Hæstiréttur íslands
Mál nr. 465/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Útburður
- Fjöleignarhús
- Útivist
|
Fimmtudaginn 26. ágúst 2010. |
|
|
Nr. 465/2010. |
Húsfélagið A (Grímur Sigurðsson hrl.) gegn B (enginn) |
Kærumál. Útburður. Fjöleignarhús. Útivist.
Hafnað var kröfu H um útburð B úr fasteign hans vegna hávaða, sbr. 55. gr. laga nr. 26/1994, þar sem talið var að ekki hafi legið fyrir að B hafi gerst sekur um gróf eða ítrekuð brot þegar honum var veitt áminning H þar að lútandi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. júlí 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. maí 2010, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að honum yrði heimilað að fá varnaraðila borinn út úr fasteign sinni að [...] í Reykjavík með beinni aðfarargerð og að varnaraðila yrði gert að selja eignarhluta sinn í fasteigninni. Sóknaraðili, sem ekki var viðstaddur uppkvaðningu úrskurðarins, kveður sér hafa orðið um hann kunnugt 13. júlí 2010. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að beiðni hans um aðför nái fram að ganga og að varnaraðila verði gert að selja eignarhluta sinn í fasteigninni. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Varnaraðili sótti ekki dómþing í héraði og hlaut málið því meðferð samkvæmt 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 78. gr. og 1. mgr. 84. gr. laga nr 90/1989.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður dæmist ekki.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. maí 2010.
Með beiðni, móttekinni í Héraðsdómi Reykjavíkur 7. janúar 2010, hefur sóknaraðili, Húsfélagið A, [...], Reykjavík, krafist dómsúrskurðar um að varnaraðili, B, kt. [...], [...], verði, ásamt öllu því sem honum tilheyrir, borinn út úr fasteign hans að [...], íbúð [...] í Reykjavík, með beinni aðfarargerð. Þá er þess einnig krafist að varnaraðila verði gert að selja eignarhluta sinn í fasteigninni.
Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar að mati dómsins og að fjárnám verði heimilað fyrir kostnaði málsins og af væntanlegri gerð.
Málið var þingfest og tekið til úrskurðar 23. apríl 2010.
Varnaraðili sótti ekki þing, þrátt fyrir löglega birta kvaðningu til þinghaldsins.
Í aðfararbeiðni kemur fram að varnaraðili sé eigandi og íbúi að hæð merktri [...] að [...] í Reykjavík. Mikill hávaði hafi borist úr íbúð hans að næturlagi sem hafi leitt af sér töluverð óþægindi fyrir aðra íbúa hússins. Eins og fram komi í samantekt Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 8. október 2009, úr dagbók lögreglunnar, sé töluvert um að lögregla hafi verið kölluð til vegna hávaða frá íbúð varnaraðila.
Sóknaraðili hafi samþykkt ályktun á fundi 20. júlí 2009, sem birt hafi verið varnaraðila með stefnuvotti, þar sem skorað hafi verið á eiganda og umráðamann íbúðarinnar að virða gildandi umgengnisreglur og tekið fram að yrði ekki orðið við þeirri áskorun mundi stjórnin leggja fyrir húsfélagsfund að gripið yrði til aðgerða á grundvelli 55. gr. laga um fjöleignahús.
Jafnframt hafi verið skorað á varnaraðila að láta af þeirri háttsemi sem lýst hafi verið í bréfinu og honum gerð grein fyrir afleiðingum þess að verða ekki við þeirri áskorun.
Varnaraðili hafi ekki sinnt viðvöruninni og hafi lögregla margsinnis eftir þetta verið kölluð til vegna hávaða frá íbúð hans.
Varnaraðili hafi verið boðaður til fundar með stjórn húsfélagsins 29. október 2009 og hafi tilgangur fundarins verið að fá fram afstöðu varnaraðila til þeirra áskorana sem beint hafi verið til hans og ræða leiðir til lausna. Varnaraðili hafi ekki mætt til fundarins.
Húsfundur hafi verið haldinn 9. nóvember 2009 þar sem boðað hafi verið að rætt yrði um brot varnaraðila á skyldum hans gagnvart eigendum hússins og húsfélaginu. Á fundinum hafi legið fyrir tillaga að því að beitt yrði 55. gr. laga nr. 26/1994. Varnaraðili hafi ekki mætt til fundarins. Á fundinum hafi verið samþykkt svohljóðandi tillaga:
„í ljósi grófra og ítrekaðra brota B, íbúa í íbúð [...] í húsinu [...], á skyldum sínum gagnvart eigendum hússins og Húsfélaginu A, hefur húsfélagið tekið þá ákvörðun, með vísan til 55. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, sbr. 6. tölul. B-liðar 41. gr. sömu laga, að leggja bann við búsetu og dvöl hans í húsinu. Þá samþykkir húsfundur að B verði gert að flytja úr húsinu og selja eignarhluta sinn, með vísan til sömu lagaákvæða“
Með bréfi dags. 12. nóvember 2009, sem birt hafi verið fyrir varnaraðila með stefnuvotti, hafi honum verið tilkynnt þessi ákvörðun, jafnframt því sem honum hafi verið gert að flytja úr húsinu fyrir 20. desember 2009 og selja eignarhluta sinn, svo fljótt sem auðið yrði, en þó eigi síðar en 15. janúar 2010.
Sóknaraðili telji framangreint ástand með öllu ólíðandi og óþolandi fyrir aðra íbúa hússins enda sé ekki svefnfriður í húsinu heilu og hálfu næturnar. Sóknaraðili kveður varnaraðila hafa ítrekað brotið reglur og samþykkir húsfélagsins með hávaða sem ekki sé boðlegur í fjölbýlishúsi og þar sem varnaraðili hafi ekki sinnt réttmætum kvörtunum og aðvörunum sóknaraðila sé sóknaraðila nauðugur sá kostur einn að óska eftir útburði varnaraðila á grundvelli 5. mgr. 55. gr. laga nr. 26/1994.
Um lagarök vísar sóknaraðili til laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús og laga nr. 90/1989 um aðför.
Niðurstaða:
Varnaraðili hélt ekki uppi vörnum gagnvart kröfum sóknaraðila. Verður því við úrlausn málsins að styðjast við atvikalýsingu sóknaraðila í aðfararbeiðni hans og einnig við þau skjöl sem hann lagði fyrir dóminn til stuðning kröfum sínum.
Í 1. mgr. 55. gr. laga nr. 26/1994 er kveðið á um það að ef eigandi húss, annar íbúi eða afnotahafi gerist sekur um gróf eða ítrekuð brot gegn skyldum sínum gagnvart húsfélaginu eða eigendum, einum eða fleirum, þá geti húsfélagið með ákvörðun skv. 6. tölul. B-liðar 41. gr. lagt bann við búsetu og dvöl hins brotlega í húsinu, gert honum að flytja og krafist þess að hann selji eignarhluta sinn.
Samkvæmt 2. mgr. tilvitnaðrar 55. gr. skal húsfélag áður en það grípur til aðgerða skv. 1. mgr. a.m.k. einu sinni skora á hinn brotlega að taka upp betri siði og vara hann við afleiðingum þess ef hann lætur sér ekki segjast.
Fyrir húsfund 20. júlí 2009 var lagt bréf C og D þar sem kvartað var yfir hávaða og röskun á svefnfriði frá íbúð varnaraðila. Var samþykkt á fundinum að beina til varnaraðila áskorun, skv. 2. mgr. 55. gr. laga nr. 26/1994, um að virða gildandi umgengnisreglur.
Samkvæmt samantekt lögreglu hafði henni þann 21. júlí 2009, en aðvörunin er dagsett þann dag, í tvígang frá 1. nóvember 2008 borist tilkynningar um hávaða frá íbúð varnaraðila. Í öðru tilvikinu var hávaðinn hættur þegar lögregla hafði tök á að sinna útkallinu en í hinu tilvikinu hafði lögregla sannanlega afskipti af varnaraðila vegna hávaða. Öðrum gögnum, sem á verður byggt, er ekki til að dreifa um meint brot varnaraðila.
Liggur þannig ekki fyrir að varnaraðili hafi gerst sekur um gróf eða ítrekuð brot þann 20. júlí 2009 er ákvörðun var tekin um að senda honum aðvörunina. Verður því að telja að ekki hafi verið tilefni þá til að skora á varnaraðila að taka upp betri siði og vara hann við afleiðingum þess ef hann léti sér ekki segjast, þ.e. að gripið yrði til aðgerða samkvæmt 55. gr. laga nr. 26/1994.
Samkvæmt samantekt lögreglu barst henni ein tilkynning um hávaða frá íbúð varnaraðila til viðbótar áður en honum var birt áskorunin eða 22. júlí 2009. Fór lögreglan á vettvang og bað varnaraðila að minnka hávaðann.
Fimm tilkynningar um hávaða bárust samkvæmt samantektinni eftir þetta. Þar af einungis tvær þar sem lögregla fór sannanlega á vettvang og hafði afskipti af sóknaraðila vegna hávaða frá íbúð hans.
Fyrir liggur að húsfélagið tók þann 9. nóvember 2009 ákvörðun samkvæmt 1. mgr. 55. gr. laga nr. 26/1994 og lagði bann við búsetu hans og dvöl í húsinu. Þá var samþykkt að honum yrði gert að flytja úr húsinu.
Með hliðsjón af því sem áður greinir um að ekki liggi fyrir að varnaraðili hafi gerst sekur um gróf eða ítrekuð brot þegar ákveðið var að senda honum aðvörun samkvæmt 2. mgr. 55. gr. laga 26/1994 verður ekki talið að skilyrði hafi verið til töku ákvörðunar samkvæmt 1. mgr. 55. gr. laganna þann 9. nóvember 2009. Samkvæmt því verður ekki hjá því komist að hafna kröfum sóknaraðila í máli þessu.
Ekki eru efni til þess að mæla fyrir um heimild til fjárnáms fyrir kostnaði af væntanlegri gerð vegna ákvæða 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989.
Málskostnaður úrskurðast ekki.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Kröfu sóknaraðila, Húsfélagsins A, er hafnað.