Hæstiréttur íslands
Mál nr. 657/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Þriðjudaginn 30. nóvember 2010. |
|
|
Nr. 657/2010. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Brynjar Níelsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. nóvember 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. nóvember 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 10. desember 2010 klukkan 16 og einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. nóvember 2010.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 10. desember n.k. kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að sakborningur sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsaki nú ætluð stórfelld brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og gegn peningaþvættisákvæði almennra hegningarlaga sbr. 264 gr. laganna. Þá sé einnig til rannsóknar stórfellt fíkniefnabrot.
Upphaf þessa máls séu tilkynningar frá Íslandsbanka og frá Arion banka um peningafærslur sem hafi þótt grunsamlegar og ekki samræmast upplýsingum og/eða viðskiptum hjá reikningshöfum í bönkunum.
Við könnun lögreglu hafi komið í ljós að um hafi verið að ræða greiðslur inn og út af reikningum tveggja fyrirtækja A, kt. [...], og B, kt. [...]. Hafi reikningsyfirlit sýnt háar fjárgreiðslur frá tollstjóra inn á reikninga þessara tveggja fyrirtækja. Fjárhæðirnar hafi síðan smám saman verið teknar út af reikningunum fyrirtækjanna, að mestu í reiðufé. Innlagnir og úttektir sem til rannsóknar séu hafi átt sér stað frá október 2009 til júní 2010.
Með upplýsingaöflun lögreglu m.a. hjá skattrannsóknarstjóra hafi verið upplýst að hinar háu greiðslur inn á reikningana hafi verið endurgreiðslur á innskatti vegna endurbóta á húsnæði en slíkar endurgreiðslur séu gerðar á grundvelli sérstakrar skráningar á virðisaukaskattsskrá skv. reglugerð nr. 577/1989. Við nánari eftirgrennslan um grundvöll þessara endurgreiðslna hafi komið í ljós að húsnæði það sem félögin tvö hafi fengið endurgreiddan innskatt vegna hafði aldrei verið í eigu félaganna eða þeirra einstaklinga sem að þeim stóðu eða voru í forsvari fyrir þau. Endurgreiðslurnar hafi því byggt á röngum og/eða tilhæfulausum grundvelli og bendi því allt til að greiðslurnar hafi verið fengnar með sviksamlegum hætti úr ríkissjóði. Endurgreiðslur á innskatti til A hafi samtals verið kr. 174.330.155, sem lagðar hafi verið inn á reikning félagsins í Arion banka. Endurgreiðslur til B, hafi verið samtals kr. 103.000.000., sem lagðar hafi verið inn á reikning félagsins í Íslandsbanka.
Rannsókn málsins sé margþætt og umfangsmikil en þegar hafi 7 einstaklingar sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins. Framburðir þessara aðila og önnur gögn málsins bendi til að sakborningur hafi staðið að baki skipulagi brotanna ásamt a.m.k. tveimur öðrum aðilum. Sakborningur virðist hafa útvegað fyrrnefnd tvö fyrirtæki, fengið einstaklinga til að vera skráðir fyrir þeim og til að annast úttektir af reikningum fyrirtækjanna. Skráðir forsvarsmenn fyrirtækjanna og þeir einstaklingar er sáu um peningaúttektir af bankareikningum þeirra hafi allir borið að þeir hafi gert það að beiðni sakbornings og að þeir hafi afhent honum nánast allar úttektir í reiðufé.
Tveir aðrir aðilar, Y og Z, séu taldir hafa skipulagt brotin ásamt sakborningi. Þeir hafi báðir sætt gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar málsins en hafi verið látnir lausir þann 5. nóvember s.l. Z hafði þá sætt gæslu allt frá 15. september s.l. en Y frá 11. október s.l. Samkvæmt gögnum málsins hafi sakborningur þó nokkur tengsl við Y og hafi þeir verið í töluverðum samskiptum á árinu. Z, sé sá starfsmaður skattstjóra (nú ríkisskattstjóra) sem hafi afgreitt erindi fyrrnefndra tveggja félaga um sérstaka skráningu og endurgreiðslu. Við yfirheyrslur af öðrum sakborningum hafi komið fram að sakborningur hafi tjáð fleiri en einum sakborninga að hann þekkti mann hjá skattinum sem myndi sjá til þess að þessi mál gengju greiðlega.
Í þágu rannsóknar málsins hafi verið farið í húsleitir hjá 5 öðrum sakborningum þann 14. september s.l. Við leit á heimili tveggja þeirra hafi fundist rúm 11 kíló af kannabisefni, sem viðkomandi sakborningar hafi viðurkennt hjá lögreglu að hafa geymt fyrir sakborning, X.
Rannsókn málsins hófst þann 14. september s.l. en þá hafi sakborningur verið staddur erlendis. Samkvæmt upplýsingum lögreglu hafi sakborningur þá átt bókað flug til landsins frá C þann 17. september s.l. Þegar lögregla hafi fengið upplýsingar um að sakborningur hefði seinkað komu sinni til landsins hafi verið gefin út alþjóðleg handtökuskipun á hendur honum og hann eftirlýstur. Í kjölfarið hafi sakborningur verið handtekinn í D þann 27. september sl. og hafi verið í gæslu yfirvalda þar til honum hafi verið vísað af landi brott og fluttur til Íslands þar sem hann hafi verið handtekinn við komu á Keflavíkurflugvelli þann 12. nóvember sl. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 13. nóvember sl. hafi sakborningur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald allt til dagsins í dag kl. 16:00.
Sakborningur hafi við yfirheyrslur játað aðild sína að brotunum. Kveðst hann hafa útvegað kennitölur fyrirtækjanna og fólk til að sjá um úttektir af banka-reikningum. Þá hafi hann tekið við öllu því reiðufé sem viðkomandi aðilar tóku út af reikningum fyrirtækjanna. Hann neiti hins vegar að hafa með nokkrum hætti komið að skipulagningu brotanna. Kveðst hann hafa tekið verkið að sér vegna beiðni frá aðila sem hann neiti að nafngreina. Sakborningur kveðst eingöngu hafa verið milligöngu-maður og ekki hafa komið nálægt því að fylla út neins konar pappíra í sambandi við fyrirtækin eða útbúa önnur skjöl. Sakborningur segist hafa fengið greiddar um 8 milljónir króna vegna sinnar þátttöku. Sakborningur neiti alfarið að hafa átt þau fíkniefni sem fundust við húsleit 14. september s.l.
Að mati lögreglu sé framburður sakbornings um að hann hafi eingöngu verið milligöngumaður afar ótrúverðugur og stangist á við framburði annarra sakborninga og gögn málsins.
Með vísan til framangreinds og til gagna málsins telji lögregla sig hafa rökstuddan grun um að sakborningur hafi staðið að baki skipulagningu á þeim umfangsmiklu brot gegn skattalögum sem hér um ræði og að hann hafi einnig gerst sekur um peningaþvætti og stórfellt fíkniefnabrot.
Til rannsóknar sé umfangsmikil svikastarfsemi þar sem yfir 277 milljónir króna hafi verið blekktar úr ríkissjóði en fjölmargir einstaklingar tengist þeim fyrirtækjum sem notuð hafi verið til svikanna og þeim aðilum sem grunaðir séu í málinu.
Lögregla telji að sakborningur sé ásamt öðrum aðalmaður í þeim brotum sem til rannsóknar séu. Hann hafi gefið framburð sem að mati lögreglu sé ótrúverðugur og stangist á við framburði annarra sakborninga og vitna í málinu. Nú liggi fyrir að yfirheyra þurfi þessa aðila að nýju og bera undir þá framburð sakbornings. Sé þá sérstaklega mikilvægt að lögregla fái tækifæri á að yfirheyra aðra meinta aðalmenn í brotunum, áður en sakborningur eigi þess kost á að komast í samband við þá.
Meginhluti þeirra peninga sem sviknir hafi verið úr ríkissjóði sé enn ófundinn en sakborningur hafi sjálfur viðurkennt að hafa tekið við nærri 277 milljónum króna í reiðufé. Telji lögregla mikilvægt að hún fái svigrúm til að rekja slóð peninganna en þeir séu eðli málsins samkvæmt afar mikilvægt gagn í málinu.Við rannsókn málsins hafi lögreglu borist upplýsingar um netfang sem talið sé að sakborningur hafi notað til samskipta við unnustu sína og félaga í tengslum við málið. Netfangið virðist hafa verið notað til samskipta eftir að rannsókn málsins hófst en áður en sakborningur hafi verið handtekinn. Meðal gagna málins liggi fyrir drög að tölvupósti þar sem sakborningur virðist vera að skipuleggja hvernig eigi að bregðast við spurningum lögreglu um málið. Lögregla bíði nú eftir að gögn tengd netfanginu berist en eigandi þess, Microsoft Corporation, hafi þegar orðið við beiðni lögreglu um að varðveita öll gögn sem tengist netfanginu, þar á meðal gögn sem reynt hafi verið að eyða. Sé talið að þessi gögn geti veitt lögreglu sterka vísbendingu um hverjir hafi staðið að brotunum og jafnvel hvar peningum hafi verið komið fyrir.
Megi ætla að ef sakborningur verði látinn laus muni hann eiga þess kost að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því hafa samband við samverkamenn eða með því að koma undan gögnum og/eða fjármunum. Lögregla telji það brýnt fyrir framgang málsins að fallist verði á kröfu um gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknar-hagsmuna svo unnt sé að ljúka nauðsynlegri rannsókn án þess að sakborningur geti spillt rannsókninni. Af framangreindum ástæðum sé einnig farið fram á að sakborningur sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Meint sakarefni séu stórfellt fíkniefnalagabrot, stórfelld skattalagabrot og peningaþvætti en brotin séu talin geta varðað við almenn hegningarlög nr. 19/1940 og lög um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Brotin geti varðað allt að 12 ára fangelsisrefsingu. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Um heimild til einangrunar á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur sé vísað til b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga.
Eins og rakið er í greinargerð lögreglu og fram kemur í gögnum máls er nú til rannsóknar hjá lögreglu stórfelld skattsvik og peningaþvætti en brot þessi varða við almenn hegningarlög nr. 19/1940 og lög um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Í tengslum við þau meintu brot er einnig til rannsóknar stórfellt fíkniefnalagabrot. Kærði, sem handtekinn var við komu til landsins þann 12. nóvember sl., er undir rökstuddum grun um að hafa átt verulega aðild að þeim meintu brotum sem hér um ræðir og fangelsisrefsing liggur við. Rannsókn málsins er umfangsmikil og er m.a. beðið gagna sem gætu leitt lögreglu á slóð þeirra fjármuna sem kærði hefur viðurkennt að hafa tekið við, en hafa ekki fundist. Er fallist á að ætla megi að kærði geti torveldað rannsóknina, ef hann gengur laus. Skilyrðum a liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um gæsluvarðhald er því fullnægt. Fallist er á að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur. Ekki eru efni til að gæsluvarðhaldinu sé markaður skemmri tími en krafist er.
Með vísan til framanritaðs er fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgar-svæðinu eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Ingimundur Einarsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 10. desember n.k. kl. 16:00. Þá skal kærði sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.