Hæstiréttur íslands
Mál nr. 314/2001
Lykilorð
- Stjórnsýsla
- Grunnskóli
- Ráðningarsamningur
|
|
Fimmtudaginn 31. janúar 2002. |
|
Nr. 314/2001. |
Jóhann S. Stefánsson(Guðni Á. Haraldsson hrl.) gegn Siglufjarðarkaupstað (Kristján Þorbergsson hrl.) |
Stjórnsýsla. Grunnskólar. Ráðning.
J var einn þriggja umsækjenda um stöðu aðstoðarskólastjóra grunnskóla S. J var ekki ráðinn í stöðuna og taldi að ekki hefði verið farið að stjórnsýslulögum við ráðninguna og umsókn hans hefði ekki fengið þá faglegu umfjöllun sem hann hafi átt rétt á samkvæmt ákvæðum laga nr. 48/1986 um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara o.fl. Krafðist hann skaðabóta vegna þessa. Samkvæmt grunnskólalögum skyldi sveitarstjórn ráða aðstoðarskólastjóra að fenginni tillögu skólastjóra. Skyldi við ráðninguna gæta ákvæða fyrrnefndra laga nr. 48/1986. Hafði skólastjóri lagt tillögu um ráðninguna, fyrir skóla- og menningarnefnd, og rakið ítarlegar ástæður fyrir því vali. Samþykkti nefndin tillögu skólastjórans og bæjarráð og bæjarstjórn einnig, og var því gengið frá ráðningu þess umsækjanda sem skólastjóri mælti með. Talið var að samkvæmt grunnskólalögum mætti aðeins ráða þann sem fullnægði skilyrðum laga nr. 48/1986. Þá var talið ljóst að mikilvægt væri að skólastjóri og aðstoðarskólastjóri gætu unnið saman og þótti því eðlilegt að skólastjóri hefði lagt til að sá umsækjandi yrði ráðinn, sem væri að öðrum skilyrðum uppfylltum líklegastur til að ná bestum árangri í stjórnun skólans í samvinnu við hann sjálfan. Þótti ekki hafa verið sýnt fram á að ómálefnaleg sjónarmið hefðu legið að baki tillögu skólastjóra eða haft áhrif á afgreiðslu skóla- og menningarnefndar og að lokum bæjarráðs og bæjarstjórnar. Var þó fallist á að umfjöllun nefndarinnar hefði átt að vera vandaðri. Var S sýknaður af bótakröfum J.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 23. ágúst 2001. Hann krefst þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 8.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 26. september 2000 til 1. júlí 2001, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Málavextir eru raktir í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram var áfrýjandi einn þriggja umsækjenda um stöðu aðstoðarskólastjóra grunnskóla Siglufjarðar, sem auglýst var laus til umsóknar í maí 1998. Áfrýjandi var ekki ráðinn í stöðuna og heldur hann því fram, að um ráðninguna hafi ekki verið farið að stjórnsýslulögum og að umsókn hans hafi ekki fengið þá faglegu umfjöllun, sem hann átti rétt á samkvæmt ákvæðum laga nr. 48/1986 um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra, sbr. nú lög nr. 86/1998. Telur hann sig hafa orðið fyrir tjóni vegna þessa, sem hann eigi rétt á að fá bætt úr hendi stefnda.
II.
Fallist er á með héraðsdómi, að atvik máls þessa hafi átt sér stað í gildistíð eldri sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986, en lög nr. 45/1998 tóku gildi 10. júlí 1998. Í 3. mgr. 57. gr. laga nr. 8/1986 segir, að sveitarstjórn kjósi nefndir til að fara með einstaka málaflokka á kjörtímabilinu, sbr. 5. mgr. 40. gr. laga nr. 45/1998, og ákveði valdsvið þeirra, sbr. 44. gr.
Í 12. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla segir, að skólanefnd skuli vera í hverju skólahverfi, sem fari með málefni grunnskóla eftir því sem lög og reglugerðir ákveða og sveitarstjórn kunni að fela henni. Í samþykkt um stjórn Siglufjarðarkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar segir í 62. gr. B, 2, að bæjarstjórn kjósi skóla- og menningarnefnd, sem fari með málefni grunnskóla.
Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. laga nr. 66/1995 skal sveitarstjórn ráða aðstoðarskólastjóra að fenginni tilllögu skólastjóra, en aðstoðarskólastjóri er staðgengill skólastjóra. Samkvæmt 4. mgr. sömu greinar skal gæta ákvæða gildandi laga um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara og skólastjóra við ráðninguna. Í 66. og 67. gr. fyrrgreindra samþykkta kemur fram, að bæjarstjórn ræður fasta starfsmenn í helstu stjórnunarstöður en bæjarráð ræður aðra fasta starfsmenn.
Eins og fram kemur í héraðsdómi lagði skólastjóri tillögu um ráðninguna fyrir skóla- og menningarnefnd, sem féllst á hana og lagði fyrir bæjarráð, sem einnig féllst á tillögu nefndarinnar 16. júní 1998, en bæjarráð starfaði í umboði bæjarstjórnar, sem ekki hélt reglulega fundi að sumarlagi. Fundargerð bæjarráðs var síðan staðfest í bæjarstjórn 10. september 1998.
III.
Skóla- og menningarnefnd Siglufjarðar fól skólastjóra grunnskólans að kanna hæfni umsækjenda um stöðu aðstoðarskólastjóra. Í umsögn hans til skóla- og menningarnefndar kom fram, að þrjár umsóknir hefðu borist um stöðuna, frá starfandi aðstoðarskólastjóra og forstöðumanni skólaskrifstofu Siglufjarðar, auk áfrýjanda, sem var að láta af störfum sem skólastjóri grunnskólans á Hofsósi. Í umsögninni sagði skólastjóri, að hann þekkti vel til verka þeirra fyrrnefndu, en hann hafi kannað feril áfrýjanda, og eftir þá könnun hafi valið staðið milli hinna. Lagði hann til, að forstöðumaður skólaskrifstofu yrði ráðinn og rakti ítarlega ástæður fyrir því vali. Engin grein var gerð fyrir því í mati skólastjóra, að áfrýjandi kæmi ekki til greina. Hins vegar er fram komið, að skólastjórinn leitaði umsagnar fyrrverandi samstarfsmanna áfrýjanda á Hofsósi, bæði yfirmanna sveitarfélagsins, kennara við skólann og annarra, sem komu að skólamálum í sveitarfélaginu, auk þess sem hann ræddi við áfrýjanda sjálfan. Hann taldi alla umsækjendur uppfylla skilyrði um menntun og starfsreynslu, en það sem réði úrslitum um tillögu hans um ráðningu í stöðuna væri mat á starfshæfni umsækjenda, það er hæfni í persónulegum samskiptum og stjórnun, sem væru veigamiklir þættir í starfi aðstoðarskólastjóra.
Skólastjórinn kom á fund skóla- og menningarnefndar 15. júní 1998, þar sem ráðning aðstoðarskólastjóra var tekin fyrir. Umsóknir allra umsækjenda og fylgigögn þeirra lágu fyrir fundinum. Skólastjórinn kynnti umsækjendur og gerði grein fyrir tillögu sinni, en ekki verður séð, að um ítarlegan samanburð á umsækjendum hafi verið ræða. Samkvæmt því, sem fram hefur komið, voru engar ávirðingar bornar á áfrýjanda og starfslok hans á Hofsósi bar ekki á góma. Á þessum fundi var sú ákvörðun tekin að fara að tillögu skólastjóra. Bæjarráð, í umboði bæjarstjórnar, samþykkti síðan tillögu skóla- og menningarnefndar 16. júní 1998, án þess að nokkur umræða færi fram um hana.
Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. laga nr. 66/1995 skal sveitarstjórn ráða aðstoðarskólastjóra að fenginni tillögu skólastjóra. Aðeins mátti ráða þann, sem fullnægði skilyrðum laga nr. 48/1986. Þótt tillaga skólastjóra hafi hvorki verið bindandi fyrir skóla- og menningarnefnd Siglufjarðar né bæjarráð í umboði bæjarstjórnar sem veitingarvaldshafa hlýtur hún að hafa haft mikil áhrif á niðurstöðuna. Aðstoðarskólastjóri er staðgengill skólastjóra og því mikilvægt, að þeir geti unnið vel saman. Var því eðlilegt, að skólastjóri legði til að sá umsækjandi yrði ráðinn, sem væri að öðrum skilyrðum uppfylltum líklegastur til að ná bestum árangri í stjórnun skólans í samvinnu við hann sjálfan. Hefur ekki verið sýnt fram á, að ómálefnaleg sjónarmið hafi legið að baki tillögu skólastjóra eða haft áhrif á afgreiðslu skóla- og menningarnefndar og að lokum bæjarráðs og bæjarstjórnar. Þótt fallast megi á, að umfjöllun nefndarinnar hefði átt að vera vandaðri getur það ekki, eins og hér háttar til, leitt til bótaskyldu stefnda gagnvart áfrýjanda. Ber þannig að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms.
Rétt þykir, að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 22. júní 2001.
I.
Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum flutningi 7. maí sl., er höfðað af Jóhanni Stefánssyni, kt. 190250-4079, Kleppsvegi 32, Reykjavík á hendur Siglufjarðarkaupstað kt. 560269-1969, Gránugötu 24, Siglufirði með stefnu áritaðri um birtingu 14. september 2000. Málið var þingfest 26. september 2000.
Dómkröfur stefnanda.
Stefnandi krefst þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 8.000.000 króna með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þingfestingardegi til greiðsludags. Jafnframt krefst stefnandi þess að stefndi greiði honum málskostnað samkvæmt gjaldskrá Löggarðs ehf. Við munnlegan flutning málsins krafðist stefnandi þess að virðisaukaskattur yrði lagður á málflutningsþóknun.
Dómkröfur stefnda.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda. Til vara krefst hann þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að þá verði dráttarvextir ekki dæmdir fyrr en frá dómsuppsögu. Í báðum tilfellum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
II.
Málavextir.
Í maímánuði 1998 auglýsti stefndi starf aðstoðarskólastjóra við Grunnskóla Siglufjarðar laust til umsóknar. Þrír sóttu um starfið og var stefnandi á meðal umsækjenda. Stefndi kveðst, í samræmi við ákvæði 2. mgr. 23. gr. grunnskólalaga, hafa falið skólastjóra að fara yfir umsóknirnar og meta hæfi umsækjenda og gera tillögu um hvern hann teldi best til þess fallinn að gegna starfinu. Strax hafi orðið ljóst að allir umsækjendur voru hæfir til að gegna starfinu þegar horft var til menntunar og starfsferils.
Stefnandi var á meðal umsækjenda og fylgdu umsókn hans gögn um starfsferil ásamt upplýsingum um námskeið er hann hafði sótt að námi loknu. Stefnandi útskrifaðist sem kennari frá Kennaraskóla Íslands 1971. Hann öðlaðist réttindi til að nota starfsheitið grunnskólakennari 1989 og starfsheitið framhaldsskólakennari árið 1992. Á árinu 1980 lauk hann BA prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Þá lauk hann námskeiði í kennslufræðum frá sama skóla 1982 og í námsráðgjöf 1992. Auk þessa hefur hann sótt ýmis önnur námskeið.
Frá árinu 1972 til 1975 starfaði stefnandi sem grunnskólakennari en næstu tvö ár þar á eftir stundaði hann nám og sinnti forfallakennslu með því. Frá árinu 1978 til 1987 starfaði hann við Snælandsskóla í Kópavogi. Veturinn 1990 til 1991 starfaði hann sem grunnskólakennari. Árið þar á eftir var hann við nám í námsráðgjöf. Næstu 6 ár var hann skólastjóri við grunnskólann á Sólgörðum í Fljótum í Skagafirði og síðan í tvö ár þar á eftir sem skólastjóri Grunnskólans á Hofsósi. Í dag kennir hann við Engjaskóla í Grafarvogi og sinnir námsráðgjöf við sama skóla í hálfu starfi.
Stefndi kveðst hafa falið skólastjóra grunnskólans á Siglufirði, í samræmi við ákvæði laga um grunnskóla, að gera tillögu til Skóla- og menningarnefndar um hvern umsækjanda hann teldi best fallinn til að gegna starfinu. Á fundi Skóla- og menningarnefndar gaf skólastjórinn nefndinni og bæjarstjóra umsögn um umsækjendurna. Í umsögn skólastjórans sem liggur frammi í málinu kemur fram að hann þekki vel til verka tveggja umsækjenda og að hann hafi kannað feril stefnanda og eftir þá könnun hafi valið staðið milli hinna tveggja. Síðan kemur rökstuðningur skólastjórans fyrir þeirri ákvörðun hans að mæla með Jónínu Magnúsdóttur í starfið. Stefnandi mun hafa gengið eftir skýringum á því hvers vegna var ekki mælt með honum. Í bréfi Eyjólfs Sturlaugssonar, skólastjóra til stefnanda dagsettu 5. júní 1998 segir m.a. svo ,,Hér með staðfestist að ,,brottvikning" Jóhanns Stefánssonar úr stöðu skólastjóra á Hofsósi hafði mikil áhrif á það að skólastjóri mælir ekki með honum í stöðu aðstoðarskólastjóra við Grunnskóla Siglufjarðar." Í bréfinu er rakið að stefnandi hafi menntun og starfsreynslu til að gegna stöðunni. Einnig kemur fram að skólastjórinn hafi átt viðtal við ,,málsmetandi menn á Hofsósi" og þá greinilega komið fram að stefnanda hafi verið gefinn kostur á að hætta, eða með öðrum orðum verið látinn víkja úr skólastjórastöðu sinni. Af hálfu stefnanda er því lýst að hann hafi ekki óskað eftir þessari staðfestingu frá skólastjóra Gunnskólans á Siglufirði vegna starfslokasamnings sem hann var að gera vegna þess að hann var að láta af störfum á Hofsósi eins og stefndi heldur fram. Stefndi kveður stefnanda hafa átt viðtal við skólastjóra þar sem honum var tjáð að umsagnir sem aflað var frá Hofsósi hafi ekki verið nægilega góðar og hafi stefnandi fengið tækifæri á að rétta sinn hlut. Í framhaldi af því lagði hann fram vottorð frá tilgreindum starfsmönnum við grunnskólann á Hofsósi þar sem fram kemur að starfsandi hafi verið með eðlilegum hætti og engin stór ágreiningsmál komið upp meðan stefnandi var skólastjóri.
Á fundi í Skóla- og menningarnefnd Siglufjarðar sem haldinn var 15. júní 1998 var ráðning aðstoðarskólastjóra tekin fyrir og lagði nefndin til að Jónína Magnúsdóttir yrði ráðin í stöðuna. Á fundi bæjarráðs daginn eftir var samþykkt að fara að tillögu nefndarinnar. Þann 24. júlí var gengið frá ráðningarsamningi við Jónínu Magnúsdóttur í starf aðstoðarskólastjóra og var sú ráðning staðfest af bæjarstjórn á fyrsta fundi hennar eftir sumarleyfi þann 10. september 1998.Þann 18. júní 1998 óskaði stefnandi eftir skýringum á því hvers vegna hann var ekki boðaður til viðtals vegna umsóknar sinnar, hver umsækjenda hafi haft mesta menntun, hver umsækjenda hafi haft mesta starfsreynslu og hvort honum hafi verið hafnað vegna rógs. Þessu bréfi svaraði formaður Skóla- og menningarnefndar. Í því bréfi er bent á ákvæði 2. mgr. 23. gr. grunnskólalaga. Þá gerir formaður nefndarinnar grein fyrir því að það sé túlkun nefndarinnar að val á aðstoðarskólastjóra sé í höndum skólastjóra en ekki nefndarinnar og staðfesting nefndarinnar á vali skólastjóra sé því í raun formsatriði. Í bréfinu er því hafnað að rógur hafi valdið því að stefnandi varð ekki fyrir valinu.
Stefnandi áskildi sér með bréfi dagsettu 25. febrúar 1999 rétt til skaðabóta úr hendi stefnda og þann sama dag kærði hann málið til Umboðsmanns Alþingis. Umboðsmaður taldi málið eiga undir félagsmálaráðuneyti og var ráðuneytinu send kæra þann 10. ágúst 1999.
Félagsmálaráðuneyti kvað upp úrskurð í málinu þann 20. janúar 2000. Í úrskurðinum kemur fram að stefndi hafi ekki gætt rannsóknarskyldu sem á honum hvílir samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þegar ákvörðun var tekin um ráðningu í stöðu aðstoðarskólastjóra.
III.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir kröfu sína á því að, samkvæmt 2. mgr. 23. gr. grunnskólalaga nr. 66/1995 sé það sveitarstjórn sem ráða eigi aðstoðarskólastjóra. Það sé því ekki formsatriði að staðfesta ráðningu á vettvangi sveitarstjórnar eins og fram komi í bréfi formanns Skólanefndar. Sveitarstjórn beri að fjalla efnislega um allar umsóknir.
Í máli þessu liggi fyrir að sveitarstjórn fjallaði ekki faglega um umsóknirnar heldur studdist við álit skólastjóra og Skólanefndar. Það verði ekki séð að sveitarstjórn hafi metið sjálfstætt menntun, starfsreynslu, kennsluferil eða stjórnunarreynslu stefnanda eins og henni ber skv. 3. mgr. 7. gr. laga 86/1988, sbr. 3. gr. 8. gr. s.l. Í umsögn skólastjóra um umsækjendur sé ekki að finna neina umfjöllun um þessa þætti hvað stefnanda varðar en svo virðist sem skólastjóri hafi frá upphafi útilokað stefnanda frá starfinu. Af þessu megi ráða að Skólanefnd og síðar sveitarstjórn fjölluðu ekki á faglegan háttu um hæfni stefnanda til starfans. Þá segir stefnandi að sú staðreynd að hann hafi ekki verið boðaður til viðtals vegna umsóknar hans beri vott um óvandaða stjórnsýsluhætti og leiði til þess að umsækjendur sátu ekki allir við sama borð. Þá kveður stefnandi að af greinargerð stefnda til félagsmálaráðuneytisins megi ráða að ekki hafi verið tekið tillit til fyrrnefndra þátta heldur hafi mat á persónulegum eiginleikum stefnanda ráðið úrslitum. Þetta teljist brot á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Í annan stað byggir stefnandi á því að skólastjóri hafi bréflega þann 5. júní 1998 staðfest að ,,brottvikning" stefnanda úr starfi skólastjóra á Hofsósi hafi haft mikil áhrif á það að skólastjórinn mælti ekki með honum í starfið. Í sama bréfi komi fram að skólastjóri hafi haft upplýsingar um að kennarar við Grunnskólann á Hofsósi hafi ekki allir verið ,,hressir með störf hans." Þessar ástæður leiddu til þess að skólastjórinn gat ekki mælt með stefnanda í starfið. Þá liggur og fyrir að Skólanefnd og sveitarstjórn tóku þessa umsögn skólastjóra gagnrýnislaust gilda og könnuðu þessi atriði ekki sjálfstætt. Stefnandi heldur því fram að sveitarstjórn hafi borið að kanna hvort þessar ávirðingar í garð stefnanda voru réttar. Áður en slík könnun hafði farið fram gat sveitarstjórn ekki tekið faglega afstöðu til umsóknar stefnanda. Með þessu var brotinn réttur á stefnanda sem hann á samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga.
Í þriðja lagi reisir stefnandi kröfur sínar á því að Sveitarstjórn, skólastjóri og skólanefnd hafi við umfjöllun á umsókn hans lagt til grundvallar sögusagnir og órökstuddar ávirðingar í garð stefnanda. Hann hafi átt rétt á að fá um þetta upplýsingar og gæta réttar síns áður en ákvörðun um ráðningu aðstoðarskólastjóra var tekin. Með því að veita honum ekki andmælarétt samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga hafi verið brotinn á honum réttur. Í þessu sambandi vísar stefnandi sérstaklega til niðurstöðu Hæstaréttar Íslands, H. 1997:1544. Þá bendir stefnandi á að í starfslokasamningi sem hann gerði við Hofshrepp 29. maí 1998 sé staðfest að staða Grunnskólans á Hofsósi hafi almennt verið góð í náms- og félagslegu tilliti og verið að styrkjast undir stjórn hans.
Í fjórða lagi byggir stefnandi á því að hann hafi haft meiri menntun og stjórnunarreynslu en hinir tveir umsækjendurnir. Hann hafi haft flekklausan feril sem kennari og skólastjóri. Af þessum sökum hafi hann átt að ganga fyrir við veitingu stöðunnar sbr. lög 48/1996 sbr. lög 86/1998 um lögverndun á starfsheiti kennara og skólastjórnenda o.fl. Í þessu sambandi vísar stefnandi að öðru leyti til 1. gr. stjórnsýslulaga.
Við munnlegan flutning málsins féll stefnandi frá þeirri málsástæðu að þátttaka Eyjólfs Sturlaugssonar skólastjóra í afgreiðslu Skólanefndar hinn 15. júní 1998 stangist á við meginreglu stjórnsýslulaga um vanhæfi.
Hvað bótakröfu sína varðar vísar stefnandi til almennra reglna skaðabótaréttarins. Hin ólögmæta ákvörðunartaka við afgreiðslu umsóknar hans hafi valdið honum tjóni sem hann eigi rétt á að fá bætt. Hann hefði fengið mun hærri laun en hann nú hefur ef hann hefði fengið starfið. Samkvæmt útreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar, tryggingafræðings frá 25. ágúst 2000 sé mismunur á núverandi launum stefnanda og aðstoðarskólastjóra Grunnskóla Siglufjarðar til 67 ára aldur stefnanda, að viðbættu lífeyrisframlagi 6.642.226 krónur. Mismunur á þeirri fjárhæð og stefnufjárhæð, 1.357.774 krónur, sé fjárhæð miskabóta sem stefnandi krefur stefnda um. Stefnandi byggir á því að afgreiðsla sveitarstjórnar hafi orðið til þess að starfsheiður hans sem skólastjóra og kennara hafi skaðast. Afgreiðsla málsins valdi því að nú hafi hann ekki lengur sömu möguleika og fyrr á að sækja um störf sem þetta. Hvað varðar vexti á bótakröfu sína vísar stefnandi til III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 svo og til dóms Hæstaréttar Íslands, H. 1997:1544.
Málsálstæður og lagarök stefnda.
Stefndi byggir á því að ekkert í meðferð skólastjóra, Skóla- og menninganefndar eða sveitastjórnar hans hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 66/1995 um grunnskóla, laga nr. 86/198 eða stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Stefndi bendir á að samkvæmt 62. gr. samþykkta fyrir Siglufjarðarkaupstað skuli Skóla- og menningarnefnd fara með málefni grunnskóla. Samkvæmt 40. og 44. gr. sveitar-stjórnarlaga er sveitarstjórn heimilt að fela sérstaklega skipuðum nefndum og ráðum að fara með vald sitt í afmörkuðum málaflokkum. Það sé því Skóla- og menningarnefnd sem fari með framkvæmd þeirra skyldna sem á sveitarstjórn hvíla samkvæmt lögum nr. 66/1998. Allar samþykktir nefnda og ráða innan sveitarfélagsins séu hins vegar lagðar fyrir sveitarstjórn til samþykktar og með því hafi sveitarstjórn eftirlit með störfum þeirra án þess að taka þátt í efnislegri umfjöllun sem fram fer innan nefnda og ráða. Þetta fyrirkomulag sé í samræmi við samþykktir stefnda og sveitastjórnarlög. Stefndi heldur því þannig fram að sveitarstjórn hafi ekki þurft að leggja sjálfstætt mat á menntun og reynslu stefnda.
Þegar Skóla- og menningarnefnd tók fyrir ráðningu aðstoðarskólastjóra þann 15. júní 1998 lágu umsóknir allra umsækjenda fyrir. Nefndarmönnum var ljóst hverjir umsækjendurnir voru svo og að þeir teldust allir hæfir. Mat á umsækjendum hafi því fyrst og fremst snúist um það hver umsækjenda væri líklegastur til að ná bestum árangri við stjórnun undir stjórn skólastjórans. Nefndin hafi áður í samræmi við 2. mgr. 23. gr. grunnskólalaga falið skólastjóra að ræða við umsækjendur og gera tillögu til hennar um ráðninguna. Mat skólastjóra hafi verið það að stefnandi stæði öðrum umsækjendum að baki hvað varðaði stjórnun og taldi hann ekki heppilegan starfsmann. Þegar skólastjóri hafði gefið nefndinni skýrslu sína og gert tillögu um hvern skyldi ráða í starfið hafi nefndin ráðið yfir öllum nauðsynlegum upplýsingum til að taka ákvörðun í málinu. Nefndinni hafi ekki borið nein sérstök skylda til þess að ræða við alla umsækjendur eða endurskoða mat skólastjóra enda slíkt varla á færi nefndarinnar.
Stefndi hafnar því algerlega að stefnandi hafi ekki setið við sama borð og aðrir umsækjendur hvað varðaði viðtöl en skólastjóri hafi rætt við alla umsækjendurna og sennilega oftast við stefnanda. Þá hafnar stefndi því að ekki hafi verið tekið tillit til menntunar og starfsreynslu þegar ráðið var í stöðuna þó það sé rétt að mat á persónulegum eiginleikum hafið ráðið úrslitum á endanum.
Stefndi heldur því fram að málsástæða stefnanda um að 11. gr. stjórnsýslulaga hafi verið brotin á honum sé órökstudd og eigi ekki við í máli þessu.
Stefndi byggir einnig á því að honum hafi ekki borið að gefa stefnanda færi á að andmæla ávirðingum í hans garð sem fram koma í bréfi skólastjóra til hans dagsettu 5. júní 1998. Þetta bréf hafi ekki komið inn á fund nefndarinnar og þar með gafst nefndinni ekkert tilefni til að hefja rannsókn. Auk þess heldur stefndi því fram að nefndin hafi ekki haft neina rannsóknarskyldu í málinu enda engar ásakanir bornar á stefnanda af skólastjóra eða öðrum. Heldur stefndi því fram að niðurstaða Skóla- og menningarnefndar, að fara að tillögu skólastjóra, hafi byggst á málefnalegum grunni. Telja verði vafasamt að nefndin hafi mátt ganga gegn tillögu skólastjóra við þessar aðstæður. Ennfremur byggir stefndi á því að Skóla- og menningarnefnd hafi ekki borið að leggja til grundvallar önnur gögn en umsóknir aðila og fylgigögn þeirra svo og umsögn skólastjóra þegar ákvörðun um ráðninguna var tekin. Stefndi hafnar því algerlega að honum hafi borið að rannsaka hvers vegna skólastjóri mælti ekki með stefnanda eða öðrum umsækjendum sem hann mælti ekki með. Þá hafnar stefndi því og að skólastjóra hafi borið í tillögu sinni að gera samanburð á öllum umsækjendum heldur hafi verið nægilegt fyrir skólastjórann að rökstyðja ákvörðun sína með þeim hætti sem hann gerði. Í þessu sambandi verði að líta til þess að í 2. mgr. 23. gr. laga 66/1995 er ekki að finna ákvæði þess efnis að skólastjóri skuli skila rökstuddri tillögu eða samanburði á öllum umsækjendum. Einnig er því hafnað að Skóla- og menningarnefnd eða sveitarfélögum yfirleitt sé skylt að útbúa skriflegan samanburð á umsækjendum þegar ráðið er í stöðu aðstoðarskólastjóra.
Stefndi hafnar því að skólastjóri hafi við undirbúning og framsetningu á tillögu sinni brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga. Aðallega vegna þess að stefnandi var ekki borinn sökum eða ávirðingum, sem nauðsynlegt var að rannsaka sérstaklega vegna tillögugerðar skólastjóra, en ekki síður vegna þess að tillögugerð skólastjóra skv. 2. mgr. 23. gr. laga nr. 66/1995 telst ekki stjórnsýsluákvörðun í skilningi 1. gr. laga nr. 37/1993. Auk þessa hafi skólastjóri rætt við stefnanda um uppsögn hans á Hofsósi og stefnandi hafi haft næg tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum og gögnum á framfæri. Stefndi kannast ekki við að hafa borið órökstuddar ávirðingar og sögusagnir á stefnanda. Telur stefndi ljóst að stefnanda var gert að hætta í starfi sínu á Hofsósi vegna deilna við sveitarstjórn um það sé ekki ágreiningur eða óljós atvik. Einnig sé ljóst að fyrrverandi starfsmenn stefnanda beri honum misjafnlega söguna og að skiptar skoðanir séu um ágæti hans sem skólastjórnanda. Mat fyrrverandi starfsmanna er ekki órökstuddar ávirðingar eða sögusagnir eða gefa tilefni til sérstakrar rannsóknar af hálfu stefnda eða veiti stefnanda sérstakan andmælarétt. Gera verði skýran greinarmun á almennu mati á hæfileikum til stjórnunar annars vegar og ávirðingum um brot eða önnur tiltekin alvarleg mistök í starfi hins vegar. Fyrra tilefnið sé ekki ástæða sérstakrar rannsóknar. Einnig liggi fyrir að stefnandi gerði vel grein fyrir starfsferli sínum í umsókn sinni og að hann ræddi ýtarlega við skólastjóra um starfslok sín á Hofsósi. Verður því að telja að rannsóknarskyldu hafi verið fullnægt og stefnanda gefinn andmælaréttur hafi stefnda verið skylt að gæta reglna um þetta.
Stefndi fellst á með stefnanda að menntun og reynsla skipti miklu máli þegar ráðið er í starf sem þetta en stefnandi hefur haldið því fram að hann hafi meiri menntun og stjórnunarreynslu en hinir umsækjendurnir. Stefndi hafnar því að stefnandi hafi yfirburði umfram hina umsækjendurna hvað þetta varðar og bendir á að hinn karlmaðurinn sem sótti um stöðuna hafði áratugareynslu af kennslu og að hann hafi gengt þeirri stöðu sem hér um ræðir næsta skólaár á undan. Þá bendir stefndi á að stjórnunarreynsla stefnanda sé einkum við grunnskólann að Sólgörðum í Fljótum en sá skóli sé ákaflega lítill og fámennur, 6 til 12 nemendur, og stjórnun slíks skóla veiti því ekki mikla reynslu við stjórnun á margfalt stærri skóla. Nokkra reynslu hafi stefnandi hlotið við stjórnun skólans á Hofsósi en mat manna á hæfi hans til að stýra svo stórum skóla sé misjafnt sem sjá má m.a. af gögnum sem stefnandi hefur sjálfur lagt fram. Meðmælendur hans taka ekki fram að stefnandi hafi stjórnunarhæfileika heldur að hann hafi náð góðum árangri í kennslu og samskiptum við börn. Nánir samstarfsmenn stefnanda við skólann á Hofsósi lofa heldur ekki stjórnunarhæfileika hans í því sem hann kallar sjálfur stuðningsyfirlýsingu.
Stefndi heldur því fram að við ráðningu í starfið hafi ráðið úrslitum mat á persónulegum hæfileikum til stjórnunar og samskipta og mat skólastjóra á því hvern umsækjenda hann teldi líklegastan til að ná árangri við stjórnun skólans í samstarfi við sig. Þetta sé í fullkomnu samræmi við ákvæði laga nr. 86/1998 og laga nr. 66/1995. Byggir stefndi á því að dómstólar geti ekki endurmetið þetta mat skólastjóra eða Skóla- og menningarmálanefndar enda verði það ekki gert nema eftir samtöl og samanburð á umsækjendum og samtöl við samstarfsmenn þeirra.
Stefndi byggir ennfremur á því að þó svo að menntun, reynsla og stjórnunarhæfileikar stefnanda hefðu verið taldir sambærilegir og þess sem stöðuna hlaut hafi honum engu að síður borið að ráða Jónínu til starfans samkvæmt ákvæðum þágildandi jafnréttislaga nr. 28/1991 enda hallaði á hlut kvenna í stjórnunarstöðum hjá stefnda og gerir enn. Á árinu 1998 hafi 6 af 23 stjórnendum sveitarfélagsins verið konur og Jónína raunar verið ein þeirra sem forstöðumaður skólaskrifstofu. Honum hafi því borið að ráða frekar konu en karlmann til stjórnunarstarfa í þeim tilvikum sem umsækjendur voru af báðum kynjum og sambærilegir að hæfileikum í þeim tilgangi að stuðla að auknum jöfnuði á hlutfalli kynja í stjórnunarstöðum. Vísar stefndi á dóm Hæstaréttar Íslands, H. 1996:3760 í þessu sambandi.
Stefndi hafnar því að stefnandi geti átt bótarétt eða að almenn skilyrði skaðabótaréttar séu fyrir hendi. Þá byggir hann einnig á því að þó einhverjir gallar kunni að vera á undirbúningi og afgreiðslu á ráðningu í stöðuna þá séu þeir svo smávægilegir að ákvörðunin verði ekki ógilt og því síður að gallarnir leiði til þess að stefnandi eigi rétt til bóta. Telur stefndi að hagsmunir þeir sem stefnandi leitast við að verja, að réttum formreglum sé beitt við ráðningu í stöðu sem hann hefur sótt um, njóti ekki verndar skaðabótaréttarins. Eigi stefnandi því ekki rétt til annars en að ákvörðunin verði ógilt og úr göllunum bætt þegar ráðið verður í stöðuna á ný. Til að stefnandi eigi rétt til skaðabóta verði hann að sýna fram á að stefnda hafi borið skylda til lögum samkvæmt að ráða hann í starfið. Slíka skyldu sé ekki að finna í lögum. Lög nr. 55/1985 og lög nr. 86/1988, einkum ákvæði 3. mgr. 7. gr. laga nr. 86/1998 og 2. mgr. 23. gr. laga 66/1995 geymi einungis leiðbeiningar um það til hvaða atriða beri að líta við ráðningu aðstoðarskólastjóra. Eftir skoðun á umsækjendum í samræmi við þessi ákvæði hafi stefnda ekki verið skylt að ráða stefnanda í starfið. Stefnandi hafi vissulega ágæta menntun og kennsluferil og einhverja stjórnunarreynslu en lökustu ummælin um starfshæfni. Hinir umsækjendurnir fengu betri einkunn og voru þekktir af góðum störfum. Sú sem fyrir valinu varð hafi sem starfsmaður stefnda náð afburðaárangri í starfi sínu.
Stefndi heldur því fram að honum hafi borið að ráða Jónínu vegna þess að hún hafði menntun, stjórnunarreynslu, árangur í starfi og persónulega eiginleika sem samanlagt gerðu hana hæfari til að gegna starfinu en stefnanda, vegna þess að skólastjóri gerði tillögu um að hún yrði ráðin og einnig vegna ákvæða þágildandi jafnréttislaga. Einnig liggur fyrir að mat skólastjóra á umsækjendum var það að stefnandi kæmi síst til greina.
Samkvæmt þessu telur stefndi að ekkert orsakasamband sé milli meints brots og tjóns þ.e. að þeir ágallar sem kunni að vera á ráðningunni og þess að stefnandi fékk ekki stöðuna. Þá hafnar stefndi því að hann hafi með saknæmum hætti brotið gegn stefnanda. Að formi til hafi réttilega verið gengið frá ráðningu aðstoðarskólastjóra en ekkert sé saknæmt við það að skólastjóri mælti ekki með stefnanda í starfið og það jafnvel þó stefnandi telji að skólastjóri hafi oftúlkað eða misskilið orsakir uppsagnar hans eða hreinlega vanmetið hæfileika stefnanda til að gegna starfinu.
Þá byggir stefndi á því að skilyrði um sennilega afleiðingu séu ekki uppfyllt. Þó talið verði að hann hafi brotið gegn stefnanda með saknæmum hætti þá sé það ekki sennileg afleiðing af því broti að ævilaun stefnanda lækki. Formgalli á afgreiðslu umsóknar stefnanda leiði ekki til þess að hann á starfsævi sinni fái ekki annað starf jafnvel eða betur launað en starf aðstoðarskólastjóra við Grunnskóla Siglufjarðar.
Að endingu hafnar stefndi miskabótakröfu stefnanda sem órökstuddri og án tilvísunar til forsendna eða lagaraka að öðru leyti en því að stefnandi haldi því fram að starfsheiður hans hafi skaðast við að fá ekki stöðuna. Þó hann hafi ekki fengið þessa stöðu sé ekkert því til fyrirstöðu að hann fá aðra sambærilega stöðu og þá hafi möguleikar hans á annarri stöðu heldur ekki minnkað við þetta enda óþekkt að óskað sé eftir því að umsækjendur um stöðu skýri frá því hvaða stöður þeir hafi sótt um en ekki fengið.
Varakröfu sína byggir stefndi á því að kröfur stefnanda séu allt of háar og ekki í samræmi við hugsanlegt tjón stefnanda. Stefndi hafnar þeirri aðferð sem stefnandi notar við útreikning tjónsins. Framreikningur á launamun stefnanda og launum aðstoðarskólastjóra standist ekki enda er ósannað og ósennilegt að stefnandi muni búa við lægri laun það sem eftir er ævi hans vegna meints brots stefnda. Möguleikar stefnanda á að afla jafnhárra eða hærri launa hafi ekki verið skertir með varanlegum hætti.
Þá byggir stefndi á því að forsendur stefnanda fyrir útreikningi hans fái ekki staðist. Annars vegar leggi hann til grundvallar laun aðstoðarskólastjóra að meðtalinni yfirvinnu og hins vegar eigin laun án yfirvinnugreiðslna. Þegar áhrif yfirvinnu á launamun aðila hefur verið tekinn út kemur í ljós að launamunur varðandi síðustu viðmiðunartölur lækkar úr 39.702 krónum í 21.270 krónur á mánuði eða sem nemur 46,34% af kröfu stefnanda. Munur á framreiknuðum grunnlaunum ásamt lífeyrisréttindum sé því 3.558.514 krónur. Þá bendir stefndi á að stefnandi noti ekki heildarlaun sín fyrir þá stöðu sem hann nú gegnir til viðmiðunar og að hann hafi ekki lagt fram launaseðla fyrir árið 2000 eða afrit af skattframtölum til að styðja kröfur sínar.
Stefndi byggir varakröfu sína einnig á því að stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir tjóni sínu og að bætur umfram sannað tjón komi ekki til greina og sérreglum skaðabótalaga nr. 50/1993 um bætur fyrir missi varanlegrar starfsorku eða sambærilegum aðferðum verði ekki beitt við útreikning á tjóni stefnanda. Verði talið að stefnandi eigi rétt til skaðabóta sem taka mið af framtíðarlaunamissi verður að lækka slíkar bætur með tilliti til þeirrar óvissu sem ríkir um framtíðartekjur stefnanda og þess að framtíðartekjumöguleikar hans hafa ekki verið skertir.
Kröfu um dráttarvexti mótmælir stefndi sérstaklega og telur að krafan geti ekki borið dráttarvexti frá fyrri tíma en dómsuppsögu.
Málskostnaðarkröfu sína byggir stefndi á XXI. kafla einkamálalaga nr. 19/1991.
IV.
Framburður fyrir dómi.
Stefnandi bar að samið hafi verið um starfslok hans á Hofsósi. Ástæðan fyrir samkomulaginu hafi fyrst og fremst verið óánægja með að hann var ekki nógu mikið á Hofsósi en á þessum tíma hafi hann ekið mikið á milli Siglufjarðar og Hofsóss enda í sambúð á Siglufirði. Engar ávirðingar hafi verið bornar á hann sem skólastjóra og fagleg staða skólans hafi verið góð og nefnir sem dæmi árangur nemenda á samræmdum prófum í 10. bekk. Stefnandi ber að starfslokasamningur hans á Hofsósi hafi verið hreinleg leið. Hann hafi upplifað stöðuna sem upp var komin svo að hann hafi staðið frammi fyrir tveimur kostum. Á fundum með skólanefnd og öðrum hafi þessi málefni verið rædd en hann hafi talið að málefni skólans hafi verið með þeim hætti að ekki væri unnt að segja honum upp en óánægja hafi verið með viðveru hans. Hann hafi bundið enda á málið með starfslokasamningi en telur að honum hefði ekki verið sagt upp. Einhver óánægja hafi verið með hans störf en hún hafi verið í því fólgin að hann var með aðrar áherslur í skólamálum en sumir aðrir t.d. hafi stofur verið opnar þ.a. nemendur gátu verið þar inni en þá þurfti að koma til gæsla hjá kennurum. Þá hafi kennarar einnig hugsanlega verið óánægðir með að fastar var tekið á ákveðnum málum. Kveður hann að aldrei hafi verið formlega farið fram á við hann að hann segði upp störfum heldur óformlega í samtölum.
Stefnandi ber að hagir hans hafi raskast verulega við að fá ekki stöðuna en ekki síður hafi hann orðið fyrir andlegu áfalli. Hann hafi þurft að flytja frá Siglufirði þar sem hann ætlaði að búa til framtíðar. Þá telur hann þessa höfnun verða til þess að möguleikar hans á störfum í framtíðinni hafi skerst verulega enda hafi hann verið að sækja niður fyrir sig en verið hafnað. Stefnandi segir að eftir að hann sótti um starfið hafi hann ekki verið boðaður til viðtals. Stefnandi kveðst hafa hitt skólastjórann áður en hann sótti um og þá spurt hvort staðan væri frátekin en verið tjáð að svo væri ekki. Seinna hafi hann hitt skólastjórann í stutta stund og rætt við hann en ekki um stöðuna heldur um skólamál almennt og í hvaða vandræðum skólastjórinn átti á Siglufirði. Hann hafi átt einn fund með skólastjóra eftir að umsóknin var komin fram eftir að skólastjóri hafi tjáð honum símleiðis að hann gæti ekki mælt með honum í stöðuna. Á fundinum hafi komið hafi fram hjá skólastjóranum að hann hafi fengið léleg ummæli um stefnanda í Hofsósi og því gæti hann ekki mælt með honum í starfið. Stefnandi ber að á fundinum hafi hann óskað eftir skriflegum rökstuðningi. Stefnandi kveðst hafa óskað eftir fresti til að afla gagna til að leiðrétta þennan misskilning. Skólastjóri hafi tjáð honum hvenær skólanefndarfundur yrði haldinn og að hann hefði frest fram að þeim tíma til að koma með gögnin og það hafi hann gert.
Stefnandi kveðst hafa sótt um skólastjórastöðuna á Hofsósi árið eftir en ekki fengið hana en hann hafi ekki sótt um fleiri stöður. Umsóknin um stöðuna í Hofsósi hafi verið til þess að kanna hvort honum yrði hafnað en kannski hafi ekki verið fullur hugur að baki henni. Hann kveðst ekki hafa leitað eftir skýringum á því hvers vegna hann fékk ekki stöðuna þó að hann viti að tveir kennarar voru mjög á móti því að hann yrði endurráðinn svo og að ákveðnar breytingar sem hann taldi nauðsynlegt að gera á starfsliði skólans hefðu ekki fengið hljómgrunn. Stefnandi segir að hann sé ekki tilbúinn til að sækja um aðrar stöður fyrr en þessu máli er lokið.
Stefnandi segir að hann hafi aldrei fengið að vita frá fyrstu hendi í hverju ávirðingar á hendur honum sem m.a. koma fram í bréfi skólastjóra dagsettu 5. júní 1998 eru fólgnar í raun og veru.
Guðmundur Guðlaugsson, bæjarstjóri stefnda Guðmundur bar að Skóla- og menningarnefnd fari með málefni grunnskólans fyrir hönd bæjarstjórnar. Sveitarstjórn ráði endanlega skólastjórnendur en Skóla- og menningarnefnd komi með tillögu um ráðningu en bæjarstjórn staðfesti síðan ráðninguna nema eitthvað sérstakt komi til og þá yrði ekki farið að tillögu nefndarinnar. Guðmundur bar að skólastjóra hafi verið falið af nefndinni að sinna viðtölum og koma með tillögu til nefndarinnar um hvern ráða skyldi. Bar hann einnig að umsóknir hafi legið fyrir á fundi nefndarinnar þegar ráðningin var til umræðu þar. Kvað hann nefndarmenn hafa gert sér grein fyrir hlutverki sínu í nefndinni en það hafi ekki verið neinn ágreiningur um ráðninguna enda allir sammála áliti skólastjórans.
Guðmundur bar að Jónína Magnúsdóttir hafi áður verið forstöðumaður Skólaskrifstofu. Hún hafi unnið að stefnumótun Siglufjarðarkaupstaðar í málefnum grunnskóla. Starf forstöðumanns Skóalskrifstofu væri talið meðal stjórnenda hjá stefnda sem voru forstöðumenn stofnana 13 og þar af þrjár konur en að millistjórnendum meðtöldum voru þeir ríflega 20 þar af 6 konur. Forstöðumaður Skólaskrifstofu teldist meðal stjórnenda en aðstoðarskólastjóri meðal millistjórnenda. Mætti kvað Skólakrifstofu hafa þann tilgang að styðja alla skóla í bænum og annað það sem að menntun kemur. Guðmundur bar að Jónína væri ábyrg, dugleg og fylgin sér og að hún hafi unnið störf sín óaðfinnanlega. Guðmundur kvaðst lítið hafa komið að ráðningu aðstoðarskólastjóra en þegar fram kom að vilji væri til þess að ráða Jónínu hafi hann síður viljað missa hana úr hennar fyrra starfi en kvað hana standa sig vel sem aðstoðarskólastjóra.
Guðmundur bar að brottvikning stefnanda úr starfi á Hofsósi hafi ekki komið til umræðu á fundi nefndarinnar. Fram hafi komið í máli skólastjóra að hann teldi Jónínu hæfasta til starfsins. Guðmundur kvað að hann telji að rök megi færa fyrir því að menntun Jóhanns sé meiri en Jónínu en stjórnunarreynsla hans að skólamálum sé ekki meiri, kynferði hafi ekki ráðið úrslitum en Jónína hafi verið ráðin vegna þess að hún var talin hæfust í starfið.
Unnar Már Pétursson, formaður bæjarráðs Siglufjarðarkaupstaðar, var formaður Skóla- og menningarnefndar á þeim tíma sem ráðning aðstoðarskólastjóra fór fram. Hann bar að skólastjóra hafi verið falið að annast undirbúning að ráðningunni með viðtölum og þess háttar og hann síðan lagt tillögu sína fyrir nefndina. Nefndin hafi tekið málið fyrir á fundi sínum 15. júní 1998. Á fundinum lágu umsóknir allra umsækjenda frammi og gátu nefndarmenn kynnt sér þær sem einhverjir gerðu. Umsóknirnar hafi ekki verið fjölfaldaðar og dreift til nefndarmanna fyrir fundinn. Að sögn vitnisins gerði skólastjóri grein fyrir umsækjendum og lagði að því loknu fram sína tillögu og færði rök að henni. Vitnið kvaðst ekki muna hversu mikil umræða fór fram um hvern og einn umsækjanda á þessum fundi. Nefndin hafi síðan rætt tillöguna og komist að þeirri niðurstöðu að rétt væri að mæla með Jónínu. Nefndarmönnum hafi verið ljóst að allir umsækjendur voru hæfir til að gegna stöðunni.
Vitnið kvaðst fyrir fundin hafa fengið bréf skólastjóra þar sem hann kynnti tillögu sína en á fundinum hafi hann kynnt sér þær umsóknir sem fyrir lágu. Kvaðst hann hafa skrifað bréf til Jóhanns þar sem fram kemur að skólastjóri hafi eiginlegt val á því hver verði aðstoðarskólastjóri en nefndin hafi haft fullt vald til þess að mæla með öðrum í starfið ef hún væri ekki sammála mati skólastjóra. Unnar bar að ekki hafi komið til umræðu eða umfjöllunar nein niðrandi ummæli um stefnanda. Unnar kvaðst ekki hafa vitað mikið um starfslok Jóhanns á Hofsósi en bar að þau hafi ekki verið rædd innan skólanefndarinnar. Þá kvað hann að starfslok stefnanda á Hofsósi hafi ekki komið til umfjöllunar á fundinum.
Vitnið bar að skólastjóri hafi á fundinum rökstutt sitt val en ekki gert sérstaklega grein fyrir þeim umsækjendum sem hann mælti ekki með. Bar hann einnig að ekki hafi verið farið kerfisbundið yfir hvern umsækjanda fyrir sig en hann kvaðst ekki muna nákvæmlega hvað fram kom í inngangi skólastjóra. Mest hafi verið fjallað um þann sem skólastjóri mælti með. Að sögn vitnisins var enginn umsækjenda boðaður til viðtals hjá nefndinni. Þá kvaðst vitnið ekki muna hvort jafnréttislög komu til sérstakrar umfjöllunar við úrlausn þessa máls en nefndarmenn hafi vel verið meðvitaðir um ákvæði þeirra. Unnar kvað nefndina hafa vitað að allir umsækjendur voru hæfi í starfið en nefndin hafi verið sammála mati skólastjóra.
Vitnið Eyjólfur Sturlaugsson skólastjóri bar að honum hafi verið falið af formanni skólanefndar að fara yfir umsóknir og gera tillögu að því hvern skyldi ráða í starfið. Hann kveðst, þegar umsóknarfrestur var liðinn, hafa haft samband við alla umsækjendur og boðið þeim að koma í viðtal til hans. Kjartan hafi ekki talið þörf á að mæta í viðtal. Hann hafi talað við Jónínu í síma en Jóhann hafi komið í viðtal og þeir hafi rætt lengi saman. Vitnið kveðst, eftir að umsókn stefnanda kom fram en áður en umsóknarfrestur var liðinn, hafa rætt við nokkra aðila á Hofsósi m.a. formann Skólanefndar á Hofsósi, sveitarstjóra Hofshrepps, tvo kennara við grunnskólann á Hofsósi, formann skólastjórafélags Norðurlands vestra, starfsmann á skólaskrifstofu Skagfirðinga svo og kennara sem kennt höfðu undir stjórn stefnanda í Fljótum. Hann kveðst ekki hafa hringt sérstaklega í starfsmann skólaskrifstofu Skagfirðinga og formann skólastjórafélagsins á Norðurlandi vestra heldur hafi hann rætt við þau í framhaldi af öðru erindi.
Vitnið bar að hann hafi hringt í Jóhann og mælt sér mót við hann. Þeir hafi átt alllangan fund. Hann kveðst hafa talið upp fyrir stefnanda hverjir kostir hans væru svo og hverjir ókostir hans væru. Þá hafi hann hafi tjáð stefnanda að honum litist ekki á að mæla með honum í starfið m.a. vegna þess að óljóst væri með hvaða hætti hann lét af störfum á Hofsósi. Hann hafi sagt stefnanda hvað viðmælendur höfðu sagt honum m.a. að fólk hafi sagt stefnanda óhæfan sem stjórnanda. Einn hafi sagt að hann væri óhæfur skólastjóri en hæfur sem aðstoðarskólastjóri. Jóhann hafi þakkað honum fyrir og óskað eftir fresti til að skýra mál sitt. Hann hafi þá sagt stefnanda að tíminn væri skammur en hann hefði nokkra daga til að koma að gögnum.
Vitnið kveðst ekki hafa þurft að kanna feril hinna umsækjendanna. Feril Kjartans hafi hann þekkt því Kjartan hafi á þessum tíma verið starfandi aðstoðarskólastjóri hjá honum og árið áður hafi Kjartan sótt um þetta starf og þá hafi hann kannað feril hans. Hann hafi þekkt Jónínu en auk þess hafi hann rætt við fólk sem unnið hafði með henni.
Vitnið kveðst hafa látið formann Skóla- og menningarnefndar eða bæjarstjóra hafa bréf dagsett 2. júní 1998 þegar hann hafði ákveðið með hverjum hann ætlaði að mæla. Á fundi Skóla- og menningarnefndar hafi hann farið yfir tillögu sína og rökstutt hvers vegna hann mælti með Jónínu. Engin umræða hafi farið fram að þessu loknu en þó taldi vitnið að fulltrúi foreldra hafi tjáð sig eitthvað. Í framhaldi af þessu hafi formaður nefndarinnar farið yfir málið og lýst því að gögnin væru til staðar ef áhugi væri fyrir því hjá nefndarmönnum að kynna sér málið frekar en enginn annar hafi tjáð sig beint um málið á fundinum.
Vitnið kvaðst hafi ritað stefnanda bréf dagsett 5. júní 1998 og sent honum í pósti. Vitnið kvaðst á þessum tíma hafa átt erfitt með að átta sig á með hvaða hætti stefnandi lét af störfum á Hofsósi. Sveitarstjóri Hofshrepps hafi sagt að stefnandi hafi verið beðinn um að hætta en formaður Skólanefndar sagt að menn sem stæðu sig ekki í starfi væru einfaldlega reknir. Því kveðst vitnið hafa tekið brotthvarf hans svo að hann hafi í raun verið rekinn. Vitnið segist hafa fengið upplýsingar um að stefnandi hafi fengið aðvörun ári áður en til starfsloka hans kom en honum hafi verið gert að sinna betur viðveru á Hofsósi en það hafi hann ekki gert. Þetta bréf hafi ekki farið inn á fund í Skóla- og menningarnefnd Siglufjarðar og ekki komið til umfjöllunar þar. Vitnið kvaðst ekki hafi gert nefndinni grein fyrir því að brotthvarf hans frá Hofsósi hafi haft áhrif á niðurstöðu hans. Vitnið kvaðst hafa gert nefndinni grein fyrir því að hann hafi kannað feril stefnanda vel en ekki nefnt þetta sérstaklega.
Vitnið segir að skólasamfélag á Íslandi sé lítið og allir sem að því koma viti hversu mikil ábyrgð fylgi starfi skólastjóra. Hafi einhver verið rekinn úr starfi skólastjóra þá verði það svartur blettur á hans ferli. Af þessum sökum hafi hann ritað í bréfinu að Jóhann þyrfti að hreinsa mannorð sitt. Vitnið segist hafa rætt lengi við sveitarstjóra Hofshrepps og hann hafi sagt að stefnandi væri hæfur til að gegna aðstoðarskólastjórastöðu í Siglufirði en viðurkennt þegar á hann var gengið að stefnanda hafi verið gert að hætta. Vitnið bar að því hafi fundist sem sveitarstjóri Hofshrepps hafi ekki verið í góðum málum hvað það varðar með hvaða hætti Jóhanni var gert að hætta störfum í Hofsósi og afstaða hans gagnvart Jóhanni hafi litast af því. Vitnið bar að Jónína hafi ekki verið ráðin vegna kynferðis það hafi ekkert haft með ráðninguna að gera.
Vitnið Haukur Ómarsson, fyrrverandi formaður bæjarráðs stefnda kvaðst muna eftir því að bæjarráð hafi staðfest tillögu Skóla- og menningarnefndar án umræðu og því hafi bæjarráðsmenn ekki tekið sjálfstæða afstöðu til kennsluferlis menntunar eða stjórnunareynslu þeirra sem sóttu umstarfið. Vitnið segir að bæjarráðsmönnum hafi ekki verið kunnugt um hvers vegna skólastjóri mælti með einum umsækjenda frekar en öðrum.
V.
Niðurstaða.
Að framan er rakið að umsögn skólastjóra lá fyrir með bréfi hans dagsettu 2. júní 1998. Ráðning aðstoðarskólastjóra var tekin fyrir í Skóla- og menningarnefnd stefnda og afgreidd þann 15. júní sama ár með þeim hætti að lagt var til að Jónína Magnúsdóttir yrði ráðin í starfið. Á fundi bæjarráðs daginn eftir samþykkti ráðið að fara að tillögu Skóla- og menningarnefndar .
Á þessum tíma var ætlun alþingis að breyta þágildandi sveitarstjórnarlögum nr. 8/1986. Ný sveitarstjórnarlög kváðu upphaflega á um það í 105. gr. sinni að þau skyldu taka gildi 1. júní 1998. Lögin birtust hins vegar ekki í Stjórnartíðindum fyrr en 5. júní. Vegna þessa kom upp réttaróvissa varðandi gildistöku laganna. Til að eyða þessari óvissu voru, þann 10. júlí 1998, sett bráðabirgðalög sem breyttu gildistökuákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 á þann veg að þau öðluðust gildi þann 10. júlí 1998. Samkvæmt þessu verður ekki hjá því komist að telja að umsögn skólastjóra, umfjöllun Skóla- og menningarnefndar þess efnis að mæla með Jónínu Magnúsdóttur í starfið svo og samþykkt bæjarráðs þann 16. júní að fara að tillögu Skóla- og menningarnefndar hafi átt sér stað í gildistíð eldri sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986. Ætla verður að frá og með 16. júní hafi verið búið að ganga frá ráðningu Jónínu í starfið enda starfaði bæjarráð þá í umboði sveitarstjórnar sem starfaði í skjóli bæjarstjórnar sem á þessum tíma kom ekki saman vegna sumarleyfa en hafði veitt bæjarráði umboð til fullnaðarafgreiðslu mála á meðan. Þó gengið hafi verið frá ráðningarsamningi við hana síðar skiptir það ekki máli.
Fallist er á með stefnanda, enda er því ekki mótmælt af hálfu stefnda, að það sé hlutverk sveitastjórnar að ráða aðstoðarskólastjóra. Samkvæmt 2. tl. B liðar 63. gr. samþykkta um stjórn Siglufjarðarkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar, eins og ákvæði þeirra voru í júní og júlí 1998, er það Skóla- og menningarnefnd sem fer með málefni grunnskóla, leikskóla, tónlistarskóla o.fl. Hins vegar er það bæjarstjórn sem ræður fasta starfsmenn í helstu stjórnunarstöður s.s. yfirmenn stofnana og deilda bæjarins og veitir þeim lausn frá störfum sbr. 66. gr. sömu samþykkta. Þá bar vitnið Unnar Már Pétursson bar að nefndarmönnum hafi verið ljóst að skólastjóri hafði ekki vald til að ráða í stöðuna heldur hafi það í raun verið í höndum nefndarinnar.
Að framan er rakið hvernig var staðið var að ráðningu í þessu tilfelli. Skólastjóra var falið að gera tillögu sem síðan kom fyrir Skóla- og menningarnefnd, tillaga nefndarinnar var samþykkt í bæjarráði og að endingu var ráðningin samþykkt í bæjarstjórn. Þessi ferill ráðningarinnar er í samræmi við þágildandi sveitarstjórnarlög og samþykktir stefnda og verður af þeirri ástæðu ekki fallist á með stefnanda að ekki hafi að formi til verið réttilega staðið að ráðningu í stöðuna. Ekki verður fallist á með stefnanda að sveitarstjórn sjálfri beri að fjalla um allar umsóknir og fara yfir þær og bera saman og taka sjálfstæða afstöðu til menntunar, kennsluferils og stjórnunarreynslu umsækjenda. Sveitarstjórn var heimilt að veita Skóla- og menningarnefnd umboð til að annast skólamál eins og gert var í áðurnefndum greinum samþykkta stefnda sbr. 5. mgr. 57. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 sbr. nú 40. og 44. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 86/1998.
Á fundi Skóla- og menningarnefndar þann 15. júní 1998 var ráðning í stöðu aðstoðarskólastjóra var tekin fyrir. Á þessum fundi lágu frammi umsóknir allra umsækjenda ásamt fylgigögnum. Þá lá og frammi umsögn skólastjóra um umsækjendur en í henni er ekki gerður samanburður á umsækjendum en þeir allir taldir hæfir. Í umsögninni gerir skólastjóri í raun einungis grein fyrir vali sínu og rökstyður það. Skólastjóri mætti á fundinn, kynnti umsækjendur og gerði grein fyrir tillögu sinni. Á þessum fundi gátu nefndarmenn kynnt sér allar umsóknirnar og fylgigögn þeirra svo gátu þeir einnig lagt spurningar fyrir skólastjórann. Ekki verður séð að skólastjóri hafi þurft að svara spurningum nefndarmanna um umsækjendur en einhverjir þeirra kynntu sér umsóknirnar. Á þessum fundi var sú ákvörðun tekin að fara að tillögu skólastjóra. Af gögnum málsins verður ekki séð að nefndin hafi í raun metið sjálfstætt menntun, kennsluferil og stjórnunarreynslu umsækjenda heldur virðist sem nefndarmenn hafi treyst mati skólastjóra. Verður því ekki hjá því komist að telja að nefndin hafi ekki fullnægt rannsóknarskyldu sinni. Stjórnvald hefur ekki frjálsar hendur ráðningu í stöðu þegar fleiri en einn hæfur umsækjandi sækir um stöðu. Það er grundvallarregla í stjórnsýslurétti að velja beri þann umsækjanda sem er hæfastur á grundvelli málefnalegra sjónarmiða um menntun, reynslu, hæfni og aðra þá persónulegu eiginleika sem máli kunna að skipta. Eru því annmarkar á afgreiðslu málsins hjá stefnda hvað þetta varðar. Þegar horft er til þess að fyrir nefndinni lá ítarleg umsögn um þann umsækjanda sem hann mælti með, þess að umsóknir allra umsækjenda voru til staðar svo og þess að skólastjóri gerði grein fyrir málinu á fundi nefndarinnar er það mat dómsins að það eitt og sér að nefndin sinnti ekki rannsóknarskyldu sinni að fullu leiði ekki til bótaskyldu stefnda gagnvart stefnanda.
Stefnandi byggir á því að hvarf hans úr stöðu skólastjóra á Hofsósi hafi haft mikil áhrif á að skólastjóri mælti ekki með honum í stöðuna. Á þetta verður að fallast enda hefur skólastjóri borið að hann hafi hringt í stefnanda og á fundi þeirra skömmu síðar hafi hann tjáð stefnanda að honum litist ekki á að mæla með honum í stöðuna. Fundur þessi átti sér stað að því að best verður séð 23. eða 24. maí 1998. Vitnið Eyjólfur Sturlaugsson skólastjóri kvaðst hafa á þessum fundi tjáð stefnanda hvaða vitnisburð hann hafi fengið um stefnanda hjá viðmælendum sínum. Vitnið bar að stefnandi hafi þakkað honum fyrir og óskað eftir fresti til að skýra mál sitt. Stefnandi hefur ekki með fullnægjandi hætti skýrt hvernig til þess kom að hann lét af störfum í Hofsósi. Þá töldu lögmenn aðila ekki ástæðu til að kalla þá fyrir dóminn sem skólastjóri hafði nefnt svo unnt væri að spyrja þá út í ávirðingar sem stefnandi heldur fram að ómaklega hafi verið settar fram í hans garð. Verður því ekki hjá því komist að byggja á framburði vitnisins Eyjólfs Sturlaugssonar og leggja til grundvallar að hann hafi tjáð stefnanda hverjir það voru sem báru honum illa söguna og hvað þeir sögðu. Miðað við að fundur stefnanda og skólastjóra hafi farið fram 23. eð 24. maí 1988 hafði stefnandi þrjár vikur frá fundi hans með skólastjóranum og fram að fundi Skóla- og menningarnefndar til að koma að gögnum sem hann taldi eiga erindi til nefndarinnar. Hann gerði það að hluta með því að leggja fram yfirlýsingu nokkurra starfsmanna Grunnskólans á Hofsósi sem staðfestu að starfsandi við skólann skólaárið 1997-1998 hafi verið með eðlilegum hætti og að engin stór ágreiningsmál hafi komið upp í skólanum. Fallast verður á með stefnda að þessi yfirlýsing sé ekki afdráttarlaus varðandi hæfni stefnanda sem skólastjóra. Umsögn skólastjóra er ekki stjórnsýsluákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga og átti stefnandi því í raun ekki andmælarétt meðan umsókn hans var til umfjöllunar hjá skólastjóranum. Verður því ekki fallist á með stefnanda að andmælaréttur hafi verið á honum brotinn á þessu stigi málsins þó vissulega hefði verið vandaðri stjórnsýsla af hálfu skólastjórans að bjóða stefnanda með formlegum hætti að mæta til viðtals og bjóða honum líka með formlegum hætti að koma sjónarmiðum sínum varðandi brotthvarf hans frá skólanum í Hofsósi á framfæri þegar ljóst var að það hafði áhrif á mat skólastjóra.
Af framburði bæjarstjóra og þáverandi formanns Skóla- og menningarnefndar verður ráðið að ekki var fjallað neitt um ávirðingar í garð stefnanda þegar umsóknir voru til afgreiðslu í nefndinni. Bréf sem skólastjóri ritaði til stefnanda var heldur ekki til umfjöllunar og var ekki rætt. Verður því ekki fallist á með stefnanda að honum hafi verið hafnað vegna rógs eða ávirðinga í hans garð. Raunar er ekkert sem bendir til þess að nefndarmönnum hafi verið kunnugt um með hvaða hætti kom til starfsloka stefnda á Hofsósi og þá bendir ekkert til þess að í huga nefndarmanna hafi starfslok hans í Hofsósi haft áhrif á þá. Af hálfu Skóla- og menningarnefndar var því ekkert tilefni til að veita stefnanda, skv. 13. gr. stjórnsýslulaga, sérstakan andmælarétt vegna þessa því fyrir nefndinni lágu engar ávirðingar í hans garð.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að honum hafi verið mismunað gagnvart örðum umsækjendum vegna þess að hann var ekki boðaður til viðtals vegna umsóknar hans. Í málinu liggur ekkert annað fyrir hvað þetta varðar en framburður vitnisins Eyjólfs Sturlaugssonar skólastjóra. Hann kvaðst hafa boðið öllum umsækjendum að koma í viðtal. Einn hafi ekki talið þörf á að mæta til viðtals, við annan hafi hann rætt í síma en stefnandi hafi einn umsækjenda komið í viðtal við hann. Stefnandi hefur sjálfur borið að hann hafi hitt skólastjóranna einu sinni áður en hann sótti um starfið og einu sinni eftir að skólastjórinn hafði tjáð honum að hann gæti ekki mælt með honum í starfið. Verður því ekki séð að á stefnanda hafi verið hallað hvað þetta varðar gagnvart öðrum umsækjendum.
Stendur því eftir sú málsástæða stefnanda að stefnda hafi borið að ráða stefnanda í starfið sökum þess að hann hafi verið hæfastur umsækjenda.
Lög um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldskólakennara og skólastjóra nr. 86/1998 áttu að taka gildi 16. júní 1998 eða daginn eftir að skólanefnd afgreiddi málið frá sér. Þau birtust aftur á móti ekki í Stjórnartíðindum fyrr en 24. júní og tóku gildi þann dag sbr. lög nr. 64/1943 um birtingu laga og stjórnvaldaerinda og höfðu því ekki gildi á þeim tíma er hér skiptir máli. Verður því að horfa til laga nr. 48/1986 um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra. Í frumvarpi til laga um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra kemur fram í athugasemdum við 7. gr. að taka beri tillit til menntunar, kennslureynslu og stjórnunarreynslu líkt og gert hefur verið við ráðningu kennara, sbr. 5. mgr. 11. gr. gildandi laga. Í nefndri 5. mgr. 11. gr. laga 48/1986 segir m.a. ,,skal við veitingu starfsins m.a. taka tillit til menntunar, kennsluferils, starfsaldurs, starfsreynslu og umsagna um starfshæfni umsækjenda."
Fyrir liggur mat skólastjóra á hæfileikum þess umsækjanda sem ráðinn var og verður ekki betur séð en að Jónína Magnúsdóttir sé mjög hæf. Þættir þeir sem taka skal tillit til við ráðningu eru ekki tæmandi taldir í ákvæðum 5. mgr. 11. gr. laga nr. 48/1986. Þá verður ekki fallist á með stefnanda að atriði sem taka skal tillit til við mat á umsækjendum vegi öll jafnþungt. Þannig er t.d. ógerlegt að skylda stjórnvald til að ráða mann til stjórnunarstarfa sem hefur litla stjórnunarhæfileika þó viðkomandi hafi mikla menntun, langan kennsluferil og starfsreynslu og góða umsögn um annað en stjórnunarhæfileika. Stjórnvald verður að hafa ákveðið svigrúm til að meta umsækjendur og velja þann sem best hentar til þess starfs sem hann á að gegna. Þá er til þess að líta að ógerlegt er að leggja mælistiku á persónulega kosti. Fram hefur komið að sá umsækjenda sem ráðinn var er að mati skólastjóra og þá einnig Skóla- og menningarnefndar gæddur miklum kostum. Hún hafi mikla reynslu af skólamálum og stjórnun sem forstöðumaður Skólaskrifstofu Siglufjarðarkaupstaðar auk þess hefur hún allnokkra reynslu af stjórnun vegna setu hennar í bæjarstjórn Siglufjarðarkaupstaðar frá 1994 og til þess tíma er hún var ráðin sem aðstoðarskólastjóri. Hefur stefnanda ekki tekist, þrátt fyrir að hann hafi meiri menntun og lengri kennsluferil en Jónína Magnúsdóttir, að sýna fram á að kostir hans séu ótvírætt meiri en Jónínu og því hafi borið að ráða hann í stöðuna.
Með vísan til þess sem að framan er rakið verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Með hliðsjón af málavöxtum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Halldór Halldórsson, dómstjóri kveður upp dóm þennan. Dómsuppsaga hefur dregist vegna anna dómarans en sakflytjendur hafa lýst því yfir að þeir telji ekki þörf á að endurflytja málið.
DÓMSORÐ.
Stefndi, Siglufjarðarkaupstaður er sýknaður af kröfum stefnanda, Jóhanns Stefánssonar í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.