Hæstiréttur íslands
Mál nr. 337/2013
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Lánssamningur
- Gengistrygging
- Vextir
- Viðbótarkrafa
- Fullnaðarkvittun
|
|
Fimmtudaginn 14. nóvember 2013 |
|
Nr. 337/2013. |
Reynir Finndal Grétarsson (Reimar Pétursson hrl.) gegn Landsbankanum hf. (Aðalsteinn E. Jónasson hrl.) |
Fjármálafyrirtæki. Lánssamningur. Gengistrygging. Vextir. Viðbótarkrafa. Fullnaðarkvittun.
R og L hf. greindi annars vegar á um hvort tiltekið lán sem R hafði tekið hjá forvera L hf. teldist lán veitt í íslenskum krónum tryggt með gengi erlendra gjaldmiðla svo í bága færi við ákvæði 14. gr., sbr. 13. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og hins vegar hvernig haga skyldi uppgjöri vegna tveggja annarra lána sem L hf. taldi að væru ólögmæt gengistryggð lán. Hæstiréttur féllst á það með R að samningsform það sem notað var fyrir fyrstnefnda lánssamninginn hafi verið eins og það sem fjallað var um í dómi Hæstaréttar 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011. Þá var einnig fallist á það með R að ætlan samningsaðila hefði verið sú að greiðslur á gjalddaga lánsins yrðu í íslenskum krónum, svo sem raunin varð. Hins vegar hefði lánsfjárhæðin verið greidd út í evrum auk þess sem eftirstöðvar lánsins hefðu í öllum tilvikum verið tilgreindar í evrum í þeim fimm viðaukum sem gerðir höfðu verið við lánssamninginn. Veittu viðaukarnir vísbendingu um það að viðhorf samningsaðila að lánið hefði verið veitt í evrum og væri það til samræmis við það hvernig lánsfjárhæðin hefði verið greidd R. Að því gættu réði það ekki úrslitum að R hefði samkvæmt samningnum verið heimilt að inna afborganir af hendi í íslenskum krónum. Var því þannig hafnað að lánið færi í bága við 14., sbr. 13. gr. laga nr. 38/2001. Að því er varðaði tilhögun uppgjörs samkvæmt tveimur síðargreindu lánssamningunum rakti Hæstiréttur að í þremur tilgreindum dómum réttarins hefði verið áréttuð sú meginregla kröfuréttar um að kröfuhafi, sem hefði fengið minna greitt en hann hefði átt rétt til ætti kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt hefði verið. Frá meginreglunni væru þó undantekningar, m.a. um að fullnaðarkvittun gæti að vissum skilyrðum fullnægðum valdið því að kröfuhafi glataði frekari kröfu, en tilkalli hans um viðbótargreiðslur yrði þó af þeim sökum einungis hafnað við sérstakar aðstæður. Þá vísaði Hæstiréttur til þess að umræddir lánssamningar hefðu verið gerðir annars vegar til tveggja ára og hins vegar til þriggja ára og skyldu þeir greiðast í einu lagi við lok þeirra, en vextir skyldu greiðast á tólf mánaða fresti. Í báðum tilvikum virtist sem R hefði greitt vexti einu sinni en ekki oftar fyrr en við uppgjör lánssamninganna. Var það mat Hæstaréttar að ekki hefði myndast slík festa við framkvæmd lánssamninganna að unnt væri að víkja frá meginreglu kröfuréttar um að L hf. hefði átt rétt á viðbótargreiðslu úr hendi R vegna vangoldinna vaxta. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu L hf.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. maí 2013. Hann krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér 115.953.000 krónur með nánar tilgreindum ársvöxtum frá 30. apríl 2010 til 28. júní 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að teknu tilliti til innborgunar 63.665.938 krónur 4. nóvember 2011. Til vara krefst hann þess að stefnda verði gert að greiða sér 16.954.244 krónur með sömu vöxtum og í aðalkröfu greinir. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Landsbanki Íslands hf. veitti áfrýjanda lán á árunum 2006 og 2007 samkvæmt þremur lánssamningum sem mál þetta varðar. Fyrsta lánið samkvæmt lánssamningi nr. 5984 var veitt 25. október 2006, annað lánið 10. apríl 2007 samkvæmt lánssamningi nr. 7570 og það þriðja 10. september 2007 samkvæmt lánssamningi nr. 9310. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 tók stefndi meðal annars við réttindum og skyldum Landsbanka Íslands hf. samkvæmt framangreindum lánssamningum. Skilmálum lánanna var breytt að því er laut að gjalddögum og greiðslu vaxta með sérstökum viðaukum. Voru gerðir fimm viðaukar við lánssamning nr. 5984, einn við lánssamning nr. 7570 og tveir við þann sem bar númerið 9310.
Áfrýjandi greiddi með uppgjöri, sem miðað var við 30. apríl 2010 þótt það færi fram síðar, skuld sína samkvæmt öllum þremur lánssamningunum, sem málið varðar, og einum til. Sérstakt samkomulag var gert af þessu tilefni 22. september 2010 þar sem fram kom að áfrýjandi hefði selt einkahlutafélaginu InfoCapital hluti sína Creditinfo Group hf. og kaupverðið hefði meðal annars verið greitt með yfirtöku kaupandans á skuldum áfrýjanda samkvæmt fjórum lánssamningum þar á meðal þeim þremur sem áður greinir. Í 2. gr. samkomulagsins sagði að áfrýjanda og InfoCapital ehf. væri kunnugt um að reynt hefði á þá málsástæðu fyrir dómi að lánssamningar Landsbanka Íslands hf., eins og þeir sem bankinn gerði við áfrýjanda, uppfylltu ekki skilyrði laga nr. 38/2001, án þess að dæmt hefði verið um hana fyrir Hæstarétti Íslands. Kæmi á hinn bóginn til þess að Hæstiréttur teldi að lánssamningar sem væru að öllu leyti sambærilegir að mati stefnda og þeir sem áfrýjandi gerði og samkomulagið tók til, fælu í sér ólögmæta gengistryggingu væru aðilar samkomulagsins sammála um að áfrýjanda skyldi heimilt að ráðstafa kröfu, sem hann þannig kynni að eignast, til lækkunar á skuld samkvæmt lánssamningi sem InfoCapital ehf. gerði við stefnda til fjármögnunar kaupanna.
Stefndi tilkynnti áfrýjanda með bréfi 7. nóvember 2011 að lánin samkvæmt tveimur af samningunum þremur væru að mati bankans með ,,ólögmætri gengistryggingu“. Í samræmi við ákvæði laga nr. 151/2010, sem breyttu lögum nr. 38/2001, hefði bankinn endurreiknað lánin samkvæmt þeim lánssamningum. Við endurútreikninginn hefði verið miðað við að lánin bæru frá upphafi lægstu óverðtryggða vexti sem Seðlabanki Íslands birti, sbr. 10. gr. síðarnefndu laganna. Kom fram að endurútreikningurinn leiddi til þess að ofgreiðsla áfrýjanda samkvæmt lánssamningi nr. 7570 næmi 10.551.575 krónum en samkvæmt lánssamningi nr. 9310 næmi hún 53.114.363 krónum eða samtals 63.665.938 krónum. Var þessi fjárhæð færð sem greiðsla inn á lán InfoCapital ehf. með vísan til framangreinds samkomulags.
Með bréfi stefnda 7. ágúst 2012 tilkynnti hann áfrýjanda að athugun ,,í framhaldi af niðurstöðu Hæstaréttar í máli bankans gegn þrotabúi Motormax, máli nr. 155/2011“ hefði leitt til þeirrar niðurstöðu að lán samkvæmt samningi nr. 5984 teldist ekki fara í bága við ákvæði 14. gr., sbr. 13. gr., laga nr. 38/2001.
Áfrýjandi höfðaði mál þetta til heimtu ætlaðra oftekinna greiðslna samkvæmt framangreindum þremur samningum. Eru ágreiningsefni málsins tvíþætt. Annars vegar er deilt um hvort lánið sem áfrýjandi tók 25. október 2006 samkvæmt samningi nr. 5984 teljist lán veitt í íslenskum krónum tryggt með gengi erlendra gjaldmiðla svo í bága fari við áðurgreind lagaákvæði. Hins vegar er deilt um hvernig haga skuli uppgjöri frá stefnda vegna þeirra tveggja lána, sem hann taldi sjálfur að væru ólögmæt gengistryggð lán. Hluti þessa ágreinings er jafnframt deila um hvernig haga skuli uppgjöri samkvæmt lánssamningi nr. 5984 ef hann teldist fela í sér ólögmæta gengistryggingu.
II
Áfrýjandi telur að lán það sem hann fékk með samningi nr. 5984 hafi verið í íslenskum krónum og bundið gengi erlends gjaldmiðils. Lánssamningurinn hafi því farið í bága við 14. gr., sbr. 13. gr., laga nr. 38/2001. Í því sambandi bendir hann meðal annars á, að á forsíðu samningsins hafi lánsfjárhæðin verið tilgreind í íslenskum krónum. Hvergi í samningnum hafi hún verið tilgreind í hinum erlenda gjaldmiðli heldur aðeins hlutfall hans og viðmiðun við virði íslensku krónunnar á tilteknum degi fyrir útborgun lánsins. Hann kveður lánið hafa verið greitt út og endurgreitt í íslenskum krónum og hafi þessi greiðsluháttur verið ráðgerður í lánssamningnum. Þá hafi verið í samningnum ákvæði um myntbreytingu sem hann telur sýna að tilvísun í samningnum til erlendrar myntar hafi falið í sér ,,,,viðmið“ sem miðaðist við ,,gengisskráningu ... á íslensku krónunni“.“
Áfrýjandi leggur áherslu á að það form lánssamnings nr. 5984, sem notað var, hafi verið nákvæmlega eins og formið sem var grundvöllur ágreinings í dómi Hæstaréttar 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011. Í þeim dómi hafi verið talið að lánið hefði verið veitt í íslenskum krónum en bundið gengi erlendra gjaldmiðla og því farið í bága við áðurnefnd lagaákvæði. Hann leggur einnig áherslu á að mesta þýðingu hafi hvernig skuldbinding um veitingu láns sé orðuð í samningnum en önnur atriði svo sem hvaða háttur sé hafður á útborgun þess og efni viðauka við lánssamninginn, þótt gerðir séu, hafi minni þýðingu. Hann bendir þó einnig á að það form, sem notað var til útfyllingar þegar lántaki óskaði eftir greiðslu á lánsfjárhæðinni hafi verið það sama og lántakinn notaði í málinu sem dæmt var með framangreindum dómi Hæstaréttar.
Fallist er á með áfrýjanda að samningsform það sem notað var fyrir lánssamning nr. 5984 hafi verið, að því leyti sem hér getur skipt máli, eins og það sem var fjallað um í hæstaréttarmálinu nr. 155/2011. Þannig stóð á forsíðu samningsins: „ISK 50.000.000,- Lánssamningur“. Í meginmáli hans sagði meðal annars að áfrýjandi og og Landsbanki Íslands hf. ,,gera með sér svohljóðandi Lánssamning um fjölmyntalán til 1 árs að jafnvirði kr. 50.000.000,- ... í neðanskráðri mynt; EUR 100%. Fjárhæð gjaldmiðilsins ákvarðast þó ekki fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgunardag lánsins. Skuldin verður þá eftirleiðis tilgreind með fjárhæð þeirrar erlendu myntar eða jafngildi hennar í öðrum erlendum myntum. Greiði lántaki afborganir, vexti og dráttarvexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krónum skal hann greiða samkvæmt sölugengi bankans á gjalddaga.“ Þá verður einnig fallist á með áfrýjanda að af grein 2.2. í lánssamningnum, sem mælti fyrir um að lántaki óskaði eftir að tilgreindur íslenskur reikningur hans hjá bankanum yrði skuldfærður fyrir afborgunum og vöxtum, að ætlan samningsaðila hafi verið sú að greiðslur á gjalddaga lánsins yrðu í íslenskum krónum. Sú varð og raunin að því leyti sem þessar greiðslur voru inntar af hendi.
Svo sem fram er komið var lánssamningurinn gerður 25. október 2006. Þann dag voru tölvupóstsamskipti milli áfrýjanda og starfsmanns bankans, sem hófust með svofelldri fyrirspurn starfsmannsins til áfrýjanda: ,,Í hvaða myntkörfu viltu fá þessar 50 millur? Svar óskast sem fyrst ef það á að vera hægt að senda af stað í dag.“ Svar áfrýjanda var: ,,Evrum“. Í síðari tölvupóstsamskiptum þeirra þennan dag var staðfest að öll fjárhæðin skyldi vera í evrum. Sama dag undirritaði áfrýjandi beiðni um útborgun samkvæmt lánssamningnum. Þar sagði meðal annars á hinu prentaða formi: ,,Vinsamlegast greiðið útborgunarfjárhæð inn á neðangreindan reikning“ en svo var handskrifað á formið ,,í samræmi við meðfylgjandi skjal“. Af skjalinu, sem vísað var til, leiðir að greiðslan átti að fara fyrir milligöngu Raiffeisen Zentralbank Österreich AG í Vín inn á reikning áfrýjanda nr. 36110443 við tiltekinn banka í Tbilisi, Georgíu. Á kvittun viðskiptavinar útgefinni af Landsbanka Íslands hf. sama dag sem bar heitið: ,,Erlend millifærsla“ kom fram að fjárhæðin 584.123,09 evrur miðað við gengi 85,53 hafi verið millifærð á framangreindan reikning áfrýjanda við áðurnefndan banka í Tbilisi. Á skjalinu var einnig tilgreint að heildarfjárhæð til greiðslu væri 49.960.048 krónur.
Af framangreindum samskiptum við frágang lánssamningsins og þeim hætti, sem hafður var við útborgun lánsins verður ekki dregin önnur ályktun en sú, að lánsfjárhæðin hafi verið greidd áfrýjanda í evrum. Sú var ekki raunin í dómi Hæstaréttar í máli nr. 155/2011, en þar var lánsfjárhæðin greidd út í íslenskum krónum, en á hinn bóginn var sá háttur hafður á við útborgun láns sem um var fjallað í dómi Hæstaréttar 1. nóvember 2012 í máli nr. 66/2012.
Við úrlausn um hvort samningur sé um lán í erlendri mynt, svo sem heimilt er, eða um sé að ræða lán í íslenskum krónum bundið gengi erlendrar myntar hefur Hæstiréttur í dómum sínum fyrst og fremst lagt til grundvallar skýringu á texta þess lánssamnings þar sem skuldbindingu þeirri, sem lántaki tekst á hendur, er lýst. Þegar sú textaskýring tekur ekki af skarið um hvers efnis lánssamningurinn er að þessu leyti hefur verið lagt mat á atriði, sem lúta að því hvernig hann er efndur og framkvæmdur að öðru leyti. Einkum er litið til þess hvernig aðilar mega efna aðalskyldur sínar. Í því tilviki, sem hér er til úrlausnar verður lagt til grundvallar að lánsfjárhæðin hafi verið greidd út í evrum. Í þeim fimm viðaukum sem gerðir voru við lánssamninginn 30. október 2007, 10. janúar og 10. júlí 2008, 10. ágúst 2009 og 4. maí 2010 í því skyni að breyta skilmálum hans um gjalddaga höfuðstóls og vaxta voru í öllum tilvikum tilgreindar eftirstöðvar lánsins í evrum. Í engu tilviki voru eftirstöðvar tilgreindar í íslenskum krónum. Þótt fallist sé á með áfrýjanda að viðaukarnir einir og sér geti ekki breytt því hvernig upphaflega var samið um þá mynt sem lánið var í, veita þeir vísbendingar um það viðhorf samningsaðila að lánið hafi verið veitt í evrum, og er það til samræmis við það hvernig lánsfjárhæðin var greidd áfrýjanda. Að þessu gættu ræður það ekki úrslitum að áfrýjanda var samkvæmt samningnum heimilt að inna af hendi afborgarnir í íslenskum krónum. Sú var einnig framkvæmdin með endurgreiðslu lánsins, sem var grundvöllur dóms Hæstaréttar í máli nr. 66/2012, þótt samningsskilmálar hafi þar miðað við endurgreiðslu í erlendri mynt.
Samkvæmt þessu verður því hafnað að lánið samkvæmt samningi nr. 5984 hafi farið í bága við 14. gr., sbr. 13. gr., laga nr. 38/2001.
III
Áfrýjandi gerir kröfu um endurgreiðslu vegna oftekinna vaxta stefnda af lánum samkvæmt samningum nr. 7570 og 9310, sem stefndi hefur sjálfur viðurkennt að hafi verið veitt í íslenskum krónum en bundin gengi erlendra gjaldmiðla og því farið í bága við tilgreind ákvæði laga nr. 38/2001. Stefndi hafi við endurútreikning lánanna miðað við að þau skyldu frá upphafi bera vexti samkvæmt 4. gr. laganna, sem Seðlabanki Íslands auglýsi samkvæmt 10. gr. þeirra. Þeir séu verulega hærri en þeir LIBOR vextir að viðbættu 2,35% álagi sem lánin skyldu bera samkvæmt upphaflegum skilmálum samninganna. Áfrýjandi kveðst við greiðslu af lánunum tveimur hafa staðið skil á þeim vöxtum sem stefndi sjálfur hafi reiknað út. Hann hafi fengið tilkynningar frá stefnda um gjalddaga sem sýndu hvaða fjárhæð hann ætti að greiða í vexti í erlendum myntum. Hann hafi síðan greitt stefnda íslenskar krónur miðað við gengi erlendu myntanna á greiðsludegi og fengið kvittun fyrir. Þar hafi komið fram hvernig greiðslu hans hafi verið ráðstafað meðal annars vegna vaxta. Áfrýjandi telur að stefnda hafi borið að áskilja sér rétt til frekari vaxtagreiðslna en hann krafðist upphaflega af lánunum ef hann vildi hafa uppi slíka kröfu síðar. Áfrýjandi vísar til þess að aðilar hafi samið um að uppgjör miðaðist við 30. apríl 2010. Það hafi verið fyrir gildistöku laga nr. 151/2010, sem breyttu lögum nr. 38/2001, en lagabreytingin hafi öðlast gildi 29. desember 2010. Hún geti því ekki skipt máli við úrlausn þess ágreinings sem hér er til meðferðar, heldur gildi 18. gr. laganna eins og hún var fyrir breytinguna. Fyrirmæli greinarinnar leiði til þess að stefndi sé bundinn við þá innheimtu vaxta sem hann hafi sjálfur reiknað út og gefið greiðslukvittun fyrir. Almennar reglur kröfuréttar leiði til sömu niðurstöðu.
Áfrýjandi kveður atvik þessa máls, að því leyti sem hér hafi þýðingu, vera sambærileg þeim sem Hæstiréttur hafi dæmt um 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011, 18. október 2012 í máli nr. 464/2012 og 30. maí 2013 í máli nr. 50/2013. Af því leiði að stefnda hafa verið óheimilt að áskilja sér hærri vexti en hann hafði áður reiknað og innheimt fyrir viðkomandi tímabil. Áfrýjandi hafi verið í góðri trú um að hann hafi innt af hendi fullnaðargreiðslu hverju sinni. Rangar fjárhæðir hafi verið að rekja til þess að lagaákvæði voru túlkuð á rangan hátt. Hann hafi einnig átt í viðvarandi skuldasambandi við stefnda. Áfrýjandi telur hvorki skipta máli að lánin hafi verið greidd að fullu né að gerðir hafi verið viðaukar við lánssamningana, sem breyttu greiðsluskilmálum þeirra. Hann bendir einnig á að í sérstöku ákvæði, grein 2.2., í samkomulagi um uppgjör lánssamninganna hafi honum verið ákveðnar tilteknar heimildir ef samningarnir yrðu taldir fela í sér skilmála um ólögmæta gengistryggingu lána í íslenskum krónum.
Í þeim þremur dómum Hæstaréttar, sem áfrýjandi vísar til, reyndi á hvort kröfuhafi gæti eftir almennum reglum kröfuréttar krafið skuldara um viðbótargreiðslur vegna mismunar á umsömdum vöxtum, sem skuldarinn hafði þegar greitt af láni í íslenskum krónum með ólögmætu ákvæði um gengisviðmiðun og þeim vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001. Í dómunum var áréttuð sú meginregla kröfuréttar að kröfuhafi, sem fengið hefur minna greitt en hann átti rétt til, eigi kröfu á hendur skuldara um það sem vangoldið er. Frá meginreglunni séu þó undantekningar, meðal annars um að fullnaðarkvittun geti að vissum skilyrðum fullnægðum valdið því að kröfuhafi glati frekari kröfu, en tilkalli hans um viðbótargreiðslur verði þó af þeim sökum einungis hafnað við sérstakar aðstæður. Þau atriði sem líta verði til við mat á því hvort svo standi á séu í fyrsta lagi hvort skuldari hafi verið í góðri trú og þannig hvorki vitað né mátt vita að greiðslur hans voru ófullnægjandi þegar hann innti þær af hendi. Í öðru lagi hvort sá aðstöðumunur hafi verið á samningsaðilum að það réttlæti að hafna beri viðbótarkröfu. Í þriðja lagi hvorum aðilanum standi nær að bera áhættu af þeim mistökum sem leiddu til þess að vangreitt var. Í því sambandi skipti einkum máli hvort festa hafi verið komin á framkvæmd samnings, hve langur tími leið frá því að mistök hafi komið fram og þar til krafa sé uppi höfð, hvort öðrum samningsaðila megi fremur kenna um að mistök hafi orðið, hvort samningssambandið sé í eðli sínu einfalt eða flókið og hvert umfang viðbótarkröfu sé. Ekkert eitt þessara atriða var sagt geta ráðið úrslitum um það hvort kröfuhafi eigi rétt á viðbótargreiðslu heldur ráði þar heildstætt mat á aðstæðum öllum, en því verulegra sem óhagræði skuldarans yrði af viðbótargreiðslu því sterkari væru rökin til að víkja mætti frá meginreglunni.
Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 voru atvik þau að hjón höfðu tekið lán hjá fjármálafyrirtæki sem síðar var talið fara í bága við 14. gr., sbr. 13. gr., laga nr. 38/2001. Lánið hafði verið veitt 26. janúar 2006 og skyldi greiðast með 120 jöfnum afborgunum á 30 árum. Hjónin höfðu greitt 20 afborgarnir og alltaf haldið láninu í skilum. Upphafleg lánsfjárhæð var 19.200.000 krónur, en krafa fjármálafyrirtækisins um vangoldna vexti nam 6.585.934 krónum.
Í dómi réttarins í máli nr. 464/2012 deildu sveitarfélag og fjármálafyrirtæki um hvort fjármálafyrirtækið ætti rétt til viðbótargreiðslu í samræmi við framangreinda meginreglu vegna láns sem talið var veitt í íslenskum krónum en bundið gengi erlendra gjaldmiðla og því ólögmætt. Lánið hafði verið veitt til 20 ára og skyldi það greiðast með 80 jöfnum afborgunum. Sveitarfélagið hafði greitt 17 afborganir og alltaf haldið láninu í skilum. Krafa fjármálafyrirtækisins um viðbótargreiðslu nam 56.394.471 krónu en upphafleg lánsfjárhæð var 200.000.000 krónur.
Í dómi réttarins í máli nr. 50/2013 deildu lítið iðnfyrirtæki og fjármálafyrirtæki um hvort hinu síðarnefnda væri heimilt að krefjast viðbótargreiðslu vegna ætlaðra vangoldinna vaxta þess fyrrnefnda af láni, sem talið var ólögmætt af sömu ástæðum og í fyrri málunum. Lánið var veitt til sjö ára og skyldi greiða það með 84 afborgunum á eins mánaðar fresti. Greiddar höfðu verið 40 vaxtagreiðslur af láninu og var það í skilum til 1. júní 2010. Krafa fjármálafyrirtækisins um vangoldna vexti nam 1.255.081 krónu en upphafleg lánsfjárhæð var 4.547.959 krónur.
Í öllum framangreindum dómum var niðurstaða Hæstaréttar á þann veg að skuldarar lánanna hefðu fengið fullnaðarkvittanir fyrir greiðslu vaxta og afborgana hverju sinni. Hefði í öllum tilvikum verið komin slík festa á greiðslur af lánunum að rétt væri með vísan til framangreindra röksemda að víkja frá meginreglu kröfuréttar og synja um rétt fjármálafyrirtækis til viðbótargreiðslu vaxta.
Í máli því sem hér er til úrlausnar er deilt um rétt til viðbótargreiðslu fjármálafyrirtækis vegna tveggja lánssamninga. Lánssamningurinn 10. apríl 2007, nr. 7570, kvað á um veitingu láns að fjárhæð 27.700.000 krónur sem greiða skyldi í einu lagi 2. apríl 2010. Vexti skyldi þó greiða á tólf mánaða fresti í fyrsta sinn 2. apríl 2008. Áfrýjandi virðist einu sinni, 27. mars 2009, hafa greitt 2.649.420 krónur í vexti af láninu og svo við uppgjör þess sem miðaðist við 30. apríl 2010 þótt það hafi í raun farið fram síðar. Gerður var einn viðauki við lánssamninginn þar sem samið var um nýjan gjalddaga höfuðstóls 2. apríl 2012. Vextir skyldu reiknast frá 6. apríl 2010 og áfram greiða þá á tólf mánaða fresti næst 2. apríl 2011. Álag á LIBOR vexti var hækkað með viðaukanum úr 2,35% í 4%.
Lánið, sem veitt var 10. september 2007 með samningi nr. 9310, var að fjárhæð 101.500.000 krónur. Lánið skyldi greiða í einu lagi 8. september 2009 en vexti á tólf mánaða fresti í fyrsta sinn 8. september 2008. Áfrýjandi virðist hafa greitt vexti af láninu 8. september 2009 en ekki oftar fyrr en við uppgjör þess. Vextirnir voru 10.157.312 krónur. Gerðir voru tveir viðaukar við lánssamninginn. Með hinum fyrri 10. ágúst 2009 var lánstíminn lengdur til 8. september 2011 og átti þá að greiða lánið í einu lagi, en vextir greiðast á tólf mánaða fresti frá 8. september 2008. Síðari skilmálabreytingin var gerð 4. maí 2010. Þar var umsamið að áfallnir vextir skyldu bætast við höfuðstól lánsins 8. september 2010 og vextir frá þeim tíma greiðast í lok lánstímans 8. september 2011.
Við mat á því hvort fallast beri á kröfu áfrýjanda og víkja þannig frá áðurnefndri meginreglu kröfuréttar, en samkvæmt henni hefði stefnda hefði verið rétt að krefjast viðbótarvaxta, verða framangreindar staðreyndir um framkvæmd lánssamninganna tveggja lagðar til grundvallar. Samkvæmt þeim fer fjarri að nokkur sú festa hafi myndast við framkvæmd lánssamninganna að líkja megi atvikum við þau sem voru til úrlausnar í áðurnefndum þremur dómum Hæstaréttar. Þegar atvik málsins eru metin heildstætt og tekið tillit til óhagræðis áfrýjanda af greiðslu viðbótarkröfu stefnda, sem nam samkvæmt gögnum málsins um 25.000.000 krónum en lánsfjárhæðirnar voru 129.200.000 krónur, verður ekki fallist á með honum að skilyrði séu til þess að víkja frá meginreglu kröfuréttar um að stefndi hafi átt rétt á þeirri viðbótargreiðslu vegna vangoldinna vaxta, sem hann áskildi sér með bréfi 7. nóvember 2011.
Í dómum Hæstaréttar hefur því verið hafnað að lög nr. 151/2010 geti verið grundvöllur endurkröfu í tilvikum eins og hér er til úrlausnar. Koma þau þegar af þeirri ástæðu því ekki til álita hér.
Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um annað en málskostnað. Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, skal hvor aðila bera sinn kostnað af rekstri málsins.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. maí 2013.
Mál þetta, sem var dómtekið 13. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Reyni Finndal Grétarssyni, Kaldaseli 19, Reykjavík. Stefndi er Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík og stefna málsins var birt 27. júní 2012.
Stefnandi krefst þess aðallega, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 115.953.000 krónur með 8,5% ársvöxtum af 115.959.804 krónum frá 30. apríl 2010 til 1. júní 2010, en með 8,25% ársvöxtum frá þeim degi til 1. ágúst 2010, en með 7,75% ársvöxtum frá þeim degi til 1. okt. 2010, en með 6,75% ársvöxtum frá þeim degi til 1. nóv. 2010, en með 6,3% ársvöxtum frá þeim degi til 1. des. 2010, en með 5,75% ársvöxtum frá þeim degi til 1. jan. 2011, en með 5,55% ársvöxtum frá þeim degi til 1. feb. 2011, en með 5,5% ársvöxtum frá þeim degi til 1. mars 2011, en með 5,25% ársvöxtum frá þeim degi 1. nóv. 2011, en með 5,4% ársvöxtum frá þeim degi til 1. des. 2011, en með 5,25% ársvöxtum frá þeim degi til 1. jan. 2012, en með 5,4% ársvöxtum frá þeim degi til 1. maí 2012, en með 5,65% ársvöxtum frá þeim degi til þingfestingardags 28. júní 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags; allt að teknu tilliti til innborgunar að fjárhæð 63.665.938 krónur þann 4. nóv. 2011.
Til vara að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 16.954.244 krónur með 8,5% ársvöxtum af 16.954.244 krónum frá 30. apríl 2010 til 1. júní 2010, en með 8,25% ársvöxtum frá þeim degi til 1. ágúst 2010, en með 7,75% ársvöxtum frá þeim degi til 1. okt. 2010, en með 6,75% ársvöxtum frá þeim degi til 1. nóv. 2010, en með 6,3% ársvöxtum frá þeim degi til 1. des. 2010, en með 5,75% ársvöxtum frá þeim degi til 1. jan. 2011, en með 5,55% ársvöxtum frá þeim degi til 1. feb. 2011, en með 5,5% ársvöxtum frá þeim degi til 1. mars 2011, en með 5,25% ársvöxtum frá þeim degi til 1. nóv. 2011, en með 5,4% ársvöxtum frá þeim degi til 1. des. 2011, en með 5,25% ársvöxtum frá þeim degi til 1. jan. 2012, en með 5,4% ársvöxtum frá þeim degi til 1. maí 2012, en með 5,65% ársvöxtum frá þeim degi til þingfestingardags 28. júní 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi í öllum tilvikum málskostnaðar að skaðalausu úr hendi stefnda.
Stefndi, Landsbankinn hf., krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda. Til vara er krafist stórfelldrar lækkunar á öllum kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.
I
Stefnandi er menntaður lögfræðingur. Hann er einnig stofnandi, einn helsti eigandi og framkvæmdastjóri Creditinfo Group hf. Félagið mun vera leiðandi fyrirtæki í miðlun fjárhags- og viðskiptaupplýsinga en hjá því starfa um 200 manns í 11 löndum. Stefndi er fjármálafyrirtæki sem tók við réttindum og skyldum Landsbanka Íslands hf. samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. okt. 2008 vegna þessara samninga. Stefndi kveður að þekking og reynsla stefnanda af fjármálamörkuðum, jafnt innlendum sem erlendum, hafi verið grundvöllur þess að honum buðust hinar háu lánveitingar í erlendum myntum frá Landsbanka Íslands hf.
Mál þetta er vegna þriggja lánssamninga sem gerðir voru 25. október 2006, 10. apríl 2007 og 10. september 2007. Stefnandi byggir á því að um ólögmæt gengistryggð lán sé að ræða. Stefndi hefur fallist á það að hluta. Stefnandi krefst endurgreiðslu á því er hann telur að hann hafi ofgreitt.
Lánið 25. október 2006, lánssamningur 5984. Þann dag tók stefnandi lán að jafnvirði 50.000.000 kr. hjá LBI í evrum að öllu leyti. Lánið var til eins árs og samkvæmt gr. 2.1 átti hinn 31. október 2007 að greiða lánið upp að fullu með einni greiðslu. Samkvæmt gr. 2.2 átti að skuldfæra reikning stefnanda fyrir afborgun/vöxtum. Samkvæmt gr. 3.1 voru vaxtakjör lánsins breytileg og jafnhá LIBOR-vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni auk 2,35% vaxtaálags. Í gr. 4.1 er að finna myntbreytingarheimild þar sem segir að lántaki geti óskað þess að myntsamsetningu lánsins verði breytt þannig að það miðist að öllu leyti eða að hluta við aðrar erlendar myntir en upphaflega hafi verið samið um.
Ágreiningur er með aðilum um það hvernig útborgun lánsins var háttað. Stefnandi kveður að Landsbanki Íslands hafi greitt út andvirði lánsins í krónum og hafi 49.960.048 krónur komið til útborgunar til stefnanda að teknu tilliti til kostnaðar. Þeim krónum hafi síðan verið skipt yfir í evrur á genginu 85,53 krónur fyrir hverja evru og gefin hafi verið út sérstök kvittun til stefnanda því til staðfestingar að hann hafi selt hinar lánuðu krónur og keypt evrur. Þær evrur sem hafi verið keyptar hafi síðan verið sendar til TBIL Business Bank í Georgíu og lagðar þar inn á reikning stefnanda. Stefndi mótmælir þessu og kveður að LBI hafi sent tilkynningu með SWIFT-skeyti til Raiffeisen Bank International AG, Vín, Austurríki og óskaði eftir að 584.123,09 evrur yrðu millifærðar inn á bankareikning stefnanda hjá hinum georgíska banka TBIL. Samtímis hafi LBI sent greiðslufyrirmæli með SWIFT-skeyti til Bank Austria (nú Unicredit Bank Austria AG) og óskað eftir því að bankinn færði áðurnefnda fjárhæð af bankareikningi LBI til Raiffeisen svo hann gæti greitt hana inn á bankareikning stefnanda hjá TBIL.
Í heildina voru gerðir fimm viðaukar við samninginn og með þeim voru gerðar breytingar á gjalddögum, vaxtadögum og greiðslu vaxta. Stefnandi innti enga greiðslu af hendi í samræmi við upphaflega skilmála samningsins þar sem greiðslur hans byggðu ávallt á viðaukum við lánssamninginn. Greiðslur frá stefnanda runnu ýmist inn á gjaldfallna vexti eða höfuðstól kröfunnar. Í viðaukunum var höfuðstóll og vextir tilgreindir í evrum.
Lánið 10. apríl 2007, lánssamningur 7570. Þann dag tók stefnandi fjölmyntalán hjá LBI, þ.e evrur, Bandaríkjadollara, svissneska franka og japönsk jen að jafnvirði 27.700.000 kr. Stefndi taldi að um ólögmætt gengistryggt lán væri að ræða og endurreiknaði lánið miðað við lægstu óverðtryggðu vexti Seðlabankans. Inneign stefnanda eftir útreikninginn var 10.551.575 kr. og var henni skuldajafnað við lán InfoCaptital ehf. samkvæmt samkomulagi 22. október 2010.
Lánið 10. september 2007, lánasamningur 9310. Þann dag tók stefnandi fjölmyntalán til eins árs að jafnvirði 101,5 milljónir króna í evrum, Bandaríkjadollar, svissneskum frönkum og japönskum jenum. Stefndi taldi einnig að um ólögmætt gengistryggt lán væri að ræða og endurreiknaði lánið miðað við lægstu óverðtryggðu vexti Seðlabankans. Inneign stefnanda eftir útreikninginn var 53.114.363 kr. og var henni skuldajafnað við lán InfoCaptital ehf. samkvæmt samkomulagi 22. október 2010.
Hinn 3. nóvember 2010 voru lánssamningar nr., 5984, 7570 og 9310 skráðir uppgreiddir. Hinn 7. nóvember 2011 sendi stefndi stefnanda bréf og samrit til InfoCapital. Í bréfinu kom fram að stefndi mæti það svo að samningar nr. 7570 og 9310 kvæðu á um ólögmæta gengistryggingu og að eftirstöðvar lánssamninganna hefðu verið endurreiknaðar í samræmi við ákvæði laga nr. 38/2001 og lægstu óverðtryggðu vexti sem Seðlabanki Íslands birtir, sbr. 10. gr. sömu laga. Niðurstaða endurútreikningsins var sú að ofgreiðsla vegna þessara tveggja lánssamninga hefði numið 63.665.938 kr. eins og að framan greinir.
Hinn 7. ágúst 2012 sendi stefndi stefnanda bréf þar sem kom fram að stefndi mæti það svo að lánssamningur stefnanda nr. 5984 félli ekki undir fordæmisgildi dóms Hæstaréttar Íslands frá 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011 stefndi gegn þrotabúi Motormax ehf. Af þeirri ástæðu myndi stefndi ekki endurreikna framangreindan lánssamning.
II
Stefnandi byggir á því að lánssamningurinn frá 25. október 2006 hafi verið lán í krónum sem hafi verið bundið gengi erlends gjaldmiðils. Lánssamningurinn brjóti því í bága við ákvæði 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu, sbr. jafnframt V. kafla laganna í heild sinni. Þessu til frekari stuðnings bendir stefnandi m.a. á, að á forsíðu samningsins hafi verið lánsfjárhæð tilgreind í íslenskum krónum. Hvergi í samningnum hafi verið getið um fjárhæð skuldarinnar í hinum erlenda gjaldmiðli, heldur aðeins um hlutföll hans og viðmiðun við virði íslensku krónunnar á tilteknum degi fyrir útborgun lánsins. Lánið hafi verið greitt út og endurgreitt í íslenskum krónum og þessi greiðsluháttur hafi verið ráðgerður í samningnum. Þá hafi í samningnum verið ákvæði um myntbreytingu sem sýni að myntsamsetning samningsins hafi falið í sér „viðmið“ sem miðaðist við „gengisskráningu ... á íslensku krónunni“.
Þá byggir stefnandi á því að stefndi hafi nú þegar viðurkennt að lánssamningarnir frá 10. apríl 2007 og 10. september 2007 hafi verið ólögmæt gengistryggð lán í andstöðu við 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu. Sú viðurkenning sé staðfest í bréfi stefnda dags. 7. nóvember 2011 og með þeim greiðslum sem þar sé vitnað til. Við hana sé því stefndi bundinn, en til vara byggir stefnandi á því að lánin séu í reynd ólögmæt enda gildi um þau m.a. öll sömu sjónarmið og hafi verið rakin vegna lánsins frá 25. okt. 2006.
Stefnandi byggir á því að við útreikning á því sem hann hafi ofgreitt stefnda verði að horfa til þess, að hann hafi á sínum tíma greitt stefnda þá vexti sem stefndi hafi sjálfur reiknað út. Stefnandi hafi þannig fengið sendar tilkynningar frá stefnda um gjalddaga sem hafi sýnt hvaða fjárhæð hann ætti að greiða í vexti í erlendum myntum talið. Stefnandi hafi síðan greitt stefnda krónur miðað við gengi erlendu myntanna á greiðsludegi og fengið kvittun fyrir greiðslunni. Þar hafi komið fram hvernig greiðslu hans hafi m.a. verið ráðstafað til greiðslu vaxta. Stefndi hafi þannig sjálfur annast alla útreikninga og útbúið kvittanir vegna lánanna. Stefnda hafi því borið að áskilja sér rétt til frekari vaxtagreiðslna en hann hafi reiknað sér á sínum tíma ef hann hefur viljað geta gert kröfu um slíkt síðar meir. Hann hafi hins vegar engan slíkan áskilnað gert og við það sé hann bundinn.
Þá tekur stefnandi fram að í 18. gr. laga um vexti og verðtryggingu, eins og hún hafi hljóðað fyrir setningu laga nr. 151/2010 sem tóku gildi 29. des. 2010, segi að teldist samningur „um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu“ ógildur „og hafi endurgjald verið greitt ber kröfuhafa að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur þannig ranglega af honum haft“. Þar hafi einnig sagt að miða skyldi við vexti samkvæmt 4. gr. laganna „eftir því sem við getur átt“.
Stefnandi telur þessi fyrirmæli leiði til þess, að kröfuhafi sé bundinn við þá innheimtu vaxta sem hann hafi sjálfur reiknað út og gefið greiðslukvittun fyrir. Hann geti ekki vænst þess að geta krafið skuldara um vexti samkvæmt 4. gr. laganna komi síðar í ljós að þeir vextir, sem kröfuhafinn hafi reiknað út, hafi verið lægri. Heimildin til að heimta vexti samkvæmt 4. gr. geti ekki náð til þess. Breyti í því samhengi engu þótt kröfuhafi þurfi að endurgreiða skuldara oftekið endurgjald í formi útreiknaðra gengisbreytinga gjaldmiðla, enda hafi 18. gr. verið fortakslaus um að slíkt oftekið endurgjald bæri að endurgreiða. Almennar reglur kröfuréttarins leiði hér einnig til sömu niðurstöðu.
Þá telur stefnandi að lög nr. 151/2010 skipti engu fyrir úrlausn málsins, enda hafi öllum greiðslum stefnanda vegna lánanna verið lokið 30. apríl 2010 áður en lög nr. 151/2010 hafi tekið gildi. Þá geti lög nr. 151/2010 þar fyrir utan ekki vikið til hliðar þeim reglum sem hafi falist í 18. gr. laga um vexti og verðtryggingu og almennum reglum kröfuréttar. Með því væri brotið gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar. Hún feli m.a. í sér að með almennum lögum sé ekki unnt, að hrófla með afturvirkum hætti við réttarreglum um efni skuldbindinga og greiðslur skulda frá því sem hafi gilt þegar til þeirra hafi verið stofnað og af þeim hafi verið greitt. Í tilviki stefnanda hafi verið stofnað til lánanna á árinu 2006 og 2007 og síðustu greiðslur vegna þeirra hafi verið inntar af hendi í apríl 2010. Af þeim sökum verði ekki horft til laga nr. 151/2010 við úrlausn málsins.
Stefnandi reiknar út aðalkröfu sína með eftirfarandi hætti:
Lánið 25. október 2006, lánssamningur 5984. Stefnandi hafi greitt í heild sinni inn á höfuðstól þessa láns 78.789.906 krónur og hafi þeim greiðslum lokið 30. apríl 2010. Í því tilliti verði hins vegar að líta til þess, að hluti þess höfuðstóls hafi verið vaxtagreiðsla að fjárhæð 3.222.418 krónur sem hafi verið bætt við höfuðstól lánsins hinn 31. okt. 2007 samkvæmt sérstökum samningi þar að lútandi. Að þeirri fjárhæð frádreginni hafi höfuðstólsgreiðslur stefnanda verið 75.567.488 krónur.
Stefnandi líti svo á að óheimilt hafi verið að hækka höfuðstól lánsins með viðmiðun í erlendri mynt. Því hafi stefnda einungis verið heimilt að innheimta höfuðstólsgreiðslur að fjárhæð 50.035.000 krónur. Samkvæmt því hafi stefndi oftekið höfuðstólsgreiðslur umfram þá fjárhæð, eða 25.532.488 krónur. Stefnandi líti svo á að vaxtagreiðslur hans vegna lánsins fram til 30. apríl 2010 hafi falið í sér fullnaðaruppgjör á vöxtum til stefnda og skipti þær greiðslur engu fyrir útreikning kröfu hans.
Lánið 10. apríl 2007, lánasamningur 7570. Stefnandi hafi greitt í heild sinni inn á höfuðstól þessa láns 48.407.161 krónu og þeim greiðslum hafi lokið 30. apríl 2010. Höfuðstóll lánsins í íslenskum krónum hafi verið 27.700.000 krónur.
Stefnandi líti svo á að óheimilt hafi verið að hækka höfuðstól lánsins með viðmiðun í erlendri mynt. Því hafi stefndi oftekið mismun þessara fjárhæða eða sem svarar 20.707.161 krónu. Stefnandi líti svo á að vaxtagreiðslur hans fram til 30. apríl 2010 eða 2.848.739 krónur hafi falið í sér fullnaðaruppgjör á vöxtum til stefnda og skipti þær greiðslur engu fyrir útreikning kröfu hans.
Lánið 10. september 2007, lánssamningur 9310. Stefnandi hafi greitt í heild sinni inn á höfuðstól þessa láns 171.220.155 krónur og þeim greiðslum hafi lokið 30. apríl 2010. Höfuðstóll lánsins í íslenskum krónum hafi verið 101.500.000 krónur.
Stefnandi líti svo á að óheimilt hafi verið að hækka höfuðstól lánsins með viðmiðun í erlendri mynt. Því hafi stefndi oftekið mismun þessara fjárhæða eða sem svarar 69.720.155 krónum. Stefnandi líti svo á að vaxtagreiðslur hans fram til 30. apríl 2010 eða 21.201.753 krónur hafi falið í sér fullnaðaruppgjör á vöxtum til stefnda og skipti þær greiðslur engu fyrir útreikning kröfu hans.
Séu fjárhæðirnar hér að framan teknar saman, megi sjá að stefndi hafi oftekið samtals 115.959.804 krónur hinn 30. apríl 2010. Stefndi hafi hins vegar aðeins endurgreitt stefnanda 63.665.938 krónur og það ekki fyrr en 4. nóvember 2011. Dómkröfur stefnanda miðist þannig við að hann fái það greitt sem ofgreitt hafi verið að teknu tilliti til innborgunarinnar 4. nóvember 2011. Stefnandi byggir á því að hann eigi rétt til vaxta samkvæmt 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu, sem birtir séu samkvæmt 10. gr. laganna, af þeim fjárhæðum sem hann hafi ofgreitt. Miði stefnandi í því sambandi við almenna vexti óverðtryggðra útlána og byggist kröfugerð hans á því.
Hafni dómurinn aðalkröfunni gerir stefnandi varakröfu um endurgreiðslu á þeim fjármunum sem hann teljist hafa ofgreitt vegna lánsins 25. október 2006 miðað við að lánið hafi frá útborgun þess borið óverðtryggða útlánsvexti sem Seðlabanka Íslands hafi birt samkvæmt 10. gr. laga um vexti og verðtryggingu.
Stefnandi hafi reiknað út stöðu lánsins hinn 30. apríl 2004 þessu til samræmis. Útreikningurinn miðist við að vextir séu höfuðstólsfærðir árlega, í fyrsta skipti 25. október 2007 en þá hafi verið liðið ár frá útborgun lánsins. Greiðslum sé ráðstafað fyrst til greiðslu vaxta en svo inn á höfuðstól. Ekkert tillit sé tekið til tilkynningar- eða vanskilagjalds. Miðað sé við reglu 2. mgr. 12. gr. laga um vexti og verðtryggingu um að telja skuli 360 daga í hverju ári.
Niðurstaða útreikningsins sé sú að stefnandi hafi 30. apríl 2010 ofgreitt 16.954.244 krónur og geri hann varakröfu um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar. Krafan miðist svo við að stefnandi eigi rétt til vaxta samkvæmt 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu eins og þeir séu birtir samkvæmt 10. gr. laganna frá þeim degi.
Um lagarök vísar stefnandi einkum til laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, almennra reglna samningaréttar og kröfuréttar, og laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá vísar stefnandi til 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Kröfugerð stefnanda um dráttarvexti byggist á 4. mgr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu. Krafa stefnanda um málskostnað styðjist við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 1. mgr. 130. gr. Jafnframt er henni til stuðnings vísað til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
III
Stefndi krefst sýknu af dómkröfum stefnanda og byggir á eftirfarandi málsástæðum.
Í fyrsta lagi sé sýknukrafa stefnda byggð á því að lánssamningur vegna láns 5984 sé í erlendri mynt og sé því ekki um ólögmæta gengistryggingu að ræða. Beri því að hafna kröfum stefnanda sem rökstuddar séu með vísan til þessa lánssamnings en samkvæmt útreikningum stefnanda nemi sú fjárhæð 25.532.488 kr. af stefnufjárhæðinni.
Vísað sé til þess að tilgreint sé með skýrum hætti í samningnum að hann sé fjölmyntalán að öllu leyti í evrum. Í öðru lagi sé vísað til þess að vaxtaskuldbinding lántaka sé í LIBOR-vöxtum en ekki í REIBOR-vöxtum eða kjörvöxtum óverðtryggðra lána en hinir síðarnefndu vextir séu notaðir sem grunnur þegar lán sé veitt í íslenskum krónum. Í þriðja lagi sé vísað til þess að textinn í lánssamningnum beri að öðru leyti skýrt með sér að um erlent lán sé að ræða. Í því samhengi megi til viðbótar vísa til 4. gr. lánssamningsins um heimildir skuldara til að breyta myntsamsetningu skuldarinnar. Í fjórða lagi sé vísað til þess að stefndi hafi fengið lánið greitt í erlendri mynt inn á bankareikning sinn hjá TBIL að hans eigin ósk. Til að millifæra lánsfjárhæðina til stefnanda hafi LBI sent SWIFT-skeyti til Reiffeisen í Austurríki sem hafi verið viðskiptabanki TBIL og til Bank Austria sem hafi verið viðskiptabanki LBI í Austurríki. Í skeytinu til Bank Austria hafi komið fram að bankinn ætti að millifæra lánsfjárhæðina, 584.123,09 evrur, af reikningi LBI til Reiffeisen. Í skeytinu til Reiffeisen hafi svo komið fram að bankinn ætti að millifæra fjárhæðina frá Bank Austria til TBIL og merkja millifærsluna stefnanda svo að hann gæti fengið evrurnar inn á bankareikning sinn í Georgíu. Ekki fari því á milli mála að LBI hafi afhent stefnanda evrur þegar honum lánið hafi verið greitt lánið. Fullyrðingum stefnanda um að lánið hafi verið greitt út í íslenskum krónum sé harðlega mótmælt. Í fimmta lagi sé vísað til þess að afborganir af láninu hafi verið greiddar í erlendum myntum, sbr. afrit af greiðslukvittunum sem liggi fyrir í málinu. Skipti hér engu máli að reikningur stefnanda í íslenskum krónum hafi verið skuldfærður fyrir greiðslu afborgana. Í sjötta lagi sé á því byggt að allir viðaukar við lánssamninginn tilgreini höfuðstól og áfallna vexti eingöngu í evrum.
Stefnandi hafi síðan keypt erlenda mynt af stefnda við greiðslu afborgana og vaxta af láninu. Með því hafi stefnandi efnt skuldbindingu sína í hinni erlendu mynt, en ekki í íslenskum krónum. Tilgreining íslenskra króna á kvittuninni stafi alfarið af tengslum við bókhaldskerfi stefnda en allar færslur millilenda á reikningi sem tilgreindur sé í íslenskum krónum enda geri stefndi upp reikninga sína í íslenskum krónum. Sá reikningur sem skuldfærður sé þ.e. reikningur nr. 0106-38-710900 sé reikningur sem hafi verið í eigu stefnda sjálfs og er í evrum.
Stefndi byggir á því að Hæstiréttur Íslands hafi margsinnis staðfest að um erlent lán sé að ræða þegar lántaki fái andvirði lánssamnings greitt út í erlendum myntum. Stefndi telur því deginum ljósara að lánssamningur nr. 5984 sé lögmætt erlent lán í evrum.
Lánssamningar nr. 7570 og 9310 skeri sig frá lánssamningi nr. 5984 þar sem útgreiðsla lánsfjárhæða þeirra hafi farið fram í íslenskum krónum inn á reikning stefnanda hér á landi. Stefndi hafi af þeim sökum þegar viðurkennt að með lánssamninga nr. 7570 og 9310 skuli fara svo sem um íslenska lánssamninga hafi verið að ræða með gengisviðmiði sem fari í bága við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Málsástæður stefnda í þessum lið gildi því eingöngu að því er varði lán 5984. Aðrar málsástæður gildi um öll þrjú lánin en ættu þó að vera óþarfar að því er varði lán 5984 þar sem ekki geti komið til endurútreiknings á lögmætu erlendu láni.
Í öðru lagi er sýknukrafa stefnda byggð á því að honum sé heimilt að reikna vexti allt frá upphafi lánssamninganna samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Stefndi byggir á því að umsamin vaxtakjör af gengisbundnu láni hafi ekki getað komið til álita nema í tengslum við gengistryggingu þess. Bein og órjúfanleg tengsl séu á milli ákvæðis um gengistryggingu í samningi aðilanna og fyrirmæla um vexti. Vegna þessa sé óhjákvæmilegt að ógildi ákvæðisins um gengistryggingu leiði til þess að líta verði með öllu fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð. Í samningnum sé hins vegar ákveðið að skuldin beri vexti. Hæstiréttur hafi í slíkum tilvikum komist að þeirri niðurstöðu að um vexti skuli þá fara eftir 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001.
Í þriðja lagi sé sýknukrafa stefnda byggð á því að þegar lánssamningar af því tagi sem hér um ræði séu taldir fela í sér ólögmæta gengistryggingu hafa forsendur fyrir vaxtastigi lánanna brostið, sbr. reglur fjármunaréttar um rangar og brostnar forsendur. Þá sé á því byggt í þessu sambandi að það væri ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að leggja upphaflega samningsvexti til grundvallar í kröfuréttarsambandi aðila, sbr. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Samkvæmt því byggir stefndi á því að vaxtaákvæði lánssamninganna séu ógild og því beri að endurreikna lánssamningana miðað við þá forsendu að stefnanda hafi borið að greiða vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3 .gr. laga nr. 38/2001 frá upphafsdegi.
Í fjórða lagi sé sýknukrafa stefnda byggð á því að rangt sé að líta svo á að stefndi sé að krefja um viðbótarvexti og að sjónarmið um fullnaðarkvittanir komi í veg fyrir slíka viðbótarkröfu. Það tilvik sem hér sé til umfjöllunar feli ekkert slíkt í sér enda teljast lánssamningar nr. 5984, 7570 og 9310 að fullu greiddir og stefndi hafi ekki haft uppi neinar viðbótarkröfur á hendur stefnanda vegna þeirra. Hér sé það þvert á móti stefnandi eða lántakinn sem hafi uppi kröfur um endurgreiðslu fjár úr hendi stefnda sem lánveitanda. Dómar Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og 464/2012 þar sem niðurstaðan hafi oltið á því hvort sjónarmið um fullnaðarkvittanir ættu rétt á sér eða ekki, eigi því ekki við um það tilvik sem hér sé til úrlausnar.
Í fimmta lagi, telji dómurinn að ef varnir stefnda fela í sér kröfu um viðbótargreiðslu vegna vaxta fyrir liðna tíð, sé sýknukrafa stefnda byggð á meginreglu kröfuréttar um að kröfuhafi sem fengið hafi minna greitt en hann hafi átt rétt á eigi viðbótarkröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt sé. Stefndi byggir á því að túlka verði allar undantekningar frá þessari meginreglu þröngt, þar með talin sjónarmið um fullnaðarkvittanir.
Stefndi hafnar því með öllu að dómar Hæstaréttar Íslands frá 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011 og/eða 18. október 2012 í máli nr. 464/2012 hafi fordæmisgildi gagnvart lánssamningum nr. 5984, 7570 og 9310. Þeir hafi fjallað um langtímalán þar sem samið hafi verið um reglulegar afborganir, annars vegar til 30 ára í máli nr. 600/2011 og hins vegar til 20 ára í máli nr. 464/2012.
Telji dómurinn engu að síður að horfa beri til þessara dómafordæma byggir stefndi á því að undantekningarreglan sem dómarnir byggi á eigi ekki við í þessu máli. Til stuðnings þessu sé meðal annars vísað til eftirfarandi sjónarmiða:
a) Stefnandi hafi ekki getað verið í góðri trú um að greiðslur hans til LBI og síðar stefnda hafi falið í sér fullar og réttar efndir. Stefnandi geti ekki haldið því fram að hann hafi verið í góðri trú um að vaxtakjör lánanna væru óháð bindingu höfuðstóls þess við gengi gjaldmiðlanna.
b) Stefnanda hafi frá upphafi verið algerlega ljóst að hann hefði þurft að greiða umtalsvert hærri vexti ef um lán í íslenskum krónum hefði verið að ræða.
c) Þá hafi forsenda fyrir vaxtagreiðslum verið svo auðgreinanleg að stefnanda hlaut að hafa verið það ljóst að ekki hafi verið um fullnaðaruppgjör að ræða.
d) Aldrei hafi komist á festa í framkvæmd endurgreiðslu lánssamninganna. Fyrir hvern gjalddaga hafi LBI, og síðar stefndi, sent greiðslutilkynningar til stefnanda þar sem fram hafi komið fjárhæð afborgunar og gjaldfallinna vaxta. Í stað þess að greiða í samræmi við greiðslutilkynningarnar hafi stefnandi óskað eftir því að gerðir yrðu viðaukar við lánssamningana sem hafi falið í sér breytingar á skilmálum svo sem á gjalddögum og vöxtum.
e) Ekki hafi verið til staðar aðstöðumunur við lántökurnar. Stefnandi sé lögfræðingur að mennt og einn eigenda og framkvæmdastjóri alþjóðlegs félags, Creditinfo Group hf. Félag þetta sérhæfi sig í miðlun fjárhags- og viðskiptaupplýsinga, starfi í 11 löndum og hafi um 200 starfsmenn.
f) Þá sé ekki undir neinum kringumstæðum hægt að leggja til grundvallar að skuldbindingar stefnanda vegna ætlaðrar ólögmætrar gengistryggingar geti haft í för með sér röskun á fjárhagslegri stöðu.
Af framangreindu sé ljóst að ekkert skilyrði undantekningarreglunar um fullnaðargildi kvittana eigi við í máli þessu.
Stefndi mótmælir því sem komi fram í stefnu að stefnda hafi borið að áskilja sér rétt til frekari vaxtagreiðslna en hann hafi reiknað sér á sínum tíma ef hann vildi geta gert kröfu um slíkt síðar meir.
Í sjötta lagi sé sýknukrafa stefnda byggð á því að stefnandi eigi ekki endurkröfurétt á hendur stefnda þar sem fullnaðaruppgjör hafi þegar farið fram. Það sé meginregla í kröfurétti að skuldari sem greitt hafi kröfuhafa hærri fjárhæð en honum hafi borið eigi endurkröfu á hendur kröfuhafanum um mismuninn þar á. Þá hafi verið kveðið á um það í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, þar til henni hafi verið breytt með lögum nr. 151/2010, að ef samningur um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti teldist ógildur og hefði endurgjald verið greitt bæri kröfuhafa að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefði þannig ranglega af honum haft. Við ákvörðun endurgreiðslu skyldi miða við vexti skv. 4. gr., eftir því sem við gæti átt. Eftir að lögum nr. 38/2001 hafi verið breytt með lögum nr. 151/2010 sé mælt fyrir um það í 5. mgr. 18. gr. að kröfuhafa beri að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hafi ranglega af honum haft vegna ólögmætra vaxta og/eða verðtryggingar.
Það sé vitaskuld forsenda þess að stefnandi geti átt endurkröfu á hendur stefnda á grundvelli reglna um rétt til endurgreiðslu ofgreidds fjár, eða ákvæðis 18. gr. laga nr. 38/2001, að stefnandi hafi greitt meira en honum hafi borið að gera. Ljóst sé af dómum Hæstaréttar í málum nr. 471/2010 og 604/2010 að leggja verði til grundvallar að stefnanda beri að greiða óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands, sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 af lánssamningum nr. 5984, 7570 og 9310. Ljóst sé að fjárhæð Seðlabankavaxta sem reiknaðir séu samkvæmt framansögðu sé hærri en fjárhæð þeirra vaxta sem samið hafi verið um í samningum nr. 5984, 7570 og 9310. Þar sem fjárhæð þeirra vaxta sem tilgreindir séu í lánssamningunum sé lægri en fjárhæð þeirra vaxta sem nota eigi í stað þeirra samkvæmt framansögðu sé ekki hægt að halda því fram að stefnandi hafi greitt hærri fjárhæð í vexti en honum hafi borið. Reglur um endurgreiðslu ofgreidds fjár og sérákvæði laga nr. 38/2001 eigi því ekki við, enda ekki um ofgreiðslu vaxta að ræða. Sjónarmið um fullnaðargreiðslu hafi ekkert vægi í þessu sambandi svo sem áður hafi verið rökstutt.
Með vísan til framangreinds verði að sýkna stefnda af kröfum stefnanda og dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu, sbr. ákvæði XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Til vara er gerð krafa um stórkostlega lækkun dómkrafna. Til stuðnings varakröfu sinni byggir stefndi á sömu málsástæðum og hér að framan.
Að því er varði aðalkröfu stefnanda byggir stefndi á því að lækka beri hana í samræmi við eftirfarandi forsendur.
Stefndi byggir varakröfu sína varðandi lánssamning nr. 7570 sérstaklega á því að stefnandi eigi aðeins fullnaðarkvittanir vegna þess láns fram til 27. mars 2009 en á þeim degi hafi stefnandi síðast greitt af láninu. Hinn 6. apríl 2010 hafi vextir verið lagðir við höfuðstól lánsins og byggir stefndi á því að slíkt jafngildi ekki greiðslu úr hendi stefnanda og geti sjónarmið um fullnaðarkvittanir ekki staðið í vegi fyrir leiðréttingu á slíkri færslu. Við útreikning á þeirri fjárhæð sem hafi bæst við höfuðstól lánsins miði stefndi við sölugengi stefnda á þeim degi sem færslan hafi farið fram, sbr. inngangsákvæði lánssamningsins sem kveði á um að greiði lántaki afborganir, vexti og dráttarvexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krónum skuli hann greiða samkvæmt sölugengi bankans á gjalddaga. Krafa stefnanda miðað við þessar forsendur geti aldrei orðið hærri en 15.783.503 kr. Telji dómurinn að stefndi eigi rétt til endurreiknings allt til uppgreiðslu lánsins hinn 30. apríl 2010 sé þess krafist að krafa stefnanda vegna þessa lánssamnings verði aldrei hærri en 16.713.865 kr., þar sem leiðrétt hafi verið vegna greiðslu sem stefnandi hafi ranglega talið sem afborgun af höfuðstól.
Stefndi byggir sérstaklega á því varðandi lánssamning nr. 9310 að greiðslur vaxta séu ranglega færðar sem afborganir af höfuðstól í stefnu. Ef leiðrétt sé fyrir þessum færslum geti krafa stefnanda vegna þessa lánssamnings aldrei orðið hærri en 57.425.841kr.
Stefndi byggir einnig sérstaklega á því varðandi lánssamning nr. 5984 að greiðslur vaxta séu ranglega færðar sem afborganir af höfuðstól í stefnu. Ef leiðrétt er fyrir þessum færslum geti krafa stefnanda vegna þessa lánssamnings aldrei orðið hærri en 23.145.894 kr.
Að því er varði varakröfu stefnanda byggir stefndi á því að lækka beri hana í samræmi við niðurstöður stefnda sem fram komi í C-lið í dskj. nr. 55.
Stefndi mótmælir kröfu stefnanda um dráttarvexti frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi. Þessu til stuðnings sé vísað til 18. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu þar sem kveðið sé á um að nota skuli vexti skv. 1. málsl. 4. gr. laganna við endurreikning lánssamninga. Hér sé um að ræða sérákvæði sem gangi framar almennu ákvæði 5. gr. sömu laga.
Um lagarök vegna sýknukröfu vísast til ákvæða laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og reglna fjármunaréttar um rangar og brostnar forsendur. Krafan um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, að teknu tilliti til virðisaukaskatts í samræmi við lög nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
IV
Í máli þessu heldur stefnandi því fram að hann hafi ofgreitt stefnda hina umstefndu fjárhæð vegna þriggja lánssamninga sem stefndi og Landsbanki Íslands hf. gerðu sín á milli 25. október 2006, 10. apríl 2007 og 10. september 2007. Kröfur sínar byggir stefnandi á því að samningarnir séu ólögmæt gengistryggð lán. Því krefst stefnandi þess að stefndi greiði honum það sem ofgreitt var. Stefndi hafnar rökum stefnanda. Mótmælir hann því að í fyrsta lánssamningnum sé um ólögmætt gengistryggt lán að ræða. Stefndi viðurkennir að hinir tveir samningarnir hafi verið ólögmætir og hefur stefndi endurgreitt stefnanda það sem stefndi telur að stefnandi hafi ofgreitt.
Eins og að framan greinir tók stefnandi fyrsta umdeilda lánið hinn 25. október 2006 þ.e. lánssamning 5984. Ágreiningur er með málsaðilum um það hvort hér sé um lögmætt erlent lán að ræða eða ólögmætt gengistryggt lán. Við skoðun á samningnum er í fyrsta lagi litið til þess að um er að ræða fjölmyntalán til eins árs að jafnvirði 50.000.000 kr. að öllu leyti í evrum. Í öðru lagi er lánið greitt út í evrum. Það má ráða af því að í beiðni um útborgun á lánssamningnum fór stefnandi fram á að lánið yrði greitt inn á erlendan bankareikning í hans eigu. Þessu til staðfestingar liggur fyrir kvittun frá stefnda um erlenda millifærslu þar sem stefndi millifærir evrur af eigin bankareikningi yfir á hinn erlenda bankareikning stefnanda. Því er hafnað að nefnd kvittun sé fyrir kaupum stefnanda á gjaldeyri svo sem stefnandi heldur fram. Í þriðja lagi ber texti samningsins það einnig með sér að um erlent lán sé að ræða. Í fjórða lagi er vaxtaskuldbindingin í LIBOR-vöxtum. Í fimmta lagi greiddi stefnandi af láninu í evrum en gögn málsins bera það með sér að hann keypti evrur af stefnda til að standa við skuldbindingar sínar. Í sjötta lagi tilgreina viðaukar við lánssamninginn höfuðstól og vexti í evrum. Þegar allt framangreint er virt verður lagt til grundvallar að hér hafi verið tekið gilt lán í evrum. Af því leiðir að hafnað er kröfu um endurgreiðslu vegna þessa láns.
Stefndi hefur viðurkennt að lánssamningur dags. 10. apríl 2007, þ.e. lánssamningur 7570 og lánssamningur dags. 10. september 2007, þ.e. lánssamningur 9310 hafi verið ólögmætir. Þar fór útborgun lánsfjárhæðarinnar fram í íslenskum krónum inn á reikning stefnanda hér á landi. Stefndi hefur viðurkennt að um nefnda lánssamninga skuli fara svo sem um íslenska lánssamninga hafi verið að ræða með gengisviðmiði sem fari í bága við 13. gr. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Stefndi hefur þegar endurútreiknað nefnda lánssamninga og endurgreitt stefnanda samtals 63.665.938 kr., sem gert var 4. nóvember 2011. Stefndi er bundinn af endurreikningi þessum og leggur hann það til grundvallar í málatilbúnaði sínum.
Málsástæður stefnanda ber helst að skilja svo, að stefnandi telji sig ekki þurfa að greiða þá vexti er lagðir voru til grundvallar í endurútreikningi stefnda. Þegar lánin voru í innheimtu hjá stefnda hafi hann reiknað út afborganir og vexti og sé stefndi bundinn við þann útreikning, enda hafi hann ekki áskilið sér rétt til frekari vaxtagreiðslna en þeirra sem hann hafi reiknað sér á sínum tíma. Þá telur stefnandi að ákvæði 18. gr. laga um vexti og verðtryggingu eins og það hljóðaði fyrir setningu laga 151/2010 leiði til þess að kröfuhafi sé bundinn við þá innheimtu vaxta sem hann hafi sjálfur reiknað út og gefið fullnaðarkvittun fyrir.
Í forsendum dóms Hæstaréttar 16. september 2010 í máli nr. 471/2010 kom meðal annars fram að umsamin vaxtakjör af gengisbundnu láni hefðu ekki getað komið til álita nema í tengslum við gengistryggingu þess, sem fyrir lægi að óheimilt hefði verið að kveða á um. Þegar virt væri að ákvæðið um gengistryggingu í samningi aðilanna væri ógilt og bein og órjúfanleg tengsl væru milli þess ákvæðis og fyrirmæla þar um vexti, væri hvorki unnt að styðjast við þau fyrirmæli óbreytt eftir orðanna hljóðan né gefa þeim með skýringu annað inntak, enda lægi fyrir í málinu að á millibankamarkaði í London hefðu aldrei verið skráðir LIBOR-vextir af lánum í íslenskum krónum. Vegna þessa væri óhjákvæmilegt að ógildi ákvæðisins um gengistryggingu leiddi til þess að líta yrði með öllu fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð. Í samningnum væri hins vegar ákveðið að skuldin bæri vexti. Var komist að þeirri niðurstöðu að um þá skyldi fara eftir 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001.
Ekki liggur annað fyrir í málinu en að stefndi hafi við endurútreikning hinna ólögmætu lána lagt til grundvallar dómafordæmi Hæstaréttar Íslands og reiknað sér vexti allt frá upphafi lánssamninganna samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001. Skiptir hér engu þótt endurútreikningurinn hafi farið fram fyrir gildistöku laga nr. 151/2010.
Við aðalmeðferð málsins mótmælti lögmaður stefnda sem nýrri málsástæðu því er fram kom hjá lögmanni stefnanda, að 13. gr. vaxtalaga leggi höfuðáherslu á með hvaða hætti skuldbinding skuldara sé orðuð. Hann telur þessa málsástæðu of seint fram komna þar sem hennar sé ekki getið í stefnu. Þá telur lögmaðurinn málsástæðuna haldlausa. Hér er um lagarök að ræða. Með vísan til þess sem að framan greinir er sjónarmiðum stefnanda hafnað.
Málsgrundvöllur stefnanda er ekki byggður á því að endurútreikningur stefnda á hinum umdeildu lánum sé rangur. Þá stóð stefndi stefnanda skil á hinni ofgreiddu fjárhæð hinn 4. nóvember 2011. Með vísan til þess sem að framan greinir er það niðurstaða dómsins að stefnandi eigi ekki frekari kröfur á hendur stefnda vegna lánssamninga þeirra er gerðir voru 25. október 2006, 10. apríl 2007 og 10. september 2007. Stefndi er því sýknaður af aðalkröfu og varakröfu stefnanda í málinu.
Eftir þessari niðurstöðu og með vísan til 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað svo sem greinir í dómsorði.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
DÓMSORÐ
Stefndi, Landsbankinn hf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Reynis Finndals Grétarssonar.
Stefnandi, Reynir Finndal Grétarsson, greiði stefnda, Landsbankanum hf., 800.000 kr.