Hæstiréttur íslands
Mál nr. 21/2007
Lykilorð
- Brot gegn valdstjórninni
|
|
Miðvikudaginn 16. maí 2007. |
|
Nr. 21/2007. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn X (Steingrímur Þormóðsson hrl.) |
Brot gegn valdstjórninni.
X voru gefin að sök brot gegn 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa gert lögreglumanni tálmanir í að gegna skyldustarfi sínu á þann hátt að loka hliði á kartöfluakri með streng og leggja fyrir hliðið og jafnframt að hafa á sama akri ýtt við öðrum lögreglumanni þar sem hann var við skyldustörf að reyna að hafa tal af ökumanni dráttarvélar og þvingað hann upp að vélinni. Ekki var talin komin fram lögfull sönnun þess að X hefði gerst sekur um það sem honum var gefið að sök. Var hann því, með vísan til 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sýknaður af sakargiftum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 19. desember 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu en þyngingar á refsingu.
Ákærði krefst þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til nýrrar málsmeðferðar, en til vara krefst hann sýknu.
I.
Krafa ákærða um ómerkingu er aðallega reist á því að héraðsdómur hefði átt að vera fjölskipaður samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Kröfunnar var hvorki getið í bréflegri tilkynningu ákærða til ríkissaksóknara um áfrýjun málsins né í greinargerð hans fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 151. gr. og a. lið 2. mgr. 155. gr. laga nr. 19/1991, þrátt fyrir að þá lægi fyrir að einn dómari hafi dæmt málið. Er krafan því of seint fram komin og verður ekki tekin afstaða til hennar.
II.
Í lýsingu héraðsdóms á málsatvikum kemur fram að B lögreglumaður, sem var við vegaeftirlit, hafi hitt ökumann tiltekinnar bifreiðar þar sem hann var kominn upp í dráttarvél inni á kartöfluakri. Af gögnum málsins verður hins vegar ekki séð að upplýst hafi verið hver var ökumaðurinn bifreiðarinnar greint sinn. Einnig er fullyrt að ákærði hafi verið að strengja eins strengs girðingu fyrir opið á hliði þegar lögreglumaðurinn A kom þar að á lögreglubifreið svo og að ákærði hafi neitað að opna hliðið, þrátt fyrir ítrekaða beiðni A. Jafnframt hafi ákærði lagt bifreið sinni þannig fyrir hliðið að ómögulegt hafi verið að opna það og aka lögreglubifreiðinni inn á akurinn. Þessi atriði eru umdeild í málinu. Að öðru leyti er atvikum rétt lýst í héraðsdómi. Þá er framburði ákærða og vitna þar rétt lýst.
Í 1. lið ákæru er ákærða gefið að sök brot gegn 2. mgr. 106 gr. almennra hegningarlaga 19/1940 með því að hafa „gert lögreglumanninum A tálmanir í að gegna skyldustarfi sínu er ákærði lokaði hliði að akrinum með streng og lagði bifreið fyrir hliðið er lögreglumaðurinn hugðist aka lögreglubifreið inn á akurinn til að aðstoða lögreglumanninn B við skyldustörf er tengdust ætluðum umferðarlagabrotum sonar ákærða.“
Vitnið A bar í skýrslu hjá lögreglu og fyrir dómi að þegar hann hafi komið að umræddu hliði hafi ákærði verið að loka því með vír. A hafi óskað eftir að aka inn á akurinn til aðstoðar félaga sínum, en því hafi ákærði neitað. Hann hafi þá ítrekað beiðni sína, en ákærði ekki orðið við henni heldur lagt bifreið sinni þvert fyrir hliðið. Kvaðst A þá hafa lagt af stað fótgangandi til starfsfélaga síns. Ákærði hefur neitað sakargiftum. Í skýrslu fyrir dómi kvaðst hann hafa verið að taka strenginn úr 12 metra breiðu hliðinu þegar A bar að garði. Hann sagðist ekki vita hver hafi sett strenginn síðast fyrir hliðið. Það væri vinnuregla að sá sem síðast færi um hliðið lokaði því. Strengurinn hafi verið með krækju og því hefði lögreglumaðurinn auðveldlega getað tekið hann frá og hann hafi ekki bannað honum það. Kvaðst ákærði hafa lagt lítilli bifreið sinni við hliðið og hún ekki getað hindrað akstur lögreglumannsins inn á akurinn. Óumdeilt er að ákærði ók bifreið sinni á brott þegar A lagði af stað fótgangandi inn á akurinn. Ekki er fram komið að ákærði hafi lagt bifreið sinni fyrir hliðið þannig að lögreglubifreiðin hafi ekki getað komist inn á akurinn. Engin vitni voru heldur að þessum samskiptum ákærða og A. Gegn neitun ákærða og með vísan til 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991 telst því ósannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum lið ákæru. Verður hann því sýknaður af þessum sakargiftum.
III.
Í 2. lið ákæru er ákærða gefið að sök brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa „ýtt við lögreglumanninum C þar sem hann var við skyldustörf að reyna að hafa tal af ökumanni dráttarvélar og þvingað hann upp að dráttarvélinni.“
Vitnið C sagði við rannsókn málsins að ákærði hafi sett öxlina í sig, gripið í bretti umræddrar dráttarvélar og ýtt við sér þannig að hann hafi „hálfpartinn“ klemmst milli ákærða og vélarinnar. Fyrir dómi bar hann að hann hafi staðið fyrir aftan fremra hjól dráttarvélarinnar þegar ákærði hafi „keyrt utan í síðuna“ á sér, skellt sér utan í vélina og þröngvað upp að henni. Vitnið A bar hjá lögreglu að C hafi stokkið upp á vélina og þá hafi ákærði rifið aftan í C og togað hann niður af vélinni. Fyrir dómi sagði vitnið að ákærði hafi komið aftan að C og rifið eða togað í hann og þeir lögreglumennirnir í framhaldi af því tekið ákærða tökum, en ákærði hafi hangið í frambrettinu á dráttarvélinni. Í lögregluskýrslu þriðja lögreglumannsins, B, er eftir honum haft að ákærði hafi stokkið til og rifið í C þar sem hann stóð á dráttarvélinni. Fyrir dómi dró hann þennan framburð til baka og kvaðst ekki hafa séð þetta, hann hafi komið að dráttarvélinni þegar þrír lögreglumenn voru að yfirbuga ákærða. D lögregluvarðstjóri kvaðst fyrir dómi hafa staðið uppi á bretti dráttarvélarinnar í því skyni að hafa afskipti af ökumanni hennar þegar hann varð þess var að ákærði hélt sér í handföng stýrishússins. Hann hafi snúið baki í ákærða og ekki séð hvað fram fór. Ákærði hafi verið að skipta sér af störfum lögreglu og hann hafi í framhaldinu verið handtekinn. Ákærði hefur neitað sakargiftum. Hann heldur því fram að hann hafi farið að dráttarvélinni til að kanna hvort hún væri í lagi og koma í veg fyrir að kartöflur hryndu af henni. Kveðst hann hvorki hafa ýtt við C né stuggað við honum á annan hátt.
Af framburði lögreglumannanna fimm sem komu á vettvang er ljóst að ákærði truflaði störf lögreglumannanna á vettvangi. Ákæruefni þessa liðar ákæru lýtur hins vegar að því að hann hafi ýtt við lögreglumanninum C við skyldustörf og þröngvað honum upp að dráttarvélinni, eins og nánar hefur verið lýst. Framburður lögreglumannanna sem rakinn hefur verið hér að framan er misvísandi um atvik eftir að ákærði kom að dráttarvélinni og einn þeirra þriggja dró framburð sinn til baka við yfirheyrslu fyrir dómi án þess að gefa skýringu á því hverju það sætti. Öðrum gögnum eða framburði vitna er ekki til að dreifa sem styðja fyrrnefndan framburð C. Þegar til þessa er litið er ekki komin fram lögfull sönnun þess að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er að sök gefin í þessum lið ákæru og verður hann því með vísan til 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991 sýknaður af henni.
Eftir þessum málsúrslitum ber að greiða allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærða í héraði og fyrir Hæstarétti allt eins og nánar greinir í dómsorði. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts af málsvarnarlaunum.
Dómsorð:
Ákærði X er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.
Allur sakarkostnaður í héraði og áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði, Þormóðs Skorra Steingrímssonar héraðsdómslögmanns, 306.086 krónur, og skipaðs verjanda hans í Hæstarétti, Steingríms Þormóðssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 5. desember 2006.
Mál þetta var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 16. júní 2006, á hendur X [kennitala] [heimilisfang], „fyrir brot gegn valdstjórninni þriðjudaginn 27. september 2005, um hádegisbil, á kartöfluakri við [...] í Rangárvallasýslu:
1. Með því að hafa gert lögreglumanninum A tálmanir í að gegna skyldustarfi sínu er ákærði lokaði hliði að akrinum með streng og lagði bifreið fyrir hliðið er lögreglumaðurinn hugðist aka lögreglubifreið inn á akurinn til að aðstoða lögreglumanninn B við skyldustörf er tengdust ætluðum umferðarlagabrotum sonar ákærða.
Telur ákæruvaldið brot ákærða varða við 2. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
2. Með því að hafa ýtt við lögreglumanninum C þar sem hann var við skyldustörf að reyna að hafa tal af ökumanni dráttarvélar og þvingað hann upp að dráttarvélinni.
Telur ákæruvaldið brot þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“
Aðalmeðferð fór fram 6. nóvember 2006 og var málið dómtekið sama dag.
Ákærði krafðist sýknu auk þess sem verjandi ákærða krafðist málskostnaðar.
Málsatvik:
Upphaf máls þessa er að lögreglan á Hvolsvelli var við hefðbundið umferðareftirlit þann 27. september 2005 í námunda við [...]. Við eftirlitið varð lögreglumaðurinn vitni að umferðarlagabroti ökumanns bifreiðarinnar [...] og veitti bifreiðinni því eftirför. Lögreglumaðurinn sá hvar bifreiðinni var lagt inni á kartöfluakri við þjóðveg 1 og fór á eftir honum þangað. Hitti hann ökumann bifreiðarinnar þar sem hann var kominn upp í dráttarvél. Lögreglumaðurinn bað meintan ökumann ítrekað að koma og ræða við sig, þar sem hann þurfti að fá hjá honum persónuupplýsingar, en ökumaðurinn neitaði. Fór svo að lögreglumaðurinn, B, hafði samband við A, varðstjóra hjá lögreglunni á Hvolsvelli, og óskaði eftir aðstoð. Þegar A kom á lögreglubifreið að [...], sá hann fyrri lögreglubifreiðina inni á kartöfluakrinum og ætlaði að aka þangað sjálfur. Þá stóð ákærði við hliðið inn á akurinn og var að strengja eins strengs girðingu fyrir hliðopið. A bað ákærða að opna fyrir sig hliðið en ákærði neitaði og sagði A ekkert erindi eiga inn á akurinn. Sagðist A vera kominn til að aðstoða fyrri lögreglumann við skyldustörf en ákærði áréttaði við hann að hann hefði enga heimild til að fara inn á einkalóð. Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir lögreglumannsins neitaði ákærði að opna hliðið og lagði bifreið sinni þannig fyrir hliðið að ómögulegt var að opna það og aka lögreglubifreiðinni inn á akurinn. Lagði A því bifreið sinni fyrir utan hliðið og fór fótgangandi inn á akurinn til að aðstoða við rannsókn upphaflega málsins. Í beinu framhaldi ók ákærði hratt fram hjá A inn í kartöflugarðinn þar sem tvær dráttarvélar voru staðsettar, önnur dró vagn með kartöflusekkjum en hin hafði í drætti upptökuvél með stórum færibandsrana sem dældi kartöflum í sekki á vagn hinnar vélarinnar. Ákváðu lögreglumennirnir að bíða eftir að ökumaður [...] kæmi til baka en hann ók dráttarvél í aðliggjandi kartöflugarði. Dráttarvélin hefði átt að koma upp garðinn og ætluðu þeir þá að ná sambandi við ökumanninn. Á meðan þeir biðu sáu þeir að rauðri Nissan-bifreið var ekið inn á kartöfluakurinn að bifreið ákærða þar sem karlmaður steig út úr Nissan-bifreiðinni og var bifreiðinni síðan ekið til baka út af akrinum að [...]. Sá A að þrír karlmenn voru komnir í bifreið ákærða auk hans. Í framhaldi ákvað A að hafa samband við lögregluna á Selfossi og óska eftir liðsauka. Mat A aðstæður þannig að vegna öryggis þeirra sjálfra væri nauðsynlegt að fá frekari aðstoð. Ákvað lögreglan að reyna ekki að aka inn á akurinn, þar sem ökumaður [...] var að vinna, þar sem þeir voru eingöngu á fólksbifreið en þeir töldu auk þess að akstur þeirra myndi skemma uppskeruna. Á meðan þeir biðu eftir að ökumaður [...] kæmi til baka, og eftir aðstoð frá Selfossi, fór ákærði ásamt vinnumönnum sínum aftur að vélunum tveimur sem höfðu staðið á akrinum og héldu áfram að taka upp kartöflur. Hafði þá sýslumaðurinn á Hvolsvelli símasamband við A og sagði að ákærði hefði hringt og sakað lögregluna um að vera með valdníðslu. Hefði ákærði sagt sýslumanni að hann gæti ekki misst þennan mann, sem lögreglan ætlaði að ná tali af, úr vinnu og hvort hann mætti ekki koma á lögreglustöðina um kvöldið. Var því hafnað af lögreglunni þar sem ekki var vitað hver hinn meinti ökumaður var og þá hvers vegna hann vildi ekki ræða við lögregluna en hann hefði ekki sinnt stöðvunarmerkjum lögreglunnar. Þegar liðslauki barst frá Selfossi, sem voru tvær lögreglubifreiðar ásamt þremur lögreglumönnum, ítrekaði lögreglan við ákærða að þeir þyrftu að ná til ökumanns [...] þar sem þeir vissu ekki deili á honum. Ákærði benti þá í áttina að [...] og sagði: „Strákar, hliðið er þarna.“ Var enn ítrekað við ákærða að málið þyrfti ekki að taka langan tíma en nauðsynlegt væri að ná til ökumanns [...]. Írekaði ákærði enn hvar hliðið væri. Lögreglumennirnir sáu, þegar þarna var komið, að engu skynsamlegu sambandi yrði náð við ákærða þar sem hann var fastur á þeirri skoðun að lögreglan væri inni á svæðinu í heimildarleysi. Fóru lögreglumennirnir því frá bifreið ákærða að lögreglubifreið B sem fyrst kom á staðinn. Í framhaldi ók önnur dráttarvélin, sem var með kartöfluupptökuvélina með færibandsrananum, úr kartöflugarðinum áleiðis að garðinum þar sem ökumaður [...] var að vinna. Þegar vélin ók fram hjá lögreglubifreiðinni þar sem A stóð, setti ökumaður vélarinnar færibandsranann í gang þannig að töluvert magn af kartöflum hrundi yfir lögreglumanninn og lögreglubifreiðina. Kallaði A þá til hinna lögreglumannanna sem voru á staðnum og bað þá að stöðva vélina og ræða við ökumanninn, en þá stökk ákærði út úr bifreið sinni og á eftir lögreglumönnunum. Ákærði hefði verið mjög æstur og því hefðu þrír lögreglumenn tekið ákærða og sett hann í lögreglutök. Ákærði brautst um og reyndi að sleppa frá þeim þannig að lögreglumennirnir lögðu ákærða á jörðina og settu hann í handjárn.
Í lögregluskýrslu B lögreglumanns kemur fram að lögreglan hefði sætt hótunum frá ákærða nánast allan tímann sem þeir voru á svæðinu. Ákærði hefði ítrekað sagt að hann hefði ekkert við lögregluna að tala og sífellt bent á hliðið, sagt að hann ætti landið og þeir væru þarna í óþökk ákærða.
Framburður fyrir dómi:
Ákærði kom fyrir dóminn. Ákærði sagði að hann hefði verið að vinna á akrinum um morguninn og allt í einu hefði lögreglubifreið verið komin inn á akurinn en í henni hefði verið einn lögreglumaður. Sagði ákærði að hann hefði ekki vitað hvert erindið væri og því hringt í sýslumanninn á Hvolsvelli sem hefði ekki vitað um hvað málið snerist. Sagði ákærði að hann hefði verið á leið út úr garðinum þegar önnur lögreglubifreið kom að hliðinu en ákærði hefði verið um það bil að taka strenginn úr hliðinu. Sagði hann að umrætt hlið inn á akurinn væri um 12 metra breitt og því um op að ræða frekar en hlið. Sagði ákærði að hann hefði ekki fengið upp úr lögreglumanni þeirrar bifreiðar hvert erindið væri, eingöngu væri um lögregluaðgerð að ræða. Ákærði sagðist hafa þekkt seinni lögreglumanninn en hann hefði ekki hindrað hann í að fara inn á akurinn. Ákærði sagðist hafa hætt við að opna hliðið inn á akurinn en lögreglumaðurinn hefði sjálfur getað opnað það ef hann ætlaði sér. Ákærði sagði að bilið inn á akurinn væri það breitt að ekkert mál hefði verið fyrir lögregluna að fara inn á akurinn. Ákærði sagðist ekki hafa lagt bifreið sinni svo að lögreglubifreiðin ætti ekki að hafa komist fram hjá og neitaði því að lögreglubifreiðin hefði þurft að aka út fyrir veg til að komast inn á akurinn, það hefði verið nægilegt pláss til að komast þangað. Ákærði sagði að lögreglumaðurinn hefði ekki sagt sér neitt um það í hvaða erindum lögreglan væri inni á svæðinu. Ákærði sagðist hafa farið á bifreið sinni aftur inn á akurinn og farið yfir til hinna vinnumannanna sem voru að störfum á akrinum og sagt þeim að hann vissi ekki hvað væri í gangi en allt væri að fyllast af lögreglumönnum. Sagðist ákærði hafa ráðfært sig við mennina tvo og þá hvað þeir ættu að gera næst en þeir hefðu ekki vitað í hvaða tilgangi lögreglan væri á staðnum. Þá hafi ákærði ákveðið að hringja í sýslumann aftur en þá hefðu þrír lögreglumenn verið að koma á svæðið til viðbótar. Sagði hann að sýslumaður hefði ekki getað svarað sér hvað um væri að ræða. Vinnumennirnir hefðu þá tekið þá ákvörðun að halda áfram vinnu á akrinum. Ákærði sagðist ekki hafa rætt neitt frekar við lögreglumennina og hann hefði ekkert haft við þá að tala. Ákærði sagðist aldrei hafa nálgast lögreglumennina eftir að hann kom aftur niður á akurinn en hann vissi ekkert hvað þeir voru að gera á svæðinu. Ákærði sagði að lögreglumennirnir hefðu aldrei tjáð sér í hvaða erindum þeir væru og hann hefði ekki vitað fyrr en eftir að allt var yfirstaðið í hvaða tilgangi lögreglan kom á vettvang. Aðspurður neitaði hann að hafa rætt um erindi lögreglunnar við starfsmenn sína þrátt fyrir að þeir segðu annað. Sagði ákærði að í framhaldi hefðu starfsmenn hans haldið áfram að vinna og þurft að aka efst upp í akurinn þar sem lögreglubifreiðin stóð. Þeir hefðu ekið nærri lögreglumönnunum og þar sem lögreglan hefði ekki gefið þeim nein sérstök merki um að stöðva þá hefðu þeir haldið akstri áfram og verið komnir svo nærri lögreglumönnunum að þeir hefðu þurft að hörfa því annars hefði skapast hætta. Ökumenn dráttarvélanna hefðu síðan ekið sitt hvoru megin við lögreglubifreiðina því það hefði verið svo þröngt fyrir þær að athafna sig á þeim stað. Þegar önnur upptökuvélin fór fram hjá lögreglubifreiðinni hefði einhver truflun orðið hjá ökumanni hennar með þeim afleiðingum að kartöflur hrundu yfir lögreglubifreiðina og lögreglumanninn. Í framhaldi hefðu að minnsta kosti þrír lögreglumenn hlaupið að dráttarvélinni en ökumaðurinn hefði samt haldið áfram akstri, hann hefði ekki heyrt í lögreglumönnunum. Sagði ákærði að hann hefði séð einn lögreglumann stíga upp á bretti á dráttarvélinni. Ákærði hefði þá farið út úr bifreið sinni til að kanna hvort einhver bilun hefði orðið í dráttarvélinni og til að ræða við ökumann vélarinnar. Það hefði verið ætlun sín að hamla gegn því að missa frekari kartöflur í jörðina. Sagði ákærði að einn lögreglumaður hefði staðið fyrir aftan lögreglumanninn sem var í tröppunni á dráttarvélinni en fleiri lögreglumenn hefðu verið þar fyrir aftan. Ákærði sagðist hafa ætlað að ná tali af ökumanninum, hann hefði nálgast dráttarvélina mjög rólega og af mikilli gát. Þarna hefði verið einhver aðgerð í gangi, fimm lögreglumenn og það vel búnir. Sagðist ákærði hafa komist upp að framdekki dráttarvélarinnar en hann hefði gætt þess að stugga ekki við lögreglumönnunum. Ákærði neitaði því að hafa komið að lögreglumanni upp við dráttarvélina, hann hafi verið tekinn hálstaki um leið og hann var kominn að framdekki vélarinnar. Ákærði sagðist aldrei hafa séð þann lögreglumann sem tók hann tökum, hann hefði aldrei séð andlitið á þeim manni. Ákærði sagði að sér hefði brugðið við og til að verjast falli hefði hann gripið í frambretti dráttarvélarinnar. Í framhaldi hefði hann verið handtekinn og handjárnaður. Ákærði sagði að skurður væri á milli akursins þar sem ofangreindur atburður átti sér stað og akursins þar sem ökumaður [...] var að vinna en það hafi verið sjónlína á milli þeirra, en um 70 metrar væru á milli þess staðar sem ökumaður [...] hefði byrjað að vinna á og þar sem lögreglumennirnir voru. Ákærði kannaðist ekki við að hafa haft á orði að hann mætti ekki missa ökumann [...] úr vinnu eða hafa lagt til að hann kæmi til lögreglunnar um kvöldið.
B [kennitala], lögreglumaður kom fyrir dóminn. Sagði B að hann hefði farið inn á akurinn hjá ákærða í eftirför vegna umferðarlagabrots en sá aðili hefði farið inn á akurinn í beinu framhaldi af eftirförinni. B ók að bifreiðinni [...] en þá fór ökumaðurinn upp í dráttarvél. B sagðist hafa stöðvað ökumanninn og rætt við hann. Ökumaðurinn hefði spurt sig hvort hann væri einn sem og B sagðist vera og þá hefði ökumaðurinn sagt að hann hefði ekkert við hann að tala. Eftir nokkur orðaskipti hefði ökumaðurinn ekið á brott inn á kartöfluakurinn. B óskaði þá í framhaldi eftir aðstoð. Á meðan hann beið eftir aðstoð hefði ákærði komið að sér og bent sér á að hann væri inni á einkalandi og óskað eftir því að hann yfirgæfi staðinn. B sagði ákærða þá að það þyrfti að ná sambandi við ökumann [...] vegna umferðarlagabrots. Bsagðist hafa upplýst ákærða um að hann væri að bíða eftir aðstoð og þá hefði ákærði farið upp í bifreið sína og ekið hring fyrir framan sig og spólað og ekið upp að hliðinu inn á akurinn. B sagðist ekki hafa orðið vitni að því hvað gerðist upp við hliðið, A hefði komið gangandi að sér frá hliðinu. B sagði að þegar hann kom upphaflega að hliðinu inn á akurinn þá hefði hann ekið viðstöðulaust inn á akurinn, ekkert hlið hefði verið fyrir hliðopinu. B sagði A lögreglumann hafa tjáð sér að hann hefði verið hindraður í að fara inn á kartöfluakurinn. Í framhaldi hefði verið beðið um frekari aðstoð og þeir ekkert aðhafst á meðan. Ákærði hefði í millitíðinni stöðvað tvær dráttarvélar sem voru við vinnu á akrinum og tekið ökumenn þeirra upp í bifreiðina til sín. Sagði B að lögreglumennirnir sem komu til aðstoðar hefðu lagt bifreiðum sínum uppi á þjóðvegi. Sagði B að eftir að liðsaukinn barst frá Selfossi hefði dráttarvélunum með upptökuvélunum verið ekið upp að lögreglubifreiðinni sem var inni á akrinum og færibandið ræst svo að kartöflur hrundu yfir lögreglubifreiðina og lögreglumann sem var við bifreiðina. Í framhaldi reyndu lögreglumenn að stöðva dráttarvélina og í beinu framhaldi af því hefði ákærði komið að vélinni. B sagðist ekki hafa orðið vitni að því þegar ákærði var handtekinn. Hann hefði fyrst séð þegar lögreglan var að reyna að losa ákærða af dráttarvélinni. Ekki væri rétt sem kæmi fram í lögregluskýrslu að hann hefði séð ákærða rífa í C lögreglumann. Aðspurður um það hvers vegna framburður hans væri annar fyrir dómi en í lögregluskýrslu gat hann ekki útskýrt það frekar, en hann hefði ekki séð atburðinn sjálfan.
A [kennitala], lögreglumaður kom fyrir dóminn. Sagði hann aðdragandann að atburði þessum vera þann að B lögreglumaður hefði haft samband við sig og óskað eftir aðstoð þar sem ökumaður [...] neitaði að ræða við sig. Þegar hann kom að kartöflugarðinum við [...] hefði ákærði staðið við hliðið og verið að loka því með vírstreng. A bað ákærða um að opna hliðið en ákærði neitaði. A sagðist hafa margbeðið ákærða um að opna en ákærði margneitað. Ákærði hefði verið á bifreið og þegar A hefði farið út úr lögreglubifreiðinni hefði ákærði farið upp í sína bifreið og lagt henni fyrir hliðið. A hefði þá ákveðið að ganga til lögreglumannsins sem þegar var inni á kartöfluakrinum en þangað hefðu verið um 200 metrar. Ákærði hefði þá farið inn í bifreið sína og ekið inn á akurinn um leið og A gekk inn á akurinn en A sagðist ekki hafa getað ekið fram hjá ákærða inn á svæðið þar sem ákærði hefði lagt sendibifreið sinni þversum fyrir hliðið. A sagðist hafa upplýst ákærða um að hann væri kominn til að aðstoða lögreglumann við rannsókn á umferðarlagabroti en þær umræður hefðu farið fram þegar þeir voru við hliðið að akrinum. Ákærði hefði verið reiður, hann hefði lýst því yfir að lögreglan hefði ekkert inn á akurinn að gera því þetta væri einkaland. A sagði að ákærði hefði síðan ekið frá hliðinu, niður í akurinn að dráttarvélum og hann hefði séð tvo menn fara inn í bifreiðina hjá ákærða. Ákærði hefði síðan ekið í átt að lögreglubifreiðinni og lagt bifreið sinni. Síðan hefði fjórði maður komið akandi til ákærða og A þá metið stöðuna svo að lögreglan þyrfti frekari aðstoð. A sagðist hafa sagt ákærða að lögreglan þyrfti að ná tali af ökumanni [...] og þeir myndu ekki fara fyrr en því væri lokið. Ákærða hefði því verið fullljóst frá upphafi í hvaða tilgangi lögreglan var komin á staðinn. Aðstoð barst frá lögreglunni á Selfossi en lögreglumennirnir lögðu bifreiðum sínum uppi á þjóðvegi. Hefðu þeir síðan komið gangandi niður í karftöflugarðinn. Þá hefðu lögreglumenn enn rætt við ákærða og lýst erindinu fyrir honum. Dráttarvélar sem voru að vinna í garðinum hefðu síðan komið akandi að lögreglubifreiðinni og um leið og þeim var ekið fram hjá hefði færiband annarrar vélarinnar verið sett af stað og kartöflum rignt yfir sig. A sagði aðra lögreglumenn þá hafa hlaupið að dráttarvélinni og annaðhvort C eða D hefði stigið upp á tröppur á dráttarvélinni og þá hefði hann séð ákærða koma og rífa í C. Í framhaldi hefði ákærði verið handtekinn og handjárnaður. A sagðist hafa séð ákærða toga annaðhvort í höndina eða jakkann á C en hann hefði ekki verið alveg ofan í þeim og því ekki séð það svo nákvæmlega. A sagðist hafa verið að fylgjast með dráttarvélinni sem ökumaður [...] var að aka og hefði ætlað að ná tali af honum á sama tíma og ákærði var handjárnaður. A sagði, aðspurður um það hvers vegna þeir hefðu verið fyrir dráttarvélinni með kartöfluupptökuvélina þegar kartöflurnar hrundu yfir lögregluna, að það hefði verið tilviljun að lögreglubifreiðinni hefði verið lagt þar í upphafi. Dráttarvélarnar hefðu ekið að þeim síðar án nokkurs fyrirvara eða viðvarana.
Í lögregluskýrslu sagði A að þegar kartöflum hefði rignt yfir lögreglubifreiðina hefði lögreglan stokkið til og ætlað að ræða við E en ákærði þá stokkið til og rifið í C lögreglumann þar sem hann stóð á vélinni hjá E.
Aðspurður fyrir dómi hvar C hefði staðið þegar ákærði þreif í hann, sagðist A ekki geta sagt til um það hvort hann hefði verið búinn að stíga upp í tröppuna á dráttarvélinni eða ekki, sjónarhorn hans þegar ákærði þreif í lögreglumanninn hefði verið þannig að hann hefði staðið við vinstri hlið lögreglubifreiðarinnar og horft á ská aftan frá á dráttarvélina og afturdekk vélarinnar hefði því verið á milli þeirra. A sagði, aðspurður um misræmi í lögregluskýrslu og fyrir dómi, að hafi hann skrifað í lögregluskýrslu að C hefði verið að stíga upp í tröppu á dráttarvélinni þegar ákærði þreif í hann, þá væri það rétt.
C [kennitala] fyrrverandi lögreglumaður á Selfossi, kom fyrir dóminn. C sagðist hafa komið að [...] í Rangárvallasýslu samkvæmt beiðni. Þegar hann kom á staðinn sá hann að lögreglubifreið var lagt við hliðið inn á kartöfluakurinn og lokaði hún fyrir innkeyrsluna svo hann hefði lagt bifreið sinni á þjóðveginum og gengið á vettvang. Þar fékk C upplýsingar um málavöxtu en ákveðið var að lögreglan héldi sig til hlés en yrði lögreglunni frá Hvolsvelli til aðstoðar. Sá C þá að dráttarvél með kartöflutínsluvél var ekið að lögreglubifreiðinni sem var á vettvangi og að kartöflur hrundu yfir hana. Var þá skipun gefin um að stöðva umrædda dráttarvél og hefði hann þá ásamt F lögreglumanni hlaupið til. D lögreglumaður hefði þá stigið upp á stigbretti á dráttarvélinni og rætt við ökumanninn. Sagði C að hann hefði verið kominn upp að dráttarvélinni og staðið fyrir aftan framdekkið þegar hann fann skyndilega að þrýst var utan í síðuna á sér, hann hefði skollið utan í hliðina á dráttarvélinni og honum verið þröngvað upp að vélinni. Sagði C að ákærði hefði þrýst síðunni á sjálfum sér upp að síðunni á sér og það fast. C sagðist hafa skipað ákærða að hætta en ákærði hefði þá gripið í bretti á dráttarvélinni og spennt hann upp að dráttarvélinni. C sagðist hafa ítrekað skipað ákærða að víkja frá sem ákærði hefði ekki hlýtt. Í framhaldi hefði hann tekið ákærða í lögreglutök og ákærði hefði síðan verið handtekinn og settur í handjárn. Þegar þetta gerðist hefði D snúið í sig baki. C sagðist ekki geta svarað því hvort ákærði hefði rifið í sig áður en hann þrýsti honum upp að dráttarvélinni en hann sagðist ekki hafa staðið í tröppum dráttarvélarinnar þegar atburðurinn átti sér stað. C sagðist hafa staðið þannig að hann hefði snúið að dráttarvélinni fyrir neðan D og horft í átt til hans þegar ákærði kom að honum og þrýsti honum upp að dráttarvélinni.
D [kennitala] lögreglumaður kom fyrir dóminn. D sagði að þegar hann kom á vettvang hefði hann ekki komist inn um hliðið að kartöfluakrinum þar sem lögreglubifreið hefði verið lagt fyrir framan hliðið. Hann hefði því lagt bifreið sinni á þjóðveginum og gengið á vettvang. Sagði hann að ekki hefði verið hægt að ræða við ákærða, ákærði hefði verið með skæting og vísað mönnum í burtu af akrinum; ákærði væri að taka upp kartöflur og það gengi fyrir. D sagðist hafa séð að tveir menn voru inni í dráttarvélum sem voru á staðnum. Síðan hefði hann séð dráttarvélarnar aka af stað í átt að lögreglubifreiðinni á vettvangi og allt í einu hefði kartöflum verið sturtað yfir lögreglubifreiðina. Þá hefði varðstjórinn, A, kallað til þeirra að það ætti að stöðva dráttarvélina. Hann hefði þá stokkið að dráttarvélinni og upp á stigbretti til þess að ræða við ökumanninn og skipað honum að drepa á vélinni en ökumaðurinn ekki orðið við því. D sagðist ekki hafa séð ákærða á eftir sér en ákærði hefði kallað að honum að hann mætti ekki skipta sér af manninum því hann væri þarna í vinnu. Þegar D hefði litið við þá hefði hann séð hvar ákærði hélt í bretti vélarinnar. Í framhaldi hefði verið ákveðið að handtaka ákærða og hann verið handjárnaður. Ákærði hefði síðan verið færður í lögreglubifreið og þá hefði ökumaður [...] verið kominn. Rætt hefði verið við hann og lögreglan í framhaldi yfirgefið vettvang. D sagðist ekki hafa séð ákærða veitast að C en honum hefði skilist á sínum tíma að ákærði hefði hrint C til að komast að dráttarvélinni.
F [kennitala] lögreglumaður kom fyrir dóminn. Sagðist hann hafa komið með C á vettvang. F sagðist ekki hafa tekið eftir því hvort hliðið að akrinum hefði verið lokað þegar hann kom á staðinn. Fékk hann þær upplýsingar á vettvangi að ákærði hefði komið í veg fyrir að lögreglan næði tali af ökumanni [...]. Fljótlega eftir komu F hefði dráttarvél komið akandi og ekið fram hjá lögreglubifreiðinni sem var á vettvangi og kartöflur hrunið úr vélinni yfir bifreiðina. Í framhaldi hefði verið gefin skipun um að stöðva ökumanninn sem hefði endað með handtöku ákærða. F sagði að hann hefði ekki séð þegar ákærði tók í C.
E [kennitala] sjómaður kom fyrir dóminn. Sagðist E hafa verið við störf hjá ákærða og stjórnað upptökuvél í umrætt sinn. Lögreglubifreið hefði komið akandi inn á akurinn og ákærði hefði komið til þeirra og sagt þeim að búið væri að loka aðkomunni að akrinum því lögreglubifreið hefði verið lagt þar. Ákærði hefði ekið þeim þar að og þeir í framhaldi verið að velta því fyrir sér hvernig þeir kæmu vögnum fram hjá lögreglubifreiðinni. E sagðist hafa vitað að lögreglan væri á vettvangi vegna meints hraðaksturs sonar ákærða en ákærði hefði sagt þeim frá því á staðnum. Síðan hefði verið ákveðið að halda áfram að fylla þann vagn sem þeir voru að setja kartöflur á. E sagði að hann, bróðir hans og annar til hefðu farið inn í bifreið ákærða og ráðið þar ráðum sínum. Ákærði hefði hringt í sýslumann á meðan en E ekki verið að skipta sér af því. Í framhaldi var ákveðið að halda áfram að taka upp kartöflur og þegar verið var að snúa vélinni við hefðu nokkrar kartöflur dottið af vélinni, hann hefði ekki séð hvar kartöflurnar lentu og sagðist ekki hafa neinar skýringar á því hvers vegna þær hrundu af færibandinu. Hann hefði þá stöðvað aksturinn og lögreglumaður komið upp í dráttarvélina til sín og sagðist hann hafa beðist afsökunar á því sem hefði gerst. Fyrri lögreglumaðurinn hefði staðið uppi á dráttarvélinni og síðan hefði annar lögreglumaður komið í tröppuna fyrir aftan hann. Næst hefði hann séð tvo lögreglumenn koma hlaupandi og ákærða koma gangandi. Ákærði hefði verið á vappi við hliðina á dráttarvélinni, hefði gengið að hægra framdekkinu og síðan hefði hann heyrt einhver öskur um að brjálaður maður hefði verið handtekinn. E sagðist hafa séð ákærða í framhaldi grípa í hægra frambrettið á dráttarvélinni. Lögreglumennirnir hefðu þá stokkið á ákærða og byrjað að hamast á honum. E sagðist ekki hafa séð ákærða snerta lögreglumann en hann hefði haft góða yfirsýn yfir vettvang. E sagði að þegar þeir fóru að hliðinu í upphafi hefði vírstrengur verið strengdur fyrir hliðið.
G [kennitala] [heimilisfang] sonur ákærða, kom fyrir dóminn. G sagði aðdragandann vera þann að hann hefði verið að vinna á akrinum við [...] og séð þá lögreglubifreið koma akandi inn á akurinn. Lögreglumaðurinn hefði haft samband við sig og kynnt sér ástæðu afskiptanna. G sagðist ekki hafa kannast við meint brot, hann hefði sagt lögreglumanninum hver hann væri, nafn og kennitölu. G sagðist hafa sagt lögreglumanninum að hann væri í vinnunni, og ítrekað það, auk þess sem hann hefði sagt að hann hefði ekkert meira við lögreglumanninn að tala og verið væri að trufla sig í vinnunni. G sagði lögreglumanninn hafa yfirgefið dráttarvélina þegar hann hefði gefið sterklega í skyn að hann væri að aka af stað. G sagðist hafa séð fleiri lögreglubifreiðar koma á vettvang. Síðar hefði lögreglumaður stokkið upp á dráttarvélina hjá sér, reynt að slökkva á vélinni og gert sig líklegan til að brjóta rúðu í dráttarvélinni með kylfu. Hann hefði í framhaldi farið út úr dráttarvélinni og séð þá föður sinn í jörðinni. Í framhaldi hefðu lögreglumenn rætt við hann og þeir klárað að ganga frá málum hans.
H [kennitala] fyrrverandi starfsmaður ákærða, gaf símaskýrslu fyrir dómi. Sagði hann að hann og E hefðu verið úti á akri að vinna. Ákærði hefði komið akandi til þeirra og sagt þeim að lögreglan ætlaði að handtaka G vegna umferðarlagabrots. Ákærði hefði sagt þeim að lögreglubifreið stæði í hliðinu inn á akurinn og önnur lögreglubifreið stæði inni á akrinum sem gæti verið í vegi fyrir þeim. Í framhaldi hefði ákærði haft samband við sýslumann og óskað eftir því við hann að lögreglubifreiðarnar yrðu fjarlægðar svo þeir gætu haldið áfram upptöku á kartöflum. Í framhaldi hefðu þeir farið inn í bifreið ákærða og rætt stöðuna. Þeir hefðu ekið að hliðinu og séð að þeir kæmu vögnum ekki fram hjá lögreglubifreiðinni en hliðið hefði verið lokað. Síðan hefði verið ákveðið að halda áfram að taka upp kartöflur sem og var gert. Þegar þeir fóru fram hjá lögreglubifreiðinni sem var inni á akrinum þá hefðu þeir þurft að þræða fram hjá henni þar sem mjög þröngt hefði verið. Þá hefði E rekið sig í einhvern takka og kartöflur hefðu hrunið yfir lögreglubifreiðina. Lögreglumenn hefðu þá komið hlaupandi í halarófu að hinni dráttarvélinni. Fyrsti lögreglumaðurinn hefði farið inn í dráttarvélina til að tala við E. Ákærði hefði þá komið og gengið fram fyrir lögreglumennina og taldi H að ákærði hefði ætlað að ná sambandi við E. Síðan hefðu lögreglumennirnir allt í einu stokkið á ákærða.
Niðurstöður:
Upphaf máls þessa er meint umferðarlagabrot sem lögreglumaður stóð ökumann bifreiðarinnar [...] að, en ökumaðurinn er sonur ákærða. Var honum veitt eftirför sem endaði á kartöfluakri við [...] í Rangárvallasýslu en ökumaðurinn virti ekki stöðvunarmerki lögreglu.
Samkvæmt vitnisburði B lögreglumanns, var hliðið inn á akurinn ekki lokað þegar hann kom að því, hann ók hindrunarlaust inn á akurinn, en ökumaður bifreiðarinnar var kominn upp í dráttarvél og búinn að gangsetja hana þegar hann náði til hans. Sagði B að hann hefði farið upp í dráttarvélina og óskað eftir því að ökumaðurinn kæmi inn í lögreglubifreiðina til að gefa upplýsingar um sig en ökumaðurinn neitað því. Má heyra á hljóðupptöku sem lögð var fram í málinu að ökumaðurinn, G, neitaði ítrekað að koma með lögreglumanninum en fyrir dómi sagðist G hafa gefið lögreglunni allar upplýsingar um sig. Af hljóðupptökunni má heyra allt önnur samskipti sem staðfesta framburð B. Í framhaldi óskaði B eftir frekari aðstoð og kom lögregluvarðstjórinn A á vettvang fljótlega. Þegar að ákærði vissi að aðstoð væri á leiðinni ók hann upp að hliðinu inn á akurinn. Þegar A kom að hliðinu að kartöfluakrinum var ákærði þar fyrir og var að strengja vírstreng fyrir hliðið til að loka því. Ákærði heldur því fram að hann hafi ætlað að opna hliðið og verið á leið af akrinum þegar lögreglubifreiðina bar að en hætt við það í framhaldi. Sagði ákærði að lögreglumaðurinn A hefði ekki viljað segja sér erindi sitt og hann hefði því ekkert vitað í hvaða erindagjörðum lögreglan væri inni á akrinum. Hann hefði eingöngu vitað að um lögregluaðgerðir væri að ræða.
Ákærði neitaði því, bæði í lögregluskýrslu og fyrir dómi, að hann hefði á nokkurn hátt reynt að hindra að lögreglan kæmist inn á akurinn, lögreglumaðurinn hefði sjálfur getað opnað hliðið auk þess sem hliðið væri svo breitt að þó svo að hans bifreið hefði verið við hliðið þá hefði lögreglubifreiðin leikandi komist fram hjá og inn á akurinn.
Vitnið A svo og vitnið D sögðu fyrir dómi og í lögregluskýrslu að ákærði hefði ítrekað bent lögreglunni á hliðið og gefið í skyn að þeir ættu að koma sér í burtu og að þeir væru á einkalandi sem þeir hefðu ekki heimild til að vera á. Ákærði virðist ekki í neinu hafa reynt að liðsinna lögreglunni svo hún gæti lokið verkefni sínu, sem var að ná tali af syni ákærða. Ákærði neitaði því fyrir dómi að hafa nokkuð vitað um erindi lögreglunnar fyrr en eftir að allt var yfirstaðið. Vitnin H og E, sem voru starfsmenn ákærða á þessum tíma, sögðu báðir fyrir dómi að ákærði hefði vitað erindi lögreglunnar strax í upphafi því þegar ákærði sótti þá í dráttarvélar sínar og eftir að þeir höfðu farið inn í bifreið ákærða þá hefði ákærði sagt þeim ástæðu lögreglunnar fyrir komu sinni, sem væri umferðarlagabrot G.
Öll framkoma ákærða á vettvangi, bæði það að hafa ekið beint upp að hliðinu þegar lögreglan upplýsti hann um að það væri von á aðstoð, neitun hans að hafa vitað um ástæðu veru lögreglumannanna á akrinum, það að hafa náð í starfsmenn sína inn í bifreið til sín auk þess að fá þriðja mann sér til fulltingis svo og ítrekaðar brottvísanir af akrinum, bendir til þess að honum hafi verið mjög á móti skapi að lögreglan væri inni á akrinum. Auk þess er mjög ólíklegt að varðstjórinn, A, hefði skilið lögreglubifreiðina eftir upp við hlið og gengið um 200 metra inn á akurinn ef hann hefði átt annan kost. Þá styður það framburð A að hliðið var lokað þegar starfsmenn ákærða ásamt honum sjálfum komu að því í kjölfarið en engin önnur umferð hafi þá verið um hliðið, og engin haldbær rök er að finna í gögnum málsins fyrir því að lögreglumaðurinn hefði ekki átt að aka á lögreglubifreið sinni, sem var jeppabifreið, inn á akurinn þar sem beðið var eftir honum. Þrátt fyrir neitun ákærða þykir lögfull sönnun fram færð, um að ákærði hafi, með því að strengja vír og leggja bifreið sinni fyrir hliðið inn á akurinn, tálmað lögreglumanninum A að gegna skyldustarfi sínu eins og í ákærulið I greinir. Hefur ákærði unnið sér til refsingar en brotið er réttilega fært til refsiákvæðis.
Ákærði er sakaður um að hafa ýtt við lögreglumanninum C, þar sem hann var við skyldustörf að reyna að hafa tal af ökumanni dráttarvélar, og þvingað hann upp að dráttarvélinni.
C bar svo í lögregluskýrslu að ákærði hefði þrýst sér upp að dráttarvélinni og sett öxlina í sig og skipað sér á brott og fyrir dómi bar C að ákærði hefði rekið síðuna í sig og skellt sér upp að dráttarvélinni og það fast. A sagði, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, að hann hefði séð ákærða rífa í C þar sem hann var við dráttarvélina. D lögreglumaður heyrði ákærða kalla á eftir sér þegar hann stökk að dráttarvélinni í þeim tilgangi að stöðva hana að hann mætti ekki skipta sér af ökumanninum, hann væri við vinnu. Að öllu þessu virtu og því að ákærði hafði ítrekað afskipti af aðgerðum lögreglu á staðnum verður að telja sannað að ákærði hefur gerst sekur um það brot eins og greinir í 2. lið ákærunnar.
Brot ákærða eru réttilega færð til refsiákvæða.
Ákærði hefur ekki áður sætt refsingu og þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 2 mánuði, sem rétt er að skilorðsbinda eins og greinir í dómsorði.
Með hliðsjón af framangreindum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Þormóðs Skorra Steingrímssonar héraðsdómslögmanns. Með hliðsjón af eðli og umfangi máls og að teknu tilliti til fjölda þinghalda þykja launin hæfilega ákveðin 306.086 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts og aksturs.
Dómsuppsaga hefur dregist lítillega vegna starfsanna dómarans.
Af hálfu ákæruvaldsins sótti málið Sigríður Friðjónsdóttir saksóknari.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Ákærði, X, sæti fangelsi í tvo mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, 306.086 krónur.