Hæstiréttur íslands
Mál nr. 710/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. október 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. október 2016, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 11. nóvember 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa sín verði tekin til greina.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 verður sakborningur því aðeins úrskurðaður í gæsluvarðhald að fram sé kominn rökstuddur grunur um að hann hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Auk þess verða að vera fyrir hendi eitthvert þeirra skilyrða sem talin eru upp í fjórum stafliðum. Meðal þeirra skilyrða er að rökstuddur grunur leiki á að sakborningur hafi rofið í verulegum atriðum skilyrði sem honum hafa verið sett í skilorðsbundnum dómi, sbr. c. lið ákvæðisins.
Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði hefur varnaraðili játað brot það sem honum er nú gefið að sök og er fallist á það með héraðsdómi að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um háttsemi sem sem fangelsisrefsing liggur við, sbr. 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Varnaraðili var með héraðsdómi 29. september 2016 sakfelldur fyrir sams konar háttsemi og hann er sakaður um nú vegna brota sem framin voru 25. maí og 14. júní sama ár. Var honum með dóminum gert að sæta fangelsi í 45 daga skilorðsbundið til tveggja ára. Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið leikur rökstuddur grunur á að varnaraðili hafi með fyrrgreindu broti sínu rofið í verulegum atriðum skilyrði sem honum voru sett í hinum skilorðsbundna dómi. Er því fullnægt skilyrðum c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til þess að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, enda er ekki sýnt að brot það sem hann er sakaður um muni aðeins hafa í för með sér sekt eða skilorðsbundna fangelsisrefsingu, sbr. 3. mgr. sömu lagagreinar. Verður krafa sóknaraðila því tekin til greina.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, skal sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 11. nóvember 2016 klukkan 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. október 2016.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], erlendum ríkisborgara, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 11. nóvember 2016, kl. 16:00.
Í greinargerð sækjanda kemur fram að aðfaranótt 14. október sl. hafði kærði verið handtekinn af lögreglu fyrir húsbrot þar sem hann hafði skriðið undir öryggisgirðingu inn á hafnarsvæði [...] við [...] í Reykjavík og skriðið undir annað öryggishlið inni á svæðinu, en starfsmenn hafi orðið varir við ferðir kærða á öryggismyndavélum, stöðvað hann og haldið þar til lögreglan hafi komið á vettvang.
Í höfn hafi skipin [...] og [...].[...] verið á áætlun til Bandaríkjanna um klukkan 11.00 þann 14. október og [...] sé á áætlun til Evrópu, en brottför hafi ekki verið ákveðin.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli S-461/2016 hafi kærði verið dæmdur í 45 daga skilorðsbundið fangelsi til tveggja ára fyrir tvö brot. Annars vegar með því að hafa í félagi með 4 öðrum mönnum 25. maí 2016 ruðst í heimildarleysi inn á afgirt athafnasvæði [...] við [...] í Reykjavík og hins vegar með því að hafa þriðjudaginn 14. júní s.á. gerst uppvís um sams konar brot á hafnarsvæði [...] í Reykjavík.
Því sé ljóst að með broti sínu þann 14. október hafi kærði rofið skilorð framangreinds dóms.
Í skýrslu sem tekin hafi verið af kærða fyrir brotið s.l. nótt játi hann brot sitt. Sagðist hann hafa gert sér grein fyrir því að hann væri að fara inn á lokað svæði og að hann hafi ætlað sér um borð í skip og hafi hann viljað komast til Bandaríkjanna.
Í ógnarmati Ríkislögreglustjóra vegna endurtekinna tilrauna hóps hælisleitenda til að gerast laumufarþegar með íslenskum farskipum er hættunni við brot af þessu tagi lýst. Ekki aðeins sé um hættu sem stafi af starfsmönnum [...] sem og áhafna skipanna að ræða heldur jafnframt hættu fyrir laumufarþega sjálfa, þar sem dæmi séu til um að laumufarþegar hafi látist á leiðinni til hafna í öðrum löndum. Mjög alvarlegt ástand geti skapast sýni laumufarþegi mótþróa við afskipti skipverja eftir að skip hafi lagt úr höfn, en starfsmenn þeirra hafi enga þekkingu á því hvernig bregðast eigi við slíkum aðstæðum sem geti falið í sér ofbeldisfulla hegðun af hálfu laumufarþegans.
Í ógnarmatinu segi: „ef einstaklingar eða hópar þeirra kæmust með skipum vestur um haf sem laumufarþegar fæli slíkt í sér alvarlegt öryggisrof hvað siglingavernd varðar. Fyrir liggur að stjórnvöld í Bandaríkjunum gætu, og myndu að líkindum, bregðast við með auknum kröfum. Þau viðbrögð gætu skaðað hagsmuni [...], íslenskra útflytjenda og íslenska ríkisins.“
Hér sé um að ræða verndað hafnarsvæði í samræmi við alþjóðakóða um skipa- og hafnarvernd. Því séu miklir hagsmunir í húfi fyrir inn- og útflutning til og frá Íslandi, en á honum gæti hægst verulega komist laumufarþegi um borð í skip og gæti það haft í för með sér miklar afleiðingar fyrir íslenskt efnahagslíf og daglegt líf þeirra sem á Íslandi búa.
Þá telji ákæruvaldið skilyrðum c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála vera uppfyllt. Líkt og áður segi hafi ákærði hlotið 45 daga skilorðsbundinn dóm 29. september s.l. Hann hafi hér með broti sínu rofið skilorð þess dóms með sama broti og sé því um einbeittan ásetning að ræða. Sé það því mat ákæruvaldsins að kærði muni hljóta óskilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir brot þetta. Þá megi ætla að hann haldi áfram brotum á meðan máli hans sé ekki lokið fyrir dómstólum, en þetta hafi verið þriðja tilraun hans á stuttum tíma til að komast um borð í skip [...] og hafi hann ekki látið af háttseminni þrátt fyrir að hafa hlotið dóm fyrir hana.
Sakarefni málsins sé talið varða við 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn ákvæðinu geti varðað fangelsi allt að 6 mánuðum. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Niðurstaða:
Samkvæmt því sem fram hefur komið fyrir dómi er kærði undir rökstuddum grun um hegðun sem fangelsisrefsing liggur við, sbr. 231. gr. almennra hegningarlaga, með því að hafa síðast liðna nótt farið heimildarlaust inn á afgirt hafnarsvæði [...] við [...] í Reykjavík. Að þessu leyti er frumskilyrði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 fyrir hendi. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-461/2016 var kærði sakfelldur fyrir sömu háttsemi 25. maí og 14. júní sl. Hlaut hann þá 45 daga skilorðsbundinn dóm. Af hálfu sóknaraðila er krafa um gæsluvarðhald reist á c-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 þar sem það skilyrði er sett fyrir gæsluvarðhaldi að ætla megi að viðkomandi muni halda áfram brotum meðan máli hans er ekki lokið eða rökstuddur grunur leiki á að hann hafi rofið í verulegum atriðum skilyrði sem honum hafa verið sett í skilorðsbundnum dómi. Þó að kærði hafi áður gerst sekur um að hafa farið inn á athafnasvæði [...] telur dómurinn það eitt ekki gefa tilefni til að álykta að hann muni halda áfram brotum meðan máli hans er ólokið. Þá er ekki um svo verulegt brot á skilorði að efni sé til þess að láta hann sæta svo íþyngjandi úrræði sem gæsluvarðhald er. Miðað við aðstæður telur dómurinn enn fremur sýnt að það brot sem hann er nú sakaður um muni aðeins hafa í för með sér skilorðsbundinn dóm. Ákvæði 3. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 hamlar því einnig að unnt sé að fallast á að kærði verði sviptur frelsi sínu. Þó að kærði hafi í ljósi slæms aðbúnaðar samþykkt fyrir sitt leyti að sæta gæsluvarðhaldi er dóminum óheimilt að samþykkja kröfu um frelsissviptingu nema að lagaskilyrðum sé fullnægt. Með hliðsjón af framangreindu ber að hafna kröfu sóknaraðila.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Hafnað er kröfu sækjanda um að kærði, X, kt. [...], sæti gæsluvarðhaldi.