Hæstiréttur íslands

Mál nr. 229/2016

Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari)
gegn
Eggerti Kára Kristjánssyni (Björgvin Jónsson hrl.)

Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Þjófnaður
  • Umferðarlagabrot
  • Fíkniefnalagabrot
  • Svipting ökuréttar
  • Upptaka

Reifun

E var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því hafa slegið A með krepptum hnefa í andlitið þannig að A féll í gólfið með nánar tilgreindum afleiðingum. Þá var E einnig sakfelldur fyrir þjófnað samkvæmt 244. gr. lag nr. 19/1940 og fyrir umferðarlaga- og fíkniefnabrot. Við ákvörðunar refsingar var vísað til 1. mgr. 218. gr. c. um að hækka megi refsingu um helming hjá þeim sem dæmdur er sekur um brot á 217. eða 218. gr. laganna og hefur áður sætt refsingu samkvæmt þeim greinum eða verið refsað fyrir brot sem tengist að öðru leyti við vísvitandi ofbeldi. Var refsing E ákveðin fangelsi í tíu mánuði. Var E einnig sviptur ökurétti ævilangt, gert að sæta upptöku fíkniefna og til greiðslu miskabóta.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 1. mars 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð og einkaréttarkrafa lækkuð.

Samkvæmt 1. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varð 1. mgr. 218. gr. c. sömu laga með 4. gr. laga nr. 23/2016, má hækka allt að helmingi refsingu þess, sem dæmdur er sekur um brot á 217. eða 218. gr. laganna og áður hefur sætt refsingu samkvæmt þeim greinum eða verið refsað fyrir brot, sem tengist að öðru leyti við vísvitandi ofbeldi. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin eru með virðisaukaskatti, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 512.522 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. desember 2015.

I

                Mál þetta, sem dómtekið var 30. nóvember síðastliðinn, var höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 29. september síðastliðinn, á hendur Eggerti Kára Kristjánssyni, kt. [...], Austurbergi 36, Reykjavík, „fyrir líkamsárás með því að hafa föstudaginn 1. maí 2015, á heimili Eggerts Kára að Asparfelli 12 í Reykjavík, slegið A með krepptum hnefa í andlitið þannig að A féll í gólfið, með þeim afleiðingum að A hlaut höfuðkúpu og andlitsbeinabrot sem náði til kinnboga, hliðlægt og í gólfi augntóttar og hliðlægt í kinnkjálkavegg og mar á brjóstkassa.

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Af hálfu Gunnars Friðrikssonar hdl. fyrir hönd A kt. [...], er gerð krafa þess efnis að ákærða verði gert að greiða A miskabætur að fjárhæð kr. 750.000.-, bætur vegna útlagðs kostnaðar að fjárhæð kr. 40.000.- auk dráttarvaxta skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. maí 2015 til greiðsludags. Auk þess er krafist greiðslu kostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum reikningi auk virðisaukaskatts á málskostnað.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Þá var höfðað mál með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 29. september síðastliðinn, á hendur ákærða Eggerti Kára og X „fyrir eftirtalin brot framin í Reykjavík á árinu 2015 nema annað sé tekið fram:

I.

Gegn Eggerti Kára Kristjánssyni og X, fyrir þjófnað í félagi, laugardaginn 7. mars,  með því að hafa stolið hvítum langermabol að verðmæti kr. 2.500 og svartri Mohawk hettupeysu að verðmæti kr. 4.000 úr versluninni Outlet markaði, Ráðhústorgi 5, Akureyri.

Mál 316-2015-1324.

Telst brot þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II.

Gegn Eggerti Kára Kristjánssyni einum fyrir eftirtalin brot:

1. fyrir umferðarlagabrot í Garðabæ með því að hafa laugardaginn 4. apríl ekið bifreiðinni JN-[...] sviptur ökurétti og óhæfur til að aka henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna ( í blóði mældist amfetamín 115 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 2,1 ng/ml) um Reykjanesbraut uns aksturinn var stöðvaður skammt austan Kauptúns. 

Telst brot þetta varða við 1. mgr. og  2. mgr. 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987,  sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006 og 3. gr. laga nr. 24/2007.

2. fyrir fíkniefnalagabrot, í Reykjavík,  með því að hafa, föstudaginn 20. febrúar, að [...], haft í vörslum sínum 1,38 g af maríjúana og 0,32 g af tóbaksblönduðu kannabisefni sem lögregla fann við leit.

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, sbr. reglugerðir nr. 232/2001 og nr. 848/2002.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar, einnig að ákærði Eggert Kári Kristjánsson verði dæmdur til sviptingar ökuréttar skv. 101. gr. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006 og jafnframt að ofangreind fíkniefni, verði gerð upptæk skv. 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1074 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.“

Við þingfestingu málsins játaði ákærði Eggert Kári sök samkvæmt síðari ákærunni en ákærða X neitaði sök. Ákæruvaldið féll þá frá ákæru á hendur henni og krafðist verjandi hennar málsvarnarþóknunar úr ríkissjóði.

Ákærði neitar sök samkvæmt fyrri ákærunni og krefst sýknu. Hann krefst þess að bótakröfunni verði vísað frá dómi. Loks er þess krafist að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða.

II

Málavextir varðandi fyrri ákæruna eru þeir að lögreglan var kvödd að framangreindu heimili ákærða á þeim degi er í ákæru greinir. Þar lá brotaþoli meðvitundarlítill í anddyrinu. Hann var fluttur á slysadeild. Í lögregluskýrslu segir að á vettvangi hafi fengist þær upplýsingar að þrír menn hafi ráðist á brotaþola bak við verslun í nágrenninu og slegið hann með krepptum hnefum og kastað í vegg. Menn þessir hafi talað „pólsku“ eins og segir í skýrslunni.

Í vottorði slysadeildar segir að brotaþoli hafi komið fyrr þennan dag á deildina vegna áverka á nefi er hann hafi fengið eftir högg. Þá segir að við komu nú sé hann meðvitundarlítill og fengust ekki upplýsingar hjá honum um aðdragandann að komu hans. „Teknar eru tölvusneiðmyndir af höfði, andlitsbeinum, brjóstkassa og kvið sem sýna flókið brotamunstur í hægri andlitshelmingi sem nær til kinnboga, hliðlægt og í gólfi augntóttar og hliðlægt í kinnkjálkavegg.“ Brotaþoli var greindur með brot á höfuðkúpu og andlitsbeinum og mar á brjóstkassa.

Þegar lögreglan hóf rannsókn málsins bar vitni á framangreindan hátt um hvernig brotaþoli fékk áverkana. Það breytti síðar framburði sínum og kvað ákærða hafa veitt honum áverka. Önnur vitni báru á sama veg. Ákærði neitaði í upphafi sök en bar síðar að hafa veitt brotaþola eitt högg.

Málavextir varðandi síðari ákæruna verða ekki raktir heldur er vísað um þá til ákæru, sbr. 3. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008.

III

                Ákærði bar við aðalmeðferð að hann hefði slegið brotaþola en ekki kýlt hann með krepptum hnefa. Hann kvað brotaþola hafa borið það út að hann væri að sprauta sig. Á þeim tíma og stað sem í ákæru greinir hafi þeir verið að rífast um þetta en ákærði kvaðst hafa beðið brotaþola að koma heim til sín. Þegar brotaþoli kom hefði hann rokið á móti sér með hnefann á lofti. Þá kvaðst ákærði hafa slegið brotaþola með vinstri hendi. Hann kvaðst hafa kreppt fjóra fingur inn í lófann og þannig slegið brotaþola einu sinni en ekki kýlt hann. Lófinn hefði lent í andliti hans. Við höggið hefði brotaþoli fallið í vegg með bakið en staðið upp og hefðu þeir farið að ræða málin. Auk þeirra tveggja hefðu tvær stúlkur verið í íbúðinni. Brotaþoli hefði síðan sagt að hann þyrfti að fara á sjúkrahús en hann hefði stuttu áður verið laminn illa. Ákærði kvað áverkana á brotaþola ekki geta verið eftir sig. Hann hefði ekki kýlt hann í brjóstkassann og ekki í andlitið.

                Brotaþoli bar að hafa verið heima hjá ákærða umræddan dag. Ákærði hefði slegið hann og hefði höggið lent á kinnbeininu hægra megin. Brotaþoli kvaðst ekki muna vel eftir þessu og kvaðst meðal annars hafa talið ákærða hafa barið sig með hamri. Þá taldi hann ákærða líklegast hafa barið sig með opnum lófa en hann hefði þó ekki séð það. Hann hefði rotast í kjölfar höggsins og því ekki vita hvort það hefði verið þungt. Næst kvaðst hann muna eftir að hann hefði staðið upp og rætt við ákærða. Síðan hefði verið hringt á sjúkrabíl. Hann kvaðst hafa farið niður og misst meðvitund á leiðinni. Hann kvaðst einnig hafa misst meðvitund í sjúkrabílnum. Brotaþoli mundi ekki eftir að hafa lent í átökum fyrr þennan sama dag og hafa leitað á slysadeild vegna þess. Á þessum tíma kvaðst brotaþoli hafa verið undir áhrifum fíkniefna.

                Frænka ákærða, sem var í íbúð hans, bar að hafa hitt brotaþola og hefði hann verið barinn einhverjum dögum fyrir þetta. Þennan dag hefði ákærði slegið brotaþola í kinnina með flötum lófa en hún kvaðst ekki muna meira. Hún kvað þó brotaþola hafa veist að ákærða áður en hann sló hann.   

                Núverandi unnusta ákærða, sem var í íbúð hans, bar að brotaþoli hefði komið á heimilið og hefðu þeir ákærði farið að rífast. Ákærði hefði slegið brotaþola utan undir og hefði höggið lent í kinn hans. Brotaþoli hefði verið áfram í íbúðinni og allt virst vera í lagi. Hann hefði svo farið en komið aftur um kvöldið.                

                Stúlka, sem var með brotaþola þennan dag, bar að hún og piltur hefðu hitt brotaþola og hefðu þau farið saman heim til ákærða. Hún kvaðst hafa staðið í anddyri íbúðarinnar og heyrt öskur. Hún kvaðst hafa litið við og þá séð ákærða slá brotaþola eitt högg í andlitið með krepptum hnefa. Höggið hefði lent í vinstri kinn brotaþola að því er hún taldi. Þarna voru tvær stúlkur og hefðu þær haldið ákærða en brotaþoli hefði sest og verið vankaður. Skömmu síðar hefði brotaþoli dottið út af og þá hefði verið hringt á sjúkrabíl.

                Pilturinn, sem kom með brotaþola á heimili ákærða, kvaðst hafa séð ákærða kýla brotaþola eitt högg í andlitið. Hann kvað ákærða hafa kýlt brotaþola með krepptum hnefa og hefði höggið lent á kinnbeini brotaþola. Þetta hefði gerst í beinu framhaldi af því að þau komu inn í íbúðina. Eftir höggið hefði brotaþoli vankast og hefði þá verið hringt á sjúkrabíl. 

                Læknirinn, sem ritar framangreint vottorð, staðfesti það. Hann kvað brotaþola hafa getað fengið áverkana af einu þungu höggi en ekki af því að hafa verið sleginn utan undir með lófa. Brotaþoli hefði haft útbreidd brot í andliti og töluverða læknismeðferð hafi þurft vegna þeirra. Áverkarnir hafi hins vegar ekki verið lífshættulegir. Hann kvað höggið hafa lent yfir kinnbeininu. Það hefði brotnað og einnig hefðu verið brot í hlið og gólfi augntóttar. Læknirinn kvað áverka á nefi ekki hafa getað valdið þessum áverkum.  

                Lögreglumaður, sem ritar frumskýrslu málsins, staðfesti hana. Hann kvað brotaþola ekki hafa verið viðræðuhæfan. Ekki hefði verið rætt við ákærða enda hefði hann ekki verið grunaður á þeim tíma.

IV

                Ákærði neitar sök samkvæmt fyrri ákærunni en hefur þó viðurkennt að hafa slegið brotaþola eins og rakið var. Tvö vitni sem bæði eru tengd ákærða og voru á vettvangi bera að ákærði hafi slegið brotaþola en gera lítið úr högginu eins og að framan var rakið. Tvö önnur vitni bera hins vegar bæði að ákærði hafi slegið brotaþola í andlitið með krepptum hnefa. Þá er komið fram hjá þessum síðastgreindu vitnum og brotaþola að hann var fluttur á slysadeild í beinu framhaldi af því að ákærði sló hann. Hann var þá ýmist vankaður eða meðvitundarlaus. Á slysadeild kom í ljós að hann bar þá áverka er í ákæru greinir. Samkvæmt þessu er sannað, gegn neitun ákærða, að hann sló brotaþola eins og honum er gefið að sök í ákæru og með þeim afleiðingum sem þar greinir. Brot ákærða er rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni.

                Ákærði hefur játað sök samkvæmt síðari ákærunni og er játning hans í samræmi við gögn málsins. Hann verður því sakfelldur samkvæmt ákærunni og eru brot hans þar rétt færð til refsiákvæða.

                Ákærði var dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir nauðgun 2011. Þá var hann dæmdur í 12 mánaða fangelsi 2012 fyrir frelsissviptingu og rán. Hann var dæmdur í 6 mánaða fangelsi 2014 fyrir meiri háttar líkamsárás. Ákærða var veitt reynslulausn úr fangelsi í nóvember 2014 en með úrskurði 3. maí 2015 var honum gert að afplána eftirstöðvarnar. Þá hefur ákærði margoft verið sektaður og dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir margvísleg brot, síðast var hann sektaður fyrir fíkniefnalagabrot 11. júní 2015. Refsing ákærða nú verður ákveðin samkvæmt 77. gr. almennra hegningarlaga og auk þess höfð hliðsjón af 78. gr. sömu laga. Samkvæmt þessu og með hliðsjón af sakaferli ákærða verður refsing hans ákveðin 10 mánaða fangelsi.

                Ákærði var sviptur ökurétti ævilangt 30. nóvember 2011 og hefur ekki öðlast þau aftur að því er séð verður. Ævilöng ökuréttarsvipting verður því áréttuð.

                Loks verða fíkniefni gerð upptæk eins og krafist er og nánar greinir í dómsorði.

                Brotaþoli krefst miskabóta og bóta vegna útlagðs kostnaðar. Engin gögn fylgja til stuðnings kröfu um útlagðan kostnað og er þeirri kröfu vísað frá dómi. Miskabætur til brotaþola eru hæfilega ákveðnar 600.000 krónur með vöxtum eins og krafist er og nánar greinir í dómsorði. Það athugast að ekki verður séð að ákærða hafi verið birt bótakrafan fyrr en við þingfestingu og miðast upphaf dráttarvaxta við þann dag er liðnir voru 30 dagar frá þeim degi.

                Ákærði greiði sakarkostnað og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og í dómsorði segir. Málsvarnarþóknun verjanda ákærðu X, Jón Egilssonar hrl., að meðtöldum virðisaukaskatti skal greidd úr ríkissjóði.

                Arngrímur Ísberg héraðsdómari kveður upp dóminn.

D ó m s o r ð :

                Ákærði, Eggert Kári Kristjánsson, sæti fangelsi í 10 mánuði.

                Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.

                Upptæk skulu vera 1,38 g af maríjúana og 0,32 g af tóbaksblönduðu kannabisefni.

Ákærði greiði A 600.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 1. maí 2015 til 29. nóvember 2015, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags og 306.900 krónur í málskostnað.

                Ákærði greiði 293.217 krónur í sakarkostnað og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., 613.800 krónur.                 

                Málsvarnarþóknun Jóns Egilssonar hrl., 122.760 krónur, skal greidd úr ríkissjóði.