar 2003 þegar krafa um gjaldþrotaskipti á búi áfrýjanda var tekin fyrir, en af þessum sökum varð útivist af hálfu áfrýjanda og var krafan sem fyrr segir tekin til greina 10. sama mánaðar. Gegn andmælum stefnda hefur áfrýjandi ekki sannað að hann hafi falið þeim fyrrnefnda að gera annað og meira í sína þágu en að sækja þing og óska eftir að meðferð kröfunnar yrði frestað. Samkvæmt 3. mgr. 70. gr. laga nr. 21/1991 hefði slík frestun verið háð því að sá lánardrottinn áfrýjanda, sem krafðist gjaldþrotaskiptanna, væri henni samþykkur. Áfrýjandi hefur ekkert leitast við að leiða í ljós hvernig hlutaðeigandi lánardrottinn hefði brugðist við ef stefndi hefði sótt þing og óskað eftir fresti. Að auki verður að gæta að því að samkvæmt gögnum málsins stóð á þessum tíma yfir nauðungarsala á fasteign áfrýjanda, sem var fram haldið og lokið eftir að bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta, og árangurslaust fjárnám hafði verið gert hjá honum. Að virtu því ásamt fyrrgreindum upplýsingum um eignir áfrýjanda við upphaf skipta verður ekki séð að nokkrar líkur hefðu staðið til þess að fært hefði verið að forða honum frá gjaldþrotaskiptum með því að fá meðferð kröfu um þau frestað í allt að einn mánuð. Af þessum sökum hefur áfrýjandi ekki sannað að hann hafi orðið fyrir tjóni þótt stefnda hafi orðið á þau mistök við gæslu hagsmuna hans, sem hér um ræðir.
Eins og áður greinir átti skiptastjóri í þrotabúi áfrýjanda í september 2003 og febrúar 2004 í bréfaskiptum við annan lögmann en stefnda, sem komið hafði á framfæri að áfrýjandi hefði hug á að reyna að ná samningum við lánardrottna sína um að fella gjaldþrotaskiptin niður. Ljóst er að í maí 2004 varð skiptastjóra kunnugt að stefndi hafi tekið að sér að gæta hagsmuna áfrýjanda í þessum efnum, en skiptastjóri vanrækti þó allar götur til 23. ágúst sama ár að verða við beiðni áfrýjanda um að veita stefnda upplýsingar, sem reyndust engan veginn nægar til að hann gæti hafist handa við þetta verk. Þvert gegn því, sem fram kom í orðsendingu skiptastjórans til stefnda síðastnefndan dag um að til stæði að efna til skiptafundar í þrotabúinu í ótilgreindum tilgangi, gerði hann án þess að skeyta um ráðagerðir áfrýjanda frumvarp til úthlutunar úr búinu, en með því girti hann fyrir að neitt frekar yrði úr viðleitni áfrýjanda til að ljúka gjaldþrotaskiptunum með nauðasamningi, sbr. 1. mgr. 149. gr. laga nr. 21/1991. Þótt stefnda hefði með réttu borið að halda þessum hagsmunum áfrýjanda fram af meiri festu gagnvart skiptastjóra verður að gæta að því að þegar þar var komið sögu hafði sá síðastnefndi löngu áður selt trésmíðavélar áfrýjanda og hefði því engu breytt um verð þeirra hvort stefnda hefði tekist að fá lánardrottna hans til að ljúka gjaldþrotaskiptunum með nauðasamningi.
Þegar af þeim ástæðum, sem að framan greinir, verður að öllu leyti að hafna kröfu áfrýjanda um skaðabætur úr hendi stefnda vegna fjártjóns. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður jafnframt hafnað kröfu áfrýjanda um miskabætur. Samkvæmt því verður niðurstaða héraðsdóms staðfest.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Sveinn Halldórsson, greiði stefnda, Jóni Auðunni Jónssyni, 350.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. október 2009.
Mál þetta sem tekið var til dóms 30. september sl., er höfðað með stefnu birtri 24. febrúar 2009.
Stefnandi er Sveinn Halldórsson, Hjallabraut 1, Hafnarfirði.
Stefndi er Jón Auðunn Jónsson, Erluási 48, Hafnarfirði.
Sjóvá-Almennum tryggingum hf. er stefnt til réttargæslu, í samræmi við bókun sem gerð var í þinghaldi 19. maí sl.
Stefnandi krefst þess að stefndi greiði sér skaðabætur að fjárhæð 2.418.954 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 6. október 2004 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda eins og málið sé eigi gjafsóknarmál.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans. Til vara er krafist lækkunar á kröfum hans og að málskostnaður verði felldur niður.
Af hálfu réttargæslustefnda eru ekki gerðar kröfur og engar kröfur gerðar á hendur honum.
Málsatvik
Í janúar 2003 óskaði Sameinaði lífeyrissjóðurinn eftir því að bú stefnanda yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Fyrirkall vegna fyrirtökunnar hafði verið birt fyrir stefnanda 21. janúar 2003 og óskaði stefnandi eftir því að stefndi, Jón Auðunn Jónsson hæstaréttarlögmaður, mætti fyrir sig við fyrirtöku málsins 6. febrúar 2003 og óskaði eftir fresti.
Stefndi mætti ekki við fyrirtökuna og var úrskurður um gjaldþrotaskipti á búi stefnanda kveðinn upp 10. febrúar 2003.
Á árinu 2004 leitaði stefnandi aftur til stefnda og óskaði eftir því að hann yrði sér innan handar um nauðasamninga við lánardrottna. Stefnandi ritaði sjálfur bréf til skiptastjóra þrotabúsins 28. maí 2004 þar sem hann leitaði upplýsinga um skiptameðferðina og stöðu lýstra krafna. Í bréfinu tilkynnti stefnandi jafnframt um að hann hygðist leita nauðasamninga og að stefndi, Jón Auðunn, myndi annast nauðasamningsumleitanir við lánardrottna. Af hálfu stefnda er því haldið fram að hann hafi ítrekað reynt að ná sambandi við skiptastjóra til að reka á eftir erindinu, en án árangurs, en ekki liggja fyrir í málinu skrifleg gögn um það.
Svar skiptastjóra barst skrifstofu stefnda með bréfi 23. ágúst 2004. Um var að ræða athugasemdir um stöðu krafna sem handskrifaðar voru inn á fyrrnefnt bréf stefnanda til skiptastjóra. Jafnframt sagði í bréfinu að boðað yrði til skiptafundar fljótlega. Ekki varð af því og var frumvarp að úthlutunargerð gefið út 3. september 2004. Skiptastjóri hafnaði því að fresta skiptalokum meðan leitað væri nauðasamninga fyrir stefnanda, þar sem frumvarp að úthlutunargerð hefði verið gefið út, en það var fyrst eftir útgáfu frumvarps að úthlutunargerð sem stefndi ræddi við skiptastjóra vegna erindis stefnanda. Skiptum lauk svo á skiptafundi 6. október 2004.
Stefnandi kvartaði yfir framangreindri framgöngu stefnda við úrskurðarnefnd Lögmannafélags Íslands og segir meðal annars í úrskurði nefndarinnar frá 8. apríl 2006: ,,Mistök kærða, Jóns Auðuns Jónssonar hrl., að mæta ekki í héraðsdómi við fyrirtöku á gjaldþrotaskiptabeiðni á hendur kæranda og dráttur af hans hálfu á að hefjast handa við undirbúning nauðasamningsumleitana, eru aðfinnsluverð“.
Með bréfi frá 30. ágúst 2006 óskaði stefnandi eftir afstöðu réttargæslustefnda, Sjóvár-Almennra trygginga hf. ,,til skaðabótakröfu minnar á hendur því vegna atvika þeirra sem hér hafa verið gerð að umræðunefni, en nákvæmlega er lýst í úrskurðinum“. Réttargæslustefndi hafnaði bótaskyldu úr starfsábyrgðartryggingu stefnda með bréfi dagsettu 22. september 2006, með vísan til þess að ekki hefði verið sýnt fram á það með nokkrum hætti hvort stefnandi hefði raunverulega orðið fyrir einhverju fjártjóni. Með bréfi félagsins frá 10. nóvember 2006 var jafnframt vísað til þess að ekki hefði verið sýnt fram á að einhver orsakatengsl væru milli mistaka stefnda og þess tjóns sem stefnandi teldi sig hafa orðið fyrir.
Stefnandi fór með málið fyrir tjónanefnd vátryggingafélaganna sem kvað upp úrskurð í málinu 30. janúar 2007. Niðurstaða tjónanefndar var sú að tjón sem rakið yrði til hinnar umræddu saknæmu háttsemi vátryggingartaka væri bótaskylt úr starfsábyrgðartryggingu hans. Þar til færðar hafi verið sönnur á umfang tjónsins sé greiðsluskylda hins vegar ekki fyrir hendi.
Með bréfi réttargæslustefnda 13. október 2008 var bótaskyldu hafnað þar sem ekki hefði verið sýnt fram á orsakasamband milli mistaka stefnda og þess tjóns sem stefnandi teldi sig hafa orðið fyrir.
Að beiðni stefnanda var dómkvaddur matsmaður, Guðmundur Pétursson hdl. á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness, 11. apríl 2008 til þess að meta:
,,allt umfang tjóns þess, fjárhagslegs sem ófjárhagslegs, sem ég Sveinn, varð fyrir og rekja má til starfsmistaka Jóns Auðuns Jónssonar hæstaréttarlögmanns, Fjarðargötu 11, Hafnarfirði, þ.e. að mæta ekki í héraðsdómi við fyrirtöku á gjaldþrotaskiptabeiðni á búi mínu 6. febrúar 2003 og draga það sumarið 2004 að hefjast handa við undirbúning nauðasamningsumleitana þar til það varð of seint vegna útgáfu skiptastjóra á frumvarpi til úthlutunar úr þrotabúinu.“
Undir rekstri matsmálsins lagði matsbeiðandi fram bókun frá 25. mars 2008, þar sem hann samþykkti að falla frá að svo stöddu að matsbeiðnin tæki einnig til mats á ófjárhagslegu tjóni hans. Kom sá þáttur því ekki til mats.
Taldi matsbeiðandi tjón sitt nánar tiltekið felast í því:
,,að eignum mínum var við skiptameðferðina ráðstafað undir sannvirði; að þrotabúið varð að svara til útgjalda af eignum mínum, sem ella hefði ekki orðið; að ég varð af því að ná nauðasamningum við lánardrottna mína “
Niðurstaða matsmanns var sú að tjón vegna þess að eignum matsbeiðanda hafi verið ráðstafað undir sannvirði var metið á 1.226.500 krónur, en sú fjárhæð byggðist á verðmati Jóns Magnússonar hjá fyrirtækinu Iðnvélum ehf. á trésmíðavélum og tækjum í eigu stefnanda. Í matsgerð kemur fram að skiptastjóri hafi aflað verðmatsins hjá fyrrnefndum Jóni, sem hafi metið tækin til verðs á 2.190.000 krónur án virðisaukaskatts, sem jafngildi 2.726.550 króna með virðisaukaskatti. Trésmíðavélar og tæki hafi verið seld úr þrotabúinu á samtals 1.199.5577 krónur, með virðisaukaskatti og hafi þau því verið seld 1.226.500 krónum undir matsverði.
Þá mat matsmaður tjón vegna kostnaðar við gjaldþrotaskiptameðferð 1.692.454 krónur. Frá heildarfjárhæð tjóns dró matsmaður 500.000 krónur, sem matsmaður taldi hæfilegt að áætla vegna starfa sem komið hefðu í hlut umsjónarmanns með nauðasamningsumleitunum eftir lögum nr. 21/1991. Heildarfjárhæð tjóns vegna þess að ekki var mætt við fyrirtöku gjaldþrotaskipta mat matsmaður samkvæmt ofangreindu 2.418.954 krónur.
Umfang þess tjóns sem varð vegna þess að dregist hafði að hefjast handa við undirbúning nauðasamningsumleitana mat matsmaður á 1.226.500 krónur, þ.e. það tjón sem varð vegna þess að tækjum og trésmíðavélum var ráðstafað undir sannvirði. Í matsgerðinni er þetta skýrt með þeim hætti að eftir ákvæðum 3. mgr. 149. gr. laga nr. 21/1991 sé skiptastjóra í þrotabúi ætlað að gegna þeim störfum sem umsjónarmaður með nauðasamningsumleitunum gegni að öðrum kosti, þegar leitað er nauðasamninga undir gjaldþrotaskiptum. Matsmaður telji ekki efni til að ætla að kostnaður skiptastjóra vegna skiptastjórnar annars vegar og síðar umsjónarmannsstarfa hefði orðið lægri en sá skiptakostnaður sem féll á búið. Sé þá litið til þess að 1. mgr. 149. gr. laga nr. 21/1991 geri ráð fyrir að þrotamaður geti leitað nauðasamnings allt þar til frumvarp sé gert til úthlutunar úr búinu. Sé því eðlilegt að gera ráð fyrir að mestur hluti þess kostnaðar sem til falli vegna skiptastjórnar í þrotabúi sé þegar fallinn á búið, áður en þrotamaður geti í síðasta lagi óskað eftir nauðasamningum. Ósk um nauðasamninga á síðustu stigum myndi í öllu falli fela í sér aukna vinnu fyrir skiptastjóra. Kostnaður vegna gjaldþrotaskiptameðferðar yrði því áfram til staðar og ekkert tjón af þessum sökum.
Stefnandi skaut málinu til úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum sem komst að þeirri niðurstöðu, með úrskurði frá 2. desember 2008, að stefnandi ætti rétt á bótum úr starfsábyrgðartryggingu stefnda.
Með bréfi frá 8. desember 2008 tilkynnti réttargæslustefndi stefnanda að félagið hafnaði því að hlíta niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar, þar sem ekki hefði verið sýnt fram á orsakasamband milli mistaka stefnda og meints tjóns stefnanda.
Stefnandi fékk gjafsókn með leyfi Dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 6. júní 2007.
Fyrir dóminn komu og gáfu skýrslur aðilar málsins ásamt matsmanninum, Guðmundi Péturssyni.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir málsókn sína á því að beint og skýrt samband sé milli framanlýsts athafnaleysis stefnda, Jóns, og fjártjóns þess sem stefnandi varð fyrir. Þessa háttsemi verði að virða honum til sakar og hann beri þess vegna ábyrgð á tjóninu samkvæmt almennum skaðabótareglum. Stefnandi hafi leitað til stefnda sem sérfræðings og sé ábyrgð hans því þeim mun ríkari en ella.
Miskabótakröfu sína byggir stefnandi á b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 25. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998, en hann telji ljóst að nefnd háttsemi stefnda, Jóns, hafi einnig haft í för með sér ólögmæta meingerð í sinn garð. Miðar hann þá við þá stöðu sem hann hafi verið settur í og vari enn, þ.e. að hann sé yfirlýstur þrotamaður. Hann hafi beðið mikinn og varanlegan mannorðshnekki, sem unnt hefði verið að komast hjá, hefði lögmaðurinn unnið vinnuna sína. Hann hafi rekið eigið smíðaverkstæði, sem hann hafi misst við gjaldþrotaskiptin og þar með atvinnu sína.
Stefnandi byggi einnig á því að réttargæslustefndi hafi í raun viðurkennt ábyrgð sína og greiðsluskyldu, þegar ákveðið hafi verið að fylgja framangreindu áliti Tjónanefndar vátryggingafélaganna.
Krafa stefnanda um dráttarvexti á höfuðstól styðjist við 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og málskostnaðarkrafa við 120.-131. gr. laga um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir sýknukröfu sína aðallega á því að ekki hafi verið sýnt fram á orsakasamband milli háttsemi stefnda og meints tjóns stefnanda. Jafnframt sé með öllu ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir nokkru tjóni. Stefnandi, sem beri alfarið sönnunarbyrðina um orsök tjóns síns og umfang þess, hafi ekki sannað framangreint. Þá er því mótmælt að ábyrgð og greiðsluskylda hafi á nokkru stigi verið viðurkennd.
Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna þess að ekki var mætt fyrir hans hönd við fyrirtökuna 6. febrúar 2003. Samkvæmt 3. mgr. 70. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti megi héraðsdómari verða við sameiginlegri ósk lánardrottins og skuldara um að fresta meðferð kröfu um gjaldþrotaskipti þótt mótmæli hafi ekki komið fram gegn henni. Slíka fresti megi ekki veita til lengri tíma en samtals eins mánaðar. Stefnandi virðist byggja á því að hann hafi átt rétt á að fá málinu frestað við fyrirtöku á beiðni um gjaldþrotaskipti 6. febrúar 2003. Stefndi mótmæli því sem röngu, slík beiðni verði að koma frá báðum aðilum. Ekkert sé fram komið í málinu um að slík ósk hafi borist frá skiptabeiðanda, Sameinaða lífeyrissjóðnum, eða að samþykki um frestun hafi legið fyrir.
Stefnandi hafi hvorki falið stefnda að taka upp viðræður við lífeyrissjóðinn um frestun málsins né að leita samninga við lífeyrissjóðinn um uppgjör kröfu sjóðsins á hendur stefnanda. Þá hafi stefnandi ekki byggt á því að hann hafi sjálfur átt í slíkum viðræðum við sjóðinn. Hafi stefnandi í raun ekki gert neina tilraun til þess að sýna fram á að samningar um uppgjör kröfunnar hefðu náðst á þeim mánuði sem hámarksfrestur hefði getað varað og að beiðni um gjaldþrotaskipti hefði verið afturkölluð. Jafnvel þótt frestur á gjaldþrotaúrskurði í einn mánuð hefði fengist, liggi ekki fyrir neinn rökstuðningur á því að það hefði skipt einhverju máli. Stefnandi hafi lýst því yfir við fyrirtöku fjárnámsbeiðni á hendur sér í desember 2002 að hann ætti engar eignir og að hann gæti ekki greitt skuldir sínar. Ekkert sem stefndi gerði, eða lét ógert, hafi haft nokkur áhrif á þá stöðu bús hans eða það að stefnandi var úrskurðaður gjaldþrota.
Gjaldþrotaskiptabeiðnin hafi byggt á ógreiddum lífeyrissjóðsiðgjöldum vegna tæpra tveggja ára. Verulega litlar líkur séu á því að beiðnin hefði verið afturkölluð nema gegn fullri greiðslu. Stefnandi hafi með engu móti sýnt fram á að hann hefði getað greitt skuldina. Jafnvel þótt frestur hefði fengist séu yfirgnæfandi líkur á að gjaldþrotaúrskurður hefði verið kveðinn upp í lok þess frests.
Af framangreindu telji stefndi fullljóst að þótt stefnda hafi láðst að mæta við fyrirtökuna 6. febrúar 2003, hafi það í raun engu breytt fyrir stöðu stefnanda og enn síður hafi það leitt til tjóns fyrir stefnanda.
Þá kveður stefndi ósannað að stefndi hafi sýnt af sér saknæma háttsemi vegna nauðasamningsumleitana sem valdið hafi stefnanda tjóni.
Stefndi byggir sýknukröfu sína í öðru lagi á því að rangt sé og ósannað að stefndi hafi dregið að hefja nauðasamningsumleitanir og hafi með því valdið stefnanda tjóni. Stefndi, Jón Auðunn, hafi ráðlagt stefnanda að fara ekki í nauðasamningsumleitanir en látið skiptastjóra vita um hugmyndir stefnanda í þessum efnum og óskað eftir nauðsynlegum gögnum. Skiptastjóri hafi neitað að láta gögnin af hendi nema gegn skriflegu leyfi stefnanda. Með bréfi, dagsettu 28. maí 2004, hafi stefnandi tilkynnt skiptastjóra að hann hygðist leita nauðasamninga og óskað eftir að stefnda yrðu send nauðsynleg gögn. Í kjölfarið hafi stefndi ítrekað reynt að ná sambandi við skiptastjóra til að reka á eftir erindinu en án árangurs. Það hafi svo ekki verið fyrr en um mánaðamótin ágúst-september sem stefndi hafi fengið í hendur upplýsingar frá skiptastjóra um stöðu krafna ásamt tilkynningu um að skiptastjóri ætlaði að halda skiptafund fljótlega. Stefndi hafi því átt von á boðun um skiptafund í samræmi við tilkynningu skiptastjóra, enda hafi skiptastjóra verið fullkunnugt um að stefnandi hygðist leita nauðasamninga við lánardrottna. Þær upplýsingar sem óskað hafi verið eftir frá skiptastjóra hafi verið grundvöllur þess að hægt væri að hefja nauðasamningsumleitanir. Ekki hafi verið mögulegt að hefja þá vinnu fyrr en umræddar upplýsingar lægju fyrir. Stefndi hafi því alls enga ástæðu haft til að ætla að skiptastjóri myndi á þessu stigi loka á möguleika stefnanda til að leita nauðasamninga með því að ganga frá frumvarpi til úthlutunargerðar í stað þess að halda skiptafund eins og hann hafði boðað. Af þessu sé fyllilega ljóst að rangt sé að stefndi hafi dregið að hefja nauðasamningsumleitanir og er því mótmælt að hann hafi sýnt af sér saknæma háttsemi.
Jafnframt er því mótmælt sem röngu og ósönnuðu að stefnandi hafi orðið fyrir nokkru tjóni vegna þessa. Stefnandi, sem ber alfarið sönnunarbyrði um orsök meints tjóns og umfang þess, hafi ekki sýnt fram á að nokkurt tjón hafi leitt af háttsemi stefnda. Hafi stefnandi ekki sýnt fram á hvert sé fjárhagslegt tjón hans af því að gjaldþrotaskipti fóru fram en ekki nauðasamningur. Stefnandi byggi ekki á að fjárhagsstaða hans hefði verið önnur ef nauðasamningar hefðu verið gerðir í stað þess að gjaldþrotaskipti fóru fram, að öðru leyti en því sem varði skiptakostnað og söluverð eigna. Ljóst sé að stefnandi hefði þurft að selja eigur sínar til að geta gert og efnt nauðasamninga. Hefði því niðurstaðan orðið sú hin sama, hvort sem eignir hefðu verið seldar vegna nauðasamninga eða gjaldþrotaskipta. Jafnframt sé ljóst að kostnaður við nauðasamningsumleitanir hefði fallið til og ætla megi að hann hefði verið sambærilegur skiptakostnaðinum. Á þeim hluta skiptakostnaðar sem fallið hafi til áður en stefnandi leitaði til stefnda í annað sinn og stefndi fékk nauðsynlegar upplýsingar frá skiptastjóra, getur stefndi heldur aldrei borið ábyrgð. Þá sé ljóst að greiðslur hafi komið inn í búið, þar sem um gjaldþrotaskipti var að ræða, sem hefðu ekki verið greiddar stefnanda ef hann hefði gengist undir nauðasamninga.
Stefnandi hafi því ekki með nokkrum hætti sannað að hann hafi orðið fyrir tjóni sem stefndi beri ábyrgð á. Beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Jafnvel þótt talið yrði sannað að stefndi hefði sýnt af sér saknæma háttsemi sem leitt hefði getað til tjóns, sé alfarið ósannað hvert umfang þess tjóns sé. Stefndi mótmælir að stefnandi hafi orðið fyrir nokkru fjárhagslegu tjóni vegna háttsemi stefnda. Er umfangi meints tjóns mótmælt sem vanreifuðu og ósönnuðu. Niðurstöðum framlagðrar matsgerðar, sem liggi til grundvallar kröfum stefnanda, mótmælir stefndi sérstaklega, matsgerðin verði ekki lögð til grundvallar sem sönnun um meint tjón stefnanda. Stefndi áréttar að slík matsgerð geti aldrei verið sönnun um orsakasamband milli saknæmrar háttsemi og meints tjóns, enda eigi slíkt mat undir frjálst sönnunarmat dómara.
Hvað einstaka liði matsgerðar varði, er því í fyrsta lagi mótmælt að eignir hafi verið seldar undir sannvirði. Matsmaður byggi mat sitt á lauslegu mati sem legið hafi fyrir við skiptin, en leggi ekki sjálfstætt mat á verðmæti þeirra. Sé ósannað að markaðsverð/sannvirði tækjanna hafi verið hærra en raunverulegt söluverð þeirra. Þvert á móti verði að ætla að skiptastjóri hafi selt tækin á raunverulegu markaðsverði. Hafi skiptastjóri hins vegar á einhvern hátt vanrækt skyldur sínar við skiptameðferðina og sóað eignum búsins, beri hann einn ábyrgð á því.
Í öðru lagi er tjóni vegna skiptakostnaðar mótmælt. Ósannað sé að kostnaður við nauðasamninga hefði numið lægri fjárhæðum. Þá verði einnig að taka tillit til þeirra greiðslna sem komið hafi inn í þrotabúið og gengið upp í skuldir þess, svo sem vegna riftunar kaupmála, en þær hljóti að ganga til lækkunar tjóns stefnanda.
Þá mótmælir stefndi því að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga til að dæmda stefndu til greiðslu miskabóta. Stefndi hafi ekki gerst sekur um ólögmæta meingerð í garð stefnanda og hafi á engan hátt valdið honum mannorðshnekki eða átt sök á því að hagir stefnanda hafi breyst. Stefnandi hafi sjálfur lýst því yfir við fyrirtöku á fjárnámsbeiðni í desember 2002 að hann ætti engar eignir og gæti ekki greitt skuldir sínar. Stefndi hafi ekki haft nokkur áhrif á þá stöðu sem síðar hafi leitt til gjaldþrotaskipta.
Niðurstaða
Óumdeilt er að stefnandi óskaði eftir því að stefndi, sem er hæstaréttarlögmaður, mætti fyrir sig við fyrirtöku gjaldþrotaskiptabeiðni 6. febrúar 2003 og óskaði eftir fresti og er jafnframt óumdeilt að það fórst fyrir hjá stefnda. Hefur úrskurðarnefnd lögmanna talið þessi vinnubrögð stefnda aðfinnsluverð í úrskurði sínum frá 6. apríl 2006. Þá hefur úrskurðarnefndin einnig talið aðfinnsluverðan drátt þann sem varð á því hjá stefnda að hefjast handa við undirbúning nauðasamningsumleitana fyrir stefnanda.
Úrskurðarnefnd í vátryggingarmálum komst að þeirri niðurstöðu með úrskurði frá 2. desember 2008, að stefnandi ætti rétt á bótum úr starfsábyrgðartryggingu stefnda vegna ofangreindrar háttsemi stefnda.
Lögmenn bera ríka ábyrgð gagnvart skjólstæðingum sínum og verður stefndi talinn bera skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda hafi hann orðið fyrir tjóni af hans völdum vegna ofangreinds athafnaleysis, en stefnandi ber sönnunarbyrði fyrir því að hann hafi orðið fyrir slíku tjóni.
Verður fyrst vikið að því ágreiningsefni hvort stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna þess að stefndi mætti ekki við fyrirtöku gjaldþrotaskiptabeiðni.
Samkvæmt 3. mgr. 70 gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti er unnt að verða við sameiginlegri ósk lánardrottins og skuldara um að fresta meðferð kröfu um gjaldþrotaskipti, en slíkur frestur verður ekki veittur til lengri tíma en samtals eins mánaðar. Jafnvel þótt telja megi ákveðnar líkur á að frestur þessi hefði fengist, hefur stefnandi ekki gert neinn reka að því að sýna fram á að honum hefði tekist að gera upp kröfu skiptabeiðanda á tilskildum tíma og fá beiðni um gjaldþrotaskipti afturkallaða, en málatilbúnaður hans og kröfugerð í þessum þætti málsins miðast við að tjón hans megi rekja til þess að bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta. Á stefnanda hvílir sönnunarbyrði fyrir því að meint tjón vegna þess megi rekja til framangreinds athafnaleysis stefnda, en ekki einhverra annarra atvika. Stefnandi hefur að mati dómsins ekki fært sönnur á að orsök tjóns hans verði rakin til athafnaleysis stefnda, en ekki einhverra annarra atvika, sem stefndi ber enga ábyrgð á.
Verður þá vikið að því ágreiningsefni hvort stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna þess að stefndi brást of seint við þeirri ósk stefnanda að leitað yrði nauðasamninga fyrir hann.
Óumdeilt er að stefnandi tilkynnti skiptastjóra, með bréfi dagsettu 28. maí 2004, að hann hygðist leita nauðasamninga og óskaði eftir að stefnda yrðu send tilskilin gögn. Af hálfu stefnda hefur því verið haldið fram að hann hafi ítrekað reynt að reka á eftir erindinu við skiptastjóra, án árangurs. Fyrir liggur í málinu að svör skiptastjóra bárust til stefnda 23. ágúst 2004, en þá var stefndi í sumarleyfi. Frumvarp að úthlutun var gefið út 3. september 2004, en fram kemur í gögnum málsins að stefndi hafi fyrst, eftir símtal frá stefnanda í lok september 2004, haft samband við skiptastjóra og tilkynnt honum að stefnandi hygðist leita nauðasamninga við lánardrottna sína. Tilkynnti þá skiptastjóri að hann myndi ekki fresta skiptalokum 6. október.
Er það mat dómsins að í ljósi ofangreindrar atburðarásar verði stefndi talinn bera skaðabótaábyrgð vegna þess hversu langur tími leið frá því að stefnandi fól honum að hefja nauðasamningsumleitanir og þar til hann aðhafðist nokkuð í þeim efnum, hafi stefnandi orðið fyrir tjóni af þeim völdum. Stefnandi ber sönnunarbyrði fyrir því að hann hafi orðið fyrir slíku tjóni og umfangi þess tjóns.
Í matsgerð sem stefnandi aflaði kemur fram að tjón stefnanda vegna þess að stefndi hófst ekki handa við undirbúning nauðasamningsumleitana fyrr en of seint, hafi numið 1.226.500 krónum, þ.e. þeirri fjárhæð sem nam mismun á söluverði tækja og trésmíðavéla stefnanda og matsverðs Jóns Magnússonar.
Af hálfu stefndu hefur niðurstöðum framlagðrar matsgerðar verið mótmælt.
Matsmaður kom fyrir dóm og staðfesti niðurstöður matsgerðarinnar. Matsmaður kvaðst hafa byggt niðurstöður sínar um verðmat véla í eigu stefnanda á fyrrgreindu verðmati Jóns Magnússonar, en skiptastjóri þrotabús stefnanda aflaði þess verðmats. Matsmaður kvaðst ekki hafa lagt sjálfstætt mat á verðgildi vélanna. Fyrrgreindur Jón kom ekki fyrir dóm og staðfesti verðmat sitt. Í bréfi skiptastjóra til nefnds Jóns frá 30. apríl 2003 óskaði hann eftir því að hann legði ,,lauslegt mat á verðmæti vélanna“. Í skrá þeirri sem fyrrgreindur Jón sendi skiptastjóra, eru handskrifuð matsverð véla í eigu stefnanda, og yfirskrift skjalsins er ,,áætlað án vsk“. Ekkert er að finna í gögnum málsins um það hvaða þekkingu Jón hefur á slíkum vélum og hvorki hann né skiptastjóri kom fyrir dóm til að gera grein fyrir því eða á hverju matið hefði byggst. Rýrir þetta mjög sönnunargildi matsgerðar stefnanda og gegn mótmælum stefnda verða niðurstöður hennar ekki lagðar til grundvallar um sönnun á umfangi meints tjóns stefnanda. Er umfang tjóns stefnanda samkvæmt framangreindu ósannað.
Stefnandi hefur krafist miskabóta úr hendi stefnda á grundvelli 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 25. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 og byggir hann kröfu sína á því að hann hafi beðið mikinn og varanlegan mannorðshnekki við það að bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta. Stefnandi lýsti því sjálfur yfir við fyrirtöku fjárnámsbeiðni að hann ætti ekki eignir og gæti ekki greitt skuldir sínar. Eins og að framan er rakið taldi dómurinn að ekki hefði verið sýnt fram á að stefnandi hefði getað afstýrt gjaldþrotaskiptum, jafnvel þótt stefndi hefði mætt við fyrirtöku um gjaldþrotaskiptabeiðni og óskað eftir fresti. Því var ekki talið að meint tjón stefnanda yrði rakið til athafnaleysis stefnda. Skilyrði þau sem tilgreind eru í b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, þ.e. að heimilt sé að láta þann sem ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu manns, greiða miskabætur til þess sem misgert er við, eru samkvæmt framangreindu ekki fyrir hendi í máli þessu.
Með vísan til alls ofangreinds verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda, en rétt þykir í ljósi málsatvika að málskostnaður falli niður milli aðila.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 1.041.364 krónur, sem er málsvarnarþóknun lögmanns stefnanda, Guðmundar Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, 628.725 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og útlagður kostnaður stefnanda, 412.639 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.
D ó m s o r ð:
Stefndi, Jón Auðunn Jónsson, er sýkn af kröfum stefnanda, Sveins Halldórssonar.
Málskostnaður fellur niður milli aðila.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda 1.041.364 krónur, sem er málsvarnarþóknun lögmanns stefnanda, 628.725 krónur og útlagður kostnaður stefnanda, 412.639 krónur, greiðist úr ríkissjóði.