Hæstiréttur íslands
Mál nr. 448/2004
Lykilorð
- Lausafjárkaup
- Aðild
- Aðfinnslur
|
|
Fimmtudaginn 12. maí 2005. |
|
Nr. 448/2004. |
Alda Jóhanna Stangeland (Sigmundur Hannesson hrl.) gegn Hundaræktinni Dalsmynni ehf. (Jón Egilsson hdl.) og Hundaræktin Dalsmynni ehf. gegn Öldu Jóhönnu Stangeland og Jóni Vigfúsi Guðjónssyni |
Lausafjárkaup. Aðild. Aðfinnslur.
Í málinu krafði H þau A og J sameiginlega um greiðslu kaupverðs fimm hunda. Í héraðsdómi, sem staðfestur var með vísan til forsendna hans, var talið að H hefði ekki tekist sönnun þess að A og J hefðu staðið sameiginlega að kaupum hundanna og því teldist A hafa keypt einn hundanna en J fjóra. Ósannaðar þóttu fullyrðingar A um að hún hefði þegar greitt fyrir þann hund sem hún keypti. Töldust A og J bæði hafa glatað rétti til að bera fyrir sig galla á hundunum þar sem þau höfðu ekki tilkynnt H án ástæðulauss dráttar um þá eins og áskilið er í 1. mgr. 32. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000. Fundið var að því að skýrslutökur við aðalmeðferð málsins í héraði hefðu farið úr böndum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hrafn Bragason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. nóvember 2004 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hún krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda en til vara að krafan verði lækkuð. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu fyrir sitt leyti 26. janúar 2005. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjandi og gagnstefndi verði dæmd in solidum til að greiða sér 729.988 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. mars 2003 til greiðsludags og 150.000 krónur í málskostnað fyrir héraðsdómi. Til vara krefst hann staðfestingar héraðsdóms. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Gagnstefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og nánar greinir í héraðsdómi krefur gagnáfrýjandi aðaláfrýjanda og gagnstefnda um söluandvirði fimm hunda sem hann kveður þau hafa fest kaup á sameiginlega. Héraðsdómur féllst á kröfur gagnáfrýjanda með þeim hætti að aðaláfrýjanda bæri að greiða fyrir einn hundanna, 129.988 krónur auk dráttarvaxta, en gagnstefnda fyrir fjóra, 599.990 krónur auk dráttarvaxta, og dæmdi þau hvort um sig til greiðslu málskostnaðar. Þau áfrýjuðu dóminum bæði. Gagnáfrýjandi krafðist þess þá að þeim yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar og féllst Hæstiréttur á kröfuna gagnvart gagnstefnda Jóni Vigfúsi með ákvörðun 16. febrúar 2005. Í kjölfarið féll hann frá áfrýjuninni fyrir sitt leyti og unir héraðsdómi. Stendur þá eftir gagnvart honum krafa gagnáfrýjanda um greiðslu in solidum með aðaláfrýjanda á þeim 129.988 krónum sem hún var dæmd til að greiða í héraðsdómi.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Aðaláfrýjandi verður dæmd til að greiða gagnáfrýjanda upp í málskostnað þá fjárhæð sem í dómsorði greinir. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur að öðru leyti niður.
Af endurritum skýrslna, sem teknar voru af aðaláfrýjanda og gagnstefnda við aðalmeðferð málsins, verður ráðið að skýrslutaka hafi farið úr böndum. Þar er að finna samtöl og deilur lögmanns gagnáfrýjanda við skýrslugjafa, sem þar eiga ekki heima, auk þess sem hluti beinna spurninga hans og svara þeirra lúta að atriðum, sem ekki verður séð að hafi þýðingu fyrir sönnunarfærslu í málinu. Bar héraðsdómara að gæta að þessu samkvæmt 2. mgr. 49. gr., sbr. 2. mgr. 56. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Er þetta aðfinnsluvert.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Aðaláfrýjandi, Alda Jóhanna Stangeland, greiði gagnáfrýjanda, Hundaræktinni Dalsmynni ehf., 100.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júní 2004.
Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 20. október 2003 og dómtekið 4. júní sl. Stefnandi er Hundaræktin Dalsmynni ehf., Dalsmynni, Reykjavík. Stefndu eru Alda Jóhanna Stangeland og Jón Vigfús Guðjónsson, bæði til heimilis að Barðavogi 3, Reykjavík.
Stefnandi geri þá kröfu að stefndu greiði sameiginlega 729.988 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af stefnufjárhæð frá 27. mars 2003 til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar.
Stefndu gera aðallega þá kröfu að þau verði sýknuð af kröfu stefnanda, en til vara að krafan verði lækkuð. Þau krefjast einnig málskostnaðar.
I.
Málsatvik
Stefnandi máls þessa ræktar hunda og selur í atvinnuskyni. Stefndu hafa keypt nokkurn fjölda hunda af stefnanda, meðal annars í því skyni að hefja sjálf hundaræktun. Samkvæmt því sem fram kom í aðilaskýrslu stefndu Öldu fyrir dómi hefur hún keypt alls 9 hunda af stefnanda og er þá ekki tekið tillit til þeirra hunda sem mál þetta varðar. Stefndi Jón hefur einnig keypt hunda af stefnanda, fyrir utan þá hunda sem mál þetta varðar, en gat í aðilaskýrslu sinni ekki sagt til um það með nákvæmni hversu margir þeir væru.
Í stefnu segir að stefnandi höfði málið til greiðslu reiknings útgefins 27. febrúar 2002 að fjárhæð 729.988 krónur. Samkvæmt meginmáli reikningsins er hann gefinn út til stefndu sameiginlega fyrir einn (karl)hund og fjórar tíkur, öll af tegundinni Chihuahua, en á reikningnum er vísað til samninga um einstaka hunda. Kaupverð hundsins er tilgreint 104.416 krónur án virðisaukaskatts, en verðið á tíkunum 481.920 krónur án virðisaukaskatts eða samtals 729.988 með virðisaukaskatti. Í tengslum við kaup á umræddum fimm hundum samþykkti stefndi Jón tvo víxla sem stefnandi gaf út, annan að fjárhæð 230.000 krónur og hinn að fjárhæð 500.000 krónur. Samkvæmt því sem fram kom við aðilaskýrslur voru víxlarnir aðeins ætlaðir til tryggingar, en ekki hugsaðir sem eiginlegar greiðslur. Í málinu er ágreiningslaust að hvorki umræddur reikningur né víxlar hafa verið greiddir.
Aðilar eru sammála um að umræddur reikningur varði eftirfarandi hunda:
Snúttla Líf, fædd 13. janúar 2003, sbr. ódagsettan kaupsamning.
Rispa, fædd 31. janúar 2003, sbr. kaupsamning 27. febrúar 2003.
Tanja, fædd 19. janúar 2003, sbr. ódagsettan kaupsamning.
Snilld, fædd 24. desember 2002, sbr. kaupsamning 27. febrúar 2003.
Stefnandi heldur því fram að hundurinn Húgó, fæddur 8. október 2002, sbr. kaupsamning 16. nóvember 2002, hafi verið fimmta dýrið, þ.e. karldýrið, sem tilgreint sé í reikningnum. Stefndu héldu því hins vegar fram í aðilaskýrslum að búið hafi verið að greiða fyrir hundinn Húgó áður en umræddur reikningur var gefinn út og hafi fimmta dýrið samkvæmt reikningnum aldrei verið afhent. Samkvæmt málflutningsyfirlýsingum aðila er hins vegar ágreiningslaust að reikningurinn varðar ekki hundinn Lucky, gagnstætt því sem tilgreint er í stefnu.
Að því er fram kemur í greinargerð stefndu voru allir framangreindir hundar haldnir alvarlegum göllum sem hafa leitt til þess að stefndu hafa ekki getað selt þá fullu verði. Samkvæmt aðilaskýrslum stefndu voru þessi gallar ekki sýnilegir við afhendingu hundanna og komu síðar í ljós, annaðhvort fyrir eða eftir sölu til þriðju aðila. Samkvæmt greinargerð stefndu var söluverð umræddra hunda eftirfarandi.
Snúttla Líf, 60.000 krónur.
Rispa, 60.000 krónur.
Tanja, 35.000 krónur.
Snilld, 35.000 krónur.
Í aðilaskýrslu stefndu Öldu kom einnig fram að hundurinn Húgó var seldur á 130.000 krónur, en stefnda Alda kveðst hafa endurgreitt 50.000 krónur vegna galla. Þá kom fram í aðilaskýrslum stefndu að salan á Snilld hefði verið látin ganga til baka vegna galla.
Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilaskýrslur Ásta Margrét Sigurðardóttir stjórnarformaður stefnanda og Tómas K. Þórðarson framkvæmdastjóri stefnanda. Stefndu gáfu aðilaskýrslur. Þá komu fyrir dóminn sem vitni Guðrún Hjörleifsdóttir og Guðjón Arngrímsson. Ekki er ástæða til að rekja þessar skýrslur frekar en þegar hefur verið gert.
II.
Málsástæður og lagarök aðila
Stefnandi reisir málatilbúnað sinn á kaupsamningum um framangreinda hunda og þeim reikningi sem áður greinir. Af hálfu stefnanda er á því byggt að stefndu hafi keypt hundana sameiginlega, enda þótt þeir hafi verið skráðir ýmist á stefnda eða stefndu. Þá hefur stefnandi mótmælt málsástæðum stefndu um ætlaða galla á hundunum sem fram koma í greinargerð þeirra. Af hálfu stefnanda er vísað til meginreglna kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga, sbr. einkum 45. gr., 47. gr. og 51. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Að því er varðar gjalddaga vísar stefnandi til 49. gr. laganna.
Í greinargerð stefndu kemur fram að stefndu séu eindregnir áhugamenn um allt sem viðkemur hundum og hundarækt og hafi þau átt umfangsmikil viðskipti við stefnanda þessa máls, meðal annars með það í huga að hefja sjálf hundarækt. Viðskipti stefndu við stefnanda hafi hins vegar ekki gengið hnökralaust fyrir sig, meðal annars vegna þess að fjöldi hunda sem stefndu hafi keypt af stefnanda hafi verið haldnir alvarlegum göllum sem hafi leitt til þess að hunda þessa hafi stefndu ekki getað selt fullu verði, jafnframt því sem hundarnir hafi verið ónothæfir til undaneldis. Í greinargerðinni kemur fram að stefnda Alda hafi keypt alls níu hunda auk hundsins Húgó, sem um er deilt í málinu. Þá eru raktar greiðslur stefndu til stefnanda og komist að þeirri niðurstöðu að í raun hafi hún ofgreitt 100.000 krónur auk þess sem hundarnir Húgó og Lucky séu haldnir alvarlegum göllum og ættbók vegna þeirra hafi ekki verið afhent. Að því er varðar viðskipti stefnda Jóns eru tilgreindar sex tíkur sem hann hefur keypt af stefndu, allar á 150.000 krónur, þar á meðal þær fjórar tíkur sem mál þetta varðar. Fram kemur að stefndi Jón hafi greitt stefnanda 380.000 krónur. Þegar tekið hafi verið tillit til galla á hinum keyptu hundum og þess að ættbók skorti með þeim hafi stefndi Jón í raun ofgreitt 95.000 krónur.
Stefndu telja ekki ljóst fyrir hvaða hunda stefnandi er að innheimta í málinu. Sýkna beri stefndu Öldu af öllum kröfum stefnanda vegna aðildarskorts. Að því er varðar stefnda Jón er á því byggt að stefnandi eigi ekki lögvarða kröfu á hendur stefnda Jóni þar sem ofgreitt hafi verið fyrir hundana. Þá byggir stefndi Jón á því að þar sem ættbækur og staðfesting dýralæknis hafi ekki fylgt hundum sé raunverð mun lægra en ásett umkrafið verð og beri að ákveða afslátt af þeim sökum. Í þessu sambandi er lýst yfir skuldajafnaði við kröfur sem stefnandi kann að eiga á stefndu. Um lagarök vísa stefndu m.a. til meginreglna kaupalaga, samningalaga og reglna kröfuréttar svo og skaðabótaréttar eftir því sem við á.
III.
Niðurstaða
Í málinu er fram komið að sá reikningur sem stefnandi byggir málatilbúnað sinn á varðar tíkurnar Snúttlu Líf, Rispu, Tönju og Snilld. Við meðferð málsins var því lýst yfir af hálfu stefnanda að reikningurinn varðaði ekki hundinn Lucky andstætt því sem fram kæmi í stefnu. Í aðilaskýrslu við aðalmeðferð málsins hélt stefndi Jón því fram að sá (karl)hundur sem vísað er til í reikningnum væri ekki hundurinn Húgó og hefði sá hundur, sem vísað væri til á reikningnum, aldrei verið afhentur. Að mati dómara felur þessi fullyrðing stefnda Jóns í sér nýja málsástæðu sem kemst ekki að í málinu gegn mótmælum stefnanda. Verður lagt til grundvallar að umræddur reikningur varði framangreindar fjórar tíkur auk hundsins Húgó líkt og ráða má af greinargerð stefndu.
Aðilar deila um hvort stefndu hafi staðið sameiginlega eða einstaklingslega að kaupunum á framangreindum hundum. Nánar tiltekið halda stefndu því fram að stefndi Jón hafi einn keypt tíkurnar, en stefnda Alda ein keypt hundinn Húgó.
Eins og áður greinir hafa stefndu, að eigin sögn, átt umfangsmikil viðskipti við stefnanda, meðal annars með það fyrir augum að hefja sjálf hundarækt. Fram er komið í málinu að við þessi viðskipti hafa stefndu komið fram sameiginlega með ýmsum hætti, eins og títt er um hjón og sambúðarfólk. Þannig liggur fyrir að stefndi Jón samþykkti víxla til tryggingar kaupverðs hunda sem stefnda Alda keypti og sótti hunda sem hún hafði ákveðið að kaupa. Einnig liggur fyrir að stefnda Alda annaðist sölu á a.m.k. einum hundi, það er tíkinni Rispu, sem að sögn stefndu var í eigu stefnda Jóns. Í bréfi stefnda Jóns til stefnanda 7. maí 2003 er tekið svo til orða að stefndu hafi keypt allmarga hunda með það í huga að rækta undan þeim (sbr. „Við keyptum allmarga hunda [...]“) og er þar meðal annars vísað til hunda sem stefndu segja stefndu Öldu eina hafa staðið að kaupum á.
Í málinu liggja fyrir kaupsamningar um alla þá hunda sem mál þetta varðar. Á óundirrituðum kaupsamningi um hundinn Húgó er stefnda Alda tilgreind sem kaupandi og er viðurkennt af hennar hálfu að hún hafi verið kaupandi að hundinum. Á fjórum kaupsamningum um tíkurnar Snúttlu Líf, Rispu, Tönju og Snilld er stefndi Jón tilgreindur sem kaupandi, en aðeins á tveimur kaupsamningum er þó að finna undirskrift hans. Þá liggur fyrir að stefndi Jón samþykkti einn víxil til tryggingar kaupverði umræddra fimm hunda, eins og áður greinir.
Eins og áður greinir selur stefnandi hunda í atvinnuskyni og má vera ljóst að hvorki hjón né fólk í óvígðri sambúð eru sjálkrafa sameiginlega ábyrg fyrir þeim skuldum sem þau stofna til. Ef litið var svo á af hálfu stefnanda að stefndu stæðu sameiginlega að kaupum á framangreindum hundum var rík ástæða fyrir starfsmenn stefnanda að tryggja sér sönnun um það atriði, t.d. með formlegum samningi sem bæri það skýrlega með sér að kaupendur hundanna væru stefndu sameiginlega. Verður stefnandi að bera sönnunarbyrðina fyrir þeirri staðhæfingu að framangreindir samningar hafi verið gerðir við stefndu sameiginlega, en ekki aðeins annað þeirra, eins og samningarnir bera sjálfir með sér. Þótt vissar líkur hafi verið leiddar að því að stefndu hafi komið sameiginlega fram með ýmsum hætti er það niðurstaða dómara að stefnanda hafi ekki tekist sönnun um að stefndu hafi staðið að umræddum kaupum sameiginlega gegn eindreginni neitun þeirra. Verður stefnda Alda því talin kaupandi hundsins Húgó, en stefndi Jón kaupandi að framangreindum fjórum tíkum.
Af hálfu stefndu Öldu er því haldið fram að hún hafi þegar greitt fyrir hundinn Húgó, en kaupsamningur um hann er dagsettur 16. nóvember 2002. Stefnda Alda hefur hvorki lagt fram greiðslukvittun né ættbók hundsins, sem venja er að afhenda við fullnaðargreiðslu í viðskiptum sem þessum. Í málinu hafa verið lögð fram ljósrit af alls 13 tékkum með ýmsum fjárhæðum án þess þó að tilgreint hafi verið hvaða tékki hafi verið greiðsla fyrir umræddan hund. Að öðru leyti hefur stefnda Alda ekki getað stutt fullyrðingu sína um greiðslu gögnum. Að þessu virtu er það álit dómara að stefndu Öldu hafi ekki tekist að sanna að hún hafi þegar greitt fyrir umdræddan hund.
Af hálfu stefndu hefur því verið haldið fram að umræddir hundar hafi verið haldnir margvíslegum göllum, þó þannig að þeir hafi ekki verið sýnilegir við afhendingu. Samkvæmt vottorði dýralæknis 23. mars 2003 vantaði í hundinn Húgó alls 8 tennur við læknisskoðun 18. sama mánaðar, en um aðra hunda sem mál þetta varðar nýtur ekki gagna. Í áðugreindu bréfi stefnda Jóns til stefnanda 7. maí 2003 eru gerðar athugasemdir við ætlaða galla á Tönju vegna mikils undirbits og Snúttlu vegna vandamála í fótum, en þar er þó aðeins kvartað yfir því að ættbók vanti vegna Húgós. Þar til stefndu lögðu fram greinargerð sína 18. desember 2003 höfðu þau að öðru leyti engra gagna aflað um ætlaða galla eða gert tilraun til að tilkynna stefnanda um þá með formlegum hætti. Með vísan til 1. mgr. 32. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup er það álit dómara að stefndu hafi með aðgerðarleysi sínu glatað rétti sínum til að bera fyrir sig ætlaða galla á umræddum hundum. Þegar af þessum ástæðum verður ekki fallist á málsástæðu þeirra um sýknu vegna galla á hundunum.
Samkvæmt framangreindu verður stefnda Alda dæmd til að greiða stefnanda 129.998 krónur með dráttarvöxtum eins og nánar greinir í dómsorði. Stefndi Jón verður dæmdur til að greiða stefnanda 599.990 krónur með dráttarvöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.
Eftir úrslitum málsins verða stefndu dæmd til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur og er þá ekki tekið tillit til virðisaukaskatts. Eins og ábyrgð stefndu er háttað verður málskostnaði skipt hlutfallslega á milli þeirra þannig að stefndi Jón greiði 100.000 krónur, en stefnda Alda greiði 50.000 krónur.
Af hálfu stefnanda flutti málið Jón Egilsson hdl.
Af hálfu stefndu flutti málið Sigmundur Hannesson hrl.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefnda, Alda Jóhanna Stangeland, greiði stefnanda, Hundaræktinni Dalsmynni ehf., 129.998 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 27. mars 2003 til greiðsludags.
Stefndi, Jón Vigfús Guðjónsson, greiði stefnanda 599.990 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 27. mars 2003 til greiðsludags.
Stefnda Alda greiði stefnanda 50.000 krónur í málskostnað.
Stefndi Jón greiði stefnanda 100.000 krónur.